Sannleikurinn úr sófanum


Ferðin á Font

Nú þegar skuggarnir eru farnir að lengjast og daginn tekið að stytta fer ferðalögunum fækkandi. Síðast liðinn vetur fjárfesti ég í gömlum Cherokee sem átti að nota til 4X4 ferða þetta sumarið. Einn af þeim stöðum sem voru á dagskránni var Fontur á Langanesi, eða réttara sagt allt Langanesið því það er einu sinnu svo að það er ferðalagið sem sem skiptir máli en ekki áfangastaðurinn. Þess vegna förum við Matthildur allra okkar ferða án landakorts, hvað þá að GPS sé haft með í för, sólin er eina leiðsögutækið. Í gær var svo ferðin farin á Font með sólina í sigtinu allan tímann. 

IMG_0166

Þegar komið er að Langanesinu að austan blasir Gunnólfsvíkurfjall við

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég kemst í námunda við Langanesið þó svo að aldrei hafi verið farið á Font. Á árunum 1988-1993 var ég mánuðum saman við vinnu á Þórshöfn við Þistilfjörð, en Langanesið nær 50 km út í haf norðaustur af Þórshöfn. Þegar komið er að Langanesinu Bakkaflóa megin þá rifjaðist upp í kollinum að sumarið og haustið 1988 vorum við steypu-félagarnir við störf á Gunnólfsvíkurfjalli þar sem verið var að byggja ratsjárstöð fyrir NATO. Mér fannst við hæfi að bjóða Matthildi upp á Gunnólfsvíkurfjall á svona heiðskírum sólardegi því þá myndum við rata betur út Langanesið. En vegurinn upp á fjallið var lokaður með keðju og þó við værum á fjallabíl þá þorðum við ekki í gegnum keðju Landhelgisgæslunnar sem hefur í seinni tíð tekið upp á því að loka hlutum landsins fyrir íbúum þess með því að bera fyrir sig "valdstjórninni".

IMG_0173

Á Þórshöfn rifjaðist upp hvar lunganu úr sumrinu 1993 var varið 

Blessuð sólin sá um að lýsa okkur út allt Langanes þar sem sjórinn er blárri en blátt en á það til að sjást ekki fyrir rekavið sem þekur alla fjörukamba, þess á milli eru þverhnípt fuglabjörgin í sjó fram. Undirlendið á útnesinu er urð og grjót en þó eru grasbali í fjöru hér og þar sem hafa staðið bæir á árum áður, þekktastir eru Skoruvík og Skálar. Víða eru rústir gamalla torfbæja sem litlar sögur fara af, saga fólksins sem byggði þetta nes fer ekki hátt enda hefur það verið alþýðufólk. Það tók tímann að keyra þessa 50 km leið enda þurfti að stoppa og skoða margt. Í Skoruvíkur fjörunni var félagslyndur músarindill sem þurfti að spjalla við í góða stund og á Fonti var það Fálki sýndi ferðalöngum áhuga. 

IMG_0260

Fontur er ysti hluti Langaness þar er 50-70 m hátt bjarg á því stendur viti byggður árið 1950. Við Font hafa orðið skipskaðar síðast hausti 1907. Þá fórst þar norskt skip,sem var að koma frá Jan Mayen með 17 menn í áhöfn allir fórust nema einn. Í bjarginu stutt frá vitanum er rauf sem kölluð er Engelskagjá. Sagan segir að áhöfn af ensku skipi, sem strandaði endur fyrir löngu undir Fontinum, hafi komist í land og upp gjána. Á leiðinni til bæja varð áhöfnin úti, nema skipstjórinn einn sem komst lífs af. Stendur kross á miðju nesinu milli bæjanna Skoruvíkur og Skála, þar sem lík Englendinganna eru heygð.  

IMG_0282

Á krossinum stendur "Hér hvíla 11 enskir menn" 

Skálar eru stórmerkilegt eyðiþorp á austanverðu nesinu. Þar var vísir að kauptúni og töluvert útræði á fyrri hluta 20.aldar. Árið 1910 hófst útgerð fyrir alvöru með hafnarbótum, byggingu verbúða, frystihúss( eitt af fyrstu vélfrystihúsum landsins), saltverkunarhúss og bræðslu auk verslunarhúsa. Voru 117 manns heimilisfastir þar 1924 auk lausafólks. Leituðu menn þangað úr ýmsum landshlutum til sjóróðra og jafnvel frá Færeyjum. Munu 50-60 áraskip hafa róið þaðan er flest var.

Skálar

Á árum síðari heimstyrjaldarinnar ráku á land tundurdufl sem höfðu losnað úr tundurduflagirðingu bandamanna við Austfirði. Tvö dufl sprungu í fjörunni á Skálum veturinn 1941-42 og eyðilögðu tvö hús. Sumarið eftir fluttu síðustu fjölskyldurnar, veturinn 1943 var því engin búsettur á Skálum. Þá kom hópur bandarískra hermanna sem dvöldu þar til stríðsloka. Flestar minjar verstöðvarinnar á Skálum eru nú horfnar nema helst húsgrunnar og gamall grafreitur. Sunnan við Skála er Skálabjarg, fuglabjarg, rúmlega 130 m hátt.

IMG_0332

Ofan við fjöruna á Skálum eru björgunarskýli og kamar

Á skálum hittum við einn "lonely rider" á mótorhjóli, vinalegan íslending á sjötugs aldri, sem sagði okkur að hann hefði verið hjá gæslunni árið 1969 og hefði þá tekið þátt í að ferja girðingastaura klofna úr rekaviði úr fjörunni í Skoruvík. Þetta hefði verið mikið ævintýri því gúmmíbátnum sem notaður var til flutninganna út í varðskipið hefði hvolft og höfðu þeir þurft að synda í land áður en þeir hefðu getað haldið áfram að koma rekanum fyrir Skoruvíkurbóndann um borð í Þór. Það var sama sagan með þennan fyrrverandi sjóliða Landhelgisgæslunnar og okkur, hann hafði ekki treyst sér til að keyra í gegnum keðju valdstjórnarinnar við Gunnólfsvíkurfjall til að njóta útsýnisins yfir Langanes.

IMG_0261

Eins og ævinlega urðum við Matthildur dagþrota á Langanesi enda kannski ekki skrýtið þegar daginn er tekið að stytta. Það verður því að bíða betri tíma að keyra upp á Heiðarfjall þar sem Ameríski herinn hafði aðsetur um árabil, en þar má víst njóta góðs útsýnis yfir Langanes þó að ekki sé það jafn hástemmt og af Gunnólfsvíkurfjalli.

 

IMG_0324

 

IMG_0243

 

IMG_0237

 

IMG_0348

 

IMG_0191

 

IMG_0227

 

IMG_0169

 

IMG_0230

 

IMG_0258


Sannleikurinn um lygina


Hvað með Hróarstungu?

Hvort Hróar Tungugoði hafi átt víkingasverðið og lærbeinið sem gæsaskyttur fundu að Ytri Ásum er ekki gott að vita. En það eru til fleiri kenningar um hvar goðorð Hróars Tungugoða hafi verið og ef eitthvað er til í þeim þá fluttist Hróar alla leið austur á Fljótsdalshérað.

Í Lesbók Morgunnblaðsins 13. ágúst 1994 má lesa eftirfarandi grein eftir Sigurð Sigurmundsson; 

"Í Landnámu segir, að Uni son Garðars Svavarssonar, þess er fyrst fann Ísland, hafi farið þangað með ráði Haralds konungs hárfagra. "Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós og húsaði þar. Hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar. En er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast. Uni fór suður í Álftafjörð enn syðra, en náði þar eigi að staðfestast. Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi og tók hann við þeim." Uni þýddist Þórunni dóttur Leiðólfs og var hún með barni um vorið. Talið er samkvæmt örnefnum að Skógahverfi hafi verið í Vestur-Skaptafellssýslu. En lok málsgreinarinnar eru þessi: "Sonur Una og Þórunnar var Hróar Tungugoði. Hann tók arf Leiðólfs allan og var hið mesta afarmenni. Hann átti Arngunni dóttur Hámundar systur Gunnars á Hlíðarenda. Þeirra son var Hámundur hinn halti er var enn mesti vígamaður." Sagt er að til hafi verið sjálfstæð saga Hróars Tungugoða sem glötuð sé. Frá henni muni þessar frásagnir vera runnar og Sturla Þórðarson styðjist við hana í Landnámugerð sinni. Hann virðist ætla að Hróar og Arngunnur Hámundardóttir hafi búið í Skógahverfi syðra, en getur aðeins Hámundar halta sem vígamanns, nefnir ekki bústað hans.

Þá er næst, til samanburðar, að geta þess hvað Njála hefur til þessara mála að leggja. Fræðimenn telja fullvíst að Njála sé óháð Landnámu enda ættartölur hennar aðrar. Höfundurinn hefur þá heldur ekki þekkt hina glötuðu sögu Hróras Tungugoða og frásögn Landnámu af hrakningi Una suður í Skaptafellsþing og búsetu Hróars þar. Í 19. kapitula Njálu er Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda fyrst kynntur og ættfærður. Síðan kemur eftirfarandi málsgrein: "Arngunnur hét systir Gunnars; hana átti Hróar Tungugoði sonur Una eins óborna Garðarssonar; sá fann Ísland. Son Arngunnar var Hámundur halti er bjó á Hámundarstöðum."

Þá er að huga að því hvernig hugur Njáluhöfundar var að verki er hann samdi þessa málsgrein. Það er ekki að sjá að hann viti annað um Hróar en nafn hans og hjónaband þeirra Arngunnar og soninn Hámund halta, sem Njála telur búa á Hámundarstöðum. Að lokinni þessari málsgrein fer vart á milli mála hvar hugur Njáluhöfundar dvelur. Hann virðist þekkja bæjarnafnið Hámundarstaði svo vel, að hann gleymir að taka fram að þeir séu í Vopnafirði. Höfundur Fljótsdælu nefnir og Hróar Tungugoða sem búið hafi á Hofi í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði og hún dregið nafn af honum. Þar sem Njáluhöfundur hefur engar spurnir af öðrum Hróari má nærri víst telja að hann álíti að Arngunnur Hámundardóttir hafi verið gift honum og þau búið á Hofi í Hróarstungu. Höfundur Fljótsdælu segir Hróar barnlausan, en þar ber þeim ekki saman þar sem hinn (Njáluhöfundur) segir Hámund halta á Hámundarstöðum son þeirra. En tveir synir hans koma síðar fram í Njálu í liði Flosa eftir Njálsbrennu, Hróar Hámundarson og Vébrandur, en ekkert segir af heimkynnum þeirra. Þeir gátu verið norðan úr Vopnafirði. Komið hefur fram sú skoðun, að þessi Hróar Tungugoði hafi aldrei verið til, bær hans Hof, ekki fundist, en þjóni vissu hlutverki í Fljótsdælasögu sem skáldverki. En Njáluhöfundur má hafa vitað betur. Gagnmerkur fræðimaður, Halldór heitinn Pétursson, upprunninn úr Hróarstungu, lét sér ekki lynda að þessi Hróar hafi aldrei verið til, en setur fram þá skoðun sem hér fer á eftir: "Hér bendir ekkert til þess að Hróar hafi komið sunnan úr Skaptártungu. Hitt sýnist mér liggja beint fyrir að hér hafi kunnugur maður um vélt, því að dagleið er frá Hofi í Krossavík. Það hefur alltaf verið vefengt að Hof í Hróarstungu hafi verið til, en þar er ég á öðru máli. Skulum við nú snúa okkur að hinum týnda stað og freista þess að leita Hofs í Hróarstungu. Það skal fyrst hafa í huga, að yfirleitt voru ekki Hofsnöfnin lögð niður með kristni, en slíkt gat átt sér forsendur ef Hofsbær var færður úr stað. Milli Gunnhildargerðis og Kirkjubæjar í Hróarstungu heitir Fornistaður og stendur á samnefndum ás. Þarna eru geysimiklar rústir sem aldrei hafa verið rannsakaðar. Fleirum en mér mun finnast nafnið "Fornistaður", búa yfir einhverju ósögðu, hér hljóti að búa einhver saga á bakvið."

Halldór Pétursson var sannfærður um að Austfirðingur hafi skrifað Njálu. Hann gerði merkar staðfræðilegar athuganir þeirri skoðun til styrktar. Niðurstöður þeirra athugana, sem hér hafa verið fram bornar, verða því sem hér segir: Njáluhöfundur sem best þekkti til á Austurlandi (að líkindum upprunninn frá Valþjófsstað) virðist telja að Arngunnur Hámundardóttir hafi gifst Hróari Tungugoða á Fljótsdalshéraði og Hámundur halti búið á Hámundarstöðum sem áður getur. Virðist ekkert mæla á móti því að svo hafi verið."

Greinina má lesa í heild sinni hér.


mbl.is Átti Hróar Tungugoði sverðið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband