Þotuslóðir

Hvort sem efnaslóðar eru úr lausu lofti gripnir eða ei, þá eru þotuslóðir það ekki, þær getur hver maður séð dag og dag sem lítur til himins í heiðskíru. Svo má velta því fyrir sér hvað fer fram fyrir ofan skýin þá daga sem þau þekja himinhvolfið. 

IMG 5025

Þotuslóðir yfir Egilsstöðum 2. júní s.l.

Höfundur þessarar síðu hefur haft skýjaskoðun að áhugamáli frá því hann fyrst man, og gert þotuslóðum áður skil hér á síðunni og má sjá hér. Þá var bent á að ákveðinn vísinda verkfræði væri í gangi á himninum svo kölluð geoenginrering.

Það sem kalla má þotuslóðir er sagt af tvennum toga, þ.e. cemtrail (efnaslóðir) eða contrail (slóði farþegaþotna). Þotuslóðir hér í denn entust nokkrar þotulengdir fyrir aftan þotuna síðan varð himininn aftur jafn blár og áður, það er þær sem kallaðar eru á ensku contrail. Nú á dögum krota þoturnar himininn þvers og kruss líkt og herþotur voru látnar gera á hersýningum hér áður fyrr með hjálp efnaformúla, svo lái hver sem vill samsæriskenningasmiðunum.

Nú ber svo við æ oftar að slóð þotnanna þvera himininn og skilja eftir sig skýjaslóða svo jafnvel getur dregið fyrir sólu ef nógu margar þotur eru á ferðinni. Þetta gerist samt ekki alla daga þrátt fyrir látlaus ferðalög túrista um himininn, þess vegna eru kenningar uppi um að ekki sé allt með felldu.

Þeir "sem sjá samsæri í hverju horni" telja þennan dagamun sem er á sýnileika þotuslóðanna vera vegna efnaslóða sem stafi af fikti vísindamann og heryfirvalda sem fram fari suma daga, eins geti ákveðnar aðstæður s.s hitastig loftsins sem flogið er í gegnum valdið slóðinn. Samt sem áður er þetta mun algengara fyrirbæri en var fyrir fáum áratugum síðan.

Fróður maður um flug sagði mér að sá munur sem væri á því hve slóði þotna væri sýnilegri nú en í okkar ungdæmi stafaði af því að mikið að lofti væri tekið í gegnum þotuhreyfilinn sem skilaði sér sem heit gufa á eftir, en áður fyrr hafi einungis hitinn vegna brennslu eldsneytis farið í gegnum hreyfilinn. þetta gerði það að verkum að mikið meira skýjafar væri á eftir þotum dagsins í dag.

Hvort sem þetta eru efnaslóðir eða gufustrókar sem stafa af nýrri gerð þotuhreyfla þá er þögnin í kringum þetta fyrirbæri undarleg. Flestir gleðjast yfir sólskinsstundunum þess vegna ætti fyrir löngu að vera farið að heyrast hljóð úr horni vegna þessara skýjaslóða af mannavöldum sem strika himininn.

Á meðan að þeir sem hafa orð á fyrirbærinu eru afgreiddir af "færustu vísindamönnum" og "upplýsandi fjölmiðlum" sem fólk "sem sjái samsæri í hverju horni" er ekki nema von að þeir sem hafa velt málinu fyrir sér láti lítið fyrir sér fara. Fjölmiðlamönnum sem vilja upplýsa málið væri nær að kynna sér það og upplýsa fyrir almenningi hvað er á ferðinni, frekar en að láta það eitt nægja að birta opinberar fréttatilkynningar af internetinu.

Við skulum átta okkur á því að svo kölluð "vísindi" eru því sem næst trúarbrögð okkar daga, og svokallaðir sérfræðingar þeirra "æðstuprestar". Því ætti hver og einn að líta upp af skjánum til himins og velta því fyrir sér hvað þar er á ferðinni. Það gæti verið að þá yrði ályktunin á því önnur en sjá má á skjánum sem niðurstöðu færustu vísindamanna.

 

IMG 6334

Þotuslóðir á Egilsstöðum, eftir að þær eru farnar að leysast upp

 

IMG 5523

 

Þotuslóð sem flogið er í aðra þotuslóð sem farin er að breiða úr sér

 

IMG 5524

 

Tærleiki himinsins eftir yfirflug þotna


mbl.is Efnaslóðar úr lausu lofti gripnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóridómur, Jóns og séra Jóns

Undanfarið hafa birst færslur hér á síðunni af dauðadómum yfir alþýðufólki fyrr á öldum austanlands. Í mars s.l. var síðustu aftökunnar á Austurlandi gerð skil og aðdraganda hennar. Í síðasta bloggi birti ég frásögn Magnúsar Helgasonar af Kjólsvíkurmálum, þar sem tvær manneskjur voru teknar af lífi og tvær hýddar samkvæmt laganna boði. Nú ætla ég að leggja út frá nokkrum málum sem fóru illa með fólk, þar sem dauðdómar voru upp kveðnir án þess að verða fullnægt.

Ástæðan fyrir því að þessi mál hafa leitað á hugann eru m.a. að um sumt af þessu má lesa í þjóðsögunum, og þessar þjóðsögur er hægt að sannreyna vegna þess að um þessi mál hafa varðveist dómskjöl sem seinni tíma menn hafa rannsakað og ritað um. Þjóðsögur voru eitt af mínu huppáhalds lesefni sem barn, þessu tóku þeir eftir sem mig ólu og í gegnum tíðina hefur safnast á mig bækur sem hafa þjóðsögur að geyma ásamt efni tengdu Austurlandi. Lengi framan af gaf ég mér ekki tíma til að lesa þetta efni, en hafði það alltaf á bak við eyrað að gera það þegar tími gæfist. Síðasta eitt og hálfa árið hef ég haft tíma en þá kemur í ljós að þjóðsögur eru ekki ýktar bábiljur heldur fara nær sannleikanum en opinbera þjóðarsagan.

 

SESSELJA HAMRA-SETTA

Fyrir stuttu rakst ég á söguna haf Hamra-Settu sem hefur óbeint að geyma fyrstu heimildir um Egilsstaði en það er eins og að sá staður hafi ekki verið á yfirborði jarðar fyrr en á 16. öld, svo merkilegt sem það nú er af stað sem hefur talist á krossgötum í þjóðbraut allar götur síðan. Algengasta útgáfa þjóðsögunnar af Hamra-Settu segir reyndar ekki frá neinu á Egilsstöðum, heldur af útilegukvendi á Borgarfirði eystra. En þegar nöfn þjóðsögunnar eru borin við tiltækar opinbera heimildir má finna sömu nöfn og þjóðsagan hefur að geyma í dómskjölum vegna morðs sem Sesselja Loftsdóttir var dæmd sek um á Egilsstöðum á 16. öld í málaferlum á árunum 1541-1543 skömmu fyrir siðaskiptin 1550.

Sesselja var fundin sek um að hafa myrt mann sinn Steingrím Böðvarsson sem lést árið 1540. Upphaflega var ekkert talið athugavert við andlát Steingríms, hálfu ári eftir útför hans var lík hans grafið upp í Vallneskirkjugarði til rannsóknar vegna orðróms sem var uppi um að Sesselja hefði banað honum í félagi við vinnumann sinn, Bjarna Skeggjason, en þau voru þrjú í heimili. Sesselja eignaðist barn með þessum vinnumanni sínum og það sem meira var að vinnumaðurinn hafði áður átt barn með dóttir Sesselju. Þeir sem rannsökuðu lík Steingríms skjalfestu að ekkert finnist á líkinu sem benti til manndráps en einhverra hluta vegna breyttu þeir síða framburði sínum fyrir rétti.

Eftir dauða Steingríms, en áður en á Sesselja var sökuð um morðið, þá hafði hún selt jörðina Egilsstaði nágranna sínum, Birni bónda á Eyvindará og eru þeir kaupsamningar til, en í þeim kom fram að þau höfðu gert með sér skipti á Egilsstöðum og Hólalandi í Borgarfirði eystra ásamt því sem Björn átti að greiða milligjöf í reiðufé. Sá fyrirvari var samt á þessum kaupsamning, af Björns hálfu, að ekki mættu vera meinbugir á eignarhaldi Sesselju og gengu kaupin ekki að fullu í gegn fyrr en það væri komið í ljós. Fyrirvarinn hefur sennilegast komið til vegna erfðaréttar dóttir Sesselju til Egilsstaða, sem síðar kom í ljós að hún hafði framselt til Skálholtskirkju.

Eftir að þeir sem rannsökuðu lík Steingríms breyttu vitnisburði sínum var Sesselja dæmd til dauða fyrir morð, en vinnumaðurinn ekki, Egilsstaðir voru gerðir upptækir af ríkinu þ.e.a.s. til danska kóngsins. Þetta varð ekki til að minka málaferlin og því er til margra ára heilleg saga af þessu tímabili í málskjölum. Eigendur Egilsstaða voru nefnilega orðnir þrír, Björn bóndi á Eyvindará sem hafði keypt þá alla með fyrirvara, Skálholtsbiskupstóll sem taldist eiga þá á móti ríkinu eftir að þeir höfðu verið dæmdir af Sesselju vegna morðs.

Í dómi Sesselju var athyglisverð ákvæði um það að ef hún gæti fengið 12 málsmetandi menn til að sverja fyrir sakleysi sitt þá slippi hún við dauða, þar að auki var ákvæði til vara um að hún gæti innan tiltekins tíma leitað sér griða í dómkirkjum landsins annaðhvort í Skálholti eða á Hólum, sem hún gerði að Hólum. Þetta bendir til að dómarar hafi ekki haft hreina samvisku varðandi dauðadóminn. Til eru málskjöl þar sem hún leitar á náðir Skálholtsbiskups, ári eftir að hún nær griðum á Hólum, þegar biskup er í erindrekstri á Héraði m.a. vegna Egilsstaða mála, þar fer hún fram á syndaaflausn vegna hórdómsbrotsins með vinnumanni sínum.

Þar sem málskjölum líkur, þar líkur einnig opinberri sögu Sesselju Loftsdóttur á Egilsstöðum, og ekki er vitað til þess að hún hafi sest að á Hólalandi í Borgarfirði eystra og þjóðsagan minnist ekki á þann stað. Enda er ekki útilokað að þar sé á ferð allt önnur saga sem byggi á svipuðum nöfnum, eða þau hafi brenglast að einhverju leiti í meðförum þjóðsagnaritara.

 

NÝR SIÐUR

Siðaskiptin urðu á Íslandi um miðja 16. öld. Þau eru talin vera að fullu framkvæmd með aftöku Jóns Arasonar biskups á Hólum árið 1550, en hann var hálshöggvinn um haustið það ár ásamt sonum sínum í Skálholti. Siðbreytingin hófst samt töluvert fyrir aftöku Jóns Arasonar, því árið 1539 valdi Ögmundur Pálsson biskup í Skálholti Gissur Einarsson sem sinn eftirmann og var hann vígður biskup að Ögmundi lifandi. Gamli biskupinn sá brátt eftir vali sínu, þegar skoðanir Gissurar komu í ljós. Vorið 1541 komu danskir hermenn til Íslands og handtóku Ögmund gamla biskup, ætluðu að flytja hann út til Danmerkur en hann lést á leiðinni. Gissur Einarsson hafði þá frjálsar hendur við að koma hinum nýja sið á hvað Skálholt varðaði, en varð þó lítið ágengt við siðbreytinguna á meðan Hólabiskupsdæmi var enn rammkaþólskt.

Það var því ekki fyrr en Jón biskup Arason hafði verið líflátinn sem hægt var að hefjast handa að fullum krafti við siðbreytinguna. Með henni fluttust eigur kirkjunnar að miklu leiti í hendur Danakonungs þ.e. ríkisins. Við það jukust ítök Dana til muna hér á landi, ekki síst í verslunarmálum, þar sem þeir komu m.a. á hinni illræmdu einokunarverslun 1602. Margt annað breyttist við siðaskiptin, m.a. varð öll löggjöf strangari og árið 1564 gekk í gildi svonefndur stóridómur, sem var grimm löggjöf í siðferðismálum. Þá má segja að kerfi sýslumanna og lögsagnara ríkisins hafi verið komið á til að framfylgja löggjöf sem kenndi sig við siðbót í samvinnu ríkis og kirkju. Sýslumannsembætti voru eftirsótt enda gátu sýslumenn ráðið tekjum sýnum eftir því hversu dugandi þeir voru í að framfylgja lögunum.

Það er í umróti siðaskiptanna sem Sesselja á Egilsstöðum er sökuð um morðið á Steingrími manni sínum og um hórdómsbrot með vinnumanni sínum. Athyglisvert er að hún verður sér út um grið vegna dauðadóms sínum í Hólakirkju sem þá var enn í biskupsdæmi Jóns Arasonar. Þegar hún leitar syndaaflausnar heima á Héraði árið 1544 þá er það hjá siðbótarbiskupnum Gissuri Einarssyni sem hélt Skálholt, enda fékk hún ekki aflausn. Það má ætla að örlög Sesselju hefðu orðið enn grimmari ef siðaskiptin hefðu verið gengin í gegn þegar málaferlin á hendur henni stóðu.

Það hefur um langan tíma verið, - og er enn siður þeirra sem lögin setja að fegra tilgang þeirra. Við siðaskiptin voru þessi lög kennd við siðbótarmenn. Stóridómur sem kom til skömmu eftir siðaskiptin og lögfestur var á alþingi árið 1564 var ekki kominn til sögunnar þegar málaferlin á Egilsstöðum áttu sér stað. Við siðaskiptin á Íslandi kom ríkið inn af fullum þunga í dómsmálum þjóðarinnar, og var það kölluð siðbót.

Siðbót eru einhver örgustu öfugmæli í lagalegu tilliti, sé litið til þess tímabils sem á eftir fór. Því í annan tíma hefur ekki öðrum eins fjölda almúgafólks verið slátrað í nafni laga á Ísland, yfirstéttinni til ágóða. Í nafni stóradóms var konum drekkt, karlmenn hálshöggnir, þjófar hengdir og þeir brenndir sem vissu meira, sakaðir um galdur. Galdrafárið gekk í garð á Íslandi með siðbótinni, þó það hafi verið árhundruðum fyrr sem það fár tröllreið Evrópu. Það var svo að segja útilokað fyrir almúgafólk að verjast ásökunum sem runnar voru undan rifjum siðbótar.

 

DAUÐADÆMDUR DÆMIR TIL DAUÐA  

Til voru menn sem höfðu uppi burði við að verja sig gegn stóradóms valdinu. Einn af þeim var Jón Jónsson á Litla Steinsvaði í Hróarstungu sem var það vel lesin að hann gat frætt sýslumann og meðdómendur hans á hvaða siðferðislögmálum Biblíunnar stóridómur hvíldi. Hann var samt sem áður dæmdur til dauða ásamt Kristínu Rustikusdóttur á grundvelli laga stóradóms árið 1791.

Kristín var 37 ára ekkja og Jón hafði þá nýlega misst eiginkonu sína. Jón hafði ráðið Kristínu sem vinnukonu á heimilið á Litla-Steinsvaði. Höfðu þau hugsað sér að giftast, en þar sem Kristín hafði áður eignast barn utan hjónabands með Magnúsi bróður Jóns, þá var þeim bent á að meinbugir gætu verið á hjónabandsáformum þeirra og vissara væri fyrir þau að sækja um leyfi til konungs. Áður en svar barst við málaleitan þeirra varð Kristín ólétt og eignuðust þau barn.

Ákæran á hendur Jóni Jónsyni og Kristínu Rustikusdóttur byggði á að stóridómur gerði ráð fyrir því að dauðarefsing væri við því að maður eignaðist barn með bróður síns konu. Þessi lagarök munu hafa verið sótt 3. Mósebók þar sem taldar eru upp þær konur sem karlmönnum er óleyfilegt að leggjast með, og höfðu sennilega þess vegna lent inn á dauðalista dómsins.

Málsvörn Jóns byggði á því að ekki væri um brot á Móseslögum ræða þar sem Kristín væri ekki kona bróður hans heldur frilla þeirra bræðra beggja sem þeir báðir hefðu eignast með barn. En Magnús var á þessum tíma, kvæntur annarri konu og bjó á Seyðisfirði, hann og Kristín höfðu aldrei gifst. Jón benti m.a. á 5. Mósebók 25:5 Þegar bræður búa saman og annar þeirra deyr án þess að hafa eignast son skal ekkja hins látna ekki giftast neinum utan fjölskyldunnar heldur skal mágur hennar ganga inn til hennar, taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana. Lög stóradóms sem byggði á tilmælum Mósebókar ættu hvergi við í þeirra tilfelli, því andi Móses laga væri allt annar. Þarna væri því um barnseignarbrot að ræða, og í mesta lagi tvöfalt hórdómsbrot, sem mætti sekta fyrir en væri ekki dauðasök.

En vörn Jóns Jónssonar breytti því ekki að bæði voru þau Kristín dæmd til dauða og bú þeirra tekið til skipta. En eitthvað hefur þvælst fyrir sýslumanni að fá dóminn fullnustan og varð hann að taka Kristínu á sitt heimili til að halda henni til fanga, ekki er vitað hvar Jón dvaldi þar til dómnum skyldi framfylgt. Að 6 árum liðnum berst síðan svar við fyrirspurn þeirra til kóngsins, um það hvort meinbugir séu á giftingaráformum þeirra, svarið var að þeir væru engir.

Þegar svo er komið er dauðadómurinn úr gildi fallin en eftir stendur eignalaust fólk sem hafði þar að auki ekki nokkurn arð af vinnu sinni í 6 ár. Þau Kristín og Jón giftust og byrjuðu búskap Þorbrandsstöðum í Vopnafirði sem var jörð í eigu sýlsmannsættarinnar. Það má því segja að mál Jóns og Kristínar hafi verið leyst með nútímalegum hætti sé litið til þess hvernig almúgans ólöglega eignaupptaka dagsins í dag er leyst eftir að fólk hefur verið borið út af heimilum sínum í krafti ólöglegra okurlána. Því nú er í boði okurleiga í öðrum eignum sem sölsaðar hafa verið undir fjármálavaldið á svipaðan hátt. Allt í nafni fjármálastöðugleika, laga og réttar.

Það merkilega við Jón Jónsson er að hann er síðar á ævinni dómkvaddur til að dæma yfir manni sem hafði eignast sitt 4. „ólöglega getna hórbarn“ og tekur þar þátt í því með sýslumanni að dæma manninn til dauða. Sá dauðadæmdi fær vinaraðstoð valdamanns við að skjóta máli sínu til æðra dómstigs og er þar dæmdur sýkn saka. Þannig má enn og aftur má sjá líkindi að fornu og nýju hvað afstöðu Jóns Jónssonar varða, almúgamaðurinn er sannfærður um að lög skuli virða.

 

UMRENNINGUR GERÐUR AÐ FÉÞÚFU 

Um Mjófirðinginn Hermann í Firði eru til margar þjóðsögur og þótti hann bæði göldróttur og viðsjárverður. Í Múlaþingi 32 – 2005 hefur Vilhjálmur Hjámarsson tekið saman ítarlegt efni af málskjölum sem til er um réttarhöld sem fram fóru í Firði árið 1813. En þar segir frá örlögum Eiríks Ólafssonar tvítugs manns sem verið hafði hjá héraðshöfðingjanum Hermanni í Firði, sennilega sem niðursetningur. Hermann kærði hann fyrir að stela frá sér mat og kom honum fyrir sýslumann sem dæmdi Eirík til hýðingar og fjársektar sem ekki var um að ræða að gæti hann greitt.

Þetta leiddi til þess að Eiríki er komið í geymslu hjá Sveini bónda og hreppstjóra á Krossi í Mjóafirði til gæslu á meðan fjársektin er ógreidd. Þó svo Sveinn hreppstjóri þyrfti að fæða Eirík þá fékk hann ekkert tillegg til þess frá ríkinu þ.e. sýslumanni, enda þeir gerðir að hreppstjórum sem voru þokkalega efnaðir og það voru hjónin á Krossi. En ekki mátti hreppstjórinn notast við Eirík til vinnu. Sveinn kemur Eiríki fyrir i ókleyfum hamravogi niður við sjó svo hann sleppi ekki úr haldinu og hyggst fóðra hann þar, þetta gerir hann samkvæmt ráðum sýslumanns.

Eiríkur sleppur úr haldinu og leggst í flakk upp á Hérað þar sem hann verður að stela sér til matar, næst svo þar og er skilað til Sveins á Krossi sem hefur hann þá heima við, en þaðan sleppur hann stuttu seinna og leggst þá í flakk í Norðfirði þar dæmir sýslumaður hann til enn frekari fjársekta og þrælkunarvinnu "í hinu íslenska fangelsi" og til greiðslu málskostnaðar. Síðan er Eiríkur aftur sendur til Sveins bónda og hreppstjóra á Krossi til varðveislu uns hægt verði að fullnægja þrælkunnar dómnum "í hinu íslenska fangelsi".

Þann veturinn tekur Sveinn upp á því að láta Eirík vinna með heimilisfólki á Krossi m.a. við sjóróðra og virðist það hafa orðið til þess að Eiríkur er til friðs, enda má ætla að í staðinn hafi hann fengið fæði og húsnæði á við annað heimilisfólk. En þegar Krossverjar eru að taka upp bátinn eftir einn sjóróðurinn dettur Eiríkur niður bráðkvaddur, þann dag hittir svo á að Sveinn er í kaupstaðarverð á Eskifirði. Sveinn fer svo með lík Ólafs í bát, ásamt fleirum inn Mjóafjörð, á næsta sunnudegi og hyggst hitta prestinn í Firði. Þann sunnudag messar prestur ekki svo þeir hittast ekki, þá fer Sveinn þess á leit við Hermann "höfðingja" í Firði að fá lánaðar skóflur svo mætti jarðsetja lík Eiríks. En hann er í upphafi þessarar atburðarásar á framfæri Hermanns, sem þá sinjar Sveini um alla aðstoð.

Veðurútlit hafði verið slæmt þennan sunnudag, Sveinn og Krossverjar fara síðan róandi út Mjóafjörð eftir að komið er afleitt veður. En ná þó landi á Krossi með erfiðismunum án líks Eiríks sem hvarf frá borði. Upp úr þessu hefjast mikil réttarhöld sem fram fara í Firði sem enda með því að aleigan er því sem næst dæmd af Sveini bónda á Krossi, sem var þá fjarstaddur vegna heilsubrests, mikið af fjármunum Sveins fara í málkostnað sem sýslumaður og rekendur málsins skiptu á milli sín. Forsendur dómsins voru m.a. þær að varsla Sveins á Eiríki hafi verið svo slök að hann slapp margsinnis úr haldinu auk þess sem hann hafði að endingu brúkað hann til vinnu á Krossi og tínt að lokum líkinu.

Erfitt er að færa svona málatilbúnað til nútímalegs réttarfars, en þó má greina líkindi með máltilbúnaði þessa máls í Firði og lagaumhverfis vegna ólöglegra innflytjenda dagsins í dag, þar sem regluverkið býður upp á að lögfróðir menn einir geti farið með umboð flóttamann á kostnað skattgreiðenda í boði ríkisins. En í dag eru þó breiðu bökin fleiri, en hreppstjórans í Mjóafirði í denn, til að standa undir málskostnaðinum.

 

AUMUR LÝÐUR

Það mætti ætla að alþýða landsins hafi verið svo varnarlaus og aum að valdsmenn hafi vaðið yfir fólk að vild sinni með lögin ein að vopni. En í þjóðsögunum má líka finna frásagnir af því hvernig alþýðu fólk lét valdsmenn finna fyrir því á þann hátt að aumt hefði þótt til afspurnar.

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar segir frá Bjarna Einarssyni sem bjó á 18. öld á Bárðarstöðum í Loðmundarfirði, Austal í Seyðisfirði og á Krossi í Mjóafirði og jafnvel víðar. Í þjóðsögunni er Bjarni sagður eiga Snjólaugu systir Hermanns í Firði, en í Ættum Austfirðinga er kona Bjarna talin Guðný dóttir Péturs Nikulássonar á Breiðavaði og Snjófríðar systur Hermanns í Firði. Hann var talinn göldróttur sjónhverfingamaður og greina sagnir Sigfúsar aðallega frá því hvernig hann náði að leyna suðaþjófnaði hvað eftir annað og m.a. með því að fá þá sem hann stal sauðunum frá til geyma þá fyrir sig.

Sigfús segir svo frá viðskiptum Bjarna við Jón Arnórsson sýslumann á Egilsstöðum, sem sennilega hefur þá verið það sem kallað var lögsagnari, svona nokkurskonar sýslufulltrúi dagsins í dag.

Það var á fyrri árum Bjarna í Austdal að sagnir segja það að Jón sýslumaður Arnórsson hafi dæmd frændkonu Bjarna til hýðingar fyrir ólöglegan barnsgetnað. Hún var í Mjóafirði og þótti mörgum of harður dómurinn. Bjarni bauð að gjalda fé fyrir hana en við það var alls eigi komandi og kom sá orðrómur í ljós að óþarflega harður þætti dómurinn.

En hvað sem í því var satt lét sýslumaður fullnægja dómnum og var stúlkan hýdd vægðarlaust. Þetta sveið Bjarna mjög. Svo segja menn að þegar sýslumaður reið upp yfir frá hýðingunni með fylgjara sínum þá sat Bjarni fyrir honum. Bjarni gerði fylgdarsvein sýslumannsins aðvaran um það að heillavænlegast væri fyrir hann að fara leið sína. Trúði hann að svo mundi vera og hélt áfram nokkurn spöl og beið þar. En Bjarni greip annarri hendi fyrir brjóstið á sýslumanni og spyr um málsúrslit.

Hann sagði sem var og heimtar að Bjarni sleppi sér. "Nei," sagði Bjarni, "en hafið þér nú gert rétt í þessu gagnvart mannúðarskyldu yðar." "Lögin heimila það," segir sýslumaður, "eða hvað viltu, kotungurinn, kenna mér réttarganginn?" „Eigi vil ég það en rétt minn og minna vil ég hafa af yður sem öðrum," segir Bjarni, "og eigi óþarfa harðbrýstni. Menn batna ekki við hana." "Ég dæmi rétt lát mig lausan," segir sýslumaður og ætlar að slíta sig frá honum, en það tjáði eigi. "Ekki nenni ég að sleppa yður svo að ég geri yður eigi áður áminningu," segir Bjarni, "og mun ég nú dæma yður á líkan hátt og þér dæmduð lítilmagnann. Skuluð þér nú reyna hversu sú hýðing er mjúk. Þér eruð ekki saklausari en stúlkan."

Eftir þetta kippti hann sýslumanni af baki og hætti eigi fyrri en hann hafði hirt hann á sama hátt og hann hafði látið hirta frændkonu Bjarna áður. Skildu þeir svo og er sagt svo að sýslumaður rétti þar aldrei hlut sinn. (Þjóðs. Sigfúsar Sigfússonar V bindi bls. 328-329)

 

ÚTLAGAR FÓSTURJARÐARINNAR 

Þegar líða tók á lögbundna siðbótina má segja að reiði Guðs hafi farið láta á sér kræla á landinu bláa. Náttúruhamfarir bættust við ógnarstjórn og einokun, sem komið hafði verið á í landinu af þeim sem með völdin sýsluðu. Smám saman komst örbyrgð almúgans á það stig að ekki var eftir miklu að slægjast fyrir slektið.

Á 19. öldinni streymdi margt almúgafólkið vestur um haf í leit að bættum lífskjörum. Það er athyglivert að þegar þrengir að á Íslandi er það dugandi alþýðufólk sem hverfur úr landi og getur sér góðs orðs í nýjum heimkynnum, þó svo að ætla mætti að þeir sem með valdið fara þegar í óefni er komið ættu fyrstir að fljóta frá borði, en svo hefur það aldrei verið á landinu bláa.

Á öldunum 18. 19. og 20 var það rétt eins og á þeirri 21.,prelátar stjórnkerfisins sátu eftir heima, sýslumenn, lögspekingar, prestar og bankamenn. Þá, eins og nú í hinu "svokallaða hruni", var ekki nokkur  þörf meðal annarra þjóða eftir atgervi þessara gæðinga. Þeir sátu eftir við að enduræsa óskapnaðinn með nýrri ímynd, og ákváðu að nú skyldi ekki nota ímynd siðbótar eða hvað annað það sem áður hafði verið upphugsað, nú skyldi það heita hagvöxtur og fjármálastöðugleiki.

Æviráðnir stjórnmálamenn sem sem sumir hverjir töldu fólki trú um að þeir væru að fórna sér við flórmokstur í nafni velferðar, jusu líkt og skítadreifarar skuldaklyfjum slektisins yfir heimili landsins sem kostaði marga barnafjölskylduna útburð og útlegð frá ættlandinu. Allt gert í nafni fjármálastöðugleika og hagvaxtar. Svo verða sömu launþegar ríkisins hissa á að val almúgans skuli ekki vera um það að halda afrekum þeirra á lofti, eftir að hafa endurreist gamla ógeðið einu sinni enn, með öllum sínum stóradóms-siðbætta hagvaxtar þvættingi. 

Fólkið sem fór vestur um haf á öldinni 19. hefur getið sér gott orð þó svo að ferilskráin hafi verið rýr frá embættismannakerfi ættlandsins. Afkomendur þess fólks minnast gamla landsins með stolti og þar má sjá að afkomendur fyrirverða sig ekki fyrir að vera komnir út af almúga fólki sem dæmt var af slektinu heima á gamla Íslandi.

Hér má sjá eftirmæli eins afkomenda Kristínar Rustikusdóttir, þeirrar sem dæmd var til dauða og gerð eignalaus á meðan beðið var eftir svari konungs, fyrir það að verða ófrísk vinnukona á barnaheimili ekkjumanns sem hún hafði ákveðið að giftast. 

Það var ekki úrkast hinnar íslenzku þjóðar, sem vestur flutti frá menningarlegu sjónarmiði skoðað, þeir voru flestir fátækir, en þeir áttu andlegan auð og manndóms yfirburði, sem haslaði þeim völl meðal bestu manna hjá hvaða Þjóð, sem hefði verið. Þeir voru karlar í krapinu margir íslenzku leikmennirnir, bæði hvað vit, framtakssemi og höfðingsskap snerti, og í flestum og jafnvel öllum byggðum íslendinga voru þessir afburða menn — héraðshöfðingjar, sem höfuð og herðar báru yfir fjöldann. Sigbjörn Sigurðsson Hofteig, sem alla sína tíð hér vestra var héraðshöfðingi í Lyon County í Minnesota. Hann var Austfirðingur að ætt og uppruna, fæddur á Breiðumýri í Vopnafirði, 31. Desember 1841 Faðir hans var Sigurður Rustikusson, bónda á Breiðumýri Bjarnasonar. Kona Bjarna var Kristín Rustikusdóttir Þorsteinssonar bónda á Kóreksstöðum og víðar.

 

LÖG OG LÖGLEYSA

Stóridómur var verkfæri fégráðugra valdsmanna og jafnvel siðblindra sadista, sem notað var til að véla eignir af alþýðu bændum og halda vinnufólki í ánauð. Nú á dögum fara valdsmenn ríkisins fínna í sakirnar þegar þeir, ásamt fjármálastofnunum og lögfræðingum þeirra, sölsa undir sig eigur almúgafólks með regluverki verðbættra okurvaxta svo jaðrar við skipulega glæpastarfsemi. Vextir og verðbætur af talnaverki tíðkuðust ekki fyrr á öldum, því þurfti stóradóminn til, sem nú hefur verið afnuminn úr eignaupptöku lögunum. 

Nú er málatilbúnaðurinn af tíðarandans toga, verðtryggðir okurvextir með belti og axlaböndum vegna verðmæta sem aldri verða til nema fyrir vinnusemi fólksins. Sem vinnur fyrir slekti sem hefur ekki annað til brunns að bera en ítök í kerfi sem er notað til að skóla fólk frá vöggu til grafar í að hlíta lögum sem hefur verið komið á fyrir sjónhverfingar fárra gráðugra aurapúka.

Þau lög eru, nú sem fyrr, siðlaus þegar kemur að hjartanu og eiga sér enga bót fyrir lagaboðinu æðsta," Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig".

 

Heimildir;

Sakamál Sesselju Loptsdóttur og munnmælasagan af Hamra-settu / Austurland III bindi bls. 105-117 Halldór Stefánsson.

Molar úr sögu / Fólk og saga bls. 114-133 Benedikt Gíslason frá Hofteigi.

Eiríkur Ólafsson síðasta æviár- og ævilok / Múlaþing 32. árg. 2005 Vilhjálmur Hjálmarsson.

Þjóðsögur, Vísindavefurinn, Wikibedia og fleira sem linkað er á í bloggfærslunni.


Átján konur og fólkið í Kjólsvík

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar I bindi eru "Sögur af æðstu völdum" þar sagt frá Kjólsvíkurfólkinu undir kaflanum "Refsidómar drottins". Sú frásögn er að miklu leiti tekin upp úr Desjamýrarannál sem séra Halldór Gíslason hafði ritað nokkrum ártugum eftir að þeir atburðir gerðust sem þjóðsaga Sigfúsar greinir frá, sakamáli sem upp komu í byrjun 18. aldar í afskektu vík sunnan undir fjallinu Glettingi. Kannski hefur þessi Þjóðsaga Sigfúsar svo orðið til þess í seinni tíð að farið var að grennslast fyrir um sannleiksgildi hennar af tiltækum heimildum. 

Núna í júlí fórum við hjónin í fyrsta skipti akandi um fjallveginn ofan við víkurnar suður af Borgarfirði eystri, leiðina í Loðmundarfjörð. Áður hafði ég flogið með Stefán Scheving félaga mínum yfir þetta svæði og séð hvað það er torfarið vegna endalausra fjalla og brattlendis. Þegar við flugum þarna með ströndinni seint í vetur rifjaðist upp frásögnin af örlögum fólksins í Kjólsvík, sem var það áhrifamikil að nafnið á víkinni hafði greipst mér í minni frá því ég las um Kjólsvíkurmálin fyrir næstum tveimur áratugum síðan. En víkina þekkti ég um leið og Stebbi sagði þarna er Glettingur.

Kjólsvík

Í Kjólsvík var eitt afskekktasta býli á Íslandi

Svo var það litlu eftir að við Matthildur fórum umrædda ferð um þetta svæði, þó svo að ekki ættum við kost á því að fara í Kjólsvík því þangað kemst enginn nema fótgangandi, að þessi afskekkta vík leitaði aftur á hugann og ég ákvað að lesa frásögnina um fólkið þaðan aftur og kanna bakgrunn hennar. Frásögnin sem ég las var ekki þjóðsagan heldur greindi hún frá því hvað kemur í ljós þegar allar tiltækar heimildir eru skoðaðar. Hún er í tímaritinu Glettingi og ætla ég að leyfa mér að birta hana óstytta hér á eftir.

Ein ástæðan fyrir því að sagan bankaði upp á aftur og aftur núna í júlí var nýlegur diskur Bubba Morthens sem heitir "18 konur" og var í spilaranum í bílnum um tíma. Þar tekur Bubbi upp hanskann fyrir konur í því órétti sem þær hafa verið beittar í gegnum tíðina og syngur um 18 konur sem drekkt var á Þingvöllum í krafti Stóradóms. En konunum sem drekkt var með þessu lagaboði voru mun fleiri þó svo að ekki hafi það alltaf verið gert með viðhöfn á Þingvöllum og ekki voru það síður fátækir karlar sem mátti gjalda fyrir þennan lagabókstaf. Lög stóradóms bitnuð fyrst og fremst á fátæku fólki og um það vitna málaferlin á hendur fólkinu í Kjólsvík.

Drekkingarhylur 

Með Stóradómi voru dauðarefsingar vegna hjúskaparbrota leiddar í lög á Alþingi árið 1564, þar sem karla átti að hálshöggva en drekkja konum, en fyrstu 300-400 árin frá landnámi, þ.e. þjóðveldistímann var ekkert framkvæmdarvald á Íslandi. Fram að þeim tíma höfðu dómar yfir sekum mönnum verið þrenns konar:

Í fyrsta lagi var hægt að dæma hinn seka til að greiða bætur eða fjársekt en þegar féð hafði verið greitt var maðurinn aftur óhultur fyrir þeim sem kröfu áttu á hann.

Næsta stig var kallað fjörbaugsgarður en það fól í sér að hinn seki var dæmdur til þriggja ára brottvísunar úr landi. Þá varð hann að fara úr landi áður en þrjú sumur voru liðin frá dómi og vera í burtu í þrjú ár. Að þremur árum liðnum gat hann komið heim og lifað sem frjáls væri.

Þriðja og þyngsta refsingin kallaðist skóggangur. Sá sem var dæmdur skógargangsmaður mátti ekki vera á Íslandi. Ef hann náðist á Íslandi var hverjum sem er leyfilegt að drepa hann. Sumir skógarmenn gátu verið frjálsir í útlöndum, aðrir voru réttdræpir þar líka. Grettir Ásmundarson hlaut 20 ára skóggangsdóm en var stóran hluta hans sem útlagi á Íslandi.

Það var því ekki fyrr en landið komst undir vald Noregskonunga að refsingar dómstóla ríkisins urðu til, og má segja að kaþólska kirkjan hafi leikið stórt hlutverk sem framkvæmdavald við að framfylgja þeim, allt fram að siðaskiptum. Eftir siðaskiptin var hert mjög á líkamlegum refsingum brotamanna á Íslandi. En stóridómur fjallaði um viðurlög í frændsemi- og sifjaspellsbrotum, hórdómi og frillulífi.

Við gildistöku stóradóms færðist dóms- og framkvæmdarvald í slíkum siðferðismálum frá kirkjunni til veraldlegra yfirvalda. Á 16. og 17. öld var ráðamönnum mikið í mun að refsa fyrir afbrot og syndir almennings, meðal annars til að koma í veg fyrir reiði Guðs sem talin var geta beinst að samfélaginu í heild og um leið orðið til að æsa það illa upp með brotunum. Fyrir utan hert viðurlög var það nýmæli að veraldlegir embættismenn konungs, það er sýslumenn, skyldu nú sjá um framkvæmd refsinganna og innheimtu sekta. Næstu aldir var eftirgrennslan í þessum málum eitt helsta verkefni þeirra allan ársins hring. Fyrir siðaskipti hafði kirkjan annast siðferðisbrot og sett sakamönnum refsingar, misharðar eftir alvöru máls. Dauðadómi bar að skjóta til alþingis.

Hálshöggvinn

Fyrsta konan sem drekkt var á Þingvöllum hét Þórdís Halldórsdóttir frá Sólheimum í Skagafirði. Hún var dæmd sek um að bera ljúgvitni um að hún væri ekki ófrísk og hafa svarið sig hreina mey. Þá neitaði hún að segja til föðurins en viðurkenndi að lokum að mágur hennar væri faðirinn, enda þótt það væri aldrei sannað. Játningar voru gjarnan kallaðar fram með pyntingartæki, einskonar fingraklemmu, eins og í tilfelli Þórdísar og oft var húðstrýkingu beitt í sama skyni. Var Þórdís dæmd til drekkingar fyrir áðurnefndar sakir, þrátt fyrir mótmæli bræðra hennar og annarra ættingja. Dómnum var ekki framfylgt fyrr en að tíu árum liðnum. Á sama alþingi voru Guðbjörg Jónsdóttir og Þórarinn Jónsson tekin af lífi eftir að hafa verið dæmd sek vegna ólögmætrar barneignar, bæði voru þau af Austurlandi. Guðbjörg bar að Þórarinn frændi hennar væri faðir að barni hennar en hann svarði af sér faðernið, Guðbjörgu var drekkt og Þórarinn hálshöggvinn.

En þá er komið Kjólsvíkur málum, sem um er skrifað í tímaritinu Glettingi af Magnúsi Helgasyni. Hann leitar heimilda í frásögn sína úr Manntölum, Desjamýrarannál, Alþingisbókum, Setbergsannál, Norskulögum og í Gísla Gunnarsson. Tímaritið Glettingur er ekki til í nettæku formi því ættu allir sem áhuga hafa á Austfirsku málefnum að útvega sér blaðið í áskrift, sjálfur hef ég verið áskrifandi frá upphafi útgáfu þess.

 kjolsvik_viknaslodir_bf 

Kjólsvík

Hinn 18. Júlí 1708 var Hallfríður Magnúsdóttir, vinnukona frá Kjólsvík, leidd að hinum svokallað Drekkingahyl á Þingvöllum. Þar fann hún sitt skapadægur í köldu vatninu – dæmd af alþingi fyrir hórdóm og tilraun til barnsútburðar. Með dauða Hallfríðar var lokið hinu svokallaða Kjólsvíkurmáli, sem hófst þremur árum áður og kostaði þrjár manneskjur lífið. Þær heimildir sem hér er stuðst við, eru alþingisbækur auk frásagna úr annálum.

Kjólsvík er lítil vík sunnan undir fjallinu Glettingi og gengur þar þröngur en grösugur dalur upp milli fjallanna. Neðan undir Glettingi stendur klettur, er Kjóll heitir, og dregur víkin nafn sitt af honum. Á þessum stað var byggt eitt býli frá fornu fari.

Árið 1705 bjuggu í Kjólsvík hjónin Sigmundur Vigfússon og kona hans, Helga Þorvarðardóttir. Sigmundur var þá 46 ára en Helga tíu árum eldri. Áttu þau þrjú börn á aldrinum 8-14 ára. Hjá þeim voru vinnuhjú Hallfríður Magnúsdóttir, 34 ára, og Ólafur Kolbeinsson, ári eldri. Tveimur árum áður höfðu þau Sigmundur og Helga búið á Glettinganesi, skammt norðan Kjólsvíkur, en þangað hafði Hallfríður komið til þeirra. Á þeim tíma var Ólafur vinnumaður í Húsavík.

Á umræddu ári, 1705, fór menn að renna í grun að ekki væri allt með felldu í Kjólsvík. Í Desjamýrarannál segir: Opinberaðist það ljóta mál í Borgarfirði austur, kallað Kjólsvíkurmál. Höfundur annálsins var séra Halldór Gíslason á Desjamýri (1718-1772). Þótt annállinn sé hugsanlega ekki mjög traust heimild fyrir atburðunum, enda ekki skrifaður fyrr en nokkrum áratugum eftir að málinu lauk, ber hann þó sterkt vitni viðhorfum 18. aldar manna til þess verknaðar sem framinn var.

Í annálnum segir: Á þessum mönnum (þ.e. Sigmundi og Ólafi) lá illt orð um það, að eigi mundu umgangast siðsamlega með téðri Hallfríði. Leyfðu margir sér frekt í því að tala, þó lágt fara ætti. Á þessu ári yfir féll óvenjuleg hríða- og bjargarleysistíð. Mæltu margir það mundi standa af illu athæfi í Kjólsvík. Varð það úr þessu, að við kirkju á Mýrarstað þann 9. sunnudag í trinitatis bundu hreppstjórar það fastmælum að fara í Kjólsvík til rannsóknar. En sem heitið var staðfest, gekk veður til batnaðar. Deginum eftir tókst þessi fyrr téða ferð. Fundu þeir fyrir Helgu á smalaferð og spurðu tíðinda, en hún lést engin kunna að segja. Þar eftir fundu þeir Hallfríði að sápuþvotti, hverja þeir tóku og rannsökuðu. Fannst þá mjólk í brjóstum hennar. Þeir spurðu hana, hvað hún hefði gjört af barni sínu, en hún sagðist hafa fengið það Ólafi Kolbeinssyni. Hann, aðspurður um sama efni, sagðist hafa gengið frá því út í Flugum (í Glettingi norðan Kjólsvíkur). Þeir báðu hann sýna sér barnið og sögðust skyldi festi á honum hafa, hvað honum nauðugt var, jafnvel þó þeir réðu meira. Gekk hann svo í Flugin og tók barnið út úr holu innan í tyrju. Síðan voru þau þrjú tekin og færð til sýslumanns.

Hér kemur fram glögg lýsing á atburðum, auk viðhorfs séra Halldórs sjálfs til þess sem gerðist. Hann telur að guðleg forsjón ráði örlögum þeirra Hallfríðar og Ólafs, sem birtist m.a. í veðráttunni, er gefi til kynna vanþóknun Guðs á mannanna verkum í Kjólsvík.

Samkvæmt lögum á þessum tíma máttu vinnuhjú ekki ganga í hjónaband nema þau ættu jarðnæði og fólk utan hjónabands ekki eignast afkvæmi. Var þetta trygging samfélagsins fyrir því, að þeir sem voru eignalausir eða börn þeirra, þyrftu ekki að segja sig til sveitar. Ef fólk átti ekki eigið bú, var skylda þess að verða hjú á heimili bónda þar sem það ætti grið. Vinnuhjú í þessu samfélagi lifðu því ófrjálsu einlífi. Ef þau brutu lög var þeim refsað, þar eð þau hefðu framið svokölluð hórdómsbrot, en við þriðja broti af því tagi var dauðarefsing.

Árið 1706 voru þau Ólafur, Hallfríður og Sigmundur færð til alþingis af sýslumanni Norður-Múlasýslu. Á leið þeirra til þings, sem hefur tekið marga daga frá þessum austustu nesjum landsins, hafa þau Ólafur og Hallfríður haft talsverðan tíma hvort fyrir annað og samskipti þeirra verið mjög náin. Sýslumanni hefur tæpast þótt ástæða til að koma í veg fyrir atlot þeirra, enda hugsanlega talið augljóst að þetta fylgdarfólk sitt væri dauðasekt. Á alþingi kom málið fyrir dóm og var Ólafur dæmdur til lífláts. Á sama þingi var hann hálshöggvinn.

Sigmundur bóndi og Hallfríður vinnukona voru hins vegar dæmd til húðlátsrefsingar fyrir eiðfall og barnsmorðsins meðvitund og samhylli. Í Setbergsannál segir svo um sama mál: Höggvin var maður úr Múlasýslu á alþingi fyrir leynilegan barnsútburð, en móður barnsins vægt um lífstraffið orsaka vegna. Henni refst á alþingi og giftum manni, er vitund hér hafði og hórdómsverknað með henni framið, einnin sá maður, sem höggvinn var og barnið átti, hver að fyrr hafði í hórdóm fallið, markaður fyrir þjófnað.

Ekki er ljóst hvers vegna Hallfríður var ekki líflátin á sama þingi og erfitt að túlka orðin orsaka vegna í þessu samhengi.

Fljótlega að aflokinni Þingvallaferð, þegar Hallfríður var aftur komin heim í sitt hérað, kom í ljós að hún var þunguð í annað sinn. Kenndi hún Ólafi þungann og sagði barnið hafa komið undir á leið þeirra til alþingis. Þetta barn fæddi hún 23. mars á Kóreksstöðum, sem þá var heimili lögréttumannsins, Ólafs Andréssonar. Af fæðingarstað barnsins má vera ljóst að mönnum hefur þótt nauðsynlegt að hafa gætur á Hallfríði, enda kom í ljós, að eftir að barnið var fætt, reyndi hún að leyna því undir klæðum sínum og hugðist bera það út. Komið var í veg fyrir það og lifði barnið.

Þegar hér var komið var Hallfríður orðin sek um þrjú hórdómsbrot, tvö með Ólafi og eitt með Sigmundi, og ásetning um að bera síðara barn sitt út. Mál hennar var tekið fyrir af Bessa Guðmundssyni, þáverandi sýslumanni, á Hjaltastaðamanntalsþingi árið 1707. Sýslumaður sendi alþingi bréf um þetta mál þá um sumarið. Í alþingisbókum segir ....sýnist áðurtéðum valdsmanni með dómsmönnum téð Hallfríður Magnúsdóttir nærri dauðadómsatkvæði standa og setja svo þetta mál til fyllilegrar ályktunar lögmanna og lögréttunnar á þessu Öxarárþingi. Ákváðu þingmenn nú að dæma ekki í þessu máli fyrr en árið síðar, þar sem Hallfríður var fjarverandi.

Málið var tekið fyrir á alþingi 11. júlí 1708, að viðstöddum sakborningi. Í dómsúrskurði segir m.a.: Hallfríður Magnúsdóttir, af sinni eigin meðkenning sannprófuð af þremur hórdómsbrotum, hefur forboðið sitt líf og á að drekkjast í vatni eftir hljóðan lögmálsins, sem almennilega kallast stóridómur, nema kóngur vilji meiri miskunn á gera, segir sama lögmál. En vér álítum hún hafi þá miskunnarvon forboðið með sinni óguðlegu meðferð á sínu síðasta nýfæddu fóstri... Metum því, að þessi vesöl Hallfríður sé þeim líkust, sem láta smábörn á eyðimerkur, þar sem ólíklegt er, að menn bráðlega komi þeim til bjargar, og lögmálið segir, að hafi sitt líf forboðið... .

Viku síðar, 18 júlí, var líflátsdómnum fullnægt. Í hinum norsku lögum, sem dæmt var eftir, er þannig komist að orði, í þýðingu Magnúsar Ketilssonar: Hittist nokkur eður verður nógsamlega yfirbevísaður, að hafa annaðhvort sitt eður annars barn útborið og eftirskilið á eyðimörk, hvar menn ekki eru, eður líklegt er að menn komi, þá skal hann látast sem manndrápari, og hafa fyrirgjört lífinu, jafnvel þó barnið fyrir Guðs forsjón kunni að finnast og halda lífi.

Árið 1703, rétt fyrir atburðina í Kjólsvík var vinnuhjúastéttin fremur fámenn, ef miðað er við 19. öldina. Telur Gísli Gunnarsson sagnfræðingur, sem skrifað hefur um þetta tímabil, að megin skýringin hafi verið sú að þá hafi sveitarómagar verið margir en slíkur fjöldi er skýrt dæmi um að margt vinnufært fólk gat ekki einu sinni fengið vist vegna harðæris. Á þessum tíma hefur vinnukona, sem fæddi barn utan hjónabands, því ekki átt margra kosta völ. Miklar líkur eru til að bæði hún og barnið hefðu endað sem sveitarómagar. Samfélagið viðurkenndi ekki óvelkomin börn. Hugsanlega hafi því samfélagsaðstæður að einhverju leyti ýtt undir fyrrgreindan verknað, sem framin var í Kjólsvík.

Á sama þingi, 1708, var dæmt í máli húsfreyjunnar í Kjólsvík, Helgu Þorvarðardóttir. Hún hafði verið sökuð um yfirhylmingu í fyrra barnsútburðarmálinu. Helga var dæmd í fésekt. Í dómnum yfir henni segir, að ef hún ekki geti greitt féð, líði hún á kroppinn eftir miskunnsamri linkindartempran valdsmannsins monsr. Bessa Guðmundssonar. Í dómsúrskurði í máli hennar var vísað til hinna norsku laga. Í þeim segir: Hvar misklíð og óeining tilfellur millum manna, skal sérhver sem viðstaddur er, vera skyldugur til að hindra og koma í veg fyrir ólukku og manndráp. En ef manndráp skeður, þá að hindra manndráparann að ei uppkomist. En komist hann burtu. Þá skulu þeir allir vera skyldugir að elta hann, og færa tilbaka innan átta daga í hið seinasta.

Það þótt því sannað að húsfreyjan í Kjólsvík hefði vitað meira um útburð barns þeirra Ólafs og Hallfríðar en hún hafði látið uppi.

Heimleið þeirra Kjólsvíkurhjóna Sigmundar og Helgu af alþingi árið 1708 hefur að öllum líkindum verið erfið. Frá því að Ólafur Kolbeinsson hafði fengið vist hjá þeim, um 1704, hafði líf þeirra tekið stakkaskiptum. Dauðinn hafði umlukið tilveru þeirra. Aftökur vinnuhjúa þeirra og vitnisburður um barnsútburð hefur eflaust orðið þeim þung hugraun. Að auki voru þau bæði dæmdar manneskjur. Heima í Kjólsvík biðu þeirra þrjú börn, sjálfsagt milli vonar og ótta, undir hlíðum Glettings.Höf. Magnús Helgason, Glettingur 2.tbl 7.árg 1997

Höfundur kemur inn á að vegna harðæris þessa tíma hafi vinnukona sem eignaðist barn átt fárra kosta völ. En eftir lestur þessarar greinar um Kjólsvíkurmálið vaknar spurningin hvort vinnufólk og efnalítið bændafólk áttu nokkurra ásættanlegra kosta völ, þegar stóridómur var annarsvegar, ef barn kom á annað borð "ólöglega" í heiminn. Að loknum lestri frásagnar Magnúsar Helgasonar í Glettingi verður vart komist hjá því að íhuga hvort þjóðsagan varðveitir ekki betur sannleikann en hin opinbera saga, enda getur sú síðarnefnda yfirleitt ekki alþýðufólks nema þegar það kemst í kast við lögin.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband