Himnaríki eða helvíti sjálfstæðs fólks

Allt fram á nítjándu öld þótti íslendíngum fjöllin ljót. Ekki var látið við sitja að Búlandstindur væri „furðu ljótur“, heldur þótti Mývatsveitin með fjallahríng sínum og vatni viðurstyggilegt pláss. Varla eru eftir hafandi núna þær samlíkíngar sem þjóðleg bílífa okkar, þjóðsögur Jóns Árnasonar, velja því. Rómantíkin þýska gaf okkur fjöllin og gerði þau okkur kær og kendi Jónas Hallgrímssyni bæði að rannsaka þau sem fræðimaður og unna þeim í ljóði; og eftir hann kom Steingrímur og kvað Ég elska yður þér Íslands fjöll; og hefur sá skáldaskóli auðsýnt þeim tignun fullkomna fram á þennan dag. Á okkar öld hefur það þótt hæfa kaupstaðarfólki, sem var eitthvað að manni, að eignast vángamyndir af eftirlætisfjöllum sínum að hengja upp yfir sóffanum og hafa slíkir eftirlætis gripir verið nefndir sóffastykki að dönskum sið. Fólkið horfði svo lengi á þessi landslög uppá veggjum hjá sér að marga fór að lánga þángað. Svona mynd veitti áhorfana í rauninni sömu lífsreynnslu og horfa út um glugga uppí sveit.

Þennan texta má finna í bókinni "Reginfjöll að haustnóttum" eftir Kjartan Júlíusson frá Skáldastöðum efri, og er í formála bókarinnar, sem Nóbelskáldið skrifaði. Það má segja að eins hafi farið fyrir mér framan af ævi og fyrri alda íslendingum, að hafa ekki þótt mikið til fegurðar fjallana koma frekar en annarra faratálma. 

Á seinni árum hefur komist í tísku að kalla stóran hluta heiða, fjalla og óbyggða Austurlands, víðernin norðan Vatnajökuls. Hluti þessara víðerna er svæði sem oft er kallað Jökuldalsheiðin og er jafnvel talið að Nóbelskáldið hafi sótt þangað efniviðinn í sína þekktustu bók Sjálfstætt fólk. Þar hafi Bjartur í Sumarhúsum háð sína sjálfstæðisbaráttu.

Það má segja að það hafi ekki verið fyrr en í fyrrasumar að ég fór að gefa Jökuldalsheiðinni gaum þó svo að hún hafi allt mitt líf verið í næsta nágrenni og ég hafi farið hana þvera oftar en tölu verður á komið, þó svo að ég hafi ekki fyrr en fyrir nokkrum árum áttað mig á helgi hennar. En eftir að hún fangaði athygli mína má segja að hún hafi haft hana óskipta eins og Hjaltastaðaþingháin hefur fengið að finna fyrir síðustu árin.

IMG_3865

Sænautasel stendur við suðurenda Sænautavatns

Í síðustu viku keyrði ég, ásamt Matthildi minni og Helga frænda mínum sem var í Íslandsheimsókn frá Ástralíu, heiðina þvera og endilanga. Sú leið lá frá Kárahnjúkum út á miðheiðina við Sænautavatn fyrsta daginn, þar sem drukkið var kaffi og kakó ásamt lummum í rafmagnslausu torfbænum í Sænautaseli.

Næsta dag var farið í Vopnafjörð og upp á heiðina í Möðrudal og gamla þjóðveginn þaðan yfir hana þvera austur með viðkomu á Grjótgarðahálsi í Skessugarðinum. Um þetta stórmerkilega náttúrufyrirbrigði má fræðast á Vísindavefnum. Einnig er þjóðsaga í safni Sigfúsar Sigfússonar, sem ekki er síður sennileg, sem greinir frá því að þarna sé um fornan landamerkjagarð að ræða sem tvær skessusystur gerðu í illindum sín á milli.

IMG_4022

Á Grjótgarðahálsi, norðan við Skessugarðinn

Núna á sunnudaginn hófum við svo þriðja heiðar daginn í morgunnkaffi og lummum í Sænautaseli. Þennan dag þræddum við slóðana meðfram vötnunum suður heiðina í sólskini og 24°C hita. Fórum svo vestur yfir í Möðrudal fyrir sunnan Þríhyrningafjallgarðinn og þaðan út á gamla þjóðveg eitt norður í Möðrudal, ævintýralega hrjóstruga leið.

Í þessum sunnudagsbíltúr heimsóttum við þau heiðarbýli sem við vegslóðana voru. En alls urðu heiðarbýlin 16 sem byggðust af sjálfstæðu fólki um og miðja 19. öldina. Um þessa heiðarbyggð í meira en 500 m hæð má lesa í I bindi Austurland safn austfirskra fræða. Þar segir Halldór Stefánsson þetta um tilurð þessarar heiðarbyggðar. Bygging þessarar hálendu heiðarbyggðar, hinnar langhæstu á landinu, líkist þannig - nær að kalla- ævintýri. Á þessum sunnudegi náðum við að heimsækja 5 býlanna.

Halldór Laxness gerði kröpp kjör þessara heiðarbúa heimsfræg í bókinni Sjálfstætt fólk. Það er erfitt að ímynda sér annað á góðviðrisdögum sumarsins en að heiðarlífið hafi verið himnaríki á jörð. Allt við höndina, mokveiði silungs í bláum vötnunum, gæsavarp í mýrunum, hreindýr, túnræktun óþörf því laufengi og mýrar eru grasmikil og búsmalinn á beit heima við bæ. Þó svo veturinn væri harður þá komið sumarið yfirleitt eins og hendi væri veifað.

IMG_4014

Í Skessugarðinum

En það gat líka verið hart að búa á heiðinni af fleiri orsökum en Nóbelsskáldið tilgreindi. Í byrjun árs 1875 hófst eldgos í Dyngjufjöllum. Á páskadag hófust gríðarlegar sprengingar í Öskju, sem sendu vikurmökk út yfir Mið-Austurland. Vilborg Kjerúlf, sem þá var átta ára gömul stúlka á Kleif í Fljótsdal, lýsir morgni þessa páskadags svo í Tímanum 1961.

Mamma vaknaði um morguninn áður en fólk fór að klæða sig, og sá eldglæringarnar, sem komu hvað eftir annað. Það var hlýtt og gott veður og féð látið vera úti um morgunninn, en það tolldi ekki við og rásaði fram og aftur. Það fann á sér gosið. Klukkan 10 kom það. Það voru nú meiri ósköpin þegar það dundi yfir. Myrkrið varð alveg biksvart, og maður sá ekki handa sinna skil. Það var alveg voðalegt þegar þrumurnar riðu yfir og hávaðin óskaplegur. Það glumdi svo mikið í hamrabeltinu fyrir ofan bæinn. Svo lýstu eldingarnar upp bæinn þegar dynkirnir riðu yfir. Það var eins og snjóbyljir kæmu yfir þegar askan dundi á húsinu. Já það voru nú meiri ósköpin.

Kleif í Fljótsdal er í rúmlega 70 km fjarlægð frá Öskju. Um það hvernig umhorfs var eftir að sprengingunum lauk, segir Vilborg þetta; askan lá yfir öllu, og ég man að ég sópaði henni saman með höndunum og lék mér að henni, og hún var glóðvolg í höndunum á mér. Mér fannst þetta vera hnoss og hafði gaman að leika mér að henni. Hún var svona í ökkla í dældunum. Það var svo einkennilegt, að þykkasti mökkurinn fór aðallega út Jökuldalinn, og lenti meira þar en hjá okkur.

IMG_3968

Tóftir Heiðarsels við suðurenda Ánavatns

Öskulagið var víða 20 cm á Jökuldalnum og heiðinni, enda lagðist byggð því sem næst af um tíma í heiðinni, og bar ekki sitt barr eftir Öskjugosið. Mikið af heiðafólkinu flutti til Ameríku og síðasti bærinn Heiðarsel fór í eyði 1946. Það var undir lok  byggðarinnar sem Halldór Laxness fór um heiðina.

Í tímaritinu Glettingi 11. árg. 1.tbl. segir Hallveig Guðjónsdóttir Dratthalastöðum á úthéraði m.a. frá kynnum af sínum nágrönnunum í Sænautaseli en hún er fædd í Heiðarseli; Sögufrægt er, þegar Halldór Laxness gisti eina skammdegisnótt í heiðarbýlinu Sænautaseli. Þá hafði staðið óvenju illa á hjá hjónunum í Seli og Guðmundur varla nógu birgur af heyjum þetta haust, og tók það ráð að fella kúna, til þess að vera öruggur með féð, en kýrin var orðin geld, gömul og kálflaus. Mér finnst Laxness fara ómaklega með þetta litla heimili, sem veitti þó allt það besta sem handbært var.

En nú er svo komið fyrir mér eins Höllu hans Eyvindar, að mig dregur þrá. En þau Eyvindur og Halla dvöldu lengi vel á öræfunum suður af heiðinni og austur af Öskju, og um þessa þrá hafði Nóbelsskáldið þetta að segja í formála bókarinnar Reginfjöll að haustnóttum

Reynslan er sambærileg við það sem þeim manni verður, sem svo leingi hefur skoðað mynd af Parísarborg að hann stenst ekki leingur mátið og fer þángað. Þegar hann kemur heim til sín aftur veit hann ekki fyr til en Parísarborg er orðin miðpúnktur í lífi hans. Hugur hans heldur áfram að snúast í tilhlökkun til endurfunda við þessa borg með undrum sínum og uppákomum, stórum og smáum furðum, og smáhlutum síst lítifjörlegri en þeir stóru; ekkert í heiminum jafnast á við að hafa fundið þessa borg. Hversu marga landa höfum við ekki þekt sem hafa nákvæmlega af þessari reynslu að segja um París, og margir skrifað um það í bókum hvernig þeir lifðu í stöðugri heimþrá þángað, jafnvel eftir að þeir eru komnir að fótum fram. Sá sem skilur þetta skilur sæludali þjóðsögunnar; og hann skilur líka útilegukonuna Höllu sem sat farlama á leiði í kirkjugarðinum á Stað í Grunnavík, og tautaði: "fagurt er á fjöllum núna".

IMG_3974

Lautarferð á laufengi í heiðanna ró

 


Fjallið og Múahameð

IMG_3500

Þegar fjallið kemur ekki til Múhameðs má segja sem svo að Múhameð verði að fara til fjallsins. Eitthvað á þennan veg hefur sjálfsagt margur landinn hugsað þegar utanlandsferðin í sólina hefur verið versluð þetta sumarið. Þó svo sumarið sem af er hafi verið með betri sumrum hvað gróanda jarðar varðar og langt frá því að vera með meiriháttar úrkomusumrum, hvað þá kalt, þá hefur sólina vantað. Og þegar gengi krónunnar er sterkt þá bíður landinn ekki eftir sólinni að sumarlagi heldur fer þangað sem hún skín.

Það er fjall hérna rétt innan við hús, sem í skyggni gærdagsins var þrjóskara en fjallið sem kom til Múhameðs, þannig að við hjónakornin ákváðum að fara til fjallsins. Fjallið, sem er hæsta fjall landsins utan jökla og trúað var fram eftir öldum að væri hæsta fjall Íslands. Þetta fjall blasir við úr stofuglugganum flesta daga en í gær morgunn voru skúrir og þokubólstrar á víð og dreif sem skyggðu sýn á Snæfellið.

Það var því ekki um annað að ræða en láta sig hafa það að panta sólarlandaferð í 16 stiga hita og skúrasömu blíðviðri, eða leggja upp í óvissuferð til fjallsins og sjá hvernig viðraði þar um slóðir. Síðan Kárahnjúkavirkjun varð að veruleika er auðvelt að skjótast inn að Snæfelli, ferðlag sem tók jafnvel einhverja daga fyrir nokkrum árum tekur nú fáar klukkustundir. Og þó svo að ekki sé hægt að hringkeyra Snæfellið þá er hægt að fara því sem næst inn að rótum Vatnajökuls bæði að austan- og vestanverðu um útilegumannaslóðir þjóðsagnanna.

IMG_3521

Við Laugafell, horft með austanverðu Snæfelli inn að Eyjabakkajökli

Við byrjuðum á því að fari inn með því að austan í sólskini og sunnan blæ, þó svo hitastigið væri ekki nema 12 – 14 gráður þá mátti vel búast við meiru þegar liði á daginn enda enn bara miður morgunn. Þarna er hægt að keyra á malbikuðum vegum Landsvirkjunar langleiðina inná Eyjabakka, þ.e.a.s. að uppistöðulónum Ufsaveitu. Þarna er með góðum vilja hægt að hæla Landsvirkjun fyrir fleira en veginn, því þar hefur nokkurn veginn tekist varðveitt sýnishorn af fyrrum Vatnajökulsbláa lit Lagarfljóts í lónunum neðan við Eyjabakkana sem náttúrverndarfólki tókst að fá þyrmt í stærstu framkvæmd íslandssögunnar.

Þegar við fórum þarna um kom lítil saga upp í hugann sem ég rakst óvænt á í bókinni "Syndir feðranna" og hef hvergi rekist á annarsstaðar hvorki heyrt á skotspónum né séð í þjóðsaganasöfnum. Þar segir frá því þegar Þórður í Dýjakoti var myrtur þarna í nágreninu, nánar tiltekið við Hornbrynju. Dýjakot, sem ég minnist ekki að hafa heyrt getið um, gæti hafa staðið á þessum slóðum miðað við staðarlýsingar í sögunni, eða rétt austan við Laugarfell. Það er reyndar ýmislegt í sögunni sem passar ekki alveg við þær hugmyndir sem sagnfræðin hefur komið inn hjá manni í gegnum tíðina.

Þessir atburðirnir er sagðir gerast árið 1701 í verslunarferð Þórðar niður í Berufjörð, nánar tiltekið til Gautavíkur. Samkvæmt mínum hugmyndum var verslun í Gautavík aflögð á þeim tíma því ekki hef ég heyrt Gautavíkur getið sem verslunarstaðar eftir að einokunarverslun var komið á, sem varaði frá 1602 – 1787. Árið 1589 er Djúpivogur gerður að löggiltum verslunarstað og hafði Fúlivogur sem er því sem næst á sama stað verið verslunarstaður þar á undan og einmitt þangað hafði hin forna verslun í Gautavík flust. Sagan gæti samt sem áður verið sönn því vel gæti hafa verið verslað á laun við Gautavík fram hjá einokurversluninni, án þess að getið sé í sögubókum.

IMG_3473

Norður af Ufsaveitu, þar sem Dýjakot gæti hafa staðið. Laugarfell ber hæðst vinstra megin

En saga þessi greinir í stuttu máli frá sex daga verslunarferð Þórðar í Dýjakoti til Gautavíkur. Hann fer sunnan við Hornbrynju niður í Fossárdal og síðan inn Berufjörð að sunnanverðu og út að norðan til Gautavíkur, sem bendir til að Dýjakot hafi verið talsvert innarlega á öræfunum, annars hefði verið styttra að fara norðan við Hornbrynju og niður Öxi í botn Berufjarðar.

Í sem stystu máli lendir hann í útistöðum við þýskan kaupmann vegna ullar sem hann vildi fá sérstaklega viktaða því það voru hagalagðar barnanna hans þriggja, en kaupmanninum þótti svoleiðis lítilræði óþarft. Þeir lenda í áflogum og pakkar Þórður honum saman. Eftir að kaupmanninum hafði verið bjargað við illan leik, ákveður Þórður að halda strax heim með hest og varning. En þá sér kaupmaðurinn færi á að ráðast aftan að honum og enn pakkar Þórður honum saman.

Þórður á að hafa farið sömu leið heim, um þriggja daga ferðalag. Einhverjir íslendingar sáu til þýska kaupmannsins morguninn eftir þar sem hann fór ríðandi inn Berufjörð. Þess er skemmst að geta að ekki skilaði Þórður sér heim, en hestur hans ásamt varningi skilaði sér í Dýjakot. Þremur vikum eftir þessa atburði komu kona hans og þrjú börn til byggða að innsta bæ í Fljótsdal. Lík Þórðar fannst síðan í göngum um haustið, sitjandi vestan undan Hornbrynju í, illa farið og þegar að var gætt var gat eins og eftir byssukúlu á höfðinu.

IMG_3577

Vestan við Snæfell á bökkum Hálslóns, fremri Kárahnjúkur fyrir miðri mynd

Eftir að hafa ferðast um í kyrrðinni austan við Snæfellið, þar sem einungis urðu tvenn þýsk hjón á vegi okkar fórum við vestur fyrir fjallið á hin margrómuðu Vesturöræfi. þar sem hreindýraskyttur og gangnamenn einir kunnu áður fyrr að greina frá undrum Svörtugljúfra, Kringilsárrana, Töfrafoss o.fl., sem nú er á botni Hálslóns. Á leiðinni norðan við Snæfell tókum við ungt par frá Frakklandi uppí, en þau voru á leið í Kárahnjúka og svo þaðan vestur í Öskju, með engan farangur, en full eftirvæntingar og bjartsýni. Þau höfðu verið við vinnu á Héraði frá því í maí og ætluðu að nota tímann þar til í September til gönguferða um hálendið norðan Vatnajökuls.

IMG_3570

Sauðfé, sem lengi var talið mesti skaðvaldur íslenskrar náttúru, á fyrrum Vesturöræfum nú uppgræddum bökkum Hálslóns. Snæfell í baksýn 

Við keyrðum svo vestan við Snæfellið inn með Hálslóni Kárahnúkastíflu eins langt og við komumst á vegi Landsvirkjunar. Þarna var allt annað skyggni en í tæra fjallaloftinu austan við Snæfell því það rauk af leirum Hálslóns í suðvestan golunni og byrgði sýn. Í suðvestan átt getur það verið fleira en þoka, ský og skúrir sem byrgja útsýnið á Snæfellið úr stofuglugganum heima. Það eru nefnilega líka dagar sem fokið af leirunum kemur í veg fyrir skyggni, jökulryk sem hefur sama lit og Lagarfljótið hefur núorðið.

En ekki er víst að mögulegt hefði verið að skoða stóran hluta víðernanna norðan Vatnajökuls á dagsstund án afleiðinga Kárahnjúka.

 

IMG_5689

Við Kárahnjúkastíflu á góðviðrisdegi, Snæfell í fjarska hægra megin 

 

IMG_5734

Laugafellsskáli, rétt austan við Snæfell

 

 IMG_6457

Horft í áttina að Hálslóni og Vesturöræfum úr lofti í suðvestan golu, Snæfell í baksýn


Breyttur lífstíll

Þeir Kjartan og Wallevik koma inn á það að ýmsar mismunandi ástæður geti verið fyrir myglu en hvers vegna hún varð af faraldri á Íslandi er þeim ráðgáta. 

Vinnufélagi minn sem hefur unnið við húsbyggingar og viðhald ævina alla viðraði þá hugmynd, við litla hrifningu viðstaddra, að mygla hefði ekki verið vandamál í húsum fyrr en hætt var að reykja innandyra. Það skildi ekki vera að hann hefði eitthvað til síns máls, því meiri loftræsting fylgdi reykingunum.

Eins má nefna að nú á tímum fer flest fólk í sturtu einu sinni á dag og því fylgir mikill raki innandyra. En fyrir nokkrum áratugum var laugardagur hinn heilagi baðdagur.

Þó svo að böð hafi verið stunduð af flestum um langa hríð oftar en einu sinni í viku hefur ýmislegt breyst til dagsins í dag í því sambandi. T.d. eru flestir sturtubotnar sjálft gólfið, jafnvel á timburgólfum.

Áður var notast við vatnsþétt baðkör og sturtuklefa með botni, sem þóttu erfiðari í umgengni. Frágangur gólfniðurfalla er t.d. annar og lakari á Íslandi en í Noregi.

Einnig má nefna það að allur þvottur er nú orðið þurrkaður innandyra í stað þess að blakta úti á snúrum. Þó svo að þurrkarar eigi að vera það fullkomnir að þeir skili rakanum frá sér á réttan stað þá þekkja sjálfsagt flestir hvað þungt og rakt loftið getur verið í þvottaherberginu.

Hér er minnst á fleiri ástæður fyrir myglu sem sjaldan er talað um


mbl.is Blómabeðið getur valdið myglu innandyra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta aðferðin til að ná árangri í lífinu


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband