Héraðssandur

IMG 5097

Það hefur ekki farið framhjá neinum hvað svartur sandur er "inn" þessi misserin. Svartir sandar, hrjóstur og örfoka land eru heimsótt af fólki úr öllum heimshlutum í von um að upplifa ævintýrið undir skini miðnætursólar eða norðurljósa. Í stærstum hluta heimsins svipar nútíma landslagi meira til afþreyingar en ævintýris. Þess vegna þykja svartir sandar og hrjóstur Íslands ævintýralega óbeisluð þó svo á hafi gengið með sáningu Alaska lúpínu, Beringspunts og gróðursetningu Síberíu lerkis í boði ríkisins. Svo hefur náttúran sumstaðar fengið að sjá um sig sjálf líkt og á Skeiðarársandi þar sem óvænt er að vaxa upp einn fallegasti birkiskógur landsins.

Það er svo sem ekkert skrítið að óþolinmæði hafi verið farið að gæta vegna þess hvað náttúrunni gengi hægt að græða upp sandauðnir Íslands og ekki datt nokkrum heilvita manni í hug fyrir nokkrum árum að hægt væri að byggja ferðamannaiðnað á örfoka landi. Nútíminn er hraðans og neyslunnar, þar af leiðandi allt miðað við getu meðalmannsins til að kaupa sér afþreyingu. Þannig hefur ferðaþjónusta orðið af skiptimynnt til þeirra sem hafa efni á að ferðast. Þess vegna hefur náttúran víðast hvar í heiminum verið markaðsvædd og hún mótuð í manngerða landslagspakka. Nema á stöðum eins og á Íslandi þar sem enn má finna víðáttur svartra sandauðna, þó svo flestir erlendir ferðamenn láti sér nægja valda útsýnistaði á við Reynisfjöru, Skógasand og Dyrhólaey.

Fyrir ekki svo löngu síðan átti ég tal við Amerísk hjón sem voru á ferð um landið. Eftir að hafa komist að því að þau voru ekki "meðaltals" ferðamenn sem bruna hringinn á 3-4 dögum, heldur höfðu tekið sér 4 vikur til að skoða Ísland, sperrtust eyrun. Þau sögðu í stuttu máli að við íbúarnir virtumst ekki gera okkur grein fyrir í hverskonar ævintýri við lifðum, milli svartra sanda, hárra fjalla og friðsælla auðna. Sjálfsagt ættum við okkar vandamál eins og aðrir íbúar heimsins, en guð minn góður dagar þeirra í þessu landi væri á við andlega heilun; - þessi hjón voru reyndar frá New York.

Við sem höfum farið í gegnum tíðina með verðtryggðu vistarbandi, veðrabrigðum vetrarins og hamförum íslenskrar náttúru vitum að það er ekki alveg svo, þrátt fyrir svarta sanda. En samt sem áður mættum við vekja okkur oftar til vitundar um kostina við að búa í örfoka landi, sem sumir segja að minni á tunglið, stað sem fáir hafa á komið. Hvað mig varðar þá hafa svörtu sandarnir verið hluti af mínu lifibrauði í gegnum árin, sem múrari hef ég notað þá í byggingarefni, það er að segja í steypu og pússningarsand. Samt hafa auðnir og kyrrð sandanna alltaf heillað, svo ekki sé talað um þar sem úthafshaldan brotnar á þeim í fjörunni.

Þrátt fyrir allan túrismann má víða finna staði á Íslandi þar sem hægt er að njóta friðsældar, jafnvel andlegrar heilunar og yfirleitt þarf ekki að leita langt yfir skammt. Núna í veðurblíðu síðustu daga sporuðum við hjónin berfætt um sand sem er því sem næst við útidyrnar. Fyrir botni Héraðsflóa breiðir úr sér um 25 km löng svört sandströnd sem kölluð er Héraðssandur eða Héraðssandar. Þau er þrjú stórfljótin sem falla í Héraðsflóann. Selfljót er austast með ós undir Vatnsskarði, Lagarfljót og Jökulsá á Dal sem hafa sameiginlegan ós fyrir miðjum flóanum, svo fellur Kaldá vestast með ós undir Hellisheiði.

Sandurinn er að mestu komin úr meira en 120 km fjarlægð frá Brúarjökli sem er skriðjökull í norðanverðum Vatnajökli. það stórfljót sem bar mest af sandi í Héraðsflóann var Jökulsá á Dal áður en hún myndaði Hálslón Kárahnjúkavirkjunar en á nú að mestu sameiginlegan farveg með Lagarfljóti stærstan hluta ársins. Hvort sú staðreynd að Jökulsá á Dal er ekki lengur til sem stórfljót muni hægja á sandburði fram í Héraðsflóann á eftir að koma í ljós. En ekki er ósennilegt að eitthvað af þeim framburði sem hún hefur séð um að flytja í gegnum tíðina sitji hér eftir á botni Hálslóns og Lagarfljóts. Hvar eiginlegur Héraðssandur byrjar og hvar hann endar afmarkast af fjallgörðunum að austan og vestan, en hvað hann nær langt inn á Hérað er ekki eins auðséð.

Þegar gengið er út að sjávarmáli er svartur sandur um 2 km leiðarinnar, en þar fyrir innan gróið land, seftjarnir, grasmóar og mýrar á flatlendinu. Þar sem landið fer að hækka í suðri er Jórvík, þaðan eru 7,5 km norður til sjávar. Skammt frá Jórvík er Arnarbæli sem hefur að geyma fornar rústir sem sumir vilja meina að gæti hafa verið hafnabær á fyrri tímum. Ef Jórvík hefur nánast staðið við sjó á landnámsöld þá skýrir það vel hversvegna ysti hluti flatlendisins á Héraði nefnist Eyjar. Því hefur framburður stórfljótanna verið gríðarlegur í gegnum aldirnar og má þá segja að Héraðssandar þeki nú um 200 ferkílómetra og umlykja þær eyjar sem voru í minni Héraðsflóans við landnám.

Hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær;

IMG_3786

Horft yfir Héraðsflóa að austan frá Vatnskarði. Ljósgrýti er í fjöllum beggja megin flóans

 

img_7916

Horft yfir Héraðsflóa að vestan, frá Hellisheiði. Framburður Lagarfljóts litar sjóinn marga km út frá ströndinni

 

IMG_5249

Þegar farið er út á Héraðssand er fyrst komið á flatlendis móum með mýrum og tjörnum. Gönguleiðin út að sjávarmáli er 3 - 5 km

 

IMG_5056

Rétt innan við sandinn eru harðbalar með hrossnál og sandblautum sefi vöxnum mýrum á milli

 

IMG_5068

Það þarf víða að vaða áður en komið er út í sandhólana sem varða síðasta spölinn

 

IMG_5226

Þegar ströndin nálgast er eins km kafli þar sem er gengið á milli hárra sandhóla, grónum melgresi

 

IMG_5174

Til að hafa sig af stað er gott að gera sér erindi, því ferð á Héraðssand er nánast dagsferð. Í þetta sinn var erindið að safna melkorni

 

IMG_5140

Úti við Atlantshafið blasa við, því sem næst, óendanlegir svartir sandar til beggja átta

 

IMG_0604

Uppruna Héraðssands er að finna 120 km innar í landinu við Vatnajökul. Myndin sýnir hvernig umhorfs er við sporð Brúarjökuls seinnipart sumars

 

IMG_6461

Af setinu, sem vel sést á árbökkunum á þessari mynd, má sjá hvað framburður jökulsins er afgerandi. Myndin er af Töfrafossi, sem var einn af fimm stærstu fossum landsins, en er nú á botni Hálslóns og kemur aðeins í ljós fyrripart sumars þegar lítið er í lóninu

 

IMG_0623

Kárahnjúkastífla við Fremri-Kárahnjúk. Stíflan myndar Hálslón sem er um 57 ferkílómetrar. Fremst á myndinni, við hlið stíflunnar, má sjá yfirfallsrennu lónsins 

 

IMG_5010

Hálslón á yfirfalli, bráðnun Brúarjökuls streymir um rennuna niður í farveg Jökulsár á Dal

 

IMG_5029

Á Kárahnjúkastíflu, yfirfall Hálslóns myndar einn af stærri fossum landsins, þar sem það fellur niður í Dimmugljúfur í fyrrum farvegi Jökulsár á Dal

 

 Héraðsflói

Héraðsflói, á loftmyndinni má vel greina sameiginlegan ós Lagarfljóts og Jökulsár á Dal og þann gríðarlega framburð af sandi sem Jökla ber með sér þann tíma sem hún rennur í öllu sínu veldi, þrátt fyrir Kárahnjúkavirkjun

 

20170903_225059


Algjör steypa

IMG_5841

"Það er merkilegt hvað þessi kalla andskoti getur flutt sömu gröfuskófluna fram til baka, hann er búin að vera að flytja hana frá því ég man eftir mér", sagði vinnufélagi minn einn góðviðris morguninn núna í vikunni. Sá með skófluna hafði heyrt og kom kjagandi til okkar og sagði; "það er alveg sama hvað maður á góða gröfu hún gerir ekkert nema hafa skóflu".

Það er orðið svolítið síðan ég hef sett steypu hérna inn á síðuna, en það er ekki vegna þess að það sé ekki verið steypa. Ég var farin að halda fyrir nokkrum árum að ungir menn á Íslandi ættu ekki eftir að steypa og sú virðulega athöfn færi algerlega í hendurnar á pólverjum og öðrum aðfluttum víkingum eftir að við gömlu steypukallarnir brennum út.

Gamli Breiðdælingurinn sem bjástraði við gröfuskófluna sagði eftir að hann hafði útskýrt þetta með gröfuna og skófluna -"Þurfið þið ekkert að vinna strákar mínir og ert þú ennþá að þvælast í kringum steypu, geturðu kannski eitthvað sagt þessum fuglum til?" -"Nei þeir gera þetta bara einhvernvegin, sama hvað ég segi", svaraði ég. -"Og verður þá engin óður lengur, eins og í almennilegri steypu? -"Nei það er orðin afturför í öllu".

Líkt og maðurinn með skófluna þá man ég ekki eftir öðru en steypa hafi verið mitt líf og yndi. Þó svo mikið hafi verið haft fyrir því að koma vitinu fyrir mig á unglingsárunum til að forða mér úr steypunni þá hefur hún verið mín kjölfesta í meira en fjörutíu ár. Mér var sagt að ég hefði ekki skrokk í erfisvinnu, meir að segja látið að því liggja að ég kastaði gáfum á glæ. Eftir að hafa látið tala mig inn á bóknámsbraut síðustu árgangana í gagnfræðaskóla varð það blessað brennivínið sem bjargaði mér frá bóknáminu.

Núna öllum þessum árum og áföllum seinna varð mér á að hugsa hefði ég betur hlustað þarna um árið? Og svarið er; nei því ef ég þyrfti að snúa til baka þá myndi ég engu breyta heldur bara njóta hvers dags aðeins betur og æsa mig örlítið minna. Því eftir muna standa verkin sýnileg, þó svo vissulega hefði getað verið varið í að eiga snyrtilegt bókhald upp í hillu eða hafa framkvæmt faglegt eftirlit með öðrum, þá jafnast ekkert á við varanleg minnismerki.

Það er gott að eiga félaga sem leyfa manni að steypa af og til sér til samlætis, þeir þurfa allavega ekki í ræktina ungu mennirnir til að halda sér formi.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband