Færsluflokkur: Hús og híbýli

Herragarðurinn

1654927

Á miðju sumri 1912 kom biskupinn yfir íslandi, herra Þórhallur Bjarnason, úr yfirreið um Austurland. Segir hann frá því i blaði sínu, Nýju Kirkjublaði, 1. ágúst, að viða þar eystra, bæði á Héraði og í Fjörðum séu miklar framfarir. Eitt ber þó af að dómi biskups: Framkvæmdirnar í Vallanesi. Þar er presturinn, sr. Magnús Bl. Jónsson, búinn að byggja íbúðarhús, sem ólíklega á „nokkurn maka að hugvitsamlegu og meistaralegu fyrirkomulagi í smáu og stóru."

Í annan stað telur biskup peningshúsin engu snilldarminni byggingu, öll úr steinsteypu í einni hvirfingu, þar í 1800 hesta hlaða. Í þriðja lagi nefnir biskup ræktunina, 12 dagsláttur nýplægðar í örreytis móinn, bíðandi, ásamt meiru, sáningar á næsta vori. Segir biskup, að sér hafi dottið í hug að hér væri i byggingu verulegur herragarður i fullri líkingu við herragarða í þjóðmenningarlöndum, „til gagns og sóma og fyrirmyndar lýð og landi”.

Segja má sem svo að steinsteypa hafi tekið við af torfi sem byggingarefni húsa víðast hvar í sveitum landsins fyrir meira en öld síðan. Nú er svo komið að sú byggingarlist er að hverfa af yfirborði jarðar með álíka hraða og torfbæirnir á fyrri hluta 20. aldarinnar.

Eins og einhverjir hafa áttað sig á þá hefur höfundur þessara síðu einstakt dálæti á steypu. Mér hefur því verið hugleikið, nokkuð lengi, fyrsta steinsteypta húsið sem ég kynntist, enda kannski ekki undarlegt þar sem ég var viðloðandi það hús fyrstu 10 ár ævinnar. En þetta hús heitir Jaðar og er í Vallanesi á Héraði.

Hér á síðunni s.l. vor var ótæpilega vitnað í Endurminningar sr Magnúsar Blöndal Jónssonar, en það var einmitt hann sem byggði Jaðar í Vallanesi. Við lestur endurminninga sr Magnúsar hélt ég að mætti fá glögga lýsingu af þessi mikla byggingarafreki. Íbúðarhús og öll útihús eru steinsteypt á tímum sem þurfti að flytja sementspokana á hestum frá höfn við sjó yfir fjöll langt inn í land.

Að vísu stendur Jaðar skammt frá bökkum Lagarfljótsins svo vel má vera að eitthvað af byggingarefninu hafi verið flutt síðasta spölinn á bátum upp Fljótið. Ég var sem sagt með það í huga að fræðast um byggingarsöguna á Jaðri þegar ég las endurminningarnar og byrjaði á byrjuninni, því mér þótti rétt að kynnast manninum frá bernsku sem þetta afrek vann.

En viti menn! -eftir 700 síðna lestur var ekkert um uppbygginguna á Jaðri. Þetta er ekki vegna þess að sr Magnús hafi ekkert um hana skrifað, heldur vegna þess að þeir sem gáfu út endurminningarnar, árið 1980, ákváðu að stoppa við aldamótin 1900. Þó einungis 2/5 væru óútgefið, þá kemur fram í eftirmála, að þar hafi mest verið framkvæmdamál og minna áhugavert veraldarvafstur.

Einn frændi minn, sem heimsótti mig í sumar og ólst upp á Jaðri, sagði mér að vísu að í óútgefnu efni væri mun fleira en óáhugavert veraldarvafstur. Þar væri óþverrinn, auk uppbyggingarinnar á Jaðar. En útgefnar endurminningar sr Magnúsar sagði hann að væru einhverjar áhugaverðustu endurminningar sem hann hefði á ævinni lesið og það óútgefna væri örugglega ekki óáhugaverðara en það sem komst á prent.

Og get ég tekið undir það að endurminningarnar eru einstakar. Þær fara um mest allt land, frá Eyjafjöllum í Hrútafjörð, þaðan í Dali og norður í Ísafjarðardjúp, úr Djúpinu í Breiðafjörðinn þaðan til Reykjavíkur áður en þær enda snubbótt austur á Héraði. Einlægari og betur orðaðar frásagnir af lífi og störfum í íslenskum sveitum frá seinni hluta 19. aldar eru tæplega til á prenti.

Ég ætla samt að gera steypunni á Jaðri fátækleg skil hér á síðunni. Sumstaðar í endurminningunum komu fram örlitlar upplýsingar um uppbygginguna á Jaðri. Sr Magnús var með umdeildari mönnum á Héraði á sinni tíð og má kannski segja að svo hafi verið allt fram á daginn í dag. Allavega hefur nafni hans frekar verið haldið til hlés þegar framfaramála Héraðsins í upphafi 20. aldar er getið. Meira er um spaugilegar sögur honum tengdum.

Jaðar er nýbýli frá Vallanesi, formlega stofnað 1918, en farið að byggja upp á því íbúðarhús og útihús fyrr, eða á árunum 1909-1915. Stofnandi var sr Magnús Blöndal, og keypti hann landið, en seldi Kirkjujarðasjóði aftur við brottflutning árið 1925. Hann ræktaði mikið, byggði og bjó stórt. Býlinu fylgdi þriðjungur Vallaneslands og nær bæði austur í Grímsá og vestur í Lagarfljót.

Íbúðarhúsið er úr steinsteypu, stofuhæð á háum kjallara, portbyggt með 2 kvistum. Tveir steyptir veggir ganga þvert í gegnum húsið upp í hanabjálka sinn hvoru megin við kvistina. Stærð hússins er 13,70x9,60 m, vegghæð á kjallara 2,70 m, á stofuhæð 3 m og porthæð 1 m, en rishæð frá porti og upp í mæni 4,50 m. Á kjallara eru 14 gluggar úr járni, á stofuhæð 16 gluggar úr tré, á lofti 12 gluggar, og á hanabjálka 4 kringlóttir járngluggar og 6 þakgluggar. Útveggir í kjallara eru 14 tommur á þykkt, veggir ofan á kjallara 11 tommur og milli þverveggir 2,9 tommur.

Magnús Blöndal JónssonSéra Magnús Blöndal Jónsson kemur inn á það í endurminningum frá bernsku árum sínum hversu dýr séu skynug enda sat hann oft yfir kindum sem drengur. Þegar hann segir frá því hvers hann varð áskynja þar, tekur hann einnig sem dæmi hvernig talað var við dýr þegar byggingaframkvæmdir stóðu yfir á Jaðri

“Því læra börn málið að það er fyrir þeim haft, segir máltækið. Það þarf að tala við hundana og láta þá skilja hvað orðin tákna alveg eins og börnin. Og það er alveg ótrúlegt þeim, sem ekki hafa reynt, hve næmir þeir eru og fljótir að skilja. Áður var mér þetta alls ekki ljóst fremur en öðrum, þangað til ég þreifaði á af tilviljun, í Vallanesi, þá orðinn fjörutíu og sex ára gamall.

Þá var ég að byggja nýbýlið Jaðar. Aðal smiðurinn við bygginguna, sem var úr steinsteypu, var Guðmundur Þorbjarnarson múrarameistari. Lék hann sér að því, eftir mötun á máltíðum, að kenna dálitlum hvolpi nýsloppnum af spenanum ýmsar smá-hundakúnstir. Allt þetta gerði hann með því að tala við hvolpinn og lét hann jafnframt skilja hvað hann ætti að gera.

Þetta var þolinmæðisverk mikið fyrst í stað, meðan hvolpurinn var mjög lítill. En furðulegt var hve ört honum óx viska með aldri. Þegar Guðmundur var að finna að við hann, kallaði hann hvolpinn ávalt “Strák”, og það nafn festist við hann, enda hélt hann því meðan hann lifði. (Svo heldur Magnús áfram að segja frá málskilningi Stráks og hvernig hann fylgdi honum á ferðalögum) (I bindi bls 166)

Jafnvel nautheimsk nautin hlýða tali manna, ef þeim er kennt að skilja orðin. Þegar ég var að byggja upp hinar miklu steinbyggingar á nýbýlinu Jaðri í Vallanesi, var steypusandinum ekið neðan frá Lagarfljóti.

En leiðin var öll á fótinn og hallinn all-verulegur á kafla. Reyndist það ofraun dráttarhestunum mínum, vönum bæði vögnum og plógi, að draga kerruna þarna upp á móti nema með litlu sandhlassi, að hálfgerð verkleysa varð og allt of mannfrek. Hugkvæmdist mér þá það snjallræði að taka úr básnum þrévett naut, æfa það lítið eitt fyrir léttum drætti á nesinu utan við túnið, og setja það svo fyrir kerruna.

Var byrjað með léttingshlassi þó ekki minna en hestarnir höfðu dregið. Var svo smá þyngt á bola. Á þriðja degi ók hann fullri kerru sands. -En þá var hann jafnframt orðin fullæfður í því, að hlýða orðunum: “Fram – Bakk – Hægri – Vinstri.” Aldrei þurfti að blaka við bola með svipu eða keyri. Fleira var ekki reynt að kenna honum. Vinnan var einhæf. Þess þurfti ekki. (I bindi bls 170)

Það má segja að þessar fátæklegu upplýsingar um málskilning dýranna séu þær einu sem segja frá uppbyggingu mannvirkjanna á Jaðri. Ef ekki kæmu til nokkrar setningar þar sem séra Magnús fer yfir viðhorf mótstöðumanna til sín. En Magnús mátti búa við klofinn söfnuð alla sína presttíð í Vallanesi og var meir að segja fríkirkja reist á þeim árum að Ketilsstöðum gegnt Vallanesi.

Þegar sr Magnús gerir grein fyrir því viðhorfi, sem forkólfar fríkirkjusafnaðarins höfðu til hans, segir hann frá heimsókn sunnanmanna á Austurland, sem tóku land á Djúpavogi og fóru landveg á Seyðisfjörð í veg fyrir strandferðskipið, til að kynnast Héraðinu. Þeir stoppuðu á Ketilsstöðum og höfðu orð á stórhuga uppbyggingu prestsins í Vallanesinu á Jaðri og fannst mikið til koma, enda blasir Vallnesið við af hlaðinu á Ketilsstöðum.

Þar kom til tals að presturinn hlyti að vera mikill verkmaður því þeir hefðu heyrt að hann hefði vinnufólk, sem öðrum hefði líkað miður, en hefði jafnvel meira en full not fyrir við fleira en búreksturinn. Þá sagði Gunnar Pálsson stórbóndi á Ketilsstöðum; “Það er ekki svo mikið. Þetta er maður sem tekur allstaðar tvo peninga fyrir einn”. Ferðamennirnir spurðust einskis frekar um framkvæmdirnar á Jaðri. (II bindi bls 191).

Séra Magnús virðist sjaldan hafa notið sannmælis sem Guðs maður á Héraði ef marka má almannaróm. Þessi vísa um hann ber þess merki að hann hafi hins vegar þótt slunginn  viðskiptamaður.

Mikið er hvað margir lofa hann,

menn, sem varla hafa séð hann,

skrýddan kápu Krists að ofan,

klæddan skollabuxum neðan.

Heimilisfólk á Jaðri, Magnús og Guðríður efst

Heimilisfólk á Jaðri í tíð sr Magnúsar Blöndal Jónssonar. Hann og Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested, seinni eiginkona, fyrir miðjum dyrum í efstu röð 

Þó svo að upplýsingarnar séu svo að segja engar um það hvernig sr Magnús byggði mannvirkin á Jaðri í útgefnum endurminningum, sem hann lét eftir í handriti af sér gengnum, þá geta þær samt sem áður Guðmundar Þorbjarnarsona múrarameistara. Guðmundur var Akurnesingur tengdur sr Magnúsi fjölskylduböndum. Hann var í Vallanesi þar til sr Magnús fór þaðan.

Guðmundur Þorbjarnarson stóð fyrir mörgum stórbyggingum víðsvegar á Austurlandi, og gat sér hið besta orð fyrir, sá m.a. um múrverk Húsmæðraskólans á Hallormsstað sem byggður var árið 1929. Eins er Guðmundar minnst á Akranesi, þar var hann fengin til að standa fyrir byggingu steinsteyptrar stöplabryggju, sem var byggð í Steinvör árið 1907. Það þótti vanda verk á þeim tíma að steypa í sjó.

Útihúsin á Jaðri voru í tíð sr Magnúsar 26,46x13,86x5,4, að stærð, sumt á tveimur hæðum. Ris 3 m. Í öðrum enda fjárhús á gólfi fyrir 320 fjár; í hinum endanum haughús á gólfi með fjósi og hesthúsi yfir á steinsteyptu gólfi, sem hvíldi á járnbitum. Fjósið tók 14 nautgripi, en hesthúsið 15 hesta. Jötur og básar og skilrúm steypt úr vandaðri sementssteypu með vatnsleiðslu. Við enda þessa húss – við haughúsið – er steypt safnþró 12,6x2,1x3 m, sami veggur undir báðum húsum.

Sagt er að gestkomandi manni hafi eitt sinn verið sýnt fjósið og hann hafi haft á orði, að kýrnar væru smávaxnar. Séra Magnús sagði það sjónhverfingu, þær sýndust litlar, vegna þess að fjósið væri svo stórt. -þær sýndust þá víst ekki stórar undir berum himni; svaraði gesturinn. Til eru fleiri en ein útgáfa af því hverjum er eignað gesthlutverkið, enda hafa kannski fleiri en einn viljað eigna sér orðsnilldina.

Árið 1952 fauk fjósið og var ekki byggt upp aftur, heldur rifið, og á eftir varð hlaðið grasi gróið á steypunni norðan við íbúðarhúsið. Það sem áður var gólf fjóssins varð á eftir flatt torf þak yfir hesthúsi og geymslu þar sem áður var haughús. Ný fjós komu í þess stað. Þau hús voru byggð af tíðarandans toga, en árið 1939 hafði jörðinni og byggingum verið skipt í Jaðar I og II, nýju fjósin og hlöðurnar við þau voru voru að mestu bárujárnsbraggar.

IMG_0427

Íbúðarhúsið og útihúsin á Jaðri. Framan við útihúsin, á milli þeirra og íbúðarhússins, stóð fjósið sem fauk, með haughúsinu og safnþrónni undir, sem glittir í á myndinni

Eins og ég sagði hér að ofan þá var Jaðar eitt fyrsta húsið sem ég kynntist og þar gæti ég þess vegna hafa tekið fyrstu sporin. Björg Jónsdóttir amma mín var eiginkona sr Sigurðar Þórðarsonar, aðstoðarprests sr Magnúsar Blöndal Jónssonar, þess prests sem sameinaði söfnuðinn á Völlum eftir deilur og daga sr Magnúsar.

Björg amma varð ung ekkja á Jaðri, tveggja barna móðir, og réði þá til sín ráðsmann, Magnús Jónsson afa minn, þau gengu fljótlega í hjónaband. Amma og afi bjuggu á Jaðri til ársins 1970, amma þá búin að búa þar í 45 ár og afi í 35 ár. Þó svo að ég hafi oft komið í Jaðar í huganum síðan, þá hefur það aldrei verið nema í draumi sem ég hef gengið þar um gólf í rúma hálfa öld.

Eins og kom fram hér að ofan var Jaðri skipt í tvíbýli árið 1939. Íbúðarhúsið skiptist þannig á milli ábúenda þegar ég man; að amma og afi höfðu hálfan kjallarann og stofu hæðina. Rúna og Þórir höfðu vestari helminginn af kjallaranum og portbyggða efri hæðina ásamt hanabjálkanum.

Þetta þættu ábyggilega svolítið sérkennileg húsakynni að búa við í dag. Stofu hæðin samanstóð af risastóru eldhúsi, búri, salerni, einu löngu svefnherbergi og þremur stórum stofum auk kontórs með innmúruðum peningaskáp. Lofthæðin 3 metrar, semsagt hátt til lofts og vítt til veggja.

Efri hæðin var svo með svefnherbergum og vistarverum sem ætlaðar voru vinnufólki herragarðs með um 30 manna áhöfn. Aðal inngangurinn tilheyrði efri hæðinni og var þar nánast eina rýmið þar sem íbúðarhlutarnir sköruðust lítillega. En ef farið var fram á kontór þurfti að fara í gegnum forstofuna hjá Rúnu og Þóri. 

166217867_1405555819796047_1056103947019118680_n

Magnús Jónsson, afi minn, með Sigurð föður minn, sem fæddist á Jaðri eins og öll börn ömmu og afa. Feðgar (Áskell bróðir og Sigurður) við innganginn fyrir framan eldhúsglugga ömmu. Þó svo að aldrei hafi verið handriði á þessum útitröppum fara engar sögur af slysum þeim tengdum, -amma sá til þess. En öryggiskröfur við nýbyggingar í dag myndu krefjast þess að úrbætur yrðu gerðar hið snarasta

Inngangurinn hjá afa og ömmu var framan við eldhúsgluggann þar sem komið var upp tröppur og gengið inn í bíslag, en inngangurinn í kjallarann var undir dyrapallinum. Fyrst var komið inn í litla forstofu áður en komið var inn í stórt eldhús. Eldhúsið var fyrir miðju húsi við norður hlið. Innangengt var úr eldhúsinu inn á náðhús og niður í kjallara. Austan við eldhúsið var langt og mikið búr þar sem voru bæði skilvinda og strokkur auk annarra gamalla áhalda til matargerðar.

Inn úr eldhúsinu lá leiðin í borðstofu við miðja suðurhlið, sem hafði tvo glugga, borðstofan var notuð til að sofa og sem setustofa en á hátíðum sem borðstofa, nóg pláss var dags daglega við stórt eldhúsborð í eldhúsinu. Í suð-austur horni hússins var betri stofa með tveim gluggum til suðurs og einum í austur. Inn af henni, í norð-austur horn hússins, var svefnherbergi með norður- og austurglugga, sem lá samhliða eldhúsbúrinu, það var kallað langalína.

Úr borðstofunni í vestur voru stórar dyr yfir í stofu, sem var í suð-vestur horni hússins, jafnstór betri stofunni og með sömu gluggasetningu. Þessa stofu notuðu amma og afi sem svefnherbergi á sumrin. Þar höfðum við barnabörnin rúm inni hjá þeim, enda yfirleitt afkomendur í sumarsveit á Jaðri í minni bernsku. Úr þeirri stofu voru dyr í norður yfir í forstofuna fyrir efri hæðina hjá Rúnu og Þóri. Úr forstofunni voru svo dyr inn á kontórinn í norð-vestur horni hússins. Þar var bókasafnið, ásamt mörgum árgöngum af Vikunni í innmúruðum peningaskáp, sem hafði að geima ævintýri Skugga og Gissurar Gullrass. 

IMG_0410

Jaðar á fardögum vorið 1970. Myndin er fengin úr Morgunnblaðsgrein, sem upphafsorð pistilsins eru sótt til

Sr Magnús Blöndal var ekki alinn upp við glæsileg húsakynni, það kemur vel fram í endurminningum hans. Bernskuna hafði hann búið við kröpp kjör í torfbæjum víða um land.  Síðan fá ár í Reykjavík eftir að hann varð fullorðinn, áður en hann fluttist austur á Hérað. Hann kom sem prestur í Þingmúla í Skriðdal, en segir í endurminningunum að Vallanes hafi orðið örlögagavaldurinn í hans lífi. Hann lýsir húskynnunum á Þingmúla og telur þau þá hafa verið dæmigerðan húsakost á Héraði.

Húsaröðin austur að hlaðinu var þá þessi: Syðst austurhlið baðstofunnar, torfveggur og torfþekja, með fjórum gluggum niðri og fjórum uppi, þá bæjardyraþil með dyrahurð og litlum glugga yfir, og loks skemmuþil með tveimur gluggum niðri og einum uppi. Á bak við og vestan við þessi þrjú hús var svo búr, eldhús og fjós, og innangengt í öll frá vesturenda bæjardyra. Voru það hlunnindi fyrir mjaltakonur á vetrum að þurfa ekki út til mjalta, og fyrir alla yfirleitt að hafa innangengt á náðhúsið. En það var fjósflórinn. Þannig var þessu fyrir komið um allt Hérað, eða víðast. (Um húsaskipan í Þingmúla 1891 II bindi bls 141)

Náðhúsið á Jaðri er mér minnistætt, það var rúmgott með handlaug og postulínsklósetti á gólfi. Bali var notaður til baða og við krakkarnir sett upp á stórt koffort til þerris eftir bað. Tíminn var notaður í skeinispappír enda færður í reikningi í kaupfélaginu hvort sem hann var lesin eða ekki. Hátt fyrir ofan klósettið, ca 3m upp undir lofti, var vatnskassi úr postulíni og rör úr honum niður í glósettskálina. Niður úr vatnskassanum hékk keðja með hnúð á endanum, sem tekið var í til að sturta niður.

Úr klósettinu lágu svo rör niður í kjallara og út á hlaðið neðanjarðar, niður í þró innan við haughúsið, sem hafði verið undir fjósinu sem fauk, þangað flaug Tíminn með öllu saman þegar togað var í keðjuna og sturtað niður. þar fyrir framan var grasið grænast og okkur krökkunum strax innprentað að láta þau strá í friði. Þetta fyrirkomulag hefur vafalaust verið eitt það nýstárlegasti á Héraði á sínum tíma og hefði verið gaman að vita hvað gestinum, sem sá litlu beljurnar í fjósinu, hafi þótt um tæknina.

Útihús Jaðar

Útihúsin; safnþró og haughús næst þar sem fjósið sem fauk var ofan á. Fjárhús þar fyrir utan. Fjærst t.v. á mynd sést í fjósið hans afa, steinsteypt með torfþaki og glittir í bragga þar fyrir aftan en í honum var heyhlaða. Fjósið hans Þóris á Jaðri II sést ekki á myndinni það var í bragga utan við fjárhúsin. Hlaða og votheysgryfjur sjást ekki heldur, þær eru aftan við fjárhúsin

Að geta sér þess til hvers vegna sr Magnús Blöndal Jónsson byggði þennan herragarð í búsældarlegu Vallanesinu væri efni í mun lengri pistil, en sennilega má allt um það finna í óútgefnum endurminningum. Jaðar, sem tvíbýli, var engin kostajörð sem slík. Hús stórt og óhentugt til íbúðar, ásamt því að útihús voru í belg og biðu. 

Geta má sér til, þegar  hugmyndin kviknaði að herragarðinum, að þá hafi verið tímar mikilla þjóðfélagsbreytinga á Íslandi, þegar sveitir landsins breyttust úr torfi í steypu. Þá hafi sr Magnús séð fyrir sér stórbúskaparhætti herragarða að erlendri fyrirmynd þar sem margt fólk hefði lífsviðurværi og endastöð, enda voru hvorki atvinnuhorfur né almannatryggingar annarstaðar að hafa en í sveitinni.

Samhliða lestri Endurminninga sr Magnúsar Blöndal Jónssonar togaði Jaðar mig til sín, og gekk ég í sumar frá Vallanesi niður að Jaðri. Þar standa enn uppi flestar þær byggingar sem sr Magnús byggði auk þeirra sem bættust við þegar fjósið fauk, flestar þær sem uppistandandi voru árið 1970.

Það væri mikið verk og kostnaðarsamt að endurreisa steinsteypt útihús herragarðsins á Jaðri, en vel þess virði sögunnar vegna. Glæsilegt er íbúðarhúsið og sómir sér vel. Enn þann dag í dag, ber það vitni um stórhug, -sem á sínum tíma átti sér ólíklega „nokkurn maka að hugvitsamlegu og meistaralegu fyrirkomulagi í smáu og stóru" -allt úr steypu.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

IMG_1280

Íbúðarhúsið á Jaðri sómir sér vel rúmlega aldar gamalt. Húsið samsvarar sér einstaklega vel þrátt fyrir stærð. Heildar gólfflötur hússins, -að með töldum hanabjálka, er um 400 m2. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt, sá sem teiknaði m.a. Húsavíkurkirkju, á að hafa heimsótt Vallanes um það leiti sem hugmyndir að Jaðri voru í býgerð, en sr Magnús mun hafa ráðið um útlit og skipulag húsa

IMG_1287 (2)


100 ára steypa

IMG_4039

Nú fer hver steypan af annarri að komast á þjóðminja stigið. Nýlega var minnst 100 ára afmælis rafstöðvarinnar í Elliðaárdal. Þau eru nú orðin um allt land steinsteyptu húsin sem sjálfkrafa lúta vernd húsfriðunarnefndar við 100 ára aldurinn. En ekki er langt síðan að þar var einungis um innflutt 19. aldar timburhús að ræða sem síðar höfðu verið klædd með bárujárni samkvæmt hugviti landans.

Það má segja sem svo að steinsteypa hafi verið byggingarefni íslendinga á 20. öld, tók við af torfi og grjóti, eftir að það hafði verið byggingarefni þjóðarinnar í meira en þúsund ár. Til eru þeir sem fjargviðrast út í verndun húsa og finnst sjálfsagt að þau víki skilyrðislaust úr vegi fyrir krosslímdum nútímanum sem er að taka við af myglugifsinu. Steinsteypan fái sama sess og torfbærinn í byggingarsögu landsins, sem jarðýtan sá um að varðveita.

Þó ættu allir að hafa í huga að verðmæti gamalla steyptra bygginga er mun meira en bara minjagildið. Í reglugerðafargani nútímans kostar t.d. mikla fjármuni að hanna hús og koma í gegnum byggingaleifaferlið á meðan að endurbætur húsa lúta ekki sömu lögmálum, -enn sem komið er, -þó svo að vissulega láti fræðingar innflutningsiðnaðarins sig dreyma um slíkt.

Á undanförnum árum hefur Jóni og Gunnu verið gert ókleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið með eigin höndum. Sú þróun hefur tekið ótrúlega stuttan tíma og hefur haldist fullkomlega í hendur við fræðinga framleiðslu latínusamfélagsins og vexti víxlaranna. Það sem verra er að húsnæði verður sífellt lélegra og er jafnvel innflutt myglan nú mun svæsnari en sú heimafengna var þegar þjóðin skreið út úr hálfhrundum moldarkofunum í upphafi 20. aldarinnar.

Það var í lok nýliðinnar aldar sem andskotinn hitti ömmu sína og tók fram fyrir hendurnar á Jóni og Gunnu. Nú hefur einnig verið slegið á putta byggingameistaranna þannig að þeirra aðkoma að húsbyggingum er einungis að ábyrgjast kolefnisjafnaða krosslímið formsins vegna, sem flutt er inn CE vottað frá kolakynntri austur Evrópu eða jafnvel stálið, stolið og stælt alla leið úr reykspúandi þrælakistum kommúnistanna í Kína.

Sjálfur hefur síðuhöfundur staðið í steypunni frá því að hann fyrst man, en fyrstu minningarnar eru frá því að foreldrarnir komu sér þaki yfir höfuðið upp úr 1960. Skemmtileg verkefni í steypu ævinnar tengjast mörg hver 20. aldar húsum, verkefni sem lengi vel þótti sjálfsagt að kalla viðhald, sem er nú orðið að skammaryrði í einnota viðhaldsfríum hagvextinum. 

IMG_8299

Algengt er í gömlum steinsteyptum húsum að veggirnir séu ver farnir eftir því sem neðar dregur, en útbyggð þakskyggni hlífir veggjum mikið við veðrun

Eitt slíkt minjaviðhalds verkefni bankaði upp á fyrir nokkru þegar eigendur Vélaverkstæðis Eskifjarðar höfðu samband við MVA, fyrirtækið sem ég starfa hjá, og leituðu eftir aðstoð við að gera við steypta útveggi verkstæðisins og múrhúð. Ég var sendur á staðinn til að skoða verkið og þá rifjuðust upp minningar um mörg skemmtileg viðhaldsverkefni. Þegar steypukallar nutu enn kunnáttu sinnar án afskipta og milligöngu fræðingastóðsins.

Það voru þeir Björgvin Jóhannsson vélvirki, einn af eigendum vélaverkstæðisins ásamt nafna hans og afkomanda, sem ég átti samskipti við. Björgvin hafði auðskiljanlega áhyggjur af kostnaði enda viðgerðin fjármögnuð án opinberra styrkja, eigendur höfðu lagt til hliðar til varðveislu hússins. Ég stakk upp á að við negldum kostnaðinn ekki niður, heldur skildi ég gefa honum tölu í eina hlið hússins, sem ég gæti ábyrgst að ekki yrði farið yfir og svo sæjum við til með framhaldið.

Þegar ég gaf Björgvin upp töluna varð hann að mér fannst undrandi og bætti strax annarri húshlið við verkefni sumarsins svo við gætum tekið frá tíma í tíma. Ég hafði átt hús sjálfur með sambærilegum skemmdum í steypu og voru á Vélaverkstæði Eskifjarðar, en þær voru aðallega til komnar vegna þess að ekki var farið almennt að nota loftblendi í steypu fyrr en á seinnihluta 20. aldarinnar.

IMG_8303

Pólskir vinnufélagar mínir sáu um að framkvæma sérviskuna

Því vissi ég nákvæmlega hvers eðlis skemmdirnar voru og vissi upp á hár hvernig viðgeð yrði framkvæmd með minnstum kostnaði. Aðferðin fólst fyrst og fremst í því að notast við veggina eins og þeir komu fyrir og gera við þá með steypu eins og í upphafi að viðbættu loftblendi. Þá steypu kaupir maður hvorki í pokum né eftir stöðluðum uppskriftum, heldur er um nokkurskonar gjörning að ræða, sem spilast af fingrum fram á staðnum.

Þær viðgerðir sem framkvæmdar voru á Vélaverkstæði Eskifjarðar fóru fram vorið 2018 og var lokið þá, þrátt fyrir upphaflega rýmri tímaáætlun. Húsið átti að skarta sínu fegursta 2021 á 100 ára afmælinu. Kostnaður var vel innan upphaflegrar áætlunar þannig að sumarið 2019 fengu þeir Björgvinir okkur aftur og þá til að lagfæringa í kringum glugga á yngri byggingu verkstæðisins, sem fólst í að breyta gluggum þess til samræmis við eldri hluta. Þeir nafnarnir smíðuðu nýja járnglugga en gluggar gamla hlutans eru úr steyptu pottjárni.

IMG_4092

Járn gluggi á nýlegri hluta verkstæðisins

Vélaverkstæði Eskifjarðar er enn eins og það var í árdaga, innandyra eru reimdrifnir rennibekkir og tæki sem voru þau fullkomnustu þegar húsið var byggt. Við Björgvin áttum margt áhugavert samtalið um starfsemina, sem fram fór í húsinu. Ég ætla nú að segja frá þremur húsum sem ég hef átt því láni að fagna að fá að taka þátt í að varðveita.

 

Vélaverkstæði Eskifjarðar er nú 100 ára þ.e.a.s. húsið, en það var Friðbjörn Hólm sem lét byggja húsið árið 1921. Það var annað fullkomnasta verkstæði sinnar tegundar á Austurlandi á sínum tíma, einungis Vélsmiðja Jóhanns Hanssonar á Seyðisfirði var talin betur búin, en í því húsnæði var Tækniminjasafn Austurlands, sem varð aurskriðu á Seyðisfirði að bráð í desember s.l.

Friðbjörn Hólm var aðfluttur á Eskifirði kom frá Seyðisfirði og hafði starfað hjá Jóhanni Hanssyni. Rekstur vélsmiðjunnar gekk brösuglega fyrstu árin og leisti Landsbankinn húsnæðið til sín ítrekað. Borgfirðingurinn Sigurður Jónsson, hinn kunni brúarsmiður frá Seljamýri í Loðmundarfirði, segir þetta um veru sína hjá Friðbirni Hólm á Eskifirði.

100 ára

“Á Eskifirði var ég í rúm þrjú ár og lærði geysilega mikið. Hins vegar var ég ekki í formlegu iðnnámi þarna því Friðbjörn Hólm hafði ekki réttindi í vélsmíðum þrátt fyrir mikla reynslu í faginu og þrátt fyrir að hann væri frábær iðnaðarmaður. Þegar ég kom til Eskifjarðar var verkstæðið í skúrbyggingu en verkstæðishúsið var í byggingu og tekið í notkun með fullkomnustu vélum 1921. Helstu verkefni verkstæðisins á Eskifirði voru viðgerðir á vélum stærri mótorbátanna. Eigendur minni báta voru margir sjálfbjarga að miklu leyti hvað áhrærði daglegt viðhald. Ég bjó í kvistherbergi verkstæðishússins á Eskifirði og var yfirleitt í fæði hjá Friðbirni. Hann var afbragðs húsbóndi og það fór vel á með okkur. Hann sýndi mér líka mikið traust því ég varð fljótlega staðgengill hans á verkstæðinu. Annars gekk rekstur verkstæðisins erfiðlega frá upphafi og efnahagur fyrirtækisins stóð ekki í neinum blóma.”

Þó svo að ýmsir eigendur væru að Vélaverkstæði Eskifjarðar í gegnum tíðina voru seinni tíma eigendur og starfsmenn oft tengdir upprunalega verkstæðinu og upphaflegu eigendum s.s. Friðbirni Hólm og Símoni Jónsyni kaupmanni sem átti það um tíma. Árið 1934 lét Símon setja upp dráttarbraut við vélsmiðjuna sem var sú best búna á Austurlandi á þeim tíma. Var hún í notkun til ársins 1960.

IMG_4098

 Enn má sjá leifar dráttarbrautarinnar

Árið 1980 eignuðust þeir Björgólfur Kristinsson vélvirki, Björgvin Jóhannsson vélvirki, Sveinn Friðriksson vélvirki og Skúli Sigurðsson plötu og ketilsmiður verkstæðið og ráku það í hlutafélagi undir nafninu Vélaverkstæði Eskifjarðar þar til rekstri þess var hætt.

IMG_4095

Gamall gluggi úr járnsteypu í upphaflega verkstæðishúsinu

 

Hvammur Höfn Hornafirði var byggður 1926 af þeim mágunum Sigurði Ólafsyni frá Bæ í Lóni og Jóni Jónsyni Brunnan frá Brunnum í Suðursveit. Húsið nefndu þeir Skálholt en manna á meðal var það alltaf kallað Hvammur. Framan við húsið var í upphafi bátabryggja og vestur af henni myndarlegt sjóhús. Hvammurinn var m.a. gistihús og fyrsta flugafgreiðslan á Höfn. Eftir að Hótel Höfn tók til starfa árið 1967 var húsið notað sem verbúð fyrir farandverkafólk þá oft kallað Skakkinn en eftir það stóð húsið autt árum saman.

Hvammur Höfn

Hvammur í baksýn, á tímum Sigurðar Ólafssonar og Jóns Brunnan, á þeim tíma þegar Hornafjarðarfljót rann um höfnina á Höfn, áður en eiðið var gert út í Ósland

Einar Bragi Sigurðsson segir m.a. svo frá nokkrum dögum sem hann dvaldi í Hvamminum 11 ára gamall árið 1932. "Á þessum tíma kynntist ég heimilinu í Hvamminum. Heimilunum væri þó réttara að segja, því þetta var allt í senn einkaheimili, barnaheimili, sjómannaheimili, elliheimili, dagheimili þorpsbúa sem komu til að sýna sig og sjá aðra og gistiheimili hálfrar sýlunnar auk langferðagesta innlendra sem erlendra”.

Hvammur I

 Hvammurinn vorið 1989, húsið var nánast rústir þegar Sveinn Sighvatsson hóf endurbætur

Árið 1989 var Hvammur tekin til endurnýjunar lífdaga eftir að hafa verið í niðurníðslu árum saman. Sveinn heitin Sighvatsson hússmíðameistari á Höfn hafði þá eignast húsið og bað mig um að koma á Höfn og hitta sig, því hann hugðist láta húsið halda útliti sínu sem steinhús og klæða það að utan með múrkerfi. Stuttu seinna seldi hann húsið Tryggva Árnasyni sem rak Hafnarbúðina og Jöklaferðir.

Það varð úr að sumarið 1989 unnum við starfsmenn Mallands á Djúpavogi við að klæða Hvamminn að utan með þýsku STO múrkerfi fyrir Tryggva auk þess að sjá um steypuvinnu á Stokksnesi fyrir Svein Sighvatsson þar sem hann byggði ratsjárstöð fyrir NATO. Eftir að Hvammur var tekin í endurnýjun lífdaga hefur verið rekið þar Gistihús og hef ég gist margar nætur í þessu merkilega húsi.

Hvammur III

 Það efast engin um það í dag að Hvammurinn átti skilið að ganga í endurnýjun lífdaga, bæði vegna notagildis síns í nútímanum og sögu fortíðarinnar. Í höfninni skammt fyrir utan húsið má oft sjá Sigurður Ólafsson SF 44 liggja við landfestar

 

Ásbyrgi, fyrsta húsið sem ég eignaðist, keypti ég árið 1986. Það er á Djúpavogi, byggt 1947 af Birni Gústafssyni og Rakel Jónsdóttir, sem þá voru um tvítugt. Þegar þau fluttu úr húsinu til Akraness árið 1963 höfðu þau eignast 6 börn. Margir höfðu búið í húsinu eftir Birni og Rakel, lengst af Kristján og Antonía ættforeldrar margra Djúpavogsbúa, sem kennd voru við Garða. Þegar ég eignaðist húsið var það farið að líta verulega upp á landið en samt í notkun sem verbúð fyrir farandverkafólk.

Ásbyrgi I

Ásbyrgi vorið 1989

Margir vildu meina að húsið væri ónýtt þegar ég keypti það og best færi á að brjóta það niður og nota lóðina annað. Steyptir veggir voru illa farnir, gluggar ónýtir og múrhúð víðast hrunin. Þegar ég leitaði fjármögnunar í Landsbankanum á Djúpavogi var húsið ekki talið lánshæft. Það kom ekki til þessa að fjármagna þyrfti endurbætur í gegnum banka. Fljótlega eftir að þær hófust árið 1989 kom fram áhugi á að kaupa húsið uppgert. Rifið var innan úr húsinu, fyllt í kjallara þar sem hafði verið olíukynding.

Við endurgerð innanhúss var fyrra skipulag látið halda sér að mestu en þó var einu litlu herbergi bætt við stofu, forstofa breikkuð og höfð opin inn í húsið til að auka birtu og rími. Eins var baðherbergi stækkað um 20-30 cm á báðar hliðar á kostnað eldhúss og hjónaherbergis. Útveggir eingraðir og múrhúðaðir á hefðbundinn hátt. Milliveggir hlaðnir úr vikri og múrhúðaðir. Allt rafmagn - og vatnslagnir endurnýjaðar. Út úr þessu fékkst lítið fjögra herbergja einbýlishús.

Fyrri part sumars 1989 var húsið gert upp að utan, múrhúðað og skipt um járn á þaki. Steypan í útveggjum hafði valdið mér heilabrotum, og þá hvort betra væri að klæða húsið og einangra að utan. Niðurstaðan varð sú að gera við steypu og múrhúða húsið með hrauni, sem sagt hefðbundið verklag á steinsteyptum útveggjum fyrri hluta 20. aldar. Sökklar og fyrrum kjallaraveggir voru einangraðir og klæddir að utan með STO múrkerfi til að fá einangrun fyrir gólfplötu. Allt steypuefni var fengið úr næstu fjöru eins og venjan var þegar húsið var byggt.

Ásbyrgi II

Ásbyrgi Sumarið 1989

Sumarið 1989 komu þau hjónin Björn og Rakel á Djúpavog og bönkuðu upp á hjá mér að kvöldlagi og báðu mig um að sýna þeim húsið, sem var þá komið á loka stig endurbótanna. Ég sýndi þeim það náttúrulega með glöðu geði, en óttaðist satt að segja svolítið að ég hefði breytt húsinu þannig að þeim myndi ekki líka.

Oftar en einu sinni sagði Rakel; „Bjössi af hverju höfðum við þetta ekki svona“, þar var um að ræða baðherbergið sem var stærra og því pláss fyrir þvottavél, en þvottahúsið hafði verið niður í kjallara sem var utangengur . Annað atrið var staðsetningin á eldhúsvaskinum sem var kominn við glugga þannig að Búlandstindurinn blasti við þegar vaskað var upp.

Þegar Rakel var sest út í bíl spjölluðum við Björn í smá stund og hann sagði mér hversu erfitt hefði verið með aðföng og efni þegar húsið var byggt, allt í höftum og skömmtunum skömmu eftir stríð. Þetta vissi ég vel því Siggi í Dagsbrún, sem er rétt hjá, hafði sagt mér að þeir hefðu byggt húsin á sama tíma og upphaflega hefðu þau verið eins. En Siggi sagðist hafa verið betur settur en Bjössi að því leiti að hann hefði haft sambönd austur á Norðfjörð og getað fengið þar eitt og annað tilfallandi í Dagsbrún.

Þó svo að Ásbyrgi hafi ekki verið ætlað langt líf af mörgum þegar ég keypti það þá hefur það þjónað núverandi eigenda í rúm 30 ár og er vel viðhaldið, í alla staði Djúpavogi til prýði og eigenda sínum til mikils sóma.

210619891_10223403725593504_2667753374387361045_n

Ásbyrgi í dag, myndinni hnuplað af facebook síðu Fíu Aradóttur sem hefur verið eigandi hússins frá því árið 1989

Það sem er ánægjulegast við viðgerð gamalla húsa er að kynnast sögu þeirra og allar sögurnar sem maður fær að heyra meðan á viðgerð stendur. Bæði er að eigendur fræða mann um notkun húsanna í gegnum tíðina og oft kemur fólk af götunni til að segja sögur sem tengjast húsinu. Allar þær sögur yrði allt of langt mál að setja í stutt blogg um steypu.

 Stokksnes steypa

Annars var Stokksnes stærsta steypan sumarið 1989

 

Heimildir: Frá eldsmíði til eleksírs - Smári Geirsson / Af mönnum ertu kominn - Einar Bragi.


Útmannasveit

IMG_0661

Hvernig gat þetta gerst á minni vakt, mannsins sem ungur í árdaga spilaði á bassatrommuna í skólalúðrasveitt Árna Ísleifs, á sumardaginn fyrsta; “Blessuð sértu, sveitin mín, sumar, vetur, ár og daga”, dagskipunin var að við elliheimilið yrði bragurinn básúnaður. Að vísu reyndi Árni að kenna mér á gítar, og var ég fengin til að berja trommuna vegna manneklu.

Þennan fyrsta sumar dag 1977 var norðaustan krapa slydda og þegar kom að elliheimilinu hafði fryst. Þannig að ekki varð við það ráðið að blása í lúðra því varir frusu við hljóðfærin. Bassatromman var þá ein eftir til að spila á skaðlaust. En svo þröngt var á heyvagninum, sem notaður var til að flytja sveitina, að ekki náðist sveifla á kjuðann svo í trommunni heyrðist og ég þar að auki orðinn krókloppinn.

Núna eftir að það fór að hlýna í öðrum mánuði sumars -skerplu- sé miðað við gamla tímatalið, hef ég farið sem oftar um Útmannasveit. En það heiti var haft yfir út-Hérað, aðallega Hjaltastaðaþinghá, einnig Hróarstungu og jafnvel Jökulsárhlíð. Um þessar sveitir bruna nú á seinna hundraðinu tímatrektir túristar á leið sinn á Borgarfjörð eystri, gjörsamlega grunlausir um það af hverju þeir eru að missa.

IMG_0620

Útmannasveit á verulega í vök að verjast, eins og svo margar sveitir landsins, og virðist þar haldast í hendur, að eftir því sem tískuorðið sjálfbærni hefur sótt á þá hefur matvæla sjálfbærni farið hrakandi. Er þannig komið að sveitir á Íslandi eiga sér víða varla viðreisnar von. Þær “heilla mig og heim til sín huga minn úr fjarlægð draga” ekki svo að ég sé að leita að jarðnæði nú á gamals aldri.

Heldur eru það torf og steypa sem hugann draga. Í sveitinni náði íslensk byggingarlist að blómstra. Mold og grjót úr næstu mýri og urð í þúsund ár, -ásamt reka af ströndinni. Steypumölin úr næsta mel eða fjöru, alla síðustu öld, ásamt sementi og innfluttu bárujárni, að ógleymdri hugmyndaauðgi fólksins, -sem óðum hverfur nú allt í svörðinn.

Það má því ekki seinna vera að berja þá tíma augum þegar fólk fékk að byggja af hjartans list án strangra reglugerða, ég set hérna inn nokkrar myndir sem sýnishorn.

 

IMG_0628

Snilldarlega hönnuð steinsteypt beitarhús frá Ásgrímsstöðum í Hjaltastaðarþinghá, þar sem blandað hefur verið saman helstu byggingarefnum íslenskrar hefðar

 

 IMG_0637

Bárujárnið hefur verið notað til uppsláttar steypumóta eins og mótatimbrið áður en þða var notað í þakið

 

IMG_0649

Torfið hefur verið lagt á bárujárnið til einangrunar

 

 IMG_0665

Dæmi um nýtni 20 aldar bóndans, brynningastampur í fjárhúsum gerður úr 200 líta olíutunnu sem skorin hefur verið í tvennt

 

IMG_0495

Fjárhús á Galtastöðum fram, gott dæmi um alda gamla byggingahefð

 

 IMG_0486

Útihús á Galtastöðum fram, hlaða og fjárhús, sem voru í notkun fram á þessa öld

 

IMG_0482

Galtarstaðir fram í Hróarstungu dæmigerður 19.aldar alþýðu-torfbær á Héraði með fjósbaðstofu, búið var í bænum til 1960, er nú í eigu Þjóðminjasafns Íslands

 

IMG_0692

Hóll í Hjaltastaðarþinghá

 

IMG_0693

Steinsteypt 20. aldar fjárhús á Hól, steypumölin var fengin svo til á staðnum

 

IMG_0673

Bændur víluðu ekki fyrir sér að múra smáskreytingar í kringum glugga

 

IMG_0688

Rekaviðar þaksperra á Hól, sennilega af Héraðsandi, sem eru rétt utan við bæinn

 

IMG_0519

Geirsstaðakirkja við Litla-Bakka í Hróarstungu, sem talin er hafa verað svona um kristnitöku, tilgátuhús gert samkvæmt ævafornri byggingahefð landnámsmanna. Í túninu eru taldar leynast  fornminjar, skálabyggingar og fleiri mannvirkja frá landnámstíð


Bakkabræður komnir með rörahlið á Þjóðminjasafnið

IMG_3644

Það verður ekki betur séð en Bakkabræður ráði orðið lögum og lofum á Þjóðminjasafninu og séu farnir að safna rörahliðum og girðingastaurum. Síðuhöfundur hefur nú um tveggja ára skeið gert grein fyrir vorheimsókn að einu fjósbaðstofu landsins í eigu þjóðminjasafnsins hér á blogginu. Eftir vorheimsóknina 2019 var lögð fram spurningin; eru Bakkabræður komnir á Þjóðminjasafnið? Eftir vorheimsóknina þessa árs var velt vöngum yfir arfleið Bakkabræðra.

Bæði árin kom rörahlið við sögu. En þannig er að á Galtastöðum fram er gamall torfbær að hruni kominn þó svo að hver innviðauppbyggingafjárveitingin af annarri fari til viðhalds á bænum ár eftir ár stendur þar varla orðið steinn yfir steini. En aftur á móti hefur forláta rörahlið verið flutt út í mýri hátt í kílómeter frá bænum og vegurinn orðinn því sem næst tvíbreiður að rörahliðinu. Þeir sem til þekkja vita að Galtastaðir er eini bærinn við þennan vegafleggjar og að þar býr ekki nokkur hræða.

Um helgina fékk ég hugboð um að fara út í Galtastaði og kanna hvort og hvernig framkvæmdum sumarsins miðaði því mér til ánægju tók ég eftir því í vor að sinan hafði verið reitt af bæjarstöfnunum og átti því allt eins von á að til stæði að koma steinum sem oltið hafa úr veggjum aftur á sinn stað. Þegar ég beygði inn á afleggjarann heim að bænum jókst ánægjulegur spenningurinn því að mikil umferð vinnuvéla hafði greinilega farið um veginn og ég sá á færi hylla í skurðgröfu ofan við bæ og að heimatúnið hafði verið slegið í sumar.

Til að gera langa sögu stutta þá er nákvæmlega ekkert búið að gera í gamla bænum frá því sinan var reitt af bæjarstafninum, en það er búið að tengja rörahliðið við girðingu sem liggur út og suður mýrarnar, langt inn fyrir bæ, þar vinkilbeygir hún í vestur klesst upp í hæðstu klettabrúnir, þaðan norður og niður að norðurenda rörahliðsins. Nú er gamla girðingin, sem girt var fyrir örfáum árum síðan, í kringum bæinn og heimatúnið, með fínum hengilás á hliðinu, orðin eins og krækiber í helvíti inni í nýju girðingunni.

Fjósveggurinn norðan undir baðstofunni er að hruni kominn sem fyrr og flaksandi bárujárnsplötur brosa upp í norðanáttina þar sem torfið hefur sópast af þakinu. Það er ekki ólíklegt að Þjóðminjasafnið þurfi ekki að hafa frekari áhyggjur af fjósbaðstofunni sinni eftir veturinn ef fer sem horfir. Kæmi ekki á óvart að safnið myndi eftirláta Skórækt ríkisins girðinguna og rörahliðið svo að fela megi öll verksummerki í órækt Síberíulerkis og Alaskaaspar.

Einhvertíma var metnaður fyrir þessari fjósbaðstofu á Galtastöðum, ef eitthvað er að marka þjóðminjavörð. Í Morgunnblaðsgrein sumarið 2010 fer hún yfir byggingasögulegar perlur og forgangsröðun þeirra. Þar segir að á Galtastöðum fram í Hróarstungu sé varðveitt einstakt alþýðubýli af Galtastaðagerð og unnið sé að viðgerð torfhúsanna. Nú eru liðin rúm tíu ár og ennþá er unnið að því að hægt sé að vinna að viðgerð, sennilega meiningin að girða rollurnar það rækilega frá bænum að þær éti ekki viðgerðirnar áður en næst að reita af þeim sinuna.

En af hverju er torfhús með fjósbaðstofu svona merkilegt? Þjóðminjasafnið segir sjálft á heimasíðu sinni: Á Galtastöðum fram er lítill torfbær frá 19. öld af svokallaðri Galtastaðagerð, sem hvorki telst til sunnlenskrar né norðlenskrar gerðar torfbæja, heldur á rætur í fornugerð og í stað þess að baðstofa liggi samsíða öðrum framhúsum, snýr hún, torfklædd, samsíða hlaði. Í bænum er fjósbaðstofa, reist 1882 af Jóni Magnússyni snikkara, þar sem niðri er fjós en baðstofa er uppi yfir og nýttist ylurinn frá kúnum til húshitunar. Bærinn er lokaður fyrir almenning.

Það má ætla að þjóðminjasafnið hafi tekið við bænum 1976 vegna varðveilugildis hans, og til að sýna almenningi, sem var samviskusamlega gert fram á þessa öld á meðan ábúendur voru á Galtastöðum. Árið 1978 var bærinn lagfærður og endurhlaðin þar sem þess þurfti af hleðslu meistaranum Sveini Einarssyni frá Hrjót. Síðan hafa veggir og innviðið bæjarins fengið sáralítið viðhald. Til þess að fólk geti gert sér grein fyrir hvernig var að búa við fjósbaðstofu er gott að bærinn væri áfram til sýnis, því hann er einstakur á Íslandi.

 Fjósbaðstofa Skaftafellssýslu

Þegar Daniel Bruun ferðaðist um Suðausturland upp úr aldamótunum 1900 vakti Austur-Skaftafellssýsla sérstaka athygli hans vegna húsakosts íbúanna og þá sér í lagi fjósbaðstofurnar, sem eru nú flestar endanlega horfnar:

„Þegar farið er um Skaftafellssýslur, einkum þó Austursýsluna, tökum vér brátt eftir að byggingarlagið er með miklu fornlegri svip en annars staðar á landinu. –Fyrrum bjó fólk á vetrum á fjósloftinu, og sums staðar er það svo enn. Fjósloftið var baðstofan og rúmin í röðum meðfram veggjum. Sums staðar var rúmaröðin aðeins ein og þá á miðju gólfi. Svo lágt var undir loft hjá kúnum, og er kannski enn, að þær ráku hausana oftsinnis upp í baðstofugólfið.

Stundum var þilgólfið aðeins í miðri baðstofunni þar sem rúmin stóðu, en opið meðfram veggjum. Þar leitaði hlýja loftið óhindrað upp frá fjósinu, og kýrnar gátu reist höfuðin dálítið. –Hlýtt var í baðstofunni á vetrum af kúnum í fjósinu, en á sumrum voru kýrnar úti. Dæmi voru til þess að bændur, sem reist höfðu nýja baðstofu í sérstöku húsi, fluttu aftur inn í fjósbaðstofuna. –Það var títt í Skaftafellssýslum að búa í öðru húsi á sumrum en vetrum (sumarhús og veturhús). Slíkur siður þekktist raunar víðar.“ (Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár)

Helst er nú að finna frásagnir um daglegt líf í fjósbaðstofum frá gamalli tíð í þjóðsögunum. Hér eru brot frásagna af draugnum Eyjasels-Móra frá Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð ca 1805: „Það var einn dag, að Þóra Hálfdanardóttir var niðri í fjósi að lesa í lærdómskverinu, því að hún átti að fermast á vori komanda. Sá var þá siður víðast, að börn lærðu kverið í fjósi sökum þess, að þar nutu þau bæði næðis og hlýju. Er Þóra hafði verið þar um stund, heyrði fólkið uppi í baðstofunni angistaróp, og er að var komið, var Þóra örend. Ekki virtist nokkur vafi á því, að barnið hafði verið kyrkt til bana.“

Önnur frásögn frá Ásgrímsstöðum í Hjaltastaðaþinghá ca 1830: „Ásmundur hét maður ,Ísleifsson. Hann bjó á Ásgrímsstöðum, en á móti honum á hálflendunni bjó Sigurður, sonur Jóns í Eyjaseli. Katrín hét kona Ámundar, greind kona og skörungur mikill. Eins og margar konur og ekki síst á þeim tímum bar hún mikla umhyggju fyrir kúnum. Eitt kvöld er hún að hlusta eftir, hvort hún heyri nokkurn óróa í fjósinu, en kýr voru þar um slóðir tíðast undir palli. Undrast hún, að ekkert heyrist, að þær jórtri, sem þeirra var vani. Snarast hún þá niður og svipast um í fjósinu. Saknar hún vina í stað, því kýrnar eru horfnar. Vekur hún nú Ásmund, og þau fara að svipast um í bænum eftir beljunum. Innangengt var úr eldhúsi í töðu heyið. Fara þau þangað, og stóð þá eldri kýrin við stálið og kvígan við hjágjöfina.“ (Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar)

Til eru lýsingar frá seinni tíma á því hvernig fjósbaðstofa var innréttuð. Lýsing Hrólfs Kristbjörnssonar er í bókinni Skriðdælu, á bænum að Þuríðarstöðum þegar hann var þar sem ársmaður 1899 þá 13 ára gamall:

„Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju.“

Árbók Þingeyinga 2012 hefur að geima einstaklega ítarlega og hlýja frásögn eftir Kristínu Helgadóttur af gamla torfbænum að Gvendarstöðum í Kinn. Kristín ólst upp í gamla bænum og gengur umhverfis hann og í gegnum með lesendum, þegar hún lýsir bæði húsaskipan og lífinu innandyra. Á Gvendarstöðum var fjósbaðstofa fram undir 1948 og leifi ég mér að grípa hér og þar niður í frásögnina þar sem Kristín minnist á fjósið og baðstofuna:

„Í fjósi voru fjórir básar og ævinlega einn eða tveir kálfar á tröðinni. Pínulítil gluggabora var til hliðar við innsta básinn og snéri í austur. Básarnir voru með hellum aftast og flórinn var hellulagður. Þennan flór þurfti að moka daglega, þá var mokað upp í fjósbörurnar sem voru kassi með kjálkum á báðum endum. Bræður mínir báru þær á milli sín, út úr fjósi og gegnum gamla eldhús, fram öll göng og bæjardyr, út og niður fyrir varpann. Þar var fjóshaugurinn og ekki aldeilis sama hvernig hann var borinn upp. Þetta var löng leið og erfitt. Þessa sömu leið fóru kýrnar kvölds og morgna þegar farið var að láta þær út þar til þær fóru í sumarfjósið sem var lítið fjárhús úti á túni ofan við götuna.

Næst held ég að við komum inn í baðstofu. Baðstofuinngangurinn var þykktin á veggnum, síðan komu sex tröppur, tvær þær neðstu voru steintröppur, síðan fjórar trétröppur. Baðstofu hurðin var miðja vegu, þrjár tröppur ofan við og þrjár neðan við hurð. Skarsúð var í baðstofu og tveir bitar þvert yfir en vel manngengt undir þá. Þrír fjögurra rúðu gluggar sneru austur og tveir í vestur. Þegar upp var komið var rúm hægra megin við uppgönguna, það sneri öðrum gafli í uppgöngu en hinn nam við þilið. Síðan komu þrjú rúm enda við enda undir austurhliðinni. Bil var á milli þessara þriggja rúma og þess sem var við stafninn.

Á veturna var vatn handa kúnum borið í gegnum eldhúsið og gamla eldhúsið inn í fjósið sem var undir baðstofunni. Það voru fjórar kýr í fjósi og þeim þurfti að brynna kvölds og morgna og nýborinni kú oftar. -, , , , maður kveið fyrir haustrigningunum. Svo var gott þegar snjórinn kom og setti vel að húsunum, þá hlýnaði líka inni, samt man ég ekki eftir að væri mjög kalt í baðstofu, kýrnar hafa bjargað því , , ,“

Hvernig varðveisla einu fjósbaðstofu þjóðminjasafnsins varð að rörahliði og tvöfaldri girðingu utan um hálfhruninn torfbæ er verðugt rannsóknar efni. Ef skyggnst er um á gúggul má finna ýmislegt um verkefnið. Í stjórnartíðindum 2018 eru 8.250.000 eyrnamerktar til varðveislu bæjarins, árið sem rörahliðið birtist. Og stóð síðan í tvö sumur eitt og yfirgefið ásamt tvíbreiðum malarvegi úti í mýri. Árið 2019 má sjá að 9.250.000 eru eyrnamerktar Galtastöðum en ekki lengur vegna viðhalds bæjarins heldur deiliskipulags bílastæða, göngustíga og girðinga. Það er helst að manni detti í hug að Bakkabræður séu komnir í nútímann og loksins búnir að læra hvernig á að fylla út umsóknir um fjárframlög með exel.

IMG_6685


Saga úr steypunni

Steypuvinna

Mér varð það á að firrtast við vinnufélaga mína í byrjun júní yfir því að þeir skyldu rífa ofan af máríerlunni. Það þyrfti alveg einstaka fákunnáttu til að geta ekki séð smáfugl í friði. Telja sig þurfa að hefja byggingarframkvæmd á fleiri hundruð fermetra viðbyggingu, akkúrat á þeim fáu fersentímetrum sem hreiður máríerlunnar stæði.

Það var bara glott við tönn og spurt; heldurðu að hún liggi þá ekki á fúleggjum núna? -því þessi litli fugl kom til baka um leið djöfulganginum linnti í lok dags og lá á hreiðrinu í þokusúld og kulda á berangri.

Þessi spurning var ekki til að bæta skapið og ég sagði að þeir skyldu gá að því, vesalingarnir, að þeir kæmust ekki einu sinni út fyrir landsteinana í kóvítinu á meðan þessi litli fugl hefði komið alla leið frá Afríku. Þeir rötuðu hvorki lönd né strönd án allra heimsins hjálpartækja, aumingjarnir.

Ég hafði tekið eftir því þegar við steypukallarnir steyptum gólfplötuna í vor að máríerlan var að kanna aðstæður í þakskegginu. Þess vegna haft á orði við uppsláttargengið þegar það mætti á svæðið hvar hreiðrið væri og að þeir skyldu sína máríerlunni nærgætni þangað til hún kæmi ungunum úr hreiðrinu.

Því fauk í mig þegar ég kom á þennan byggingastað nokkru seinna og sá máríerluna berskjaldaða fyrir veðri og vindum í sundurtættum þakkantinum. Svo var það um miðjan júní sem einn vinnufélagi kom til mín og sagði; Maggi ég er búinn að byggja yfir hreiðrið svo það rigni ekki ofan á ungana. Þá fór að lyftast á mér brúnin og ég hugsaði með mér að þetta væru kannski ekki eintómir fábjánar.

Í vikunni sem leið steyptum við svo efri plötuna og þá komust ungarnir varla fyrir í hreiðrinu lengur, þannig að það var sett upp öryggishandrið fyrir framan það svo þeir stykkju ekki út í steypuna, rétt á meðan hún væri að harðna í sumarsólinni.

Við það tækifæri sagði ég við vinnufélagana að réttast væri að þeir yrðu sæmdir fálkaorðunni ef ungarnir lifðu. Daginn eftir voru þeir allir flognir úr hreiðrinu.

Máríerluhreiður

Þeir voru pattaralegir ungarnir fimm rétt áður en þeir flugu úr hreiðrinu

 

Plötusteypa

Steypt í kringum máríerluna, hreiðrið er fyrir miðri mynd neðan við rauðu píluna

 

 Máríerlan

Foreldrarnir voru orðnir slæptir á því að bera flugur í hreiðrið, enda ekkert smá mál að koma upp fimm ungum við aðstæður sem ríkja á byggingastað

 

IMG_2662

Virðingaleysi fyrir fuglum himinsins hefur færst í vöxt á undaförnum áratugum, og í byggingariðnaði eru leiðbeiningar sem þessar ekki óalgengt kynningarefni. Ég bý þó svo vel að hafa kynnst öðrum hugsunarhætti frá því að ég byrjaði í byggingavinnu hjá Völundi Jóhannessyni frænda mínum fyrir meira en 40 árum síðan. 

 En það er ekki aðallega vinnan sem ég hef búið að með kynnum mínum af Völundi, heldur virðingin sem hann sýnir náttúrunni og tilverurétti alls lífs á sínum forsemdum. Fræg varð gæsin í Hvannalindum sem Vegagerðin lét stjórna hvenær hálendisvegir norðan Vatnajökuls yrðu opnaðir að undirlægi Völundar.

Og sem dæmi get ég nefnt að þegar mjólkurstöðin á Egilsstöðum var í byggingu hafði máríerlan verið árrisulli en ungu vinnumennirnir og komið sér upp hreiðri í uppslættinum, þá kom ekkert annað til greina en að láta þau steypumót bíða þar til hún hafði komið upp ungunum sínum, "enda nóg annað gera í stóru húsi drengir".

Man ég ekki betur en máríerlan hafi mætt aftur vorið eftir og verpt á nákvæmlega sama stað þó svo að hún þyrfti að fara inn í byggingu á lokastigi til þess, en þá var bara passað upp á að hafa gluggann galopin þangað til ungarnir flugu úr hreiðrinu út í sumarið og sólskinið


Arfleið Bakkabræðra

IMG_6660

Það getur verið freistandi að ætla að eitthvað af því sem maður segir hafi áhrif. Fyrir rúmu ári síðan birtist hér á síðunni spurningin um það hvort Bakkabræður væru komnir á Þjóðminjasafnið. Ekki að ég búist beinlínis við því að starfsmenn þjóðminjasafnsins liggi lesandi á blogginu, þá virtist þessi bloggpistill minn um árlega vorferð út í byggingalist náttútunnar hafa haft áhrif.

Stuttu eftir að ég fór vorferðina í fyrra að Galtarstöðum-fram í Hróarstungu þá kom vinur minn og frændi sem býr í Ástralíu óvænt í heimsókn. Hann hafði lesið Bakkabræðra pistilinn og við erum vanir að skoða það sem íslenskast er þegar hann kemur til fósturjarðarinnar, þannig að við fórum að Galtarstöðum-fram, en þann torfbæ hafði hann ekki séð.

Það sem mér þótti merkilegt við ferð okkar frændanna var að þær breytingar höfðu orðið á, að aflóga gluggar úr húsinu með flata þakinu, -og ég hafði látið fara í taugarnar á mér í mörg ár þar sem þeir stóðu við dyrastafn torfbæjarins-, voru horfnir. Ég hafði nefnilega aldrei náð mynd af bænaum án þessara glugga ræfla, en hafði samt bjargað því með því að fá Matthildi mína til að standa fyrir framan þá þannig að hún skyggði á gluggana.

Núna um helgina fórum við Matthildur svo í þessa árlegu vorheimsókn að Galtarstöðum-fram og viti menn að nú hafði sú breyting orðið á að búið var að skera til torfið á stöfnum bæjarins þannig að hann var ekki umvafinn í sinu, en rimlahliðið sem mér varð starsýnt á í fyrra stóð eitt og yfirgefið út í mýri.

Það má kannski virða Þjóðminjasafninu það til vorkunnar hvað erfitt hefur verið að fá mannskap til að hugsa eins sómasamlega um gamla byggingararfleið þjóðarinnar eins og það hefði viljað, bæði hvað verkþekkingu varðar og vegna þess hvað viðhald torfbæja er mannaflsfrekt.

En nú ætla ég að leifa mér að vona að að einhver aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar þar sem "allir vinna" í öllu atvinnuleysinu verði færður Þjóðminjasafninu að gjöf til að varðveita íslensk menningarverðmæti.

IMG_6639

Bæjardyrnar sinu- og gluggaræflalausar

 

IMG_6675

Víða þarf að dytta að, hér eru steinar farnir að velta úr vegg

 

IMG_6676

Hér gapir inn undir fjósþakið á norðurhlið, þó svo að steinar hafi verið settir sem farg þarf ekki mikið veður til að þakið fjúki og opnist inn í bæinn

 

IMG_6711

Ferðin var einnig notuð til að kíkja á Borgarfjörð eystra, þar er Lindarbakki, og fyrir u.þ.b. ári síðan hitti ég þar kolleiga úr húsbyggingageiranum sem var að setja torfþak á húsið, en það hafði fokið af í rosa um veturinn. Þetta hús er í einkaeigna og þar af leiðandi mikið afrek að hafa viðhaldið því í gegnum árin. Lindarbakki á Borgarfirði-eystri var upphaflega byggður í formi þurrabúðar. Húsið er að þeirri stærð að það hefur varðveist inn í nútímann og er enn í dag notað sem íbúðarhús. Það má segi að húsið beri íslensk sérkenni á fleiri en einn veg, auk þess að vera úr torfi eru stafnarnir bárujárnsklæddir. Sennilega er þetta það mannvirki sem mest er ljósmyndað af ferðamönnum sem til Borgarfjarðar koma


Allir vinna – steypa, gúmmístígvél og hjólbörur

Eitt sinn á Stefán Jónson rithöfundur, framsóknar-alþýðubandalagsmaður og Kára pabbi, ásamt mörgu fleiru, að hafi haldið því fram að sveitungar hans hafi kennt ónefndum nágrönnum að ganga uppréttir. Þetta á að hafa gerst með því einu að kenna þeim á hjólbörur. Nú er langt um liðið og heyra hjólbörur og asnakerrur sögunni til þegar til framfara horfir.

Á fyrri hluta 20. aldarinnar fór skófatnaður úr gúmmíi að breiðast út um landið, sumir 20. aldar menn hafa lýst gúmmískóm sem stærstu framförunum á tilveru sinni við að valhoppa á milli þúfna í drulludíum landsins. Vaðstígvél úr gúmmí þóttu hér á landi lengi vel stöðutákn hins framfarasinnaða heimsmanns. Þetta má sjá á gömlum myndum á Þjóðminjasafninu.

Nú eru aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar fyrirferðamiklir í umræðunni og átakið allir vinna hefur verið endurvakið frá því í bankaóhappinu um árið. Pakkinn allir vinna hefur ekki farið fram hjá okkur gömlu mönnunum í mínu fyrirtæki sem varla höfum haft stundlegan frið síðan kófvítis pestin fór á stjá. Síðan þá hefur landinn setið þúsundum saman heima og fengið frábærar hugmyndir og eru margar þeirra þannig að til að hrinda þeim í framkvæmd þarf steypukall í gúmmístígvélum.

Hjólbörur

Verkamenn snemma á 20. öldinni við gerð varnargarða á bökkum Markarfljóts með hjólbörurnar einar að vopni, skammt ofan við þar sem nú svamla sanddæluskip um Landeyjahöfn 

Það má segja að fyrsta Íslandsmetið í langstökki inn í nútímann hafi verið setta af verkamönnum í gúmmístígvélum með hjólbörur sér til stuðnings. Eftir að þessum tækni undrum var endanlega blandað saman komst þjóðin svo loksins af mýrkenndu moldarkofagólfinu. Þessar framfarir urðu á 20. Öldinni og gerðu lítið annað en að þróast frekar er á öldina leið.

Það eru samt engin áform uppi um að bæta íslandsmet á þessari öld með öllum þessum aðgerðapökkum, ekki einu sinni matvælasjálfbærni í viðsjálu. Sýklafjölónæm framleiðslan flýtur að ströndum landsins sem aldrei fyrr í boði stjórnvalda. Er vandséð að 21. öldin eigi nokkur met eftir að bæta sem til framfara horfa öðru en smitrakningar-appinu.

Steypan var sennilegast sú tækniframför sem hefur gagnast Íslendingum hvað best frá því á síðustu öld og má segja að hún kom í rökréttu framhaldi af gúmmístígvélum og hjólbörum. Því segja má að steypan hafi hreinlega komið Íslendingum af mýrlendum moldargólfunum. Steypa er því alltaf tilvalin þar sem „allir vinna“.

Fyrir nokkrum árum var ég sendur á byggingastað til að steypa fyrir þá í stóru greiðslustöðvununum sem ekki hafa efni á uppsagnarfrestinum. Þar var allt gæðavottað í bak og fyrir, umhverfismetið þrátt fyrir vistvænt gjaldþrot,- vatnið mælt, vestin gul og öryggisgirðingin allt um kring.

Þarna voru haldnir vikulegir fundir og farið yfir öryggismál og það sem aflaga hafði farið bundið inn í gormamöppur með súluritum, texta og ljósmyndum öllum til viðvörunar í kaffitímum. Sérfræðingar að sunnan komu með morgunnfluginu til að fylgja öryggismálunum eftir og verkfræðingar blautir á bak við eyrun létu ljós sitt skína með hvítan hjálm úti undir berum himni á sólskinsdögum, sannkallaður „allir vinna“ byggingastaður.

Einn fundinn vorum við pólsku vinnufélagar mínir helsta myndefni gormabókanna. Það hafði komið öryggissérfræðingur að sunnan og smellt af okkur myndum illa tilhöfðum, ógreiddum og þar að auki hjálmlausum innanhúss. Þarna voru við sakaðir um að brjóta alla öryggisstaðla. Að loknum fundi bað ég pólsku félaga mína að tína saman gormabækurnar af borðum kaffistofunnar og færa mér, sem þeir gerðu. Þegar ég hafði fengið þær á borðið fyrir framan mig reif ég úr þeim myndirnar af okkur í strimla ofaní rusladallinn og sagði svona gerðu menn ekki.

Í næstu steyptu neyddist ég þar að auki til að lýsa því yfir að þetta yrði sennilega í síðasta sinn sem ég steypti fyrir fábjána. Umboðsmaður byggingastjóra sagði að ég áhveddi hvorki steypu uppskriftir né verkferla á þessum byggingastað, það gerðu menn með til þess bæra menntun. Ég sagði honum að þeir skildu þá halda sýningu um horfna atvinnuhætti í anda Ábæjarsafnsins því þessi steypa væri torf fyrirskrifuð af fábjánum sem sætu aftast á merinni þegar til nútíma tækni væri litið og væru ekki einu sinn í gúmmístígvélum.

Hann veifaði þá framan í mig snjallsíma og spurði hvort ég vildi að hann spilaði þetta fyrir "fábjánana", því hann hefði tekið upp orðaleppana. Ég bað hann endilega um að gera það því það bæði sparaði mér sporin og geðillskuna. Ég væri nefnilega fyrir löngu orðin hundleiður á því að verða brjálaður í steypu vegna fábjána sem ekkert kynnu. Hann tillit sér þá á tá og benti á hliðið á girðingunni sem umlukti byggingasvæðið og þrumaði „ég vísa þér út af svæðinu“, og það stígvélalaus í miðri steypu.

Ég bað hann um að ræða þetta við vinnuveitanda minn því það hefði verið hann sem sendi mig og félaga mína innan um fábjána, en ég yrði því fegnastur af öllum að fá lausnina, og hélt svo áfram að steypa. Stuttu seinna hringdi vinnuveitandi minn og spurði hvernig ég hefði það. Ég spurði hann til hvers hann hefði hringt. Hann sagðist ekki vita það almennilega, en hann hefði fengið skrýtið símtal sem hefði hafist á afsökunarbeiðni.

Ég sagðist ekki sjá hvernig ég ætti að ráða fram úr þessu dularfulla símtali. Jú hann sagði að ég hefði verið nefndur og talað hefði verið um að farið hefði verið yfir strikið, af því striki stafaði afsökunarbeiðnin. Þegar hann hefði svo spurt hvort það væri þá ekki réttara að tala um þetta við Magnús þá hefði komið smá þögn í símann, og síðan ákveðið nei. Eftirmálin urðu svo ekki önnur en að eftirleiðis var komið vel fram við vinnufélaga mína, meir að segja skjallaðir með „hér eru allir í gulum vestum nema Magnús hann er eins og vanalega í gömlu gráu lopapeysunni sinni“.

Það var því meir en lítið undarlegt að ég skildi taka undir grobbsögur með gömlum félögum í vetur þegar því var treglega við komið að steypa samkvæmt nýjustu tækni. En félagar mínir fóru þá að dásama hjólbörur í stað steypudælu og sögðu að þetta hefði ekki verið neitt mál í gamla daga. Segja má að fyrir okkur hafi farið líkt og þeim halta sem leiddi blindan, eða eins og gamall 20.aldar maður sagði mér þegar hann tók félaga sinn með í sund.

Þannig var að þriðji félaginn hafði orðið fyrir því óhappi að gleyma því að fara í sundskýluna áður en hann skellti sér í laugina. Þetta óhapp olli því að flestir sundlaugargestir steinhættu að láta sjá sig, allavega betri helmingurinn. Gripið var til þess ráðs að hafa frítt í sund en allt kom fyrir ekki, þá var einnig farið að bjóða upp á kaffi og með því.

Gamli 20.aldarmaðurinn ákvað að fá aldinn félaga með í sund til að njóta veitinga og rifja upp gamla takta enda var sá vatnshani mikill á yngri árum. Hann sagði að þó svo innganga þeirra í afgreiðsluna hafi ekki verið beint kappaleg, þar sem hann var rangskreiður og nýstiginn upp úr heilablóðfalli og félaginn gamall og haltur, þá hafi þeim verið tekið opnum örmum af sundlaugarvörðunum boðið upp á kaffi og lánaðar sundskýlur.

Sá gamli sagði starfsfólkinu sögur af ótrúlegum sundafrekum sínum fyrr á tíð, bæði köfun og dýfingum. Þegar þeir svo skakklöppuðust á skýlunum út á sundlaugarbakkann vissi hann ekki fyrri til en sá gamli stökk út í djúpaendann og snérist umsvifalaust á haus og spilaði löppunum upp í loft og gat enga björg sér veitt. Hann sá strax að ísaldarleirinn hafði runnið til á milli eyrnanna á honum þannig að ballestin var kominn efst í hausinn.

Nú voru góð ráð dýr því ekkert gekk að tala við sundlaugarverðina sem dáðust að og héldu að sá gamli væri að leika kúnstir, hann varð því að svamla áfram eins og særður sjófugl sífellt út á hlið til að komast til félaga síns og snúa honum við í lauginni og draga hann hálf rænulausan að bakkanum. Það varð ekki meira um sundferðir hjá þeim félögum í bráð.

Það munaði minnstu að eins færi fyrir okkur gömlu steypuköllunum í vetur, sem erum bak-, hjart- og nýrnabilaðir, ungu mennirnir voru fljótir að sjá að steypu hjólbörurnar gerðu meira en að kenna þeim að ganga uppréttum þær voru tilvalið krossfitt tæki.

Gjörið svo vel, hjólbörusteypa þar sem allir vinna.

Ps. þetta myndband tók einn ungi maðurinn upp á snjallsímann sinn. Þegar hann hafði uppgötvað að um horfna atvinnu hætti væri að ræða. Sá kann nú aldeilis á tæknina til að gera langa steypusögu stutta.


Þjóðkirkja í þúsund ár

 IMG_5392 

Sumarið 1901 fór Daniel Bruun um Austurland, stundaði fornleifarannsóknir og ferðaðist um öræfin norðan Vatnajökuls. Um ferð sína skrifaði hann ferðasögu "Ved Vatnajökuls Nordland", þar segir m.a. þetta; „Stutt var það tímabil, sem Íslendingar voru grafnir að heiðnum sið, aðeins 125 ár, því eftir kristnitöku á alþingi árið 1000, var enginn lagður skartklæddur í haug með dýrgripum sínum, skrauti, vopnum, hestum og hundum.

Eftir það var aðeins blótað á laun á stöku stað og Þór og Freyr lítt færðar fórnir. Kirkjurnar komu í stað hofanna og klukkur hringdu til tíða, þar sem fjöll höfðu fyrr bergmálað baulan og gnegg blótpeningsins. En jafnvel þótt ásatrúin gamla hefði þannig – af stjórnmálalegum skynsemisástæðum – opinberlega vikið fyrir hinum nýja milda sið, ríkti engu að síður andi víkingatímans meðal þess óstýriláta, stríðaglaða fólks, með blóðhefndina í öndvegi, en lög sæmdarinnar lituðust hugsunarhætti víkinganna.

Þá voru hér hetjur er dáðu göfugan dauðdaga með sverð í hendi og við hlið þeirra og þeim jafnfætis í þjóðfélaginu stóðu frjálsbornar konur. Við þekkjum þetta samfélag nær eingöngu af sögunum, því fáar fornaldarminjar hafa fundist, er varpa ljósi yfir þessa tíð.“ (Múlaþing 7. Bindi bls 173 / Daniel Bruun – Við norðurbrún Vatnajökuls)

Það má álykta sem svo að ekki hafi strax orðið miklar breytingar á Íslandi við það eitt að taka upp hinn "nýja milda sið", eins og Daniel Bruun kallar kristnitökuna. Á eftir fór Sturlungaöld með blóðhefndum fornaldar og að henni lokinni fóru biskupar landsins með völdin svo til óskoruð. Síðustu tveir Hóla biskupar í kaþólskum sið voru þeir Gottskálk Nikulásson og Jón Arason. Gottskálk fékk viðurnefnið "grimmi", af honum fór sú þjóðsaga að hann hafi tekið upp svartan galdur ættaðan aftan úr heiðni til að afla kirkjunni eigna. Um Jón biskup Arason og syni hans var sagt hið forn kveðna; - "öxin og jörðin geyma þá best".

IMG_2816

Mósaík mynd af Jóni biskup Arasyni í Hólakirkju. Jón er stundum talinn síðasti íslenski höfðinginn af gömlum sið

Á eftir siðaskiptin seinni um 1550 má segja sem svo að göfugur dauðdagi hafi endanlega aflagst á Íslandi, en þá tók ríkisvaldið við af kirkjunni að framfylgja siðferðilegri lagatúlkun, og gerði það með sínum Stóradómi og Drekkingahyl. Þá var tekið upp á að drekkja konum sem eignuðust börn utan hjónabands og karlmen hálshöggnir, auk þess sem teknar voru upp galdrabrennur 100 árum eftir að þær fóru hamförum í Evrópu. Danska ríkisvaldinu þótti flest til þess vinnandi að siða landsmenn, og gekk mun lengra en hinn "nýji mildi siður" frá því árið 1000. Nú áttu Íslendingar ekki lengur til neinna innlendra höfðingja með máls sín að leita.

Í skrifum Brunn um Ísland má bæði sjá hvað honum þótti vænt um land og þjóð, auk ómetanlegs fróðleiks sem hann safnaði vítt og breitt um land. Þegar hann ferðaðist um landið í rannsókanaferðum sínum skrifaði hann einnig punkta um það sem honum þótti sérstakt, sem hann birti síðar í blaðagreinum og bókum. Í bókunum Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, sem bókaútgáfa Arnar og Örlygs gaf út árið 1987 um Íslandsferðir Bruun, er lýsing hans á sunnudegi í Skagfirskri sveit árið 1898.

„Á sunnudögum liggur öll vinna niðri nema bjarga þurfi heyjum. Orf og hrífur eru lögð upp á húsþökin. Fólkið fer í betri fötin, hestar eru sóttir í haga og söðlaðir og síðan er riðið í þeysireið til kirkjunnar. Konurnar reiða minnstu börnin í keltu sinni, þau, sem eru ögn stálpaðri, eru bundin í söðul, en stærri krakkarnir ríða einir, strákarnir stinga tánum í ístaðaólarnar, þegar þeir ná ekki ístöðunum. Hundarnir elta.

Hópar koma ríðandi frá hverjum bæ og farið er yfir stokka og steina, ár og læki, en allir stefna til kirkjunnar. Hestunum er stungið inn í hestarétt, sem er á flestum kirkjustöðum, og þar bíða þeir yfir messutímann. Fólkið kemur yfirleitt snemma til kirkjunnar, því margt þarf að gera áður en guðþjónustan hefst. Um margt er skrafað og skeggrætt, eldra fólkið spyr frétta og ræðir heyskaparhorfurnar, en unga fólkið leitar hvort annað uppi, og eru þar gefin heit, sem binda alla ævi meðan reikað er á milli grasi gróinna leiða og hrörnandi krossa í kirkjugarðinum. Áður en konurnar ganga í kirkju fara þær inn í bæ til að klæða sig úr reiðfötunum og skipta á reiðhattinum og litlu skotthúfunni, sem fest er í hárið, og jafnvel, ef eitthvað mikið er um að vera, að klæðast hátíðarbúningi. - Aðkomumenn eru spurðir spjörunum úr, hvaðan þeir komi, og hvað þeir séu að gera, hvert þeir ætli, hvar þeir hafi fengið hesta o.s.frv. og auðvitað verður að gefa greið svör við öllum spurningunum.

En nú gengur presturinn fram og heilsar kirkjugestunum áður en hann fer og klæðir sig í hempuna, og svo er klukkunum hringt, - Presturinn gengur í kirkju í fylgd meðhjálparans. Karlar sitja hægra megin í kirkjunni en konur til vinstri. Jafnskjótt og konurnar setjast lúta þær höfði og halda hvítum klút fyrir andlitinu og gera bæn sína. Víða er lítið orgel, sem einhver úr söfnuðinum leikur á, en þótt ekkert sé hljóðfærið hljómar söngurinn vel. Oft syngja ungar stúlkur í kór og leiða sönginn, allar eru þær smekklega klæddar í fallegum búningum. Daginn áður hefur maður ef til vill mætt þeim í vinnufötum við rakstur í túninu með flaksandi hár, eða lítinn klút bundinn um það í hnakkanum, í stuttum pilsum og mórauðum, grófgerðum sokkum, sem bundnir eru fyrir neðan hné með ólum. Þær ganga öruggar og djarfar til vinnunnar og hoppa lipurt og létt yfir polla og skurði á skinnskóm sínum.

Stundum er kirkjugestum veitt kaffi, og þá oft drukkið í baðstofunni.

En þegar öllu þessu er lokið, stíga kirkjugestir aftur á hestbak og ríða á brott í smá hópum. Piltarnir láta spretta rösklega úr spori, en ungu stúlkurnar hoppa fimlega í söðulinn og fylgja þeim hiklaust eftir.

Sunnudagskyrrðin hvílir yfir sveitinni. Ekkert brýnsluhljóð heyrist, engar heybandslestir á ferðinni, og engir lestarmenn á leið úr kaupstað, einungis glaðir hópar fólks á heimleið frá kirkju sinni. Varla er hægt að sjá að grasið á þaki gömlu kirkjunnar bærist í golunni og enn síður á leiðunum í kirkjugarðinum, eða á bæjarþakinu, þar sem hundurinn liggur eins og hann sé á verði. Þokuhnoðrar hylja fjallstindana, en sólin ljómar yfir engjunum og ánni, sem bugðast eftir dalnum, og hún skín á bæina, en bláir reykir stíga upp frá þeim, og úti við sjóndeildarhringinn er hafið blátt og vítt.“. (Ísl. Þjóðlíf I bindi bls 36-37)

IMG_2732 

Prédikunarstóll Víðimýrarkirkju og "hið virðulega kirkju inni". Í byrjun 18.aldar bannaði Jón biskup Vídalín prestum að tala blaðalaust úr ræðustól og þess vegna á að vera gluggi á þekjunni ofan við prédikunarstólinn í öllum torfkirkjum svo presturinn geti lesið stólræðuna. Sagt var að einn prestur hafi skrifað biskupi og spurt hann hvað ætti að gera ef hundur kæmi upp á kirkjuþakið, sem ekki var óalgengt á meðan á messu stóð, og settist þar á gluggann. Biskup svararði "sigaðu, blessaður sigaðu, og seppi mun fara"

Til að gefa örlitla innsýn í tíðaranda þess tíma sem Bruun var á ferð er hér gripið niður í bækurnar Íslenskt Þjóðlíf. Í Hruna spurði Bruun séra Steindór Briem um siðferðisástandið og hvort það væri ekki á lágu stigi, þar sem konur og karlar svæfu í sömu baðstofu og afklæddust hvert í annars augsýn, en presturinn sagði að vaninn gerði það að slíkt hvorki vekti hneykslan né æsti kynhvötina. „Í prestakallinu fæðast 12-14 börn árlega, en ekki nema eitt óskilgetið annað hvert ár eða svo“.

Sýnilegt er að Bruun þykir mikið til presthjónanna og heimilisfólks í Hruna koma,,, „Briemsættin er mikils metin og áhrifamikil á Íslandi. En dálítið kemur það einkennilega fyrir sjónir, hvernig fjölskyldan umgengst heimilisfólkið daglega, t.d. sefur dóttirin í baðstofunni, og það þó svo fjölskyldan sé meðal fremstu ætta landsins“. 

Þær athafnir sem fóru fram í kirkjunum voru auk guðþjónusta, - brúðkaup, jarðarfarir og ferming, sem má segi að í þá daga hafi verið nokkurskonar grunnskóla próf ungdómsins sem lauk með að gengið var til spurninga. Sjaldgæft var að ungabörn væru skírð í kirkju því að til þess þurfti að reiða þau á hestbaki langar leiðir, þannig að skírnin fór fram heima í baðstofunni og því voru skírnarfontar óalgengir í torfkirkjunum.

Brúðhjón héldu saman heim í bæinn úr kirkjunni til brúðkaupsveislu í baðstofuna, hið stóra sameiginlega herbergi íslensku bæjanna, þar sem unnið var, sofið og dvalist. Þar var brúðarsængin, jafnvel í sömu röð og önnur rúm baðstofunnar, og í henni fæddust hjónunum börnin. Þar voru hinir látnu sveipaðir laki og sálmabókin lögð yfir brjóstið, fyrir kom að líkið lægi þannig í rúmi sínu yfir nótt í baðstofunni ásamt heimilisfólki, áður en það var flutt í skemmu þar sem það stóð uppi til jarðarfarardags.

Hinsta förin hófst heima við bæ á kviktrjám á milli tveggja hesta þar sem líkkistan var reidd til kirkju í fylgd heimilismann og þeirra sveitunga sem til líkfylgdar mættu þegar hún fór fram hjá. Eftir líkræðu prestsins var kistan borin út og látin síga ofan í gröfina í kirkjugarðinum við kirkjuvegginn. Stundum kraup allt fólkið á kné á meðan mokað var ofan í gröfina. Hver og einn signdi yfir hana áður en gengið var á brott. 

IMG_4713

 Kirkjugarðurinn, sem umlykur Hofskirkju í Öræfum, með öllum sínum upphleyptu leiðum, þannig að garðurinn stendur mun hærra en umhverfið í kring. Engu er líkara en að þar hafi verið jarðsett í gegnum tíðina gröf ofan á gröf, þannig að kirkjan komi til með hverfa á endanum ofan í svörðinn

Daniel Bruun var samála Nóbelskáldinu um það að húsagerðalist torfkirknanna, sem rekja mátti allt aftur á söguöld,  hefði verið mun fegurri og hátíðlegri en kirknanna sem á eftir komu, sem Bruun taldi skorta allan svip byggingarlistar ef miðað var við torfkirkjurnar, jafnvel þó svo að ekki hefði verið hægt að þekkja þær frá öðrum gripahúsum þegar komið var í fyrstu á bæjarhlaðið. En þannig komst Nóbelskáldið að hnitmiðuðu orði, eins og honum einum var lagið, um byggingasögulegt gildi gömlu þjóðkirkjunnar úr torfi; 

„Tveggja íslenskra bygginga er oft getið erlendis og fluttar af þeim myndir í sérritum um þjóðlega byggingalist. Önnur er Víðimýrarkirkja. Ég held að það sé ekki of djúpt tekið í árinni þótt sagt sé að aðrar kirkjur á Íslandi séu tiltölulega langt frá því að geta talist verðmætar frá sjónarmiði byggingarlistar. Víðimýrarkirkjan litla er okkar Péturskirkja – þar sem hver rúmmetri ber í sér innihald þannig að virðuleiki hinnar litlu frumstæðu byggingar er í ætt við sjálfar heimskirkjurnar, þótt sjálft kirkjuinnið sé ekki stærra um sig en lítil setustofa og verðgildi byggingarinnar komist ekki til jafns við meðal hesthús. , , - og þótt vígindin í klömbruhnausunum séu reglulegri í sumum heyhlöðum í Skagafirði, og fjárhúsum, þá hef ég enga kirkjuveggi séð fegurri á Norðurlöndum.“

Enn má finna á Íslandi nokkrar torfkirkjur. Þær sömu og Daniel Bruun rannsakaði þegar hann var í ferðum um Ísland, sem átti hug hans allan um áratuga skeið. Þessar kirkjur hafa verið varðveittar í sinni upprunalegu mynd og eru ómetanleg þjóðargersemi þó svo að stærð þeirra sé ekki mikil, og efniviðurinn langt frá því að slaga í það sem þarf í meðal hesthús, þá er enn þann dag í dag vandfundnir fegurri kirkjuveggur.

 IMG_2728

Víðimýrarkirkja, sú sem Halldór Kiljan Laxness vildi meina að væri eitt merkilegasta hús á Íslandi. Eins má segja að einn frægasti sálmur sem ortur hefur verið á íslenska tungu hafi þar orðið til, en hann er  "Heyr himna smiður" eftir Kolbein Tumason á Víðimýri, héraðshöfðingja Skagfirðinga á Sturlungaöld, sálmurinn er jafnframt talinn elsti varðveitti sálmur Norðurlanda

  

IMG_2833

Saurbæjarkirkja í Eyjafirði er gott dæmi um hvernig kirkjuklukkum var fyrir komið á stafnþili. Eins voru kirkjuklukkur stundum hafðar innandyra, eða í sáluhliðinu og einnig var á einstöku stað sérstakt klukknaport í nágrenni kirkjunnar, einfaldleikinn réði

 

 IMG_4705

Hofskirkja var reist 1884, síðasta torfkirkjan sem var byggð eftir hinu gamla formi, um aldamótin 1900 hafði bygging torfkirkna verið bönnuð á Íslandi. Hún er ein sex torfkirkna, sem enn standa og eru varðveittar sem menningaminjar. Hún er jafnframt sóknarkirkja Öræfinga. Þjóðminjasafnið lét endurbyggja kirkjuna árið 1954

 

IMG_4525

Bænhúsið á Núpsstað er talið reist um miðja 19. öld, eftir umfangsmiklar breytingar á eldra húsi. Á Núpsstað var kirkja, sem í máldaga frá 1340 er kennd við heilagan Nikulás. Kirkjan virðist hafa verið vel búin fram eftir öldum, en halla tók undan fæti á seinni hluta 16. aldar. Upp úr 1650 var byggð ný kirkja á staðnum og er talið að bænhúsið sé að stofni til úr þeirri kirkju

 

Bænahúsið á Núpsstað 1899

Bænhúsið á Núpsstað árið 1899, teikning Daniel Bruun 


Bærinn og baðstofan

Stöng

Danskur læknir, Edvard Ehelers, kom til Íslands 1894 til að kanna útbreiðslu holdsveiki. Niðurstöður ferðar sinnar fékk hann birtar í dönsku heilbrigðistímariti. Það sem Ehlers hafði að segja um þrifnað á íslenskum heimilum tóku landsmenn illa upp og sökuðu hann um að vanþakka gestrisni íslenskrar alþýðu. En hann lýsti svo húsakosti hennar, og dæmigerðri baðstofu;

"Hinir litlu þröngu bæir eru að hálfu leyti neðanjarðar og nálega að öllu leyti byggðir úr torfi. Gluggar eru aðeins á öðrum gafli og allir negldir aftur af ótta við vetrarkuldann, því að Íslendingar bera eigi meira skyn á heilbrigðisfræði en svo, að þeir skoða kalda loftið hættulegri óvin en spillt loft. Í baðstofunni eru 6–8 rúm eða stórir trékassar, og sofa tveir eða þrír í hverjum kassa. Fólkið borðar í baðstofunni, oftast á rúmunum.

Þegar komið er inn í baðstofuna, þar sem fólkið er inni, gýs á móti manni óþefur svo mikill, að hann ætlar að kæfa mann. Þennan óþef leggur af mygluðu heyi í dýnum, af sauðskinnsábreiðum og skítugum rúmfötum, sem aldrei eru viðruð, og af óhreinindum þeim sem berast inn í bæinn af hinum óhafandi íslensku skinnskóm. Í óhreinindunum á gólfinu veltast börn, hundar og kettir, veita hvert öðru blíðuatlot og – sulli.

Þennan óþef leggur einnig af votum sokkum og ullarskyrtum, sem hanga til þerris hjá rikklingsstrenglum og kippum af hörðum þorskhausum. Sé vel leitað í baðstofukrókunum munu menn finna ílát, sem þvagi alls fólksins er safnað í. Það er talið gott til ullarþvottar."

Og hafi lýsing Danska læknisins þótt móðgandi á híbýlum alþýðunnar þá gaf lýsing Kaliforníubúans -  J. Ross Brown, 30 árum fyrr - á prestsbústaðnum á Þingvöllum, lýsingu þess Danska lítið eftir;

"Presturinn á Þingvöllum og kona hans búa í moldarkofum rétt hjá kirkjunni. Þessi litlu ömurlegu hreysi eru í sannleika furðuleg. Þau eru fimmtán fet á hæð og er hrúgað saman án nokkurs tillits til breiddar og lengdar og minna helst á fjárhóp í hríðarveðri. Sum þeirra hafa glugga á þakinu, og önnur reykháfa. Þau eru öll vaxin grasi og illgresi, og göng og rangalar liggi í gegnum þau og milli þeirra. Neðst eru kofarnir hlaðnir úr grjóti, og tveir kofar hafa bæjarburst úr svartmáluðum borðum, en hinu er öllu saman tildrað upp úr torfi og allra handar rusli og minnir einna helst á storkshreiður.

Þegar inn kemur í þessi undarlegu híbýli, er umhverfið jafnvel enn þá furðulegra en úti fyrir. Þegar maður er kominn inn fyrir dyrnar á einu hreysinu, sem eru svo lágar og hrörlegar, að vart er hægt að hugsa sér, að þær séu aðalinngangur, er fyrir langur dimmur, gangur með steinveggjum og moldarþaki. Hliðarnar eru skreyttar snögum, sem eru reknir inn á milli steinanna, og á þessum snögum hanga hnakkar, beisli, skeifur, fjallagrasakippur, harðfiskur, auk ýmis konar fatnaðar og gæruskinna. Gangurinn er í laginu eins og hann hafi verið byggður ofan á slóð blindrar kyrkislöngu.

Úr ganginum, sem er ýmist breiður eða þröngur, beinn eða boginn, liggja svo dyr inn í hin ýmsu herbergi. Besta herbergið, eða húsið, því hvert herbergi er einskonar hús, er ætlað gestum. Í öðru húsi býr fjölskylda prestsins í einni kös eins og kanínur. Eldhúsið er einnig notað sem hundaherbergi og stundum sem fjárhús. Í einu horninu eru nokkrir steinar, og á þá er lagt sprek og suðatað, og er þarna maturinn eldaður. Bitarnir í loftinu eru skreyttir pottum og kötlum, harðfiski, nokkrum nærpilsum og leifum af stígvélum, sem presturinn hefur líklega átt í æsku.

Á snögum torfveggjanna hanga olíudunkar, kjötstykki, gamlar flöskur og krukkur og ýmis riðguð verkfæri, sem notuð eru til að rýja kindur. Gólfið er ekki annað en sjálfur hraunflöturinn, en ofan á hann hefur myndast hart lag úr skólpi og allra handa úrgangi. Reykur fyllir loftið, sem þegar er spillt af óþef, og allt innan húss, bitar, stoðir og tíningur af húsgögnum, er gagnþrungið af þykku fúlu loftinu. Ég get ekki hugsað mér aumlegri bústaði mannlegum verum en íslensku torfbæina."

 GlaumbærII

Glaumbær í Skagafirði, íslenskur torfbær. Friðlýstur árið 1947, sem var ekki síst Íslandsvininum Mark Watson að þakka en hann hafði gefið 200 sterlingspund til varðveislu bæarins strax árið 1938.

Það hafa sjálfsagt fleiri en ég velt fyrir sér hvernig íslensk híbýli voru í gegnum aldirnar og hvers vegna aðal íverustaður þjóðarinnar, sem var bæði mat-, svefn- og vinnustaður fólks, var kölluð; -  baðstofa. Torfbærinn hafði veitt þjóðinni húsaskjól í meira en þúsund ár þegar síðustu manneskjurnar skriðu út úr þeim hálfhrundum á 20. öldinni. Það hafa  varðveist margar lýsingar útlendinga á þessum híbýlum, en landanum sjálfum þótti réttast að láta þjóðsöguna, jarðýtuna og ekki síst þögnina að mestu um varðveisluna.  

Eitt það fyrsta sem kom upp í hugann var, hvernig gat staðið á því að hin glæstu húskynni sem um getur á þjóðveldistímanum gátu orðið að þeim heilsuspillandi hreysum sem blöstu við erlendum ferðalöngum á seinni hluta 19.aldar? - sé eitthvað að marka frásagnir þeirra í rituðum ferðasögum.

Undanfarið hef ég verið að viða að mér efni varðandi húsagerð og sögu torfbæjarins. Eru þar á meðal bækur með rannsóknum Daniels Bruun, Íslenskt þjóðlíf í þúsund  ár,- meistararitgerð Arnheiðar Sigurðardóttur, Híbýlahættir á miðöldum sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins gaf út árið 1996, -ásamt bók Hjörleifs Stefánssonar arkitekts, Af jörðu - Íslensk torfhús, - auk lýsinga á torfbæjum, svipuðum og hér að ofan, í bókum Jóns Helagasonar, Öldin, ofl, ofl.

Lofotr_vikingmuseum_lofotencom_11

Borg á Lófóten þar sem íslenski landnámsmaðurinn Ólafur tvennumbrúni á að hafa búið. Húsið skiptist í skála og það sem mætti kalla stofu að víkinga sið. Í skálanum sem er til hægri handar þegar komið er inn var voru skemmtanir, matast, drukkið og sofið og kynntur langeldur í gólfi. Í (vinnu)stofunni t.v.við inngang á langhlið, sem er minni, var dvalar og vinnuaðstaða auk eldstæðis. Fræðimaðurinn Valtýr Guðmundsson vildi meina að á landnámsöld hefði stofan verið það sem kallað er skáli og öfugt

Segja má að þessi áhugi fyrir íslenskri byggingahefð hafi komið til þau ár sem ég var í Noregi. Þar vann ég m.a. við grjóthleðslur sem tilheyrðu safni Sama, en Samar kalla sín torfhús "gamma". Skammt frá Harstad, bænum sem ég bjó í, var Víkingasafnið á Borg suður við Leknes á Lofoten. Þar var þeim húsakosti gerð skil sem tíðkaðist við landnám Íslands og kom mér á óvart hversu mikill munur var á þeim stórhýsum úr torfi sem "landnámskálinn" var og þeim "moldarkofum" sem þjóðin skreið út úr þúsund árum seinna.

Í Borg var sýnd stílfærð heimildarmynd um fyrrum íbúa höfðingjasetursins, sem áttu sammerkt fleirum að hafa lent upp á kannt við Harald Hárfagra og neyðst til að yfirgefa Hálogaland. Þar er sagður hafa verið húsbóndi Ólafur tvennumbrúni. Heimildamyndin sem sýnd er við innganginn gerir því skil þegar Ólafur flutti með sitt fólk til Íslands.

Myndinni lýkur svo á þeim hjartnæmu nótum að dóttir Ólafs, sem með honum fór, snýr ein frá Íslandi aftur til Lófóten og giftist syni þess manns sem Haraldur Hárfagri eftirlét Borg, þannig hélst Borg í ættinni ef svo má segja. þetta er nú kannski ekki akkúrat það sem stendur í Landnámu og þó; "Óláfur tvennumbrúni hét maður; hann fór af Lófót til Íslands; hann nam Skeið öll milli Þjórsár (og Hvítár og) til Sandlækjar; hann var hamrammur mjög. Óláfur bjó á Óláfsvöllum; hann liggur í Brúnahaugi undir Vörðufelli".

Stöng Þjórsárdal

Þjóðveldis bærinn Stöng í Þjórsárdal, skömmu ofan við landnám Ólafs tvennumbrúna frá Borg á Lófót. Skáli og stofa eru í löngu byggingunni. Landnámsbærinn þróaðist með tímanum í fleiri en eitt hús. Í útbyggingum voru matarbúr og stundum smiðja, baðstofa eða gripahús. En alla þjóðveldisöldina hélst sú húsaskipan að aðal byggingarnar voru byggða hver fram af annarri og sneru göflum saman

Hinn Danski Daniel Bruun ferðaðist um landið sitthvoru megin við aldamótin 1900 til að stunda fornleifa rannsóknir á norrænum híbýlum "víkingaskálanum" sem viðgengust um landnám á Íslandi. Hann varð fljótlega svo hugfangin af landi og þjóð að hann skrifaði niður ómetanlegar þjóðlífslýsingar og rannsakaði bygginga sögu íslenska torfbæjarins frá upphafi til enda. Fornleifa rannsóknir hans víða um land gefa skýrt til kynna að húsakostur á Íslandi var síður en svo umfangsminni en víkinga annarsstaðar á Norðurlöndum. Íslenski "skálinn og stofan" voru oft 30-40 m langar byggingar og gat þess vegna verið um 2-300 m2 húsnæði að ræða, kynnt var með eldum í gólfi og við innganga. Það var ekki fyrr en eftir að þjóðveldið féll að húsakosti tók að hraka í landinu. Þeirri sögu lýsir Bruun svo í stuttu máli;

"Sá byggingarstíll, sem þróast hafði á Íslandi frá á miðöldum, hélst í megindráttum óbreyttur til vorra daga. Eldsneytisskorturinn, sem smám saman varða sárari og sárari, sakir þess að rekavið þraut og einkum við að skógarnir eyddust, varð ekki til þess að nýtísku hitunartæki væru tekin í bæina eins og gerðist annars staðar á Norðurlöndum. Hins vegar var gripið til þess ráðs að fækka þeim húsum, sem eldar voru kynntir í, og víðast var hvergi tekinn upp eldur nema í eldhúsinu. Í öðrum bæjarhúsum létu menn sér nægja að verjast kuldanum með hinum þykku torfveggjum og loka gluggum og vindaugum í vetrarkuldum. Af því leiddi aftur að löngum var dunillt loft í hinum lokuðu híbýlum.

Hvorki eldstór, ofnar, bíleggjarar né skorsteinar voru á íslenskum sveitarbæjum, fyrr en nú á allra síðustu árum, um leið og ný húsagerð kom til sögunnar, sem algeng er í öðrum löndum, þ.e. timburhús eða hús úr steinsteypu. Glergluggar sem nú eru algengir, jafnvel í hinum gömlu bæjarhúsum, komu mjög seint til Íslands, en þeir komu ekki í sveitabæi á Norðurlöndum fyrr en á 16. öld, þeir hafa því varla haft nokkra þýðingu á Íslandi fyrr en á 18. eða 19. öld. Fyrir þann tíma voru skjágluggarnir, þ.e. líknarbelgur þaninn á trégrind, sem fest var á gat í þekjunni og hleypti nokkurri birtu í gegn, einir um að veita birtu inn í húsin.

Hnignun alls þjóðarhags, sem hélt áfram öldum saman, orkaði auðvitað einnig á húsagerðina. Eftir því sem tímar liðu fram, létu menn sér duga það sem einfaldast var og auvirðilegast. Aðeins á biskupsstólunum, Hólum og Skálholti, og einstaka höfðingjabólum voru húsakynni, sem minntu á höfðingjasetur fornaldar, en allur almenningur þrengdi að húsakosti sínum. Fjósin minnkuðu m.a. því kúnum fækkaði, jafnframt því sem sauðfé fjölgaði. Þó eldhúsið væri eina bæjarhúsið, sem eldur brann í, gat það enn um skeið gerst að fólkið fengi sér bað að gömlum hætti í baðstofu, og hún þá hituð af því tilefni, en ekki vitum vér, hversu lengi sá siður hefur haldist.

Eins og þegar er getið, var baðstofan stundum skilin frá bæjarhúsunum, en venjan var að hún væri eitt af öftustu húsunum í bænum. Var það meðal annars til þess að önnur hús gætu notið hitans frá henni. Vafalaust hefur hún örðum stundum verið notuð til ýmissa annarra hluta. Þannig hefur mátt nota hana til dvalar og vinnustofu, þegar fólk var ekki í baði, en einkum þó eftir að hætt var að kynda elda í stofu og skála. Það kemur í ljós að á 18. öld var tekið að nota baðstofuna á þennan hátt, en upprunaleg notkun hennar var þá úr sögunni, þar sem baðvenjur voru niður lagðar.

En svo fór að menn höfðu ekki einu sinni eldsneyti til að hita baðstofuna. Nafnið eitt hélst á húsi því, sem oftast var fyrir endanum á bæjargöngunum. Það hafði áður verið notað til að baða sig í, en þegar sífellt þurfti að draga saman seglin með húsakostinn, varð það svefnherbergi. Skálinn var yfirgefinn, og rúmin flutt í baðstofuna. Í fyrstu munu það aðeins hafa verið húsbændur og fjölskylda þeirra, sem bjuggu um sig í öðrum enda baðstofunnar, bæði til að njóta hlýunnar og draga sig frá fólkinu. En síðan tók allt heimilisfólkið að sofa og dvelja í baðstofunni.

Lega baðstofunnar innst í húsaþyrpingunni hafði í för með sér að hún varð tiltölulega hlý, en nægði þó varla ætíð. Þá var gripið til þess ráðs í mörgum byggðarlögum að hýsa kýrnar þannig að fólkið í baðstofunni nyti ylsins af þeim. Ekki er kunnugt, hvenær sá siður var upp tekinn að hafa fjósið undir baðstofunni, ef til vill er hann gamall. –Byggingarlagið var þá með þeim hætti að fjósið var ögn niðurgrafið, en baðstofugólfið, sem um leið var nokkuð hærra en gólfflötur annarra bæjarhúsa.

Afstaða bæjarhúsanna innbyrðis hélst óbreytt í höfuðdráttum. Algengast var að þau stæðu til beggja hliða við göngin og fyrir enda þeirra, en tala þeirra gat verið breytileg, en jafnframt mátti bæta fleiri húsum í þyrpinguna, og höfðu þau þá sér inngang. Í tilteknum héruðum var húsunum skipað í eina röð, þannig að skipan þeirra nálgaðist fornaldarbæina, en þó með þeim mun að í fornbæjunum stóðu húsin hvert í framhaldi af stafni annars, en nú stóðu þau hlið við hlið og snéru stöfnum fram á hlaðið. Ef til vill hefur notkun glerglugganna átt þátt í þessu, en leitast var við að hafa þá á timburstöfnum.

Þegar gluggarnir voru í framhlið bæjarins gat fólkið, sem inni var, séð innan úr húsunum, hvað gerðist á hlaðinu. Auk þessa voru þakgluggar á baðstofunni. Þegar fólk var flutt inn í baðstofuna og einnig fyrir nóttina, var skálinn ekki lengur svefnstaður og hvarf brátt úr sögunni, eða merking orðsins breyttist, ef svo má segja, í miklu lítilsverðara hús en áður, en hélt þó sömu stöðu í bæjarþyrpingunni og gamli skálinn. Ennþá er oftsinnis að hús frammi í bænum er kallað „skáli“, þótt það sé notað sem skemma eða á einhvern annan hátt.

Allt frá þeim tíma, sem baðstofan varð sameiginlegur dvalar- og svefnstaður og böð voru úr sögunni, voru öll herbergi, sem notuð voru á sama hátt og hún, kölluð „baðstofur“, án tillits til legu þeirra í bænum. Og um leið höfðu menn horfið til hins forna siðar, að sofa í sama húsi og þeir unnu í og dvöldust á daginn."

Glaumbær

 Glaumbær í Skagafirði, dæmigerður "ganga - bursta bær" sem var loka kaflinn í þróun torfbæjarins. þar er baðstofan aftast í húsaþyrpingunni en fram á hlaðið eru þiljaðar burstir með gluggum og dyrum (sem ekki sjást á þessari mynd sem tekin er baka til) 

Daniel Bruun fór yfirleitt fegurri orðum orðum um íslensku torfbæina en flestir útlendingar, enda hefur hann sjálfsagt gist á betri bæjum í ferðum sínum. Það skildi þó ætla að prestsetrið á Þingvöllum hafi ekki beinlínis verið kotbær þegar Burton hinn Kalaforníski kom þar við. En þetta hefur Bruun m.a. punktað hjá sér eftir veru sína á íslensku prestsetri;

„Á Stóra-Núpi tók síra Valdemar Briem vinur Ólsens á móti okkur. –Kvöldið leið á mjög ánægjulegan hátt við fjörugar samræður í skrifstofu prestsins með mörgum fullum bókaskápum. Og að þeim loknum hvíldum við félagarnir í rúmum okkar og ræddum um, hversu notalegt það gæti verið að dveljast í íslensku torfbæjunum.“ 

Samt átti Bruun það líka til að bölsótast út í baðstofu íslenska bæjarins. "Hann skrifaði syni sínum sumarið 1907 þegar hann dvaldi í tjaldi á Gásum; -ég vil miklu heldur njóta hreina loftsins í tjaldinu en búa við hið andstyggilega, innilokaða loft í bæjunum, þar sem gluggar eru nær aldrei opnaðir. Þeir eru ekki á hjörum og oftast negldir aftur. Ég minnist þess einu sinni á ferðalagi að ég bað bóndann að opna glugga á herbergi, sem ég svaf í. Hann braut rúðuna einfaldlega af einskærri góðvild". 

Nóbelskáldið fór engu rósamáli um íslenska torbæjarmenningu í bókum sínum, en hann minntist torfbæjanna þó þannig, - þegar hann talaði um listfengi þeirra og viðhaldsþörf, því torfbæina þurfti að endurbyggja á 25-50 ára fresti og var þá ekki allur bærinn undir heldur einstök hús hans; - "Tilgerðarlaus einfaldleiki er mundángshófið í hverju listaverki, og að hvert minnsta deili þjóni sínum tilgáng með hæversku. Það er einkennilegt hvernig fólk í ljótustu borg heimsins leitast við að reisa hús sín svo rambyggilega, eins og þau ættu að standa um aldur og ævi. Meðan var til íslensk byggingarlist var aldrei siður að byggja hús til lengri tíma en einnar kynslóðar í senn, - en í þá daga voru til falleg hús á Íslandi."

Þegar ég spurði afa minn, sem fæddur var í upphafi 20. aldarinnar og ólst upp í torfbæ, hvort ekki hefði verið notalegt að alast upp í þannig húsi, þá hristi hann höfuðið og sagði; "minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn", og sagði mér svo frá sagganum og heilsuleysi foreldra sinna sem hann taldi að húsakynnin hefðu ekki bætt. Hann talaði um leka bæi og fyrirkvíðanlegar haustrigningar.

Þverá Laxárdal

Þverá Laxárdal S-Þing. þessi bær er dæmigerður Norðlenskur torfbær um aldamótin 1900. Hann hafði þó þá sérstöðu að bæjarlækurinn rennur inn í hann, þannig að ekki þurfti að fara út til að sækja vatn. Það sama átti við burstabæinn á Gvendarstöðum í Köldukinn og þar var auk þess fjósbaðstofa

Í Árbók Þingeyinga er nákvæm og skemmtileg lýsing Kristínar Helgadóttir á Gvendarstöðum í Köldukinn um það hvernig var að alast upp í torfbæ með fjósbaðstofu á 4. og 5. áratug 20. aldarinnar, þegar útséð var að nýr húsakostur tæki við af gamla torfbænum og honum yrði ekki lengur við haldið. Í niðurlagi segir Kristín m.a. þetta;  Blessaður gamli burstabærinn, hann bauð upp á margt skemmtilegt bæði úti og inni, einfalda saklausa barnaleiki. Svo urðum við bæði eldri, ég og burstabærinn. Ég hætti að dansa ballett á hlaðinu og horfa á mig í stofuglugganum hvað mér tækist nú vel, þó gúmmískórnir væru nú ekki bestu ballettskórnir.

Gamli bærinn var þreyttur, þökin fóru að leka meira og meira, stundum lak alls staðar og farið var af stað með alla dalla til að setja undir leka. Stór pollur var fremst í göngunum, það var lögð brú yfir hann. Loksins þegar stytti upp var farið að ausa pollinn. Þetta var á haustin, maður kveið fyrir haustrigningunum. Svo var gott þegar snjórinn kom og setti vel að húsunum, þá hlýnaði líka inni, samt man ég ekki eftir að væri mjög kalt í baðstofu, kýrnar hafa bjargað því og ofninn sem áður er getið, 14 lína lampinn hitað líka og svo var margt fólk sem gaf frá sér hita.

Ég hugsa um mömmu mína og hennar líf í þessum bæ. Í þessum bæ ól hún sín átta börn, annaðist þau og sá þau vaxa, hún þerraði tárin og tók þátt í gleðinni. Hún hlúði að gamla fólkinu sem sumt var rúmliggjandi lengi. Ég sem yngsta barn man ekki eftir þessu fólki, afa og ömmu, Jórunnu ömmusystir og Önnu Kristjánsdóttir sem lengi var vinnukona hjá foreldrum mínum og var heilsulaus síðustu árin.

Allt þetta fólk dó á Gvendarstöðum í skjóli foreldra minna og mamma annaðist þau. Hún hugsaði vel um bæinn sinn og hélt honum hreinum, moldargólfin voru sópuð með vendi, hurðir, stoðir og gólf, allt var hvítþvegið og öll þessi tréílát sem voru í notkun. Svo þurfti að hugsa um fatnað og allt þetta fólk. 

Árin liðu, bærinn hrörnaði og ég stækkaði, kannski var manni farið að finnast margt erfitt og þröngt og öðruvísi en ætti að vera. Sambúðin við þennan gamla bæ, sem búin var að vera mitt fyrsta skjól og leikvöllur bernsku minnar, var senn á enda og árið 1948 var hann rifinn og nýtt hús byggt á sama stað, stórt og gott hús sem mér hefur með árunum lærst að þykja vænt um eins og gamla bernskubæinn minn. (Árbók Þingeyinga 2012 – Ég og burstabærinn / Kristín Helgadóttir Gvendarstöðum Köldukinn)

 

 Keldur

Keldur á Rangárvöllum sem segja má að sé blanda af burstabæ og fornri húsagerð þar sem skálinn lá samsíða hlaði

 

IMG_1525

Langeldur í gólfi skálans í Borg á Lofoten. Upphækkaður pallur var oft með báðum hliðum skálabæjanna og fyrir stafni. Öðru megin var æðri pallur þar sem húsbóndinn sat um miðju langhliðar í öndvegi milli súlna sinna. Heimilisfólk og gestir mötuðust á pöllunum, héldu sínar kvöldvökur og sváfu svo á fleti eða í lokrekkjum við útveggi. Innst í skála fyrir stafni var pallur þar sem konur höfðu aðstöðu sína

 

Borg á Lofoten

"Stofan" í Borg á Lofóten, sem var vinnuaðstaða og íverustaður bæjarins, og á íslandi var hún talin vera þar sem sá handiðnaður fór fram sem þurfti að sitja við og standa. Þar voru klæði ofin, áhöld smíðuð, reiðtygi smíðuð og geymd, matast og síðar sofið. Síðar urðu smiðja, búr og skemma að útbyggingum líkt og sjá má á myndinni af þjóðveldisbænum að Stöng hér að ofan

 

IMG_3256

Baðstofan í Glaumbæ, Skagafirði. Dæmigerð íslensk baðstofa á betri bæ á 18. og 19. öld. Askar með matarskammti við hvert rúm, en í hverju rúmi gátu sofið fleiri en einn og var það m.a. gert svo fólk ætti auðveldara með að halda á sér hita 

 

IMG_2675

Baðstofan á Grenjaðarstað í Aðaldal. Rokkar, ullarkambar, prjónar og önnur vefnaðaráhöld voru til taks við svo að segja hvert rúm, því í baðstofunni var fatnaður heimilisfólks framleiddur

 

IMG_3644

Galtastaðir fram í Hróarstungu á Héraði. Þar er baðstofan samhliða hlaði líkt og skáli fornbæjanna. Auk þess er fjósbaðstofa á Galtarstöðum, - það er að segja kýr sem hitagjafi undir baðstofugólfi. Þetta virðist ekki hafa verið óalgeng húsaskipan á kotbæjum Austanlands. Í bænum á Galtarstöðum var búið til ársins 1960


Steypuhrærivélin

Stokksnes radsjárstöð

Það eru ekki allir þeirrar gæfu aðnjótandi að finnast þeir vera fæddir í fríi. Svo virðist vera að samfélagsgerðin geri ráð fyrir að slitið sé á milli frí- og vinnutíma. Þannig að hjartans þrá tilheyrir hvorki stað né stund og til verður fjarverufíkn án núvitundar. Samt eru til dæmi þess að fólk hafi hitt á fjölina sína og geri ekki mikinn greinarmun á vinnu- og frítíma þegar ánægjan er annars vegar. Í sem stystu máli má segja sem svo að lífsgæði síðuhöfundar hafi velst um í steypuhrærivél.

Alveg frá því fyrst ég man hef ég þvælst um byggingastaði og steypt hvern minnisvarðan um annan þveran. Þar hefur oft átt við dæmisagan um verkamanninn, sem var á þá leið að maður kom á byggingarstað á björtum góðviðrisdegi. Fyrst kom hann að smið sem var að höggva til planka, og spurði hvað hann væri að gera. Smiðurinn svaraði önugur; "Þú hlýtur að sjá það sjálfur maður ég er að höggva til spýtu". Þá kom maðurinn að múrara, sem var að hlaða vegg, og spurði hvað hann væri að gera. Hann svaraði jafn önugur og smiðurinn; "Eins og þú sérð er ég að hlaða vegg". Næst kom maðurinn að verkamanni, sem hamaðist kófsveittur við að moka sandi og maðurinn spurði hvað hann væri að gera. Verkamaðurinn ljómaði allur í ákafa sínum og sagði; "Við erum að byggja dómkirkju".

Núna í sumar var ég á ferð í brotinni byggð og var minntur á eina dómkirkjuna sem ég hrærði steypuna í, en þessi minning kom upp á stað þar sem skáldið orti forðum farðu í rassgat Raufarhöfn. Þegar ég gekk um hafnarsvæðið sá ég bíl sem var merktur fyrirtæki sem átti hug minn allan í hátt á annan áratug. Fyrirtæki sem ég hafði stofnað ásamt vinnufélögum mínu upp úr þeim rekstri sem ég hafði staðið fyrir í eigin nafni frá því 23 ára gamall. Þetta fyrirtæki er enn í rekstri með tvær starfstöðvar á Íslandi og rekið á meira en 30 ára gamalli kennitölu.

Siglufjörður 1988Það var á Djúpavogi fyrir öllum þessum árum sem við vinnufélagarnir  sameinuðumst um fyrirtækið Malland. Markmiðið var að búa okkur til lífsviðurværi sem myndi gagnast okkur til búsetu á Djúpavogi, þó svo að verkefnin þyrfti að sækja um langan veg. Hugmyndin gekk út á, auk steypunnar, að þjónusta matvælaiðnað. Við markaðssettum okkur sem sérfræðinga í epoxy iðnaðargólfum og héldum áfram því skemmtilega á sumrin, að byggja og lagfæra hús, auk þess að steypa mynstraðar stéttar. Verkefnin voru víða um land auk þess sem við fórum um tíma í útrás. Nokkru sinnum fórum við til Ameríku á steypu workshop, svona í nokkurskonar saumaklúbb ásamt 200 steypuköllum víða að úr heiminum.

Ég var stundum spurður útí það hvernig nafnið Malland kom til og varð þá svarafátt. Sumir giskuðu á að það væri dregið af möl samanber steypumöl  aðrir ályktuðu sem svo að nafnið hefði með málningu að gera sem ég var umboðsmaður fyrir um tíma, og væri því Málland. Eins var ég oft spurður að því á Norðurlandi hvort ég tengdist eitthvað bænum Malland á Skaga. Sannleikurinn á bak við nafnið er sá að ég vafði mér sígarettur úr tóbaki sem hét Midland og fannst nafnið líta vel út en gat þó ekki sætt mig  við Miðland né ensku útgáfuna. Leturgerðin í nafninu er meir að segja fengin hjá Midland tobacco.

Það var auðskildara hversvegna húsið sem við Matthildur mín byggðum  hét Tuborg, en sú  nafngift var ekki frá mínu líferni komin, heldur var það þannig að þegar ég þurfti að skrá húsið opinberlega þá voru ekki komin götunöfn á Djúpavogi, heldur hétu húsin hvert sínu nafni. En þar sem ekki hafði gefist tími til að koma sér niður á nafn þegar skráningin fór fram þá stakk Ólöf heitin Óskarsdóttir á hreppskrifstofunni upp á að það héti bara Tuborg því í nágreninu væri Borg. 

Það má segja að Malland hafi verið orðið að epoxy ævintýri sem ég lét félögum mínum eftir upp úr aldamótum, enda þeir meira með hugann við annað en steypu. Ég hélt minn veg og þeir sinn með Malland um tíma, en nú er svo komið að engin af Djúpavogsdrengjum er þar um borð.

 

St. Louis 1998

Mallandsfélagar að sýrulita steypu í Amerískum "saumaklúbb". Á árunum 1993-1998 var þrisvar farið til landsins steypta USA til móts við 200 kolleiga á workshop. Þar voru sett upp svæði og menn sýndu listir sínar. Eitt skiptið duttu út fyrirfram ákveðnir sýnendur og íslensku víkingarnir voru óvænt manaðir til að hlaupa í skarðið. Þá kom sér vel að hafa rúnina Ægishjálm á heilanum til að móta og lita í steypuna

 

Miðvangur

Færanleg Amerísk snigilsteypuhrærivél, sem var sú eina á landinu. Hún hrærði 10 m3 á klukkutíma en var ekki góðkennd af opinbera regluverkinu. En það skipti engu máli við höfðu ævinlega meira að gera en komist var yfir 

 

STO

Múrverk var okkar fag og þess vegna fengumst við mikið við að flikka upp á steinsteypt hús. Að ofan er fyrsta húsið sem ég eignaðist á ævinni, Ásbyrgi Djúpavogi. Margir vildu meina að það væri jarðýtu matur, en í Ásbyrgi er búið enn þann dag í dag og lítur það betur út en það leit eftir endurbæturnar. Hitt húsið er Hvammurinn á Höfn þar sem rekið hefur verið sem gistihús frá því að það var gert upp fyrir meira en 30 árum 

 

Tuborg

Tuborg, húsið sem við Matthildur byggðum okkur á Djúpavogi. Þar voru öll Mallands trixin notuð, múrsteinar, mynstruð steypa og epoxy

 

IMG_3001

Þegar við Matthildur mín dveljum í heimsóknum á Djúpavogi á ég það til að laumast út og dást að gömlu steypuhrærivélinni þar sem hún má muna fífil sinn feguri úti í móum 

 

IMG_3521

Rakst á þennan við fiskverkunarhús á Raufarhöfn í sumar, með áletruninni "í gólfum erum við bestir" 

 

Svona var frystihúsi umbreitt yfir jól og svo var haldið í það næsta um áramót. Þetta var áður en það þurfti að rýna í reglugerðina og fara í grenndarkynningu þó svo að veggur væri færður til innanhúss. Já kannski vorum við í gólfum bestir.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband