Hvað með Hróarstungu?

Hvort Hróar Tungugoði hafi átt víkingasverðið og lærbeinið sem gæsaskyttur fundu að Ytri Ásum er ekki gott að vita. En það eru til fleiri kenningar um hvar goðorð Hróars Tungugoða hafi verið og ef eitthvað er til í þeim þá fluttist Hróar alla leið austur á Fljótsdalshérað.

Í Lesbók Morgunnblaðsins 13. ágúst 1994 má lesa eftirfarandi grein eftir Sigurð Sigurmundsson; 

"Í Landnámu segir, að Uni son Garðars Svavarssonar, þess er fyrst fann Ísland, hafi farið þangað með ráði Haralds konungs hárfagra. "Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós og húsaði þar. Hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar. En er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast. Uni fór suður í Álftafjörð enn syðra, en náði þar eigi að staðfestast. Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi og tók hann við þeim." Uni þýddist Þórunni dóttur Leiðólfs og var hún með barni um vorið. Talið er samkvæmt örnefnum að Skógahverfi hafi verið í Vestur-Skaptafellssýslu. En lok málsgreinarinnar eru þessi: "Sonur Una og Þórunnar var Hróar Tungugoði. Hann tók arf Leiðólfs allan og var hið mesta afarmenni. Hann átti Arngunni dóttur Hámundar systur Gunnars á Hlíðarenda. Þeirra son var Hámundur hinn halti er var enn mesti vígamaður." Sagt er að til hafi verið sjálfstæð saga Hróars Tungugoða sem glötuð sé. Frá henni muni þessar frásagnir vera runnar og Sturla Þórðarson styðjist við hana í Landnámugerð sinni. Hann virðist ætla að Hróar og Arngunnur Hámundardóttir hafi búið í Skógahverfi syðra, en getur aðeins Hámundar halta sem vígamanns, nefnir ekki bústað hans.

Þá er næst, til samanburðar, að geta þess hvað Njála hefur til þessara mála að leggja. Fræðimenn telja fullvíst að Njála sé óháð Landnámu enda ættartölur hennar aðrar. Höfundurinn hefur þá heldur ekki þekkt hina glötuðu sögu Hróras Tungugoða og frásögn Landnámu af hrakningi Una suður í Skaptafellsþing og búsetu Hróars þar. Í 19. kapitula Njálu er Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda fyrst kynntur og ættfærður. Síðan kemur eftirfarandi málsgrein: "Arngunnur hét systir Gunnars; hana átti Hróar Tungugoði sonur Una eins óborna Garðarssonar; sá fann Ísland. Son Arngunnar var Hámundur halti er bjó á Hámundarstöðum."

Þá er að huga að því hvernig hugur Njáluhöfundar var að verki er hann samdi þessa málsgrein. Það er ekki að sjá að hann viti annað um Hróar en nafn hans og hjónaband þeirra Arngunnar og soninn Hámund halta, sem Njála telur búa á Hámundarstöðum. Að lokinni þessari málsgrein fer vart á milli mála hvar hugur Njáluhöfundar dvelur. Hann virðist þekkja bæjarnafnið Hámundarstaði svo vel, að hann gleymir að taka fram að þeir séu í Vopnafirði. Höfundur Fljótsdælu nefnir og Hróar Tungugoða sem búið hafi á Hofi í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði og hún dregið nafn af honum. Þar sem Njáluhöfundur hefur engar spurnir af öðrum Hróari má nærri víst telja að hann álíti að Arngunnur Hámundardóttir hafi verið gift honum og þau búið á Hofi í Hróarstungu. Höfundur Fljótsdælu segir Hróar barnlausan, en þar ber þeim ekki saman þar sem hinn (Njáluhöfundur) segir Hámund halta á Hámundarstöðum son þeirra. En tveir synir hans koma síðar fram í Njálu í liði Flosa eftir Njálsbrennu, Hróar Hámundarson og Vébrandur, en ekkert segir af heimkynnum þeirra. Þeir gátu verið norðan úr Vopnafirði. Komið hefur fram sú skoðun, að þessi Hróar Tungugoði hafi aldrei verið til, bær hans Hof, ekki fundist, en þjóni vissu hlutverki í Fljótsdælasögu sem skáldverki. En Njáluhöfundur má hafa vitað betur. Gagnmerkur fræðimaður, Halldór heitinn Pétursson, upprunninn úr Hróarstungu, lét sér ekki lynda að þessi Hróar hafi aldrei verið til, en setur fram þá skoðun sem hér fer á eftir: "Hér bendir ekkert til þess að Hróar hafi komið sunnan úr Skaptártungu. Hitt sýnist mér liggja beint fyrir að hér hafi kunnugur maður um vélt, því að dagleið er frá Hofi í Krossavík. Það hefur alltaf verið vefengt að Hof í Hróarstungu hafi verið til, en þar er ég á öðru máli. Skulum við nú snúa okkur að hinum týnda stað og freista þess að leita Hofs í Hróarstungu. Það skal fyrst hafa í huga, að yfirleitt voru ekki Hofsnöfnin lögð niður með kristni, en slíkt gat átt sér forsendur ef Hofsbær var færður úr stað. Milli Gunnhildargerðis og Kirkjubæjar í Hróarstungu heitir Fornistaður og stendur á samnefndum ás. Þarna eru geysimiklar rústir sem aldrei hafa verið rannsakaðar. Fleirum en mér mun finnast nafnið "Fornistaður", búa yfir einhverju ósögðu, hér hljóti að búa einhver saga á bakvið."

Halldór Pétursson var sannfærður um að Austfirðingur hafi skrifað Njálu. Hann gerði merkar staðfræðilegar athuganir þeirri skoðun til styrktar. Niðurstöður þeirra athugana, sem hér hafa verið fram bornar, verða því sem hér segir: Njáluhöfundur sem best þekkti til á Austurlandi (að líkindum upprunninn frá Valþjófsstað) virðist telja að Arngunnur Hámundardóttir hafi gifst Hróari Tungugoða á Fljótsdalshéraði og Hámundur halti búið á Hámundarstöðum sem áður getur. Virðist ekkert mæla á móti því að svo hafi verið."

Greinina má lesa í heild sinni hér.


mbl.is Átti Hróar Tungugoði sverðið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband