Fjallið og Múahameð

IMG_3500

Þegar fjallið kemur ekki til Múhameðs má segja sem svo að Múhameð verði að fara til fjallsins. Eitthvað á þennan veg hefur sjálfsagt margur landinn hugsað þegar utanlandsferðin í sólina hefur verið versluð þetta sumarið. Þó svo sumarið sem af er hafi verið með betri sumrum hvað gróanda jarðar varðar og langt frá því að vera með meiriháttar úrkomusumrum, hvað þá kalt, þá hefur sólina vantað. Og þegar gengi krónunnar er sterkt þá bíður landinn ekki eftir sólinni að sumarlagi heldur fer þangað sem hún skín.

Það er fjall hérna rétt innan við hús, sem í skyggni gærdagsins var þrjóskara en fjallið sem kom til Múhameðs, þannig að við hjónakornin ákváðum að fara til fjallsins. Fjallið, sem er hæsta fjall landsins utan jökla og trúað var fram eftir öldum að væri hæsta fjall Íslands. Þetta fjall blasir við úr stofuglugganum flesta daga en í gær morgunn voru skúrir og þokubólstrar á víð og dreif sem skyggðu sýn á Snæfellið.

Það var því ekki um annað að ræða en láta sig hafa það að panta sólarlandaferð í 16 stiga hita og skúrasömu blíðviðri, eða leggja upp í óvissuferð til fjallsins og sjá hvernig viðraði þar um slóðir. Síðan Kárahnjúkavirkjun varð að veruleika er auðvelt að skjótast inn að Snæfelli, ferðlag sem tók jafnvel einhverja daga fyrir nokkrum árum tekur nú fáar klukkustundir. Og þó svo að ekki sé hægt að hringkeyra Snæfellið þá er hægt að fara því sem næst inn að rótum Vatnajökuls bæði að austan- og vestanverðu um útilegumannaslóðir þjóðsagnanna.

IMG_3521

Við Laugafell, horft með austanverðu Snæfelli inn að Eyjabakkajökli

Við byrjuðum á því að fari inn með því að austan í sólskini og sunnan blæ, þó svo hitastigið væri ekki nema 12 – 14 gráður þá mátti vel búast við meiru þegar liði á daginn enda enn bara miður morgunn. Þarna er hægt að keyra á malbikuðum vegum Landsvirkjunar langleiðina inná Eyjabakka, þ.e.a.s. að uppistöðulónum Ufsaveitu. Þarna er með góðum vilja hægt að hæla Landsvirkjun fyrir fleira en veginn, því þar hefur nokkurn veginn tekist varðveitt sýnishorn af fyrrum Vatnajökulsbláa lit Lagarfljóts í lónunum neðan við Eyjabakkana sem náttúrverndarfólki tókst að fá þyrmt í stærstu framkvæmd íslandssögunnar.

Þegar við fórum þarna um kom lítil saga upp í hugann sem ég rakst óvænt á í bókinni "Syndir feðranna" og hef hvergi rekist á annarsstaðar hvorki heyrt á skotspónum né séð í þjóðsaganasöfnum. Þar segir frá því þegar Þórður í Dýjakoti var myrtur þarna í nágreninu, nánar tiltekið við Hornbrynju. Dýjakot, sem ég minnist ekki að hafa heyrt getið um, gæti hafa staðið á þessum slóðum miðað við staðarlýsingar í sögunni, eða rétt austan við Laugarfell. Það er reyndar ýmislegt í sögunni sem passar ekki alveg við þær hugmyndir sem sagnfræðin hefur komið inn hjá manni í gegnum tíðina.

Þessir atburðirnir er sagðir gerast árið 1701 í verslunarferð Þórðar niður í Berufjörð, nánar tiltekið til Gautavíkur. Samkvæmt mínum hugmyndum var verslun í Gautavík aflögð á þeim tíma því ekki hef ég heyrt Gautavíkur getið sem verslunarstaðar eftir að einokunarverslun var komið á, sem varaði frá 1602 – 1787. Árið 1589 er Djúpivogur gerður að löggiltum verslunarstað og hafði Fúlivogur sem er því sem næst á sama stað verið verslunarstaður þar á undan og einmitt þangað hafði hin forna verslun í Gautavík flust. Sagan gæti samt sem áður verið sönn því vel gæti hafa verið verslað á laun við Gautavík fram hjá einokurversluninni, án þess að getið sé í sögubókum.

IMG_3473

Norður af Ufsaveitu, þar sem Dýjakot gæti hafa staðið. Laugarfell ber hæðst vinstra megin

En saga þessi greinir í stuttu máli frá sex daga verslunarferð Þórðar í Dýjakoti til Gautavíkur. Hann fer sunnan við Hornbrynju niður í Fossárdal og síðan inn Berufjörð að sunnanverðu og út að norðan til Gautavíkur, sem bendir til að Dýjakot hafi verið talsvert innarlega á öræfunum, annars hefði verið styttra að fara norðan við Hornbrynju og niður Öxi í botn Berufjarðar.

Í sem stystu máli lendir hann í útistöðum við þýskan kaupmann vegna ullar sem hann vildi fá sérstaklega viktaða því það voru hagalagðar barnanna hans þriggja, en kaupmanninum þótti svoleiðis lítilræði óþarft. Þeir lenda í áflogum og pakkar Þórður honum saman. Eftir að kaupmanninum hafði verið bjargað við illan leik, ákveður Þórður að halda strax heim með hest og varning. En þá sér kaupmaðurinn færi á að ráðast aftan að honum og enn pakkar Þórður honum saman.

Þórður á að hafa farið sömu leið heim, um þriggja daga ferðalag. Einhverjir íslendingar sáu til þýska kaupmannsins morguninn eftir þar sem hann fór ríðandi inn Berufjörð. Þess er skemmst að geta að ekki skilaði Þórður sér heim, en hestur hans ásamt varningi skilaði sér í Dýjakot. Þremur vikum eftir þessa atburði komu kona hans og þrjú börn til byggða að innsta bæ í Fljótsdal. Lík Þórðar fannst síðan í göngum um haustið, sitjandi vestan undan Hornbrynju í, illa farið og þegar að var gætt var gat eins og eftir byssukúlu á höfðinu.

IMG_3577

Vestan við Snæfell á bökkum Hálslóns, fremri Kárahnjúkur fyrir miðri mynd

Eftir að hafa ferðast um í kyrrðinni austan við Snæfellið, þar sem einungis urðu tvenn þýsk hjón á vegi okkar fórum við vestur fyrir fjallið á hin margrómuðu Vesturöræfi. þar sem hreindýraskyttur og gangnamenn einir kunnu áður fyrr að greina frá undrum Svörtugljúfra, Kringilsárrana, Töfrafoss o.fl., sem nú er á botni Hálslóns. Á leiðinni norðan við Snæfell tókum við ungt par frá Frakklandi uppí, en þau voru á leið í Kárahnjúka og svo þaðan vestur í Öskju, með engan farangur, en full eftirvæntingar og bjartsýni. Þau höfðu verið við vinnu á Héraði frá því í maí og ætluðu að nota tímann þar til í September til gönguferða um hálendið norðan Vatnajökuls.

IMG_3570

Sauðfé, sem lengi var talið mesti skaðvaldur íslenskrar náttúru, á fyrrum Vesturöræfum nú uppgræddum bökkum Hálslóns. Snæfell í baksýn 

Við keyrðum svo vestan við Snæfellið inn með Hálslóni Kárahnúkastíflu eins langt og við komumst á vegi Landsvirkjunar. Þarna var allt annað skyggni en í tæra fjallaloftinu austan við Snæfell því það rauk af leirum Hálslóns í suðvestan golunni og byrgði sýn. Í suðvestan átt getur það verið fleira en þoka, ský og skúrir sem byrgja útsýnið á Snæfellið úr stofuglugganum heima. Það eru nefnilega líka dagar sem fokið af leirunum kemur í veg fyrir skyggni, jökulryk sem hefur sama lit og Lagarfljótið hefur núorðið.

En ekki er víst að mögulegt hefði verið að skoða stóran hluta víðernanna norðan Vatnajökuls á dagsstund án afleiðinga Kárahnjúka.

 

IMG_5689

Við Kárahnjúkastíflu á góðviðrisdegi, Snæfell í fjarska hægra megin 

 

IMG_5734

Laugafellsskáli, rétt austan við Snæfell

 

 IMG_6457

Horft í áttina að Hálslóni og Vesturöræfum úr lofti í suðvestan golu, Snæfell í baksýn


Bloggfærslur 16. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband