Djúpavogspeningarnir.

 

Ég hef verið að lesa undanfarna daga bókina "Fólkið í plássinu" eftir Má vin minn á Djúpavogi.  Þessi bók segir frá lífi fólksins á Djúpavogi á 20. öldinni í 26 smásögum.  Þetta eru stórskemmtilegar frásagnir af atburðum og fólki.  Saga alþýðu fólks sem að öllu jöfnu eru ekki skráð á prenti.   Eins er sögu nokkurra húsa gerð skemmtileg skil með því að flétta inn í frásagnir af fólkinu sem í þeim hefur búið.  Sögu Búlandtinds hf og Kaupfélags Berufjarðar, stærstu atvinnurekenda staðarins, eru gerð skil ásamt hinum einstöku "Djúpavogs peningum" sem var sjálfstæður gjaldmiðill á Djúpavogi árið 1968.

Djúpavogs peningarnir vöktu frá upphafi áhuga minn, því þegar ég heyrði af þeim fyrst, sjö ára polli á Egilsstöðum, varð ég viðþolslaus að komast á Djúpavog.  Á Egilsstöðum var talað um að þeir væru farnir að versla fyrir Mattador peninga á Djúpavogi og af þeim átti ég nóg.  Þó svo að ég kæmist ekki á Djúpavog á meðan sjálfstæður gjaldmiðill var þar í gildi þá bjó ég þar í 17 af mínum bestu árum.  Þar kynntist ég Má og hans stór skemmtilegu sögum og mér þótti stórmerkilegt að fá frá fyrstu hendi að heyra sögu Djúpavogspeninganna.  það má segja að Már hafi verið Seðlabankastjóri Djúpavogs, sem gjaldkeri Kaupfélagsins.  Rétt fyrir hrunið 2008 þegar gengið féll hvað mest komu Djúpavogspeningarnir upp í hugann og bloggaði ég um þá hér á síðunni.  Það er ómetanlegt að saga þessa gjaldmiðils skuli vera komin út á prenti frá fyrstu hendi.

Annars er það sem mest hefur rifjast upp við lestur "Fólksins í plássinu" hvað Djúpivogur hefur átt skemmtilegt fólk í gegnum tíðina, með merkilega sögu.  Um það bera gleggst merki allar þær bækur sem  þetta  litla pláss hefur verið kveikjan af.  Þar eru t.d. bækur eins og "Undir Búlandstindi" eftir Eirík Sigurðsson, "400 ár við voginn" og "Siglt og róið" eftir Ingimar Sveinsson.  Eins má finna skemmtilegar frásagnir af mannlífinu á Djúpavogi í bókinni "Eysteinn í baráttu stjórnmálanna" ritaða af Vilhjálmi Hjámarsyni f.v. menntamálaráðherra, sem lýsir því vel hvað mannlífið og náttúran á Djúpavogi hefur verið Eysteini, þessum mikla áhrifa manni þjóðarinnar kær.   Einnig eru metsölubækurnar "Að breyta fjalli" og "Gaddaskata" eftir Stefán Jónsson sem byggja á æskuminningum höfundar frá þessum andríka stað.

Núna hefur bókin "Fólkið í plássinu" bæst í safn bóka um mannlífið á Djúpavogi og er nálgun höfundar á viðfangsefninu sérlega skemmtileg og einstök viðbót við það sem áður hefur verið ritað um mannlífið á þessum fallega stað.


mbl.is Rætt um Icesave í Parísarklúbbnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll, og takk fyrir þessa stórskemmtilegu frásögn. Það vill svo til að ég er mjög áhugasamur um peningamál, en hafði ekki áður heyrt um Djúpavogspeningana.

Ég hef undanfarna mánuði starfað með hópi sem hittist reglulega og vinnur að þróun hugmynda um öðruvísi fjármálakerfi. (IFRI) Í haust heimsótti okkur hagfræðingur sem er einn af höfundum Evrunnar, og var viðtal við hann m.a. sýnt í Silfri Egils. Hann sagðist ekki vera lengur á þeirri skoðun að einn risagjaldmiðill væri besta lausnin, heldur blandað kerfi þar sem svona staðarmyntir eins og Djúpavogspeningarnir spiluðu lykilhlutverk.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.12.2010 kl. 21:09

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Guðmundur, ég sá þetta viðtal í Silfri Egils.  Þetta hlýtur að vera stórskemmtilegur hópur sem þú hittir reglulega.  Ég hef allt frá unga aldri haft áhuga á öðrum gjaldmiðli en þeim stóra og held að það sé innbyggt í huga hvers barns og tengist því hvað er það besta sem hægt er að gera fyrir aðra.

Fyrir þá sem áhuga hafa á þá má nálgast bókina "Fólkið í plássinu" í Office One í Skeifunni, eins hjá Kjarani Má Mássyni (821 5703) sem býr og starfar á höfuðborgarsvæðinu.  Eins er hægt að hafa samband við höfundinn sjálfan Már Karlsson (478 8838) og fá bókina áritaða.

Magnús Sigurðsson, 4.12.2010 kl. 22:25

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já þetta er stórskemmtilegur hópur sem fundar einu sinni í viku. Miðað við tenglana sem þú ert með á síðunni hjá þér myndi ég giska á að þú hugsir á svipuðum nótum og við gerum. Við höfum verið á miðvikudagskvöldum í Húsinu en erum að svipast um eftir nýjum fundarstað til að fara á eftir áramót. Ef þú hefur áhuga á að kynna þér málið betur vísa ég á heimasíðuna IFRI.is og hægt er að senda okkur tölvupóst á netfangið ifri@ifri.is.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.12.2010 kl. 23:02

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk, Guðmundur.

Magnús Sigurðsson, 4.12.2010 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband