Í mynd.

IMG 2663 

Þá eru vikurnar orðnar þrjár síðan ég fór fljúgandi að heiman yfir himin og haf, feðralag sem endaði á svelli langt fyrir norðan heimskautsbaug.  Eftir að hafa verið í faðmi fjölskyldunnar yfir hátíð ljóssins er ég ekki frá því að það hafi verið venju fremur skuggalegt hérna á 69°N og einmanalegt eftir að mýsnar fóru, en þær fóru í sitt árlega sumarfrí s.l. sumar og rötuðu ekki heima aftur í haust enda komu fyrstu snjóar bæði snöggt og snemma.  Núna um 20. janúar fór svo draumadísin sjálf sólin á stjá sem hún venjuleg gerir um það leiti.  En alltaf hefur lífið samt upp á nýungar að bjóða, núna í janúar er fyrsta skiptið sem ég hef tekið þátt í að hlaða hús á þessum árstíma og það á breiddargráðu sem maður hefði haldið að frostharkan væri meiri en suður á ísaköldu landi.

Það er samt ekki svo að frosthörkurnar hafi ekki verið nægar í Noregi undanfarnar vikur.  Í suðri hafa verið fréttir um allt að -40°C og héðan 150 km norðar í Tromsö komu vinufélagarnir sem þar voru við störf fyrstu vikur janúar með fréttir af vetrarríki. Hérna við Vogsfjörðinn lék milt skammdegið við fólkið og maður fékk fræðslu um það að ekki væri tilviljun að víkingarnir hefðu sett sig hér niður með Trondenes sem eitt af höfuðbólum Hálogalands.  Þeir hefðu vitað lengra en nefið náði þegar kom að veðri.  Víkingarnir bjuggu hérna við norðurströnd Hynneyju, út í eyjum Vesterålen og Lofoten.

Fyrstu tveim vikum ársins var varið í að hlaða viðbyggingu úr vikursteini við gamalt hús í vík sem er hérna rétt utan við dyrnar.  Þarna var fleira á ferð í skammdegisskímunni en fjölþjóðlegur múraraflokkur.  Niður í fjörunni er bátur á þurru og þar snérust refir í kring um sinn næturstað.  Einn morgunn hafði otur lagt upp í ferð til að kanna hvað væri um að vera hjá múrurunum.  Hann hentist svo á harðaspretti niður í fjöru þegar hann var uppgötvaður í njósnaleiðangrinu, án þess að fara hratt yfir enda lappastuttur greyið, en þegar í fjöruna var komið tók hann til sunds og þá var hann á heimavelli.  Eins var svartur skógarköttur úr næsta húsi sem fylgdist af andakt með framkvæmdunum fram í myrkur auk þess að gera sér ferðir niður í fjöru yfir hádaginn og forvitnast hvað refirnir hefðu verið að bralla undir bátnum meðan þeir voru á útstáelsi.

IMG 2738

Síðustu viku hefur svo verið varið við fjósmúrinn hátt upp í hlíðum Evenesmarka á Vaárdíbakken samesk museum.  Þegar þangað kom tók veturinn við með éljum og snjó.  Fyrsti dagurinn hjá okkur múrarameistara Rune fór í að spóla bílnum í snarbröttum brekkunum sem voru með 20 cm púðursnjó yfir svellunum.  Á endanum ákváðum við að nota hjólbörur til að koma verkfærunum síðasta spölinn upp í fjósið.  Rune batt sig með stroffi í hjólbörurnar og fór fyrir lestinni en ég rak hana með því að ýta á eftir.  Svona ferðuðumst við fram og til baka á svellunum á meðan dagskímu gætti. 

Þetta var farið að minna mig á það þegar ég þurfti að bjarga vikunni út í Færeyjum um árið eftir að hafa tínt útborguninni yfir Hvítasunnuhelgi.  Þá var ekki annað í stöðuni en að tína saman tómu bjórflöskurnar og koma þeim í verð hjá kaupmanninum niður á horni.  Eftir að hafa sett tómar flöskurnar í svartan ruslapoka reyndust þær vera allt of þungar.  Því varð að hnupla hjólbörum frá Verkakvennafélagi Þórshafnar, en hjá þeim leigðum við félagarnir á farfuglaheimili.  Þó ekki væri svellunum fyrir að fara og leiðin virtist greið niður á við var hjólið á börunum ryðgað fast, því ótrúleg átök að ýta þeim niður brekkurnar og halda um leið jafnvægi með dýrmætan farminn.  Ég veit ekki enn í dag næstum 30árum seinna hvort það var fyrir að hafa fjarlægt flöskurnar af gistiheimili Verkakvennafélags Þórshafnar eða liðka hjólbörurnar sem gerði það að okkur félögunum var ekki vísað á dyr, en það hafði staðið til í upphafi ferðar en var aldrei minnst meira á eftir að hjólbörunum var skilað. Kóngalífi gátum við félagarnir svo lifað í mat og drykk fram að næstu útborgun fyrir afraksturinn af bjórflöskusölunni.

 IMG 2724

Vaárdibakken er samískt safn eða réttara sagt bóndabær sem gerður hefur verið að safni "kyst sama" en svo nefndust samar sem höfðu fasta búsetu.  Rune segir mér að enn séu hérna í nágreninu samar sem hafa hreindýr til að fylgja eftir og séu tvær hjarðir.  Þessir samar hafa rétt frá fornu fari til að ferðast með hreindýrahjarðir óheft.  Kyst samarnir eða strandsarmarnir höfðu ekki hreyndýr eða tjöld þeir bjuggu á sínum bæjum með sinn bústofn.  Talið er að til séu einhverstaðar á milli 50.000 - 80.000 samar og að um 40.000 af þeim búi í Noregi, annars nær þeirra búsetusvæði yfir Noreg, Svíþjóð, Finnland og Rússland.  Samarnir hafa svolítið austur Evrópu útlit, ljósir yfirlitum með há kinnbein, ljós augu og allt annað tímaskin eftir því sem norðmenn segja.  Kannski eitthvað svipað og stundum var sagt um Jökuldælinga í denn; að það væri til lítils að gefa þeim úr í fermingagjöf, dagatal kæmi að betri notum.

Þó að Vaárdibakken sé langt upp í hlíðum Evenesmarka er síður en svo um lífvana auðn að ræða.  Þarna hafa elgir haldið sig í túnfætinum síðustu daga, fylgst með tiltektum múraranna við grjótburðinn, á milli þess sem þeir naga trjágreinar með stólískri ró.  Einnig eru skóahöggsmenn á ferð í hlíðunum við að safna saman eldiviði fyrir fjarvarmaveituna í Harstad en hún er kynnt með timbri.  Svo hefur komið fyrir að hafhörinn konungur fuglanna svífi yfir svæðið.  Hérna í N-Noregi má bæði sjá haförn og kóngsörn sem er örlítið minni með hvítan haus og makka.  Ég hef átt því láni að fagna að sjá vel til þeirra beggja en hef ekki ennþá séð til gaupu sem er rófulaus köttur á stærð við kálf.  Reyndar segir Rune að ég skuli ekkert búast við því að sjá gaupu hún sé það stygg.

Það má kannski segja að heima í Útgarðinum um jólin hefði ég átt að fá nóg af kattardýrunum okkar Matthildar þannig að það komi ekki að sök þó svo að ekki sýni sig gaupa.  Dagarnir heima yfir hátíð ljóssins liðu samt allt of fljótt og fæstu var komið í verk sem hugurinn stóð til, hvorki farið á Djúpavog né notið dvalar á Sólhólnum úti við ysta haf.  Reyndar lenti ég ofaní í geymslu og var þar bróðurpartinn af jólunum.  En málið er það að það hefur lengi staðið til að grynnka á draslinu í geymslunni.  Ég er marg búin að segja Matthildi minni að það sé lítið mál bara keyra þessu á haugana.  Mest af þessu sé dót í kössum frá því að við fluttum frá Djúpavogi í Grafarvoginn fyrir 13 árum síðan og svo úr Grafarvoginum í Egilsstaði fyrir 9 árum síðan, okkur hafi ekki vantað neitt af því sem er í þessum kössum.  Þetta má hún ekki heyra á minnst því þarna sé um verðmæti að ræða.  Ég hef verið að laumast í geymsluna í leit að enni mynd sem mig grunar að gæti leynst þar, áður en ég hef mig á haugana.

Birgir & Snæbjörn

Þessi mynd var tekin fyrir meira en 40 árum síðan og er af eina þriggja hæða húsinu sem hefur verið byggt á hæðinni á Egilsstöðum.  Þetta hús byggðum við nokkrir pollarnir úr spýtum sem fyrst átti að verða flugvél en síðan misstu flestir trúna á það að hún gæti flogið áður en á reyndi, því var henni breytt í hús og þó svo að sumir vildu meina þetta væri kofi þá var ekki svo í okkar huga.  Jóhann Stefánsson tók þessa mynd af okkur pollunum við mannvirkið enda var Hjörtur sonur hans einn af smiðunum.  Jói hefur gert sér grein fyrir því að þarna var nógu merkilegur viðburður á ferð til að festa á filmu enda Jói stundum með viðurnefnið "snikkari".  Hann gaf okkur svo hverjum og einum eintak af þessari mynd.  Þessa mynd taldi ég mig geta gengið að vísri en nú er hún týnd.

Þó svo að myndin sem ég ætlaði að ganga að í geymslunni sé týnd fann ég margar myndir sem ég hafði tekið fyrir 40 árum á Kodak instamatic myndavélina mína sem hægt var að setja á flasskubb. Filmur og flasskubbar voru dýr munaður fyrir 11 ára gutta þannig að venjulega var ærið verk að safna fyrir filmu og framköllun því flasskubburinn látin sitja á hakanum.  Þess vegna voru flestar myndirnar teknar úti þar sem dagsljóssins naut við.  Ég man ennþá hvað ég varð alltaf fyrir miklum vonbrigðum þegar þessar myndir komu úr framköllun, fátt af því á þeim sem ég hélt að ég hefði verið að taka mynd af, hvað þá að það heyrðist fuglasöngurinn.  En núna meira en 40 árum seinna er betur hægt að sætta sig við þær og yfir að hafa ekki hent þeim eins og öllum málverkunum sem máluð voru voru í denn eftir frábærum fyrirmyndum.

Ég hafði hugsað mér að finna þessa mynd hans Jóa af okkur pollunum við kofan vegna þess að ég hef verið tína saman myndir af þeim húsum sem ég hef komið að því að byggja, eða réttara sagt við félagarnir sem höfum staðið fyrir kofabyggingum.  Reyndar hitti ég Jóa "snikkara" á Barra markaðnum rétt fyrir jólin.  Hann var þar á ferð fjörgamall með Helgu dóttir sinni.  Helga sagði við Jóa; þú þekkir hann þennan er það ekki?  Nei Jói kom ekki manninum fyrir sig.  Hvort var það Héðinn eða Magnús sem bankaða alltaf og spurði eftir stráknum hans Jóa því hann ætlaði sko ekki að leika við stelpu; spurði Helga.  Ja þetta er allavega ekki Héðinn sagði Jói.  Svo fór hann að rifja upp gömul nágranna kynni og sagðist alveg sérstaklega muna eftir egginu sem ég hafði sent í nýmálaðan húsvegginn hjá honum, hvað það hafi erfitt að ná því af, því þegar hann hafði þrifið það þá hefði ekki liðið nema nokkrar mínútur þar til það var komið annað á sama stað þannig að á endanum hafi hann séð að best væri að láta það veðrast af húsinu, en það hefði tekið óra tíma.  Þessu hafði ég gleymt. En allavega varð mér þannig um þessar upplýsingar að gleymdi að spyrja Jóa út í þessa mynd af eina þriggja hæða húsinu sem reist hefur verið á hæðinni.

Sennilega gefst mér ekki færi á að leita meira né spyrjast fyrir um þessa mynd fyrr en í vorheimsókninni til Íslands og verð allavega að þreyja Þorrann og Góuna hérna á 69°N áður en Matthildur mín kemur í heimsókn.  Þangað til verða Skype fundir okkar Matthildar að duga og fundir með köttunum á Skype verða að næga fram í maí.  Það er margt spjallað á Skype og eftir að kettirnir föttuðu að það þýddi ekkert að leita að kallinum fyrir aftan tölvuna sem heyrðist í honum úr sitja þeir upptendraðir fyrir framan hana og láta sig varla vanta með sín innlegg eitt einasta kvöld.  En eitt vita þeir ekki, að ég er betur búin en bankinn að því leiti að ég get bæði hljóðritað samtölin og tekið þau upp í mynd.

Video call snapshot 10   "Hvað ertu að segja, er það virkilegt, haga þær sér svona þarna í Noregi"

 

 Video call snapshot 9  "Já, mig grunaði það þessar mýs eru skaðræðis kvikindi"

 

Video call snapshot 11  "Ég ætla nú barasta að láta ykkur vita það að ekki er allt sem sýnist í þessum heimi"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snilldar pistill Magnús ,,, þú þarft að fara að skrifa bók..snilldar penni !!!!

Grétar Reynisson (IP-tala skráð) 27.1.2013 kl. 17:26

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir það Grétar. Það er alltaf ánægulegt að fá að vita af því þegar fólki líkar.

Magnús Sigurðsson, 27.1.2013 kl. 17:53

3 identicon

Góður pistill Magnús.!!!

Sigurjón Snær Friðriksson (IP-tala skráð) 27.1.2013 kl. 21:38

4 identicon

Magnus þú átt fullar kornhlöður gersema sem gott er að vita að Matthildur gætir vel að.

Þar til húsbóndinn kemur heim til að draga fram allt það fína góss sem þar er að finna :)

Sólrún (IP-tala skráð) 28.1.2013 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband