Hvað er að því að halda plani A?

Síðan um 1850 er talið að hitastig jarðar hafi hækkað um tæpa eina gráðu. Hvert kjörhitastig jarðar er hlýtur allt fara eftir því við hvað er miðað og hversu mikið má menga til að ná því hitastigi. Í landi elds og ísa þá geta hnattræn exel-meðaltöl kvótafræðinnar verið skjön við allan veruleika. Þar sem vonlaust er að halda aftur af eiturspúandi eldfjöllunum, enda ekki nema ár síðan að meinlaust eldgos í Holuhrauni mengaði margfalt á við alla Evrópu þrátt fyrir einlægan vilja stjórnvalda til að takmarka tjónið. Jafnframt er ekki úr vegi að rifja upp það um hitafar sem sagan telur vera upphaf byggðar í þessu landi.

Fyrir meira en þúsund árum síðan þá á að hafa ríkt hlýindaskeið sem gefur nútímanum lítið eftir nema síður sé. Jafnvel er talið að Ísland hafi verið svo til jöklalaust og uppi eru um það sögusagnir að þar sem nú er Vatnajökull hafi verið þjóðleið á milli Litla-héraðs (nú Skaftafell í Öræfum) og Möðrudals á fjöllum, Vatnajökull á að hafa verið kallaður Klofajökull. Einnig á Bárður nokkur að hafa flutt sig úr samnefndum dal á norðurlandi suður yfir bunguna sem við hann er kennd, ólíklegt er að hann hafi öslað snjóskafla á þeim ógnarslóðum að óþörfu.

Því er alltaf spurningin við hvað er miðað. Þegar ég spurði afa minn og nafna að því hvort ekki hefði verið notalegt að búa í torfbæ á fyrstu áratugum 20. aldar, en þessarar spurningar datt mér í hug að spyrja vegna þess að torfabæjar lífstíllin hlyti að hafa verið notalegt værðarlíf miðað við okkar tíma. Svarið sem sá gamli gaf bergmálar enn í mínu minni „minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn“. Nú ber svo við að hitastig er talið hátt í sögulegu samhengi staðlaðra hitamælinga sem ná örfáa áratugi aftur í tímann. Þegar maður kynnir sér íslandssöguna þá skilur maður vel hvað fyrri kynslóðir máttu glíma við en þar var helvítið ekki alltaf heitt.

Í bókinni Fátækt fólk segir 20. aldar maðurinn, Tryggvi Emilsson, sem var uppalinn í torfbæ í Öxnadal, svo um sitt samferðafólk á fyrstu áratugum sinnar aldar; „Þetta fólk bar grjót á höndum og hlóð garða og veggi, risti torf á hey og á þök, gerði sér eldivið úr suðataði sem varð að ösku til að þurrka upp leka og vann meðan hugurinn hjarði.“ - „Þyngsta þrautin var að standast afleiðingar vetrarhörkunnar þegar seint voraði, börnin voru mögur og lasburða en reyndu þó að skríða á eftir henni móður sinni þegar hún var að hreinsa túnið, með bláar hendur eftir frostbólguna um veturinn, faðirinn fór sér hægt, þrótturinn var ekki upp á marga fiska. En eftir að fært var frá og mjólkin og skyrið og smjörið var aftur í búrinu og hver fékk sinn skammt fór lífsstraumurinn frá kjarngresi dalsins um alla mannkindina og að því bjuggu menn langt fram á næsta vetur“.

Þó upphafi 20. aldar hafi verið kalt ,m.a.með sínum frostavetri 1918, þá var seinni hluti þeirrar 19. öllu kaldari, og eru frásagnir sem Tryggvi hefur eftir föður sínum til merkis um það. „Á þessum hraunslóðum skeði sá atburður að ung kona þar úr sveit gekk við ásauði og hóaði saman til kvía, hún hélt á prjónum eins og venja var á tímum vinnuhörkunnar og hraðaði göngunni. Þessi kona var smalavön og kunnug hrauninu en í þetta sinn kunni hún ekki fótum sínum forráð og féll í hraungjótu, líka þeirri sem faðir minn dró lambið úr. Ekki slasaðist hún í fallinu svo til baga væri en kom niður á fæturna og hélt á leist og bandi.“ Þessa sögu sagði faðir Tryggva frá þeim tíma sem hann hafði verið vinnumaður á Straumi þar sem nú stendur álverið í Straumsvík. Þess má geta að konan á að hafa klárað að prjóna sokkana úr bandinu í hraungjótunni sem hún komst ekki uppúr og lognaðist að lokum út af á sjötta degi en vaknaði svo á einhvern yfirnáttúrulegan hátt komin upp úr ókleifri gjótunni. Töldu menn að henni hafi tekist það í svefni sem ekki tókst í vöku.

Ef menn halda að Tryggvi hafi fært í stílinn um köld kjör í bók sinni þá hafa opinberar heimildir ekki gert það síður. Í bókinni Gróandi þjóðlíf-sagan sem aldrei var sögð, má finna eftirfarandi; „Þau válegustu tíðindi höfðu nú gerst, að yfir landið dundu einhver ægilegustu harðindi í sögu þjóðarinnar. Það var líkast því sem nokkur aðdragandi væri að þessu, eins og vetrarríkið og hafísinn væri smámsaman að magnast og sækja í sig veðrið og koma í hviðum yfir landið. Mjög harður þriggja ára kafli vetrarríkis og frosta hafði komið árin 1866-69 og þá varð til kvæði Kristjáns Fjallaskálds „Nú er frost á fróni“. Það fjallar um bjargarskortinn víða á Norðurlandi, voru þá mikil grimmdarfrost með spilliblotum inn á milli svo jörð varð klakastorkin og voru jarðbönn langt fram á vor með 20-30 stiga frostum. Var hann kallaður „klakavetur hinn mikli“.

En nú tók steininn alveg útyfir. Geysilegar frosthörkur hófust um landið allt strax fyrir jólin 1880 og lagði bráðlega allar víkur og firði, svo að gengið varð á ís úr Reykjavík og upp á Akranes og um allan Breiðafjörð eins langt og eyjar náðu. þá fyrst hóf hið hamramma heimskautslega vetrarríki innreið sína í fullu veldi 9. Janúar 1881, þegar á skall einhver sú skelfilegasta norðanhríð sem sagnir fara af. Þessi bylur stóð að segja má vikum saman með óskaplegri veðurhæð, svo hús og bátar og hey fuku og með hörkufrosti sem komst langtímum niður í 40 stig. Með þessu fárviðri rak ófyrirsjáanleg hafþök af ís að landinu um miðjan vetur svo allir firðir fylltust og fjöldi bjarndýra gekk á land og ráfuðu langt fram í sveitir. Þegar svo hafði staðið vikum saman með litlum hléum og nýjum og nýjum stórhríðum ríkti alger neyð og bjargarskortur um mikinn hluta landsins. Lá jafnvel við að fólk króknaði í húsum inni.

Næsti vetur var ekki eins stórviðrasamur né kaldur, en þá tók ekki betra við, því þá hófust harðindin að ráði með vorinu, í apríl-mánuði, með fádæma norðanstormi svo hafísbreiður rak upp að Norðurlandi og lá hann þar allt sumarið fram í september og orsakaði það, að stórhríðarkaflar komu af og til allt sumarið og ár voru riðnar á ís í júlí-mánuði. Í seinni hluta ágústmánaðar segir sýslumaður, Benedikt Sveinsson, í bréfi frá Héðinshöfða við Húsavík; „Hér er dæmalaus ótíð. Hún tekur hreint ekki neinu tali. Enginn baggi hirtur í garð, og einlægir snjóar og krapa-hríðar, svo menn sitja dag eftir dag inni verklausir. Guð má ráða hvar þessi ósköp enda.“ 

Við Berufjörð austanlands segir Marteinn Þorsteinsson frá bernsku sinni í viðtalsbókinni Gengin spor, þó svo að ártölunum skeiki um eitt ár á lýsingin greinilega við um sama tímabil; „Fátt eitt man ég úr fyrstu bernsku, þá voru harðindaár og þröngt í búi hjá öllum almenningi. Veturinn 1881-1882 var geysilega frostharður og mikil ísalög. Hafís kom þó aðeins skammt inn fyrir Djúpavog. Þangað út lagði Berufjörð og eru það þrjár mílur danskar. Var allstaðar ekið á ísum landa á milli heim að hverjum bæ.

Árið 1883 varð fellisvetur. Þá kom ísinn á síðasta vetrardag. Flestir bændur voru heylausir og þrjár fyrstu vikur sumarsins stanslaus stórhríðarbylur. Faðir minn slátraði því sem nær hverju lambi um leið og það fæddist og fóru aðeins ellefu lömb á sumarhaga þetta vor, en fullorðið fé lifði allt. Mér er þetta minnisstætt vegna þess, að eitt þessara 11 lamba var mér gefið. Að Fossgerði, næsta bæ við Steinaborg, hafði þá nýlega komið maður, er Árni hét Sigurbjörnsson. Kona hans hét Hallfríður. Þau áttu nokkrar skjátur og misstu þær allar. Urðu síðan að hrökklast burt.“

Seinni hluta 19. aldar komu svo árin sem landinn mátti auk kuldans glíma við afleiðingar eldgosa, líkt og Öskju gosins 1875. En þessa lýsingu má finna í bókinni Gróandi þjóðlíf-sagan sem var aldrei sögð; „Allt virðist ein tilgangslaus auðn, þar sem við erum á ferð um foksanda hjá Hrossaborgum. Beinagrindur hesta liggja gulnaðar í malarbingjum gosöskunnar og vekja kenndir um skrælnaðan dauðadal, - hinsti fugl flögrar með ámátlegu væli yfir líflaus moldarbörð með skorpnuðu lyngi, - Krafla og Víti krauma og spú frá sér daunillri eimyrju úr brennisteinsgasi yfir flögin.“ - „Hvernig datt mannfólkinu nokkurntíma í hug sú fásinna að setjast hér að og velja niðjum sínum ævikjör og átthaga á þessari heljarþröm,,,“

Það er ekki svo langt síðan reglulegar mælingar hitastigs hófust á heimsvísu og hér á landi ekki fyrr en um miðja 19. öld þegar danska veðurstofan hóf að skipuleggja veðurathuganir á Íslandi. Hvernig dettur mannfólki okkar tíma sú fásinna í hug að kalla til ráðstefnu vegna göróttrar skýrslu Alþjóðabankans? Stofnunnar sem hefur gengið lengst í að arðræna auðlindir jarðar í nafni hagvaxtar. Og notar til málatilbúnaðarins, þau ár með í meðaltal hnattrænnar hlýnunar sem þeim sem þau lifðu vildu helst gleyma, eða í það minnst að á það helvíti væri ekki minnst ógrátandi.


mbl.is „Það er ekkert plan B“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágæti Magnús.

Í færslunni segir þú að „meinlaust“ eldgos í Holuhrauni hafi mengað „margfalt á við alla Evrópu“. Rétt er í þessu sambandi að losun brennisteinsdíoxíðs í eldgosinu var meiri en heildarlosun þess í Evrópu allt árið 2011, ekki margfalt meiri.

Brennisteinsdíoxíð er þó bara hluti af þeirri mengun sem glímt er við, og langtífrá stærsti hlutinn. Svo vill nefnilega til að árlegur útblástur á mengunarefnum frá Evrópu er tíu sinnum meiri en árlegur útblástur frá öllum eldgosum heimsins samanlagt.

Klofajökulsnafnið á Vatnajökli mun síðan hafa vísað til skriðjökla hans, en ekki til þess að jökullinn hafi verið klofinn. Það er þó vissulega rétt að hann var minni þá en hann er nú.

Hversemer (IP-tala skráð) 29.11.2015 kl. 14:00

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Hversemer; ertu búinn að kynna þér þetta sem ég benti þér á með beljurnar? Ég sé að Mofi er með blogg við þessa frétt sem inniheldur stutt myndband sem skýrir þetta ágætlega.

https://www.youtube.com/watch?v=lLhEmGx8YQE

Svo er það alltaf spurningin við hvað er miðað þegar mengun er annars vegar, t.d. hvort samanburðurinn á við ár annarsvegar, en  dag hinsvegar. Þegar Alþjóðabankinn og vísindamenn á hans snærum ákveða þessar viðmiðanirnar þá hringir  viðvörunarbjöllum, því fjármálaöflunum er í lófa lagið að skattleggja sjálfa sig, því þá þurfa þau hvorki að skattleggja útblástur frá bílum beljum eða fólki sé þeim svo annt um hið "rétta" hitastig jarðar sem í veðri er látið vaka. 

Varðandi klofajökul þá eru fleiri en ein tilgát um þá nafngift.

Magnús Sigurðsson, 29.11.2015 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband