Hvítramannaland

viking-boat

Íslendingar hafa löngum verið stoltir af uppruna sínum, enda komnir af víkingum sem settust að í mörgum Evrópulöndum og hafa litað menningu þeirra allt til dagsins í dag. Eins eiga þessir fyrrum sægarpar okkar, sem stimplaðir voru hryðjuverkamenn síns tíma, að hafa fundið Ameríku. En þegar spurt er hvort norrænir menn hafi numið þar land er fræðilega svarið nei, ef frá er talið Grænland. En þaðan hurfu norrænir menn með öllu á óútskírðan hátt skömmu eftir 1400. Hér á þessar síðu hefur í nokkrum skipti verið velt vöngum yfir því hvað um Grænlendingana varð og þá hvort geti verið að þeir hafi haldið áfram stystu leið yfir hafið til að byggja Vínland eftir að lífskilyrði versnuðu á Grænlandi. Þessar vangaveltur má sjá í færslunum frá því fyrr á þessu ári, „Týndir Íslendingar“, „Hvað varð um Íslensku Grænlendingana“ og „Steinarnir tala“.

north-dakota-fort-abraham-lincoln-P

Hús Mandan fólksins eru um margt ólík hýbýlum dæmigerðra frumbyggja.

Til eru sagnir af Mandan indíánum sem voru sumir hverjir ljósir á hörund og jafnvel sagðir hafa verið bláeygðir. Svo vel vill til að skráðar heimildir eru til um þessa indíána N-Ameríku og nokkuð vitað um lifnaðarhætti þeirra sem voru um margt sérstakir þegar frumbyggjar Ameríku eru annars vegar. Könnuðirnir Lewis og Clark dvöldu á meðal þeirra veturinn 1804-1805 í leiðangri sínum vestur yfir Klettafjöll á vegum Thomas Jeffersons. Þar áður eru til heimildir um að Fransk-Kanadíski kaupmaðurinn Pierre Gautier de Varennes hafi átt samskipti við Mandan indíána og þó það sé ekki skráð af honum sjálfum þá á hann að hafa rætt það við sænsk ættaða fræðimanninn Pehr Kalm að á slóðum Mandan við Missouri ána hafi hann fundið norrænan rúnastein. En þjóðflokkur þessi hafði fasta búsetu í bæjum sem byggðir voru úr grjóti og torfi á bökkum Missouri í miðvestur ríkjunum, aðallega í suður og norður Dakota.

mandan-kona

Lögfræðingurinn, landkönnuðurinn og listmálarinn George Caitlin dvaldi hjá Mandan um tíma árið 1832 og málaði þá margar myndir af þessu fólki og hýbýlum þess. Caitlin lýsti Mandan sem gjörólíkum dæmigerðum frumbyggjum N-Ameríku, bæði í lífsháttum og vegna þess að 1/6 þeirra væri ljós á hörund með ljósblá augu. Mandan indíánar voru síðan sameinaðir öðrum ættbálkum inn á verndarsvæðum sem sífellt minnkuðu vegna ásóknar stjórnvalda í land þeirra. Á 19. Öld voru Mandan orðnir nokkur hundruð og lifðu innikróaðir ásamt Hidatsa og Arikara ættbálkunum en þar gengu þeir í gegnum "mislukkaða" bólusetningar áætlun stjórnvalda gegn bólusótt sem því sem næst gjöreyddi þeim. Í dag er ekki talið að neinn Mandani sé til í heiminum sá síðasti hafi horfið af yfirborði jarðar árið 1971.

Þó svo sumir vilji meina að Mandanir kunni að hafa haft norrænt víkingablóð í æðum eru þeir fleyri sem vilja meina að um forna kelta hafi verið að ræða. Til eru sagnir um Walesbúann Morgan Jones sem féll í hendur indíána vestur af Virginíu 1660 sem ráðgerðu að drepa hann en þegar hann bað fyrir sér á gamalli gelísku sýndu þeir honum virðingu og var honum sleppt. Miðað við hvernig mankynssagan greinir frá fundi Kólumbusar á Ameríku og því hvernig hún var numin í framhaldinu, eru það varla aðrir en illa skólaðir sveimhugar sem halda því fram að Ameríka hafi verið þekkt af Evrópumönnum og siglingarleiðin legið í nágreni við Íslandsstrendur árhundruðum fyrir Kólumbus.

mandhut

Rithöfundurinn Árni Óla ritaði greinina Hvítramannaland fyrir mörgum áratugum síðan og var frásögnum hans í besta falli metinn sem hugarburður. En sjálfur dró Árni enga dul á að hann lét hugann reika á milli línanna í þeim fátæklegu heimildum sem íslendingasögurnar hafa að geyma um Vínland hið góða. Í grein sinni dregur hann fram menn á við Hrafn Hlymreksfara sem sigldi vestur um haf frá Írlandi og sagði sögur af íslenskum manni sem þar bjó sem talin er hafa verið Björn Breiðvíkingakappi.  Eins segir hann frá Guðleifi úr Straumfirði sem til vesturheims kom og Ara Mássyni sem þar ílendist. Þessir íslendingar tengdust allir Írlandi og Skosku eyjunum enda var Hvítramannaland einnig kallað Írland hið mikla. Hermann Pálsson fyrrverandi prófessor við Edinborgarháskóla er á svipuðum slóðum og Árni Óla í grein Lesbók Morgunnblaðsins 18. september 1999 en þar veltir hann fyrir sér Vínlands nafngiftinni og hvort það hafi byggst Evrópumönnum á undan Íslandi.

 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Hús Mandan fólksins minnir óneitanlega á Maeshoewe hér á Orkneyjum, allavaga ytra útlit. https://en.wikipedia.org/wiki/Maeshowe

S Kristján Ingimarsson, 24.12.2015 kl. 17:06

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Kristján, já húsgerð á Orkneyjum fyrir víkingatímann minnir óneitanlega á hús Mandan indíána, eins margt af því sem má finna í New England í Maine og víðar í USA.

Það má reyndar segja að þegar ég kynnti mér sögu Skotlands þá hafi ég lent á þessar slóð sem þessi fjögur blogg um Grænland og Vínland. En þetta hafa margir verið búnir að benda á áður án þess að ég vissi af því, s.s. rithöfundurinn Árni Óla og Hermann Pálsson prófessor við Edinborgarháskóla, en það var saga Skotlands og fornt byggingarlag á Orkneyjum sem leiddi mig inn á þessa slóð.

Það er margt forvitnilegt í Orkneyingasögu t.d. byrjar hún á því að skýra það út hvers vegna mánuðirnir þorri og góa heita svo og hvers vegna Noregur heitir Noregur. Auk allra Íslands tenginganna sem þú hefur verið að benda á á blogginu þínu.

Ég set hérna inn link á Orkneyingasögu að gamni.

http://www.sacred-texts.com/neu/ice/is3/is302.htm

Magnús Sigurðsson, 25.12.2015 kl. 08:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband