Sumarfrí

Nú er sumarið rúmlega hálfnað, en um síðustu helgi var miðsumar samkvæmt gamla tímatalinu, þó svo að sólargangurinn hafi verið hæstur fyrir rúmum mánuði. Þetta sumar er það fyrsta sem ég tek eiginlegt sumarfrí um langa hríð. En hvernig tekur svo múrari sem alltaf er í fríi sumarfrí? Það má segja að það hafi verið vandlega skipulagt því fyrir áramót hafði ég orðið okkur út um bíl sem væri hægt að notast við að komast á fjöll, gamlan Cherokee frá því á síðustu öld. Þennan bíl hafði ég hugsað mér að nota við að kanna malar- og sandhauga hálendisins.

Það verður að segjast alveg eins og er að sumarfríið hefur verið eins og ævintýri í barnabók. En það hófst á því að niðurlög drekans voru ráðin á Sólhólnum og þar var fyrstu 10 dögunum varið við að fagna gengi landsliðsins á EM ásamt drekadrápinu. Í leiðinni höfðum við bílskúrssölu í Salthúsinu og seldum gestum og gangandi dót sem safnast hafði upp í gegnum árin.

IMG_7351

Lagarfljót

Eftir að 10 daga Sólhólsvist lauk var slappað af á bökkum Lagarfljótsins, með tærnar grafnar í fljótsmölina til að ná jarðsambandi á milli þess sem vaðið var í svalandi fljótinu. Ég var heldur jarðbundnari en Matthildur lét mér nægja að fylgjast með dúnhvítum skýjunum svífa á himninum yfir fljótinu á meðan hún prjónaði bláar lopapeysur.

Eftir dvöl á bökkum heilsulindarinnar var komið að því að taka okkar fjallabíl til kostana og fara bæjarleið sem endaði í næsta sveitarfélag og þá óvænt við messu á Klyppstað í Loðmundarfirði. En þegar við ætluðum að kíkja inn fyrir kirkjudyrnar þar til að líta helgina augum þá var fyrrum lærimeistari Hermann Eiríksson sem hringjari og ekki var við annað komandi en okkur yrði troðið inn í yfirfulla kirkjuna. Þetta endaði á því að við Matthildur sátum á milli prestanna upp við altarið og snérum að kirkjugestum. Prestarnir voru tveir sem messuðu þær sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir en sr. Davíð Þór Jónsson radíusbróðir sem var kirkjugestur fékk einnig sæti með okkur Matthildi við altarið. 

IMG 8012

Dimmugljúfur

Séra Sigríður Rún prédikaði og lagði út frá fjallræðunni, um það hvernig varast skyldi farísea og fræðimenn sem væru sauðir í úlfsgærum, enda kannski ekki nema von svona rétt á eftir hryðjuverkið í Nice. Hún kom síðan inn á að ekkert væri sjálfgefið með að menn slyppu við heimsendinn því vísindamenn væru komnir á slóð óendanleikans um það hvernig okkar tímar kynnu að líða undir lok á hraða ljóssins. Þeir hefðu fundið þessa slóð þegar þeir áttuðu sig á að ljósið færi hraðar en hljóðið með því að hlusta eftir þrumunni sem heyrðist á eftir að eldingin birtist. Með þessa vitneskju að leiðarljósi hyggðust þeir bjarga heiminum og komast aftur fyrir upphafið á hljóðinu og á hraða ljóssins fram fyrir óendanleikann.

Spurningin væri samt sú hvort tíminn hægði þá ekki það mikið á sér að hann stæði að lokum kyrr svo allt yrði dimmt og hljótt og tíminn jafnvel búin sem væri þá kannski bara heimsendir. Litli drengurinn hennar sr. Sigríðar, sem var farið að leiðast þar sem hann sat með pabba sínum og eldri bróðir á fremsta bekk, hékk á haus á milli fóta föður síns. Á hvolfi horfði hann upp í prédikunarstólinn á móður sína og rétt náði að segja; „en mamma“ áður en pabbi hans dreif sig með hann út úr kirkjunni svo ekki yrði frekari truflun á heimsenda hugleiðingunni.

Þeir voru fleiri feðurnir sem þurftu að fara út með óþreyjufull börnin úr árlegri messunni á Klyppstað þetta sumarið. Um miðja messu var ég farin að ókyrrast og hugleiða hvað það væri gott að hafa börn í sinni umsjá í kirkju, en tók svo eldsnöggt þá ákvörðun að fara út með barnið í sjálfum mér þó svo að ég þyrfti að þramma kirkjuna endilanga. Mér er ekki örgrannt um að orð þjóðskáldsins gætu átt við þessa brottför barnanna úr Klyppstaðarkirkju "Á flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið af týndum tíma er af nægu að taka".

IMG_7785

Í Grágæsadal

Þegar út var komið varð mér litið út í Stakkahlíð en þar eru mikilfenglegir haugskúlptúrar sem sagan segir að fyrsti landnámsmaðurinn eigi heiðurinn af, en hann staldraði stutt við í firðinum því hann taldi hann með öllu óbyggilegan. Sagan segir að þegar Loðmundur réri út fjörðinn í hinsta sinn hafi hann lagst niður og beðið menn sína um að ónáða sig ekki. Nokkru seinna heyrðist gnýr í fjarska og sáu menn þá að mikil skriða hljóp úr fjalli fyrir ofan bæ hans og eyddi honum. Eftir það mælti Loðmundur þau orð að ekkert það skip sem myndi róa út þennan fjörð eftir þetta myndi koma heilt aftur.

Munnmæli herma að bær Loðmundar hafi orðið undir Stakkahlíðarhrauni, sem öðru nafni nefnast Loðmundarskriður og þykja stórmerkilegt náttúrufyrirbæri. Ýmsir fræðingar hafa skoðað skriðurnar og telja vísindamenn þær 3-4000 ára gamlar eða jafnvel yngri svo sérkennilegt sem það kann að hljóma. Svo undarlegt sem það er þá má segja að Loðmundur hafi fyrir löngu leist gátu vísindamannanna um það hvernig hægt er að komast aftur fyrir upphafið og fram fyrir óendanleikann án þess að tíminn þvælist fyrir heimsendanum, en Loðmundarfjörður hefur nú verið í eiði um langa hríð.

IMG_7686

Á botni Jöklu við Kárahnjúkastíflu

Eftir Loðmundarfjarðarferðina flaug tíminn með okkur Matthildi í okkar fjallabíl á bak við Snæfellið og alveg innundir Vatnajökul, þar sem við hittum Goðann í Grágæsadal sem hafði flaggað í hálfa stöng í tilefni dagsins, en þann 19. júlí árið 2002 undirrituðu stjórnvöld viljayfirlýsingu, þar sem ljóst varð að Kárahnúkavirkjun yrði að veruleika. Við gengum í kapellu í Grágæsadal og báðum fyrir landinu ásamt verndara hálendisins honum Völundi frænda mínum og fyrr um lærimeistara, eftir að hafa skoðað blómagarð hans á öræfum. Í leiðinni höfðum við hitt vinnufélaga mína sem voru við steypuviðgerðir undir Kárahnjúkastíflu og ferðast með þeim um jarðgöng niður á botn hinnar fornu Jöklu. 

Næstu dagar voru notaðir í að þvælast um fjöll og heiðar meðfram Jöklu. Jökuldalsheiðin keyrð upp í Kárahnjúka með útúrdúr í Þríhyrningavatn þar sem Jóhann Stefánsson eða Jói snikk, annar 85 ára gamall nágranni minn af Hæðinni var heimsóttur. Í gegnum hugann læddist sú hugsun að það væri munur að komast á níræðisaldur því þá gæti maður dvalið einn og óáreittur lengst upp á öræfum. Þessi ferð var með viðkomu í Hafrahvömmum neðan við Dimmugljúfur en þau höfðum við skoðað neðan frá þegar við komumst á botn Jöklu við Kárahnjúkastíflu, en þaðan keyrðum við niður Vaðbrekkuháls fyrir mistök og út allan Jökuldal, fyrir vikið sáum við Hafrahvamma nú Jöklulausa frá báðum bökkum en misstum af Hrafnkelsdal. Einnig var farið upp í Hellisheiði og þaðan keyrt upp Hrólfshraun á Skinnagilshnjúk til að horfa yfir Héraðsflóann þar sem ósar Lagarfljóts og Jöklu mæta Atlandshafinu.

IMG_7916

Héraðsflói, ós Lagarfljóts og Jöklu fyrir miðri mynd t.v.

Að loknu því sem næst mánaðar sumarfríi hefur hin horfna Jökla verið könnuð frá jökli að ósi án þess að nokkrar áætlanir hafi verið uppi um slíkt í upphafi, og er því nú komið fyrir mér eins og lesblinda prófessornum sem komst ekki nema rétt yfir í næstu sveit í sumarfríinu sínu því hann kunni ekki að lesa á vegvísana. En allt kemur til þess sem heima situr því systkini mín og frændfólk hitti ég hér á bökkum stórfljótanna sem ég annars hefði orðið að hitta með því að gera mér ferð á EM í Frakklandi. Stundum er því betra að sleppa því að lesa leiðbeiningarnar þó svo að það kunni að kosta það að brenna kertið báðu megin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband