Mara, sendingar og sálfarir

Fyrir stuttu var athyglisvert frásögn á Vísi, sem byggir á viðtali við þekktan sjónvarpsmann þar sem hann lýsti svefntruflunum sem höfðu angrað hann fyrr á ævinni. Truflanirnar sagði hann hafa verið líkar því að hafa eitt heilu nóttunum í forgarði helvítis. Frásögnin var notuð til fræðilegrar skýringar á því sem kallað er svefnrofalömun við kynningu á nýrri bók Erlu Björnsdóttur um svefn, en Erla er doktor í sálfræði. Í bókinni, sem heitir einfaldlega Svefn, segir að svefnrofalömun lýsi sér í því að einstaklingurinn lamast algjörlega þegar hann sofnar eða þegar hann vaknar. Þá getur hann hvorki hreyft legg né lið en er þó með fullri meðvitund. Ofskynjanir geta stundum verið hluti af svefnrofalömun en lömunin varir oftast stutt og er hægt að fá viðkomandi úr þessu ástandi með því að snerta hann eða tala við hann.

Þriðja augað líf og dauði

Það sem ekki var síður athyglisvert, en frásögn sjónvarpsmannsins, voru kommentin sem lesendur settu undir fréttina. Því flest þeirra bættu talsverðu við þessa örstuttu fræðilegu skýringu á svefnrofalömun. Í kommentum mátti finna frásagnir fólks sem hefur frá svipaðri reynslu að segja, svo sem þessar:

Þetta er ásókn illra afla handan þessa heims. Þekki þetta af eigin reynslu....

Hef upplifað þetta síðan ég var unglingur og kemur enn (51 árs) en sem betur fer ekki oft. Síðast reyndi ég að kalla á manninn minn sem var frammi (ég heyrði vel i honum) hann heyrði einhvern kalla og fór í herbergi sonar okkar því hann heyrði karlmannsrödd...ég fann líka að þetta var ekki mín rödd, heldur djúp karlmannsrödd þegar ég kallaði á hann og þurfti ég að kalla mörgum sinnum þangað til að hann áttaði sig hver þetta væri....

Ég er 42 ára og hef barist við þetta alla ævi síðasta kastið fékk ég í gær og var það mitt fyrsta á erlendri grund. Ég heyrði mikinn barnsgrátur og var sannfærður um að þar færi draugur látins barns á ferð og öskraði ég á hjálp til móður minnar sem sat ekki nema 3 metra frá mér en hún heyrði ekki píp í mér, oftast eru þetta draugar eða árar en einstaka sinnum börn að leik og grínast þau í mér og verð ég ekki hræddur....

Ég hef dílað við þetta nkl sama og þú líka síðan ég var 14 ára. Ég náði ekki að losna við þetta fyrr en ég eitt skiptið alveg ómeðvitað, ákveð að krossa mig í þessum aðstæðum....

Bara kalla á Jesú ef þetta gerist þannig sigraðist ég á þessu....

Það sama geri ég þegar ég er lömuð og veit ég um aðra konu sem kallar líka á Jesú og það virkar....

Þetta ástand hefur alltaf kallast "sálfarir", ég hef glímt við þetta síðan ég var barn og hef mikla reynslu í þessu ;) þetta gerist þegar sálin er að tengjast líkamanum eftir að hafa verið fjarverandi, þetta getur gerst bæði þegar maður er að fara að sofa og þegar maður vaknar en yfirleitt gerist þetta þegar maður vaknar, þá "lamast" maður oft á meðan sálin er að ná tengingu við líkamann....

Þetta hefur verið þekkt öldum saman og þetta er einfaldlega ásókn drauga og púka og hefur ekki með neitt annað að gera....

Það finnst flestum sínir draumar merkilegir og að þeir hljóti að boða eitthvað. Jafnframt þá hafa fáir mikinn áhuga á draumum annarra og geta venjulega tekið undir þau sjónarmið að draumar séu ekki til að hafa miklar áhyggjur af, en Erla segir; "Þetta tengist oft álagi, óreglulegum svefntímum og þetta er ekki hættulegt. Það er mjög mikilvægt að maður viti það þegar þetta gerist því þetta er mjög óhugnanlegt og óþægileg reynsla." En í þessu tilfelli þar sem martröð fylgir svefnrofalömun virðist flestir hafa frá ógn að segja og ekki er það af kommentunum að skilja að um meinlausa upplifun sé að ræða.

Án þess að fara djúpt í það, þá hef ég sjálfur orðið fyrir svipuðum upplifunum í svefni. Fyrr á ævinni tengdi ég þetta óreglu, eins kom fyrir að svipuð líkamleg áhrif gerðu vart við sig í vöku, þ.e. andnauð og brjóstverkur sem varði yfirleitt í stutta stund. Eftir að hafa gist hjartadeild fyrir 16 árum síðan, með tilheyrandi rannsóknum sem leiddu ekki ljós læknisfræðilega áhættuþætti hjartasjúkdóma né að sérstakrar eftirfylgni væri þörf, gerðist það fyrir tveimur árum að hjartað skemmdist við að upplifa þessa tilfinningu síendurtekið í vöku, sem svefni, og þá með tilheyrandi draumarugli. Hjartaáfall var eitthvað sem átti ekki að geta komið fyrir mann eins og mig. Vegna eftirkastanna hef ég mikið velt fyrir mér hverju sætir. Einna helst hefur mér dottið í hug aðsóknir fyrirbrigða, sem kallast í þjóðsögunum mara og sendingar.

Mara er samkvæmt þjóðtrúnni, óvættur sem ræðst á sofandi fólk. Það að fá martröð er að vera troðin af möru. Í orðabók Menningarsjóðs, 1988, er mara skilgreind sem óvættur sem ætlað var að træði á fólki eða þjarmaði að því í svefni; sbr. martröð: mara treður einhvern; það hvíldi á honum eins og mara, sem í yfirfærðri merkingu þýðir að hann hafði þungar áhyggjur. Venjulega finnur sá sem fyrir martröð verður eitthvað þrýsta fast á bringu sér, svo að það verður óbærilegt. Læknavísindin rekja þetta til hindrunar á andardrætti, sökum veikinda t.d. kæfisvefn, eða jafnvel óþægilegrar legu og þess að rúmföt hafi dregist yfir vitin.

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar eru nokkrar frásagnir af fyrirbærinu. Þar er frásögn af möru sem Sveinn Jóhannesson frá Seljamýri í Loðmundarfirði fékk á Skálum á Langanesi þegar hann var þar á vertíð 1914. Það vildi þá til Sveini fannst komið að sér og lagst ofan á sig svo úr honum dró allan mátt og leið honum þá mjög illa áður en af honum létti og hann gat snúið sér. Sveinn hugsaði nú að þetta kæmi til af óhentugri legu og óhagkvæmri blóðrás. Skömmu síðar kom þó aftur fyrir það sama og öllu verra nema nú gat hann brotist um og snúið sér og hvarf þá loks maran. En enn skýrði Sveinn þetta sem fyrr á lækna vísu. Í þriðja sinn kom mara og tróð Svein. Var það nú svo lengi að honum þótti tvísýnt hversu færi þangað til hann gat rekið upp org og létti þá á honum. Þá var Sveinn orðinn reiður mjög, því skapríkur var hann þótt stilltur sé. Kallar hann þá hástöfum: Ef hér er nokkur djöfullinn sem er að ónáða og kvelja mig þá fari hann til Helvítis. Upp frá þessu tróð engin mara Svein að Skálum.

Ein frásögn Sigfúsar er frá Víðivöllum í Fljótsdal þar sem sama maran leggst hvorki meira né minna en á fjóra í svefni sömu nótt, hvern á fætur öðrum. Sá fyrsti hafði verið vakin af öðrum þegar hann varð var við martröð hans, sá sofnað síðan, en ekki sá sem fyrir mörunni varð. Síðan fær sá martröð stuttu seinna og sá sem hana fyrstur fékk vakti þá hann. Þar sem þeir lágu nú báðir andvaka verða þeir varir við að þriðji félagi þeirra er kominn með martröð svo þeir vekja hann. Þegar þeir þrír bera sig saman um hvað þá hafi dreymt var það eins hjá öllum, þeim fannst eitthvað hafa lagst ofan á sig. Á meðan þeir eru að tala saman heyra þeir uml í stúlku sem svaf við stigaskör fyrir ofan þá og vekja hana. Þegar hún var spurð hvað hefði angrað hana segir hún að einhver djöfullinn hafi lagst ofan á sig.

Fleiri sagnir af möru eru í þjóðsögum Sigfúsar og þar er m.a. sagt frá því hvað Færeyingar kalla fyrirbærið. Eins má lesa samantekt Þorsteins frá Hamri um möru í Þjóðviljanum frá því 1975 og hversu útbreidd vitneskjan um hana hefur verið frá fyrstu tíð. Mörunnar verður vart um allan heim og talið er að 1 af hverjum 5 verði fyrir barðinu á henni einhvertíma á lífsleiðinni. Á doktor.is má sjá svar Bryndísar Benediktsdóttur um möru, hún er sérfræðingur í heimilislækningum, með svefnrannsóknir sem sérsvið.

Þegar ég skoðaði hvort þjóðsögurnar greindu frá aðsóknum, þar sem svipuð líkamleg þyngsli koma fram í vöku og þegar mara treður mann í svefnrofalömun, þá rakst ég fljótlega á söguna um Brest. Þar segir frá Páli Pálssyni, sem bjó í Kverkártungu á Langanesströnd upp úr miðri 19. öld og fékk sendingu sem hann vildi aldrei tjá sig um og fór því sennilega vitneskjan um hvers eðlis sendingin raunverulega var í gröfina með Páli. En þessi sending fór samt ekki fram hjá neinum sem umgengust hann í lifanda lífi eftir að ásóknin hófst. Þetta er ein þekktasta frásögn af sendingu og er í því sem næst öllum þjóðsagnasöfnum. Auk þess að vera ekki einungis munnmælasaga, heldur skráð heimild þegar atburðirnir gerast. Það sem vakti öðru fremur athygli mína, var ekki sagan af sendingunni sjálfri, heldur endalok Páls.

Þegar að Páll hafði flosnað upp og nokkru eftir að konan hrökklaðist að heiman, fór hann til vinar síns á Vopnafirði og bað hann um að fá að deyja undir hans þaki. Vinurinn bauð hann velkominn, en fannst ekkert benda til að hann væri dauðvona. En Páll sagðist vera orðinn kaldur upp að hnjám og því yrði ekki aftur snúið. Það fór svo að Páll var allur innan sólahrings. Það var þessi útlimakuldi Páls sem fékk mig til að taka sérstaklega eftir sögunni um Brest, því kuldinn hlyti að hafa stafað af hjartaáfalli, svo vel kynntist ég þeim vágesti þegar hann var mér sendur.

Þjóðsögurnar hafa að geyma sagnir af ýmsum gerðum sendinga, og með hvaða kunnáttu þær voru uppvaktar. Tilgangur þeirra til forna er aðallega talinn hafa verið að leita fregna um það sem fram ætti eftir að koma. En á seinni öldum sýnist tilgangur sendinga  vera stefnt til höfuðs öðrum. Sigfús Sigfússon segir að munurinn á sendingum og afturgöngum sé sá að sendingar séu séu uppvaktar af eigingirni manna sem knýi þær til illra verka í sína þágu, á meðan afturgöngur fari um af eigin hvötum. Sendingum sé ætlað að fullnægja verstu hvötum mannsins s.s.heiftarhefnd og drápi, þó séu þær einnig stöku sinnum framkallaðar af fégræðgi. Algengastir voru snakkar, tilberar og árar.

Ætla mætti að allar þessar gerðir sendinga væru það sem einu nafni kallast púkar, eða djöflar í Biblíunni. En það er þó ekki svo einfalt. Samkvæmt Íslenskri orðabók Máls og menningar er sending, -ar 3 uppvakningur, sendur til að gera öðrum mein, sem er í fullu samræmi við Sigfús. Þar er djöfull 1 illur andi, andskoti, fjandi, púki, og samkvæmt sömu orðabók er púki 1 ári, smádjöfull. Þetta má svo finna um djöful í Biblíunni, Opinberun Jóhannesar 12.9; Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum. Það er því nokkuð ljóst að sendingar eru í sjálfu sér ekki djöflar, heldur eru þeir sem þær uppvekja og senda, haldnir djöflum.

Reyndar er gert ráð fyrir því í flestum trúarbrögðum að jörðin sé djöfulsins. Í norrænni goðafræði var afkvæmi Loka, Miðgarðsormurinn erkifjandi Ása, sem umlukti Miðgarð mannanna. Í Múhameðstrú búa púkar meðal mannanna sem kallast Jinn, ámóta mýtur má finna í flestum trúarbrögðum. Margir líta á frásagnir Opinberunarbókar Nýja testamentisins af djöflinum, sem og annarra trúarrita, sem hið mesta óráðshjal eða í mesta lagi spádóm sem gæti átt eftir að koma fram.

En allt eins getur verið að gjörföll heimsbyggðin sé nú þegar afvegaleidd af djöflinum. Þannig að þeir sem verða fyrir því, sem kallað var sendingar sendi þær sjálfum sér. Í Nýja testamentinu er þess getið hvernig Jesú losaði þá við illa anda sem voru þeim haldnir. Matth 8.16 Þegar kvöld var komið, færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá er sjúkir voru læknaði hann.

"Með orði einu" hvernig má það nú vera? -það orð inniheldur vissuna um að allt fari vel. Þannig að ef trúin væntir einungis þess góða og þá verður útkoman eftir því. Þetta er sama trúin og flytur fjöll, nokkurskonar ímyndun, placebo effect. Illir andar og sjúkdómar fá ekki staðist fyrir slíku. Sömu áhrif má virkja í gagnstæða átt. Það hefur sjúkdómavæðingin gert í gegnum fjölmiðla. Þar er fólki talin trú um að það fái litlu ráðið um eigin heilsu án hjálpar lyfja, sem hefur með tímanum leitt til þess að maðurinn er sjúkasta dýrategund jarðar og hefur undirgengist þrælsok huglægs ótta.

Hvað er það sem hugsar? Það eru augun sem sjá, eyrun sem heyra, nefið sem finnur lykt, tungan bragð og fingurgómarnir sem snerta, kölluð skilningsvitin fimm. En höfum við einhverntíman velt því fyrir okkur hvað það er er sem hugsar? Sjálfsagt myndum við í fljótu bragði álykta sem svo að það værum við sjálf með heilanum. En með innrætingu frá blautu barnsbeini hefur okkur verið tamið að hugsa með heilanum á rökrænan hátt. Hugsanir eru sú tegund orku sem stýra okkur meðvitað fram á veginn.

Það hefur komið í ljós að þegar heilinn er í slökun s.s. í hugleiðslu, þá fer minna í árvekni, rökhugsun, gagnrýni og streitu. Við slökun er jafnvel talið að sálfarir geti átt sér stað, þar sem sálin yfirgefur líkamann um stund en kemur síðan aftur. Þær eiga sér því oft stað í svefni eða svefnrofum þegar hugsunin veldur ekki áreiti. Sálfarir lýsa oftar en ekki góðri tilfinningu sem inniheldur fagra drauma, en geta jafnframt verið þess eðlis að vitneskja fæst um ýmislegt sem er fjarlægt.

Stundum geta sálfarir verið ferðalag utan tíma og rúms um fjarlægar slóðir og lýst atburðum sem þar gerast án þess að sá sem förina fór hafi átt nokkurn möguleika á að vita um atburði öðruvísi. Þetta er því stundum kallað þriðja augað eða astral travel og mætti jafnvel líkja við gandreið þjóðsagnanna nema sá fararmáti þarfnaðist skuggalegri undirbúnings en hugleiðslu og slökunar.

Eitt af kommentunum við fréttina á Vísi gerði ráð fyrir að svefnrofalömun stafaði af sálförum. Annað lýsti sálförum; Sem unglingur þá gat ég stundum þegar ég var að festa svefn, ferðast úr líkamanum, horft á sjálfa mig í rúminu og svifið yfir fallega dali. (man mest eftir fallegu landslagi) Mér fannst þetta magnað og gaman, það var ekkert illt í þessu, engar verur eða neitt og tilfinningin var stórkostleg. Ég las mig til um að þetta sé algengt á unglingsárunum. Man samt ekki eftir að ég hafi lamast. Kannski annað fyrirbrigði.

Það hafa sjálfsagt allir dreymt fagra drauma í svefni þar sem þeir eru á ferð um kunnar jafnt sem ókunnar slóðir. Fyrir nokkru dreymdi mig að ég kom á byggingarstað, sem systir mín og mágur voru að byggja sér hús í suður Frakklandi. Það var ekkert óeðlilegt við það að mig dreymdi þennan draum vegna þess að þau voru að byggja hús á þessum tíma og fluttu í það fyrir rúmu ári síðan. Draumurinn var um stað sem ég hafði einu sinni komist í grennd við áður, en það var fyrir rúmum tuttugu árum við brúðkaup litlu systur. Þá var farið í heimsókn til tengdamóður hennar, sem bjó í smábæ. Hún átti smá landskika hinu megin við götuna skáhalt á móti húsinu hennar utan í skógivaxinni hæð.

Þennan landskika hafði hún seinna gefið ungu hjónunum og á hann var ég kominn í draumi til fylgjast með húsbyggingunni. Ég horfði niður að húsi tengdamömmu systur minnar og sá því að ég var á réttum stað. Þarna kom svo systir mín með börnunum sínum án þess að þau yrðu mín vör. Þetta var kannski ekkert skrýtið vegna þess að ég hafði oftar en einu sinni rætt það við systur í síma hvar nákvæmlega húsið yrði staðsett og taldi mig vera með nákvæma mynd í huganum af því hvernig landið lá þó svo að ég hefði aldrei komið þarna megin við götuna, upp á þessa hæð.

Það sem mér fannst sérkennilegra við drauminn og gera hann óraunverulegan var hvað það var mikið af öðrum húsum ofar á hæðinni. Eftir að systir og fjölskylda höfðu flutt í húsið hugkvæmdist mér að heimsækja hana á google earth og ganga síðasta spölinn á street wiew. Og viti menn húsin sem höfðu gert drauminn óraunverulegan voru á street view nákvæmlega eins og í draumnum.

Séra Jakob Jónsson lýsir sálförum í tímaritinu Morgunn 2 tbl árið 1940. Þessa för hafði mágur hans farið til að heimsækja systur sína yfir langan veg og greint frá um leið og henni lauk. Það var því vitað að hann átti ekki að geta vitað um það sem hann varð áskynja, nema hafa verið á staðnum þegar atburðurinn gerðist. Séra Jakob hafði þetta að segja um sálfarir; Læt ég lesendum mínum eftir að hugleiða það, hvers eðlis hinar svonefndu sálfarir eru í sjálfu sér; sjálfur nota ég orðið í þeirri merkingu, að sá hluti persónuleikans, sem skynjar og hugsar, hafi fluzt um stundarsakir úr efnislíkamanum, og sé því ekki háður skynfærum hans og heilastarfsemi, svo að fundið verði.

Það má því segja að heimarnir sem við upplifum í vöku og svefni geti því allt eins verið jafn sannir og í báðum tilfellum upplifum við líf okkar. Munurinn á þessum tveimur vitundarstigum er að upplifanirnar verða til vegna mismunandi næmni okkar innra sjálfs. Draumaheimurinn er ekki bundinn þeirri rökhugsun sem okkur er innrætt frá blautu barnsbeini, hvað er raunverulegt er svo okkar að meta.

Í myndinni hér að neðan er svefnrofalömun í hinum ýmsu menningarheimum gerð skil á einstaklega áhugaverðan hátt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alt er þetta mjög athyglisvert Magnús.Firrir nokkrum árum rakst ég a vidio þar sem nokkrir virtir vísindamenn voru að rannsaka alien abduction .þeir yfirheyrðu helling af fólki sem sagðist hafa orðið firrir slíku mig minnir að fólkið hafi næstum alltaf legið lamað a meðan geimverur voru eitthvað að krunka i það.það merkilegasta við þessar rannsóknir var að þeir sem kölluðu upp Jesú bjargaðu mer þá hætti geimveru krunkið umsvifalaust.þessir virtu menn gerðu skýrslu um sinar rannsóknir en slepptu þessu með Jesú þegar einn þeirra var spurður af hverju sagði hann að þeir vildu ekki verða að athlægi.maður gæti ætlað eftir þessar rannsóknir að það séu engar glymverur að þetta séu bara einhverjir púkar sem geta tekið hvaða mynd sem er

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 1.4.2017 kl. 23:56

2 identicon

https://www.youtube.com/watch?v=BOC7K3L86TM

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 2.4.2017 kl. 00:26

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er áhugavert video Helgi, sem er sammála mörgum um hvert er lausnarorðið.

Ég verð að viðurkenna efa minn við að birta svona blogg, sem er þó bara yfirborðslegar vangaveltur um frétt, ásamt grúski úr þjóðsögum.

Sennilega sleppa margir hverjir, sem vilja láta taka sig alvarlega, því að tjá sig um kynni sín af svona lífsreynslu, svo ekki sé talað um hámenntaða vísindamenn.

En það er þó athyglisvert hvað margir þeirra fræðimanna, sem tjá sig í heimildarmyndinni Nightmare, hafa komist eftir á að niðurstöðu sem er ekki alveg í samræmi við menntun þeirra og þora að kannast við það.

Magnús Sigurðsson, 2.4.2017 kl. 08:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband