Byggingar í böndum bírókratísins

Það brást ekki að vorið kom með trukki á nýju tungli þann 24. síðasta mánaðar. Einhvern veginn er það alltaf þannig á vormorgnum þegar sól skín í heiði og fuglasöngur fyllir loftið þá kviknar framkvæmdaþráin, jafnvel hjá gömlum safnvíkingum. Hér á árum áður hefðu svona ljúfir vordagar ekki verið látnir fara forgörðum, steypihrærivélin hefði verið ræst og byrjað að byggja. Þó svo að ég vinni við sömu iðn og áður, þar sem pólskir vinnufélagar mínir sjá nú orðið um að gera það skemmtilega, þá er því ekki lengur svo fyrir að fara að framkvæmdaviljinn, steypuhrærivélin og vinnuaflið dugi til að byggja hús. Nú sem aldrei fyrr hefur allt verið niðurnjörvað með reglugerðarfargani.

Pólverjar hafa hirt flest skemmtilegustu störfin frá íslendungu án þess að landinn hafi heilaburði til að fatti það, innihúkandi rígnegldur fyrir framan tölvuskjáinn við að koma heim og saman á exele skjali hvernig skuli fara að því að gera hvað sem er arðvænlegt fyrir fjárfesta. Einagnveginn tekst samt að fá í útkomuna hvernig svoleiðis húsnæði hentar ungu fólki sem sárvantar hagkvæmt húsaskjól. Öllum þessum vandræðum samfara þarf langskólagenginn landinn að greiða af námslánunum og er því eina leiðin til að halda sjó að útbúa regluverkið það flókið að hæfi sérstaklega vel borgaðri menntun, alls óskildri þekkingu á húsbyggingum. þannnig regluverk ræður svo úrslitum um hvort hús verður byggt.

Nú á dögum dugir hreint ekki það eitt að fá morgunnbjarta hugmynd og hafa vilja til að hrinda henni í framkvæmd þegar skal byggja hús. Þar duga ekki einu sinni byggingarmeistarar, ásamt teikningum arkitekta og verkfræðinga, hvað þá að lóðin ein nægi eins og í denn. Nei, nú þarf þar að auki byggingastjóra sem má ekki vera sami maðurinn og byggingameistarinn, öryggisfulltrúa, tryggingafélag og utan um allan pakkann skal haldið með gæðaeftirlit sem vottað er af skoðunarstöð og allur heili pakkinn verður að hafa fengið samþykki frá Mannvirkjastofnun ríkisins.

Marteinn Mosdal - hvað?

Tryggvi Emilsson segir frá því þegar hann byggði fyrir rúmum 90 árum íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi við Akureyri. En hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.

Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.

Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáu dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.

Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)

Þó svo að við félagarnir á Djúpavogi höfum ekki þurft að hafa það frumkvæði til að bera að byggja steinsteypt hús eftir að hafa ekki þekkt annað en torfbæi þá var ennþá hægt að hrinda húsbyggingu í framkvæmt á hagkvæman hátt á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Að því leitinu var byggingaaðferðin áþekk torfbæ, að við notuðumst mikið við heimafengið í sinni tærust mynd, það er eigið hugmyndaflug, afl og mölina, sem lá því sem næst undir fótunum.

En þess ber að geta að á þeim tíma vorum við lokaðir inniá verndarsvæði eins og síðustu Móhíkanarnir, öfugt við það þar sem starfsleyfi steypustöðva í boði vinnu-, heilbrigðis og nefndu það eftirlits voru farin að gera afdalmennsku óhægt um vik.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband