Undir grænni torfu týndist tíminn

IMG 1455

Það er stundum sagt um tímaskin Færeyinga að þar sé ávalt nægur tími og ef þeir verði dagþrota þá komi bara meiri tími á morgun. Dagskrá landans er öllu strekktari þó svo að Bjartmar hafi fyrir skemmstu sungið um "flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið þar sem af týndum tíma er af nægu að taka" um leið og hann bauð landann "velkomin á bísan", þegar allt virtist stefna í að leita þyrfti í reynslubanka Bjarts í Sumarhúsum.

Eftirminnilegt er að Færeyingar hikuðu ekki við að lána Íslendingum stórfé á meðan hinar frændþjóðirnar veltu vöngum ásamt alþjóða gjaldeyrissjóðnum yfir því hvernig mætti koma böndum á fjármálaverkfræði sem kennd var við útrásarvíking. Úti í hinum stóra heimi þótti þetta náttúrulega ekki gáfulega farið með fé hjá frændum vorum í Færeyjum, en þeir sögðu þá bara að gáfur og gæska þyrftu ekki endilega að fara saman. Skilyrðislaust bæri að hjálpa sínum bróðir í neyð.

Í síðustu viku fórum við Matthildur mín loksins í langþráða Færeyjaferð og vorum yfir Hvítasunnuhelgina. Þetta var nokkurskonar systraferð þar sem við tengdasynir Sólhóls fengum að fljóta með sem bílstjórar á Norrænu frá Seyðisfirði til Þórshafnar. Þessi ferð hafði verið á dagskrá í mörg ár og má segja að við skipulag hennar hafi lífsspeki Færeyinga verið höfð að leiðarljósi, um að á morgun komi meiri tími.

Daginn fyrir brottför bað góður Borgfirðingur mig um að skila kveðju til allra sem ég hitti í Færeyjum, því þar byggi besta fólk í heimi, svo vel fann hann í hjarta sínu gæsku Færeyinga. Auðvitað reyndi ég að koma kveðju hans til skila þegar gafst til þess tími. Þessi Hvítasunnuhelgi er samt ekki sú fyrsta sem ég dvel í Færeyjum því fyrir 33 árum síðan átti ég því láni að fagna sem ungur maður að kynnst þessum frændfólki okkar, þá hafði ég ráðið mig í vinnu hjá dönskum múrarameistara í Þórshöfn og var þar fram eftir sumri.

Eftir Hvítasunnuhelgina í denn þurfti ég að tína saman tómu bjórflöskurnar úr herberginu og koma þeim í verð hjá kaupmanninum niður á horni. Því við félagarnir sem leigðum þá á farfuglaheimili Verkakvennafélags Þórshafnar höfðum týnt útborgununum okkar í miklum gleðskap undir grænu torfþaki farfuglaheimilisins og áttum ekki fyrir mat, en nóg af tómum bjórflöskum. Þegar ég hafði sett flöskurnar í svartan ruslapoka reyndust þær allt of þungar til að bera og stútarnir stungust út úr skósíðum pokanum, sem ég var að sligast undan. Því varð að ég hnupla hjólbörum rogast með flöskupokann upp í þær.

Þó ekki væri torfærunum fyrir að fara og leiðin greið niður á við í hverfisbúðina á horninu, þá var hjólið á börunum ryðgað fast. Því þurfti ótrúleg átök í að ýta þeim niður brekkuna og halda um leið jafnvægi með dýrmætan farminn. Ég veit ekki enn í dag rúmum 30 árum seinna hvort það var fyrir að hafa fjarlægt flöskurnar af gistiheimili Verkakvennafélagsins eða liðka hjólbörurnar fyrir þær,sem varð til þess að okkur var ekki vísað á dyr, en það hafði mér verið tilkynnt að stæði til í upphafi ferðar, en var aldrei minnst meira á eftir að hjólbörunum var skilað.

IMG_1928

Kirkjubær; Múrinn til vinstri, Reykstofan fyrir miðju og kirkja Ólafs helga til hægri.

Þann stutta tíma, sem ég vann við múrverk í Færeyjum fékk ég að taka þátt í skemmtilegum verkefnum. Eitt af þeim var að gera við vegghleðslur kirkju Ólafs helga í Kirkjubæ og endurkalka hvíta veggi hennar. Þá vann ég með dönskum og færeyskum múrurum og hafði ekki grænan grun um hvað merkilegt verkefnið var, hvað þá þolinmæði fyrir svona fornminja gaufi. Enda leið ekki á lögnu þar til ég var settur í nýbyggingar verkefni þar sem ungur athafnamaður, Jakub A Dul, byggði sinn fyrsta Rúmfatalager, ef ég man rétt. Auk þessa vann ég við að banka steinhellur niður í stéttar og bílastæði tryggingafélags.

Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem ég uppgötvaði hversu sérstakt verkefnið var í Kirkjubæ. Þar eru tvær eldgamlar kirkjubyggingar, það er kirkja Ólafs helga sem er sögð byggð á 12. öld og dómkirkja Magnúsar sem er í daglegu tali kölluð Múrinn byggð um 1300, en sú bygging komst aldrei undir þak. Síðustu ár hefur verið unnið að viðgerðum á hleðslum í Múrsins. Einnig er Reykstofan í Kirkjubæ, sem er byggð í kringum 1100 og talin eitt elsta timburhús í heimi sem enn er í notkun.

IMG_1915

Þegar steinar losna í hlöðnum veggjum Múrsins, Ólafskirkju og Reykstofunnar í Kirkjubæ, er gert við þá með því að raða flötum smásteinum á milli þeirra í kalk-múrblöndu til að festa þá á sínum stað. Þetta er mikið þolinmæðisverk og hefur viðgerð veggja Magnúsar kirkju tekið mörg ár.

Auðvitað voru gömlu staðirnir mínir skoðaðir í ferðinni. Kirkjurnar í Kirkjubæ voru á sínum stað, meir að segja voru hellurnar ennþá í stéttunum og bílastæðunum í Þórshöfn. En þegar komið var í gömlu götuna mína reiknaði ég með að hjólbörurnar væru undir skrifstofuglugga verkakvennafélagsins, en þar brá mér heldur betur í brún. Gamla notalega svarta timburhúsið með torfþakinu, þar sem hægt var að opna kvistgluggann út á græna grasþekjuna til að reykræsta herbergið, var horfið. Þess í stað var komið nýtísku íbúðarhús og engin merki sáust um hjólbörur, ekki einu sinni svört hjólförin í malbikinu, hvað þá glerbrot eða tægjur af svörtum ruslapoka. Og litla búðin niður á horni orðin að íbúð.

Annars er það heilt yfir svo í Færeyjum að engu líkara er, en að þegar jarðýtan var flutt til Íslands um árið, og hér notuð á árangursríkan hátt við að jafna byggingasöguna við jörðu, þá hafi hún algerlega farið fram hjá Færeyjum og á það helvíti er varla hægt að minnast ógrátandi. Þar má finna heilu þorpin ennþá úr torfi og grjóti, meir að segja er búið í mörgum þessara húsa.

Hvernig myndi t.d. Þórshöfn líta út ef hún hefði farið í gegnum sama Dubai drauminn og Reykjavík? Þá væru grænu torfþökin nú komin undir malbik og þar væru svartir turnar klæddir í gler og innfluttar flísar, sem teygðu sig upp í þokuna. Það væru dapurleg skipti miðað við líflegan gamla bæinn, sem geymir söguna til dagsins í dag. Við skulum því rétt vona að það sé ekki bara vegna þess að Færeyingar vita að á morgun komi meiri tími, sem þeir hafa ekki ennþá ræst jarðýtuna eins og tímatrekktir frændur þeirra á sögueyjunni.

 

IMG_1922

Múrinn, eða dómkirkja Magnúsar í Kirkjubæ

 

IMG 1893

Götumynd frá Þórshöfn

 

IMG_1884

Götumynd frá Þórshöfn

 

IMG_1861

Þinganes í Þórshöfn, stjórnarráð Færeyja

 

IMG_1968

Þorp í Húsavík á Sandey

 

IMG 1835

Færeyskt hús í Kúney

 

IMG_1634

Saksun

 

IMG_1590

Bær á Vogey

 

IMG_1737

Stéttar í Þórshöfn

 

IMG_1908

Höfundur á fornum slóðum 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband