Jón hrak

IMG_1259

Það má segja að sagan af Jóni hrak verði undarlegri með hverri jarðarförinni. Ég hafði lengi hugsað mér að kanna sannleiksgildi hennar og fara að leiði þessarar dularfulli þjóðsagna persónu. En hann á að vera grafinn í gamla kirkjugarðinum á Skriðuklaustri og því stutt að fara.

Í dag fórum við hjónin svo á glæsilegt kaffihlaðborð í klausturkaffi í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri þar sem hægt er að éta á sig tertusvima á vöffluverði. Eftir kræsingarnar fórum við á efri hæðina og fengum leiðsögn um vistarverur Gunnars Gunnarssona, rithöfundarins sem sumir segja að hafi ekki verið verður Nóbelsins vegna óljósra tengsla við nasismann. En Gunnar er eini íslendingurinn sem vitað er til að hafi átt fund með Hitler og lengi gekk sú saga að glæsihús hans á Skriðuklaustri hafi verið teiknað af sama arkitekt og teiknaði Arnarhreiðrið fyrir Hitler.

Við vorum ein á ferð með leiðsögumanninum og fljótlega barst talið að uppgreftrinum á klaustrinu sem fór fram á fyrstu árum þessarar aldar. Klaustrið mun hafa verið nokkurskonar sjúkrahús og fólk komið víða að til að leita sér lækninga við hinum ýmsu meinum ef marka má þau bein sem upp komu úr kirkjugarðinum. Fljótlega bryddaði ég upp á áhugamáli mínu um það hvernig best væri að finna leiði Jóns hrak og vísaði leiðsögumaðurinn okkur á leiðið á mynd af uppgreftrinum á klaustrinu.

IMG_1261

 

Þjóðsögur Jóns Árnasonar hafa þetta að segja um Jón hrak:

Maður hét Jón og var kallaður Jón flak. Hann var undarlegur og lítt þokkaður af sveitungum sínum. Þótti hann smáglettinn og ei unnt að hefna sín á honum. Þegar Jón dó gjörðu líkmennirnir það af hrekk við hann að þeir létu gröfina snúa í norður og suður. Jón var grafinn að kórbaki í Múlakirkjugarði. En á hverri nóttu á eftir sótti hann að líkmönnum og kvað vísu þessa:

Köld er mold við kórbak,

kúrir þar undir Jón flak.

Ýtar snúa austur og vestur

allir nema Jón flak,

allir nema Jón flak.“

Var hann þá grafinn upp aftur og lagður í austur og vestur eins og aðrir. – Aðrir segja að vísan hafi heyrzt upp úr gröfinni í kirkjugarðinum.

Mjög hefur farið mörgum sögnum um Jón er séra Skúli Gíslason segir að hafi verið kallaður Jón hrak, því hann hafi verið varmenni mikið og grunur hafi legið á því að hann hafi loksins fargað sér sjálfur, hafi hann því verið grafinn án yfirsöngs að kórbaki og látinn snúa norður og suður. Nóttina eftir dreymdi sóknarprestinn er ekki var viðstaddur greftrun hans að Jón kæmi til sín og kvæði:

Kalt er við kórbak,

hvílir þar Jón hrak;

allir snúa austur og vestur

ýtar nema Jón hrak.

Kalt er við kórbak.

Daginn eftir lét prestur grafa hann upp og snúa honum rétt. Sótti Jón þá ekki framar að honum.

Fyrir vestan er sú sögn um nafna minn að hann hafi átt vonda konu er hafi látið grafa mann sinn svo sem fyrr er getið til þess að gjöra honum enn skömm í gröfinni. Þá er það og enn ein sögn um Jón að lík hans hafi verið látið svo í gröfina af því vonzkuveður hafi gjört er hann var moldu ausinn, en ekki af illvilja þeirra er að stóðu og hafi því líkmennirnir flýtt sér að koma honum einhvern veginn niður.

IMG_1253

Aðeins einn legsteinn er sýnilegur í kirkjugarðinum og hafði leiðsögumaðurinn upplýst okkur um það, að þegar uppgröfturinn á klaustrinu og garðinum fór fram 2002-2012 þá hafi sérstaklega verið athugað hvort Jón væri á sínum stað undir steininum. En á honum stendur daufum stöfum JÓN HRAK. Svo einkennilega hefði viljað til að undir þeim steini fundust engin bein og ekki var hægt að ætla að önnur bein sem upp komu í þessum mikla uppgreftri tilheyrðu Jóni.

Það er því búið að grafa Jón hrak tvisvar upp samkvæmt heimildum og í annað sinn kom í ljós að hann var ekki við kórbak. Leiðsögumaðurinn hafði heyrt eina munnmælasögu sem segði að vetrarhörkur hefði verið og frost í jörðu þegar átt hafi að jarðsetja Jón og því hefðu menn sennilega losað sig við líkið á auðveldari máta. En hvar og í hvaða skipti vissi engin.


Byggingar í böndum bírókratísins

Það brást ekki að vorið kom með trukki á nýju tungli þann 24. síðasta mánaðar. Einhvern veginn er það alltaf þannig á vormorgnum þegar sól skín í heiði og fuglasöngur fyllir loftið þá kviknar framkvæmdaþráin, jafnvel hjá gömlum safnvíkingum. Hér á árum áður hefðu svona ljúfir vordagar ekki verið látnir fara forgörðum, steypihrærivélin hefði verið ræst og byrjað að byggja. Þó svo að ég vinni við sömu iðn og áður, þar sem pólskir vinnufélagar mínir sjá nú orðið um að gera það skemmtilega, þá er því ekki lengur svo fyrir að fara að framkvæmdaviljinn, steypuhrærivélin og vinnuaflið dugi til að byggja hús. Nú sem aldrei fyrr hefur allt verið niðurnjörvað með reglugerðarfargani.

Pólverjar hafa hirt flest skemmtilegustu störfin frá íslendungu án þess að landinn hafi heilaburði til að fatti það, innihúkandi rígnegldur fyrir framan tölvuskjáinn við að koma heim og saman á exele skjali hvernig skuli fara að því að gera hvað sem er arðvænlegt fyrir fjárfesta. Einagnveginn tekst samt að fá í útkomuna hvernig svoleiðis húsnæði hentar ungu fólki sem sárvantar hagkvæmt húsaskjól. Öllum þessum vandræðum samfara þarf langskólagenginn landinn að greiða af námslánunum og er því eina leiðin til að halda sjó að útbúa regluverkið það flókið að hæfi sérstaklega vel borgaðri menntun, alls óskildri þekkingu á húsbyggingum. þannnig regluverk ræður svo úrslitum um hvort hús verður byggt.

Nú á dögum dugir hreint ekki það eitt að fá morgunnbjarta hugmynd og hafa vilja til að hrinda henni í framkvæmd þegar skal byggja hús. Þar duga ekki einu sinni byggingarmeistarar, ásamt teikningum arkitekta og verkfræðinga, hvað þá að lóðin ein nægi eins og í denn. Nei, nú þarf þar að auki byggingastjóra sem má ekki vera sami maðurinn og byggingameistarinn, öryggisfulltrúa, tryggingafélag og utan um allan pakkann skal haldið með gæðaeftirlit sem vottað er af skoðunarstöð og allur heili pakkinn verður að hafa fengið samþykki frá Mannvirkjastofnun ríkisins.

Marteinn Mosdal - hvað?

Tryggvi Emilsson segir frá því þegar hann byggði fyrir rúmum 90 árum íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi við Akureyri. En hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.

Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.

Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáu dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.

Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)

Þó svo að við félagarnir á Djúpavogi höfum ekki þurft að hafa það frumkvæði til að bera að byggja steinsteypt hús eftir að hafa ekki þekkt annað en torfbæi þá var ennþá hægt að hrinda húsbyggingu í framkvæmt á hagkvæman hátt á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Að því leitinu var byggingaaðferðin áþekk torfbæ, að við notuðumst mikið við heimafengið í sinni tærust mynd, það er eigið hugmyndaflug, afl og mölina, sem lá því sem næst undir fótunum.

En þess ber að geta að á þeim tíma vorum við lokaðir inniá verndarsvæði eins og síðustu Móhíkanarnir, öfugt við það þar sem starfsleyfi steypustöðva í boði vinnu-, heilbrigðis og nefndu það eftirlits voru farin að gera afdalmennsku óhægt um vik.


Bölvaður sé sá er mígur upp við vegg

IMG 1662

Það kannast flestir iðnaðarmenn við hvað aðstöðuleysi til að létta á sér getur verið bagalegt. Þó svo að sumir verið sér úti um færanlegan kamar þá er sjaldnast gert ráð fyrir slíkum kostanaði þegar unnið er fyrir Pétur og Pál út um borg og bý. Eitt sinn þegar ég vann utanhúss múrverk við íbúðarhús víðlesins spekings kom til umræðu lögmál sem hefur leitað á hugann þegar mér verður mál utandyra allar götur síðan. Í meira en 30 ár þar til í gær að ráðgátan upplýstist.

Eins og oft vill verða á vinnustað þar sem er ekkert klósett þá hafði ég farið bak við hús til að míga og vonaðist til að ekki sæist til mín. Þegar ég var rétt byrjaður þá kom húseigandinn fyrir hornið. Hann sagði ábúðarfullur „bölvaður sé sá er mígur upp við vegg“. Um afleiðingar þessa gæti ég lesið mig til um í Biblíunni.

Ég var snöggur að svara honum að því lygi hann, ég væri búin að lesa Biblíuna spjaldanna á milli og þetta stæði hvergi í henni. Hann þagði í smástund en sagði svo íbygginn á svip að þetta stæði kannski ekki í allra nýjustu útgáfu hennar. Auðvita laug ég því að hafa lesið Biblíuna spjaldanna á milli. En þetta samtal varð til þess þegar ég lét verða af því hafði ég það í huga hvort það gæti virkilega verið að þetta stæði í hinni helgu bók.

Eftir lestur næst nýjustu útgáfu Biblíunnar gat ég hvergi greint að ígildi þessarar bölbænar væri þar finna. Svo var það í gær að ég las bók Stefáns Jónssonar, Ljós í róunni. Þar er áhugaverð úttekt á þessari biblíutilvitnun og það sem meira er Stefán hafði rannsakað, gjörsamlega út í hörgul, sannleiksgildi þess að hana mætti finna í hinni helgu bók. Því rétt eins og ég trúði hann því ekki að óséðu.

Rannsókn Stefáns leiddi það í ljós að þessi tilvísun í bölvunina fyrir að míga upp við vegg væri í erlendum útgáfum Biblíunnar, en hefði af einhverju undarlegum ástæðum ævinlega verið sleppt við þýðingu hinnar helgu bókar yfir á íslensku. Tilvitnunina mætti finna í annarri konungabók þar sem Guð talaði í gegnum Elísa spámann um Jeróbam konung.

Komst Stefán helst að því að ástæða þess að þetta vantaði í íslensku útgáfur Biblíunnar væri af svipuðum toga og það að austfirðingar eru öðruvísi en annað fólk. En austfirðingurinn lætur segja sér það þrisvar sem nægir að ljúga einu sinni í suma aðra. Og sumu trúir hann aldrei hvað oft sem hann heyrir því logið.

Það er oft þannig með lausn á ráðgátum að þegar ein leysist þá virðist svar við annarri berast á undarlegan hátt á sama tíma og þá oft úr ólíkri átt. En nú var það ekki svo í þetta sinn, heldur rakst ég fyrir stuttu á texta Þórbergs Þórðarsonar, sem einnig er rithöfundur úr austfirðingafjórðungi. Þar varpar hann ljósi á það sem margir telja landlæga plágu nú á tímum þó svo að ekki séu bölbænir við gjörningnum að finna í Biblíunni.

Þó að iðnaðarmenn eigi til að leggja metnað sinn í að míga úti þá er fáheyrt að þeir geri stærri stykki utandyra. En eins og flestir hafa frétt, eða jafnvel séð myndbirtingar af á facebook, þá hefur borið á því að túristar skíti á víðavangi þrátt fyrir að salerni séu á næsta leiti. Jafnvel hefur mörgum komið til hugar að réttast væri að láta þá borga fyrir að gera þarfir sínar því svo vel sé fólk skólað í að greiða fyrir að vera til, að því detti ekki í hug að fara á salerni ókeypis.

En texti Þórbergs í Bréfi til Láru upplýsir hvað fer raunverulega fram í sálarlífi túristans við þessar aðstæður. Og við því geta hvorki fjársektir né Biblían átt nægilega sterkar viðvaranir, hvað þá að gjaldskyldir kamrar komi að gagni.

Það var logn og heiður himinn. Sól skein í suðri. Sumarfuglarnir sungu suðræn ástarljóð í runnum og móum. Fram undan blasir við fagurt hérað, skrýtt skógarkjarri og grösugum eldfjöllum. Fjöllin eru frumlega gerð og einkennileg, rétt eins og forsjónin hefði skapað þau með sáru samviskubiti út af hrákasmíð sinni á Rangárvöllum. Fyrir neðan skógarbrekkurnar glampar á hafið himinblátt, alsett eyjum og vogum, - helgi og fegurð svo langt sem augað eygir.

Þetta er dásamlegur heimur. Þessi mjúka stemming yfir hafi og hauðri, ilmur úr grænu grasi og skógarangan. Hvar er ég? Er ég komin suður á Ítalíu? Er þetta hið himinbláa Miðjarðarhaf, sem Davíð Stefánsson kvað um pervislegt kvæði? Eða er þetta kannski sumarlandið, þar sem Raymond drakk himnesk vín og reykti vindla sáluhólpinna tóbakssala? Ég settist niður í skógarrunn og skeit. Á setum sínum kemst maður í andlegt samfélag við náttúruna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband