Fullvalda 20. aldar maðurinn

Ætlarðu ekki að skrifa minningargrein um hann afa þinn, spurði hún Matthildur mín mig fyrir 19 árum síðan. Nei ég get það ekki, var svarið. Þetta þótti minni konu aumt svar. En málið var að ég gat engan veginn skrifað minningargrein um hann afa, sem var bæði minn besti vinur og nafni. Þau skrif hefðu varla orðið um annað en hve missir minn var mikill og þar af leiðandi ekki verið um hann afa minn.

Þegar föðurafi minn hélt á vit forfeðranna, tæplega 91. árs, þá var í þessum heimi til engra forfeðra lengur að leita og var ég þó ekki fertugur. Fram að því var afi minn sá sem alltaf hafði verið til staðar, sá sem hafði grátið með okkur systkinunum og föður við eldhúsborðið morguninn eftir að móðir okkar dó. Afi var sá sem sagði 10 árum seinna, þegar ég fann að ýmsu eftir líkræðu prestsins við útför föður míns; blessaður vertu ekki að svekkja þig á þessu nafni minn ég hef lent í miklu verri jarðarförum hjá honum en þessari.

Níu árum eftir að afi minn dó sagði hún Matthildur mín, ætlaðu ekki að skrifa minningu um hann afa þinn í tilefni 100 ára árstíðar hans, það er oft gert, og það þekktu hann fáir betur en þú. Nei, ég gat það ekki, vegna þess að ég þekkti hann afa minn ekki nógu vel. Það voru nefnilega setningar sem hann sagði á níræðis afmælisdeginum sínum sem fékk mig til að efast um hvort ég þekkti hann afa minn, besta vin og nafna, nógu vel til að geta skrifað svoleiðis æviágrip.

Og hvernig átti ég að vera fær um að skrifa minningu um mann sem lifað hafði meira en tímana tvenna, eða líkt og Tryggvi Emilsson lýsir í bók sinni Fátækt fólk þegar hann minnist ársins 1918 í hálfhruninni torfbaðstofunni á kotbýlinu Gili í Öxnadal. Þá bar enn til stórtíðinda og langsóttra sem gerjuðust svo í hugum manna að margir þeir, sem aldrei sáust brosa út úr skegginu eða virtust kippa sér upp við nokkurn skapaðan hlut, urðu drýldnir á svip og ábúðarmiklir rétt eins og þeir væru allt í einu orðnir að sjálfseignarbændum, en nú var Ísland fullvalda ríki. Ég heyrði föður minn tala um þann ægistóra atburð eins og hann hefði sjálfur átt þátt í úrslitunum. Þessi tíðindi bárust fyrir jól og var þeim fagnað alls staðar þar sem hátíð var haldin. Menn höfðu fylgst með sambandsmálinu framar öllum örðum málum á undanförnum árum og heyrði ég Guðnýju segja að þessi sigur væri fyrirboði annarra og meiri. Sjálfur var ég í uppnámi vegna fregnarinnar, sá landið í nýju og skæru ljósi og taldi víst að nú mundi hækka hagur íslenskra öreiga. Þannig vógu ein stórtíðindi góð á móti þrem stórtíðindum vondum, frostunum miklu, spænsku veikinni og Kötlugosi. (Fátækt fólk bls.279)

Hann afi minn hafði aldrei barmað sér í mín eyru fyrr en á 90 ára afmælisdaginn sinn. Þá var það tvennt sem hann angraði. Annað var hve margar rjúpur hann hefði drepið um ævina. Ég sagði að hann þyrfti nú varla að hafa samviskubit út af þeim, þar sem lífsbarátta fólks á hans yngri árum hlyti oft að hafa verið hörð og hann hefði alltaf borið þá virðingu fyrir bráð sinni að hún hefði verið étin upp til agna. Nei það voru ekki þær rjúpur, heldur rjúpurnar sem hann hafði selt þegar hægt var að selja til Danmerkur; það hefði engu breytt þó ég hefði verið án þeirra peninga, sagði hann. Hitt var atvik frá bernsku sem setti fyrir mér ævi afa míns í allt annað samhengi en ég hafði ímyndað mér fram að því.

Það er ekki fyrr en nú á 110 ára ártíð afa míns að ég ætla að reyna að minnast hans, og nú óumbeðinn. Reyndar var það bók Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, sem varð til þess að ég sá lífshlaup afa frá sjónarhóli sem ég hafði ekki komist á meðan hans naut við, en við lestur bókarinnar komst ég á skjá sem gaf aðra sýn. Hann og Tryggvi voru samtímamenn sem lifðu 20. öldina og því hægt að kalla 20. aldar menn. Það er varla til fólk sem hefur lifað stærri breytingar á umhverfi sínu og háttum en íslenskur almúgi sem lifði alla 20. öldina.

Á bókarkápu og í formála endurútgáfu Fátæks fólks árið 2010 segir; bókin vakti mikla athygli og umtal þegar hún kom út árið 1976 – fyrir fádæma orðsnilld, persónusköpun og stíl, en þó fyrst og fremst fyrir þá sögu sem þar var sögð. Söguna af fátæku fólki fyrir tíma almannatrygginga; þegar hægt var að taka björgina frá barnmörgu heimili vegna þess að kaupmaðurinn þurfti að fá sitt; þegar litlum börnum var þrælað út í vist hjá vandalausum; þegar sjálfsagt þótti að senda hungrað barn gangandi tvær dagleiðir í vondu veðri til að reyna að fá úttekt í verslun. - Bókin Fátækt fólk var tilnefnd til Bókmenntaverðalauna Norðurlandaráðs árið 1977, og er haft fyrir satt að munað hafi svo fáum atkvæðum, sem talin voru á færri fingrum en finnast á annarri hendi, að verðlaunin féllu Fátæku fólki.

Bækur Tryggva, Fátækt fólk, Baráttan um brauðið og Fyrir sunnan, ætti hver og einn að lesa sem hefur minnsta áhuga á að kynna sér úr hvað jarðvegi íslenskt þjóðfélag er sprottið. Þó svo að bækur Tryggva Emilssonar hafi verið umdeildar á sínum tíma og hann hafi þótt fara hörðum orðum um menn og málefni, þá var varla hægt að gera það á annan hátt, nema fara í kringum sannleikann eins og köttur í kringum heitan graut. Auk þess segja bækurnar frá tæringunni (berklunum) og því hvernig íslensk alþýða komst út úr hálfhrundum torfbæjunum, sem höfðu verið hennar skjól í þúsund ár, inn í nútímann á aðeins örfáum áratugum.

Ég hafði spurt afa, í einhverri af okkar mörgu samverustundum, hvort það hefði ekki verið notalegt að búa í torfbæ. Hans svar var stutt og skorinort; minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn. Þegar ég gekk eftir hvers vegna, þá talaði hann í örstuttu máli um slaga, haustrigningar og vetrarkulda. Eins kom að lokum upp úr kafinu í þeim samræðum að foreldrar hans hefðu barist við berkla, sem hann taldi húsakostinn ekki hafa bætt. Faðir hans hafði tvisvar verið "hogginn" eins og kallað var, en það er þegar rifbein eru fjarlægð.

Jón Sigvaldason, faðir Magnúsar afa míns var smiður sem átti við berkla að stríða stóran hluta sinnar ævi, hann hefur því átt erfitt með að framfleyta fjölskyldunni. Hann þurfti oftar en einu sinni að leita sér lækninga við tæringunni, en það að vera höggvinn þýddi nánast örkuml og var lokaúrræðið í baráttunni við berkla fyrir tíma sýklalyfjanna. Foreldrar afa þau Jón Sigvaldason og Jónbjörg Jónsdóttir hafa því ekki átt sjö dagana sæla við að koma sínum barnahóp á legg. Það var einmitt á 90 ára afmælisdaginn sem ég heyrði afa í fyrsta og eina skiptið gefa örlitla innsýn í þá hörku sem var í samfélagi þessa tíma. Núna ætla ég að reyna að gera örstutta grein fyrir ævi afa.

Magnús Jónsson IIMagnús Jónsson var fæddur á Fljótsdalshéraði 27. nóvember 1908 á Skeggastöðum í Fellum. Hvers vegna hann er fæddur á Skeggjastöðum í Fellum veit ég ekki nákvæmlega. Foreldrar hans ólu mestan sinn aldur austan við Lagarfljót á Völlum, í Skriðdal og áttu auk þess sín fjölskyldutengsl í Hjaltastaðaþinghá, en Fell eru vestan við Fljót. Mig minnir þó afi hafi sagst halda að Skeggjastaðir hafi verið hans fæðingastaður vegna þess að þar hafi þau hjónin verið stödd vegna vinnu smiðsins.

Jónbjörg og Jón eignuðust 5 börn sem komust á legg auk þess að missa tvö á unga aldri. Afi var elstur þeirra systkina sem upp komust og aldrei heyrði ég hann tala um þau systkin sem foreldrar hans misstu. En í kirkjubókum og minningargrein um systur hans kemur fram að þau hafa heitið Sigrún, sem fædd var á Ketilsstöðum, Hjaltastaðarsókn, N-Múl. 10. júní 1901. Látin á Hreimsstöðum, Hjaltastaðarsókn, N-Múl. 1. júní 1902. Í minningargreinni kemur fram nafnið Björgvin, en ekkert fann ég um fæðingarstað né aldur.

Næst á eftir honum kom Guðrún Katrín fædd 21.11.1911 á Víðilæk, Skriðdal. Húsfreyja á Seyðisfirði dáin 07.01.1956. Svo kom Þuríður fædd 11.11.1913 í Sauðhaga á Völlum. Húsfreyja í Tunghaga dáin 17.05.2006. Þar á eftir kom Benedikt Sigurjón fæddur 14.04.1921 í Hvammi á Völlum. Var búsettur í Reykjavík dáinn 19.11.2005. Síðust kom Sigríður Herborg fædd 17.02.1925 í Tunghaga. Húsfreyja á Seyðisfirði dáin 26.09.1989.

Það var þegar ég rakst á sóknarmanntöl sem höfðu ratað á netið að ég gerði mér fyrst örlitla grein fyrir hverskonar aðstæður þessi systkinahópur hafði alist upp við og er þar sjálfsagt ekki ólíku saman að jafna við marga fjölskylduna sem ekki hafði jarðnæði á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Afi minn er flest árin skráður til heimilis á sama stað og foreldrar hans en önnur ekki, það er þó sammerkt með þeim árum að hann er ævinlega skráður til heimilis á sama stað og Sigurður Björnsson frá Vaði í Skriðdal og Magnea Herborg Jónsdóttir kona Sigurðar, en þau hjón voru kennd við Sauðhaga.

Það má sjá á fæðingarstöðum barna þeirra Jóns og Jónbjargar, eins í sóknarmanntölum að lengi höfðu þau ekki fastan samastað. Það er ekki fyrr en í Tunghaga 1922 að þau teljast ábúendur með jarðnæði. Dóttirin Katrín er fljótlega skráð í sóknarmanntölum á tveimur stöðum, þar sem Jónbjörg móður hennar var og hjá fósturforeldrum á Seyðisfirði. Þuríður er alltaf skráð á sömu stöðum og móðir hennar. Sigurjón fæðist í Hvammi og Herborg í Tunghaga og eru ávalt skráð til sama heimilis og foreldrar.

Svo virðist vera að Sigurður hafi hætt ábúð í Sauðhaga árið 1918 og flust ásamt Magneu Herborgu konu sinni i Vað í Skriðdal, þar sem Ingibjörg móðir hans bjó ásamt seinni manni sínum og systkinum Sigurðar. Ingibjörg Bjarnadóttir á Vaði varð ekkja 39 ára gömul, er ávalt talin kvenskörungur af Viðfjarðarætt, varð 17 barna móðir og stór ættmóðir á Héraði. Hún keypti jörðina Vað árið 1907 sem var Skriðuklausturs eign, en þar hafði hún búið ásamt fyrri manni sínum Birni Ívarssyni sem dó 1900 frá 12 börnum. Hún giftist Jóni Björgvin Jónssyni ráðsmanni sínum 1901 og áttu þau 5 börn saman.

Þegar Sigurður bregður búi í Sauðhaga og fer í Vað 1918, hverfur Jón Sigvaldason úr sóknarmanntölum sennilega vegna sjúkrahúslegu, en Jónbjörg er skráð vinnukona á Mýrum í Skriðdal ásamt Þuríði dóttir sinni. Árið 1923 eru Sigurður og Magnea Herborg aftur komin í Sauðhaga eftir að hafa verið skráð bæði á Vaði og í Tunghaga í millitíðinni. Þennan tíma er Magnús afi ýmist skráður sem tökubarn eða léttadrengur hjá Sigurði og Magneu Herborgu þ.e. 10-14 ára gamall. Þetta fólk hafði áður haldið saman um nokkurt skeiði og verið skráð til heimilis í Sauðhaga og þá Sigurður sem bóndi en foreldrar afa sem vinnufólk.

Í minni bernsku heyrði ég oft að Björg amma og Magnús afi væru bæði ná skyld fólkinu í Sauðhaga, enda var ég part úr tveimur sumrum í sveit hjá nafna mínum og frænda Magnúsi Sigurðssyni á Úlfsstöðum, en hann var frá Sauðhaga. Ég vissi fljótlega að Sigurður og Björg amma voru systkin, en fékk aldrei nákvæma skýringu á skyldleika afa við fólkið í Sauðhaga. Þegar ég spurði afa út í þetta þá sagði hann; nú skaltu spyrja einhvern annan en mig nafni minn, enda var ættfræði ekki hans helsta áhugamál. Í sóknarmanntölum sést að Magnea Herborg í Sauðhaga var uppeldissystir Jónbjargar móður afa. Þær voru systradætur, Jónbjörg er sögð tökubarn, fósturdóttir Pálínu Jónsdóttir móður Magneu Herborgar en móðir Jónbjargar hét Guðlaug Þorbjörg.

Pálína þessi var í sóknarmanntölum skráð sem vinnukona hjá Magnúsi Guðmundssyni og Herborgu Jónsdóttur búandi á Ormstöðum, sem voru í Hallormsstaðaskógi, og síðar Víðilæk í Skriðdal. Þegar ég spurði afa hvers vegna hann hefði verið skírður Magnús, og hvaðan Magnúsar nafnið okkar væri upprunnið, minnir mig að hann hafi sagt að það væri eftir einhverjum Magnúsi á Hallbjarnastöðum, en Víðilækur er út úr Hallbjarnarstöðum og þær systur Pálína, Herborg og Guðlaug voru frá Hallbjarnarstöðum. Magnús og Herborg áttu eina dóttir, Björgu sem dó að fyrsta barni og barnið líka. Nöfn þessa fólks lifa enn innan fjölskyldnanna sem eiga ættir að rekja til þeirra uppeldisystra Jónbjargar og Magneu Herborgar.

Því er þessi málalenging úr sóknarmanatölum þulin, að megi fá smá innsýn í hverskonar almannatryggingar var um að ræða í upphafi 20. aldarinnar. Almanntryggingin fólst í nánasta fjölskylduneti, eða þá á þann hátt sem ég fann í viðtalsþætti Hallfreðs Eiríkssonar þjóðháttafræðings á ismús, við Sigurbjörn Snjólfsson í Gilsárteigi. En Sigurbjörn var ungur maður að stíga sín fyrstu búskaparár á Völlunum þegar þeir voru æskustöðvar afa míns. Sigurbjörn segir frá því hvernig fátækt barnafólk var litið hornauga af sveitarstjórn og segir þar frá örlögum barna Péturs, sem Sigurbirni sjálfum hafði staðið til boða að taka við af, fullfrískum manninum. En honum hafi boðist annað og flutt með konu og börn í aðra sveit.

"Á Völlunum bjuggu bæði fátæklingar sem og efnaðir menn. Efnuðu mennirnir bjuggu á bestu jörðunum. Fátæklingarnir bjuggu á kotum sem varla var hægt að búa á. Upphaflega lentu Pétur og kona hans sem vinnuhjú hjá séra Magnúsi (Blöndal í Vallanesi) og þau máttu hafa tvö börn með sér. Þau eignuðust fleiri börn og urðu þau þá að finna þeim samastað. Eitt sinn var haldinn sveitarstjórnarfundur og var þar aðalfundarefnið að ráðstafa þurfalingum. Þessir fundir voru kallaðir vandræðafundir. Þessir fundir voru haldnir um sumarmál. Oft var niðursetningum komið fyrir hjá fátæku fólki því að það átti að vera hagur þeirra því að með niðursetningunum fékkst greitt frá sveitarfélaginu."

Það má svo rétt ímynda sér hvernig vandræðafundur Vallahrepps hefði tekið á málum ef fyrirvinna barnafjölskyldu var fársjúkur berklasjúklingur, nánast orðin örkumla, eftir því hvernig var tekið á málefnum þeirra barna Péturs og Sigurbjörns Snjólfssonar fullfrískra ungra manna. En Sigurbjörn telur að svo stutt hafi verið liðið frá afnámi vistarbandsins á Íslandi að sveitastjórnarmönnum á Völlum hafi verið vorkunn með úrlausnirnar. Sjálfur sagðist Sigurbjörn eiga efni sem hann hefði skráð hjá sér vegna þessara framfærslu mála sem hann hefði lagt svo fyrir um að ekki mætti birta fyrr en löngu eftir hans daga og þeirra er hlut áttu að málum, í virðingarskini við samferðamenn sína.

Í 1. tlbl. 5.árg. Glettings 1995 gerði Guðrún Kristinsdóttir, hjá safnastofnun Austurlands, húsakosti á Héraði skil á fyrri hluta 20. aldar í greininni "Baðstofurnar hans Jóns Sigvaldasonar". En eins og komið hefur fram hafði Jón faðir Magnúsar afa míns smíðar að ævistarfi. Í grein Guðrúnar kemur fram að Jón hafi oft verið fengin til að færa gömlu torfbæina til nútímalegra horfs með sínu sérstaka lagi. En þetta gerði hann með því að byggja tvílyft timburhús inn í tóft eldri baðstofa með háan, járnklæddan timburvegg fram á hlaðið sem hafði útidyr og glugga, með járni á þaki sem tyrft var yfir, bakveggir og stafnar héldu sér úr torfi og grjóti.

Það kemur fram í grein Guðrúnar að heimili Jóns, gamli torfbærinn í Tunghaga, hafi verið síðasta baðstofan sem hann endurbyggði árið 1934. Sannast kannski þar hið sígilda að iðnaðarmaðurinn lætur endurbætur við eigið hús ævinlega sitja á hakanum. Líklegra er þó að lífsbaráttan hafi verið með þeim hætti hjá örkumla smið í þá daga að allt varð til að vinna við að afla heimilinu lífsviðurværis. En fram kemur í samantekt Guðrúnar ;"Jón vann fram á síðasta dag við fjósbyggingu á Höfða á Völlum, en veiktist af lungnabólgu er hann kom heim og dró hún hann til dauða 5. júlí 1936".

Tveimur árum eftir að Jón Sigvaldason endurbyggir baðstofuna í gamla torfbænum í Tunghaga flytur Magnús elsti sonur hans sig á Jaðar í Vallanesinu til að gerast vinnumaður ungu ekkjunnar eftir sr Sigurð Þórðarson sem dó úr berklum. Til æskuvinkonu sinnar Bjargar ömmu, sem var sjö árum eldri en hann, systur Sigurðar fóstra hans í Sauðhaga. Húsið á Jaðri var stundum talin fyrsti herragarðurinn á Íslandi byggður af séra Magnúsi Blöndal sem var einn af umdeildari Vallanesprestum, og stóð m.a. að vandræðafundunum sem Sigurbjörn Snjólfsson greinir frá.

Nú skal farið hratt yfir sögu enda kom hver dagur 20. aldarinnar eftir þetta með betri tíð, eða eins og segir í dægurlagatextanum; birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr hver dagur sem ég lifði í návist þinn. Afa og ömmu búnaðist vel í Vallanesinu, fyrir átti amma tvær dætur þær Bjarghildi Ingibjörgu og Oddrúnu Valborgu Sigurðardætur. Þau eignuðust svo saman synina Sigurð Þórðarson og Ármann Örn auk þeirra ólust upp hjá þeim Gerður, Sigurður og Emil af eldri börnum þeirra systranna, svo vorum við nokkrir peyjar sem fengum að dvelja þar í sveit á sumrin sem nokkurskonar flórgoðar. Það ruglaði mig oft svolítið í rýminu þegar ég var barn að þau Gerður og Siggi skyldu alltaf kalla þau afa og ömmu, pabba og mömmu, en svo miklu ástfóstri tóku þau við þau gömlu.

Afi var bóndi öll sín bestu ár, hann var eldhugi, hamhleypa til verka og það stóðst fátt fyrir honum. Hann kunni að hnýta saman þvílíku úrvali blótsyrða þegar hann stóð frami fyrir erfiðleikum að meir að segja ég gat ekki annað en lært að nýta mér þær þulur. Ef sérlega illa stóð á var formálin eitthvað á þessa leið; fari það svoleiðis norður og niður í rauðglóandi helvítis helvíti. Þar með voru hamskiptin komin á og ráðist með áhlaupi til verka þannig að ekkert stóðst í veginum. Ég verð var við það enn þann dag í dag þegar erfiðlega gengur í steypuvinnunni að vinnufélagar mínir eiga til að glotta yfir því orðavali sem ég viðhef í gegnum steypuhauginn.

Amma var fyrrverandi prestfrú í Vallanesi, ekkja sr Sigurðar Þórðarsonar frá Skeiði í Arnarfirði, þess sem hóf prestskap sinn sem aðstoðarprestur hjá sr Magnúsi Blöndal og sameinaði söfnuðinn eftir deilur og daga sr Magnúsar í Vallanesi. Í minni bernsku var Björg amma kirkjuorganisti í Vallneskirkju og afi meðhjálpari. Amma var oft kölluð frú Björg af samsveitungum og vottaði ekki háði í þeirri nafnbót. Enda amma af almúgafólki komin sem ekki hafði verið mulið undir, frúar nafnbótin var tilkomin af verðskuldaðri virðingu fyrir almúgakonunni.

Á Jaðri var tvíbýli og gott á milli granna. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja, húsið steinsteypt, svo kalt á vetrum að ekki voru tök á að kynda öll þau salarkynni í stofuhita. Sjálfur fékk ég að kynnast hrollköldum herragarðinum í Jaðri þegar ég var barn í sveitinni hjá ömmu og afa. Eins man ég eftir að hafa komið í eina af baðstofunum hans Jóns Sigvaldasonar, bjartan sumarmorgunn og fundist hún notaleg, en það var í Vallaneshjáleigu. Amma og afi bjuggu í Jaðri í Vallanesinu til 1970, amma þá búin að vera þar í 45 ár og afi í 34, þá fluttu þau í Selás 26 á Egilsstöðum.

Á Selásnum setti afi upp steinplötu við útidyrnar, sem í var grafið Björg Magnús, ég hafði orð á því við hann að það vantað og á milli nafnanna; við amma þín erum fyrir löngu orðin eitt, nafni minn, svaraði hann. Þarna áttu allir afkomendur afa og ömmu öruggt skjól líkt og í Vallanesi. Afi notaði árin á Egilsstöðum til að fínstilla logann innra með eldhuganum.

Amma sagði mér frá fyrstu kynnum sínum af þessum funa bráða dreng á æskuheimilinu Vaði, og augun hennar ljómuðu við frásögnina. Þá undraði mig ekkert hvernig þau hefðu þekkst frá því þau voru börn á sama heimili, spáði aldrei í það, enda trúir barnsálin því að amma og afi hafi alltaf verið saman. En eftir að ég rakst á sóknarmanntölin á netinu þykist ég vita að litli drengurinn hafi komið í Vað á æskuheimili ömmu með Sigurði eldri bróður hennar sem tökubarn þegar fyrra ábúð hans lauk í Sauðhaga.

Amma og afi bjuggu í 13 ár saman á Selásnum, en þá fór amma á sjúkrahúsið á Egilsstöðum. Þar lá hún á milli tveggja heima í 5 ár, uns hún kvaddi þennan 20. október 1988. Ég átti oft skjól hjá afa árin sem amma var á sjúkrahúsinu, stundum svo mánuðum skipti. Afi fór á hverjum degi niður á sjúkrahús til að eiga stund með ömmu, ég fór einu sinni, fannst amma ekki vera þar og treysti mér ekki oftar. Stundum sagði afi þegar hann kom heim að lokinni heimsókn á sjúkrahúsið; ég er ekki frá því nafni minn að hún amma þín hafi vitað af mér hjá sér í dag, en aldrei fann hann að fælni minni við sjúkrahúsið.

Þegar systkini afa komu í heimsókn sást langt aftur í gamlan tíma, móttökur og kveðjur þeirra heimsókna voru innilega fallegar. Þegar Tunghagahjónin, Sigþór og Þura systir afa, komu í heimsókn skynjaði maður hvað elsti bróðirinn hafði verið mikils metin þegar foreldrarnir fengu ábúðina í Tunghaga, hrjáð af berklum og komin með 4 barna hóp. Þá hafði næstelsta systirin Katrín verið hjá fósturforeldrum, sem voru skyldfólk á Seyðisfirði, í nokkur ár. Sigþór og Þura giftu sig 1936 árið sem Jón Sigvaldason dó og keyptu síðar Tunghaga. Margir heimsóttu afa reglulega á Selásinn, gamli héraðslæknirinn, presturinn, verkamaðurinn, alþingismaðurinn ofl, ofl, og varð ég oft vitni af áhugaverðum samræðum. Afkomendurnir komu auðvitað oft í heimsókn og upp á milli þeirra gerði afi aldrei.

Það var ekki oft í seinni tíð sem afi var á faraldsfæti en hann kom samt nokkru sinnum í dagsferð á Djúpavog til að heimsækja nafna sinn og einu sinni stoppaði hann í nokkra daga. Skömmu eftir að þau amma og afi hættu að búa í Vallanesinu var farin fjölskylduferð norður í land til að heimsækja afkomendur og vini í Skagafirði. Við bræðurnir vorum í 1946 willysnum með afa, en amma var í bíl með foreldrum okkar og systrum. Það var allt svo stórkostlegt sem fyrir augu bar að við bræður máttum hafa okkur alla við að minna afa á hvar á veginum willysinn var, og miklar voru áhyggjur okkar bræðra þegar var farið um Ólafsfjarðarmúlann því willysinn átti það til að hrökkva úr gír og ekki var nú útsýnið amalegt í Múlanum þegar halla fór til Ólafsfjarðar. Einu sinni fór afi út fyrir landsteinana og urðu Færeyjar fyrir valinu.

Á Egilsstöðum vann afi fram yfir sjötugt, hann vann nokkur ár í skóverksmiðjunni Agila, síðan sem sendibílstjóri og lagermaður hjá Verslunarvélagi Austurlands, við byggingavinnu og að lokum hjá Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Eftir að hann hætti í fastri vinnu tók hann að sér ýmis verkefni s.s. að sjá um sumarstarfsvöll fyrir unga Egilsstaðabúa þar sem byggð voru fallegustu hús bæjarins, slá og hirða lóðir fyrir stofnanir og hjálpa skólabörnum yfir götu á varasömustu gatnamótum bæjarins. Í dag má sjá lögreglubíl við þessi gatnamót á annatíma þegar vænta má flestra barna, ökumönnum til áminningar. Hann sagði mér eitt sinn að ef hann hefði haft val á sínum yngri árum hefði hann sennilegast ekki orðið bóndi, menntavegurinn hefði orðið fyrir valinu.

Í áranna rás hafði ég ekki áttað mig á hversu stórt hlutverk afi minn hafði í mínu lífi. Á árunum 1997 og 1998 var ég um tíma við störf í Ísrael við að leggja iðnaðargólfefni á verksmiðjur gyðinga í Galíleu. Við höfðum nokkrir íslendingar tekist á hendur að fara í nokkurskonar útrásarvíking í samstarfi við ísraelskan umboðsmann. Þessi ár vann ég í nokkurra vikna úthöldum ásamt gólflagnamönnum sem ég vann ekki með á Íslandi. Við gistum á samyrkjubúum en borðuðum í grennd við vinnustað og var það frekar fábreitt sjoppu fæði, Mc Donalds eða shawarma hjá götusala, svona eitthvað svipað og pilsa með öllu heima á Íslandi.

Á leið í næturstað að loknum vinnudegi var svo reynt að hafa upp á einhverju kræsilegra að éta. Eitt skiptið höfðum við óvænt lent inn á veitingastað hjá aröbum og borðuðum þar góðan mat, -að mér fannst. Ég stakk oft eftir það upp á því við félaga mína að fara aftur á araba staðinn. Það var að endingu látið eftir mér, þegar við sátum að snæðingi þá sagði annar félaginn; hva, þú færð þér svo bara það sama og síðast. Ég jánkaði því og sagði; lambakjötið hérna er næstum jafn gott og það íslenska og næstum eins og afi hafi steikt það. Vinnufélagar litu kímnir á hvern annan og annar þeirra sagði; það hlaut að vera að þessi staður hefði eitthvað að gera með hann afa þinn.

Síðsumars 1999 brugðum við Matthildur mín okkur upp í Hérað ásamt börnunum okkar tveim. Ferðin var farin til að sigla á Lagarfljótinu, en þá hafði ferjan Lagarfljótsormurinn nýlega hafið siglingar frá Egilsstöðum inn í Hallormsstað. Eins og vanalega komum við á Selásinn til afa og hafði ég gengið með þær grillur að afi myndi hafa gaman að því að koma með í siglinguna. Hann var þá, auk aldursins, orðinn helsjúkur. En á björtum sumardegi þá man maður afa sinn alltaf sem hetju bernskuáranna. Þrátt fyrir hve af honum var dregið gat ég ekki stillt mig um að biðja hann um að koma með í siglinguna. Hann brosti og svaraði; já ég held ég geri það bara nafni minn.

Ormurinn sigldi inn Fljótið í sólskini og 20 stiga hita á meðan Héraðið skartaði sínu fegursta til beggja handa. Við nafnarnir sátum saman í skuti meðan siglt var með vesturbakka Fljótsins, Fellamegin, og fylgdumst með því sem fyrir augu bar. Á móts við Skeggjastaði beygði Lagafljótsormurinn þvert yfir Fljótið og tók landi við Atlavík í Hallormstaðaskógi. Þegar áningunni þar var lokið var siglt út Fljótið að austanverði fram hjá Vallanesinu með sínum líparítgulu fljótsmalarfjörum þar sem afi hafði lifið sín manndómsár, siglingin endaði svo við sporð Lagarfljótsbrúarinnar á Egilsstaðanesinu. Þetta var síðasta ferðin okkar afa, við höfðum farið með bökkum Fljótsins þar sem hann fæddist og ól sinn aldur. Hann hélt svo til æðri heima á vit fólksins síns 13. nóvember 1999. En ég sigldi inn í 21. öldina þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast fullvalda 20. aldar manninum, sem aldrei fór fram á önnur laun í lok dags en að fólkinu hans liði vel.

Hann afi minn var af kynslóð fólks sem lifað hafði frá torfbæ til tölvualdar, fólks sem þakkaði sér hvorki uppbyggingu né framfarir 20. aldarinnar, heldur sagði að svona hefði þetta nú bara æxlast og það hefði tekið þátt í því. Hann var afkomandi kotfólksins, sem tók öllum höfðingjum fram. Hann tilheyrði ungu fólki sem  fékk fullveldið í fermingargjöf og mundi tímana tvenna.

Tryggvi Emilsson lýsir hörðum kjörum kotfólksins svo í upphafi 20. aldar. Á vorin ætlaði aldrei að hlána þessar fáu rollur gengu magrar undan hörðum vetrum og snjóþungum. En þegar loksins náði til jarðar og grösin komu græn undan snjónum voru stráin svo kjarngóð að ærnar, sem voru stundum komnar með horlopa, hjörnuðu fljótt við. Lömbin komust á spena og mjólkin varð feitari með hverjum degi, og svo var fært frá. Þyngsta þrautin var að standast afleiðingar vetrarhörkunnar þegar seint voraði. Börnin voru mögur og lasburða en reyndu þó að skríða á eftir henni móður sinni þegar hún var að hreinsa túnið, með bláar hendur eftir frostbólguna um veturinn, faðirinn fór sér hægt, þrótturinn var ekki á marga fiska. (Fátækt fólk bls.299)

Afkomendur kotfólksins skildu þannig við 20. öldina að Rúnar heitin Júlíusson gat sungið seint á áttuna áratugnum þannig um lífskilyrði kynslóðarinnar okkar sem sigldum um miðjum aldur inn í þá 21., við texta Þorsteins Eggertssonar; betri bíla, yngri konur, eldra viskí, meiri pening, en það verður allt önnur saga. Hvað þá hvort kynslóðinni, sem vanist hefur snappi takist að tengja sig við fullveldið með appi.


Íslenska - fæðingarfylgjan

Sennilega dettur fáum í hug að leita sér andlegrar uppörvunar í íslenskum draugasögum, eða auka skilning á andans málum með því að glugga í sögur um íslensku fornkappanna. Hin fjarlægu austurlensku fræði hafa þótt álitlegri kostir til sáluhjálpar. Nútíma vísindi gera ráð fyrir aðgreiningu líkama og sálar, þó svo enn sé algengt að álykta sem svo að manneskja samanstandi af huga, líkama og sál. Skilningsvit séu fimm; sjón, heyrn, snerting, bragð og lykt. Heimarnir hafi síðustu aldirnar verið taldir þrír þ.e. jarðlífið, himnaríki og helvíti.

Efnishyggja nútímans hefur aftur á móti tilhneigingu til að hafna yfirnáttúrulegum, trúarlegum og dulspekilegum skýringum á líf fólks, maðurinn tilheyri ríki náttúrunnar. Heimurinn sé einn og lúti þróunarsögu Darwins, sem er nátengd markaðslögmálunum. Hugleiða má svo hvaða vitneskju menn hafi um tilveru efnisheimsins aðra en huglæga. Heimurinn geti því allt eins verið hugmynd, líkur þeirri sem Gandi benti á, "ef þú vilt breyta heiminum breyttu þá sjálfum þér".

Samkvæmt margri austurlenskri speki getur heimurinn aðeins verið til í huga sérhvers einstaklings í eins mörgum útgáfum og hann óskar sér, þar verður hver að vera sinnar gæfu smiður. Innan hverrar manneskju býr samkvæmt því, rýmið, sólin og áttirnar fjórar, það sem er fyrir ofan og fyrir neðan, guðir, djöflar og hægt að fara hvert þangað sem andans truntur þeysa. Því er betra að vera meðvitaður um að hugurinn getur svifið í tómarúmi líkt og skýin um himininn. Þó skýin geri ekki mistök með ferð sinni um himininn, þá hefur vindátt og hitastig áhrif á hvort þeim fylgir blíða eða ótíð.   

Hugmyndir fornmanna um skinfæri einstaklingsins virðast hafa verið frábrugðnar þeim sem uppi eru í dag, t.d. er hugsunin talin til eins af skilningsvitunum, líkt og gert er í Búddisma. Með því að færa hugsunina úr flokki skilningsvita yfir á vestræna vísu, í það sem mætti kalla hið óskilvitlega, er hægt að hafa gífurlega ómeðvituð áhrif á huga fólks og það hafa markaðsöfl nútímans notfært sér miskunnarlaust.

Sjálfsmynd heiðinna mann s.s. þeirra víkinga sem námu Ísland gerði ráð fyrir að manneskjan samanstæði af ham, hamingju, huga og fylgju, þessi fjögur atriði sköpuðu henni örlög. Þetta fernt virðist kannski flókið, en er það svo? Þeir hafa kannski gert sér betri grein fyrir hvað hugurinn er flækjugjarn ef hann er ekki notaður til að fylgjast með rétt eins og sjón og heyrn, þess í stað notaður til að meðtaka hvers hin skilningsvitin verða áskynja.

Ef sjálfsmynd fornmanna er sett í samhengi við vestrænar hugmyndir dagsins í dag þá mætti skilgreina haminn sem líkama. Þetta þarf samt ekki að vera alveg klipp og skorið því til forna var talið að menn gætu verið hamrammir eins og greint er frá í Egilssögu að Kveld-Úlfur faðir Skalla-Gríms hafi verið.

En Kveld-Úlfur var samkvæmt sögunni klofinn persónuleiki. Á daginn var hann góður búmaður, duglegur og vitur, en á kvöldin svefnstyggur og afundinn, þaðan er viðurnefnið komið. Var því sagt að hann væri hamrammur eða hamskiptingur. Þjóðsögurnar skýra þetta fyrirbæri ágætlega og hve algeng hin forna meining er í íslenskri tungu.

"Betur hefur sú trú haldist frá fornöld að menn ímynda sér að sálin geti yfirgefið líkamann um stund, verið fyrir utan hann, en vitjað hans svo aftur; af þessu eru leidd mörg orð: vér köllum að maður sé hamslaus og hamstola af ákafa eður æðisfenginni reiði; hamhleypa er kallaður ákafur maður og skjótvirkur; hamur er vestanlands kölluð kona sem er geðvargur, óhemja og annað því um líkt. Alkunn eru orðin að hamast, skipta hömum og enn fleiri." Þjóðs. JÁ bls 341 I bindi

Nú á tímum verður fólki tíðrætt um hamingjuna sem allir þrá, orðið hamingja er haft um gleði eða sælu. Hamingjan er talin tilfinning, sem kemur innan frá eitthvað sem sagt er að þurfi að taka meðvitaða ákvörðun um að öðlast, hún sé nátengd hugarástandi. Til forna bjó hamingjan ekki í huganum, frekar en huganum er ætlaður staður á meðal skilningsvitana fimm nú á tímum. En hver er merking íslenska orðsins hamingja og hvernig er það saman sett?

Samkvæmt því sem sérfræðingar segja merkir orðið hamingja gæfa, heill, náðargjöf og í elsta máli einnig heilladís eða verndarvættur. Það er sett saman úr orðunum hamur sem merkir líkami, húð eða gervi og í eldra máli með viðtengingunni fylgja eða verndari. Viðtengingin –ingja er komin af engja af sögninni að ganga, nokkurskonar vættur sem gengur inn í ham eða gervi.

"Ásgeir Blöndal Magnússon getur sér þess til í Íslenskri orðsifjabók (1989:303) að hamur merki í þessari samsetningu "fósturhimna, fylgja" og vísar þar til ham í dönsku og sænskum mállýskum í sömu merkingu. Hamingjan hafi þá upphaflega verið heillavætti (í fósturhimnu) sem fylgir sérhverjum frá fæðingu".

Fræðimenn telja því hina fornu notkun orðsins bera vitni um að einstaklingurinn hafi ekki ráðið miklu um hamingju sína, sumum fylgi mikil hamingja en öðrum minni. Þetta á þá væntanlega rætur að rekja til upphaflegrar merkingar orðsins hamingja, þ.e verndarvættur, heilladís, fylgja. Einnig eimir eftir af hinni fornu merkingu í orðatiltækjum eins og; „Það má hamingjan vita“ eða „Hamingjan hjálpi mér!“ Þar sem talað er um hamingjuna eins og sjálfstæða persónu, „ hamingjan er ei öllum gefin fremur en skýra gull“; segir í íslenskum dægurlagatexta og kveður þar við fornan tón. 

Fylgja er oftast talið draugalegt fyrirbæri, en svo hefur ekki alltaf verið. Hjá forfeðrunum skipti miklu að búið væri þannig að einstakling sem nýkominn var í heiminn að honum fylgdi góður andi eins og lesa má um í þjóðsögunum.

"En í fornöld var allt öðru máli að skipta því þá koma fylgjur oftast fram sem andlegar verur enda eru þær annað veifið kallaðar dísir sem fylgi hverjum einstökum manni, verndi hann og farsæli, og liggur þá nærri að ímynda sér að fylgja sé sama og hamingja, gifta aða gæfa, auðna eða heill." Þjóðs. JÁ bls 340 I bindi

"En eigi eru allar fylgjur sagðar draugakyns og nokkuð annars eðlis; því svo segir gamla þjóðtrúin að þegar barn fæðist þá verður eftir af sálarveru þess hluti – sem sérstæð vera – í himnubelg þeim sem utan um það í móðurlífi og leysist síðar og kallast barnsfylgja. Þessi vera kallast fylgja og verður leiðtogi barnsins og líklega verndarvera þess. Hún er kölluð heilög og hefur ef til vill af fornmönnum verið sett í samband við forlög og hamingju og gefin stundum vinum og orðið kynfylgja." Þjóðs. SS bls.183 III bindi

Því var til siðs að fara vel með barnsfylgjuna í henni byggi heill barnsins sem myndi fylgja því í gegnum lífið. Fylgjan var stundum grafin innanhúss í námunda við móðir barnsins svo hún myndi hafa góð áhrif á fylgju þess. Ef fylgjan var grafin utandyra eða fleygt á víðavang þá var hún talin taka áhrif þess sem fyrst fór þar yfir, hvort sem um mann eða dýr væri að ræða, sem myndi uppfrá því einkenna fylgju einstaklingsins. Athyglivert er í því sambandi hvað mörg íslensk nöfnu bera í sér dýraheiti, björns nöfn og úlfs eða fuglsnöfn á við örn, val, svan, hrafn ofl..

"Mikill hluti fylgja þykir vera sá hluti mannssálarinnar sem verður eftir þegar barnið fæðist og fylgir barnsfylgjuhimnunni. Guðlaugur Guðmundsson – Guðlaugssonar, Hálfdánarsonar er gera lét á sig reiðfæri og óð allar ár austan af Djúpavogi með hestburð á baki – bjó að Þverá í Hörgslandshreppi á Síðu. Synir hans voru tveir, Guðmundur og Guðlaugur. Þegar Guðlaugur fæddist gleymdi nærkonan að bera ljós í kross yfir móðurina og barnið í rúminu og fleygði fylgjunni í koppinn. Þá kom Guðmundur, þá 7ára gamall, og settist á koppinn, enda átti Guðlaugur mynd bróður síns fyrir fylgju upp frá því, alltaf á því reki sem hann var þá og eins eftir að Guðmundur var dáinn." Þjóðs. SS bls 287 III bindi

Þegar börn fóru að fæðast á fæðingardeildum, og jafnvel fyrr, er fæðingarfylgjan yfirleitt brennd og eftir það er einstaklingurinn talinn fylgjulaus, hafi þess í stað það sem vinsælt er að kalla áru. Fylgjan gerði yfirleitt vart við sig áður en viðkomandi einstaklingur birtist, ef hún gerði vart við sig á eftir viðkomandi þá var hann talinn feigur. Sumir eru taldir hafa átt fleiri en eina fylgju, þá oft ættarfylgju að auki eða jafnvel aðra góða og hina vonda. Fylgjan var samt oftast talin heilladís eða verndarvættur sem lifði og dó með manneskjunni. Ef fylgjan dó eða yfirgaf manninn í lifanda lífi af einhverjum völdum þá var hann talinn gæfulaus eða heillum horfinn. 

Það þarf ekki endilega að fara langt yfir skammt við að sækja andlegan skilning. Flest trúarbrögð eiga sinn uppruna á fjarlægum slóðum, austurlenskri speki s.s. hindú, jóga og búddismi sem þurfa mikla iðkunn áður en þau nýtast til sáluhjálpar, auk þess sem það þarf að setja sig inn í aragrúa torskilinna hugtaka. Kannski liggur einfaldasta leiðin til sálarþroska í gegnum þann menningararf sem fylgir heimahögunum og skilningur auðmeltastur þar sem tungumálið hefur verið drukkið með móðurmjólkinni. Því er það hvorki tilviljun hvar við fæðumst né hvað því fylgir.

 

Ps. Þessi hugleiðing varð til við áhorf á fyrirlestra fornleifafræðingsins Neil Price The Viking Mind. Þar fer hann yfir hvað frásögn og túlkun léku stórt hlutverk í heimsmynd norrænna manna.

Í þessum fyrirlestrum leitaði Neil Price á náðir íslenskra bókmennta m.a. Íslendingasagna og íslenskra þjóðsagna til að átta sig á hugarheimi víkinga. Það má vera nokkuð ljóst að ef bókmennta á íslensku hefði ekki notið við hefðu heimildir um heimsmynd víkinga verið fátæklegar. 

Pistill þessi birtist hérna á síðunni 13. maí 2015 og er endurbirtur í tilefni dags íslenskrar tungu.


Hús úr bárujárni

Flókagata

Bárujárnshús við Bergþórugötuna - söng Egill Ólafsson um árið við lag Gunnars Þórðarsonar og texta Davíðs Oddssonar. Textinn framkallar hugljúfa mynd af gömlum tímum og hlýlegum húsum í 101. Það er leitun að byggingarefni sem hefur verið eins einkennandi fyrir Ísland bárujárnið. Það hefur sennilega náð fullkomnun hagvæmninnar í bragganum, enda er bárujárnið víðast hvar í heiminum notað til að koma upp ódýru húsaskjóli í snatri og er því einkennandi fyrir fátækrahverfi. Hvernig íslendingar gerðu bárujárnið að litríku listaverki í húsagerð vekur athygli flestra sem heimsækja landið. En eins og með svo margt sem einkennir byggingasögu þjóðarinnar þá er engu líkara en við skömmumst okkar fyrir sérstöðuna, líkt og var með torfbæina á sínum tíma, sem jarðýtan var látin varðveita, en þykja í dag athyglisverður vitnisburður um sér íslenska byggingarlist sem talin er eiga erindi á heimsminjaskrá.

Bárujárnshúsin tína tölunni eitt af öðru og ekki síst í Mekka þeirrar byggingalistar, Reykjavík. Þar hafa menn horft hærra og eru litlu litríku húsin látin víkja fyrir dökkum Dubai draumnum. Gamla skuggahverfið er því sem næst horfið og þess í stað komnir svartir turnar sem stara tómeygir út á hafið, apandi hver upp eftir öðrum. Munurinn á Dubai norðursins og þeirra dúbæja sem eru sunnar á hnettinum er þó sá að götur Skuggahverfisins eru álíka lífvana og tómlegt augnaráð turnanna sem stara út á sundin blá. Við íslendingar ættum að taka frændur okkar í Færeyjum oftar til fyrirmyndar þegar kemur að varðveislu gamalla húsa. Frændum okkar hefur ekki enn komið til hugar að rústa miðbæ Þórshafnar til að hægt væri að spegla sig í sviplausum háhýsum sem hvort eð er má sjá allstaðar í heiminum. Kannski stafar það af því að þeir fengu sjónvarpið seinna en við og sáu sennilega aldrei Dallas.

Reykjavik-7

Það er ekki lengur hægt að segja að bárujárnhúsin í Reykjavik "bíða þess að lifna eitt og eitt af gleði og trú, bjartsýni æsku og von" eins og sagði í Reykjavíkurtjarnar ljóðinu hans Davíðs. Síðustu trakteringar sem þesslegs hús fengu mátti sjá þegar völlurinn var ruddur fyrir nýtt Hafnartorg, þar mátti sjá bárujárnshjallana mulda niður með stórvirkum vinnuvélum, svo mætti breyta ásjónu hafnarsvæðisins með einu reglu striki í hvert annað Kalverstaat með sínum H&M höndlurum og coffee shops. Já, Guð hjálpi bæjarins bestu, því nú mylja vinnuvélarnar sig til suðurs komnar á Landsímareitinn í hinn gamla Víkurkirkjugarð og nálgast Tjarnargötuna óðfluga. Allt í boði sálarlauss auðs og spilltra valda.

Annars var það ekki meining mín að láta þennan pistil fara í fjas um ásjónu höfuðstaðarins, heldur fjalla um sögu bárujárns til húsagerðar. Húsafriðun á Íslandi hefur hvort eð er í megin atriðum falist í að varðveita innflutt timburhús sem byggð voru á nýlendutímanum. Þau hús hafa verið gerð glæsileg í sinni upprunalegu mynd og er þá oft fjarlægt í leiðinni það sem íslendingar lögðu til húsanna í gegnum tíðina svo mætti lengja líftíma þeirra, líkt og bárujárnið. Það má samt segja að landsmenn hafi gert bárujárnsklædd hús að einstakri  byggingalist á heimsmælikvarða upp á landinu bláa.

Bárujárn og strá

Það var ekki fyrr en um 1880 sem fóru að berast byggingarefni til landsins, önnur en timbur og tjara, sem hafði verið notað fram til þess ásamt torfi og grjóti. Á meðal nýju efnanna var bárujárnið sem kom frá Englandi í tengslum við svokallaða sauðasölu sem hófst þangað um svipað leiti. Bárujárnið gerði það að verkum að íslenskir smiðir gátu byggt hátískutimburhús og klætt bárujárni sem verndaði þau gegn íslenskri veðráttu. Bárujárn hefur þrátt fyrir allt óvíða notið meiri virðingar í húsagerðarlist en á Íslandi. Þó er sagt að töluvert sé um slíkar klæðningar húsa á Falklandseyjum, þar sem veðurfar er svipað og hér, í Færeyjum og Afríku. Annars hefur bárujárnið aðallega einkennt braggabyggingar á stríðstímum og fátækrahverfi heimsins.

Sjálfur hef ég kynnst þrem bárujárnshúsum náið um ævina. Fyrst var það Sigfúsarhús í Neskaupstað sem gekk undir nafninu "Skakkinn" og var heimavist Iðnskóla Austurlands, síðar Framhaldsskólans í Neskaupstað. Sigfúsarhús var byggt 1895 sem íbúðarhús Sigfúsar Sveinssonar kaupmanns og var þegar ég síðast vissi samkomuhús eldri borgara í Neskaupsstað. Þegar ég var þar má segja að "Skakka" nafnbótin hafi verið af tíðarandans toga, því timburhús klædd bárujárni voru síðasta sort á iðnnámsárum mínum, jafnan kölluð bárujárnshjallar. En ekki man ég eftir öðru en að mér hafi liðið vel í skjóli "Skakkans" þá mánuði sem ég dvaldi þar á árunum 1978 og 1980.

IMG_3879

Sigfús kaupmaður í Neskaupstað var einnig með umsvif á Djúpavogi á sínum mektarárum. Sunnan við voginn voru lengi lágreistar byggingar sem kallaðir voru Sigfúsarskúrar, þar sem útgerð hans hafði haft aðstöðu á Djúpavogi. Þar hafði einnig staðið stórt hús framan við skúrana sem kallað hafði verið Sigfúsarhús en þegar Sigfús hætti útgerð frá Djúpavogi tók hann niður húsið og flutti. Fyrir framan húsið og skúrana skaraði svo Sigfúsarbryggja út í voginn. Þegar ég flutti á Djúpavog árið 1984 stóðu skúrarnir enn á grjóthleðslunum. Þeir voru rifnir og brenndir árið 1988 ásamt öðru sjóhúsi og bryggjum sem stóðu sunnan við voginn. Varð af því mikill sjónarsviptir.

Sumarið 1988 vann ég við byggingu raddsjárstöðvarinnar á Gunnólfsvíkurfjalli og kom þá inn á skrifstofu fjármálastjóra verkefnisins, en þar var upp á vegg mynd af Djúpavoginum, spurði ég hann út í tilvist myndarinnar. Hann sagðist hafa verið á ferð á Djúpavogi og hafa þá tekið þessa mynd, og látið stækka, því þarna við voginn væri einstök söguleg heimild, gömlu timburbryggjurnar og sjóhúsin sunnan við voginn, en nýlegt frystihúsið og togarinn við stálþil norðan hans, smábátar vögguðu svo blítt við ból á voginum miðjum. Næst þegar ég kom heim í helgarfrí á Djúpavog voru allar menjar um útgerð sunnan við voginn horfnar ekki einu sinni reykurinn af þeim eftir. Það átti nefnilega að halda upp á 400 ára afmæli Djúpavogs sem verslunarstaðar ári seinna.

scan0008

Á Djúpavogi bjuggum við Matthildur mín 10 fyrstu búskaparár okkar í Sólhól, gömlu bárujárnshúsi. Matthildur fæddist í húsinu og átti þar heima í 33 ár. Foreldrar hennar ásamt systkinum fluttust í húsið árið 1961. Húsið var byggt 1930 og var þá annað hús rifið sem einnig hét Sólhóll byggður um 1880, viðir og bárujárn notað í nýja húsið. Gamli Sólhóll var fallegt hús, af mynd að dæma, byggður af Lúðvík Jónsyni snikkara á Djúpavogi sem byggði flest stóru húsin sem þar enn standa frá því seint á 19. öldinni. Húsið byggði hann fyrir Ivarsen kaupmann en svo fór að Lúðvík og Ivarsen höfðu makaskipti á húsum og höfðu afkomendur  Lúðvíks bæði búið í gamla og nýja Sólhól til 1960. 

IMG_5571

Það voru þeir Ólafur yfirsmiður Eiríksson frá Hvalnesi og Guðlaugur listasmiður Stefánsson frá Hamri sem höfðu veg og vanda að smíði Sólhóls. Húsið er eitt af þeim sem fanga augað samstundis, sannkölluð listasmíði með bárujárni og því vinsælt myndefni erlendra ferðamanna á Djúpavogi. Árið 2000 seldu Matthildur og systkini Sólhól að Jóni föður þeirra gengnum en hann bjó í húsinu til dauðadags 1. nóvember 1998. Nýir eigendur eru þau Þór Vigfússon myndlistamaður og Steinunn Björg Sveinsdóttir myndlistakennari. Þau hafa sýnt húsinu einstaka ræktarsemi og tekið það til gagngerrar endurnýjunar. Í bók sinni Fólkið í Plássinu gerir Már Karlsson sögu beggja Sólhólanna á Djúpavogi vegleg skil.

Sólhóll 

Það má kannski orða það sem svo að ekki hafi Matthildur mín getað veri lengi Sólhólslaus. Árið 2006 keyptum við Sólhól á Stöðvarfirði ásamt vinafólkinu Einþóri og Ólínu. Um þann aðdraganda mætti skrifa heila bók, en tilvonandi húsfreyjur höfðu báðar átt bárujárns Sólhól sem æskuheimili, önnur í Neskaupstað og hin á Djúpavogi. Stöðfirðingar vildu meina að fátt gæti komið bárujárnshjallinum til bjargar, eins og komið var þegar við keyptum, og til tals hefði komið að ryðja honum fyrir bakkann. Það má segja að þessi Sólhóll sé það hús sem hefur átt huga minn allan frá fyrstu kynnum. Í hönd fóru tvö ár sem við félagarnir nýttum hverja frístund í endurbætur á húsinu. Má þar segja að orð meistarans hafi fullkomnast, hverja þá bæn sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim.

Húsið er sagt byggt 1944 og reiknuðum við með að efniviður þess væri varla annað en kassafjalir eins og svo margra húsa sem byggð eru á stríðsárunum. Við höfðum keypt húsið án þess að skoða það, það kom skemmtilega á óvart að í því voru kjörviðir. Enda komumst við fljótlega að því í samtölum við heimamenn að húsið hafði upphaflega ekki verið byggt í þorpinu á Stöðvarfirði, heldur á Kambanesi handan fjarðar og hét þar Kambar en ekki Sólhóll. Hvaða ár húsið var byggt upphaflega hef ég ekki ennþá fengið fullkomlega staðfest, en heyrt ártalið 1928.

IMG_3460

Sólhóll á Stöðvarfirði hefur rétt eins og nafni hans á Djúpavogi vakið ómælda athygli ferðamanna. Matthildur viðrar stundum handvekið sitt á góðum dögum og ég Bob Marley fánann minn,,,, já, og það hefur bankað upp á fólk frá Jamaica

Þegar húsið á Kömbum var flutt af Kambanesinu norður yfir fjörðinn fylgdu íbúarnir með, þeir eru Stöðfirðingum enn í fersku minni og hafa sumir þeirra fullyrt að þau passi fyrir okkur húsið þó svo að þau séu löngu flutt til annarra heima. Það var Kristín Jónsdóttir úr Hornafirði, Jóhannes Sigurðsson úr Eyjafirði sem höfðu látið byggja húsið á Kömbum á sínum búskaparárum þar, 1900-1944. Jóhannes lést árið 1941, eftir það flutti Kristín fljótlega ásamt Sigfúsi Jónssyni fóstursyni sínum og Guðmundínu Einarsdóttir yfir fjörðinn, með allt sitt hafurtask nema neðri hæð hússins en hún stendur enn steinsteypt á Kambanesi. Nafnið Kambar var skilið eftir á nesinu og húsið endurskírt Sólhóll. Kristín lést 1948, Stöðfirðingar minnast þeirra Ínu og Fúsa með hlýju enn þann dag í dag þó svo að þau hafi horfið á braut árið 1978.

Það ár keyptu Guðbjartur Þórarinsson og Petra Landmark húsið, en þau komu frá Heyklifi sem er á Kambanesinu, höfðu verið þar vitaverðir í 10 ár. Guðbjartur byggði bílskúr við húsið, þar sem hann geymdi Trabantinn sinn og enn eru sagðar sögur af því hvað þurfti að keyra með mikilli varúð framhjá bílskúrnum í Sólhól því það var aldrei að vita hvenær Trabantinn spýttist afturábak úr á götu. Sólhóll var svo eigu fjölskyldu Guðbjartar og Petru þangað til árið 2006.

Árið 2016 urðum svo við Matthildur eigendur af því félagi sem við áttum til helminga með Einþór og Ólínu, en þau fluttu til Noregs 2009 og hafa ílengst þar. Mér múraranum hefði ekki komið það til hugar á yngri árum að gamall bárujárnshjallur ætti eftir að verða mér svona kær, en með árum og hrukkum hef ég gert mér betur grein fyrir hvað bárujárnið er mikil gersemi.

Sólhóll Stöðvarfirði 022

Við Sólhóll urðum mestu mátar við fyrstu kynni

 

IMG_0031

Freedom fáni Bob Marleys fer vel við Sólhól og svo náttúrulega sá íslenski sem fær að blakta á hátíðisdögum

 

Fjarðarbraut 66

Hann var orðin gagnslaus og smáður, gisinn og snjáður

 

IMG_9549

Hefur gengið í endurnýjun lífdaga þrisvar á 90 árum og litið sólarupprásina oftar en elstu menn muna

 

IMG_1653

Atlantshafið er í garðinum við Sólhól og handan fjarðar úti við ysta haf er Kambanesið þaðan sem Sólhóll var fluttur yfir fjörðinn í bát árið 1944

 


Hús byggð úr eldfjallaösku

Byggingarefni

Að leita ekki langt yfir skammt, hollur er heimafenginn baggi og vera sjálfum sér nógur, eru forn máltæki. Með alþjóðahyggjunni þykir svona forneskja í besta falli að vera heimóttaleg fáviska ef ekki hrein heimska. Svo langt hefur alþjóðavæðingin náð með sýnar aðfluttu lausnir að það er orðið of flókið, og mörgu fólki um megn að koma þaki yfir höfuðið, þó svo að það standi í byggingarefninu. Efni sem um tíma var flutt úr landi til húsbygginga í öðrum löndum. Nú á tímum byggja ótrúlega margir alþjóðahyggnir bisnissmenn afkomu sína á því að leitað sé langt yfir skammt, þó svo að þeir hafi ekki snefil af því að byggja hús, þá eru þeir séðir. En ekki hefði dugað það eitt að kallast séður til að koma í veg fyrir að fólk kæmi sér upp þaki yfir höfuðið án aðstoðar séníanna, ef ekki kæmi til regluverkið.

Við vinnufélagarnir ræddum húsnæðisvanda ungs fólks á kaffistofunni núna í vikunni enda fór mikið fyrir þeim vanda á Húsnæðisþingi íbúðalánasjóðs í byrjun viku. Eins varð myglan til umræðu sem er flutt, keypt og borinn inn í nýbyggingarnar með ærnu tilkostnaði að forskrift verkfræðinnar og undir ströngu regluverki þess opinbera. Af hverju geta menn ekki gert þetta eins og áður, spurði ég; hlaðið og múrhúðað veggi, þá var ekki mygla vandamálið. Nei þetta er ekki hægt lengur sagði einn félaginn. Láttu þér ekki detta svona vitleysa í hug, sagði annar. Hvers vegna ætti þetta ekki að vera hægt, sagði ég sármóðgaður múrarinn. Þá svaraði sá sem allt veit manna best; skilurðu það ekki maður það eru allir komnir í háskóla og fæst engin til að vinna svona vinnu lengur.

Það var þannig í gegnum tíðina, áður en menn urðu séðir, hámenntaðir og reglusamir, að fólk reisti sín hús úr því byggingarefni sem var nærtækast. Á Íslandi voru hús byggð úr torfi og grjóti í þúsund ár. Timbur var vandfengið byggingarefni í skóglausu landi og því einungis notað þar sem þurfti í burðarvirki húsa. Er leið á aldirnar fluttu erlendir kaupahéðnar inn tilsniðin timburhús, oft frá Noregi. Þegar sementið kom til sögunnar var farið að steypa hús og var til nóg af innlendu byggingarefni í steypuna, þannig að almúgamaðurinn kom sér upp húsi með eigin höndum án þess að notast við torf. Nú á 21. öldinni er svo komið að stærsti kostnaðurinn við húsbyggingu er óhóflegt regluverk, auk lóðar, teikninga, og allslags byggingagjalda, þessir þættir koma í veg fyrir að fólk geti byggt yfir sig sjálft. 

cement-solid-block-250x250Eitt byggingarefni var mikið notað við húsagerð þar til fyrir nokkrum áratugum síðan að það hvarf því sem næst af sjónarsviðinu og í staðin komu annaðhvort eftirlíkingar, en þó að mestu mygluvaldurinn mikli, innflutt pappa gibbs. Þar sem áður var múrhúð á einangrunarplasti og steyptir steinar úr eldfjallavikri og sementi,aðallega notaðir í milliveggi. Lítið var um að þessir steinar væru notaðir við að byggja heilu húsin, útveggirnir voru oftast úr steinsteypu. Vikursteinar voru ekki vel séðir í út- og burðarveggi, þóttu ekki öruggir með tilliti til jarðskjálfta. En eru meira notaðir erlendis þar sem hefð er fyrir því að hlaða hús.Útveggjasteinninn kallaðist holsteinn og var 40X20X20 sm á Íslandi. Í Noregi eru útveggjasteinarnir stærri, 50X250X20 cm er algengt. 

Þó svo þessi byggingarmáti hafi aldrei náð verulegri útbreiðslu á Íslandi vegna hættu á jarðhræringum þá vill svo einkennilega til að hlutfallslega hefur mest hefur verið hlaðið af svona húsum í Mývatnssveit, einu af meiri jarðskjálfta svæðum landsins, og það án vandkvæða. Fyrsta húsið sem ég man eftir mér í var úr vikursteini frá Mývatni. Foreldrar mínir hlóðu það hús á Egilsstöðum árið 1963. Reyndar aðeins um 40 m2 og varð það síðar að bílskúr við mun stærra steinsteypt hús. Þannig byrjuðu þau á að snara upp ódýru þaki yfir höfuðið á fjölskyldunni. 

Thuborg hleðsla

Sjálfur varð ég svo frá mér numinn af byggingaraðferð foreldra minna að hún er það fyrsta sem ég man, enda ekki nema þriggja ára þegar þau hlóðu skúrinn. Árið eftir var hann múrhúðaður að utan og gekk ég þá á eftir múraranum fram í myrkur til að nema kúnstina. Það þarf því ekki að koma á óvart að þegar ég ungur maðurinn byggði okkur Matthildi hús á Djúpavogi, rúmum 20 árum seinna, að það væri úr Mývatnsvikri. Ekki hef ég tölu á því, frekar en steinunum í húsið, hvað oft ég var spurður; "og hvað ætlarðu svo að gera þegar kemur jarðskjálfti?"

Flatarsel

Sami Mývatnssteina leikurinn var svo endurtekin á Egilsstöðum 20 árum eftir ævintýrið á Djúpavogi,  þegar við vinnufélagarnir byggðum þrjú tveggja hæða Mývatnssteinahús. Þessi aðferð var fljótleg, þannig að húsin ruku upp stein fyrir stein, en vakti þegar þá var komið aðallega athygli fyrir að koma aftan úr grárri forneskju, og svo auðvitað gamalla húsbyggenda sem komu til að rifja upp sín bestu ár.

IMG_1303

Í Noregi var íslenski vikurinn lengi í hávegum hafður sem byggingarefni og höfðu þar verið starfræktar heilu verksmiðjurnar sem steyptu steina úr eldfjallavikri. Á árunum eftir hrun varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að komast í að hlaða fleiri hundruð fermetra af vikurveggjum og pússa ásamt fjölþjóðlegum flokk múrara sem áttu það allir sameiginlegt að vera aðfluttir flóttamenn, rétt eins og eldfjallavikurinn sem þá var orðin alþjóðlega stöðluð eftirlíking í Noregi. Það má kannski segja sem svo að þar hafi alþjóðavæðingin náð tæknilegri fullkomnun.

IMG_0149

Enn má sjá byggingar við Vogsfjörðin í Troms sem tilheyrðu steinasteypu til húsbygginga úr íslenskum eldfjallavikri fyrir N-Noreg. Engir steinar eru steyptir lengur í N-Noregi heldur er þar nú einungis birgðageymsla fyrir Leca steina sem koma sunnar úr Evrópu, verksmiðjan var keypt upp til þess eins að leggja hana niður. Leca er alþjóðlegt skrásett vörumerki sem býr til vikur úr leir með því að hita hann upp í 1.200 C°. Það má því seigja að markaðurinn hafi kæft íslensku eldfjöllin með því að skrásetja vörumerki og búa til staðla sem má stilla regluverkið eftir, það hefði verið erfiðara að staðla eldfjöllin og fá þau skráð sem vörumerki.

Tuborg í byggingu

Tuborg Djúpavogi byggt úr Mývatns vikursteini. Það þarf ekki mikið til að byrja á því að hlaða hús eftir að sökkull og gólfplata hafa verið steypt. Nokkrar spýtur til að setja upp eftir hallamáli á húshornin og strengja spotta á milli til að hlaða eftir í beinni línu, steina, sand, sement, vatn og litla steypuhrærivél. Glugga er hægt að steypa í jafnóðum eða setja í eftirá.

 

Tuborg I

Tuborg Djúpavogi 150 m2, útveggi svona húss tekur um vikutíma að hlaða fyrir tvær manneskjur. Viku tekur að múrhúða veggi að utan, mest vinna er í gluggum og þaki. Múrhúðin á þessu húsi er með hraunáferð. Mölin í hraunið var fengin úr næstu fjöru.

 

Flatarsel í byggingu

 Flatasel Egilsstöðum, byggt úr Mývatns vikursteini. Það tekur meiri tíma pr.m2 að hlaða tveggja hæða hús, en á einni hæð. Þar kemur hæðin til, sem útheimtir vinnupalla og aukið burðavirki. Í hverri hæð eru 12 raðir steina og er raunhæft að tveir menn hlaði 4 raðir á dag. Gólfplata á milli hæða var steypt og þak með kraftsperrum.

 

Flatarsel 4

Flatasel Egilsstöðum 190 m2, einangrað og múrhúðað að utan með ljósri kvarssteiningu. Einangrunin er úr plasti og límd með múrblöndu á veggi, 3-4 daga verk fyrir 2 múrara. Utanhússmúrverk og steiningin tekur u.þ.b. 2 vikur fyrir 4 múrara.

 

IMG_2738

Í N-Noregi kom fyrir að við hlóðum hús í janúarmánuði. Þá var notað heitt vatn og frostlögur í múrblönduna sem notuð var til að líma saman steinaraðirnar.

IMG_6736

Hábær 40 m2, fyrsta hús foreldra minna er enn á sínum stað sem bílskúrin að Bjarkarhlíð 5 á Egilsstöðum. Núna 55 árum eftir að húsið var byggt er múrhúðunin með sýnilegum múrskemmdum.

 

IMG_0070

 

Básar

Að endingu má segja frá því að ég kom út í Grímsey í sumar og gisti þar á Gistiheimilinu Básum, ágætu tveggja hæða húsi. Við samferðafólkið tókum eftir því að hátt var til lofts og vítt til veggja á neðri hæðinni, en þó svo að jafn vítt væri til veggja á þeirri efri þá var frekar lágt til lofts. Múrviðgerðir og málningarvinna stóðu yfir utanhúss og komu þær til tals við eigandann. Þá kom í ljós að afi hans hafði hlaðið þetta stóra hús úr Mývatnssteini árið 1960, flutt nákvæmlega þá steina sem til þurfti úr landi.

Húsbyggingin var það skemmtileg, og afinn það mikill ákafamaður að hann hlóð einni röð of mikið í neðri hæðina. Í stað þess að tefja verkið með því að brjóta ofauknu röðina niður eftir að hún uppgötvaðist, þá steypti hann gólfplötuna fyrir aðra hæðina og hélt áfram að hlaða úr þeim steinum sem eftir voru og lét það duga. Þar var komin skýringin á mismuninum á lofthæðinni milli hæða.

Ef einhver hefur í hyggju að hlaða sér upp húsi er rétt að hafa það í huga að stoppa á réttri röð þó svo að ákafinn sé mikill. Það er víst enn verið að grínast með húsbyggingagleði gamla mannsins út í Grímsey. Auk þess gæti verið að regluverkið sé orðið örlítið smámunasamara í dag þegar kemur að úttekt þess opinbera. Í Grímsey skipti þetta engu máli enda hefur húsið á Básum þjónað eigendum sínum hátt í 60 ár.

 


Hafa mælar verið fleiri?

Jarðvísindamenn segja að Öræfajökull skjálfi sem aldrei fyrr samkvæmt þeirra mælum og er því spurning hvað lengi jökullinn hefur verið mældur í þeim mæli sem nú er gert. Sennilega hefur mælum verið fjölgað stórlega eftir að hann fór að láta á sér kræla fyrr nokkrum árum.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvernig nafnið Öræfi kom til, svo oft hefur eldgosinu 1362 verið gerð skil, sem gjöreyddi Litla-Héraði. Þó svo að ekki séu til um þetta stórgos, nema mjög takmarkaðar samtímaheimildir í annálum, telja seinna tíma rannsóknir að þá hafi orðið eitt mesta eldgos á Íslandi á sögulegum tíma og sennilega stærsta og mannskæðasta sprengigos frá því land byggðist.

Um mun meðalstóra gosið 1727 er meira vitað um. Sama gildir um það gos og 1362, að um það eru mjög takmarkaðar heimildir í annálum. En um það gos er þó til lýsing sjónarvotts á upptökum og afleiðingum. Þar er um að ræða lýsingu séra Jóns Þorlákssonar sóknarprests í Sandfelli.

Jón var fæddur árið 1700 á Kolmúla við Reyðarfjörð og var prestur í Sandfelli í Öræfum 1723-1732, því aðeins 27 ára þegar eldumbrotin urðu. Hann skrifar samt ekki lýsingu sína á því sem gerðist fyrr en um 50 árum seinna, þegar hann er sóknarprestur á Hólmum í Reyðarfirði.

Sagt er var um séra Jón, "hann var mikilfengur og hraustmenni, fastlyndur og geðríkur, og lét lítt hlut sinn." Fer frásögn hans hér á eftir: 

"Árið 1727, hinn 7 ágúst, er var 10. sunnudagur eftir trinitatis, þá er guðsþjónusta var byrjuð í heimakirkjunni á Sandfelli og ég stóð þar fyrir altarinu, fann ég hreyfingu undir fótum mér. Gaf ég henni eigi gaum í fyrstu, en undir prédikun fóru hræringar þessar mjög vaxandi, og greip menn þá felmtur, en samt sögðu menn, að slíkt hefði áður við borið. Gamall maður og örvasa gekk niður að lind, sem er fyrir neðan bæinn og kraup þar á kné stundarkorn, og hlógu menn að þessu atferli hans. Þegar hann kom aftur og ég spurði hann, hvers hann hefði verið að leita, svaraði hann: „Gætið yðar vel, herra prestur, það er kominn upp jarðeldur.“ Í sama bili varð mér litið til kirkjudyranna, og sýndist mér þá eins og öðrum, sem viðstaddir voru, líkt og húsið herptist og beygðist saman.

Ég reið frá kirkjunni en gerði eigi annað en að hugsa um orð öldungsins. Þegar ég var fyrir neðan miðjan Flögujökul og varð litið upp á jökultindinn, virtist mér sem jökullinn hækkaði og belgdist út aðra stundina, en lækkaði og félli saman hina. Þetta var ekki heldur missýning, og kom það brátt í ljós, hvað þetta boðaði. Morguninn eftir, mánudaginn 8. ágúst, fundu menn eigi aðeins tíða og ægilega landskjálftakippi, en heyrðu einnig ógnabresti, sem ekki voru minni en þrumuhljóð. Í þessum látum féll allt, sem lauslegt var í húsum inni, og var ekki annað sýnna en allt mundi hrynja, bæði húsin og fjöllin sjálf. Húsin hrundu þó eigi. En það jók mjög á skelfingu fólksins, að enginn vissi, hvaðan ógnin mundi koma né hvar hún dyndi yfir. Klukkan 9 um morguninn heyrðust 3 miklir brestir, sem báru af hinum; þeim fylgdu nokkur vatnshlaup eða gos og var hið síðasta mest, sópuðu þau brott hestum og öðrum peningi, er fyrir þeim urðu, í einu vetfangi.

Þar á eftir seig sjálfur jökullinn niður á jafnsléttu, líkt og þegar bráðnum málmi er hellt úr deiglu. Hann var svo hár, er hann var kominn niður á jafnsléttuna, að yfir hann sá ég ekki meira af Lómagnúpi en á stærð við fugl. Að þessu búnu tók vatnið að fossa fram fyrir austan jöklana og eyddi því litla, sem eftir var af graslendi. Þyngst féll mér að horfa á kvenfólkið grátandi og nágranna mína ráðþrota og kjarklausa. En þegar ég sá, að vatnsflóðið leitaði í áttina til bæjar míns, flutti ég fólk mitt og börn upp á háan hjalla í fjallinu, sem Dalskarðstorfa heitir. Þar lét ég reisa tjald og flytja þangað alla muni kirkjunnar, matvæli, föt og aðrar nauðsynjar, því að ég þóttist sjá, að þótt jökullinn brytist fram á öðrum stað, mundi þó hæð þess standa lengst, ef guði þóknaðist; fólum við okkur honum á vald og dvöldumst þar.

Ástandið breyttist nú enn við það, að sjálfur jökullinn braust fram og bárust sumir jakarnir allt á sjó fram, en hinir stærri stóðu rétt við fjallsræturnar. Þessu næst fylltist loftið af eldi og ösku, með óaflátanlegum brestum og braki; var askan svo heit, að engin sást munur dags og nætur og af myrkri því, er hún olli; hið eina ljós er sást, var bjarminn af eldi þeim sem upp var kominn í 5 eða 6 fjallaskorum. Í 3 daga samfellt var Öræfasókn þjáð á þennan hátt með eldi, vatni og öskufalli. Þó er ekki létt að lýsa þessu eins og í raun réttri var, því að öll jörðin var svört af vikursandi og ekki var hættulaust að ganga úti sakir glóandi steina, sem rigndi úr loftinu, og báru því ýmsir fötur og kollur á höfðinu sér til hlífðar.

Hinn 11. sama mánaðar tók ögn að rofa til í byggðinni, en eldur og reykur stóð enn upp úr jöklinum. Þennan dag fór ég við fjórða mann til þess að líta eftir, hversu sakir stæðu á kirkjustaðnum Sandfelli, sem var í hinni mestu hættu. Þetta var hin mesta hættuferð, því að hvergi varð farið nema milli fjallsins og hins hlaupna jökuls, og var vatnið svo heitt, að við lá, að hestarnir fældust. En þegar við vorum komnir svo langt, að fram úr sá, leit ég við. Sá ég þá, hvar vatnsflaumur fossaði ofan frá jöklinum, og hefði hann sennilega orðið bani okkar, ef við hefðum lent í honum. Ég tók því það til bragðs að ríða fram á ísbreiðuna og hrópaði til förunauta minna að fylgja mér hið skjótasta. Með þeim hætti sluppum við og náðum heilu og höldnu að Sandfelli. Jörðin ásamt tveimur hjáleigum var að fullu eydd, og var ekkert eftir nema bæjarhúsin og smáspildur af túninu. Fólkið var grátandi úti í kirkju.

En gagnstætt því, sem allir héldu, höfðu kýrnar á Sandfelli og fleiri bæjum komist lífs af, og stóðu þær öskrandi hjá ónýtum heystökkum. Helmingur fólksins á prestsetrinu hafði verið í seli með 4 nýlega reistum húsum. Tvær fullorðnar stúlkur og unglingspiltur flýðu upp á þak hæsta hússins, en skjótt þar á eftir hreif vatnsflaumurinn húsið, þar sem það, eftir sögn þeirra, er á horfðu, stóðst ekki þunga aurflóðsins, sem féll að því. Og meðan menn sáu til stóðu þessar þrjár vesalings manneskjur á þakinu. Lík annarrar stúlkunnar fannst seinna á aurunum, það var brennt og líkast sem það væri soðið. Var varla unnt að snerta hið skaddaða lík, svo var það meyrt orðið. Allt ástand sveitarinnar var hið hörmulegasta. Sauðféð hafði flest farist, sumt af því rak seinna á fjörur í þriðju sókn frá Öræfum. Hey skorti handa kúnum, svo að ekki var unnt að setja nema fimmta hluta þeirra á vetur. 

Eldurinn brann án afláts í fjallinu frá 8. ágúst fram til sumarmála í apríl árið eftir. Fram á sumar voru steinar svo heitir, að af þeim rauk, og var ekki unnt að snerta þá í fyrstu. Sumir þeirra voru fullbrenndir og orðnir að kalki, aðrir voru svartir á lit og holóttir, en í gegnum suma var unnt að blása. Flestir þeir hestar, sem hlaupið hafði ekki borið út á sjó, voru stórkostlega beinbrotnir, er þeir fundust. Austasti hluti Síðusóknar skemmdist svo af vikri, að menn urðu að slátra miklu af búpeningi.

Á sumardaginn fyrsta árið eftir, 1728, fékk ég nefndarmann einn með mér til að kanna sprungurnar í fjallinu; var þá hægt að skríða um þar. Ég fann þar dálítið af saltpétri og hefði getað safnað nokkuð af honum, ef hitinn hefði ekki verið svo mikill, að ég var tregur til að haldast þar við. Á einum stað var stór, brunninn steinn á sprungubarmi; af því að hann stóð tæpt, hrundum við honum niður í sprunguna, en ómögulegt var okkur að heyra, er hann nam við botn. Þetta, sem nú er sagt, er hið markverðasta, sem ég hef frá að skýra um þennan jarðeld.

Þó skal því við bætt, að húsmaður einn sagði mér, að hann hefði nokkru áður en eldurinn kom upp heyrt hljóð í fjallinu, sem líktust andvörpum og málæði margra manna, en þegar hann fór að hlusta betur, heyrði hann ekkert. Ég tók þetta til íhugunar og vildi ekki reynast miður forvitinn, og ég get ekki borið á móti því, að ég heyrði hið sama. Þetta kvað og hafa gerst víðar, þar sem eldur var uppi með sama hætti. Þannig hefur guð leitt mig í gegnum eld og vatnagang, ótal óhöpp og andstreymi allt fram til 80. æviárs. Hann sé lofaður, prísaður og í heiðri hafður að eilífu."

Frásögn séra Jóns Þorlákssonar er fengin af stjörnufræðivefnum.


mbl.is Skjálftavirkni aldrei mælst meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband