Hefurðu hugleitt að hætta á facebook? -kíktu þá á þetta


Vertu góður við geimveruna

Lifirðu því eftirsóknarverða jarðlífi sem þú komst til að lifa? Ertu góður við geimveruna í sjálfum þér? þetta eru ekki einfaldar spurningar. En ekkert svar er mikilvægara en það sem þú gefur sjálfum þér, það hefur að gera með kjarna þíns sanna sjálfs, sálina. Og þegar spurningunum er svarað er rétt að hafa í huga að við lifum lífinu af eigin tilfinningu, ekki með annarra rökum. Eins klæðumst við efni, en erum ekki úr efni.

Vertu því góður við geimveruna og hlustaða á raddirnar í höfðinu svo framarlega sem þær eru þínar. Manneskjan hefur hvorteð er alltaf verið barn stjarnanna. Siðmenningin kortlagði meir að segja stjörnuhimininn lögnu áður en hún kortlagði jörðina undir fótum okkar, nú á tímum felum við samt stjörnuhimininn með raflýsingu sem lýsir rétt svo niður á tærnar en gerir okkur blind á umhverfið sjálft, allt undir formerkjum vísindalegra framfara og rökhyggju. Við viðurkennum varla sálina lengur, vegna þess að hún er hvorki raflýst né vísindalega áþreifanleg líkt og efnislegur líkaminn. En vitundin um okkur sjálf kemur frá sálinni og við vitum að hún býr ekki í líkamanum, því innst inni greinum við að líkaminn býr í vitund sálarinnar og er farartæki hennar í þessu jarðlífi.

Forfeður okkar voru meðvitaðir um að þeir bjuggu í alheimi þar sem líkaminn var til fyrir óáþreifanlega innri vídd. Þar sem línan var var ekki eins skýr á milli sálar og utanaðkomandi veruleika, vegna þess að báðir veruleikarnir þarfnast hvors annars. Sálin var þá stærri hluti hins mikla veruleika og er það reyndar enn. Nú á tímum erum við samt rænd undra ævintýrum ímyndunaraflsins, sakleysisins sem við upplifðum í gegnum visku hjartans með óskeikulu innsæi barnsins. Allt er þetta meira og minna afvegaleitt af efnishyggju og dýrkun á upplýsingar sem okkur eru innrættar frá blautu barnsbeini.

Gervi þörf eftir efnislegri velmegun hefur slitið á tengsl við náttúruna, jafnframt skynjunina á óupplýstan veruleikan sem er umhverfis. Við getum varla sameinast náttúrunni frekar en andlegum verum ævintýraheimsins. Höfum jafnvel snúið bakinu við guðlegum tengingum lífsins, séðum og óséðum , og með því höfum við jafnframt misst samband við okkar sanna sjálf. Við erum aðeins skugginn af sjálfum okkur og upplifum aðeins lítinn hluta þess veruleika sem okkar stendur til boða.

Heimurinn sem við höfum búið okkur líkist æ meir dvalastað djöfulsins. Milljónum saklausra lífa er slátrað á hverjum degi til þess eins að nýta líkama þeirra á veisluborð allsnægtanna og er nú svo komið að aðeins bestu bitarnir rata á diskinn, hitt fer í ruslatunnuna. Villt dýr eru jafnframt drepin einungis sportsins vegna, til dægrastyttingar. Þar kaupa þeir efna meiri leyfi af stofnunum ríkisins til að drepa hreindýr og hika jafnvel ekki við að hirða aðeins lundir og læri. Ef mikilmennum markaðarins, þar sem tíminn er peningar, er síðan bent á að hafa með sér sóðaskapinn heim er svarið „hélstu að ég væri komin út á land til að bera súpukjöt á milli fjarða“.

Sportveiðimenn sem minna hafa á milli handanna stunda magnveiðar á gæsabringum til að selja í fínu veitingahúsin jafnvel með von um að þannig megi fjármagna hreindýraveiðileyfi, eða ferð til Afríku þar sem hægt er að fá að drepa flóðhest í útrýmingarhættu með sjálfum sér á selfí fyrir rétt verð. Dýr eru pínd og kvalin til dauðs í nafni svokallaðra vísinda, í besta falli fyrir græðandi fegrunar krem fyrir aflóga mannfólkið. Allt er þetta gert af fólki sem býr yfir manngæsku og markaðsmenntun. Til að bæta gráu ofan á svart hefur í gegnum tíðina milljónir saklauss fólks verið handtekið, ofsótt og myrt til að ásælast náttúruauðlindir jarðar í nafni tækni og framfara.

Fréttir eru farnar að berast af börnum allt niður í fimm ára aldur, sem eru gefin hugarfarsbreytandi þunglyndislyf eftir vísindalegar greiningar. Foreldrarnir jafnvel orðnir það vel skólaðir að þau seigja frá þeirri „blessun að barnið mitt fékk greiningu því nú veit ég loksins hvað gekk að því“. Þó það sé búið að lyfjavæða sjúkdómsgreiningar vísindanna í bak og fyrir, þá breytir það ekki því að nú er jafnvel rítalín kynslóðin farin að hverfa úr þessum heimi vegna hjartastopps á besta aldri. Þrátt fyrir allar framfarir vísindanna þá er mannskepnan fyrir löngu orðin óheilbrigðasta dýrategund jarðar.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur verið sótt óumbeðið til saka af lögfróðu fólki vegna ótímabærra dauðsfalla á sjúkrahúsum, því einhver verður að bera ábyrgð þó ekki væri nema hagvaxtarins vegna. Og hvað þegar þeir lögfróðu fá sínu framgengt, breytist þá ekki hlutverk sjúkrahúsa til samræmis við það að flestir enda ævina þar? Er þetta gert í nafni manngæsku og réttlætis, efastu kannski ennþá um að jarðlífið sé umsetið djöfullegum öflum?

Hinn djúpa viska veit að hvert og eitt okkar er komið til að öðlast sérstaka reynslu í þessum heimi. Þessu fær ekkert breytt, þó svo að allt sé gert til að innræta okkur öllum sama markaðs veruleikann frá vöggu til grafar. Ástæða þess að galdur geimverunnar er ekki upplýstur á okkar tímum er sú að hann brýtur í bága við áþreifanleika markaðsafla sem bera fyrir sig nútíma vísindum á sama hátt og trúarbrögðum fyrri alda. En galdur andans mun vera til staðar löngu eftir að markaðurinn og nútíma vísindi hafa tortímt sjálfum sér. Annað getur aldrei orðið, því að galdur andans er tjáning hinna eilífu umbreytinga. Trúin og skáldskapurinn verður alltaf mikilvægari en staðreyndir vísindanna.

Sem manneskjur skynjum við heiminn með hjartanu á mismunandi hátt vegna okkar mismunandi tilgangs. Til dæmis þá eru álfar og geimverur gerðar úr tungumáli en ekki vísindalegu sannreynanlegu efni, rétt eins og mankynssagan. Við trúum mankynssögunni í röðum af lögnu dauðum blöðum, þó svo að hún sé gerð úr sama tungumáli og álfasögur. Við ferðumst um rúm og tíma með hugsun og máli en ef ferðalagið er ekki samkvæmt innrættu normi neyslunnar er stutt í greiningar og pillur. Okkur er tamið að trúa ekki að geimverur séu til, hvað þá álfar, okkur er jafnframt innrætt að treysta ekki á eigin dómgreind varðandi púkana í okkar eigin lífi. Ef þú hugsar og skilgreinir aðstæður það rökfræðilega að þú hættir að trúa innsæi þínu, þá er greindin farin að vinna gegn þér, því getur verið varasamt að hugsa og skilgreina of mikið þannig hættirðu að nota innsæið við að skilja sjálfan þig.

Erfiðustu flækjur hverrar manneskju snúast um skynsemi rökhugsunarinnar, á meðan viska hjartans segir einfaldlega svona er þetta. Hugsuðurinn veit hvernig allt á að vera þó svo að ekkert hjá honum gangi þegar hann ætlar að framkvæma. Gerandinn framkvæmir og fær allt til að ganga upp með síendurtekinni æfingu þó svo að hann hafi ekki hugsað út í hvers vegna. Rökstudd innræting lífsins færir okkur svo oftast þetta tvennt umsnúið í einum pakka, á þann hátt að ekkert virðist virka og við höfum ekki hugmynd um hvers vegna. Hættu að hlusta á þá sem reyna að segja þér að þú gangir með ranghugmyndir og þeir viti betur hvað þér er fyrir bestu, það er ekki svo, ranghugmyndir eru ekki til ef þær koma frá hjartanu og mundu að rökhugsunin verður aðeins þarfur þjónn ef hún þjónar hjartanu.

Þó þér finnist það vera geggjun að fara á móti hámenntaðri rökfræði nútímans þá má hafa í huga að það er engin mælikvarði á heilbrygði neins að vera viðurkenndur í sjúkum heimi. Jafnvel þó röddin í höfðinu hvísli með akademíuni "það á ekki að vera nein rödd í höfðinu" þá kemur engin til með bjarga þér frá þínu eigin lífi. Flestir vakana upp frá innrættum álögum lífsins skömmu áður en ævinni lýkur, hafðu það í huga, og að síðasta dansinn í þessu jarðlífi stígur þú einn.


Hefurðu tíma til að tala?

Sýnist það ekki undarlegt að eftir því sem tækninni fleytir fram við að spara okkur tíma, þeim mun tímastrekktari verðum við. Þegar þetta er skoðað kemur í ljós að samfara tímasparnaði tækninnar er haldið að okkur fleiri tækifærum til að upplifa eitthvað spennandi s.s. að ferðast til ókunnra staða og ótal margt fleira. Það bætast semsagt við fleiri tækifæri á tímalínuna en sem nemur tímasparnaði tækninnar. Aldrei hefur verið eins mikilvægt að átta sig á þessari staðreynd og vera meðvitaður um það að dvelja í núinu, aðeins þar birtast töfrar augnabliksins.

Síðasta mánuðinn hef ég notað í eitthvað nýtt, sem þó er gamalt. Er komin í facebook föstu til þriggja mánaða. Við það eitt varð til tími sem nýttist fyrstu vikuna við að mála gluggana í íbúðinni, en þann tíma hafði ég ekki gefið mér í allan vetur þrátt fyrir góð áform. Sennilega fer þessi facebook fasta á svipaðan veg og þegar ég ákvað að fara í sjónvarps bindindið um árið, sem upphaflega átti að vara í mánuð en framlengdist síðan í þrjá mánuði og nú er svo komið að segja má að ég hafi ekki kveikt á sjónvarpi í sjö ár, það er ekki einu sinni sjónvarp lengur á heimilinu. 

Ég fór að hugsa um þessa tímateppu eftir að hafa hitt gamlan félaga um daginn í byggingavöruverslun, þar sem hann kom vaðandi að mér og sagðist verða að "spaða" mig því það væri svo langt síðan leiðir okkar hefðu legið saman. Við höfðum ekki hitist í næstum tvö ár, en ég vissi samt að hann hafði verið tímabundinn vegna vinnu og hafði frétt að þau hjónin væru nýlega búin að selja húsið sitt sem þau byggðu fyrir meira en 30 árum síðan. Hann sagði að við yrðum að fara að gefa okkur tíma til að fá okkur kaffibolla og í smá spjall. Ég sagði að við skildum bara fá okkur kaffibolla núna, enda kaffihorn fyrir viðskiptavini til staðar í byggingavöruversluninni.

Því miður hafði hann ekki tíma til þess, konan beið eftir honum heima við að pakka niður búslóðinni, auk þess sem hann væri búin að lofa að vera mættur til vinnu fyrir fleiri klukkutímum síðan. Mér varð á að spyrja hvert þau hjónin flyttu eftir að hafa afhent húsið. Þau flyttu nú bara í næsta bæ, sagði hann, en þar ættu þau hús eins og ég vissi, auk þess sem þau ættu hús á Spáni, þau væru nú ekki á hrakhólum hvað húsnæði snerti. En þar fyrir utan væri konan mest nú orðið í Reykjavík þar sem börnin og barnabörnin ættu heima. Ég stillti mig um að tefja þennan gamla vin og félaga með fleiri spurningum, enda sjálfur í vinnunni, en við höfum í gegnum tíðina átt sameiginlega mörg ánægjuleg  augnablikin bæði við leik og störf.

Tímaplön fólks hafa breyst mikið á undanförnum áratugum. Fyrir 40-50 árum síðan var ekki óalgengt að kunningjafólk droppaði fyrirvaralaust í kaffisopa og spjall heima hjá hvort öðru, áður en það þótti ókurteisi að kanna ekki aðstæður fyrirfram með símtali. Nú þykir varla boðlegt að stofna til símtals öðruvísi en kanna það í gegnum textaskilaboð hvort viðkomandi hafi tíma til að tala. Þetta er afleiðing þess að fólk hefur orðið sífellt uppteknara á eigin tímalínu, enda betra að hafa plan ef maður ætlar ekki að verða partur í annarra plani. Fyrir 50 árum voru tímarnir aðrir, hvað þá ef farið er 150 ár aftur í tímann þegar þrjár gestanætur voru óskráð lög hvað kurteisi varðaði. En á þeim tímum var heldur hvorki sjónvarp né útvarp til að spara fólki tíma við fréttaöflun, hvað þá facebook eða snapchat. Hvenær ég frétti næst af félaga mínum eða hitti, er vandi um að spá, þar sem ég hef nú skellt aftur facebook á mína fleiri hundruð vini og hann flutt í annað bæjarfélag.

Því er stundum haldið fram að til sé ákveðin tímalína og ævin sé línuleg frá upphafi til enda. Einkventíma las ég að þetta væri vestræn hugmynd um tímann, en t.d.  Afríkufólk  upplifði tímann á annan hátt, þar snérist tímalínan í hringi líkt og klukka á skífu eða réttara sagt í spíral, maður kæmi alltaf einhvern tíma aftur að tækifærum sem manni væri ætluð. Um það leiti sem ég slökkti á sjónvarpinu um árið fór ég að velta fyrir mér þessum hringtíma. Þetta var ekki sjálfgefið, ég hafði lent í Noregi eins og álfur útúr hól íslensku kreppunnar og hafði ekki nokkurn áhuga á norsku sjónvarpi og hafði því nægan tíma, þó svo norskir vinnufélagar biðu mér þann kostagrip í gríð og erg. Á þessum tíma vann ég með afrískum höfðingja sem kom til Noregs sem flóttamaður. Við vinnufélagarnir af víkingaættum höfðum eitt sinn spjallað um að ákvarðanataka afríska höfðingjans væri um margt undarleg, ég hafði komist svo að orði að það væri ekki að undra, því hann hugsaði í hringi. Þetta fannst norsku víkingunum undarlegt grín.

En málið er að þarna var ekki um grín eða lítilsvirðingu að ræða. Ég hafði átt því láni að fagna að kynnast hringlaga tímaskini Afríkufólks rétt upp úr tvítugt, þegar ég bjó um stund hjá afrískri vinkonu á Spáni. Hjá henni droppuðu margir við, kaffi og gestanætur heyirðu þar enn til almennrar kurteisi. Gestirnir voru fólk frá hennar heimahögum í Afríku, fólk sem nú til dags er kallað flóttamenn, en var á þeim tíma talið ævintýrafólk sem hafði hleypt heimdraganum. Í seinni tíð hef ég oft hugsað til þess hve dýrmætt er að hafa kynnst tímalínu sem fer í hringi. En atvikið sem skýrði dýrmæti þannig tímalínu hringlaði fyrir framan fésið á mér einn daginn í denn.

Tveir gestir höfðu ákveðið með nokkrum fyrirvara að fara í bæjarferð, rétt við blokkina var stopp fyrir strætó. Þeir tóku með sér sambyggt útvarp og kassettutæki með tveimur hátölurum til hlusta á tónlist í bæjarferðinni, enda komu snjallsímar ekki fyrr en 30 árum seinna á tímalínuna. Þegar ég leit fram af svölunum nokkru eftir að þeir kvöddu voru þeir ennþá á stoppistöðinni og hafði þriðji félaginn bæst í hópinn. Mér datt í hug að þeir hefðu misst af strætó, en tók svo eftir að næsti strætó kom og stoppaði án þess að þeir sýndu honum nokkra eftirtekt. Þannig leið tíminn. Strætó kom og fór hring eftir hring án þess að trufla félagana við spjall og góða tónlist. Þegar þeir komu til baka kom í ljós að þeir höfðu hitt vin, sem komið hafði með fyrsta strætó og fór þar út því hann ætlaði niður á strönd. Þarna varð fagnaðarfundur sem eingin þeirra þriggja hafði búist við, og ósvíst hvenær og hvar væri hægt að hittast næst. En mun líklegra var að bærinn og ströndin yrðu á sínum stað daginn eftir með sínum hringsólandi strætó.

Þegar ég set mig með mína vestrænu tímalínu inn í svona óvæntan hitting á strætóstöð rennir mig í grun að deginum hefði ekki verið varið með góðum vini, jafnvel þó svo að báðir hefðu verið að drepa tímann. Maður hefði sennilega rétt gefið sér tíma til að "spaða" vinin og kveðja með þeim orðum að gaman væri að gefa sér stund fyrir spjall við gott tækifæri. En þar sem hann væri á leiðinni niður á strönd og ég í bæinn þá yrði það að bíða betri tíma. Jafnvel þó  báðir hafi verið á ferð með þá von í hjarta að eiga notalega nærveru með góðum vini, sem ætti tíma bæði til að tala og anda.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband