Follow the money

Undanfarin misseri hefur auðmaðurinn Jim Ratcliffe staðið í umfangsmiklum uppkaupum á landi. Þessi landakaup eru af þeirri stærðargráðu að fyrirhugaður golfvöllur (sem átti að ná yfir um 0,3% Íslands) hins kínverska Nupos á Grímsstöðum á fjöllum er hreinir smámunir.

Auðmaðurinn Ratcliff og félög hans eiga orðið stóran hluta af norðaustur hluta Íslands í gegnum fléttu eignarhalds og veiðifélaga. Heyrst hefur af nýlegum tugmilljóna uppkaupum á Hárekstaðalandi (landmikið heiðarbýli löngu komið í eiði) sem er á Jökuldalsheiði.

Það má spyrja hvort það sé ekki mikið fagnaðarefni að fá slíkan náttúrverndarsinna með peningana sína. Svo má líka nota gömlu aðferðina og spyrja hversu náttúruvænn maðurinn raunverulega er með því að fylgja slóð peninganna sem notaðir eru til uppkaupa á stórum hluta Íslands.

Fracking and chemicals billionaire Jim Ratcliffe increased his wealth by more than £15bn last year to take the crown as Britain’s richest person, with a £21bn fortune, meira,,,


mbl.is Framlag til villtar náttúru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Létt steypa

Að hafa marga fjöruna sopið er máltæki notað um þann sem hefur öðlast reynslu og þroska, oft vegna einhverra erfiðleika (eða kannski réttar sagt, mistaka). Það mætti betrumbæta þetta máltæki um höfund þessarar síðu á þann hátt, hann hefur marga steypuna þvælt. Eins og þeir sem litið hafa hér inn í gegnum tíðina hafa vafalaust tekið eftir.

Í lok síðustu viku voru fleiri en ein, og fleiri en tvær steypur þvældar á mínum vinnustað. Ein þeirra var samt þess eðlis að ég hafði með lagni reynt að koma mér undan henni. Nennti satt að segja ekki að taka þátt í tilraun við að betrun bæta hjólið einu sinni enn, en hvað steypu varðar þá hefur sú gjörningalist helgað mína ævi og ég taldi mig vera orðin of gamlan, slitin og sljóan til að verða að gagni.

Málið er að vinnuveitendur mínir hafa undanfarin ár staðið að nýsköpunarverkefni við léttsteyptar milliveggjaeiningar. Þessar milliveggjaeiningar er svo raðað upp á byggingastað og er hver eining 60 cm breið, 10 cm þykk og nær frá gólfi til lofts, þyngdin er ekki nema ca.65 kg einingin. Svona veggjum er snarað upp af tveimur mönnum á methraða og þegar þeir eru uppkomnir er einungis málningarvinna eftir. Veggirnir hafa hátt einangrunargildi, eldvörn og hljóðísog.

En það sem átti að gera í síðustu viku var að steypa gólf með léttsteypunni, við höfðum að vísu gert það áður. En þá með því að blanda litlar blöndur í tilraunaskini, en núna átti að gera þetta á stærri skala með steypubíl. Með svona gólfi er hægt að slá margar flugur í höggi, t.d. þegar kemur að gólfkulda og burðarþoli. Rúmmetrinn af svona léttsteypu er ekki nema ca. 350 kg á meðan venjuleg steinsteypa er ca 2.400 kg.

Erfiðleikarnir hafa samt falist í að þvæla steypuna saman í magni, því fylliefnið er miklu léttara en vatnið og sementið, öfugt við mölina í venjulegri steypu sem hjálpar til við að hræra stöffið. Þetta er því svipað og ætla að jafna sósu í matargerð með því að demba öllu hveitinu þurru í einu lagi út í pottinn, þá verður sósan varla annað en köggla grautur.

Í síðustu viku komst ég semsagt ekki hjá því að taka þátt í steypu mistökum, sennilega vegna langrar reynslu við að krafsa mig í gegnum þau, en er núorðið ekki fær um annað en veita smá sáluhjálp. En eins og í ævintýrinu fór allt vel að lokum og pólskir félagar mínir sáu um að smyrja léttsteypu glundrinu úr fisléttum einangrunarkúlunum á gólfið, ég horfði hrærður á og tók video af gjörningnum.

 


Midnight Special

IMG_8802

Eitt af því magnaða við að búa á Íslandi eru sumarnæturnar. Í dag 21. júní eru sumar sólstöðurnar og um allt land var einstakt bjartviðri í byrjun þessa sólstöðu sólarhrings, þannig að flestir áttu möguleika á mögnuðu miðnætti. Frá því ég man eftir mér þá hefur þessi tími árs haft svefnleysi í för með sér, ég hef einfaldlega ekki tímt að sofa.

Eins var það þegar ég dvaldi á 69°N í Noregi, þar hnitaði sólin himininn hátt um miðnættið. Þar var staður í fjöru, sem mátti njóta miðnætursólarinnar við vaggandi öldunið. Stundum var brekkan upp af fjörunni svo þéttsetin aðdáendum miðnætursólarinnar það líktist áhorfendaskara á HM, nema þar var andaktin fyrir sólstöðunum þannig að ekkert heyrðist víkingaklappið, né húh, þó svo það hefði verið við hæfi.

Síðastliðna nótt var andvökubjört og tær og fór svo að hún var tekin fram undir morgunn, aðallega í Hjaltastaðaþinghánni, að mestu án áhorfenda nema þá nokkurra furðufugla.  Myndbrotin sem hér fylgja eru tekin frá  kl. 10 í gærkvöldi til kl. 2 í nótt.

 

 


Fíflar og fardagakál

Fíflar

Uppáhalds frasi hagfræðinganna "There ain´t no such thing as a free lunch" eða "Það er ekki til neitt sem heitir ókeypis hádegisverður" hefur verið í hávegum hafður í áratugi, jafnvel um aldir. Það hefur lengi blundað í mér að láta reyna á sannleiksgildi þessara orða, því mig hefur grunað að þau eigi ekki við rök að styðjast. Í minni bernsku varð ég vitni að því oftar en tölu verður á komið hvernig ömmur mínar og afar virtust geta töfrað fram máltíð úr engu. Röltu kannski bara út fyrir hús og stuttu seinna var dýrindis matur á borðum. Á þeim árum var ekki óalgeng fæða silungur í aðalrétt og rabbabaragrautur í eftirrétt, silungurinn sóttur í kelduna og rabbabarinn fenginn við húsið.

Það sem mig hefur um nokkurt skeið langað að kanna öðru fremur, er hvort lifa má á íslenskri náttúru án þess að rækta nokkurn skapaðan hlut. Ég hafði í nokkur ár sett niður kartöflur, en um það leiti sem garðurinn hætti að gefa uppskeru sáði sér í hann óumbeðinn njóli en áður hafði hvönn komið sér fyrir þétt við garðinn. Því var ekki um annað að ræða, en annaðhvort að losna við njólann eða hafa þolinmæði fyrir þess lags illgresi. Ég hafði heyrt það fyrir mörgum árum að njóli hefði verið fæða landsmanna á öldum áður og svo hefði einnig verið hvað hvönnina varðar, enda kölluð ætihvönn. Þannig að njólinn fékk sömu grið og hvönnin enda nennti ég ekki að standa í þeirri vonlausu baráttu sem felst í útrýmingu illgresis á við njóla og hvönn sem upphaflega voru þekktar jurtir til matar og lækninga. 

Fyrir nokkru árum komust fjallagrös og bláber á morgunverðar matseðilinn og hafa ekki vikið þaðan síðan, um þennan morgunnmat fjallaði ég um hér á síðunni. Á rabbabara hafði ég gert hávísindalega úttekt þegar kreppan skall á, rifjaðist þá upp hvers lags sælgæti hann er og ekki spillti að þann sælkera málsverð var hægt að framreiða fyrir ca 25 kr, þ.e.a.s. þegar búið er að reikna sykurinn og rjómann. Því ákvað ég í vor að láta verða af því að kanna hvort rétt væri að íslenskt illgresi sé hæft til átu og hvort lækningarmáttur þess eigi við rök að styðjast. Og best væri að gera svona heilsubóta rannsókn á eigin skinni.

Faðir minn sagði eitt sinn "Það sem þú veist gott er þér einskýrs virði nema þú notir það". En hvernig er hægt að láta sjást til sín tína njóla án þess að vera talin viðundur? Því er til að svara að besta aðferðin til að losna við viðundurs vörumerkið, er að setja á höfuðið blátt buff og koma sér í 66°N spandex á áberandi stað með svartan ruslapoka, þökk sé Guðna forseta og plokkinu. Njólinn vex svo út um allar koppa grundir og ekki síst innan um ruslið í kringum stórmarkaðina. Það sem kemur á óvart er hversu fljótlegt það er að verða sér út um hráefni í matinn, það er mun fljótlegra en að fara inn í Bónus. Svo spillir það ekki að losna þannig við umstangið í kringum umbúðaruslið og að verð njóla plokkaðrar máltíðar er tífalt lægra en neysluviðmiðs máltíðar Hagstofunnar sem Bjarni Ben gerði alvarlegan fyrirvara við um árið.

Nú er liðinn heill mánuður af rannsókninni og hafa fíflar, njóli, hundasúrur og rabbabari verið á borðum nánast daglega ásamt lítilsháttar af hvönn sem á eftir að taka til frekar athugunar ásamt öðru illgresi síðar í sumar. Það merkilega er hvað þetta er gómsætur matur, reyndar mun ferskara og kraftmeira grænmeti en fæst í Bónus. Það kom sérstaklega á óvart að njóla og fífla væri hægt að éta án þess að kúgast og það oftar en einu sinni. Þennan mánuð hafa óvenju margir gestir komið í mat og látið vel af trakteringunum, mér datt reyndar fyrst í hug að það væri af kurteisissökum, en þegar blindfullorðin börnin voru farin að koma í heimsókn og borða þetta oftar en einu sinni fór ég að trúa að þetta væri ekki bara ímyndun, því þau hafa aldrei legið á því hvað sé góður og hvað sé vondur matur. Það eina sem mér þótti slæmt við þessi matarboð var ef gestirnir létu þess geti þegar heim væri komið að ekki hefði verið annað á borðum en fíflar og njóli. Þess vegna átti ég til að steykja með salatinu lambshjörtu eða sjóða egg.

Í vikunni hitti ég svo vísindamanninn, vin minn, á förnum vegi og fór að segja honum frá þessar stórmerkilegu uppfinningu minni. Hann svaraði að bragði; "veistu það að þetta hef ég gert í mörg ár, en það er með þetta eins og svo margt annað að fólk trúir því ekki að þetta sé góður matur, því hann er ókeypis. Sama á við um lækningamátt fífla, fólk getur engan veginn trúað honum. Það var sjúklingur sem ætlaði að prófa, þegar ég benti honum á þetta, en vildi samt ekki gera það nema í samráði við lækninn sinn. Þá svaraði læknirinn honum "ætlar þú að vera áfram hjá mér eða fíflunum" og auðvitað valdi sjúklingurinn lækninn af því að þar fær hann að borga".

Núna þegar mánuður er liðin af þessari sumarlöngu rannsókn er ég að verða komin á þá skoðun að til sé ókeypis hádegisverður og er hann þeim mun hollari eftir því sem hann kemst nær því að vera ókeypis. Víðfrægur frasi hagfræðinganna sé því í besta falli lúmskur  orðhengilsháttur. Hollusta fíflanna er ótvíræð, hvað sem læknarnir segja, þó ekki væri nema vegna útiverunnar við að höndla stöffið. Það þarf því varla að koma á óvart þó ég ætli að halda mig áfram hjá fíflunum í sumar, og á kannski eftir að gera uppgötvunum mínum frekari skil hér á síðunni síðar. En þetta sem fer hér að neðan hef ég m.a. uppgötvað um íslenskt illgresi síðasta mánuðinn. 

 

Njóli Njóli að skjóta upp blöðunum, víða má finna heilu njóla akrana

Njóli gekk einnig undir nafninu fardagakál vegna þess að hann byrjar að skjóta upp blöðunum í kringum fardaga sem voru upphaflega 3 maí en fluttust svo til 14. maí. Njólinn var fyrsti boðberi sumarsins hvað ferskt grænmeti varðaði og eru blöðin best nýsprottin. Plantan var áður notuð sem lækningajurt og eru fersk njólablöð eru talin meinholl.

Um njólann má lesa eftirfarandi í bókinni Matarást eftir Nönnu Rögnvaldsdóttur: Blöð af njóla, sem er af súruætt, voru töluvert notuð hérlendis áður fyrr, bæði í te, súpur og grauta og með ýmsum kjöt- og fiskréttum. Njólinn er bestur á vorin, áður en hann blómstrar, og var fyrsta græna matjurtin sem unnt var að fá á vorin áður fyrr. Hann má matreiða á sama hátt og grænkál. Um hann sagði Eggert Ólafsson í matjurtabók sinni: "Þetta kál er tilreitt sem kálgrautur, túnsúrur eru góðar þar saman við." Sæt njólastappa var borin fram með steiktu kindakjöti í veislu sem Jörundi hundadagakonungi var haldin í Viðey árið 1809, en annað meðlæti með steikinni var vöfflur, flatbrauð og kex.

Sjálfur hef ég sannreynt gómsætan njólann síðastliðinn mánuðinn, meðal annars í njólasúpu og með hvítlauks steiktu lambshjarta á njóla, -fífla -og hundasúru salatbeði. Njólinn vex hreinlega um allt á þessum árstíma. 

 

Hundasúra

Hundasúrur vaxa oftast í þyrpingum og eru því auðveldar í tínslu

Fíflar og hundasúrur eru ekki aðeins til ánægju og yndisauka sem vorboðar, heldur eru þessar jurtir býsna ljúffengar í mat. Hér áður fyrr kunni fólk almennt betur að nýta sér ávexti jarðar. Það er bæði hollt og skemmtilegt að rifja slík fræði upp. Það er ekki margt grænmetið sem fæst ókeypis líkt og þessar tvær jurtir. Túnfífill hefur frá örófi alda þótt með bestu vatnslosandi jurtum sem völ er á, er sá fífill sem ef til vill þekktastur og hefur lengi verið notaður í alþýðulækningum. Hundasúran hefur svo gott sem sömu áhrif og túnsúran. Hún er mjög góð við bjúg, hún er talin örva og styrkja lifrina. Hún er góð við lystarleysi, hægðatregðu og gyllinæð svo fátt eitt sé nefnt.

Víða í Evrópu er túnsúra notuð í matargerð, m.a. í súpur, sósur og salöt. Hún er uppistaðan í súrusúpu sem þekkist í hvítrússneskri, einstneskri, lettneskri, litháskri, rúmenskri, pólskri, rússneskri og úkraínskri matargerð. Súrusúpa hefur einnig verið borðuð á Íslandi, en þá með hundasúrum, njóla eða rabarbarablöðum.

Sjálfur hef ég notað fíflablöðin, sem stundum eru nefnd hrafnablaðka, ásamt hundasúrur og njóla í ferskt salat og þá saltað það og blandað með niðurbrytjuðum ferskum tómat bátum, söxuðum sólþurrkuðum tómötum í olíu og helt smá olíu yfir. Svona salat er ljúffengt með túnfiski eða harðsoðnum eggjum. Fíflar og hundasúrur má finna á næstum í hvað grasbala sem er, þurfi að fara út fyrir lóðina þá eru staðir þar sem garðaúrgangi er hent kjörlendi fyrir hundasúrur. Upphaflega fékk ég áhuga á fíflunum vegna frásagna af lækningamætti þeirra sem vökvalosandi lyfs og get staðfest að þeir virka vel.

 

Hvönn

Ætihvönn má oft finna á ár og lækjabökkum

Hvönn var gjaldmiðill víkinga í verslunar ferðum sunnar í Evrópu, svo vel var hún þekkt á þeim tíma sem kraftmikið heilsufæði. Eftir því sem hvönnin átti norðlægari uppruna þeim mun kraftmeiri var hún. Ætihvönnin er ein merkasta lækningajurt Íslandssögunnar en hvönnin var notuð á Íslandi allt frá landnámi. Ætihvönnin var vel þekkt meðal fyrstu landnema á Íslandi. Auk þess að vera mikilvæg matjurt á Norðurlöndum og Bretlandseyjum var lækningamáttur hvannarinnar vel þekktur meðal norrænna manna.

Hvönn er svolítið beisk fyrir matarsmekk nútímamanna. En við missum svo mikið úr bragðflórunni ef við göngum fram hjá beisku jurtunum. Það sem er tungunni beiskt er maganum sætt og einnig er því öfugt farið; segir erlent máltæki. Samt þarf að gæta sín vel því hvönn er mjög bragðsterk og hentar því betur sem kryddjurt og heilsumeðal en grænmeti, einkum meðan verið er að venjast henni.

Ég get staðfest það að fersk hvönnin er römm á bragðið, tvisvar þennan tilrauna mánuð hef ég notað örlítið af henni saman við fífla, -njóla -og hundasúru salatið. Bragðið af hvönninni  er rótsterkt og tók ég vel eftir því á matgestum að þeir fengu sér ekki nema einu sinni af salati með hvönn. Fyrir nokkrum árum frétti ég af því hvernig Grænlendingar marinera hvönn og það ku víst vera góður matur. Ég þarf að hitta þann sem sagði mér frá þessu og fá uppskrift hjá honum því hann var orðin sérfræðingur í að matreiða hvönn eftir veru sína á Grænlandi. 

 

Súpa og salat

Njólasúpa mánaðarins, ásamt fífla, njóla og hundasúrusalti

Hérna er uppskriftin af njólasúpu fyrir þá sem enst hafa til að lesa þetta langt og eru ekki farnir að kúgast en langar kannski til að prófa sig áfram. Þessi súpa er skálduð upp úr tveimur njólasúpu uppskriftum sem ég fann á netinu og hitti í mark við fyrstu tilraun.

2 ltr vatn

300 gr njóli, saxaður

3 grænmetissúpu teningar

½ paprika skorin í bita

4-6 hvítlauksrif söxuð smátt

2 laukar niður skornir

100 gr smjör (hægt að nota jurtaolíu og er þá vegan)

4 msk spelt eða hveiti (til að þykkja súpuna)

400 gr saxaðir tómatar (niðursoðnir)

Njólinn , súputeningarnir og paprikkan sett í sjóðandi vatn. Hvítlauksrifin og laukurinn bræddur í litlum potti upp úr smjöri (á sama hátt og laukfeiti með mat) speltinu bætt út í þegar laukurinn er orðin mjúkur og bökuð upp bolla. Smjörbollunni bætt út í sjóðandi súpupottinn og hrært vel út, tómötunum bætt við og soðið í 1 klst. Saltað eftir smekk með Himilaia salti og svörtum pipar.

 

Að endingu vil ég benda á þessa áhugaverðu fræðslumynd um lækningarmátt plantna.

 

 


Afdalamennska og annar flottræfilsháttur

Sagt er að sá sem kaupi það sem honum vantar ekki ræni sjálfan sig, sjaldan eiga þessi sannindi betur við en á tímum þegar til er of mikið af öllu öðru en tíma. Þau eru orðin nokkur árin síðan að vistarband kaupaæðisins fór að þvælast um á milli eyrnanna á mér, eða frá því seint á síðustu öld. Það má segja að eitt atvik hafi öðrum fremur kristallað sannindi kaupránsins. En það var þegar góður vinur minn kom eitt sinn í heimsókn. Þessi vinur var, eins og margir af mínum bestu vinum hafa verið í gegnum tíðina, ártugum eldri en ég, því má segja um kynni mín af mörgum minna vina "það ungur nemur, sem gamall temur".

Atvikið sem um ræðir gerðist eitt kvöldið sem vinur minn kom í kaffi og spjall. En þeim ánægjulegu heimsóknum varð ég ekki ósjaldan aðnjótandi á þeim árum. Hann kom venjulega á gamalli Lödu með "fjallstarti", þannig að hann varð að bakka upp í heimkeyrsluna til að Ladan rynni í gang undan brekkunni að heimsókn lokinni. Á laugardeginum fyrir téða heimsókn hafði ég verið að þvo og bóna mynstursteypta heimkeyrsluna, sem rúmaði fjóra bíla. Það hafði farið nokkur tími í að fjarlæga svört dekkjastrik eftir veturlangt fjallstart Lödunnar auk þess sem ég lét nagladekkjarispur fara í mínar fínustu. Vinur minn kom einmitt í heimsókn á meðan á pjattinu stóð svo ég notaði tækifærið og bað hann um að láta Löduna ekki renna í gang eftirleiðis fyrr en hún væri komin út af bílastæðinu mínu og út á götu. Hann tók vel í það eftir að hafa skoðað aðstæður, svo fórum inn í kaffi.

Næst þegar hann kom í heimsókn og hafði bakkað upp í bílastæðið bað hann mig um að koma með sér út á bílaplan og reyna að koma tölu á þau verðmæti sem þar væru. Ég hafði nýlega keypt splunkunýan amerískan eðalvagn auk þess sem þar stóð nýlegur amerískur pikcup. Hann spurði mig hvort ég hefði reiknað út hvað bílarnir á planinu kostuðu og hvort ég hefði ekki  áhyggjur af því að þeir rispuðust eins og planið? Ég var tregur til svars, en hann spurði um verð og sá svo um samlagninguna, og að endingu vorum við komnir með milljónir sem slöguðu hátt í hálft húsið.

Þá sagði hann, "hér kem ég á minni 100 þúsund króna Lödu sem ég losa mig við næst þegar hún fær ekki skoðun og kaupi mér þá sennilega aðra full skoðaða á 100 þúsundkall, ég nota hana til að keyra á milli staða rétt eins og þú notar þína eðalvagna, en rétt eins og þú þá get ég ekki keyrt nema einn bíl í einu. Og af því að hann kostar mig lítið þá þarf ég ekki að hafa neinar áhyggjur".

Það er einmitt á svona augnablikum sem það rennur upp fyrir manni hvernig fólk er haft að fífli. Mig hefur aldrei skort skuldir né skotsilfur, en hef ekki alltaf haft hugmyndaflug til að átta mig á hvað þetta tvennt er nátengt skorti á tíma. Ég hafði fram að þessari samlagningu okkar vinanna kappkostað að aka um á nýjum bílum. Eftir þessa opinberun hef ég aldrei keypt nýjan bíl, meir að segja auglýsti ég um tíma (til að trompa vin minn) eftir nothæfum bílum gegn 70 þúsund kr. staðgreiðslu, og kom þá alltaf jafn mikið á óvart hvað góðir bílar buðust.

Þetta samtal okkar vinanna í denn opnaði augu mín fyrir því hversu margs er hægt að fara á mis ef maður metur tímann í peningum og efnislegum gæðum. Ég hafði eitt mörgum árunum að heiman við verkefni sem gáfu vel í aurum til skipta fyrir flottheit, en í staðinn misst af margri gæðastundinni með fjölskyldunni. Smá saman rann upp fyrir mér hversu vandmeðfarið það er að kaupa sér gæðatíma með peningum og hvað miklu auðveldara er að gefa sér þann tíma, það kostar ekki krónu. En þar sem nútímasamfélag er meir og minna byggt upp á metingi mælieininganna, tími og peningar, þá er ekki auðvelt að sleppa af hlaupabrettinu án þess að hrasa og teljast stór skrítinn auli. Varla er vandaminna að fara út á kannt mannlegs samfélags án þess að tapa sjálfum sér og vinunum.

Ég hafði í upphafi hugsað mér að hafa þennan pistil um allt annað, eða um það hvernig er hægt að kíkja út fyrir kassann sem stundum er kallaður The Matrix. Hvernig gamall getur numið í nútímanum það sem ungum var tamt lifa eftir á fyrri tímum. Hversu langt væri hægt að komast inn í afdalinn til að finna sjálfan sig alsælan í vegkantinum tyggjandi njóla. En sú saga verður að bíða betri tíma. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband