Myrkrið í ljósinu

Í dag eru jafndægur að hausti. Næsta ársfjórðunginn mun því dimma með hverjum deginum. Þó svo slökkt yrði á öðru hverju ljósi á Íslandi þá mun birtan frá þeim sem á eftir loga samt sem áður næga til þess að flestir sæju betur í myrkrinu, eftir en áður. Er það því ekki undarlegt hvernig rándýr raflýsing er notuð til að búa til myrkur?

Nú mun sjálfsag einhver hugsa sem svo að þetta sé nú meira endemis bullið, síðuhöfundur hljóti að vera eitthvað ruglaður. Að sérviska sem setur sig á móti raflýsingunni í skammdeginu sé undarleg bilun. En staðreyndin er engu að síður sú, að þegar raflýsing er orðin eins fyrirferðamikil og raun ber vitni þá getur hún orðið til að framleiða rándýrt myrkur sem kemur í veg fyrir að umhverfið sjáist. Eins og dæmin sanna. 

Undanfarin ár hef ég tamið mér að ganga eða hjóla til og frá vinnu, allan ársins hring. Þetta geri ég ekki af sérviskunni einni saman, heldur líka samkvæmt læknisráði. Eftir því sem sérfræðingar segja er þessi aðferð nauðsynleg til þess að ég fái nægjanlegt súrefni. Það á víst að vera betra að verða passlega móður og gapa út í loftið. Það sleppur víst ekki lengur, eins og á yngri árum, að draga djúpt andann um leið og maður fékk sér smók.

Á þessum eyðimerkur göngum mínum, á dimmum morgnum, hef ég oft tekið eftir því að ljósið myrkvar umhverfið, nema það sem er rétt fyrir framan tærnar. Á leiðinni er smá spotti sem áhrifa rafljósanna gætir minna. Einmitt þar sé ég best frá mér, en ekki bara svartan vegg þegar ljósinu sleppir. Mér hefur meir að segja stundum sýnst grilla í hulduverur í móunum lengra frá vegkantinum.

Reyndar var ég búin að taka eftir því áður, þegar ég var útlagi í Noregi, að raflýsingin býr til myrkur og kemur í veg fyrir að flest sjáist annað en leiðin inn í næstu sjoppu. Best tók ég eftir þessu, þegar ég af tómri heimþrá kíkti á vefmyndavélar á yr.no, við að taka veðrið á morgnana á mínum heima slóðum. Vegna tímamismunar voru veðurathuganir mínar á morgnanna í Noregi seinni hluta nætur á Íslandi, og því sá ég hvers kyns var. 

131012_1134238_1

Þessar myndir sýna vel hversu myrkvandi raflýsing getur verið á tunglskins bjartri nóttu. Báðar eru þær frá því fimm mínútur í fimm þann 28.11.2012. Það eru einungis örfáir kílómetrar á milli Fjarðarheiðar, þar sem engin raflýsing er, og flóðlýstra gatna á Seyðisfirði. Skær raflýsing hefur svipuð áhrif á sjáaldur augna og ljósop myndavéla

Álfar virðast t.d., rétt eins og sjónin, hverfa við raflýsingu. Gott ef vitið fer ekki líka sé eitthvað að marka kostnaðinn, sem upplýst var í vikunni að sjálftökuliðið við Austurvöll hafði stofnaði til, þegar það ætlaði að lýsa upp dagsbirtuna um hásumar, svo þjóðin greindi betur merkisbera fullveldisins. Á þessu ljósasjói var víst kveikt eftir að liðið hafði girt sig af úti í móum á fyrr um aftökustað þjóðarinnar. Já, þeir eru orðnir fáir staðirnir sem er lausir við ljósið og alls ekki allir sem þola dagsbirtuna.

Þetta er í eina skiptið sem ég hef vitað til að hægt væri að upplýsa álfa með rafmagni, en að það skyldi gerast þegar reynt var að yfirgnæfa dagsljósið um hábjartan dag gat náttúrulega ekki nokkrum heilvita manni dottið í hug fyrirfram. Það væri vel þess virði að nýta þessi rándýru uppgötvun og halda við girðingunni utan um fullveldis álfana svo hafa megi þá til sýnis fyrir túrista þarna lengst út í móum ásamt norðurljósunum. En þá þyrfti líka að bæta stólum og kömrum við kostnaðinn.

Á dimmri nóttu s.l. vetur vorum við Matthildur mín á ferð við Streitishvarf,alveg grunlaus um hve stutt væri í þann tímamóta viðburð að dagurinn yrði raflýstur. Við eiðbýlið, Streiti, er smá kafli á þjóðveginum sem ekkert rafmagnsljós nemur. Allt í einu slökkti ég bílljósin, steindrap á bílnum og snarstoppaði. Matthildur leit andartak upp frá prjónunum og spurði hvað nú væri í gangi. Ég sagði henni að við skildum koma okkur út úr bílnum í einum grænum hvelli. Þarna stóðum við svo eins og agndofa óvitar út á miðjum þjóðveginum í froststilltri nóttinni og göptum upp í himininn án þess að hafa hugmynd um hvað til bragðs skildi taka.

Þarna virtust vera einungis við og stjörnurnar. Á himninum voru þær eins og endalaus hundruð þúsundir ljósa, sem liðu fram af fjöllunum í kring til að lýsa leiðina út í hafsauga. Og ef maður horfði ekki beint í ljós stjarnanna, heldur upp í myrkrið á milli þeirra, þá sá maður varðaðan veginn að hinum óendanlega möguleika. Þó að nærliggjandi móar, klettaborgir og fjallshlíðar sæist eins og á björtum degi væri, þá tókum við ekki eftir nokkrum lifandi álfi, svo hægt væri að leita leiðsagnar um hvort rétt væri að fagna augnablikinu.

Við biðum ekki eftir því að sjá stjórnsýsluálf þessa stjörnubjörtu nótt á Streiti, þó svo umhverfið gæfi til kynna að þar gæti þá verið að finna. Og í stað þess að sogast inní þá ljósum prýddu veröld, sem er orðin okkur venjulegu fólki svo framandi, settumst við upp í bílinn og skröngluðumst áfram þjóðveginn með bæði ljósin logandi, hlustandi Hjálminn söngla.; En gæti ég andað á ný og með augunm skæru örlitla mæðu og stundarkorn leikið mér. Og gluggi og hurð á herbergisveggjunum væru. Og 700 þúsund stólar, ég settist hjá þér.


Bóndastaðir komnir undir græna torfu

Sandfell í Öræfum

Skáldsagan Öræfi, eftir Ófeig Sigurðsson, hefur að geima grátbroslega frásögn af því þegar bændur í Öræfasveit létu jarðýtu jafna bæinn að Sandfelli við jörðu. En það á að hafa gerst árið 1974, í vikunni áður en hringvegurinn var opnaður. Það þótti ekki boðlegt að láta forseta lýðveldisins sjá heim að Sandfelli þar sem moldarkofar fyrri alda stóðu enn uppi. En forsetin var að koma í sveitina til að klippa á borða á brúnni yfir Skeiðará í tilefni hinna miklu tímamóta í samgöngumálum þjóðarinnar og þá ekki síst Öræfinga. Það grátbroslega var að forseti lýðveldisins var í þá daga Kristján Eldjárn, fyrr um þjóðminjavörður. Ef frásögn bókarinnar er sannleikanum samkvæm þá var síður en svo um einstakan atburð að ræða, jarðýtan var látin varðveita torbæina um land allt samhliða vegagerð.

Það var löngu áður en komst í tísku að tala um umhverfisvernd, sem Íslendingar byggðu umhverfisvæn hús án þess svo mikið sem vita af því. Á öldum áður, í nágrannalöndum, voru torfhús fyrir þá sem ekki höfðu efni á öðru. En á Íslandi voru þau notuð í gegnum aldirnar af allra stétta fólki. Þó svo að það hafi orðið móðins í seinni tíð að tala niður torbæinn með máltækjum á við "að skríða aftur í moldarkofana" þá er torbærinn vitnisburður um íslenska byggingarlist sem hefur vakið verðskuldaða athygli og er talin eiga erindi á heimsminjaskrá. Sumir myndu sjálfsagt álykta sem svo að viðlíka tæki og jarðýta myndi ekki vera notuð nú til dags þegar þesslegar menningarminjar eru annars vegar. En er það svo?

IMG_1830

Sænautasel, heiðarbýli á Jökuldalsheiði, svo kallaður kotbær. Útihús s.s. fjós, hlaða og hesthús er sambyggt íbúðahúsi. Í þessum torfbæ vilja margir meina að Halldór Laxnes hafi fullkomnað hugmynd sína af sögunni Sjálfstætt fólk. Bærinn er vinsæll áningastaður þeirra sem vilja kinna sér sögusvið Bjarts í Sumarhúsum

Einhvern veginn er það rótgróið í þjóðarsálina að líta fram hjá eigin byggingarhefð þegar kemur að varðveislu húsa. Íslendingum er tamt að fyrirverða sig fyrir eigin byggingar, sérstaklega þær sem byggðar eru úr innlendu hráefni. Þeir eru t.d. fáir sem upphefja liðin tíma í húsagerð, ef marka má íslenska orðræðu. Eitt af því sem notað hefur verið til að stytta leið í rökræðum er; "viljið þið kannski aftur í moldarkofana". Önnur stytting sem tengist húsum og er notuð þegar lýsa þarf óskapnaði er orðið „steinkumbaldi". Nú, þegar líður á 21. öldina, virðist vera komið að því að steinkumbaldinn, sem tók við af torfbænum, verði jarðýtunni að bráð víða í sveitum landsins, líkt og torfbærinn á þeirri 20..

Margt sem minnir á hversdagslega notkun alþýðufólks á innlendu byggingarefni á síðustu öld er óðum að hverfa ofan í svörðinn. Í vikunni frétti ég af því að Bóndastaðir hefðu verið jafnaðir við jörðu. Þessi bær var í Hjaltastaðaþinghá, eins og svo margt sem mér þykir  merkilegt. Það hefur vakið sérstaka athygli mína, sem steypukalls, hversu blátt áfram steinkumbaldinn kom til í Hjaltastaðaþinghánni í framhaldi af moldarkofanum. Á Bóndastöðum mátti sjá hvernig ný húsagerð tók við af torbænum, en hafði samt sem áður svipaða húsaskipan og hann, þ.e. íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús eins og í gömlu torfbæjunum. Bóndastaðir var því athygliveður steinsteyptur bær sem byggður var á árunum 1916-1947.

IMG_2635

Bóndastaðir áttu það sammerkt með Sænautaseli, að innangengt var í útihús s.s. fjós og hlöðu, sem voru sambyggð íbúðarhúsinu.

Það sem helst þótti að steinsteyptu húsunum, sem tók við af torfbæjunum í sveitum landsins, var hversu köld þau voru, og hversu mikið viðhald þurfti. En eitt af því sem þessi hús áttu sammerkt var að þau voru að mestu byggð úr því byggingarefni sem til var á staðnum. Torfið og grjótið var fengið úr túnjaðrinum í torfbæinn, og steypumölin úr næsta mel í steinhúsið. Vitanlega var þetta byggingarefni misjafnt að gæðum eftir því hvar var, en hafði þann kost að flutningskostnaður var hverfandi og auðveldlega mátti nálgast ódýrt efni til viðhalds.

IMG_2633

Þó svo að torfbæir og steinhús til sveita hafi ekki verið byggð sem minnisvarðar þá væri allt í lagi að varðveita eitthvað af þeirri byggingahefð eftir að húsin hafa lokið hlutverki sínu. Oftar en ekki fékk hugmyndaauðgi þeirra sem byggðu og notuðust við byggingarnar að ráða. Það má segja að margar þeirra úrlausna sem notast var við hafi tekið skólaðri verkfræði fram

Það má leiða að því líkum að ef íslendingum hefði lánast að sameina stærstu kosti torfsins og steypunnar hefðu fengist einhver umhverfisvænstu og endingarbestu hús sem völ er á, hlý og ódýr í rekstri hvað viðhald varðar auk þess sem þau hefðu verið laus við slaga og myglu. Þannig húsagerðalist er nú kominn í tísku víða um heim og  eru kölluð earthhouse. það þarf því ekki lengur að finna upp hjólið í því sambandi, einungis að koma steinkumbaldanum undir græna torfu í næsta moldarbarði eða melshorni.

IMG_2621

Bóndastaðabláin verður seint söm án bæjarins

 

IMG 2930

Lítið fer fyrir stórum steinsteyptum beitarhúsum í landi Ásgrímstaða Hjaltastaðaþinghá, byggðum 1949. Húsin eru með heyhlöðum fyrir enda og í miðju. Torf á bárujárnsklæddu timburþaki flest annað steinsteypt s.s. jötur. Þessi hús eiga ekkert annað eftir en verða jarðýtunni að bráð

 

IMG 2867

Nýtnin hefur verið höfð í hávegum við hlöðubyggingu beitarhúsanna, áður en bárujárnið fór á þakið hefur það verið nýtt í steypumótin

 

IMG 2509

 Fjárhúsin með heyhlöðunni að baki, sem byggð voru í flestum sveitum landsins um og eftir miðja síðustu öld eru nú óðum að verða tímanum að bráð. Víða hafa þau þó gengið í endurnýjun lífdaga sem ferðaþjónustu húsnæði. Við þessi hús í Hjaltastaðaþinghánni stendur steypuhrærivélin enn í túnfætinum og melurinn með steypumölinni er á næsta leiti. Húsin eru hátt í 60 ára gömul og á veggi þeirra hefur aldrei farið málningarstroka né önnur veðurvörn


Eru álfar kannski menn?

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er saga af stúlku í Mývatnsveit sem virðist hafa verið komin á samfélagsmiðla löngu áður en tæknin varð til. Hún vissi atburði í öðrum landshlutum svo til um leið og þeir gerðust. Lýsingin á atferli stúlkunnar var samt ekkert sérstaklega geðsleg, sem segir svo sem ekki mikið annað en tíðarandinn hefur breyst. Þar segir m.a.;

En þegar hún þroskaðist meira vitkaðist hún sem aðrir menn að öðru leyti en því að hún var alltaf hjárænuleg og jafnan óglaðvær. Fór þá að bera á því að hún sæi mannafylgjur öðrum framar svo hún gat sagt fyrir gestkomur; en er fram liðu stundir urðu svo mikil brögð að undursjónum hennar að svo virtist sem hún sæi í gegnum holt og hæðir sem síðar mun sýnt verða. Til vinnu var hún næsta ónýt og prjónaskapur var næstum eina verkið hennar. Hún átti vanda til að sitja heilum tímum saman eins og agndofa og hvessa augu í ýmsar áttir innan húss þótt aðrir sæju ekkert er tíðinda þætti vert.

Það má spyrja sig hvort þessi stúlka hafi þá strax haft wi-fi tengingu og snjallsíma auk sjónvarps, sem fólk vissi hreinlega ekki af, tækni sem flestum þykir sjálfsögð í dag. Þannig hafi hún vitað ýmislegt sem öðrum var hulið.

Á öldum áður moraði allt í álfum, ef eitthvað er að marka þjóðsögurnar. Á því hvað um þá varð hefur engin haldbær skýring fengist. Hugsanlega hafa þeir horfið með raflýsingunni, rétt eins og mörg skyggnigáfa mannfólksins, eftir að veröldina fór að fara fram í gegnum upplýstan skjá. Það er t.d. mjög sjaldgæft að álfur náist á mynd, þó segja sumir að það sé meiri möguleiki eftir að digital ljósmyndatæknin hélt innreið sína, sem flestir eru með við höndina í símanum.

Sjálfur er ég svo sérvitur að ég hef ekki ennþá tileinkað mér margt af þessari undra tækni og verð því að nokkru leiti að notast við sömu samfélagsmiðla og fólkið sem umgekkst stúlkuna í Mývatnssveit. Svo forneskjulegur er ég að hvorki er sjónvarp né útvarp í minni nærveru og hefur ekki verið hátt í áratug, hvað þá að ég hafi eignast snjallsíma. Ég þrjóskast samt enn við að halda mig í raunheimum með því að hafa internettengingu og gamla fartölvu svo ég geti fylgst með því sem allir vita.

Þessi þverska mín varðandi framfarir hefur í nútímanum gert mig álíka hjárænulegan og stúlkuna í Mývatnssveit um árið, svo öfugsnúið sem það nú er. Í kaffitímum á mínum vinnustað á ég það t.d. til að rausa við sjálfan mig um bæði forna og framandi atburði, á meðan allir aðrir horfa upplýstir í gaupnir sér og þurfa í mesta lagi vísa lófanum í andlitið á næsta manni og segja sjáðu, til að gera sig skiljanlega.

Hjárænulegastur hef ég samt orðið heima hjá mér. Eftir að hafa gefist upp á því að gera rausið í mér skiljanlegt innan fjölskyldunnar, sat ég þá þegjandi í sófanum líkt og álfur út úr hól. Fjölskyldumeðlimir sátu saman við borðstofuborðið og glugguðu í símunum sínum, á meðan ég starði bara út í bláinn, borandi í nefið. Allt í einu klingdi í hverjum síma og bjarmaði af hverjum skjá upp í andaktug andlitin, allir horfðu kankvísir í sinn síma, án þess að þurfa að segja svo mikið sem sjáðu. Sonur minn hafði náð mynd af sófa-álfi og sent hinum við borðið hana á snapchat.

 


Mannanafnanefnd - nöfn og örnefni

Það hefur sitt sýnst hverjum um tilverurétt mannanafnanefndar. Undir lok síðasta árs fékk yngsti fjölskyldumeðlimurinn nafn sem þurfti að bera undir nefndina. Nafnið gat samt ekki verið íslenskara, enda var það samþykkt. Ævi, dóttur dóttir mín var skírð með þessu fallega nafni, stuttu í stöfum en meiru í merkingu. Sumum brá þegar nafnið varð uppvíst, einhverjir héldu jafnvel að það væri skrifað Ivy og borðið fram æví, samkvæmt engilsaxneskum tíðarandans toga. 

Dóttir mín heitir Snjófríður Kristín, eftir ömmum sínum, og hefur notast við Snjófríðar nafnið.  Eftir því sem ég best veit, er hún ein um að bera nafnið og hefur svo verið frá því hún var skírð. Það mætti kannski ætla að hún hafi ekki verið ánægð með nafnið sitt úr því að hún gefur dóttur sinni nafn sem ekki er sótt til formæðranna. En því er til að svara að það var ekki hún sem fékk hugmyndina af þessu nýja nafni. Það var faðirinn og eiginmaður, en hann kemur frá rómönsku Ameríku og hafði ekki annað í huga en íslensku merkinguna ævi, en á hans spænska móðurmáli merkir orðið "vida" það sama.

Sjálfur er ég það þjóðsögulega sinnaður að finnast það beggja blands að leggja mannanafnanefnd niður, þó svo að stundum þikji smámunasemin mikil. En annað slagið vill svo einkennilega til að það þarf nýja nálgun til að upplýsa það sem liggur í augum uppi en virðist samt sem áður framandi. Fyrir nokkrum árum síðan samþykkti nefndin nafnið Kórekur, sem er ólíkt nöfnum á borð við Snjófríður og Ævi, að því leiti að merking og uppruni liggur alls ekki í augum uppi. 

Kórekur hefur samt verið til á íslenskri tungu frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar, þrátt fyrir að þurfa samþykki mannanafnanefndar. Til er t.d. bæjarnafnið Kóreksstaðir í Hjaltastaðaþinghá. Þó þetta bæjarnafn hafi vakið furðu mína strax á unga aldri þegar ég heyrði tvo bekkjarbræður mína í barnaskóla hafa það á orði, þar sem öðrum þótti réttara að bera það fram með skrollandi gormælsku, þá var það ekki fyrr en það kom fyrir mannanafnanefnd að ég fór að grennslast fyrir um hvaðan nafnið gæti verið komið. Við þessa eftirgrennslan mína hef ég lesið sveitarlýsingu, þjóðsögur, austfirðingasögur auk þess að senda Vísindavef Háskóla Íslands árangurslausa fyrirspurn. Eins hefur gúggúl verið þráspurður út og suður. 

Í þjóðsögu Jóns Árnasonar er greint svo frá: "Kórekur bjó á Kórekstöðum í Útmannasveit. Eftir fundinn í Njarðvík, þar sem þeir Ketill þrymur og Þiðrandi féllu, sótti Kórekur karl syni sína óvíga í Njarðvík Fyrir utan bæinn á Kóreksstöðum spölkorn er stakur klettur með stuðlabergi umhverfis, það er kallað Kóreksstaðavígi. Kletturinn er hár og sagt er að ekki hafi orðið komizt upp á hann nema að sunnanverðu. Í þessu vígi er sagt að Kórekur hafi varizt óvinum sínum, en fallið þar að lokum og þar sé hann heygður. Merki sjást til þess enn að einhver hefur verið heygður uppi á klettinum, og hefur verið girt um hauginn. Í minni sögumannsins hefur verið grafið í hauginn og ekkert fundizt nema ryðfrakki af vopni, en svo var það ryðgað að ekki sást hvernig það hafði verið lagað." Frekar snubbót en gefur þó vísbendingu.

Þá var að leita á náðir austfirðingasagna, en í þeim er greint frá Njarðvíkingum og atburðum tengdum Ásbirni vegghamri, miklum garðahleðslumanni sunnan úr Flóa. Reyndar teygja atburðir þessir sig þvert yfir landið inn í allt aðra sögu því þeirra er að nokkru getið í Laxdælasögu, þegar Dalamenn taka á móti Gunnari Þiðrandabana. En í austfirðingasögum má þetta m.a.finna um Kóreks nafnið í atburðarásinni um bana Þiðranda: "Þorbjörn hét maður. Hann var kallaður kórekur. Hann bjó á þeim bæ í Fljótsdalshéraði er heitir á Kóreksstöðum fyrir austan Lagarfljót. Það er í Útmannasveit við hin eystri fjöll. Þorbjörn átti sér konu. Hún var skyld þeim Njarðvíkingum. Hann átti tvo sonu. Hét annar Gunnsteinn en Þorkell hinn yngri. Þorkell var þá átján vetra en Gunnsteinn hafði tvo vetur um tvítugt. Þeir voru báðir miklir menn og sterkir og allvasklegir. En Þorbjörn var nú gamlaður mjög."

Þórhallur Vilmundarson prófessor í íslenskum fræðum og forstöðumaður Örnefnastofnunar frá stofnun hennar árið 1969 til ársins 1988, telur að Kóreks nafnið megi rekja til stuðlabergsbása í klettunum við Kóreksstaði sem hafa vissa líkingu við kóra í kirkjum, og telur Þórhallur að nafn bæjarins sé af þeim dregið, þetta má finna í Grímni 1983. Það verður að teljast ósennilegt að Kóreksstaða nafnið sé dregið af klettum sem hafa líkindi við kóra í kirkjum ef nafnið var þegar orðið til í heiðnum sið á landnámsöld, nema að kirkjunnar menn hafi þá þegar verið búsettir í Útmannasveit. Því bendir tilgáta prófessorsins í fljótu bragði til þess að hann hafi ekki talið Austfirðingasögur áreiðanlegar heimildir. Í þeim er Kórekur sagt auknefni Þorbjörns bónda sem bjó á Kóreksstöðum, hvort bærinn hefur tekið nafn eftir auknefninu eða Þorbjörn auknefni eftir bænum er ekki gott í að ráða, en lítið fer fyrir sögnum af kirkjukórum þessa tíma.

Hvorki virðist vera að finna tangur né tetur af Kóreks nafninu hér á landi fyrir utan það sem tengist þessum sögualdarbæ í Útmannasveit. Kóreksstaðir gæti því allt eins verið örnefni af erlendum uppruna, en samt náskylt kirkjukórakenningu prófessors Þórhalls Vilmundarsonar. Það má jafnvel hugsa sér að nafnið sé ættað frá stað sem á víkingaöld gekk undir nafninu Corcaighe eða "Corcach Mór na Mumhan",sem útlagðist eitthvað á þessa leið "hið mikla mýrarkirkjuveldi" og ekki skemmir það tilgátuna að staðurinn er í mýrlendi rétt eins og bláin við Kóreksstaði. Þetta er staður þar sem klaustur heiags Finnbarr átti sitt blómaskeið og er nú þekktur sem borgin Cork á Írlandi.

Á sínum tíma var pistillinn um Kórek ítarlegri, einnig um bláklæddu konuna, Beinageitina ofl. Þann pistil má sjá hér.


Gildur limur og jarðvegsþjappa

Það getur verið gaman að bera saman mismunandi merkingu orða náskyldra tungumála, s.s. færeysku og íslensku. Á mínum unglingsárum þótti fyndið að hægt væri að verða gildur limur í ríðimannafélagi Færeyja. Seinna eignaðist ég skírteini sem staðfesti að ég væri gildur limur í handverkara félagi Tórshavanar, sem múrari, án þess þó að finnast það vera sérstaklega fyndið. En ég var ekki það lengi í Færeyjum að mér hugkvæmdist  eignast hest og sækja um að fá að vera gildur limur í ríðimannafélagi.

Það er ekki nóg með að spaugilegt geti verið að bera saman mismunandi merkingu orða skyldra mála, einnig má með því leiða að því líkum hversvegna sumt ber óskiljanlegar nafngiftir á móðurmálinu. Og þarf ekki skyld mál til, sem dæmi um það get ég nefnt fjallið Beinageit, sem gægist upp yfir Fjarðaheiðarendann þegar ég lít út um eldhúsgluggann, og er einn af syðstu tindum Dyrfjalla í Hjaltastaðaþinghá. Þó gelíska teljist seint skyld íslensku þá eru mörg orð íslenskunnar sögð úr henni ættuð, s.s. strákur og stelpa.

Freysteinn heitinn Sigurðsson jarðfræðingur taldi sig hafa fundið út hvernig Beinageitar nafngiftin væri til kominn. Upphaflega hefðu allur Dyrfjalla fjallgarðurinn heitið Bhein-na-geit upp á forn gelísku, sem gæti útlagst fjallið með dyrunum, eða Dyrfjöll. Síðar þegar norrænir menn fóru að setja mark sitt á landið hefði legið beinast við að kalla fjöllin Dyrfjöll, en nafnið Beinageit hefði lifað áfram á syðsta tindinum. Landnám Hajaltastaðaþinghárinnar hefur lengi þótt dularfull. Hvorki dregur Beinageitin, né Landnáma úr þeirri dulúð með sinni hrakningasögu af Una "danska" Svavarssyni.

En það er ekki þannig orð sem ég vildi gera skil núna, heldur orð sem er illa séð á íslensku. Þetta orð hefur valdið mér heilabrotum, því lengi hafði ég ekki fundið trúverðugan uppruna þess. Þó svo að orðið megi finna orðabók þá hef ég hvergi séð að málfræðingar hafi lagt sig niður við að útskýra af hverju það er dregið. Þó svo að það væri eins og orðabókin tilgreinir, þá er það hvorki notað í daglegu tali um skjóðu né skinnpoka hvað þá lasleika, - og það sem alls ekki má nefna, - nema vera túlkað í það dónalegri merkingu að enginn vill láta hafa það eftir sér opinberlega. Ef menn voga sér t.d. að nota orðið í sömu setningu og kvenmann þá er nokkuð víst að þeir sem það gera flokkast ekki sem femínistar og varla að þeir fengju inngöngu í feðraveldið, helst að þeir lentu metoo myllunni.

Þetta er semsagt orð sem maður viðhefur ekki ef maður vill vera partur af siðmenntuðu samfélagi. Ég man samt að fyrir áratugum síðan vorum við að vinna saman nokkrir vinnufélagar við að undirbúa bílaplan undir steypu, þegar fram hjá gekk kvenmaður í þyngri kantinum og vildi þá einn vinnufélaginn meina að hún myndi nýtast vel sem jarðvegsþjappa. Viðhafði í því sambandi þetta forboðna íslenska orð. Við hinir urðum vandræðalegir þangað til sá elsti okkar tók af skarið og sagði með þjósti "þetta eru nú meiru helvítis brandararnir". Sem leiðir aftur hugann að því hvaðan orðið brandari er komið. En í stað þess að fara með þessa spekúlasjónir út um þúfur þá ætla ég að halda mig áfram við ljóta orðið.

Það sem mig grunaði ekki þá, var hvað þessi vinnufélagi, fyrir margt löngu síðan, fór hugsanlega nærri uppruna orðsins. Að hjá frændum okkar lengra í austri en Færeyjar væri hvorki um brandara né dónaskap að ræða að hafa þetta orð uppi við þau störf sem við vorum að vinna, að vísu samsett, en það var nú reyndar akkúrat það sem vinnufélaginn gerði í denn.

Það var ekki fyrr en mörgum áratugum seinna þegar ég bjó í Noregi að ég fór að brjóta þetta orð raunverulega til mergjar, og það eftir að hafa varla heyrt nokkurn lifandi mann hafa haft það á orði í áratugi. Það var þegar við Matthildur mín vorum í heimsókn hjá vinafólki. Þar sá hún bát við smábátahöfnina, en bátar fara ekki framhjá sjómannsdætrum, en í þetta skipti var það nafnið á fleyinu, - Hav tussa. Þær kímdu yfir bátsnafninu sjómannsdæturnar, meðan okkur vinunum þótti vissar að þykjast ekki taka eftir því, enda sjálfsagt báðir brenndir af bröndurum forboðinna orða frá því í bernsku.

Það var semsagt hjá frændum okkar í Noregi sem upprunan gæti verið að finna. Þegar við Matthildur keyrðum seinna niður Lofoten, þá gleymdum við að taka með okkur landakort, hvað þá að við hefðum GPS, enda eru flestar okkar ferðir skyndiákvarðanir sem helgast af því hvort sólin sjáist á lofti og hún stendur hæst í hásuður, því auðvelt að rata. En þetta ferðalag var óvenjulegt að því leiti að við þurftum að yfirnátta eins og frændur okkar komast að orði. Þess vegna þurfti að fylgjast með vegvísum þegar leið að kveldi. Þá sáum við vegvísi, sem vísaði á stað, þangað sem ferðinni var ekki heitið. En hvað um það, þetta staðarnafn gaf mér tækifæri til að færa þetta dónalega orð í tal, án þess að vera dónalegur.

Það var semsagt Tussan á Lofoten sem gaf mér tækifæri á að ræða þetta orð við norska vinnufélaga mína. Ég gætti þess að sjálfsögðu vandlega að láta þá ekki vita af tilvist orðsins á íslensku, en spurði hvað það þýddi á norsku. Fyrst könnuðust þeir ekki við að orðið merkti nokkurn skapaðan hlut, þó svo að staður á Lofoten héti þessu nafni. En ég benti þeim þá á að til væri norskur bátur sem bæri nafnið Haf tussa. Þeim elsta rámaði þá í þetta orði, og sagði að það tengdist frekar fjöllum en sjó, reyndar kvenveru, sem byggi í fjöllum, þó ekki nákvæmlega norskri tröllkonu. Til er ljóðabálkur eftir norðmanninn Arne Garborg sem nefnist Haugtussa og er þar kveðið um ást í meinum, tröll og huldufólk í fjöllum.

Það sem mér datt helst í hug eftir þessa eftirgrennslan var að tussa hefði upphaflega verið orð yfir skessu eða skass. Seinna uppgötvaði ég það að verkfæri sem við norsku vinnufélagarnir vorum vanir að vinna með þegar jarðvegur er þjappaður undir steypu, jarðvegsþjappa á íslensku, er kölluð hopputussa á norsku, eða hoppetusse en þegar e-ið er aftan við á það við hvort kynið sem er af þessum huldu verum. Hann var þá kannski ekki eins dónalegur og í fyrstu virtist brandarinn sem vinnufélagi minn sagði um árið.

Nú má segja að þessi pistill sé orðinn tilbúinn undir steypu, ef ekki algjör steypa. Það er samt mín von að  hann forði þeim, sem hafa náð að lesa þetta langt, frá því að þurfa að liggja andvaka yfir þessu forboðna orði. Það er ekki víst að málvísindamenn leggist í rannsóknir á uppruna þess í nánustu framtíð, frekar en fram til þessa.

Tussefolk_(13625489553)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband