Fyrirheitna landið

Grænlendingasaga greinir nokkuð nákvæmlega frá áhuga norrænna manna á Ameríku og ferðum þeirra þangað. Góðir landkostir á Vínalandi var eitt helsta umræðuefnið á Grænlandi samkvæmt sögunni.

Árið 1492 segir mankynsagan að Kristófer Columbus hafi uppgötvað Ameríku og upp úr því hefjist landnám fyrstu Evrópu mannanna fyrir vestan haf. Í kjölfarið hefjast einhverjir mestu þjóðflutningar sem um getur á sögulegum tíma. Það er ekki einungis að fólk frá löndum Evrópu flytjist yfir hafið, heldur hefst fljótlega flutningur á nauðugum Afríku búum sem vinnuafli fyrir evrópsku hástéttina í nýnuminni heimsálfu.

Olaf Ohman bóndi af sænskum ættum fann árið 1898 um 100 kílóa stein ristan rúnum þegar hann var að plægja spildu í landi sínu þar sem nú er Douglas County í Minnesota. Þessi steinn hefur fengið nafn eftir fundarstaðnum, Kensington rúnasteinninn. Reist hefur verið yfir hann safn í Alexandria, MN. Steinninn virtist bera þess augljós merki að Evrópumenn hefðu verið á ferð langt inn á meginlandi N-Ameríku 130 árum fyrir komu Columbusar.

Rúnir steinsins hafa verið þýddar eitthvað á þennan veg; „8 Gotar og 22 Norðmenn komnir langt í vestur í könnunarferð frá Vínlandi. Við höfðum búðir á tveim klettóttum eyjum dagleið norður af þessum steini. Vorum við fiskveiðar dag einn, en þegar við komum til baka í búðirnar fundum við 10 félaga okkar dauða og blóði drifna. AVM (Ave Maria) bjargaðu okkur frá því illa“. Á hlið steinsins er svo áletrað; „10 félagar okkar gæta skips 14 dagleiðir frá þessum eyjum. Árið 1362“.

Fljótlega úrskurðuðu fræðimenn rúnirnar á þessum steini falsaðar og töldu að sænskar ættir Olafs bónda hefðu getað gefið honum innblástur til að falsa upplýsingarnar sem má finna ristar á steininum. Fleiri en ein rún átti að vera gerð af vankunnáttu, þar að auki hafi latneskt letur verið orðið allsráðandi þegar þessar rúnir eiga að hafa verið ristar á Kensington steininn.

Það sem fræðimenn telja þó hafið yfir allan vafa, þegar kemur að sannleiksgildinu, er Vínlandstengingin. Sagnir um ferðir norrænna manna í Ameríku geti þeirra 300 árum fyrr að minnsta kosti og það sé óhugsandi að þeir hafi farið inn á mitt meginland Norður Ameríku.

Scott Wolter fornleifafræðingur og rithöfundur hefur bent á að þau rök standist ekki sem notuð voru upphaflega til sönnunar þess að rúnir steinsins væru falsaðar. Eftir ártuga rannasóknir hefur hann meðal annars bent á að með nútímatækni megi greina merki við rún, sem talin voru vanta.

Einnig hefur Wolter gefið út bókina „The Hooked X“ sem er um rún sem ekki var talin standast samkvæmt rúnastafrófinu sem notað er í áletrun steinsins. Athyglivert er að heyra Scott Wolter lýsa því hvernig hann hefur verið settur út í kuldann í samfélagi fræðimanna fyrir að halda fram að rúnir Kensington steinsins séu réttar og að uppruna hans megi jafnvel rekja til musterisriddara.

Útilokað virðist vera að fá fyrri niðurstöður teknar upp í ljósi nýrra rannsókna. Jafnvel þó það sé nú þekkt að á eyjunni Gotlandi í Eystrasalti var fræðisetur munkareglu sem réði yfir þekkingu á rúnaletri á þessum tíma.

Til eru skjalfestar heimildir um leiðangur sem Magnús IV Smek Svíakonungur kostaði til Grænlands 1355. Hefur sá leiðangur verið nefndur sem möguleiki varðandi tilurð rúnanna á Kensington steininum. Leiðangurinn er talinn hafa verið gerður til að grennslast fyrir um hvað varð af fólkinu í vesturbyggð Grænlands sem þaðan hvarf í kringum árið 1340.

Þessi leiðangur snéri aldrei til baka svo vitað sé, samsetning leiðangursmanna gæti svarað til þess sem fram kemur á steininum. Magnús IV Smek var bæði konungur Svíþjóðar og Noregs um tíma, þ.m.t. Íslands og Grænlands.

Áletrunin á Kensington steininum er sérstök að því leiti að hún getur þess að könnunar leiðangurinn er gerður frá Vínlandi „8 Gotar og 22 Norðmenn komnir langt í vestur í könnunarferð frá Vínlandi.“ Ætla mætti að áletrun steinsins bæri það með sér að þess lands væri getið sem upphafs lands leiðangurs sem byggt var af Evrópumönnum þessa tíma s.s. Grænlands eða þá Noregs.

Ef um leiðangur Magnúsar IV Smek er að ræða þá má væntanlega gera ráð fyrir því að hann hafi haldið vestur frá Grænlandi til að grennslast frekar fyrir um afdrif fólks í vesturbyggð sem var uppgefin ástæða þegar upphaflega var haldið frá Bergen í Noregi.

Þess má einnig geta að sumir fræðimenn í seinni tíð hafa bent á að í Upernavik á Grænlandi fannst rúnasteinn sem talin er vera frá árinu 1314. Þar var notast við sama rúnastafróf og á Kensington steininum. Um tíma voru rúnir úr því stafrófi notaðar sem rök fyrir fölsun Kensington steinsins. Á Grænlenska steininum stendur "Erlingur Sighvatsson, Bjarni Þórðarson og Indriði Oddson hlóðu þessa vörðu á laugardegi fyrir bænadaga."

Óneitanlega verða orð Gísla Oddsonar Biskups í Skálholti (1634-1638) í bókinni Íslensk annálsbrot og undur Íslands enn og aftur áhugaverð ef þau eru skoðuð í þessu samhengi. En þar vitnar hann í gömul annálsbrot eitthvað á þá leið „að íbúarnir á Grænlandi hafi af frjálsum vilja yfirgefið sanna kristna trú, þar með allar og góða dyggðir, til að sameinast fólkinu í Ameríku“. Ekki síður þau orð sem hann lætur falla þegar hann segist hafa rekist á „að ófreskju skuggar og áþreifanleg Egipsk myrkur hafi einhvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin“, í sömu annálsbrotum.

Þarna gefur Gísli biskup það sterklega í skin að hin Egipsku myrkur hafi oftar en einu sinni verið á ferð við Ísland. Ef biskup á þarna við musterisriddara líkt á tilgáta Scott Wolters er varðandi uppruna Kensington steinsins, þá gæti svo verið að í eitt skiptið sé það þegar 80 austmanna er getið í Sturlungu og riðu á Þingvöll alskjaldaðir í liði Snorra Sturlusonar árið 1217.

Musterisriddarar hafa þá hugsanlega verið hér á landi í þeim tilgangi að biðja Snorra um að varðveita launhelga arfleið musteris Salómons samkvæmt kenningum ítalska dulmálsfræðingsins Giancarlo Gianazza. Svo gætu hin Egipsku myrkur hafa verið aftur á ferð þegar hin sama arfleið var flutt út frá Íslandi áfram vestur um haf þá hugsanlega með leiðangri Magnúsar IV Smek.

Það er ekki einungis víkingar og Kensington rúnasteinninn sem vekja upp spurningar um ferðir manna úr gamla heiminum til Ameríku áður en hún á að hafa verið uppgötvuð af Kólumbusi. Árið 2010 birti Íslensk Erfðagreining niðurstöður rannsóknar þar sem líklegt þykir að kona úr röðum frumbyggja Ameríku hafi komið til Evrópu fyrir tíma Kristófers Cólumbusar. Hún bjó hér á landi og um 350 íslendingar geta rakið ættir sínar í beinan kvenlegg til hennar. Rannsóknin sýndi að þessi arfgerð hefur verið lengi hér á landi, líklega frá því fyrir árið 1500, eða áður en Kólumbus sigldi til Ameríku.

Skömmu eftir að Ameríka byggðist Evrópumönnum samkvæmt mankynssögunni, eða á árunum milli 1600 – 1700, fóru landnemar á austurströndinni að verða varir við steinbyggingar sem ekki áttu að fyrirfinnast í menningu innfæddra. Mikið af þessum byggingum eða byrgjum hafa fundist í New England, Main og er í einhverjum tilfellum talið að þær geti hafa verið frá því fyrir Krist.

Sambærilegar byggingar er helst að finna á Orkneyjum og Suðureyjum Skotlands sem eru taldar vera frá heiðinni tíð Kelta. Þekkt er að írski munkurinn St Bernade á að hafa siglt til Ameríku á árunum milli 500-600 e.k.. það er því merkilegt ef að þessara steinbygginga eru aldursgreindar frá því f.k. og tengdar við Kelta. Leitt hefur verið að því líkum að þetta geti átt rætur að rekja allt til hinnar fornu borgar Karþagó en þar er talið að Keltar eigi m.a. uppruna sinn.

Rómverjar eyddu borginni Karþagó árið 146 f.k. eins og frægt er af ummælum Kató úr mankynssögunni. Borgin stóð á norðurströnd Afríku þar sem borgin Túnis er nú. Karþagó menn voru miklir sjófarendur og eru til sagnir um það að þeir hafi flutt sig um set til Andalúsíu á Spáni byggt borgina Cádiz. Síðar hafi þeir siglt enn lengra í vestur og sest að á norð-vestanverðum Bretlandseyjum s.s. á Írlandi, Orkneyjum og Suðureyjum Skotlands.

Samkvæmt þessari kenningu á sjóferðum Karþagómanna ekki að hafa lokið á Bretlandseyjum heldur hafi þeir haldið áfram vestur um haf og þar sé komin skíringin á Keltnesku rústunum á meginlandi Norður Ameríku sem megi aldursgreina frá því fyrir Krist.

Þessi kenning um Karþagóskan uppruna Kelta setja sögu rómarveldis á Bretlandseyjum í allt annað ljós, því eitthvað öflugra en Hannibal var þar sem stöðvaði framrás heimsveldisins í norðanverðu Englandi árið 122 e.k. er rómverjar reistu hinn mikli múr Hadrian wall og kölluðu það sem fyrir norðan var heimsenda. Eins setja þessar kenningar landafundi víkinga í vesturálfu í nýtt samhengi.


Vesalingar

Það hlýtur að vera fáheyrt að nokkurri þjóð sé stjórnað af eins seinheppnu fólki og ljóst varð þegar fjármálaráðuneytið upplýsti skattabreytingatillögur sínar í sambandi við kjarasamninga. Og undarlegt að reynt hafi verið að telja fólki trú um að þetta væru skattalækkunartillögur sérstaklega til handa tekjulágum.

Það var ekki svo að blessaðir bjálfarnir hafi ekki fengið viðvörun þegar einn verkalýðsforinginn gekk af fundi í stjórnarráðinu í aðdraganda þess að tillögurnar væru kynntar almenningi. Annað hvort hafa þessar tillögur verið lagðar fram á þessum tímapunkti af hreinum fábjánahætti eða þá illkvittni.

Staðreyndin er sú að minnsta skattalækkunin í krónum er til lægst launuðu, ef þá nokkur. Þó svo að það hafi verið villt um með prósentum þá étur engin prósentur. Flöt krónutala ca 6.700 átti að ganga upp allan stigann frá 325 þús upp í hvað sem var, þess vegna bankastjóra laun. Lækkunin átti að koma til á næstu 3 árum.

Svo þegar þetta er skoðað í kjölinn þá átti jafnframt þessu að frysta persónuafslátt næstu 3 árin. Persónuafslátturinn hækkaði um rúmar 2.500 í ár, þannig að reikna má með að eftir 3 ár hafi hann skerts um að minnsta kosti 7.500. Reikningsdæmið upp allan launaskalann er þá vegna þessara tillagna einna, hækkun skatta um ca. 800 kr.

Síðan er það kapítuli út af fyrir sig hvernig þessar tillögur koma við láglauna fólk. Til að geta nýtt að fullu kerfisbreytingarnar, þá þarf fólk að hafa 325.000 kr. í tekjur eða meira. Eftir því sem tekjurnar eru lægri er ávinningurinn minni, en samt á að frysta  persónuafsláttinn hjá þessu sama fólki þannig að skattbyrðin eykst verulega hjá þeim sem eru undir 325 þús í lok tímabilsins.

Síðan fögnuðu flóafíflin hjá SA tillögunum í stað þess að standa með vinnumarkaðnum gegn því að láta sjálftökuliðið í stjórnaráðinu ræna hann gengdarlaust eins og viðgengis hefur undanfarin ár. Það er í besta falli fáviska að segja að tillögurnar komi þeim tekjulægstu best, þegar þær gagnast þeim síst.


mbl.is Viðræðum hefur verið slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Apaplánetan

Á mínum bernskuárum voru til héraðshöfðingjar, þeir voru stórhuga og oft bændur af gamla skólanum sem máttu muna tímana tvenna og aurana fáa. Einn þessara höfðingja bjó í götunni heima eftir að ævistarvinu lauk. Tók í nefið, fór yfir dægurmálin og mynntist gamallar tíðar.

Einu sinni heyrði ég sögu af honum frá yngri árum þegar hann hefði verið staddur á pólitískum fundi og vitað var að hann myndi verja sína menn af einurð þegar hann tæki til máls. Á fundinum var sveitungi hans sem var yfirleitt sammála nágranna sínum í öllu sem til framfara horfði, en ekki þegar kom að pólitík. Þegar héraðshöfðinginn fékk orðið hóf hann mál sitt með þessum orðum; "Frá mínum bæjardyrum séð,,,", en þar greip sveitungi hans strax fram í fyrir honum og botnaði mál hans "og þaðan sést ekkert nema fjóshaugurinn".

Þessi saga kom upp í hugann í síðustu viku þegar fyrrum forstjóri N1 furðar sig á því í fjölmiðli að það sé álitið „mikill glæpur“ að greiða bankastjórum há laun og vísaði þar sérstaklega til launa tiltekins bankastjóra Landsbankans. Þar greip forstjórinn til líkingamáls og sagði að svona umræða hefði aldrei komið upp varðandi aflaskipstjóra. En skautaði alveg fram hjá því að bankinn er nýlega gjaldþrota "sjoppa" sem var endurreist á kostnað almennings.

Svo að gripið sé til líkingamáls svipuðu forstjórans þá er núverandi " skipstjóri" ein af þeim sem staðin voru að því að fikta við "negluna" þegar dallurinn sökk.

Á athugasemdakerfi fjölmiðilsins, sem viðtalið tók við forstjórann, fór síðan fram kappsfull umræða um hvorir, bankastjórar eða skipstjórar eða jafnvel læknar, ættu að hafa hærri laun, og hélt þar hver með sínu liði líkt og hverju öðrum fótboltaklúbb. Barðist forstjóra  bullan þar fyrir sína menn enda sjálfsagt einn af þeim sem finnst sín sexföldu lágmarkslaun verulega hógværi miðað við fimmtánföld lágmarkslaun bankastjóra, sem hvorki eru glæpsamleg né of há að hans mati.

Hvað svo bankastjórinn, forstjórinn og aðrir gera við sín laun sem  teljast mikið meiri en hver manneskja hefur þörf á, sé litið til lágmarkslauna, er svo kapítuli út af fyrir sig. Sagt er að sá sem kaupi það sem honum vantar ekki ræni sjálfan sig, og sjaldan eiga þau sannindi betur við en nú á tímum þegar flestir eiga í haugum of mikið af því sem þeir hafa ekki not fyrir.

Er þá fátt annað eftir en að safna þessu útborgaða talnaverki inn á bókhaldsreikninga og þá helst með góðri ávöxtun, eða nota það við að hræra í jackpottum spilavítanna til að teljast maður með mönnum, eða kannski koma afrakstrinum aflands til að komast í kynni við eina prósentið, sem virðist svo mikið áhugaverðara viðkynningar heldur en fólkið í götunni heima.

Þau gömlu sannindi að margur verði af aurum api virðast hreinlega ekki eiga hljómgrunn nú á tímum. 

Nema þá að ráðamenn hafi uppi þær hugmyndir að stækka  fjóshauginn það mikið að launahækkanir á við þeirra eigin velli niður brekkurnar og geri allt að einum fjóshaug burt séð frá því hvað verður um mjólkurkúna, og jörðina síðan að heilli apaplánetu. 


Hvað varð um íslensku Grænlendingana?

Það virðast vera mjög fátæklegar heimildir til varðandi það hvað gerðist síðustu búsetu ár norrænna manna á Grænlandi og ekkert sem getur skýrt skyndilegt hvarf fólksins. Fræðimenn hafa viljað meina að kólnandi loftslag, hungur og sjúkdómar hafi með það að gera hvað af fólkinu varð. En það breytir ekki því, að eins og í sumum óleystum morðgátum, þá vantar líkin.

Kenningar hafa verið uppi um að það sama hafi gerst og með Tyrkjaránunum á Íslandi, fólkinu hafi verið rænt og selt á þrælamarkað, eða farið til Azoreyja, Madeira, eða Grænhöfðaeyja, þegar Portúgalar námu þessar eyjar, jafnvel Kanaríeyja. Flest er þetta talið líklegra af fræðimönnum heldur en að fólkið hafi farið stystu leið til Ameríku, enda að halda slíku fram nánast samsæriskenning um opinberu útgáfu mankynssögunnar.

Til eru skráðar heimildir fyrir því að Hákon biskup í Noregi hafi sent Ívar Bárðarson prest til Grænlands árið 1341, en þá hafði ekkert frétts í meira en ár frá Grænlensku byggðunum. Frumheimildirnar eru glataðar en til eru dönsk afrit frá því um 1500 um það hvað blasti við séra Ívari Bárðarsyni og samferðamönnum þegar þeir koma til vesturbyggðar.

Þegar Ívar og fylgdarlið kom í byggðina finnur hann ekkert fólk aðeins búsmala í haga, nautgripi og sauðfé. Þeir slátruðu eins miklu af búsmalanum og skipin gátu borið,fluttu það svo með til austurbyggðar Grænlands en þar virtist allt með eðlilegum hætti. Hvað varð af fólkinu í vesturbyggð eru engar heimildir til um, en þess má geta að sjóleiðin milli austur og vesturbyggðar er um 375 mílur eða um ¾ leiðarinnar á milli Grænlands og Nýfundnalands.

Þegar séra Ívar Bárðarson var aftur kominn til Bergen árið 1344, úr Grænlandsleiðangri sínum, fer hann af einhverjum ástæðum fram á það við Clemens VI páfa, í gegnum biskupstofu í Bergen að biskupsembættið á Grænlandi verði flutt til Noregs en Grænland hafði eigin biskup til ársins 1349. Líklegt verður að teljast að í leiðinni hafi Ívar upplýst um stöðu mála á Grænlandi á æðstu stöðum.

Árið 1355 sendir Magnús IV (Smek) Svía konungur, en hann var jafnframt konungur yfir Noregi, Íslandi og Grænlandi um tíma, leiðangur til Grænlands til að kanna stöðu mála. Af þeim heimildum sem til eru um ástæður þessa leiðangurs má ráða að ógn hafi steðjað að kristna samfélaginu á Grænlandi. Þess er skemmst að geta að leiðangur Magnúsar IV Smek snéri ekki aftur og eru á huldu hvað um hann varð, þó eru til óstaðfestar sagnir um að 3 eða 4 menn hafi komið fram í Noregi árið 1364.

Frá þessum árum eru til heimildir af köldum árum þar sem ís fyllti hafnir á norðanverðu  Íslandi. Eins er til frásögn af því úr glataðri bók frá þessum tíma að einhvertíma á árunum fyrir 1350 hafi „...næstum 4000 manns haldið út á frosið haf og aldrei snúið aftur.“ Leiddar eru að því líkur að þetta frosna haf hafi verið vestan við Grænland og eru annálaskrif Íslenskra biskupa nefnd þeim til stuðnings, þar á meðal þeir annálar sem Gísli Oddson á að hafa haft aðgang að og lagt út frá árið 1638 þegar hann skrifar bókina „ Íslensk annálsbrot og undur Íslands“.

Hvort þetta kuldakast hafi verið skýringin á hvarfi Grænlendinga úr vesturbyggð, og ástæða leiðangurs Magnúsar IV Svíakonungs er ekki gott að segja, en einhverjar heimildir nefna þó að séra Ívar Bárðarson hafi komið við sögu í aðdraganda leiðangursins. Enda þarf það ekki að koma á óvart að forvitni hafi leikið á því á æðstu stöðum að vita hvað varða um allt samfélagið eins og það lagði sig í vesturbyggð Grænlands, sem hvarf án þess að svo mikið sem að nokkuð væri um það vitað í austurbyggð.

Við þennan leiðangur hafa síðan grúskarar og utangarðs fræðimenn jafnframt viljað tengja Kensington rúnasteininum sem fannst í Minnesota árið 1898. En á hann er ristar rúnir um ferðir 8 Gota (Svía) og 22 Norðmanna um Minnesota árið 1362. Þá hefur verið bent á að þessi leiðangur hafi verið talin það mikilvægur, að sá sem fyrir honum fór fékk að velja í hann einvala lið úr lífverði konungs, þá menn sem handgengnastir voru Magnúsi IV og höfðu svarið honum eið.

Það sama gerðist svo í austurbyggð 100-150 árum seinna, fólkið hvarf sporlaust. Síðustu skráðu heimildir úr austurbyggð eru frá árinu 1408 af brúðkaupi íslendinganna Sigríðar Björnsdóttur og Þorsteins Ólafssonar í Hvaleyjar kirkju. Eins mun einhverstaðar vera til lýsing Þorsteins á því þegar maður að nafni Kolgrímur var brenndur á báli fyrir galdur þann tíma sem þau dvelja á Grænlandi.

Íslensk annálaskrif frá síðustu árhundruðum búsetu norrænna manna á Grænlandi bera það með sér að ef fréttnæmt þótti að íslendingar heimsóttu þessa fyrrum landa sína í vestri, hafi það verið vegna hafvillu eða sjóhrakninga. Sumarið 1406 fer skip með íslendinga til Grænlands sem sagt er að hafi hrakist þangað á leiðinni milli Noregs og Íslands. Um borð er nokkur fjöldi fólks bæði konur og karlar. Þetta fólk dvaldi á Grænlandi í fimm ár og eru skráðar heimildir þessu viðvíkjandi þær síðustu um byggð norrænna manna á Grænlandi.

Sumt af þessu fólki kom ekki aftur til Íslands fyrr en árið 1413, því frá Grænlandi sigldi það ekki til Íslands heldur Noregs. Enda var strangt viðskiptabann í gildi, að tilskipan Noregskonungs á milli Íslands og Grænlands. Þar sem þetta fólk hafði verið svo lengi í burtu þá var það talið af á Íslandi og komu því upp ýmis mál þegar það birtist aftur s.s. varðandi hjúskaparstöðu ofl. sem greiða þurfti úr lagalega.

Það virðist vera að Grænlandsferðir Íslendinga hafi einungis ratað í heimildir þegar þær vörðuðu við lög. Þó er ferðasaga þeirra Björns Jórsalafara og Sólveigar konu hans undantekning. Hún var rituð löngu eftir Grænlandsferð þeirra og er glötuð. En engu að síður virðist vera til talsvert um það ferðalag, sem helgast m.a. af gríðarlegum hagnaði þeirra hjóna af "hrakningunum", sem einna helst á sér samsvörun í ferð annarra íslenskra hjóna vestur um haf rúmum 200 árum fyrr.

Grænlandsför þeirra Björn Einarssonar Jórsalafara og Sólveigar Þorsteinsdóttur er um margt sláandi lík Grænlandsför þeirra Þorfinns Karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur. Bæði þessi hjón hagnast gríðarlega á ferðinni, sá er þó munur á að Björn Jórsalafari og Sólveig er sögð hafa hrakist til Grænlands. En Grænlendingasaga segir af ásetningi Karlsefnis og Guðríðar að komast alla leið til Vínlands og af því hvað þau efnuðust á þeirri ferð.

Þess verður að geta að verslun við Grænlendinga var ólögleg án leyfis konungs á tímum Björns og Sólveigar. Árið 1385 sigldu þau frá Noregi samskipa fleirum en hröktust til Grænlands og voru teppt þar í tvö ár en komu þá til Íslands. Þau efnast gríðarlega í ferðinni því þegar heim kemur kaupir Björn Vatnsfjörð fyrir 150 kýrverð, sem var fimmfalt nafnverð.

Það sem undarlegra er að hann arfleiðir seljanda Vatnsfjarðar að jörðinni komi hann og Sólveig ekki heim úr Noregsferð og suðurgöngu til Rómar. Þau sigla síðan til Noregs 1388 til að standa fyrir máli sínu varðandi "ólöglegu Grænlandsdvölina" og höfðu meðferðis vitnisburði um tildrög þeirra hrakninga og viðskipti sín við heimamenn.

Björn var dæmdur sýkn saka í Björgvin 20. maí 1389. Síðan fór hann í suðurgöngu til Rómar rétt eins og Guðríður Þorbjarnardóttir rúmum 200 árum fyrr. Björn og Sólveig komu til Íslands aftur 1391 og eru á sinni tíð einhver valdamestu og víðförulustu hjón landsins. Jórsalanafnbótina fékk Björn síðar vegna heimsóknar sinnar til Jerúsalem.

Hvað varð af byggð norænna manna á Grænlandi er ekki vitað. Byggðin er talin hafa verið við gott gengi um 1410 samkvæmt rituðum heimildum um brúðkaup íslendinganna Sigríðar og Þorsteins, sem þar fór fram 1408. Vitað er að þau og samferðafólkið yfirgefa Grænland 1410, ekkert hefur spurst til fólksins á Grænlandi síðan.

Á huga.is var farið yfir hugsanleg „örlög norrænar byggðar á Grænlandi“ í samnefndri ritgerð. Þar eru helstu getgátum fræðimanna í gegnum tíðina um örlög Grænlendinga af norrænum uppruna gerð skil. Það sem merkilegast er við þær getgátur er að nánast engin þeirra gerir ráð fyrir að fólkið, sem þaðan hvarf sporlaust, hafi farið til Vínlands þrátt fyrir að landkostir fyrirheitna landsins hafi verið eitt helst umræðuefnið á Grænlandi samkvæmt Grænlendingasögu.

Vilhjálmur Stefánsson mannfræðingur og landkönnuður kemst næst því að geta sér þess til að fólkið hafi farið til Vínlands, en hans kenning er á þann veg að Grænlenska fólkið hafi blandast eskimóum í langt norður í Kanada. Þær kenningar eru nú taldar hafa verið afsannaðar með genarannsóknum nútímans. Lokaniðurstaða ritgerðar höfundarins á huga.is gerir ráð fyrir að norræna samfélagið á Grænlandi hafi flutts suður um höf jafnvel fyrst til eyjarinnar Madeira út af Portúgal en hafi að lokum dagað uppi á Kanaríeyjum.


Var Snorri Sturluson frímúrari, sem vísaði vestur?

Um það bil 20 árum eftir að Evrópskir krossfarar höfðu frelsað hina helgu borg Jerúsalem undan yfirráðum múslima árið 1118, er stofnuð regla musterisriddara sem sögð er hafa haft aðsetur þar sem musteri Salómons stóð. Regla þessi auðgaðist gríðarlega af áheitum og landareignum víða á vesturlöndum. Í Frakklandi einu er hún talin hafi átt um 10.000 herragarða. Leynd hvíldi yfir reglunni og þeim fornu fræðum sem hún á að hafa haft aðgang að úr musteri Salómons, sem sum hver voru talin komin úr Egipsku píramídunum. Öfund gerði vart við sig í garð reglunnar vegna ríkidæmis hennar og þegar múslímar náðu Jerúsalem aftur á sitt vald árið 1291 fór að halla verulega undan fæti fyrir musterisriddurum.

Páfinn í Róm og Filippus Frakkakonungur blésu til ofsókna gegn Musterisriddurunum. Voru reglubræður þá um 20.000 talsins, ákærðir fyrir hvers konar sakir, upplognar sem aðrar. Árið 1307 voru reglubræður í Frakklandi handteknir í stórum hópum. Eftir sýndarréttarhöld og pyntingar voru þeir brenndir á báli í þúsunda tali um alla Evrópu fyrir galdur og önnur forn fræði. Árið 1312 bannaði páfinn reglu musterisriddara og leið hún undir lok að talið var, því er þó haldið fram að að hópur musterisriddara hafi sloppið undan ofsóknunum á meginlandi Evrópu yfir til Skotlands. Hin skoska regla musterisriddara varð síðan forveri seinni tíma frímúrarareglna og var sett á laggirnar í Skotlandi undir verndarvæng Robert Bruce konungs Skotlands árið 1314. Árið 1319 veitir nýr páfi, Jóhannes XXII, reglunni aftur tilverurétt þá undir nafninu Riddarar Jesú Krists.

Ítalski verkfræðingurinn og dulmálssérfræðingurinn Giancarlo Gianazza telur sig hafa fundið sterkar vísbendingar um að stór hópur musterisriddara hafi komið til Íslands árið 1217 með leyndar helgar frá Jerúsalem. Telur Gianazza sig hafa lesið þetta út úr dulmálskóda sem megi finna í hinum Guðdómlega gleðileik eftir Dante. Þórarinn Þórarinsson arkitekt hefur unnið með Giancarlo Gianazza við að fylla uppí myndina með vísbendingum sem felast í Sturlungu. Þórarinn telur komna fram raunverulega skýringu á pólitískum átökum í kringum Snorra Sturluson á þrettándu öld. Hverjir voru hinir „áttatíu austmenn, alskjaldaðir" sem voru í fylgd með Snorra á Þingvöllum? Þórarinn og Giancarlo telja að þetta kunni að hafa verið musterisriddarar sem töldu tryggast að koma dýrgripum frá landinu helga í örugga geymslu vegna trúarlegra og pólitískra átaka í Evrópu.

Í grein um fræði Gianazza sem birtist í Leyndarmálum sögunnar (Historic Mysteries) 10. febrúar 2011 er greint frá að Gianazza hafi rannsakað þetta undarlega mál frá því 2004. Þar segir m.a.;

„It seems incredible that Iceland would be a part of what some call the greatest literary work of all time. Gianazza avers that it is not so far-fetched. Apparently a group of the Knights Templar, a monastic military order of the Middle Ages long associated with discovering holy relics, visited Iceland. “In the official historic records of Iceland it is stated that in 1217, during the meeting of the Althing – the Parliament established in 930 – the leader and poet Snorri Sturlusson appears next to what the text defines as ‘80 knights from the south, all dressed and armed in the same fashion’ and is elected as commander for that year.” Gianazza is convinced that the Knights “travelled to Iceland and backed the election of Sturlusson in exchange for his support in the building of a secret chamber to be filled over the years with sacred books and objects from the Temple of Jerusalem.” After the eradication of the Knights Templar in 1307, Gianazza believes a secret elite of the Knights remained and that Dante belonged to this elite. Dante, therefore, would have been privy to the knowledge of the Knights and the whereabouts of the secret chamber. Consequently, he would have coded this knowledge into the Comedy.“

Þó það kunni að vera langsótt að halda því fram að Snorri Sturluson hafi verið forveri frímúrara, þó svo þessar tilgátur Ítalans Gianazza væru sannar, þá er eftir sem áður hér um athygliverða tilgátu að ræða. Þetta verður sérlega áhugavert þegar ævi Snorra er skoðuð í þessu ljósi og höfð til hliðsjónar kenning Jochums M Eggertssonar í Brisingameni Freyju frá 1948 þar sem hann leggur m.a. út frá orðum Gísla Oddsonar biskups í Skálholti (1634-1638) í bókinni Íslensk annálsbrot og undur Íslands, um; -„að ófreskju skuggar og áþreifanleg Egipsk myrkur hafi einhvern tíma, ráðist inn í þetta föðurland vort og varpað skugga á það. –Ég hef ekki fundið tilgreint, hve lengi þeir hafi haldist við í hvert sinn, né ártölin.“ –skrifar biskup.

Snorra Sturlusonar er einkum minnst fyrir íslendingasögurnar og hið mikla ritverk Heimskringlu, sem hefur að geyma sögu Noregskonunga auk þeirra heimilda um norræna goðafræði sem í verkum hans felast. Vegna þessarar arfleiðar mætti ætla að Snorri hafi verið mikill fræðimaður og grúskari. En sannleikurinn er sá að hann var umfarm allt annað íslenskur höfðingi á umbrotatímum sem hæpið er að ímynda sér að hafi haft tíma til að sinna grúski og ritstörfum. Á ævi Snorra logar Ísland í borgarastyrjöld sem endar með því að landið kemst undir Noregskonung. Helstu persónur og leikendur í þeirri styrjöld voru Noregs konungur ásamt biskupnum í Niðarósi, sem íslenska kirkjan heyrði undir, auk íslenskar höfðingjaætta á við „Sturlunga“ ætt Snorra. Enda gengur tímabilið undir heitinu Sturlungaöld í Íslandssögunni.

Auðsöfnun og valdagræðgi var áberandi á meðal íslenskra höfðingja 12. og 13. aldar og náði sennilega hámarki með Snorra Sturlusyni. Tilgáta Giancarlo Gianazza er sérstaklega áhugaveð í þessu ljósi. Eins kenning Jocums M Eggertssonar um að Snorri hafi ekki skrifað þær bókmenntir sem við hann eru kenndar heldur hafi þær verið skrifaðar mun fyrr, en Snorri hafi komist yfir þau handrit og látið endurrita þau þannig að þau varðveitast. Sturlungaöldin hófst árið 1220 þegar Noregskonungur fer þess á leit við Snorra Sturluson að hann komi Íslandi undir norsku krúnuna og hann gerist lénsmaður konungs. Þarna hefur konungur því talið sig vera að gera samning við einn valdamesta mann landsins, en Snorri gerði lítið til þess að koma landinu undir Noreg og var drepinn árið 1241 af Gissuri Þorvaldsyni að undirlagi konungs.

Það er ævintýralega langsótt að setja frama Snorra Sturlusonar í stjórnmálum Íslands í samhengi við Musterisriddara en því verður samt ekki á móti mælt að eftir heimsókn 80 austmanna sem mæta með alvæpni á Þingvelli með Snorra 1217 hefst frami Snorra, sem var sonur Hvamm Sturlu Sighvatssonar sem talin er hafa verið nýlega tilkominn höfðingi af bænda ætt en ekki goða. Eins verður ævi Snorra sem rithöfundar allt önnur í þessu ljósi því auðséð er á þeim bókmenntaverkum, sem við hann eru kennd, að þar var um víðtækar heimildir að ræða sem ná árhundruð ef ekki árþúsund aftur í tímann frá hans æviárum.

Það mætti jafnvel gera að því skóna að Snorra hafi verið færð tímabundið til varðveislu sú saga heimsins sem var valdastofnunum þess tíma ekki þóknanleg. Hann hafi svo afritað úr því efni það sem samræmdist Íslendingasögunum s.s. um vöggu Ásatrúarinnar við Svartahaf en ekki getað stillt sig um að stelast í Völsungasögu í leiðinni. Ef haldið er áfram með þessar vangaveltur um musterisriddaratengsl Snorra er ekki ólíklegt að þessi saga heimsins hafi verið flutt vestur um haf vegna þess að íslendingar bjuggu yfir vitneskju um þá miklu heimsálfu á þessum tíma.

Margar dularfullar getgátur um frímúrara tengjast Newport tower á Rhode Island. Turninn hefur glettilega líkt byggingarlag og t.d. Garðakirkju á Grænlandi og hin dularfulla Magnúsarkirkja í Kirkjubæ á Færeyjum. Margir vilja meina að einhverskonar gral sem  musterisriddarar eiga að hafa flutt vestur um haf tengist Newport turninum. Það að þetta gral gæti verið fræði úr musteri Salomons sem náðu allt til Egipsku píramídana rímar ágætlega við frímúrara. Til eru sagnir í fræðum þeirra sem segja frá komu Portúgala á Rhode Island skömmu eftir Columbus þar eiga þeir að hafa hitt fyrir innfæddan mann af norrænum uppruna sem bar nafnið Magnús og gerðist þeirra leiðsögumaður.

Það er því spurning hvort Musterisriddarar hafi valið Snorra til að geima tímabundið þær launhelgar sem fluttar voru úr musteri Salomons vegna þeirra miklu bókmenntaverka sem hann varðveitti þá þegar og við hann eru kennd. En samkvæmt kenningu Jochums sem finna má í Brisingarmeni Freyju komu verk Snorra úr Krýsuvík, mörghundruð árum fyrir fæðingu Snorra. Fræðasetrið í Krýsuvík á svo að hafa átt rætur sínar að rekja til eyjarinnar Iona á Suðureyjum Skotlands, nánar tiltekið klausturs St. Columbe, og verið flutt til Íslands löngu fyrir landnám eða um árið 700.

Allavega virðist Snorri hafa haft tengingar til Skotlands ef marka má Sturlungu. Þann 29. september 2013 má finna í Akureyrarblaðinu áhugaverða grein um kenningar Giancarlo Gianazza, þar segir m.a.;

„Í Sturlungu segir frá Skotanum Herburt sem var hér á landi sumarið 1216 en hann var fylgdarmaður Snorra Sturlusonar. Segir frá deilum hans og annars útlendings sem kallaður var Hjaltinn en sá var aðstoðarmaður Magnúsar goða. Má draga þá ályktun að Herburt hafi haft frumkvæði að þessum ágreiningi þeirra á milli og jafnvel gert meira úr honum en efni stóðu til. Í kjölfarið upphófust deilur milli Snorra og Magnúsar og liðsmanna þeirra. Fleiri deilumál komu upp milli þessara tveggja aðila sem enduðu með því að árið eftir (1217) mættust þeir tveir á Alþingi sem þá var á Þingvöllum. Þar komum við að því sem Gianazza telur vera eina vísbendingu af mörgum sem styðji kenningu hans um veru gralsins hér. Í kjölfar frásagnar af deilum þeirra Snorra og Magnúsar sem áður var minnst á segir eftirfarandi: „Eftir þetta fjölmenntu mjög hvorirtveggja til alþingis. Snorri lét gera búð þá upp frá Lögbergi er hann kallaði Grýlu. Snorri reið upp með sex hundruð manna og voru átta tigir Austmanna í flokki hans alskjaldaðir. Bræður hans voru þar báðir með miklu liði.“ (Sturlunga saga, 1988:253-254). Samkvæmt þessu var Snorri Sturluson með stóran hóp fylgdarmanna á Alþingi og þar af voru 80 Austmenn.“


Hús úr torfi

IMG_1636

Ein af gersemum íslenskra húsa er er torbærinn að Þverá í Laxárdal, Suður-Þingeyjarsýslu. Hann er sérstakur fyrir það að lækur rennur í gegnum bæinn, þurfti fólkið því  ekki að fara úr húsi til að sækja sér vatn í bæjarlækinn. Einhver þekktasta veiðiá landsins, Laxá í Aðaldal, fellur úr Mývatni um dalinn og til sjávar í Skjálfanda. Dalurinn er fagur og frjósamur. Þar er mikið fuglalíf og fjölskrúðug flóra. Einnig má sjá þar mikið af fjárgirðingum úr grjóti, virðast þær standast tímans tönn einstaklega vel í Laxárdal.

Ég var svo heppinn að eiga erindi í Laxárdal í upphafi viku, vegna þess að fyrirtækið sem ég vinn hjá er að byggja nýja gistiálmu við veiðihúsið Rauðhóla. Þverá er rétt innan við Rauðhóla og langaði mig til að sjá bæinn að vetrarlagi en þangað hafði ég komið í lok sumars fyrir tveimur árum. Það var snjóþungt og kalt í morgunnsárið Laxárdalnum og lét ég því mér nægja að sjá heima að bænum, en set hér með myndir frá fyrri heimsókn.

IMG_1632

Þverárbærinn var byggður á seinni hluta nítjándu aldar af Jóni Jóakimssyni snikkara og bónda á Þverá, sem var rómaður fyrir vandvirkni við smíðar og búskap. Þverá mun vera í einkaeign og Áskell bóndi Jónasson sér um bæinn. Þjóðminjasafn Íslands hefur haft tilsjón með húsunum. Þarna voru útihús af fornri gerð varðveitt auk bæjarhúsanna. Þjóðminjasafnið hefur látið endurbyggja þrjú útihús; fjárhús, hlöðu og hesthús.

Þverárbærinn er kannski þekktastur fyrir að vera vagga Samvinnuhreyfingarinnar sálugu,en fyrsta kaupfélag landsins, Kaupfélag Þingeyinga var stofnað að þar árið 1882. Þeir sem eiga leið um Þingeyjarsýslur heimsækja margir torfbæinn að Grenjaðarstað, en þar er rekið byggðasafn. Þaðan eru aðeins þrettán kílómetrar að bænum Þverá í Laxárdal, sem færri vita af, en þar varðveitir Þjóðminjasafnið þetta sögufræga djásn.

IMG_5354

IMG_5373

IMG_5390

IMG_5378

IMG_5372

IMG_5375

 


Frá Vínlandi til fundar við Vadíkanið

Guðríður Þorbjarnardóttir er án efa víðförulasta kona íslendingasagnanna. Hún yfirgaf Ísland ung að árum ásamt Þóri austmann manni sínum og siglir til Grænlands. Grænlendingasaga segir að Leifur heppni hafi bjargað hópi manna af skeri þegar hann kom úr Vínlandsferð. Þar á meðal Guðríði og Þóri, og tekið þau með heim í Bröttuhlíð austurbyggðar Grænlands, þar sem Þórir veiktist og deyr. Vegna þessarar björgunar fær Leifur Eiríksson viðurnefnið heppni. Guðríður giftist svo Þorsteini Eiríkssyni, bróður Leifs. Þorsteinn deyr úr sótt í Lýsufirði í vesturbyggð á Grænlandi, eftir sumarlanga villu þeirra hjóna í hafi og misheppnaðan leiðangur til Vínlands.

Þriðji maður Guðríðar var svo Þorfinnur karlsefni Þórðarson úr Skagafirði. Þau Guðríður sigldu til Vínlands með vel á annað hundrað manns að talið er, í þeim tilgangi að hefja þar búskap. Þau könnuðu landið og og eru talin hafa farið mun sunnar en víkingar höfðu gert áður, eða allt suður til Long Island og eyjuna Manhattan í Hudson fljóti er talið að þau hafi nefnt Hóp. Guðríður og Þorfinnur voru nokkur ár í Ameríku. Áttu blómleg viðskipti við innfædda og eignuðust þar soninn Snorra. Þau fóru þaðan aftur til Grænlands og síðan fljótlega til Noregs. Þar voru þau í einn vetur en héldu þá til Íslands og setjast að í Glaumbæ í Skagafirði.

Sonurinn Snorri bjó í Glaumbæ eftir föður sinn. Þegar Guðríður er orðin ekkja fór hún í það sem sagan kallar suðurganga „til Rómar“ þar sem hún hefur að öllu líkindum heimsótt Vatíkanið. Þegar hún kemur aftur til Íslands hafði Snorri sonur hennar byggt fyrstu kirkjuna sem reist var í Glaumbæ. Grænlendinga saga segir að Guðríður hafi verið síðustu æviárin einsetukona og nunna í Glaumbæ. Afkomendur Guðríðar og Þorfinns karlsefnis hlutu mikinn frama innan kirkjunnar og út af þeim eru komnir margir biskupar íslandssögunnar.

Hvað Guðríði og valdamönnum Vatíkansins fór á milli er vandi um að spá því ekkert er um það getið í Grænlendingasögu sem sennilegast er afrit eldri heimilda og engin leið að segja hvað úr henni hefur glatast. Árið 1999 kom út bókin "Ingen grenser" (No Boundaries) eftir þá Thor Heyerdahl og Per Lilleström. Við útkomu þeirrar bókar greindi Thor Heyerdahl frá því að hann hefði undir höndum gögn sem sanni að víkingar hafi komið til Ameríku. Annars vegar gögn frá 1070, sem hann fann í skjalasafni Vatíkansins, þar sem getið er um landafundi Íslendinga í Ameríku, hálfri annarri öld áður en Grænlendingasaga og Eiríks saga rauða eiga að hafa verið skrifaðar. Hins vegar afrit af portúgölskum gögnum sem sýna fram á að Kólumbus hefði haft upplýsingar um Ameríku frá norrænum mönnum.

Í samtali við Aftenposten í tilefni útkomu bókarinnar í Noregi 1999, greinir Thor Heyerdahl einnig frá þeirri skoðun sinni, að siðaskiptunum megi að mörgu leyti kenna um hve saga norrænna manna sé snautleg. Með upptöku Lútersks siðar hafi Norðurlönd fallið í ónáð hjá páfastól og um leið verið dregið úr vægi þeirra í mannkynssögunni. Ýmsar heimildir séu þó varðveittar í skjalasafni Vatíkansins og einnig séu til mikið af arabískum heimildum um norrænar miðaldir. "Þar hef ég skoðað mikið af heimildum sem flestum er ókunnugt um" sagði hann.

Í New York Times 19. desember árið 2000 birtist grein eftir Walter Gibbs um bók þeirra Heyerdahls og Lilleström. Auk þess að gera vitneskju kaþólsku kirkjunnar skil, um tilveru Ameríku 500 árum áður en mankynssagan segir að Kólumbus hafi fyrstur Evrópumanna uppgötvað hana, þá er farið vítt yfir sviðið varðandi ferðir norrænna manna hundruðum ára fyrir Kolumbus. Meðal annars er minnst á Vínlandskortið, eins kemur greinarhöfundur inn á Kensington rúnasteininn sem fannst í Minnesota árið 1898 en á þeim steini er greint frá ferðum norrænna manna árið 1362 langt inn á meginlandi Norður Ameríku.

Niðurlag greinar Walter Gibbs er þó athyglisverðasti hluti hennar, en þar kemur hann inn á annáls brot þau sem vekja undrun Gísla Oddsonar biskups í Skálholti á árunum 1632-1638, þau sömu og Jochum Eggertsson leggur út frá í 5. kafla ritgerðasafns síns „Brisingamen Freyju“,sem getið er um hér á síðunni af öðrum ásæðum. En í grein New York Times stendur þetta;

„The clearest suggestion that something transformative had taken place in North America came from the hand of a 17th century Icelandic bishop. Citing 14th century annals that have been lost, the bishop, Gisli Oddsson, wrote: The inhabitants of Greenland, of their own free will, abandoned the true faith and the Christian religion, having already forsaken all good ways and true virtues, and joined themselves with the folk of America“.

Orð Gísla Oddsonar er sérdeilis áhuga verð en þau má skilja eitthvað á þessa leið; „Íbúarnir á Grænlandi, af frjálsum vilja, yfirgáfu sanna kristna trú, þar með allar sannar og góða dyggðir, og sameinuðust fólkinu í Ameríku“. Nú liggur bók Gísla Oddsonar frá 1638 „ Íslensk annálsbrot og undur Íslands“ ekki á lausu og kostar um 70-80.0000 hjá söfnurum, þess vegna erfitt að sannreyna hve nákvæmlega þetta er eftir haft í New York times. En þarna virðist Gísli tala um Ameríku en ekki Vínland enda næstum 150 ár frá því Kólumbus fann hana þegar Gísli skrifar þetta. Reyndar eru til meira en getgátur í fleiri íslenskum handritum en Grænlendingasögu og Eiríkssögu rauða, þess efnis að fólk frá Íslandi hafi sett sig niður í Ameríku löngu fyrir annálagrúsk Gísla Oddsonar biskups.

Hermann Pálsson prófessor í norrænum fræðum við Edinborgarháskóla bennti á að; "Samkvæmt Eyrbyggju var Guðleifur Þorfinnsson farmaður úr Straumfirði á siglingu frá Dyflinni til Íslands, þegar hann hrakti vestur um haf; þá bar hann að landi sem minnir mjög á Vínland; þar töluðu menn írsku og helsti leiðtogi þeirra var aldraður Íslendingur, grár fyrir hærum, sem neitaði tvívegis að segja til nafns síns, en með því að hann kvaðst vera betri vinur húsfreyjunnar á Fróðá en goðans á Helgafelli, þykjast allir vita að maðurinn hljóti að hafa verið Björn Breiðvíkingakappi. Frá hinu ókunna landi í vestri siglir Guðleifur austur um haf til Írlands, á þar vetrardvöl og heldur síðan heim til Íslands sumarið eftir; hið vestræna land er tengt Írlandi á ýmsa lund. Hrakningar Guðleifs eiga að hafa gerst skömmu fyrir 1030.

Í Landnámu segir frá Ara Mássyni á Reykhólum, sem var farmaður rétt eins og Guðleifur úr Straumfirði, Leifur heppni og Þorfinnur karlsefni en ílentist í ókunnu landi eins og Björn Breiðvíkingakappi. Frásögnin af Ara er í sneggsta lagi: "Hann varð sæhafi til Hvítramannalands; það kalla sumir Írland hið mikla; það liggur vestur í haf nær Vínlandi hinu góða; það er kallað sex dægra sigling vestur frá Írlandi. Þaðan náði Ari eigi á brutt að fara og var þar skírður. Þessa sögu sagði fyrst Hrafn Hlymreksfari, er lengi hafði verið í Hlymreki á Írlandi. Svo kvað Þorkell Gellisson segja íslenska menn, þá er heyrt höfðu frá segja Þorfinn jarl í Orkneyjum, að Ari hefði kenndur verið á Hvítramannalandi og náði eigi brutt að fara, en var þar vel virður. Ari átti Þorgerði dóttur Álfs úr Dölum; þeirra son var Þorgils og Guðleifur og Illugi; það er Reyknesingaætt.""

Hvaða fólk í Ameríku Gísli á við er auðvitað ráðgáta. Á hann við frumbyggja eða voru það norrænir landnemar Ameríku sem Grænlendingar sameinuðust? Gæti verið að það undanhald sem frelsiselskandi menn voru á þegar Ísland byggðist, hafi haldið áfram vestur yfir haf og byggð Evrópumanna hafi verið til staðar í Ameríku? Alla vega virðast orð Gísla biskups bera merki þess að hann sé hneykslaður ákvörðun kristins samfélags á Grænlandi, þegar hann rekst á þessi gömlu annálsbrot. Þarna gæti því verið skýring á hve snögglega byggð norrænna manna á Grænland hvarf og ekki er ólíklegt ef djúpt væri kafað í skjalsöfn Vatíkansins að þar mætti finna frekari vitneskju um það hvað varð um afkomendur Íslendinga á Grænlandi. Á Grænlandi hafði kaþólska kirkjan gríðarleg ítök, og hefur kostað miklu til af rústum dómkirkjunnar í Görðum að dæma.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband