Öldin er önnur en þokan sú sama

Það verður seint sagt um suma staði að þeir megi muni sinn fífil fegurri. Þeir eru einfaldlega eins og fíflarnir sem þrífast betur eftir því sem harðar er að þeim sótt. Einn af þessum stöðum er Djúpivogur sem er á Búlandsnesinu á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Það er ekki nóg með að staðnum hafi fleytt fram, heldur hefur Búlandsnesið stækkað svo um munar. Þar hafa hafstraumar sópað upp sandi og búið til nýjar landfyllingar á milli eyja sem áður voru úti fyrir landi.

IMG_2945

Búlandsnesið, þar sem Djúpivogur sker sig inn í landið, hefur þá sérstöðu að vera kristfjárjörð, þ.e. að hafa verið arfleitt Jesú Kristi en hvorki ríki né kirkju. Í bók sinni Að Breyta fjalli fer Stefán Jónsson fréttamaður yfir þau vandkvæði sem felast í því þegar kristfjárjarðir eru annarsvegar og engir pappírar finnast um gjörninginn. Hann segir m.a.; „hitt er ljóst að einhver eigandi jarðarinnar til forna gaf hana fátækum í Geithellnahreppi fyrir sálu sinni“ og rekur síðan vandræði sveitarstjórnarmanna í hinum forna Geithellnahreppi.

Það er ekki víða á Íslandi sem fólk býr bókstaflega í landi Jesú Krists; við ævintýr, sem innihalda leyndardómsfullt landslag, heimsins hæsta píramída og sannar sjóræningja sögur. Og það sem dularfyllst er af öllu, hina óendanlegu Austfjarðaþoku. Nikólína Weywadt, sem fyrst tók veðurathuganir fyrir Veðurstofuna við Berufjörð og fyrsti ljósmyndari á Austurlandi, taldi á þriðja hundrað þoku daga um margra ára skeið í veðurathugum sínum á síðustu ártugum 19. aldar. Þeir sem vilja gera lítið úr Austfjarðaþokunni hafa haldið því fram að ekki hafi þokubólstur mátt bera í Búlandstindinn svo Nikólína hafi ekki talið þokudag.

Eftir að hafa búið á Djúpavogi hátt á annan áratug, í lok síðustu aldar, dettur mér ekki í hug að rengja veðurathuganir Nikólínu Weywadt, og er ég ekki frá því að hafa upplifað á þriðjahundrað daga á ári umlukinn þoku. Eins bera fjölmargar ljósmyndir Nikólínu frá Djúpavogi þess merki að þokan hafi verið venju fremur ágeng á hennar tíð. Þokan á sér mun fleiri hliðar en dulúðina, að úr henni ýrist úði og í henni geti leynst álfabyggðir og falleg fjöll. Stefá Jónsson fréttamaður sagði um hana m.a.í bók sinni Gaddaskata að þokan gæti orðið svo þykk í Djúpavogsblánum að lítið hefði þýtt að leita þar að belju fyrr en andardráttur hennar hefði fundist við eyrað.

IMG_2921

Síðustu helgi var varið á Djúpavogi og naut ég þess að upplifði sólskinsbjarta Jónsmessunótta í eitt skiptið enn. Byrjaði á að fara upp á Bóndavörðu þar sem útsýnið yfir bæinn er best. Þokan kom yfir Búlandsnesið og byrgði fljótlega sýn. Drunur sem ég gat mér til að væru frá skipsvélum heyrðust út úr þokunni í gegnum næturkyrrðina, skreytta fuglasöng. Ég hugsaði með mér hvað ef Hundtyrkinn væri nú aftur á ferð um þennan bjarta tíma. Það var fyrir hátt í 400 árum sem þokan bjargaði þeim fáu sem þá urðu eftir við þennan fjörð.

Um þá nótt var sumarblíða á Djúpavogi, bjart en þoka í miðjum hlíðum. Sjóræningjaskipin sigldu inn Berufjörð að Djúpavogi og vörpuðu akkerum á móts við Berunes. Um morguninn og næstu tvo daga á eftir fóru sjóræningjarnir með ránum og manndrápum um verslunarstaðin við Djúpavog, Hálsþinghá, en svo nefndist íbúabyggðin þá, Berufjarðarströnd og Breiðdal. Hundtyrkinn drap fjölda fólks og tóku á annað hundrað manns til fanga er þeir seldu í Barbaríinu í Alsír.

Þeir fáu íbúar sem sluppu undan Tyrkjunum, sem voru ekki Tyrkir, komust inn í þokuna til að leynast þangað til sjóræningjaskipin léttu akkerum og hægt var að snúa heim á ný. Jón Helgason segir í bók sinni um Tyrkjaránið; „Ömurlegastir voru þó í umkomuleysi sínu þeir bæir, er enginn vitjaði, þótt skipin væru horfin á braut og þeir voru margir um Berufjarðarströnd og Hálsþinghá: Allt fólkið hertekið. Börnin sem þar höfði signt sig á bæjarhlaðinu hvern morgun, tóku ekki gleði sína á ný við leik á hóli eða fjörusandi, þau grétu í dimmum og fúlum lestum víkingaskipanna.“

IMG_2993

Svalbarðstanginn sem aðskilur Gleðivíkurnar, farþegaskip stefnir inn á þá innri þar sem höfnin er með heimsfrægu eggjunum hans Sigurðar í "Himnaríki". Út á firði liggur annað farþegaskip við akkeri og ber í þokuna, sem ferjaði farþegana í land með skipsbátunum.

Þegar ég rýndi út í þokuna, þaðan sem drunurnar heyrðust, sá ég grilla í stórt skip koma út úr þokunni. Fljótlega koma annað og stemmdu þau inn Berufjörðinn. Það fyrra kastaði akkerum út af Djúpavogi á móts við Berunes rétt eins og sjóræningja skipin forðum. Seinna skipið sigldi fullri ferð fram hjá því fyrra inn á höfnina í Innri-Gleðivík. En í þetta sinn voru það skemmtiferðaskip og við Matthildur mín stödd á Djúpavogi sem barnapíur dótturdóttir okkar, sólargeislans Ævi, en foreldrar hennar þjónustuðu ferðamenn þessa Jónsmessuhelgi.

Undanfarin ár hefur á Djúpavogi verið gert gríðarlegt áttak í ferðaþjónustu og varðveislu gamalla húsa, bærinn bókstaflega blómstrar hjá öllu því unga fólki sem þar lætur drauma sína rætast. Ég notaði nóttina til að rölta um og skoða fyrrum heimabæ okkar Matthildar og minntist góðra daga okkar bestu ára. Þá voru farin að sjást merki þess í hvað stefndi. Þá gengu húsin Geysir og Langabúð í endurnýjun lífdaga eftir erfið ár. Þá voru þau hús sem mín kynslóð byggði ný og glæsileg en mörg gömlu húsin í lakar ástandi. Nú má segja að öldin sé önnur. Þegar ég skoðaði húsin sá ég að rétt var að nota þokuna til að fara með veggjum, eða réttara sagt klettum. Því það sama á við um mig og verkin mín, að eldast illa.

Við Matthildur yfirgáfum Djúpavog um aldamótin. Það voru erfiðir tímar. Hún sjómannsdóttirin fædd og uppalin í einu af fallegu húsum bæjarins. Stuttu áður höfðu fjögur stór fiskiskip verið seld frá staðnum á nokkrum mánuðum. Íbúum fækkaði, nemendum í skólanum fækkaði um helming á örfáum árum. Aflaheimildir og fiskvinnsla var vistuð hjá Vísi í Grindavík sem hélt uppi skertri vinnslu á Djúpavogi, þar til fyrir skemmstu að þeir léttu akkerum hurfu á braut.

IMG_3022

 Gamli góði Djúpivogur, verslunarhöfn í 430 ár og fiskihöfn frá ómunatíð.

Þó svo að áfallið hafi verið stórt þegar fleiri þúsund tonna kvóti fór frá staðnum á svo til einni nóttu þá hefur unga fólkið á Djúpavogi aldrei misst móðinn, það þrífst líkt og fíflarnir sem vonlaust er að slá, því þeir spretta bara enn fleiri blómstrandi upp aftur morgunnin eftir. Staðurinn sem stendur í kristfjárjörðinni hefur sennilega alla tíð átt því láni að fagna að þar fær unga fólkið tækifæri til að láta drauma sína rætast, rétt eins og sá maður sem stal sjálfum sér forðum -Hans Jónatan; fyrsti blökkumaðurinn er sögur fara af á Íslandi.

Á mínum manndómsárum á Djúpavogi varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera í hreppsnefnd í því sem næst tvö kjörtímabil, það fyrra var styttra vegna sameiningar sveitarfélaganna, Búlands-, Berunes- og Geithellna-hreppa. Oft var tekist á um málefni dagsins á minni tíð en aldrei um varðveislu þess gamla. Það er helst að ég minnist þess að við höfum jagast um staðsetningu Geysis. Ég vildi ekki færa Geysi um sentímetra, en við húsið var í þá daga eitt helsta blindhorn bæjarins. Þar varð ég undir í argvítugum minnihluta eins og vanalega.

Ég sá það, þegar þokunni létti svo undursamlega á þessu Jónsmessunætur rölti, að auðvitað hef ég hagað mér eins og hálfviti mest alla tíð, en læt mig samt dreyma um að þokan hafi byrgt mér sín og öldin verið önnur.

Ps. set hér inn nokkrar myndir af misjafnlega gömlum húsum í bænum.

IMG_2959

Geysir var byggður sem hótel rétt fyrir aldamótin 1900 og þjónaði sem slíkur fyrstu árin. Húsið var lengist af notað sem íbúðarhús, og fyrir verslunina Djúpið þegar ég kom á Djúpavog. Hýsir nú skrifstofur Djúpavogshrepps. Húsið gekk í endurnýjun lífdaga um aldamótin 2000. 

 

IMG_0657

Nýja Lögberg, fjölbýlishús með fjórum íbúðum, byggt einhvertíma í kringum 1940.

 

IMG_0659

Gamla Lögberg sagt byggt 1914. Mig minnir að bakhliðar þess hafi verið torfveggir áður en það fékk yfirhalningu, sem gæti bent til þess að það hafi verið byggt í eldri tóft.

 

IMG_0680

Björk, var áður með "kastala brjóstvörn" og torfþaki. Sennilega byggt fleirum en einum áfanga eftir brjóstvitinu. Nýtur sín vel nú sem fyrr, þó svo "brjótsvörn kastalans" sjáist ekki lengur, orðið að húsi funky stíl.

 

IMG_0718

Ásbyrgi byggt 1947 gekk í endurnýjun lífdaga 1989.

 

IMG_0710

Langabúð t.v. er í reynd röð gamalla sambyggðra húsa frá árunum 1758-1850, endurgerð 1989-1997 - Faktorshús t.h. byggt 1848. Bæði húsin tilheyrðu versluninni á Djúpavogi um aldir og fór verslun Kaupfélags Berufjarðar þar fram til ársins 1985.

 

IMG_0741

Bæjarstæðið á Djúpavogi séð frá Bóndavörðu. Hann er óvíða fegurri sjóndeildarhringurinn en á þessum góða útsýnisstað, heyrst hefur fagnaðar kliður frá ferðamönnum sem koma í þoku og sjá henni létta. Hálsþinghá og Hamarsfjörður fjærst t.h., Berufjörður t.v.,,,,jú ég sé að það leynir sér ekki að Geysir hefði átt að fá að standa áfram á sínum stað á bláhorninu í Hótelhæðinni.


Hvar er gimsteinninn í augum þínum ljúfan?

Það kemur fyrir að við hjónin setjumst upp í okkar gamla Cherokee frá því á síðustu öld. Þá hlustum við á þjóðskáldið syngja um það þegar það hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann. Sjaldnast verða úr þessum Cherokee setum undur og stórmerki í fjaðrasófum grænum, en kemur þó fyrir.

Um síðustu helgi skein t.d. skyndilega við sólu Skagafjörður, eða kannski réttara sagt sólin og Skagafjörðurinn skinust á. Reyndar hafði blundað í mér pílagrímsför í Skagafjörðinn, þó þar megi finna margar helstu perlur íslenskrar byggingalistar er þar ein slík sem hefur glitrað lengur og skærar en allar þær háu svörtu turnlöguðu með skúrþökunum, og jafnvel skærar en sjálft Sólfarið við Sæbraut. 

Það var semsagt síðastliðinn föstudag sem tekin var skyndiákvörðun um að bruna í Skagafjörðinn með gömlu fermingar svefnpokana og láta endanlega verða af því að skoða Víðimýrarkirkju. Í leiðinni var litið á fleiri perlur íslenskrar byggingalistar, m.a. Grenjaðarstað í Aðaldal, Glaumbæ í Skagafirði, Hólakirkju í Hjaltadal, Grafarkirkju við Hofsós og Saurbæjarkirkju inn í Eyjafirði.

IMG_2728

Já skrítið, aðallega torf, sprek og grjót og það hjá steypu kalli. Það má segja sem svo að ég hafi verið orðin hundleiður á að horfa út undan rofabarðinu á kólgugrátt Urriðavatnið og skrapa steypugólfið í niðurgröfnum moldarhaug sem mér var komið fyrir í vor, svo að ég gat ekki lengur á mér setið. Enda minnir mig Nóbelskáldið hafi einhversstaðar komist svo að orði að sementið væri byggingarefni djöfulsins og getur það svo sem verið rétt ef það nær til að harðan sem ómótaður óskapnaður.

En um Víðimýrarkirkju hafði Nóbelskáldið þetta að segja; „Tveggja íslenskra bygginga er oft getið erlendis og fluttar af þeim myndir í sérritum um þjóðlega byggingalist. Önnur er Víðimýrarkirkja. Ég held að það sé ekki of djúpt tekið í árinni þótt sagt sé að aðrar kirkjur á Íslandi séu tiltölulega langt frá því að geta talist verðmætar frá sjónarmiði byggingarlistar. Víðimýrarkirkjan litla er okkar Péturskirkja – þar sem hver rúmmetri ber í sér innihald þannig að virðuleiki hinnar litlu frumstæðu byggingar er í ætt við sjálfar heimskirkjurnar, þótt sjálft kirkjuinnið sé ekki stærra um sig en lítil setustofa og verðgildi byggingarinnar komist ekki til jafns við meðal hesthús.“

Þegar við hjónin komum að Víðimýrarkirkju í glampandi sól og sumarhita þá var hún læst. Við vorum varla farin að hugleiða það að naga þröskuldinn þegar staðarhaldarinn Einar Örn kom askvaðandi yfir túnið á ensku. Við heilsuðum á íslensku og tókum tvisvar fram að hún væri okkar móðurmál. Hann bað afsökunar á margítrekuðu athugunarleysinu en sagðist hafa það sér til málsbóta að sjaldséðir væru hvítir hrafnar. Þetta var reyndar ekki eini staðurinn í þessari ferð sem þetta kom upp, þetta var viðkvæðið á öllum þeim stöðum sem höfðu að geyma þjóðlega menningu og byggingalist sem við skoðuðum í þessari ferð.

Einar Örn bætti heldur betur fyrir óþrifalega enskuslettuna með því að segja skemmtilegar  sögur úr kirkjunni. Það á t.d. að hafa tekið 6 tíma að ferma Stefán G Stefánsson Klettafjallaskáld samkvæmt því sem skáldið sagði sjálft eftir að hann var fluttur til Ameríku. Presturinn sofnaði þrisvar og þurfti jafn oft út þegar hann vaknaði til að fá sér ferskt loft og hressingu en hafði alltaf gleymt hvar í athöfninni hann var staddur þegar hann kom inn aftur og byrjaði því upp á nýtt. Þessi langdregna fermingarmessa fór illa í suma Skagfirska bændur því það var brakandi heyskaparþurrkur.

IMG_2736

Altaristafla Víðimýrarkirkju er frá kaþólskum sið því ekki þótti taka því að skipta henni út við siðaskiptin. Eins fengum við að heyra að kirkjan væri vinsæl til hjónavígslna, og þá oft um erlend pör að ræða, ekki væri óalgengt að þau bókuðu með margra mánaða, jafnvel ára fyrirvara. Fyrir nokkru hafði samt verið gefið saman í skyndingu par, þar sem hann var gyðingur en hún kaþólikki. Þau hefðu verið spurð hvernig þau ætluðu að skýra út fyrir sínum nánustu valið á guðshúsinu. Gyðingurinn svaraði fyrir þau bæði og sagði að það væri seinna tíma vandámál sem biði þar til heim væri komið.

Þó svo litla listaverkið sem kostað var minna til en meðal hesthúss, að mati Nóbelskáldsins, hafi ekki staðið í Víðimýri nema frá 1864 þá eru margir munir hennar mun eldri, líkt og altaristaflan. Í Víðimýri hefur verið bændakirkja frá fornu fari, eða allt frá kristnitöku á Íslandi. Hún var samt ekki talin til sóknarkirkna fyrr en árið 1096. Það er ekki vitað hver lét reisa upphaflegu kirkjuna. En sú hefur verið rúm miðað við núverandi kirkju, því að í henni voru sögð vera 4 altari, eitt háaltari og þrjú utar í kirkjunni. Víðimýrarkirkja var helguð Maríu mey og Pétri postula.

Það hafa margir merkir prestar þjónað staðnum, þ.á.m. Guðmundur góði Arason, sem varð síðar biskup á Hólum 1203-1237. Kolbeinn Tumason var þá héraðshöfðingi í Skagafirði og kom Guðmundi góða á biskupsstól og hugsaði sér með því gott til glóðarinnar. En öðruvísi fór með sjóferð þá því Guðmundur lét ekki að stjórn og endaði Kolbeinn líf sitt í Víðinesbardaga við Hóla þegar einn af mönnum Guðmundar góða kastaði grjóti í hausinn á honum. 

IMG_2732

Þá var öldin kennd við Sturlunga og menn ortu sálma á milli manndrápa. Kolbeinn Tumason var af ætt Ásbirninga og hafði lagt margt á sig til að halda höfðingja tign m.a. við Lönguhlíðarbrennu, þar sem Guðmundur dýri Þorvaldsson og Kolbeinn fóru að Lönguhlíð í Hörgárdal og brenndu inni Önund Þorkelsson ásamt Þorfinni syni hans og fjóra aðra en mörgum öðrum heimamönnum voru gefin grið. Þeir Önundur og Guðmundur höfðu átt í deilum og brennan var talin níðingsverk.

Sálmurinn Heyr himna smiður er eftir Kolbein Tumason í Víðimýri, hvort hann hefur fengið hugmyndina af honum kirkjunni eftir Lönguhlíðarbrennu skal ósagt látið, en talið er að hann hafi samið hann rétt fyrir andlát sitt þegar hann fór fylktu liði í Hóla til að tukta Guðmund góða biskup Arason, er svo slysalega vildi til að einn af liðsmönnum biskups kastaði steini í höfuðið á Kolbeini. Eins og Sturlunga fer greinilega með heimildir og nafngreinir þá sem að manndrápum koma þá upplýsir hún ekki hver var grjótkastarinn.

Kolbeinn kvað; „Heyr, himna smiður, hvers skáldið biður, komi mjúk til mín miskunnin þín. Því heit eg á þig, þú hefur skaptan mig, ég er þrællinn þinn, þú ert Drottinn minn.“ Þessi sálmur er ein af gersemum íslenskrar tungu sem fer stórum á youtube með yfir 7 milljón áhorf. Eftir pílagrímsferð í Mekka íslenskrar byggingalistar er þá nema von að sonur þjóðar, sem  þarf að kynna sín helstu menningarverðmæti á ensku á eigin heimavelli til þess að hafa áheyrendur, spyrji líkt og Bubbi; Hvar er gimsteinninn í augum þínum ljúfan?

 


Kolefnisjöfnum helvíti og málið er dautt

Það líður yfirleitt ekki langur tími eftir að stjórnmálamaður nær kjöri þar til hann fer að boða kjósendum sínum kolefnisfríar galdrabrennur eða aflátsbréf á kostakjörum, ásamt örðum túrbó trixum. 

Á síðunni Stormsker Fan var saga sem vel er þess virði að lesa í tilefni dagsins og til að átta sig á vegferð þessara meistara "Nígeríusvindlsins" inn í draumalandið.

"Sál þingmannsins kemur til himna og Lykla Pétur tekur á móti honum og segir: Áður en þú kemur þér fyrir þá er smá vandamál sem við verðum að leysa. Við fáum ekki svo oft alþingismenn hingað svo við vitum ekki alveg hvað við eigum að gera við þig.

Ekkert vandamál, hleyptu mér bara inn.

Nei ég er að bíða eftir skipunum að ofan.

Jæja þá er það ákveðið: Við leyfum þér að eyða einum degi í helvíti og öðrum degi á himnum og þá getur þú ákveðið hvoru megin þú vilt vera til eilífðar.

Virkilega?? Þá vel ég bara að vera hér á himnum. Því miður, við verðum að fylgja reglum hér.

Og að svo búnu fara þeir inn í lyftu sem tekur þá niður, niður niður, alla leið til helvítis. Þegar dyrnar opnast þá sjá þeir grænan stóran golfvöll með flottu klúbbhúsi og fyrir framan húsið eru allir gömlu vinir hans og aðrir pólitíkusar sem höfðu unnið með honum.

Allir eru glaðir og þeir taka vel á móti honum og taka í höndina á honum, tala um góðu tímana þegar þeir voru að verða ríkir á kostnað almúgans.

Fóru 18 holur á golfvellinum og borðuðu humar, kavíar og drukku Kampavín með. Djöfullinn kom sjálfur, var rosa fínn og sagði brandara.

Það var svo gaman að tíminn var fljótur að líða og allt í einu voru þessir 24 tímar liðnir og tími til að fara.

Allir kvöddu hann með virtum og lyftan fór upp,upp,upp, alla leið til himna.

Nú er tími til að heimsækja himnaríki!

Svo næstu 24 tímana þá var hann að ræða við sáttar sálir og ferðaðist milli skýjanna, spilaði á hörpu og söng.

Tíminn leið hratt og eftir 24 tíma kom Lykla Pétur og sagði, nú ert þú búinn að vera einn dag í helvíti og annan dag á himnum… Hvort velurðu??

Alþingismaðurinn hikar aðeins við en segir svo: Ég átti nú ekki von á að ég mundi svara svona, en eins og þetta er fínt og flott hérna uppi þá held ég að ég velji helvíti frekar.

Svo Lykla Pétur fylgdi honum niður í lyftunni. Þegar dyrnar opnast þá sér hann bara ógróið land fullt að sorpi, allir gömlu vinir hans eru klæddir í gamla garma og eru að tína upp rusl og alltaf er meira að detta niður.

Djöfullinn kemur og setur höndina yfir herðar hans og býður hann velkominn. Ég skil þetta ekki alveg??? Í gær var hér golfvöllur, við borðuðum kavíar, humar og drukkum Kampavín og nutum hverrar mínútu… Hvað skeði?

Djöfullinn lítur í augu hans og segir: Í gær vorum við í kosningabaráttu… “Núna ert þú búinn að kjósa."


mbl.is Fyrsta skrefið í átt að „draumnum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir Íslendingar

IMG_1922

Það er flestum ljóst að það vorum ekki við sem fundum upp hjólið og auk þess seinir til að tileinka okkur kosti þess. Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að við höfum þróað með okkur axarskaftið. Sú saga sem við höfum af mestri sjálfsumgleði hampað, er frá þeim tímum sem teljast til gullalda, þ.e. þjóðveldisöldin, og svo 20. öldin frá hingaðkomu hjólsins. Þarna á milli er margra alda saga sem hefur verið lítið höfð í frammi af okkur sjálfum. Enda tímar niðurlægingar og hörmunga sem mörgum finnst fara best á því að gleyma eins og hverjum öðru hundsbiti.

Það er engu líkara en þjóðarsálin skammist sín mest af öllu fyrir hversu snögglega hún hrökk inn í nútímann. Lífshættir áratuganna á undan eru huldir móðu nema ef vera kynni að vottaði örlítið fyrir þeim í Íslandssögu Jónasar frá Hriflu fyrir börn, sem þykir ekki trúverðugt plagg, jafnvel argasta þjóðernispólitík. Þögnin hefur verið látin að mestu um að greina frá lífsháttum þessa volaða tíma eftir að drunur jarðýtnanna hljóðnuðu sem sáu um að varðveita byggingasöguna.

En nú á tímum umhverfisvitundar er samt að koma æ betur í ljós að fyrir fátt er að fyrirverða sig, fyrri tíma þjóðlíf og byggingahefð hafði að geyma eitthvert umhverfisvænsta og sjálfbærasta mannlíf sem fyrir fannst á byggðu bóli. Þrátt fyrir að við kjósum að sjá ekki annað en moldarkofa og rolluskjátur, sem eiga að hafa eytt skógum og jafnvel nagað gat á jarðskorpuna. En á móti komu átthagafjötrar vistarbandsins sem lágmarka kolefnissporið með mælihvörðum nútímans. 

Þó svo áar okkar hafi vissulega flest verið því fegin að komast út úr hálf hrundum moldarkofum og losna undan því að rölta á eftir rollum allt sitt líf þá er óþarfi að blygðast sín fyrir söguna um ókomna tíð. Nú er flest það fólk sem hörmungina upplifði fallið frá og verður ekki gerð nein minnkun þó svo að þessari sögu sé haldið á lofti. Og sem betur fer var til fólk sem áttaði sig á því hvað íslenskt þjóðlíf var einstakt á heimsvísu og hélt ýmsu til haga sem annars hefði orðið jarðýtutönninni að bráð.

Árunum 1890-1920 gerði hinn danski Daniel Bruun skil og varð svo hugfangin af landi og þjóð að hann ferðaðist vítt og breytt um landið. Með í föruneyti sínu hafði Bruun ljósmyndara og málara til að festa á mynd það sem fyrir augu bar. Jafnframt stundaði hann fornleifarannsóknir og skráði niður búskaparhætti, samgöngumáta, fæði, klæði og húsakost. Svo uppnuminn varð Bruun að hann lagði til að fyrirhugaður sýningarbás Danaveldis, á heimsýningu í París, sýndi íslenskan veruleika, ásamt færeyskum og grænlenskum.

Sandfell

Danskir landmælingamenn í túninu við Sandfell í Öræfum árið 1902.Í bók Ófeigs Sigurðssonar, Öræfi, segir frá því, þegar hringvegurinn var formlega opnaður með því að frammámenn  þjóðarinnar komu og klipptu á borða; "1974 þegar reynt var að geðjast forseta lýðveldisins með því að landbúnaðarráðuneytið kveikti í Sandfellsbænum og slétti út tóftunum með jarðýtu, þetta hátíðarár, var sérstakt húsfriðunarár í Evrópu, þá áttuðu menn sig ekki á því að forsetinn var fornleifafræðingur að mennt og fyrrum þjóðminjavörður Íslendinga".

Það voru fleiri útlendingar en Danir sem áttuðu sig á sérstöðu Íslands. Þjóðverjarnir Hanz Kuhn, Reinhard Prinz og Bruno Schweizer fóru um Ísland á fyrri hluta 20. aldar, í kjölfar Daniels Bruun og fylgdust með hvernig landið stökk inn í nútímann. Bókaforlagið Örn og Örlygur gaf út árið 1987 tvær veglegar bækur, sem gera ferðum Daniels Bruun skil, undir heitinu Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Og árið 2003 þrjú bindi Úr torfbæjum inn í tækniöld, sem segir frá ferðum þjóðverjanna.

Formála bókanna Úr torfbæjum inn í tækniöld er fylgt úr hlaði m.a. með þessum orðum. „Íslendingar voru opnir fyrir nýjungum og fljótir að kasta fyrir róða gömlum tækjum og tólum. Hanz Kuhn veitti þessu athygli og skrifaði 1932; „Á Íslandi tekur bíllinn beint við af reiðhestum og áburðarklárum - hestvagnatímabilinu byrjaði að ljúka skömmu eftir að það hófst. Togarar taka beint við af opnum árabátum, steinsteypan af torfinu, gervisilki af vaðmáli og stálbitabrýr í stað hesta sem syntu yfir jökulvötn.“

Í þrem bókum Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, Baráttan um brauði og Fyrir sunnan er að finna einhverjar raunsönnustu heimildir um daglegt líf fólks á þessum miklu umbrotatímum. Þar lýsir Tryggvi lífi sínu í hálfhrundum torfbæjum við sjálfsþurftarbúskap með lítinn bústofn sem samanstóð af nokkrum, rolluskjátum, hesti, hundi, og belju. Þar eru lýsingar á því hvernig þarfasti þjónninn missti hlutverk sitt á einni nóttu, eftir að bíll komst einu sinni með flutning og fólk á palli í sveitina, og var hesturinn aldrei notaður eftir það til ferða í kaupstað. Í bókunum má finna lýsingar á braggalífi og því hvernig ríkisútvarpið, hernámið og hitaveitan breytti öllum heimilissiðum og heimsviðmiðum. Tryggvi endaði einstakt æviskeið sem skrifstofumaður, búandi í raðhúsi í Reykjavík.

Ég fékk nasasjón í mýflugumynd af þessum gamla tíma kyrrstöðu, umbrota og framfara úr baksýnisspegli ömmu minnar og afa. Þar varð ég var við tvennskonar viðhorf. Þegar ég spurði afa minn hvort ekki hefði verið notalegt að alast upp í gamladaga með torfbæ sem skjól út á grænni grundu á meðan yndi vorsins undu skoppandi í kringum lítinn smaladreng. Þá hristi hann höfuðið og sagði; „minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn" og bætti svo við að þetta hefði verið hörmungar hokur. Aftur á móti tók ég oft eftir því að þegar amma var kominn í upphlutinn þá var hún farin yfir í hátíðlegri heim, og rokkurinn sem til hennar gekk frá móður hennar er eitt af mínum dýrmætustu stofustássum þó hann sé fyrir löngu þagnaður.

Undanfarin ár hafa augu mín og eyru opnast fyrir þessari mögnuðu sögu. Þegar sól skín í heiði og tækifæri er til þá höfum við Matthildur mín ekki látið hjá líða að heimsækja þá fáu torfbæi sem enn finnast í landinu. Það eru ennþá til kot, kirkjur og höfðingjasetur, sem má skoða. Þeir sem hafa heimsótt þessa síðu í gegnum tíðina ættu að hafa orðið varir við myndir og frásagnir frá þessum torfbæja túrum. Núna þegar sumarið er brostið á enn á ný, eru ferðir farnar út um þúfur. Mælir síðuhöfundur með þjóðlegum þúfnagangi um leið og hann óskar lesendum gleðilegs þjóðhátíðardags.

 

IMG_1913

Glaumbær í Skagafirði árið 1896 þegar Daniel Bruun var þar á ferð

 

GlaumbærII

Enn má finna forna bæi á ferð um landið. Síðasta fjölskyldan flutti úr Glaumbæ 1948. Bærinn er nú í vörslu Þjóðminjasafnsins. Er það talið hafa skipt sköpum varðandi varðveislu bæjarins að Íslandsvinurinn Mark Watson gaf til þess 200 sterlingspund árið 1938

 

IMG_3251

Í gamla hlóðaeldhúsinu í Glaumbæ 2017

 

Glaumbær eldhús

Teikning Daniels Bruun af hlóðaeldhúsinu í Glaumbæ, sem er að grunni til frá 1785


Húh, poppúlismi og víkingaklapp

Hvað er það sem gerir okkur að þjóð? Er það þegar landsliðið þjappar okkur saman á góðri stund og við klöppum og hrópum HÚH? Það örlaði á því að erlendir öfga þjóðernissinnar gerðu að því skóna á sínum tíma, að íslenska landsliðið væri gott dæmi um hvers samstaða hreins kynstofns væri megnug. En við vitum öll að húh-ið og víkingaklappið við Arnarhól átti ekkert skylt við það Seig Heil sem þjappaði saman Þýskalandi Nasismans.

Eru það þá kannski erfðir, eins og Kári segir með sinni greiningu, það sem gerir okkur að þjóð? Krabbi í genum sem má greina í tíma og jafnvel taka ákvörðun um að fjarlæga bara ef samþykki fæst til að upplýsa viðkomandi? Kannski á erfðagreiningin eftir að finna alsheimer genið og aðferð til að fjarlæga það með víkingaklappi fjölþjóðlega? Það er samt langsótt að genin ein, þó víkinga séu, myndi þjóð og mun líklegra að upplýsingatækni erfðagreiningar eigi sínar ættir að rekja til trixa Útgarða Loka, eða jafnvel í sjálfan money haven lyfjarisanna.

Er það þá tungumálið sem gerir okkur að þjóð? Þessi vanrækta örtunga sem á nú í vök að verjast? Oftar en einu sinni hef ég heyrt Pólverja, sem hafa búið árum saman hér á landi, halda því fram að það taki því ekki að læra tungumál sem 300 þúsund hræður tali. Nær væri að þessar hræður lærðu Pólsku sem töluð væri af hátt í 40 milljónum manna. Þessir Pólsku kunningjar mínir hafa þó engin áform uppi um að yfirgefa Ísland og ég svo sem ekki annað í huga en að skilja þá á mínum heimaslóðum. Þeir eru þá sérstakir Pólverjar, hafa þrammað úr einu union-inu í annað til þess eins geta talið sig vera sjálfstæða þjóð.

Er réttara að þjóðin hagi sér almennt eins og gamli Akureyringurinn þegar hann bauð mér Good morning við ruslatunnurnar til þess að vera alveg öruggur með að gera sig ekki að viðundri? Jafnvel þó ég væri hrolleygður bláskjár í gatslitinni lopapeysu í morgunn kulinu og svaraði með góðan daginn á því ástkæra og ylhýra. Ég varð svo uppnumin af morgunn andagt gamla mannsins að ég sagði vinnufélögum mínum að ég væri nokkuð viss um að landar okkar á Akureyri væru nú þegar farnir að búa sig undir að hætta að tala íslensku ég hefði ekki betur heyrt en þeir væru farnir að tala fjölmenningartungum.

Það er þessi tunga, sem enn í dag á það til að sameina okkur í húh-i, sem varðveitir okkar þjóðarsögu með víkingaklappi. Jafnvel þó nútíma fræðimenn telji þjóðar söguna grobb byggt á hæpnum munnmælum. Þjóðin hafi hreinlega verið óskrifandi fyrstu fjögur- fimmhundruð árin sem hún byggðu þetta land. Víkingaklapp sé lygagrobb, kannski fyrir utan Egil Sklallgísmsson, þetta hafi verið hæglætis sauðfjár bænda bjálfar sem hafi skemmt sér við að þylja sáldskap í kuldanum á dimmum vetrarkvöldum.

Samt var frétt af því ekki alls fyrir löngu að Sænskir sérfræðingar teldu sig hafa fundið íslenska skáldið Jökul Bárðarson sem Ólafur helgi Noregskonungur lét drepa á Gotlandi árið 1029. Það kom þeim á sporið að áverkar voru á höfðakúpu íslenska haugbúans á Gotland, sem  samsvöruðu nákvæmlega víkingaklappi, sem passaði þar að auki við nútama greiningar, og húh-að hafði verið um á sínum tíma. En Grettis sagan á að hafa verið húh-uð í 3-400 ár áður en hún komst á prent. Jökull á að hafa verið frændi Grettis sterka Ásmundssonar og var skáldmæltur. Honum hafa verið eignuð fleygustu orð Grettis sögu, jafnvel íslenskrar tungu í gegnum tíðina, s.s.sitt er hvað gæfa eða gjörvuleikur, lítið verk og löðurmannlegt, lengi skal manninn reyna, ofl., ofl..

Sturlunga er sögð samtímasaga, þ.e.a.s. skrifuð á þeim tíma sem hún gerist. Fræðimenn hafa ætlað Snorra Sturlusyni höfundarréttinn af fornsögunum. Það er samt ekki minnst einu orði á það í Sturlungu að Snorri hafi hripað niður glósur á meðan landsmenn húh-uðu í myrkrinu. Hann var höfðingi á sinni tíð samkvæmt sögunni, og umtalaðasta bókmenntaverk hans í þann tíma var Háttartal sem var talinn leirburður ætlaður til að smjaðra fyrir slektinu, og sköpuðu Snorra óvinsældir sem jöðruðu landráðum, þar til Gissur jarl Þorvaldson tók af honum ómakið fyrir fullt og allt.

Það breytir samt ekki því að Snorri taldi sig einnig eðalborin, af ætt Ynglinga og gat rakið þann þráð til Goðsins Freys, sem var af Vanaætt frá Svartahafi. Snorra er m.a. ætluð Ynglingasaga, þó svo að hann hafi verið athafnamaður í ætt við þann Kára sem færði okkur fyrir skemmstu Íslendingabók, ættfræði grunn þjóðar sem nær til landnáms og er notaður í genarannsóknir. Goðið Freyr var tvíburi Freyju sem Njörður í Nóatúnum átti með systur sinni þannig að þjóðaruppruni Íslendinga væri samkvæmt genunum hrein blóðskömm ef ekki kæmu til Skjöldungar afkomendur Óðins í Ásgarði við hið sama Svartahaf.

Enski fornleifafræðingurinn Neil Price, sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á víkingum norðurlanda notaði ekki bara Íslendingasögurnar heldur einnig íslensku þjóðsögurnar til að átta sig á hugarheimi víkinga. Þessu greindi hann frá í fyrirlestrum sínum „The Viking Mind“. Hann segir að íslensku þjóðsögurnar hafi haldið áfram að geyma þennan heim hugans með sögum af draugum, álfum og alls kyns vættum. Það getur nefnilega verð margt sem tungumálið geymir og við innbyrðum umhugsunarlaust með móðurmjólkinni, sem gerir okkur að sérstakri þjóð.

Samkvæmt Íslendinga bók erfðagreiningar á ég ættir að rekja til þriggja barna skáldsins á Borg, þeirra Þorgerðar, Beru og Þorsteins. Börn Egils og Ásgerðar voru fimm, tveir synir þeirra Gunnar og Böðvar áttu ekki afkomendur. Um þá orti víkingurinn Egill Skallagrímsson kvæðið Sonatorrek með aðstoð Þorgerðar dóttir sinnar. Ljóðið hefur að geyma frægustu ljóðlínur víkinga aldar, sem enn varðveitast á íslenskri tungu og eru oft viðhafðar við jarðarfarir. Ef við ætlum að gerst svo miklir poppúlistar í eigin landi að bjóða dzien dobry eða good morning, má ég þá heldur biðja um einfalt húh með víkingaklappi. Því þá yrði komið fyrir íslenskri þjóð líkt og var komið fyrir Agli, henni yrði mjög tregt um tungu að hræra.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband