Túristatrekkjari úr torfi og steypu

Vök

Það hefur farið mikið fyrir fréttum af nýjum hótelherbergum á landinu bláa undanfarið og hafa þær hlutfallslega haldist í hendur við fréttir af fækkandi ferðamönnum. Það veitir því varla af að bjóða upp á eitthvað sem trekkir túristann svona allavega á meðan fjármála hrun, eldgos og önnur óáran trilla þá ekki til landsins.

Ég sagði frá því hérna í bloggi fyrir nokkru að mér hafði verið komið fyrir í rofabarði, og það um hásumar við skrapa niður grjótharða steypu því einhverjum stjörnuleikmönnum  landsliðsins í kúlu hefðu dottið í huga að fjármagna gamla og blauta drauma sveitavargsins á Héraði um ylströnd við Urriðavatn í svokölluðum Þvottavökum. Svo vildi til núna um helgina að Vök-Baths varða endanlega að veruleika.

Þessi framkvæmd er búin að ganga fram af flestum heimafengnum iðnaðarmönnum. Enda eru íslenskir iðnaðarmenn að mestu lúin lýður nátttrölla kominn á grafarbakkann, sem verður  brátt hvíldinni feginn. En ekki þótti annað við hæfi en opna herlegheitin í sumar, annað er víst svo slæmt „PR dæmi“ úr því að útsendarar kúluspilaranna voru búnir að þenja út bringuna og slá sér á bjóst. Auk þessi er talið afleitt að „opna inn í veturinn“ í þessum PR heimi landsliðsins, en flinkastir eru þeir á dagatal.

IMG_0984

Þessi hvínandi steypu skröpun í rofabarðinu hefur orðið til þess að ég tek mér langt sumarfrí það lengsta á ævinni, svo snakkillur varð ég þegar það var búið að hafa af mér að steypa ferska steypu úti í guðs grænni náttúrunni eins og vanalega. Að vinna fyrir aura landsliðsins í kúlu hefur af minni hálfu því sem næst kostað uppgjör við bæði guð og menn. Allavega eru pólsku vinnufélagarnir fyrir löngu búnir að tilkynna mér vinslit þó svo að þeim hafi ekki þótt taka því hingað til að skilja íslensku.

Núna við opnunina um helgina hitti ég svo verkfræðinginn við drulluskurðinn ofan við hús og hafði vit á að óska honum til hamingju með daginn. Ég sagði honum að þetta kæmi mér allt saman verulega að óvart, ég hefði ekki haft nokkra trú á öðru en að þeir hefðu allt niður um sig „inn í veturinn“ nema þá í besta falli sem PR dæmi með tölvugerðum myndum á facebook. En Vök-Baths hefur verið opið alla daga vikunnar á heimasíðunni 11 am - 11 pm frá því 1. maí, bara uppbókuð þar til nú um helgina vegna einkasamkvæmis iðnaðarmanna.

IMG_0979

Verkfræðingurinn tók brosandi hringinn í spaðann á mér þó svo að orðalepparnir mínir um vitsmuni verkfræðinga hafa dunið á honum í gegnum tíðina. Þrátt fyrir það hefur hann ekki ennþá tilkynnt vinslit líkt og Pólverjarnir sem ekkert skilja. En hann er nú reyndar óvenjulegur að því leiti að hann byrjaði sinn starfsferil sem handlangari í múrverki og hef ég aldrei skilið hvernig honum tókst að fara í hundana.

Það verður samt að viðurkennast að vel hefur tekist til með Vök-Baths og ætti þessi framkvæmd að vera síðuhafa til yndisauka, sem hefur hér margoft dásamað innlend byggingarefni á við torf, grjót og steypu. Það má kannski að sumu leiti segja að draumur hafi ræsts um að fá að taka þátt í byggingu mannvirkis úr svo heimafengnu efni, steypumöl úr hinni fornu horfnu Jöklu, torfi úr Tungunni og lerki úr Hallormstaðarskógi, í byggingu aðstöðuhúss við volgar vakir Urriðavatns. Eins verður trauðla hjá því komist að lofsama hönnuði fyrir efnistök og útlit.

IMG_0990

Þetta verkefni mitt í rofabarðinu miðaði að því að ná fram einhverskonar steypulúkki á gólf úr grjótharðri steypu. Eftir að hafa slípað, pússað og bónað um tveggja mánaða skeið varð árangurinn eins og gamall slitinn fjósflór. Stærstu kostirnir við verkið voru að sumt af grófustu fíneseringunum þurfti að vinna á nóttunni og sú vinna hitti á bjartasta tíma ársins. Björt sumarnóttin er eitthvað sem engin ætti að sofa af sér.

Þrátt fyrir þessa jákvæðu punkta þá ætla ég að þrjóskast eitthvað lengur í sumarfríi þó svo Austfjarðaþokan nái niður fyrir eyrnasnepla og þeim fari óðum fækkandi steypudögunum. Enda fer kannski að verða nóg komið af þessari steypu.

Vök steypa 


Veginn á enda

Viðfjörður

Það eru ýmsar leiðir til að ferðast og aðferðir við skipulagningu ferðalaga. Hægt er að gera ferðaáætlun eftir dagatali, veðurspám eða bara stafrófinu. En það er alltaf svo að það er ferðalagið en ekki áfangastaðurinn sem skiptir mestu máli. Eins og ég hef áður minnst á hér á síðunni kemur fyrir að við hjónin setjumst upp í okkar gamla Cherokee og hlustum á Bubba syngja um það þegar hann hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann og er allt eins hægt nota þá ferðaáætlun.

Það má reyndar einna helst líka svo góðu plani við lesblinda prófessorinn sem ætlaði að ferðast yfir þver Bandaríkin í sumarfríin sínu en var ekki kominn lengra en í næsta bæ þegar fríið varð búið. Þetta gerðist vegna þess að þar var svo margt áhugavert að skoða. Prófessorinn sagði eftir sumarfríið að þeir sem kynnu að lesa færu margs á mis vegna þeirra leiðsagna sem þeir læsu.

Núna í vikunni má segja að planið hafi ekki verið neitt af af þessu öllu saman, heldur hafi vegurinn einfaldlega verið farin á enda. En í stafrófinu var það Vaffið sem var valið og eins og vanalega var sólin eina leiðsögutækið í gegnum Austfjarðaþokuna. Við höfðum reyndar hossast þennan slóða á hraðferð fyrir mörgum árum í þoku, sem liggur um landsvæði er fór í auðn fyrir áratugum síðan. 

IMG_3861

Það er ágætt að vita, þegar ferðast er í þoku, að vatn rennur niður í móti, þá er meiri von til að sjá sólina

Þessi vegslóði, sem liggur í Vöðlavík og Viðfjörð, var bílvegurinn á Norðfjörð frá 1940–1949 og endaði hann í Viðfirði en þaðan þurfti að fara með bát yfir á Norðfjörð. Eftir að vegur var lagður um Oddskarð var ljóst að ekki yrði gerður vegur frá Viðfirði yfir á Norðfjörð, enda illmögulegt. Þar með varð ljóst að byggðirnar sem voru norðan Reyðarfjarðar yrðu í litlu eða engu vegasambandi. Þessar byggðir voru í Vöðlavík, Sandvík, Viðfirði ásamt Barðsnesi og Hellisfirði. Svæðið taldi alls um 15 bæi.

Viðfjörður er einn af þrem fjörðum sem ganga inn úr Norðfjarðarflóanum, hinir eru Hellisfjörður og Norðfjörður. Í Viðfirði var búið til 1955. Hvað varð búsetu að aldurtila er til um meira en ein kenning. Þórbergur Þórðarson rithöfundur skrifaði um Viðfjarðarundrin sem áttu að hafa verið draugagangur. Þessi undraskrif meistara Þórbergs hafa þótt léleg sagnfræði í Norðfirði. En líklegast er þó að breyttir samgönguhættir hafi ráðið mestu um að búsetu lauk í Viðfirði.

IMG_2903

Reyndar hafði ég bæði sigld um Norðfjarðarflóann og flogið yfir svæðið, svo það var ekki mikið mál að rata. Frá vinstri; Sandvík,Barðsnes, Viðfjörður, Hellisfjörður og Norðfjörður 

Þegar við vorum núna á ferðinni var yngra fólkið okkar með í bílnum og tók eftir því allan tíman, eftir að farið var yfir Víkurheiðina yfir í Vöðlavík, að ekkert net og símasamband var við umheiminn.“ Og hvað ætlar þú svo að gera ef við festum okkur“ sagði þá Matthildur mín. Eins og það væri eitthvað nýtt að ferðir okkar lægju utangáttar út um þúfur úr alfaraleið. „Hlaupa yfir á Norðfjörð það er styst“ svaraði ég – „já, já, ég sæi þig nú hlaupa“ – „eða þá bara bíða eftir Barðsneshlaupinu sem er venjulega á Neistafluginu um verslunarmannahelgi og biðja fyrir skilaboð“.

Viðfjörðurinn skipar vissan sess í minni sjálfsmynd því frá blautu barnsbeini hefur mér verið það innrætt að ég sé af Viðfjarðarætt. Úr Viðfirði var langaamma mín Ingibjörg Bjarnadóttir á Vaði í Skriðdal, sautján barna móðir. Móðir hennar var Guðrún Jónsdóttir í Viðfirði sextán barna móðir. En við þau Bjarna og Guðrúnu er Viðfjarðarætt oftast kennd, þó svo að forfeður Bjarna hafi búið mann fram af manni í Viðfirði.

Viðfjörður

Sólin brást ekki með leiðsögnina í gegnum Austfjarðaþokuna niður í Viðfjörð

Þessar formæður mínar þóttu hörkukonur á sinni tíð, í forsvari fyrir sínum búum. Eða eins og sr Ágúst Sigurðsson sagði „Ingibjörg á Vaði var mikillar gerðar eins og mörg þeirra Bjarnabarna Sveinssonar og Guðrúnar Jónsdóttur í Viðfirði.“ Um Guðrúnu var sagt „Hún var jafn fær að ganga til sláttar sem raksturs. Hún var tóskaparkona mikil og vefjarkona með afbrigðum, enda þurfti hún á því að halda í Viðfirði meðan öll börnin voru heima og heimilisfólk vanalegast 15-17 manns og allur íverufatnaður og mikið af rúmfatnaði unnið heima.“ Heyrt hef ég að þessi ættmóðir mín hafi ekki talið það eftir sér að fara til fiskiróðra þegar þess þurfti.

Ofan við höfnina í Viðfirði er minningarskjöldur um hörmulegt sjóslys, þar sem fórust þrír synir Sveins Bjarnasonar sem bjó í Viðfirði, á eftir foreldrum sínum Bjarna og Guðrúnu, en frá því var greint með svohljóðandi frétt í blaðinu Víði 9. október 1936;

IMG_3850

„Sorglegt slys vildi til á Austfjörðum í síðustu viku. Á fimmtudagsmorgun 1. október fór trillubátur frá Viðfirði i fiskiróður. Voru á bátnum fjórir menn, þrír bræður, synir Sveins Bjarnasonar frá Viðfirði; Þórarinn (34 ára). Frímann (26 ára). Sófus (30 ára) og Halldór Eiríksson (56 ára) frá Viðfirði. Morguninn eftir að bátur þessi fór í róðurinn, fann togarinn Brimir hann skammt undan landi, fullan af sjó, og lík Frímanns í honum, liggjandi á grúfu yfir þóftu. Slys þetta er einkennilegt þar sem fullvíst er talið að báturinn hafi ekki af kjölnum farið, því ýmislegt, t.d. áttaviti, vélaverkfæri o.fl. var í bátnum, enda hafði veður verið gott, en þoka. Móðir bræðranna er á lífi. Þórarinn hafði verið giftur og átt fjögur börn, hinir ógiftir.“

Þó svo að mestum ljóma stafi frá kvenfólkinu í Viðfjarðarætt vegna hetjulegrar framgöngu í gegnum tíðina, þá er marga eftirtektarverða karlmenn einnig þar að finna og nægir að nefna að Viðfjörður United hefur átt sína leikmenn í knattspyrnulandsliði Íslands svo eftir hefur verið tekið víða um lönd.

IMG_3860

Við enda vegarins er íbúðarhúsið í Viðfirði, byggt 1932, og stórmyndarlegt enn í dag


Fótspor guðanna

IMGP2824

Til eru staðir sem hvorki verður lýst með orðum né ljósmyndum. Eina ráðið til að fá nasasjón af helgi þannig staðar er að heimsækja hann. Við Axarfjörð er þannig staður.

Í vikunni sem leið vaknaði ég kl. 4 að morgni við það að lóan sögn „hér sé dýrðin, dýrðin, dýrðin“. Við Matthildur mín höfðum okkur fljótlega á fætur, kipptum upp hælunum og laumuðumst út af tjaldstæðinu við Eyjuna.

Við ákváðum að aka 3,5 km leið frá Eyjunni inn að Botnstjörn og fá okkur morgunnmat í kyrrðinni. Eftir að hafa sett upp borð og stóla, -alein eins og lítil börn í gullabúi, umkringd hömrunum sem urðu til þegar Óðinn fór um heiminn ríðandi á Sleipni, -flaug fram af klettabrúninni álftahópur og söng okkur sinn heiðarsöng svo bergmálaði á milli hamraveggjanna.

IMG_3431

Myndun Ásbyrgis hefur verið mönnum ráðgáta eftir að farið var að efast um Alföður. Þorvaldur Thoroddsen, náttúrufræðingur, kom í Ásbyrgi sumrin 1884 og 1885. Hann taldi að gljúfur Jökulsár hefðu orðið til í jarðskjálftum og Ásbyrgi hafa myndast þegar landspilda sökk í kringum Eyjuna.

Um miðja 20. öld hóf Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, að rannsaka öskulög á svæðinu. Í ljós kom að allur jarðvegur eldri en 2.500 ára hefur skolast í burtu úr botni Ásbyrgis og árfarvegum sunnan þess. Furðu vakti að áin hefði náð að grafa bæði Ásbyrgi og hin tröllvöxnu árgljúfur á þeim 10 þúsund árum frá því hraunið rann.

Nú er talið að á tímabilinu frá því fyrir 5000 árum þar til fyrir 2000 árum hafi ríkt þær aðstæður við Vatnajökul að mikið vatn hafi safnast saman við rætur eldstöðva Bárðarbungu, Grímsvatna og Kverkfjalla. Þegar einhver þeirra gaus gátu orðið gífurleg jökulhlaup sem æddu með ógnarhraða frá jökli til hafs.

Sjálfur hallast ég helst að elstu tilgátunni um tilurð Ásbyrgis, þ.e.a.s. yfirreið Óðins á Sleipni og Ásbyrgi sé því hóffar Sleipnis. Enda tekur helgi staðarins öllum rökum fram. Aðrar tilgátur hafa þvílíka annmarka að við þá verður ekki unað.

Ef nýjustu tilgátur ættu við rök að styðjast kalla þær á sólahrings vakt í höfuðstöðvum almannavarna og öryggishjálma ásamt gulum björgunarvestum með blikkandi neyðarljósum fyrir almenning í Ásbyrgi. Mér sýnist landnámsmenn hafa komist að mun skynsamlegri niðurstöðu lausa við öfgar samtíðar trúarbragða.

Snemma á 20. öldinni keypti Einar Benediktsson land meðfram Jökulsá á Fjöllum ásamt Ásbyrgi. Hugsjón Einars var að virkja ána og sagðist hann ætla að nýta orkuna til að framleiða áburð á blóm og birki. Einar átti Ásbirgi í 15 ár og orti ódauðlegt ljóð að morgni í Ásbirgi, en áin rennur óbeisluð enn þann dag í dag.

Alfaðir rennir frá austurbrún

auga um hauður og græði.

Glitrar í hlíðinni geislarún,

glófaxið steypist um haga og tún.

Signa sig grundir við fjall og flæði,

faðmast í skrúðgrænu klæði.

Kannski var eins gott að Einar Benediktsson átti þessa morgunn andakt í Ásbyrgi, því annars væri ekki loku fyrir það skotið að hagvaxnir nútíma trúarbragðadýrkendur kolefnissporsins ákveddu að hafa helgi Ásbyrgis með í pakkanum við að lýsa upp Evrópu.

IMG_3650


Hræsni dauðans

Á meðan alþingismenn taka þátt í landakaupalotteríum er varla von til að komið verði í veg fyrir að Ísland verði selt.

Þingkona framsóknar í Vopnafirði er partner Rattcliffs. Honum var selt úr Gunnarsstaðatorfunni í Þistilfirði, samkv. mbl í morgunn, en  þar á forseti alþingis lögheimili.

Ánægjulegt að rannsóknarblaðamennska sé stunduð á Íslandi þó seint sé. Hvet samt alla sem eiga kost á að gera sér ferð um brotnar byggðir og ríki Rattcliffs til að kynna sér málin af eigin raun. sjá meira,,


mbl.is Vilja aðgerðir en lítið hefur gerst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brotnar byggðir og ríki Ratcliffs

Tímana tvenna

Það má segja að æðsta þroskastig hverrar mannveru sé að komast frá A til B án þess að gera í brækurnar, og verandi sjálfbjarga við það séu bestu árum ævinnar varið. Svona er þessu í reynd farið í bókstaflegri merkingu. Við hefjum leikinn með því að fá aðstoð og endum hann eins ef ekkert óvænt kemur upp á, megin hluti ævinnar snýst sem sagt um það að sleppa við að skíta á sig.

Það hefur færst í vöxt núna síðustu ár að skilgreina brothættar byggðir úti um land og eru þetta þá oft byggðir sem hafa verið rændar með lögum sjálfsbjargarviðleitninni til að nýta lífviðurværið sem svamlar fyrir framan nefið á þeim íbúum sem þar hafa dagað uppi. Ef engin kemur Ratcliff til að kaupa vatnsréttindi og óðul eða setja upp löggilta ferðaþjónustu er flest von úti.

Ráðnir hafa verið til þess bærir sérfræðingar að hjálpa brothættu byggðunum og eru þá oftar en ekki ráðnir mógúlar sem hafa yfirgripsmikla reynslu af sveitarstjórnarmálum, jafnvel ævilanga reynslu í að rugga ekki bátnum á meðan kvótinn var seldur, en hafa þrátt fyrir allt ekki náð að koma byggðarlögunum sem þeir unnu fyrir gjörsamlega fyrir kattarnef. Þannig að verkefnisstjórnunin í brothættu byggðinni er svona nokkurskonar síðasti séns.

IMG_3479

Nú er sumarfrí og hefur því verið varið á heimaslóðum í byggð sem mætti ætla að seint yrði skilgreind sem brothætt. Það eru samt ekki nema örfá ár síðan að stærsta framkvæmd íslandssögunnar kom til bjargar. Áður hafði massíf skórækt átt að redda bændum, þar sem Alaska öspum og Síberíulerki var þéttraðað í tún og skurði svo ekkert sést lengur til kolefnissporsins og jafnvel sýnin á kólgulitað Lagarfljótið er óðum að hverfa.

Ásýnd Héraðsins er að breytast í heila helvítis Svíþjóð. þegar keyrt er um svoleiðis landslag er það eins og að keyra framhjá strikamerki, lúpínan hefur þó það fram yfir að maður stendur upp úr henni og getur klofast yfir hana, já og vel á minnst lúpínan var upphaflega boðin velkomin af ríkinu. Núna síðustu tvö árin hefur svo Skóræktin tekið upp á því að hefta för fólks með hengilás og keðju í gegnum þá fáu slóða sem má komast í gegnum óræktina niður að Lagarfljóti, nema þar sem þeir telja sig geta haft starfsmann á launum við að rukka fólk.

Í vikunni gerðumst við hjónin svo ferðamenn í ríki Ratcliffs og hluta þeirra mölbrotnu byggða sem leynast við norðurstrandarveg eða samkvæmt tíðarandanum, The Arctic Coast Way. Snemma í sumar opnuðu tveir úr hópi mestu skítbuxna byggðar í landinu ímyndað stórvirki með því einu að klipp á borða. Annar hokin af reynslu með sultardropann niður úr nefinu í nepjunni austur í eyðilegum Bakkafirði og hinn með bringuna þanda upp í vindinn vestur á Hvammstanga þar sem sjá má yfir á dýralæknislausu Vestfirðina.

IMG_3545

Raufarhöfn minnti á margan hátt á Seyðisfjörð og Djúpavog, þar sem ungt atorkusamt fólk og listamenn hafa sest að og tekið sig saman um stórvirki. Um hana verður ekki lengur sagt; Þú ert rassgat Raufarhöfn / rotni, fúli drullupollur. / Andskotinn á engin nöfn / yfir mörg þín forarsöfn. / Þú ert versta víti jöfn / viðmótið er kuldahrollur. / Farðu í rassgat Raufarhöfn / rotni, fúli drullupollur.

Við létum ferð um Bakkafjörðinn, Melrakkasléttuna auk ríkis Ratcliffs nægja í þetta sinn. Okkur til ánægju þá urðu skiltin um land í einkaeign fáséðari eftir því sem þokan varð þéttari. Það eru slétt 25 ár síðan við fórum þennan vegspotta síðast, en það hafði staðið til um nokkurra ára skeið að endurnýja kynni sín við þessar byggðir. En drottinn minn dýri stór hluti þessa svæðis er gjörsamlega komin í auðn.

Það eru orðin rúm 40 ár síðan ég kom á þessar slóðir fyrst og hafði margoft farið um þær á níunda áratug síðustu aldar en var minntur á það í fyrra að ég hafði aldrei komið á Rauðanúp eða það sem er kallað Núpskatla. Þennan núp hafði mig dreymt um að sjá í bernsku og meir að segja komist í grennd við hann 1976 þegar mér bauðst að fara með skólabróðir mínum á Laugum í helgarfrí í hans heimasveit. Þá varð ekkert úr Núpskötlu ferð því að svo mikið var um frændur og félaga á næstu bæjum að ekki gafst til tími.

IMG_3697

Hreiðrið Gesthouse eitt af þremur gistihúsum á Raufarhöfn

Nú þessum rúmu 40 árum seinna leit ég við á heimaslóðir vinar míns með von um að rekast á hann, því hann hefur átt það til síðustu ár að nýta sér brothætt úrræði stjórnvalda og stunda strandveiðar á slóðum þar sem hann þekkir öll mið. Ekki hittum við fornvin minn en þess í stað frænda hans í mýflugumynd. Frændi hans var á Leirhafnartorfunni að dytta að sumarhúsi og sagði mér að frændi sinn hefði ekkert sést í sumar og ætti það tæplega eftir.

Níels Árni Lund hefur gefið út Sléttungu svona nokkurskonar minningargrein um Melrakkasléttu í þremur bindum. Nú er hann að minnast forfeðranna á torfunni með því að safna saman tólum og tækjum sem tíðarandinn myndi flokka sem rusl.

IMG_3690

Við komumst þvottabrettin alla leið á enda að Núpskötlu og verður ég að hæla fólkinu sem þar dvelur í sumarævintýrinu fyrir að hafa ekki girt landið af úti við þjóðveg eins og hver annar ríkisbubbi, sem setur upp hlið með hengilás og skilti um land í einkaeign í girðingar Vegagerðarinnar, og hafa þar að auki rétt getað stillt sig um að negla merki á vegstikurnar um það að öll stangveiði sé bönnuð. Ferðin um Sléttu var virði allra holanna á endalausu þvottabretti The Arctic Coast Way, þannig að við ákváðum að þræða hana aftur til baka næsta dag.

Ósjálfrátt varð manni á að hugsa, „hvernig gat þetta gerst á minni vakt“ og maður hefur ekki einu sinni þá afsökun að hafa verið í sumarfríi. Sennilega má segja að fáum þjóðum hafi verið eins mislagðar hendurnar við við að krossa sér forustufólk. Það er ekki nóg með að það hafi rænt fólki lífsbjörginni á stórum svæðum landsins, auk þess lætur það landsölu viðgangast til allra landsliðana í kúlu. Og þegar ein mannvitsbrekka alþingis tjáði sig um þetta í vikunni þá sagði hún að setja yrði einhverskonar skorður en gæta yrði að því að erlendum og innlendum skiltagerðamönnum yrði ekki mismunað.

IMG_3495

 

IMG_3606

Jú víst get ég sannað að hafa verið á Núpskötlu

 

IMG_3701

Það er margt sem fangar augun við "The Arctic Coast Way"


Órækja og Lofthæna

Ímyndið ykkur bara að heita svona nöfnum! Lofthæna var af sumum notuð í nafnalaga umræðunni sem rök fyrir stofnun Mannanafnanefndar til að koma vitinu fyrir fólk þegar það allsgáð velur afleitt nafn. En nafnið Órækja hefur ekki verið notað á Íslandi í mannaminnum og er ekki á meðal leyfilegra nafna á mannanafnaskrá.

Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands eru í Landnámu minnst á tvær konur sem hétu Lofthæna, en önnur var dótturdóttir hinnar. Á islendingabók.is er að finna eina konu með þessu nafni. Hún hét Lofthæna Guðmundsdóttir (1842 - 1912) og bjó í Skaftafellssýslu. Karlmannsnafnið Órækja þekkist allt frá því á Sturlungaöld. Nafnið hefur lítið verið notað. Einum dreng í Vestur-Skaftafellssýslu var gefið það 1630 og öðrum 1685 og einn karl í Vestmannaeyjum bar nafnið 1801. Síðan virðist það ekki hafa verið notað.

Órækja og Lofthæna hafa semsagt einhvertíma verið gild íslensk nöfn og voru í upphafi ekki ósæmileg né niðurlægjandi. Nafnið Lofthæna var betri hliðin á Geirríði, en þessi tvö nöfn voru höfð um sömu seiðkonuna samkvæmt Fornaldarsögum Norðurlanda. Lofthæna í Vík var sögð „kvenna fríðust“ og vel menntuð samkvæmt tíðaranda þess tíma, en í gervi Geirríðar Gandvíkurekkju var henni allt öðruvísi farið.

Þá var hún „eigi hærri en sjö vetra stúlkur, en svo digur að Grímur hugði að hann mundi eigi geta feðmt hana. Hún var langleit og harðleit, bjúgnefjuð og baröxluð, svartleit og svipilkinnuð, fúlleit og framsnoðinn. Svört var hún bæði á hár og hörund. Hún var í skörpum skinnstakki. Hann tók eigi lengra en á þjóhnappa henni á bakið. Harla ókyssileg þótti hún vera því hordingull hékk ofan fyrir hvoftana á henni.“ (Gríms saga loðinkinna. Fornaldarsögur II:191) Einna líkust leðurklæddri poppstjörnu með glosssmurðar varir til að gera sig kyssilegri ef hún er færð til tíðaranda dagsins í dag. Nafnið Geirríður er á mannanafnaskrá og samkvæmt islendingabók.is hefur nafnið verið notað í gegnum tíðina.

Það virðist vera að nafnið Órækja hafi alltaf haft á sér neikvæða merkingu ef eitthvað er að marka Vísindavef Háskóla Íslands. „Nafnorðið órækja merkir sóði, mannskræfa, hirðulaus maður og sögnin er notuð í merkingunni vanrækja, það er sá sem ekki rækir eitthvað.“

Á Sturlungaöld voru mörg karlmannsnöfn algeng sem ekki þættu við hæfi í dag s.s. Órækja, Svertingi, Svarthöfði og Svartur. Órækja var sonur Snorra Sturlusonar og varla hefur honum upphaflega verið gefið nafnið til minnkunar. En sennilega hefur Órækja komið þvílíku óorði á nafn sitt að fáum hefur verið það gefið eftir hans daga. Órækja var höfðingi sem hélt um sig óaldaflokk í skjóli valda föður síns og fór um rænandi og ruplandi um stóran hluta landsins. Það má segja að Snorri sjálfur hafi að lokum orðið að gjalda fyrir son sinn. En þeir feðgarnir Sturla og Sighvatur bróðir Snorra tóku yfir veldi hans og var það ekki síst til að koma böndum á Órækju. Í Sturlungu segir frá því þegar Sturla Sighvatsson fór með þennan frænda sinn á fjöll og skólaði hann til, lét stinga í honum augun og gelda.

„Sturla reið nú á brott með Órækju upp til jökla og Svertingur með honum einn hans manna. Þeir riðu upp á Arnarvatnsheiði þar til þeir komu á Hellisfitjar. Þar fara þeir í hellinn Surt og upp á vígið. Lögðu þeir þá hendur á Órækju og kvaddi Sturla til Þorstein langabein að meiða hann. Þeir skorðuðu af spjótskaft og gerðu af hæl. Bað Sturla hann þar að ljósta út augun en Þorsteinn lést ekki við það kunna. Var þá tekin knífur og vafiður og ætlað af meir en þverfingur. Órækja kallaði á Þorlák biskup sér til hjálpar. Hann söng og í meiðslunum bænina Sancta María, mater domini nostri Jesu Christi. Þorsteinn stakk í augun knífinum upp að vafinu. En er því var lokið bað Sturla hann að minnast Arnbjargar og gelda hann. Tók hann þá burt annað eistað. Eftir það skipaði Sturla menn til að geyma hans en Svertingur var þar hjá Órækju.“ (Sturlunga saga bls 381 I bindi) Þarna er Arnbjörg kona Órækju nefnd til sögunnar þegar pyntingarnar standa sem hæst, en hún var systir Kolbeins unga Arnórssonar. Það var svo Kolbeinn ungi mágur Órækju sem sigraði og drap þá Sturlunga feðga, Sighvat og Sturlu, í Örlygsstaðabardaga.

Það má segja að nafnið Órækja hafi álíka óorð á sér og Lofthæna. Þó nafnið Sturla sé ekkert sérstaklega algengt þá hefur það lifað með reisn til dagsins í dag, þó ýmis miður falleg máltæki séu við það tengd s.s. sturlun - eða þegar sagt er „ertu alveg orðin sturlaður?“ Nafnið Geirríður sem var haft um verri hliðin á fornaldar seiðkonunni lifir einnig enn góðu lífi á mannanafnaskrá þó svo að Lofthæna, sú hlið sem átti að vera betri, hafi verið afskráð. Og kannski hefur sá sonur Snorra Sturlusonar sem var gefið nafnið Órækja einfaldlega verið óþolandi vindhani sem eyðilagði orðstír nafns síns.


Lögfræðilegir loftfimleikar

Það er sniðugt af Umhverfisstofnun ríkisins að sekta gjaldþrota kompaní um 3.798.631.250 kr vegna aflátsbréfa ímyndaðs loftslags.

En hver ætli rökstuðningurinn sé fyrir 3.798.631.250 kr sekt á gjaldþrota WOW.

„Þú færð þessa risa­stóru sekt ef þú stend­ur ekki skil á þínum heim­ild­um,“ seg­ir Elva Rakel Jóns­dótt­ir, sviðsstjóri lofts­lags­mála og græns sam­fé­lags hjá Um­hverf­is­stofn­un, við mbl.is.

„Það er mjög af­ger­andi stefna tek­in hjá Evr­ópu­sam­band­inu í þess­um mál­um. Menn ákveða að leggja svona rosa­lega háa sekt á það ef fé­lög brjóta regl­urn­ar sem all­ir þurfa að vinna eft­ir,“ seg­ir Elva.

Hvað ætli margir lögfræðingar nái svo að mata krókinn á kostnað íslenskra skattgreiðenda á svona loftfimleikum?

Og ætli viðurlögin verði kolefnisfríar galdrabrennur ef ekki tekst að innheimta 3.798.631.250 kr sektina?


mbl.is Losunarheimildir mun ódýrari en sektin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband