Sólstöður og jól sko

Að skelfast ekki af örlögum sínum, en óttast afdrif sín, er að veltast frá ógn til ógnar en bera sig karlmannlega, allt til þess óhjákvæmilega. Tíminn er líkastur framhaldssögu sem maður á engan þátt í að skrifa. Þó sagan sé á heimsmælikvarða, þá flytur þjóðsagan kjarnann en medían málatilbúnað þeirra sem oft af þekkingu sniðganga sannleikann.

Í dag eru vetrarsólstöður, dimmastur dagur og sólin  stöðvast við krossinn í suðri. Eftir þrjá daga hefst ferðin norður, eitt hænufet, -og má þá fara að greina lengri dag. Enn eitt sólárið er liðið og myrkurtíð gefur tilefni til að líta yfir farin veg, þó svo áramót séu skot út í bláinn á hringekju eilífðarinnar.

Þetta hefur verið ár pesta og stríðsátaka, full ástæða verið til að óttast afdrif sín í lífsins ólgu sjó. Síðuhafi hefur ekki farið varhluta af óttanum og pestunum, bæði fengið kóvít í fyrra vetur og flensu nú í haust, auk þess hland fyrir hjartað, þess á milli steypa. Það má segja að sumarið hafi þetta árið farið forgörðum vegna óttans við afdrifin.

Ég ætla ekki í þetta sinn að spá fyrir um hvað er framundan, síðustu sólstöður var spáin þessi: árið framundan mun einkennast af stríðsbrölti í stökkbreyttri mynd veirunnar og munu efnahagslegar afleiðingar koma í ljós. En kvefið sjálft mun dala með vorinu, eins og venjulega, samfara því að áhuginn minnkar á símanum og sjónvarpinu með hækkandi sól.

Það eru orðin rúm fjórtán ár síðan ég hóf að láta ljós mitt skína á þessari síðu og hafa athugasemdir við pistlana aukið mér víðsýni. Þetta árið hef ég að vana bloggað um þjóðleg gildi, sjálfan mig og tuðað út í tíðarandann, -líkast rispaðri plötu frá því á síðustu öld. Eins og alltaf hafa það verið athugasemdirnar sem hafa gert pistlana frambærilega.

Þau eru farin að staðna bloggin og hef ég hugsað mér, -eins og reyndar svo oft áður, að láta staðar numið í bili. Hvort það tekst og hvað lengi verður tíminn að leiða í ljós. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa enst til að lesa langlokurnar og tuðið á þessari síðu, -sérstakar þakkir eru til þeirra sem hafa gert við þær athugasemdir.

Hér á síðunni hefur mér orðið tíðrætt um Davos dúkkulísur þetta árið, en læt nú hinar einu og sönnu Dúkkulísur míns heimabæjar óma jóla kveðjuna. Ég óska öllum þeim sem hafa náð að lesa þetta langt, gleðilegra jóla, árs og friðar.

 


Eru vísindi hugans, trúarbrögð eða galdrar?

Ef það er til trúarkenning fyrir nýaldar núvitundar vísindin, þá er það trúin á að jákvæð hugsun geti breitt veruleikanum til hins betra.

Þegar greina skal á milli trúarbragða og galdra, þá nota galdrar ákveðna forskrift s.s. kliðandi seið, fórn eða dans sem leið til að virkja óséða krafta.

Þegar trúarbrögðum er beitt til að öðlast það sama, er forskriftin að biðja Guð í hljóði eða með bæn og hugleiðslu.

Galdrar eru eins konar vélræn tækni helgisiða, á meðan trúarbrögð fela í sér innsýn á persónulegan Guð.

Þau nýaldar hugvísindi, sem kalla fram jákvæðrar hugsanir í núvitund, eru nær utan að komandi galdri en trú.

Þó hvergi sé mælt fyrir um furðulega helgisiði í nýaldar hugvísindunum, þá virkja þau vélræna krafta alheimsins með hugsunum.

Hugmyndin á bak við jákvæða hugsun byggir eftir sem áður á þeirri staðreynd að andlegur heimur liggur að baki þess efnislega.


Var Kólumbus sömu ættar og Íslendingar?

Sú saga hefur lengi verið á kreiki að Kristófer Kólumbus hafi komið til Íslands áður en hann rambaði á Ameríku. Vísindavefurinn hafnar þessum sögusögnum nánast sem innistæðulausu þrugli. Svo er aðrir sem telja að til séu skjalfestar heimildir fyrri því að Kólumbus hafi komið í aðdraganda Ameríku uppgötvunar sinnar.

Í Velvakanda Morgunnblaðsins 1974 skrifar Skúli nokkur Ólafsson athygliverða grein um aðdraganda Ameríkufundar Kólumbusar og rökstyður hvað hann telur sannast hvað þetta varðar.

Ég fékk ábendingu um þessa grein fyrir nokkrum vikum síðan og þótti hún benda á stórmerkilega sögu, sem talsvert er til í, þó svo að Kólumbus sé látin liggja á milli hluta.

Ég hef samt ekki, þrátt fyrir eftirgrennslan, komist að því hver Skúli Ólafsson er eða hvort hann hafi látið fleira frá sér fara sem komist hefur á prent. Kannski þekkir það einhver sem þetta les?

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

 Kólumbus hinn norræni

Suðurgöngur til Rómaborgar og Jerúsalem Vesturlanda (Santiago de Compostella á N—V Spáni voru mjög algengar m.a. sem aflausn fyrir brot. Þegar páfastóll var fluttur frá Róm í byrjun 14. aldar og leiðin lokaðist til landsins helga, óx straumur pílagríma til Compostellu m.a. frá Norðurl.

Konungsstjórn lauk í Noregi 1384, þá fór Ólafur konungur, sonur Margrétar drottningar til Danmerkur. Hirðin i Noregi varð að draga saman seglin, m.a. var sent skip til Íslands með nær níu tugum manna, en það festist í hafís við Austfirði, og fórust allir. Andlát Ólafs konungs 1387 kippti fótunum undan sjálfri hirðinni í Noregi.

Margir ráðamenn úr Björgvin eru komnir til Rómar 1388 og falla þar í ófriði, sem Napólímenn gerðu á hið endurreista páfariki í Róm (endurreist 1378 i óþökk Frakka, Napólí o.fl. Verzlun dróst svo saman í Noregi, að til Íslands komu 11 skip, en 3 voru fyrir. Meira vín kom til Íslands, en menn mundu fyrr.

Björgvin var rænd 1393 af þýzkum málaliðum Albrikts Svíakonungs, sem þá var i fangelsi I Danmörk. Það, sem hinir þýzku komust ekki með frá Björgvin, sökktu þeir i sjávardjúp, en höfðu brottu skip og akkeri. Eftir ránin i Björgvin komu fjögur skip til Íslands 1393, eitt í Tálknafjörð, þ.e. Cristóforussúðin og er Kraki þar formaður.

Maður með sama nafni er trúnaðarmaður Oddaverja 1259. Halldór Cristóforusson mun einnig hafa komið út að Cristóforussúðinni, en öll skipshöfnin tók þátt i aðför að Birni Einarssyni i Vatnsfirði, sem var talsmaður Margrétar drottningar. Flestir Íslendingar þ.á.m. starfsmenn við hirðina í Noregi, hafa talið Ísland laust allra mála við konungsstjórn, eftir dauða Ólafs (gamli sáttm).

Björn Einarsson kom árið eftir með 100 manna liði vel vopnuðu yfir Glámujökul og fékk sjálfdæmi í máli uppreisnarmanna þ.á m. Halldórs Cristóforussonar, sem hlotið hefur útlegðardóm, en landvist undir konungs miskunn. Halldór hefur verið í vörzlu Bjarnar i Vatnsfirði e.t.v. til 1406, en þá fór Björn og kona hans til Rómar og líklega Halldór með þeim.

Vefnaður á stórbúum eins og Vatnsfirði var í stórum stíl, og hefur Halldóri verið haldið að þvi verki þar. Björn Einarsson, nefndur Jórsalafari, þar sem hann komst til landsins helga á skipi frá Feneyjum, kom frá Grænlandi 1387 eftir 2ja ára dvöl þar. Í þeim leiðangri voru 4 skip og má reikna með að Zeno-bræður hafi verið þar þátttakendur. Þeir voru frá Feneyjum trúlega frændur Carlo Zeno, sem vann stórsigur á flota Genúu 1380.

Leiðin um Miklagarð til Krím var enn lokuð Feneyingum, en Krím var ein mikilvægasta miðstöð fyrir verzlun Feneyinga við Austurlönd. Zeno-bræður hafa átt að kanna norðlægar slóðir i von um að ná sambandi við Krím og Austurlönd framhjá ríki Miklagarðskeisara. Björn hefur trúlega haft samband við Antonio Zeno I Rómarferð sinni (sbr. kort A. Zeno).

Eftir Jórsalaferðina fór Björn til Compostellu og lá þar veikur hálfan mánuð, og þar hefur Halldór Cristóforusson orðið eftir. Dóminico, faðir Cristofóro Colombo var vefari, heitinn eftir spænskum dýrlingi, og synir hans skrifuðust á, eingöngu á spænsku með latínuslettum (mistakes in Latin).

Colombo virðist dregið af Columba dýrling, sem var kunnur á íslandi frá landnámstíð og auk þess var Kolumbamessa 9. júní tiðkuð hér, en Columba var bannfærður og það gat vakið grunsemdir rannsóknarréttarins á Spáni, og orðið til þess, að Dominico Colombo yrði að flýja Spán.

Sögusagnir eru um, að Kolumbus hafi gengið í skóla í Vigo skammt frá Compostellu, en hann fór í siglingar 14 ára gamall. Þegar Kólumbus kemur til Spánar er hann búinn að breyta nafni sínu í Collon (sbr. Kollr, þ.e. Sæmundur fróði, forfaðir Oddaverja) og síðan i Cristobal Cólon til aðlögunar við spænskuna.

Magnús berbeinn og Oddaverjar

Bartholomeusmessa var Oddverjum minnisstæð vegna þess, að Magnús berbeinn konungur, forfaðir þeirra, féll í Ulster á Bartholomessudag 1103 og Hákon Hákonarson, sem einnig taldi sig afkomanda Magnúss berbeins, miðaði herför sína við Bartholomessudag, sjálfsagt i minningu hins mikla herkonungs. Ferdinand, sonur Kólumbusar, aðalheimildarmaður um hann, sagði, að faðir sinn hafi verið af aðalsættum.

Það má til sannsvegar færa ef átt er við Oddaverja afk. Cristoforuss Vilhjálmssonar riddara (d. 1312) og eins fullyrðir Ferdinand, að faðir sinn hafi komið til Íslands (1477) en það draga margir í efa, en hinsvegar kom Halldór Cristóforusson, sem ég tel föðurföður Kólumbusar til Íslands.

Synir Dominico Colombo vefara voru Barthholomeo (1445—1514)?) Diego 1450—, Christofóro 1451—1506. Nöfnin Bartholomeo og Christoforo hafa e.t.v. verið valin til minningar um Oddaverja og Magnús konung berbein, en Diego er nafn aðaldýrlings Spánar, Jakobs postula, sem hvílir i Compostellu.

Ferdinand er heitinn eftir Spánarkonungi. Konungsnöfn voru tíð hjá Oddaverjum, og augljóst er, að Kólumbus hefur í samningum við Spánarkonung viljað fá fulla viðurkenningu sem aðalsmaður, og engu líkara er, en að Kólumbus telji sig vera að semja við jafnréttháa aðila.

Tilefni þessa bréfs

Grein í Mbl. 28/2 er tilefni þessara skrifa. Þar er því haldið fram, að Ísabella og Ferdinand hafi verið vinveitt Gyðingum. Staðreyndin er sú, að allir Gyðingar og Márar voru reknir frá Spáni á stjórnarárum þeirra eða voru brenndir eins og Wiessenthal minntist á. Spánverjar hafa nú gefið málamyndaleyfi fyrir Gyðinga í Tyrklandi til að flytjast til Spánar, en þeir verða að framvisa óyggjandi sönnunargögnum fyrir, að forfeður þeirra hafi verið reknir frá Spáni 1492.

Fæstir Íslendingar, sem eru manna fróðastir í ættfræði, geta lagt fram skjöl um forfeður sina um 1492. Einföldustu staðareyndum er neitað þegar Suðurlandamenn ræða um „fund" Ameríku t.d. Fanfani.

Grænland er landfræðilegur hluti Ameríku eins og eyjar þær, sem Kólumbus sigldi til 1492. Siglingar frá Evrópu (Noregi) til Grænlands stóðu óslitið í 4 aldir 986—1387, en lögðust niður þegar Noregur varð hjálenda Danmerkur 1387.

Margir skipaeigendur ekki síður en ráðamenn úr Björgvin hafa þá flutzt til Suðurlanda, sem voru mönnum kunnugust næst föðurlandinu vegna pílagrímsferða. Compostella á Spáni og einnig Sevilla var Norðmönnum mjög hugstæð þar sem Hákon Hákonarson gifti Kristínu dóttur sína þangað 1257.

Pinzon (Finnsson?) voru kunnir skipstjórar af úthafssiglingum m.a. til Kanaríeyja, Pinzon-bræður lögðu Kólumbusi bæði til skip og reynda sjómenn, að það er mjög athyglisvert, að úthafssiglingar Portúgala og Spánverja hefjast upp úr 1400, eða svo skömmu eftir að Noregur missir sjálfstæði sitt, en frá Noregi einum voru úthafssiglingar fram að 1387.

Ráðamenn úr Björgvin voru margir hverjir athafnasamir útgerðarmenn, komu ekki til Noregs eftir Rómarferð 1388 og þó að sumir hafi fallið í Róm, gat eins verið, að þeir hafi ekki farið heim, eftir að Noregur varð hjálenda Danmerkur.

- 0 - 0 - 0 - 

Svo mörg voru þau orð Skúla Ólafssonar í Velvakanda 4. mars 1974.


Örk guðs

Nú er fer sería á Netflix með himinskautum, að mér skilst, Ancient Apocalypse, um kenningar Graham Hancock. Garaham Hancock er sérlega áhugaverður rannsakandi, ekki fornleifafræðingur, heldur blaðamaður og rithöfundur. Fyrir 10-20 árum komu út þættir á youtube, sem hétu Zeoro Point, sem gerðir voru af meiri vanefnum en Ancient Apocalypse á Netflix, en kannski af mun meiri áhuga. 

Um Hancock bloggaði ég fyrir hátt í tíu árum síðan, sjá hér. Eins og svo oft þá er youtube myndbandið með þessu gamla bloggi horfið af netinu. Graham Hancock kom að gerð youtube videoa sem kölluðust Zero Point Volume I - V. Í Zero Point Volume III var fjallað um Örk Guðs, þá sem Ísraels menn höfðu með sér yfir eyðimörkina.

Í þættinum Volum III var m.a. fyrirlestur með öðrum rannsókna rithöfundi, Laurence Gardner, um Örk Guðs. Í ljósi uppgötvunar Bandarískra vísindamanna á byltingakenndum orkugjafa verður sagan af því hvað um Örk Guðs varð og fyrirlestur Laurence Gardner í Zero Point Volume III einstaklega áhugaverð.

Ps. Fyrirlestur Laurence Gardner hefst á 43. mínútu.


mbl.is Bylting fyrir orkuframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaðaveður í Skriðdal

Fyrsta dagur október mánaðar þetta ár var svo tilbreytingarlaus, að ég man ekkert, hvað þá gerðist, ekki einu sinni hvernig veðrið var þennan dag. En 2. október var yndislega gott veður, logn og hægt skýjarek um loftið, og í því skiptust á dökkir og sólgylltir flekkir, um loftið, er liðu ofur hægt yfir grundir, hæðir og fjöll sveitarinnar.

Mér varð það á í athugsemd ekki fyrir svo löngu að monta mig af henni langömmu minni, við hann Steina Briem, eftir að hafa farið rangt með hvar amma Steina aldi manninn í Reykjavík. Eftir þessa athugasemd fór ég að kanna hvort ég hefði ekki einnig farið með rangt með varðandi formóður mína í athugasemdinni og ákvað að líta m.a. í bækur Halldórs Pálssonar, Skaðaveður. En þar segir frá fádæma byl í Skriðdal 4-8. október árið 1896.

Frásögn Halldórs hefst föstudaginn 2. október þegar hann var 8 ára snáði á hlaðinu heima hjá sér í Þingmúla í Skriðdal. Hann lýsir einstakri haustblíðu þar sem skýin líða eins og dúnhnoðrar fram af Múlakollinum út yfir Skriðdalinn og ævintýralegur fjárrekstur streymir út suðurdalinn niður á eyrarnar þar sem árnar mætast fyrir framan Þingmúla.

Þessi mikli fjárrekstur þokaðist nær, út yfir Hrossanesið, Jókuaurana og út í Arnhólsstaðanesið. Og fór ég nú betur að sjá mennina, sem ráku þennan stóra fjárrekstur. Þeir voru á eftir hópnum, til beggja hliða við hann, og einn þeirra var á undan honum og stuggaði frá þeim kindum, er á leið þeirra voru, Því sjáanlegt var, að þær máttu ekki koma saman við þennan stóra fjárrekstur. Allir voru menn þessir ríðandi. Framarlega í Arnhólsstaðanesinu stönsuðu mennirnir, og fjárhópurinn tók að dreifa sér um nesið og mennirnir að ríða í kringum fjárbreiðuna. Þeir vildu auðsjáanlega halda því til haga á nesinu.

Tveir af þessum rekstrarmönnum riðu niður að Múlaánni, yfir hana og heim í Þingmúlahlaðið til okkar barnanna, sem voru þar stödd. Annan þennan mann þekkti ég, það var Auðunn Halldórsson, sem átti heima á Haugum, þegar pabbi bjó á Víðilæk, og var hann nágranni okkar þá. Ég hafði ekki séð hann fyrr það árið, enda átti hann nú heima á bæ við Berufjörð. Auðunn kom yfir ána til að heilsa foreldrum mínum, á meðan þessi stóri fjárrekstur hvíldi sig og beit gras sér til hressingar. Pabbi var ekki heima við bæinn, en mamma tók á móti gestunum. Hún spurði hvort þeir væru að reka markaðssauði, og sagði Auðunn, að svo væri.

Markaðssauðir þessir voru úr sveitunum suður af Skriðdal, úr Breiðdal, Berufirði og ef til vill allt sunnan úr Hornafirði. Englendingar keyptu þá hér á landi í allmörg ár fyrir síðustu aldamót talsvert af sauðum og fluttu þá lifandi yfir hafið á milli landanna, og var ráðgert að smala saman sauðum af Austurlandi, reka til Seyðisfjarðar og flytja þaðan á skipi yfir hafið.

Í þessari frásögn Halldórs kemur vel fram hvað sauðasala til Englands spilaði stóra rullu hjá bændum á Austurlandi, en fljótt skipast veður í lofti. Það var einmitt allt suðféð sem féll í Skriðdal í þessu skaðaveðri sem var tilefni þess að ég montaðist yfir formóðir minni við Steina. Um Ingibjörgu langömmu mína á Vaði í Skriðdal hefur hins vegar aldrei verið skrifuð bók og yfir höfuð lítið verið um hana ritað.

En ég gerði henni skil með þessari athugasemd: “Varðandi langaömmu mína í Skriðdalnum, þá var hún úr 16 systkina hóp, átti sjálf 17 börn með tveimur mönnum og vissi ekki sauða sinna tal. Missti að talið var 200 fjár í einu og sama fjárskaðaveðrinu í október skömmu fyrir aldamótin 1900, en var talin eiga 400 á eftir.” Og grunaði mig að nú hefði ég sagt of mikið.

Gefum nú Halldóri aftur orðið: En á sunnudagsmorgunninn var komið ófært snjóveður, er seinna verður frá sagt, og urðu umræddir markaðssauðir að bíða á Miðhúsum í Eiðaþinghá í nokkra daga, áður en fært yrði yfir Fjarðarheiði. Hvað voru það nú margir sauðir sem varð að passa á Miðhúsum nótt og dag, þar til fært var að reka þá yfir Fjarðarheiði? -það virðast mér hafa verið yfir sjöþúsund sauðir.

Sauðasalan til Bretlands voru viðskipti með sauðfé á fæti sem stóð yfir á síðustu áratugum 19. aldar. Sauðfé var rekið til skips sem sigldu til Bretlands og þaðan til slátrunar. Bændur fengu miklu betra verð fyrir sauðfé í þessum viðskiptum en áður hafði tíðkast og þeir fengu greitt í peningum, en áður höfðu bændur eingöngu haft val um að leggja inn vörur hjá kaupmönnum og taka vörur út í staðinn. Lög sem sett voru í Bretlandi árið 1896 bundu endi á þennan markað nokkrum árum seinna og ollu kreppu í landbúnaði á Íslandi.

Þó svo að Ingibjörg Bjarnadóttir langamma mín á Vaði hafi ekki komist á bókfell, og ekki einu sinni finnist um hana minningagrein, lifir hún í munnmælum 160 árum eftir fæðingu sína, enda á hún vel á annað þúsund afkomendur. Einnig hefur hennar verið getið í sveitarlýsingu og minningagreinum um börnin hennar. Hún á það þó sameiginlegt með eiginmönnum sínum að um þau hefur lítið verið ritað þó svo að munnmælin leyni því ekki að þarna var um dugnaðarfólk að ræða, -ramm íslenskt bændafólk.

Ingibjörg Bjarnadóttir

Ingibjörg Bjarnadóttir (1862 - 1940) -ung að árum, mynd af facebook 

Ingibjörg á Vaði var mikil búkona, þótti nokkuð vinnuhörð en sá líka um að vinnufólkið liði ekki og vistinni þar við brugðið. Faðir Ingibjargar var Bjarni Sveinsson í Viðfirði. Þeir voru bræður Þórarin faðir Stefáns á Mýrum og Bjarni faðir Ingibjargar. Móðir Ingibjargar var Guðrún Jónsdóttir, dóttir Jóns Björnssonar bónda í Fannadal í Norðfirði og Stuðlum Reyðarfirði og Ingibjargar Illugadóttir.

Ingibjörg Bjarnadóttir giftist Birni Ívarssyni frá Vaði (1852 – 09.09.1900) 1882. Björn var talinn góður bóndi og á tímabili mun hann hafa verið fjárflesti bóndi í Skriðdal en bú hans var frekar affallasamt því Vað var engjalítil jörð og varð alltaf að treysta á beit þar. Haustið 1896 gerði hér mikið fjárskaðaveður dagana 4.-9. október. Þá er talið að hafi farist einn fimmti af öllu fé í Skriðdal (á bilinu 1.300 – 3.000 samkv. Skaðaveður/Halldór Pálsson) en hvergi eins margt eins og á Vaði. Þar er sagt að hafi farist um 200 fjár. (Hrólfur Kristbjörnsson -Skriðdæla bls 144)

Frændi minn sagði mér endur fyrir löngu að hann hefði heyrt þá sögu að Björn Ívarsson hefði gert sér ferð niður í Viðfjörð til að biðja sér konu. Hann hefði haft augastað á einni þeirra Viðfjarðarsystra, en að endingu hefði Ingibjörg farið með honum í Skriðdalinn, þau hefðu átt betur saman en sú systranna sem ferðin var farin vegna.

Ingibjörg á Vaði var mikillar gerðar eins og mörg þeirra Bjarnabarna Sveinssonar og Guðrúnar Jónsdóttur í Viðfirði. Þung áföll aldamótaáranna buguðu Ingibjörgu ekki, þvert á móti sneri hún vörn í sókn er hún missti mann sinn, Bjarna Ívarsson, fimmtugan á hallandi sumri 1900 frá 12 börnum og við skert stórbúið. Giftist hún aftur, er lög leyfðu að skemmstum tíma ekkjunnar liðnum, ráðsmanni á búi sínu, Jóni Björgvini Jónssyni frá Hallbjarnarstöðum. Varð þeim auðið 5 barna og Ingibjörg þó 39 ára, er þau áttust. Festu þau hjón kaup á Vaði 1907, en þar var Skriðuklaustursjörð. Bjuggu þau til elli á Vaði. Dó Ingibjörg frá Viðfirði 1940, en Jón Björgvin 1954, 85 ára. (sr Ágúst Sigurðsson í minningagrein um ömmu mína Björgu Jónsdóttur)

Stefán heitinn Bjarnason frændi minn í Flögu skrifaði og gaf út tvær bækur; Frá torfbæ til tölvualdar á 50 árum og Að duga eða drepast. Í þessum stórfróðlegu bókum um samtíma sinn í Skriðdal er samt ekkert um ömmu hans á Vaði, en í afmælisminningu um frænku sína á Mýrum hefur hann þetta að segja; -Björn og Ingibjörg bjuggu stórbúi á Vaði og var Björn talinn fjárflestur bóndi i Skriðdal. Ingibjörg var dugnaðarforkur til allra verka. Ég nefni litið dæmi um dugnað hennar við rúningu á vorin. Þá þurfti vel röskan mann til að taka kindurnar leggja niður og binda. En þá var venja að það voru bundnir saman fætur og kindin látin liggja á jörðinni, en Ingibjörg klippti með venjulegum skærum. Mér er ljúft að minnast Ingibjargar ömmu minnar, þó ekki væri nema þegar ég fór fyrst að heiman, litill drengstauli og dvaldi að mig minnir 2 vikur á Vaði. Björg dóttir hennar ætlaði að kenna mér að lesa, skrifa og fleira. Mér leiddist og gekk námið illa, en amma var svo góð við mig. Því gleymi ég aldrei.

Ingibjörg Bjarnadóttir, Bjarni Björnsson og Jón Björgvin Jónsson

Ingibjörg á miðjum aldri, -standandi við borðið Bjarni Björnsson sonur hennar. bóndi á Borg. Fyrir aftan hana stendur Jón Björgvin Jónsson seinni maður hennar.

Eins og ég sagði hér að ofan þá lifa enn munnmæli um Ingibjörgu. Fyrir nokkrum árum vorum við pólskir vinnufélagar mínir að vinna að vorlagi við lagfæringar á sundlauginni á Norðfirði. Þá kom eldri maður, sem var reglulegur sundlaugargestur, til að fylgjast með framkvæmdum. Hann spurði vinnufélaga mína hvort þeir væru Héraðsmenn, og fékk loðin svör, en þó á Íslensku. Ég tróð mér inn í samræðurnar og sagði honum að þeir væru Borgfirðingar, enda voru tveir af þeim bræður, búnir að búa á Borgarfirði eystra í 10 ár áður en þeir fluttu í Egilsstaði.

Maðurinn sagði þá við mig að ástæða þess að hann spyrði væri sú að hann ætti mikið af skyldfólki á Héraði. Það hefði flutt ung kona úr neðra í efra, endur fyrir löngu, og eignast þar 17 börn, og afkomendur hennar væru um allt Hérað og náskyldir sér. -Þú ert þá væntanlega að tala um Ingibjörgu langaömmu mína á Vaði; sagði ég, -og það passaði.

Já, Ingibjörg hefur verið talin mikillar gerðar, og í bók Halldórs Pálssonar, Skaðaveður, -getur hann sérstaklega fjárskaðans mikla á Vaði og hefur þar að heimildamanni Stefán Þórarinsson síðar stórbónda á Mýrum í Skriðdal, sem var þá vinnumaður á Vaði; -, , ,en fyrir rás viðburðanna lendir hann á Vaði, til Björns Ívarssonar bónda þar og konu hans Ingibjargar Bjarnadóttur frá Viðfirði, frænku sinnar. – Árið 1897 hóf faðir minn búskap á Mýrum, sem þá var kirkjueign. Á því ári gekk hann að eiga Sesselju Bjarnadóttir frá Viðfirði, systir Ingibjargar á Vaði. Heyrt hef ég að margir hafi undrast þann ráðahag, þar sem Sesselja var sjúklingur og dó eftir fárra vikna sambúð. Töldu sumir að Ingibjörg á Vaði hafi sótt það fast að koma þessum ráðahag í kring, og faðir minn, sem var gæflyndur maður og átti Ingibjörgu margt að þakka, hafi látið undan þrýstingi frá henni. (Sveinn Stefánsson Mýrum / Múlaþing 22.tbl bls 84 og 86)

Eitt atriði hef ég kannski ekki farið rétt með í athugasemd minni til Steina Briem. Ingibjörg var ekki úr 16 systkinahóp samkvæmt Íslendingabók, en í minningagrein um Guðrúna Jónsdóttur, ættmóður Viðfirðinga, eru þau talin 16, en ekki nema 15 í Íslendingabók, en afkomendur Guðrúnar eru tæplega sex þúsund samkvæmt sömu bók. Um Guðrúnu gegnir það sama og um Ingibjörgu, sáralítið er til um hana skráð. Munnmælin segja þó að þar hafi farið mikill kvenskörungur, til sjós og lands.

Minningagrein hefur samt sem áður verið rituð um Guðrúnu Jónsdóttir sem bjó í Viðfirði, Loðmundarfirði og var að lokum á Skorrastað í Norðfirði. Þar má lesa m.a. þetta; -Hún sýndi jafnan mikinn dugnað og iðjusemi. Hún var jafn fær að ganga til sláttar sem raksturs. Hún var tóskaparkona mikil og vefjarkona með afbrigðum, enda þurfti hún á því að halda í Viðfirði meðan öll börnin voru heima og heimilisfólk vanalegast 15—17 manns og allur íverufatnaður og mikið af rúmfatnaði unnið heima. - Gáfnafar hennar var fjölþætt og gætti þess best á efri árum hennar í ættfræði, sagnafjölda og listfengi í því að segja frá sögum og viðburðum fyrri tíma með orðgnótt, fjöri og kynngikrafti bestu þjóðsagna. Minni og andlegu fjöri hjelt hún fram að síðustu dögum. Með henni hygg jeg að i gröfina hafi farið ýmiskonar þjóðlegur fróðleikur, sem skilið átti að geymast.

Ingibjörg Bjarnadóttir endaði ævi sína á Jaðri í Vallanesi, hún flutti þangað ásamt Jóni Björgvin til að aðstoða ungu presthjónin við bústörfin, þegar Björg dóttir þeirra giftist sr Sigurði Þórðarsyni úr Selárdal í Arnarfirði. Amma talaði aldrei um móður sína svo ég heyrði, en Magnús afi minn, sem varð seinni maður Bjargar ömmu, sagði mér að Ingibjörg hefði verið mikil manneskja og átti tæpast orð til að lýsa mannkostum tengdamóður sinnar, og atgervi.

Af heimilislífinu á þessum bæ um veturinn er fátt eitt að segja. Sambýlið var svo gott sem best getur hugsast, bæði á karl- og kvenhönd. Að mér teknum voru karlar úti við gegningar gripa myrkranna á milli og fram á vökur. Konur litu varla upp úr tóvinnu, enda veitti ekki af, til þess að halda á sér hita, því ekkert eldfæri eða neins konar hitagjafi var til í bænum, nema ef vera skildi hlóðasteinar frami í eldhúsi. En önnur ástæða var til kappsins við ullarvinnuna.

Á Fljótsdalshéraði klæddust menn á þeim tímum ekki öðru en ullarfötum, og hvert heimili varð að halda við fatnaði heimilismanna sinna. – Þegar fram um eða yfir miðvetur kom, var farið að setja upp vefi af þræði, er konur höfðu spunnið. Spunnu þær þá ívafið jöfnum höndum við þráð í næstu vefi. Allar kvöldvökur skammdegisins kembdu karlmenn og / eða tóku ofan ull eftir ástæðum, til stuðnings tóskapnum.

Þegar dag fór að lengja, hófst vefnaðurinn af sama kappi sem önnur tóvinna, enda þá meira tóm frá gegningum. – Þetta var tóvinna með allt öðru sniði og unnin með miklu meiri alvöru og kappi en ég hafði þekkt á Vestur- eða Suðurlandi. En miklu meiri var þó munur vinnunnar. Ég hafði vanist mosa- eða hellulituðum. Hér voru aftur eingöngu notaðir suðalitirnir, samkembdir í margskonar litbrigðu, mjög smekklegum, allt tvíkembt, nauðhært, svo ekki sást toghár á hinum vandaðri fötum, sparifötunum.

Hallgrímur biskup hafði komið á Héraðið sumarið áður (1890). Sagði hann mér meðal annars að hann hefði aldrei á landi hér séð svo prúðbúið og jafnbúið fólk sem þar, og allt heimaunnin ullarföt, og allir bændur í yfirfrökkum úr því sama. Dáðist hann mjög af þessu.

Konur gengu þar með herðasjöl, þríhyrnur og skakka, er svo var nefnt, heimaunnið og prjónað, með allskonar útprjóni. Allt var þetta úr nauðhærðu þeli, í suðalitunum, samkembt, með svo nákvæmum litasamsetningum að hrein meistaraverk voru. (Úrdráttur úr texta um vetur í Þingmúla, af heimilislífi og tóvinnu II bindi bls 142)

Þetta má lesa í endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar um veturinn 1891-1892 á Þingmúla, þegar fjölskyldan var nýflutt úr Reykjavík í Skriðdal, sumarið á eftir fluttu þau í Vallanes. Lýsing þessi á ullarvinnslu set ég hér vegna þess að af textanum má ætla að svipaður vefnaður hafi verið unnin á bæjum í Skriðdal og jafnvel öllu Fljótsdalshéraði.

Undanfarið hefur vefstóll Ingibjargar Bjarnadóttir langömmu minnar á Vaði verið mér hugleikinn, og hefur hann orðið tilefni til þess að ég hef á hana minnst í samtölum við fólk. Þannig er að Björg amma mín vaðveitti þennan vefstól ásamt rokk móður sinnar sem er mitt helsta stofustáss. Vefstóllinn er aftur á móti hreinræktað vinnutæki án allra skreytinga og sennilega heimasmíði fyrir lítið pláss, miðað við hlutföll.

Vefstólinn hefur síðan amma og afi skildu við verið varðveittur af frænku minni, sem komin er til efri ára, og hefur áhuga á að koma honum í góðar hendur. Hvorki safnastofnun, óbyggðasetur né aðrir hafa séð sér fært að varðveita þennan vefstól. Ingibjörg á vel á annað þúsund afkomendur, enn hefur ekki neinn þeirra, sem spurður hefur verið, séð sér fært að taka vefstólin að sér, enda kannski lítill skaði þó tapist samtíningur af gömlum spýtum.

Ingibjörg á Vaði í Vallanesi

Ingibjörg gömul kona fyrir framan húsið á Jaðri, með föður minn, Sigurð Þórðarson Magnússon, á fyrsta ári. 


Ákvæðaskáldskapur

Íslendingar eru sagðir af ákvæðaskáldum og ofurgörpum komnir. Skáldin komu að vestan en garparnir að austan, þ.e. bókmenntahefðin kristin og keltnesk, en ofurmennskan norræn og heiðin. Fyrstu lög íslendinga voru Úlfljótslög þau kveða í upphafi á um umgengni við landvættir, og með sanni má segja menning landsmanna hefjist á ákvæðaskáldskap, -með því að kveða þeim níð, sem öbbuðust upp á Íslendinga.

Þennan ákvæðaskáldskap fékk Haraldur Gormsson Danakonungur fyrstur að reyna, svo vitað sé, þegar Birgir bryti hans rændi strandgóssi úr íslensku skipi við Danmörk. Haraldur sendi njósnara til Íslands sem átti að kanna aðstæður til innrásar í þetta land níðskálda og óþjóðalýðs, sem kvað níð svo beitt að undan sveið.

Sendiboði Haraldar mætti landvættum í hverjum landshluta; dreka fyrir austan, erni fyrir norðan, bola fyrir vestan og risa fyrir sunnan. Þess er skemmst að geta að Haraldur lagði ekki í landann. Lítið hefur varðveist af ákvæðunum gegn Haraldi Gormssyni og er ekki talin mikill menningarbragur yfir því litla sem þó hefur varðveist. 

Þás sparn á mó mörins

moðkunnur Haraldr sunnan,

varð þá Vinda myrðir

vax eitt, í ham faxa,

en bergsalar Birgir

böndum rækr í landi,

þat sá öld, í jöldu

óríkr fyrir líki.

Það fer lítið fyrir íslenskum ákvæðaskáldum og ofurgörpum í dag, -því miður. Maður saknar þeirra nú á tímum vindrellandi baróna og glóba. Á þessari öld upplýsingaóreiðunnar hafa Íslendingar samt tvisvar tekið til skálda ákvæðanna. Það var þegar vinir okkar settu á okkur hryðjuverkalög og kváðu á um fádæma skaðabætur, sem hefðu kostað þjóðina alda fátækt.

Landinn tók sig saman í andlitinu og létu hvorki flissandi fábjána né Davos dúkkulísur, sem dásömuðu Já Ísland, villa sér sýn, og kusu gegn icesave. Þá sýndu landvættir samstöðu með því að láta tungubrjótinn Eyjafjallajökul blása ösku og eimyrju yfir hryðjuverka vinina.

Síðast voru það íslenskir ofurgarpar, sem eltust við sálarlausa tuðru sem þjóðin veitti lið með ákvæðum. Þannig skáldskapur þarf hvorki að vera með menningarbrag né tungubrjótur til að virka, það er þjóðleg samheldni sem skiptir mestu. Þess ber þó að gæta að ákvæði geta verið tvíeggjuð og fláráð rétt eins og Sturlungaöld og samtíminn sanna.


Staðið við gluggann

IMG_0247

Í einsemd utan við gluggann

 

img_7497 17.07.2016

býr óhamingja sveitarinnar.

 

IMG_5430

Í minningu liðins tíma

 

IMG_7806

balakta tannlaus bros

 

IMG_7822

í eldhúsgardínunni.

 

IMG_5517

Já, ég hef staðið við gluggann

 

IMG_2439

séð hann bíða og vona,

 

IMGP2373

en sér hann þig

 

IMG_9257

eftir að þú ferð.


Íslenaka þjóðin

Nú á tímum alþjóðavæðingar og fjölmenningar, þegar flóttamenn flæða til landsins í skjóli innfluttra alþjóðalaga, eins og enginn sé morgunndagurinn, er ekki úr vegi að líta til þess hvaðan þjóðarsálin kom áður en hún hverfur í alþjóðlegan glóbalinn. Síðasta blogg fékk einstaklega höfðinglegar og áhugaverðar athugasemdir. Þar var athugasemd frá Hauki Árnasyni, og vitnaði hann í þjóðskáldið Einar Benediktsson þar sem hann minnist á bóki Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi, Íslenzki bóndinn. Einnig setti Pétur Örn Björnsson inn af höfðingsskap einstakt ljóð, sem mér fannst undirstrika allt, sem segja þurfti um það sem bloggið fjallaði um, -og gott betur.

Það er athygliverður kafli um tvískiptan jarðveg íslensku þjóðarinnar, hvað varðar atgerfi, tungumál og fornbókmenntir, í Íslenzki bóndinn, bók Benedikts Gíslasonar sem kenndi sig við Hofteig á Jökuldal. Þar getur hann sér m.a. til um frumlandnám Íslands á þeim tímum sem það var kallað Thule og hvernig kom til þess að Norðmenn settu hér upp einstakt þjóðveldi, sem er í tísku að kalla smákónga veldi, en er í raun hið íslenska bændaþjóðfélag, sem var einstakt á Evrópska vísu um aldir, -löngu eftir að þjóðveldið féll, jafnvel allt fram á 20. öldina, að tíma þess lýðveldis tók yfir sem nú er á hverfanda hveli.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Og landnámsmennirnir streyma til Íslands af tveimur þjóðum, sem þá eru farnar að blanda blóði saman í heimkynnum annarrar.

Tvær þjóðir af ólíkum slóðum, en virðast eiga vel saman, ólíkar að menningu en vel gerðar að líkams- og sálarfari leggja saman í þetta landnám.

Tvær lífsstefnur, sín með hvorri þjóð, verða samferða til þessa lands. Hin kristna lífskoðun, með samfélagshugsjónir, og hin heiðna lífskoðun, með einstaklingshyggju, íþróttaanda og vopnahreysti, verða samferða til landsins og leggja saman í þjóðarsál, sem óvíst er að hafi átt sinn líka að atgervi, hvorki fyrr né síðar í sögunni. Af hinni fyrri gengur huglæg saga inn í sálarlíf fólksins, og er þögul, og erfist sem slík frá kyni til kyns. Af hinni síðari hlutlæg saga og er hávaðasöm af vopnum og viðburðum, sem einkum einkennast af þessum tveimur þjóðsálarlegu þráðum, og er merkileg og æ uppi. Hvor lífsskoðunin eykur gildi hinnar á vettvangi lífs og sögu.

En hvernig nema svo þessir menn þetta land? Mynda þeir þéttbýli við veiðistöðvarnar, sem svo mikið orð fer af, og ætla mætti að væri einna auðveldast fyrir aðkomið fólk, sem hlýtur í fyrstu að skorta svo margt það, sem til bús og þæginda heyrir, og það hefur vanist í heimkynnum sínum? Því fer fjarri. Það dreifir sér um landið. Það skiptir landinu niður í smá reiti og hver fjölskylda eignast sinn reit. Þetta eru jarðir á Íslandi eins og þær hafa heitið um alla sögu, þessar skákir, sem landnámsmenn námu til eignar sér af þessu nýja engra manna landi, að því að talið er. Hver fjölskylda eignast sína jörð, og nú byrjar búskapurinn á þessum jörðum, svo fjölskyldan geti lifað. Bóndinn ber ábyrgð á þessum búskap, hann verður að standa fyrir viðskiptum við jörðina, svo fjölskyldan geti lifað. Hann ræður þessari jörð óskorað. Í þessum viðskiptum hans við jörðina sjást hæfileikar hans, brýnast hæfileikar hans; einn, sjálfráður notar hann hæfileika sína í viðskiptum við sína eigin jörð, og kemur ekkert annað við, meðan hann er látinn óáreittur.

Þjóðfélagsleg vandamál steðja ekki að honum, þjóðfélagsskyldur hans eru bundnar við afmarkaðan ætthring, það sem þær ná til út fyrir heimilið.

Jörðinni sinni gefur hann nafn, og oftast verður það hans eigin heiti, eða nafnið festist á jörð hans af hans heiti í þessum þröngu samskiptaháttum. Hann er einkenndur af nafni sínu og nafn hans flyst á heimkynni hans. Önnur koma af einkennum lands, ám, hólum, holtum, mýrum, skógum og þess háttar auðkennum, en hér um bil öll verða þau hlutlæg. Landið verður lifandi af heitum, sem öll eru gefin af hlutlægi á málfræðilega vísu. Það er ekkert fjall svo hvítt eða sindrandi af björtum bergtegundum, að það heiti Bjartfjall, en af sterku litareinkenni heitir Bláfjall, það er hér um bil hlutlægt orð.

Mörg þessi heiti verða listræn á málmynda- og hugmyndavísu, og bera fólkinu góða sögu um gáfur og fegurðarskyn.

Og nú er Íslandi skipt niður í jarðir, fram til innstu dala, út til ystu nesja. Hvergi er þorp eða borg. Landið er allt jarðir, hverri jörð ræður bóndi. Þjóðin er bændaþjóð, alveg óskorað. Það er engin stéttarskipting til, bara verkaskipting á heimilunum. Það kemur aldrei konungur í þetta land. Hver bóndi er sinn eigin konungur, hver jörð ríki hans, heimilisfólkið þegnar hans. Hann þarf að vera meira. Hann þarf að vera það, sem skáldbóndinn sagði um sjálfan sig á nítjándu öld:

Löngum var ég læknir minn,

lögfræðingur, prestur,

smiður, kóngur, kennarinn,

kerra plógur hestur.


Fylgjan

Sennilega dettur fáum í hug að leita þekkingar á heimsmyndinni í íslenskum þjóðsögum, eða auka skilning á andans málum með því að glugga í sögur um íslensku fornkappanna. Heimsmyndin er orðin hávísindaleg og hin fjarlægu austurlensku fræði og sjónvarpið hafa þótt álitlegri kostir til sáluhjálpar. Nútíma vísindi gera varla orðið ráð fyrir tilvist sálar, þó svo enn sé algengt að álykta sem svo að manneskja samanstandi af huga, líkama og sál. Skilningsvitin séu fimm; sjón, heyrn, snerting, bragð og lykt. Heimarnir hafi síðustu aldirnar verið taldir þrír þ.e. jarðlífið, himnaríki og helvíti.

Efnishyggja nútímans hefur aftur á móti tilhneigingu til að hafna yfirnáttúrulegum, trúarlegum og dulspekilegum skýringum á líf fólks. Maðurinn tilheyri ríki náttúrunnar. Heimurinn sé einn og lúti þróunarsögu Darwins sem er nátengd markaðslögmálum hagvaxtarins. Hugleiða má svo hvaða vitneskju menn hafi um tilveru efnisheimsins aðra en huglæga. Heimurinn geti því allt eins verið hugmynd, jafnvel líkur þeirri sem Gandi benti á, "ef þú vilt breyta heiminum breyttu þá sjálfum þér".

Samkvæmt margri austurlenskri dulspeki getur heimurinn aðeins verið til í huga sérhvers einstaklings í eins mörgum útgáfum og hann óskar sér, þar verður hver að vera sinnar gæfu smiður. Innan hverrar manneskju býr samkvæmt því, rýmið, sólin og áttirnar fjórar, það sem er fyrir ofan og fyrir neðan, guðir, djöflar og hægt að fara hvert þangað sem andans truntur þeysa. Því er betra að vera meðvitaður um að hugurinn getur svifið í tómarúmi líkt og skýin um himininn. Þó skýin geri ekki mistök með ferð sinni um himininn, þá hefur vindátt og hitastig áhrif á hvort þeim fylgir blíða eða ótíð.   

Hugmyndir fornmanna um skinfæri einstaklingsins virðast hafa verið frábrugðnar þeim sem uppi eru í dag, t.d. er hugsunin talin til eins af skilningsvitunum, líkt og gert er í Búddisma. Með því að færa hugsunina úr flokki skilningsvita yfir á vestræna vísu, í það sem mætti kalla hið óskilvitlega, er hægt að hafa gífurlega ómeðvituð áhrif á huga fólks og það hafa markaðsöfl nútímans notfært sér miskunnarlaust.

Sjálfsmynd heiðinna mann s.s. þeirra sem námu Ísland gerði ráð fyrir að manneskjan samanstæði af ham, hamingju, huga og fylgju, þessi fjögur atriði sköpuðu henni örlög. Þetta fernt virðist kannski fornfálegt og flókið, en er það svo? Fornmenn hafa kannski gert sér betur grein fyrir hvað hugurinn er flækjugjarn, ef hann er ekki notaður til að fylgjast með rétt eins og sjón og heyrn. Þess í stað svæfður við að meðtaka innrætingu í stað þess að fylgjast með á sama hátt og hin skilningsvitin.

Ef sjálfsmynd fornmanna er sett í samhengi við vestrænar hugmyndir dagsins í dag þá mætti skilgreina haminn sem líkama. Þetta þarf samt ekki að vera alveg klipp og skorið því til forna var talið að menn gætu verið hamrammir eins og greint er frá í Egilssögu að Kveld-Úlfur faðir Skalla-Gríms hafi verið.

En Kveld-Úlfur var samkvæmt sögunni klofinn persónuleiki. Á daginn var hann góður búmaður, duglegur og vitur, en á kvöldin svefnstyggur og afundinn, þaðan er viðurnefnið komið. Var því sagt að hann væri hamrammur eða hamskiptingur. Þjóðsögurnar skýra þetta fyrirbæri ágætlega og hve algeng hin forna meining er á íslenskri tungu.

"Betur hefur sú trú haldist frá fornöld að menn ímynda sér að sálin geti yfirgefið líkamann um stund, verið fyrir utan hann, en vitjað hans svo aftur; af þessu eru leidd mörg orð: vér köllum að maður sé hamslaus og hamstola af ákafa eður æðisfenginni reiði; hamhleypa er kallaður ákafur maður og skjótvirkur; hamur er vestanlands kölluð kona sem er geðvargur, óhemja og annað því um líkt. Alkunn eru orðin að hamast, skipta hömum og enn fleiri." Þjóðs. JÁ bls 341 I bindi

Nú á tímum verður fólki tíðrætt um hamingjuna, sem allir þrá, orðið hamingja er haft um gleði eða sælu. Hamingjan er talin tilfinning, sem kemur innan frá, eitthvað sem sagt er að þurfi að taka meðvitaða ákvörðun um að öðlast, hún sé nátengd hugarástandi. Til forna bjó hamingjan ekki í huganum, frekar en huganum er ætlaður staður á meðal skilningsvitana fimm nú á tímum. En hver er merking íslenska orðsins hamingja og hvernig er það saman sett?

Samkvæmt því sem sérfræðingar segja merkir orðið hamingja gæfa, heill, náðargjöf og í elsta máli einnig heilladís eða verndarvættur. Það er sett saman úr orðunum hamur sem merkir líkami, húð eða gervi og í eldra máli með viðtengingunni fylgja eða verndari. Viðtengingin –ingja er komin af engja af sögninni að ganga, nokkurskonar vættur sem gengur inn í ham eða gervi.

"Ásgeir Blöndal Magnússon getur sér þess til í Íslenskri orðsifjabók (1989:303) að hamur merki í þessari samsetningu "fósturhimna, fylgja" og vísar þar til ham í dönsku og sænskum mállýskum í sömu merkingu. Hamingjan hafi þá upphaflega verið heillavætti (í fósturhimnu) sem fylgir sérhverjum frá fæðingu".

Fræðimenn telja því hina fornu notkun orðsins bera vitni um að einstaklingurinn hafi ekki ráðið miklu um hamingju sína, sumum fylgi mikil hamingja, en öðrum minni. Þetta á þá væntanlega rætur að rekja til upphaflegrar merkingar orðsins hamingja, þ.e verndarvættur, heilladís, fylgja. Einnig eimir eftir af hinni fornu merkingu í orðatiltækjum eins og; „Það má hamingjan vita“ eða „Hamingjan hjálpi mér!“ Þar sem talað er um hamingjuna eins og sjálfstæða persónu, „ hamingjan er ei öllum gefin fremur en skýra gull“; segir í íslenskum dægurlagatexta og kveður þar við fornan tón. 

Fylgja er oftast talin þjóðsagnakennd og draugalegt fyrirbæri, en svo hefur ekki alltaf verið. Hjá forfeðrunum skipti miklu að búið væri þannig að einstakling sem nýkominn var í heiminn að honum fylgdi góður andi eins og lesa má um í þjóðsögunum.

"En í fornöld var allt öðru máli að skipta því þá koma fylgjur oftast fram sem andlegar verur enda eru þær annað veifið kallaðar dísir sem fylgi hverjum einstökum manni, verndi hann og farsæli, og liggur þá nærri að ímynda sér að fylgja sé sama og hamingja, gifta aða gæfa, auðna eða heill." Þjóðs. JÁ bls 340 I bindi

"En eigi eru allar fylgjur sagðar draugakyns og nokkuð annars eðlis; því svo segir gamla þjóðtrúin að þegar barn fæðist þá verður eftir af sálarveru þess hluti – sem sérstæð vera – í himnubelg þeim sem utan um það í móðurlífi og leysist síðar og kallast barnsfylgja. Þessi vera kallast fylgja og verður leiðtogi barnsins og líklega verndarvera þess. Hún er kölluð heilög og hefur ef til vill af fornmönnum verið sett í samband við forlög og hamingju og gefin stundum vinum og orðið kynfylgja." Þjóðs. SS bls.183 III bindi

Því var til siðs að fara vel með barnsfylgjuna í henni byggi heill barnsins sem myndi fylgja því í gegnum lífið. Fylgjan var stundum grafin innanhúss í námunda við móðir barnsins svo hún myndi hafa góð áhrif á fylgju þess. Ef fylgjan var grafin utandyra eða fleygt á víðavang þá var hún talin taka áhrif þess sem fyrst fór þar yfir, hvort sem um mann eða dýr væri að ræða, sem myndi uppfrá því einkenna fylgju einstaklingsins. Athyglivert er í því sambandi hvað mörg íslensk nöfnu bera í sér dýraheiti, björns nöfn og úlfs eða fuglsnöfn á við örn, val, svan, hrafn ofl..

"Mikill hluti fylgja þykir vera sá hluti mannssálarinnar sem verður eftir þegar barnið fæðist og fylgir barnsfylgjuhimnunni. Guðlaugur Guðmundsson – Guðlaugssonar, Hálfdánarsonar er gera lét á sig reiðfæri og óð allar ár austan af Djúpavogi með hestburð á baki – bjó að Þverá í Hörgslandshreppi á Síðu. Synir hans voru tveir, Guðmundur og Guðlaugur. Þegar Guðlaugur fæddist gleymdi nærkonan að bera ljós í kross yfir móðurina og barnið í rúminu og fleygði fylgjunni í koppinn. Þá kom Guðmundur, þá 7ára gamall, og settist á koppinn, enda átti Guðlaugur mynd bróður síns fyrir fylgju upp frá því, alltaf á því reki sem hann var þá og eins eftir að Guðmundur var dáinn." Þjóðs. SS bls 287 III bindi

Þegar börn fóru að fæðast á fæðingardeildum, og jafnvel fyrr, er fæðingarfylgjan yfirleitt brennd og eftir það er einstaklingurinn talinn fylgjulaus, hafi þess í stað það sem vinsælt er að kalla áru. Fylgjan gerði yfirleitt vart við sig áður en viðkomandi einstaklingur birtist. Ef fylgjan gerði vart við sig á eftir viðkomandi þá var hann talinn feigur. Sumir eru taldir hafa átt fleiri en eina fylgju, þá oft ættarfylgju að auki eða jafnvel aðra góða og hina vonda. Fylgjan var samt oftast talin heilladís eða verndarvættur sem lifði og dó með manneskjunni. Ef fylgjan dó eða yfirgaf manninn í lifanda lífi af einhverjum völdum þá var hann talinn gæfulaus eða heillum horfinn. 

Það þarf ekki endilega að fara langt yfir skammt við að sækja andlegan skilning. Flest trúarbrögð eiga sinn uppruna á fjarlægum slóðum, austurlenskri speki s.s. hindú, jóga og búddismi sem þurfa mikla iðkunn áður en þau nýtast til sáluhjálpar, auk þess sem það þarf að setja sig inn í aragrúa torskilinna hugtaka. Kannski liggur einfaldasta leiðin til sálarþroska í gegnum þann menningararf sem fylgir heimahögunum og skilningur auðmeltastur þar sem tungumálið hefur verið drukkið með móðurmjólkinni. Því er það hvorki tilviljun hvar við fæðumst né hvað því fylgir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband