Nýja hagkerfið / gamla hagkefið.

    IMG_4350

 

Sennilega er svo nú komið að grípa verður, til um einhvern tíma, gamalla hagfræði aðferða og kemur þá Djúpavogs hagkerfið upp í hugann. 

 

Þegar hrun varð í síldveiðum á sjöunda áratugnum lentu atvinnufyrirtækin (kaupfélagið, útgerð og fiskvinnsla) á Djúpavogi í miklum erfiðleikum vegna bræðslu sem byggð var rétt fyrir hrunið og stóð tekjulaus í skuld.  Peningaleysi var það mikið á staðnum að ekki var hægt að borga út laun.  Gjaldþrot kaupfélaga tíðkuðust hreinlega ekki á þeim árum frekar en ríkja.  Þar sem fyrirtæki staðarins voru að mestu á sömu hendi þ.e. kaupfélagsins fékk fólkið skrifað í kaupfélaginu og átti það að vera á móti vangoldnum launum. 

 

Ókosturinn við þetta kerfi var fólk sem fékk skrifað í kaupfélaginu en sá ekki ástæðu til að mæta til stopullar vinnu sem ekki var borguð í peningum og þegar þrír veglegustu leikfangabílarnir hurfu þannig úr hillum kaupfélagsins skömmu fyrir jól sáu menn að svona gat þetta ekki gengið.  Til að koma í veg fyrir svona uppákomur voru prentaðir númeraðir úttektarseðlar með upphæð til að deila út við launauppgjör, sem sagt Djúpavogspeningar. Þessi gjaldmiðill reyndist að mörgu leiti, ágætlega enda þurftu fólk yfirleitt ekki á því að halda sem ekki fékkst í kaupfélaginu. 

Einn stór galli var þó á þessum gjaldmiðli hann var sá að ekki var hægt að leysa út póstkröfur frá ÁTVR en það var nánast það eina sem fólk gat hugsanlega þarfnast, en kaupfélagið ekki útvegað.  Gjaldkeri kaupfélagsins var samt nokkuð pössunarsamur á að eiga til íslenskar krónur til koma í veg fyrir að þesskonar gjaldeyrisþurrð illi óróa í plássinu og ef svo bar undir gat eldra fólk átt blómleg gjaldeyrisviðskipti með ellistyrkinn sinn og var það sennilega besti mælikvarðinn á raungengi Djúpavogsgjaldmiðilsins. 

Það sem varð hagkerfi þessu að falli má segja að hafi verið einkavæðingin eða réttara sagt þeirra aðila sem stóð í verslun á staðnum og ekki gátu beygt sig undir alræði kaupfélagsins, því þeir urðu alfarið að treysta á aðkomu og ferðamenn, því að taka Djúpavogspeninga sem greiðslu var bein ávísun á gjaldþrot.  Eins var því sem næst útilokað fyrir íbúana að nota þennan gjaldmiðil utan Djúpavogs.

Hvort sú framtíð sem blasir við íslendingum verður eitthvað þessu lík er ekki gott að sjá en ef svo er þá er bara að hafa gaman af því og líta á björtu hliðarnar.


Bloggfærslur 4. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband