Knútsdagur - Knútsbylur

Í dag er Knútsdagur, sem var messudagur til minningar um Knút hertoga sem veginn var á Sjálandi árið 1131.  Dagsins hefur einnig verið minnst fyrir mannskaðaveður þennan dag árið 1886 og kallað var Knútsbylur. Veðrið kostaði 15 menn lífið og geisaði á afmörkuðu svæði  austanlands. Halldór Pálsson safnaði frásögnum af þessu veðri, frá þeim sem það mundu, í bók sína Knútsbylur.

"Skaðaveðrið 7. janúar 1886 var kennt við almanaksnafn dagsins og kallað Knútsbylur. Veðrið gekk mest yfir Múlasýslur og Austur-Skaftafellssýslu. Það skall á snemma dags á milli miðmorguns og hádegis svo snöggt sem kólfi væri skotið. Víðast hvar var búið að reka fé til beitar, en stöku menn voru svo veðurglöggir eða höfðu þann veðurugg, að þeir ráku ekki fé frá húsi. Hvergi varð fé, sem út hafði verið látið náð í hús um daginn. Næsta dag var upprof en frosthelja. Náðist þá megin hluti fjárins hrakið og úr fönn dregið, en víðast fórst til dauðs fleira og færra. Sumstaðar hraktist fé í vötn og sjó. Þannig hrakti flesta sauðina í Hrafnsgerði í Lagarfljót og í Fjörðum sumstaðar rak fé undan veðrinu í sjó.

Mikill mannskaði og margskonar annar skaði varð í þessu veðri. Sex menn urðu úti, þrír á Fljótsdalshéraði, tveir í Reyðarfirði og einn í Breiðdal. Bátur fórst frá Nesi í Norðfirði með 4 mönnum og annar í Reyðarfirði með 5 mönnum norskum. Þrjár skútur rak á land í Seyðisfirði og brotnuðu tvær þeirra mikið. Þök rauf af húsum víða og mörg urðu fleiri smærri tjón. Mikið tjón á sauðfé varð í Knútsbyl í Austur-Skaftafellssýslu. Á þremur bæjum rak allt sauðfé í sjó og hross sumstaðar. Kirkjan fauk á Kálfafellstað og þök af húsum víða."

Þetta má lesa í Austurland III bind um bylinn sem kenndur er við Knút hertoga. Um þetta óveður hefur einnig verið skrifuð heil bók sem nefnist Knútsbylur og hefur Halldór Pálsson þar tekið saman frásagnir eftir fólki á Austurlandi sem mundi eða hafði heyrt talað um þetta veður. Þar segir að bylurinn hafi verið líkari fellibyl en aðrir byljir vegna mikils vindstriks. Lítillega hafði snjóað nóttina fyrir bylinn en logn var á undan honum, svo flestir settu út sauðfé til beitar, en þetta reyndist svikalogn því veðrið brast á í einni svipan með ægilegum vindstyrk snjókomu og frosti. Margar frásagnir greina frá því hve erfiðlega gekk að koma forystu fé úr húsum þennan morgunn og í sumum tilfellum mun veðurskyggni forustufjárins hafa komið í veg fyrir tjón. Eins er víða sagt frá veðurdyn sem heyrðist rétt á undan veðrinu þó svo lygnt væri og varð það einhverjum til bjargar.

Í Suðursveit var snjólaust þegar gekk í Knútsbyl en þar fauk m.a. kirkjan á Kálfafellstað, um eftirköstin segir: Eftir Knútsveðrið var jörð mjög illa farin. Allur jarðvegur var skafinn upp, og þar sem áður voru fallegir víðirunnar, blasti við svart flag. Víða var jarðvegurinn í fleiri ár að ná sér eftir þetta áfall.

Í Breiðdal segir Sigurður Jónson sem var unglingur að Ósi m.a. svo frá eftir að hann reyndi að komast úr fjárhúsi örstutta leið heim í bæ þegar veðrið brast á: ...uns ég kom að bæjarhorninu sem ég þurfti að beygja fyrir til þess að komast að bæjardyrunum. Þá hrakti stormurinn mig frá veggnum, því út með norðurhlið bæjarþorpsins stóð stormurinn, og ég rann undan vindinum niður hlaðbrekkuna. Líklega hefði ég reynt að skríða upp bæjarbrekkuna og heim í bæjardyrnar, sem voru á norðurvegg bæjarþorpsins, en hvort það hefði tekist, er óvíst, því að áður en til þess kæmi, að ég reyndi það, var tekið í mig og ég leiddur heim í bæjardyrnar. Þetta gerði Gunnar Jósepsson húsbóndinn á bænum.

Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt. Í fjárborginni hélst hann ekki við nema í stutta stund sökum hræfarelda, er þar var mikið af. Innan um elda þessa undi hann sér ekki, þó saklausir væru. Hann hélt því brátt þaðan heim á leið inn með fjallinu, þótt stormurinn og kófið væri svo mikið að hvergi sæist.

Það var farið að daga þegar lagt var af stað að heiman og út með sjónum til að leita föður míns og fjárins. Þeir mæta föður mínum, þar sem heitir Ósleiti, á réttri leið heim til bæjar, en stirður var hann þá til gangs,mest vegna þess að klakahella svo mikil var fyrir andliti hans, að hann sá varla nema upp í himininn. Hann var maður alskeggjaður, svo að í skegginu og andlitinu fraus hríðarkófið sökum líkamshitans. Fram eftir nóttu braut hann af andlitinu svellhúðina, svo hann sæi frá sér, en svo fór andlitið að sárna undan sífelldu nuddi með frosnum vettlingum, svo hann varð að hætta að hreinsa af andlitinu klakann, en öndun hans hélt þó opnum götum, að hann sá nokkuð upp fyrir sig. Er klakinn var þíddur af andlitinu, kom í ljós að hann var blóðrisa, einkum á enninu, nefinu og kinnbeinunum.

Við þetta má bæta að trúmennska Einars við Ósféð var svo mikils metin að Guðmundur húsbóndi á Ósi gaf honum bestu kindina sína eftir þetta veður enda lifði allt féð sem var úti við Kleifarrétt.

Í Mýnesi í Eiðaþinghá á Héraði bjó í Knútsbyl Ólafur Magnússon ásamt Guðmundi tengdasyni sínum. Hjá Ólafi var þá Einar sonur hans, rösklega tvítugur að aldri. Hann hirti fé á beitarhúsum austur frá Mýnesi, hafði látið féð út þennan morgun, var komin heim aftur og var að hjálpa föður sínum við að taka til nauthey í hlöðu, þegar hríðin skall eins og reiðarþruma á þekjuna. Þreif hann vettlinga og hljóp út í fárviðrið lítt búinn og hugðist bjarga fénu í hús, en kom eigi aftur. Þegar veður tók að lægja, svo komist var í húsin, voru húsin tóm. Fannst Einar daginn eftir, helfrosinn skammt frá túninu í Mýnesi. Það heita Vallnaklettar, þar sem hann fannst. Ólafur Sigurðsson vinnumaður Sigfúsar Oddsonar á Fljótsbakka, fannst frosinn í hel á holtunum út af Mýnesi , niður af Skagagili, hann var sagður 36 ára.

Þessi húsgangssaga er frá Ketilstöðum á Völlum: Sigurður hét vinnumaður Sigurðar bónda Hallgrímssonar. Hann var að reka sauðina í haga upp til fjalls, er í bylinn gekk. Hann kom sauðunum í Beinárgilið stutt frá Flatarhúsunum. Þetta voru 100 sauðir. Hann stóð hjá sauðunum þann dag og næstu nótt og lét þá ekki fenna. Ekki er vitað um klæðnað hans, en ókalin komst hann heim. Fjármaður Gunnar Pálsson, er hirti féð á Grundinni, hafði meðferðis tvo poka úr togbandi. Er bylinn gerði, var hann á milli fjárhúsa og bæjar, fer hann þá í annan pokann, en setur hinn yfir höfuð sér, lagðist síðan niður og lét fenna yfir sig. Þannig bjargaðist hann ómeiddur frá þessum voða byl.

Úr dagbók Sölva Vigfússonar á Arnheiðarstöðum í Fljótsdal: 7. Janúar 1886, norðan bráðófært veður, það allra hvassasta. Hann var bjartur fyrst um morgunninn, svo búið var að setja út féð í Hrafnsgerði, en veðrið kom á smalann, og hann missti féð úr höndum sér, og það hrakti í fljótið, en meðfram landi var krapi, sem það festist í, svo fraus að því um nóttina, og drapst 56 en 56 fannst hjarandi. 8. Janúar, norðan með kófi -14°C. Við vorum að bjarga því sem lifandi var af Hrafngerðis fénu, úr fljótinu og grafa það í fönn.

Frásögn Gísla Helgasonar í Skógargerði Fellum: Í Hrafnsgerði í Fellum voru sauðir heima á túni, og vildi smalinn reka þá allsnemma þennan morgun. Svartur forustusauður var í húsinu og fékkst ekki út. Hann hljóp kró úr kró. Þá vildi smalinn handsama sauðinn og draga út úr húsinu, en það tókst ekki, því að þá stökk Svartur upp í garðann og yfir hann; þó hann hefði aldrei verið garðakind. Varð úr þessu garðaleikur, sem sauðamaður tapaði. Þá tók hann það ráð að leita liðveislu hjá fjósamanni. Tókst þeim í félagi að handsama Svart og draga hann út. Síðan rak sauðamaður hópinn yfir Hrafngerðisána, og segja þó sumir, að þá væri veðrið að skella yfir, er hann hélt heimleiðis. Ekki þarf að orðlengja um það, að þessi hjörð týndist öll í Lagarfljótið, sem þá var að leggja, en engri skepnu fært.

Vissi ekki Svartur lengra fram en maðurinn?


Bloggfærslur 7. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband