Blindfullur í berjamó

Það var eitt sinn að verslunareigandi setti miða í gluggann á búðinni sinni sem á stóð "lokað í dag - farinn í berjamó". Þetta gerðist fyrir mörgum áratugum síðan þegar ég var á barnsaldri í mínum heimabæ. Sumir vildu meina að verslunareigandinn væri alls ekki í berjamó heldur væri hann blindfullur. Hvort sem hann var fullur eða ekki þegar hann lokaði sjoppunni þá sýnir tilkynningin í glugganum anda þessa tíma vel. Þó svo hvorki þá né nú sé auðvelt að vera fullur við að tína ber, þá þótti í þá tíð góð berjaspretta eðlileg afsökun fyrir því að loka sjoppu.

Nú á tímum sjást hvorki né heyrast svona tilkynningar, en oft verður vart við tilkynningar um að "sjoppunni" hafi verið lokað vegna árshátíðarferða starfsfólks. Enda kannski eins gott að fólk taki ekki upp á því að verða sér út um ókeypis bláber nú á dögum kjararáðs. Rétt betra að sýna þegnskyldu, og vinna til sinna launa fyrir skatt og fara síðan með útborgunina í sjoppuna til að kaupa berin með virðisaukaskatti. Auk þess gætu hlaupabrettið í ræktinni og slakandi sólarlandaferðin verið í uppnámi ef fólk tæki upp á því að fara frítt í berjamó, og hagvöxturinn þar með farið norður og niður. 

Fyrir nokkru gerði ég grein fyrir tilraun um það hvort eitthvað væri til sem gæti kallast ókeypis hádegisverður, um hana má lesa hér. Þessi tilraun átti að standa sumarlangt og stendur því enn. Ég hafði jafnframt á orði að vel gæti verið að seinna í sumar yrði greint nánar frá þessari tilraun. Þess er skemmst að geta að illgresi s.s. fífla, hundasúrur og njóla mátti éta eins og hvern annan herramanns mat fram undir miðjan júní, en á þeim matseðli hófst tilraunin, eftir það fór þetta grænmeti að verða fullgróft undir tönn og beiskt fyrir tungu og njólinn þar að auki farin að tréna.

IMG_0249

Íslenskt góðgæti - rabbabaragrautur með aðalbláberjum, skyrslettu og rjóma

Síðan hefur rabbabari verið einn aðalrétturinn á matseðlinum þegar kemur að guðs grænni náttúrunni, enda rabbabari orðin því sem næst villt illgresi, því víða má finna rabbabara akra í órækt þar sem áður voru mannabústaðir. Þar að auki prófaði ég arfa í salat en þesskonar salat hafði ég fengið sem barn og minnti að væri gott, en fannst nú of mikið grasbragð.

Eins reyndi ég við beiska og bragðsterka hvönnina aftur með því að gera úr henni pesto í stað salats, en það reyndist verulega bragðsterkt þannig að best fór á að nota pestóið í kryddlög fyrir lambakjöt. Lerkisveppi hirti ég fyrir nokkru síðan, það tekur ekki nema nokkra mínútur að verða sér út um mörg kíló, þá steikti ég í smjöri og helti svo út á hrærðum eggjum og borðaði sem aðalrétt í tvígang, fannst þeir betri í seinna skiptið. Annað hefur verið prófað í mýflugumynd s.s. að stinga upp í sig fjöruarfa og skarfakáli á förnum vegi.

Það sem kerlingabækurnar segja um næringargildi og lækningarmátt íslensks illgresis stenst fullkomlega væntingar, enda fæst hálf hollustan við það eitt að höndla stöffið út í Guðs grænni náttúrunni. Og þó það skipti ekki höfuð máli, þá má komast nálægt því að verða sér út um "frían hádegisverð", sem er herramanns matur, en maður skildi samt ekki sleppa því alveg að nota hugarflugið, rúsínur og bónustrix  til að bragðbæta  herlegheitin. Núna er árstíð berjanna í hámarki og sprettuna hef ég aldrei séð meiri. Hægt var að tína fullþroskuð aðalbláber upp úr 20. júlí. Bláberin eru sögð full af andoxunarefnum og geta því verið ágæt vörn við ýmsum meinum t.d. til að vinna á slæmri blóðfitu og halda mönnum allsgáðum því þau verða ekki tínd á fylleríi.

Það er af sem áður var að "sjoppunni" sé lokað vegna góðrar berjauppskeru, maður verður jafnvel var við færri í berjamó en var fyrir örfáum árum síðan. Nú eru margir sennilega uppteknari við lífsins gæðastundir, með ljúfum vínum á erlendum sólarströndum eða við að ná niður gistanáttakostnaðnum af skuldahalanum. En til að njóta berjamósins þarf að gefa sér tíma, því ekki er hægt að kaupa tíma augnabliksins þegar sól skín í heiði og berin eru blá. Sennilega er sá tími sem er keyptur oft kallaður gálgafrestur, einmitt þess vegna.


Bloggfærslur 21. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband