Eru álfar kannski menn?

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er saga af stúlku í Mývatnsveit sem virðist hafa verið komin á samfélagsmiðla löngu áður en tæknin varð til. Hún vissi atburði í öðrum landshlutum svo til um leið og þeir gerðust. Lýsingin á atferli stúlkunnar var samt ekkert sérstaklega geðsleg, sem segir svo sem ekki mikið annað en tíðarandinn hefur breyst. Þar segir m.a.;

En þegar hún þroskaðist meira vitkaðist hún sem aðrir menn að öðru leyti en því að hún var alltaf hjárænuleg og jafnan óglaðvær. Fór þá að bera á því að hún sæi mannafylgjur öðrum framar svo hún gat sagt fyrir gestkomur; en er fram liðu stundir urðu svo mikil brögð að undursjónum hennar að svo virtist sem hún sæi í gegnum holt og hæðir sem síðar mun sýnt verða. Til vinnu var hún næsta ónýt og prjónaskapur var næstum eina verkið hennar. Hún átti vanda til að sitja heilum tímum saman eins og agndofa og hvessa augu í ýmsar áttir innan húss þótt aðrir sæju ekkert er tíðinda þætti vert.

Það má spyrja sig hvort þessi stúlka hafi þá strax haft wi-fi tengingu og snjallsíma auk sjónvarps, sem fólk vissi hreinlega ekki af, tækni sem flestum þykir sjálfsögð í dag. Þannig hafi hún vitað ýmislegt sem öðrum var hulið.

Á öldum áður moraði allt í álfum, ef eitthvað er að marka þjóðsögurnar. Á því hvað um þá varð hefur engin haldbær skýring fengist. Hugsanlega hafa þeir horfið með raflýsingunni, rétt eins og mörg skyggnigáfa mannfólksins, eftir að veröldina fór að fara fram í gegnum upplýstan skjá. Það er t.d. mjög sjaldgæft að álfur náist á mynd, þó segja sumir að það sé meiri möguleiki eftir að digital ljósmyndatæknin hélt innreið sína, sem flestir eru með við höndina í símanum.

Sjálfur er ég svo sérvitur að ég hef ekki ennþá tileinkað mér margt af þessari undra tækni og verð því að nokkru leiti að notast við sömu samfélagsmiðla og fólkið sem umgekkst stúlkuna í Mývatnssveit. Svo forneskjulegur er ég að hvorki er sjónvarp né útvarp í minni nærveru og hefur ekki verið hátt í áratug, hvað þá að ég hafi eignast snjallsíma. Ég þrjóskast samt enn við að halda mig í raunheimum með því að hafa internettengingu og gamla fartölvu svo ég geti fylgst með því sem allir vita.

Þessi þverska mín varðandi framfarir hefur í nútímanum gert mig álíka hjárænulegan og stúlkuna í Mývatnssveit um árið, svo öfugsnúið sem það nú er. Í kaffitímum á mínum vinnustað á ég það t.d. til að rausa við sjálfan mig um bæði forna og framandi atburði, á meðan allir aðrir horfa upplýstir í gaupnir sér og þurfa í mesta lagi vísa lófanum í andlitið á næsta manni og segja sjáðu, til að gera sig skiljanlega.

Hjárænulegastur hef ég samt orðið heima hjá mér. Eftir að hafa gefist upp á því að gera rausið í mér skiljanlegt innan fjölskyldunnar, sat ég þá þegjandi í sófanum líkt og álfur út úr hól. Fjölskyldumeðlimir sátu saman við borðstofuborðið og glugguðu í símunum sínum, á meðan ég starði bara út í bláinn, borandi í nefið. Allt í einu klingdi í hverjum síma og bjarmaði af hverjum skjá upp í andaktug andlitin, allir horfðu kankvísir í sinn síma, án þess að þurfa að segja svo mikið sem sjáðu. Sonur minn hafði náð mynd af sófa-álfi og sent hinum við borðið hana á snapchat.

 


Bloggfærslur 14. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband