Íslenskur herforingi - hver var hann?

Þann 2. janúar 1911 birtist í danska blaðinu Politiken grein með fyrirsögninni: Hver var hann?, sem var sögð send inn af alkunnum stjórnmálamanni (sagður vera fyrrverandi  varnarmálaráðherra Dana, Christopher Krabbe). Í greininni segir hann frá herforingja sem getið var um í bókinni Eitt horn af Provence, sem er í S-Frakklandi. Í greininni er sagt frá málaliða herdeild, sem fékk þveröfuga dóma miðað við foringja hennar, sem sagður var vera réttsýnn maður og mannúðlegur, og auk þess Íslendingur, svo mörg voru þau orð sem um Íslendinginn voru höfð.

Í febrúar sama ár er í Lögréttu vakin athygli á greininni og lesendur spurðir hvort þeir viti hver maðurinn var. Svo er það akkúrat ári eftir að greinin birtist í Poletiken, að grein er í Eimreiðinni þann 1. janúar 1912, undir fyrirsögninni Íslenskur herforingi, þar sem leitast var við að svara hvaða íslenski maður þetta gæti hafa verið. Undir greininni er fangamarkið V.G., og verður að ætla að hana hafi ritað Valtýr Guðmundsson sagnfræðingur, og ritstjóri Eimreiðarinnar.

Ég rakst á þess greinaskrif fyrir tveimur árum þegar ég var að forvitnast um ævi Jóns lærða Guðmundssonar. En komst þá fljótlega að því að auðveldast myndi vera að kynna sér ævi Jóns með því að lesa bókina Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson. Ég fór því á bókasafnið og útvegaði mér bókina, hafandi fyrst og fremst áhuga á að kynna mér hvað í henni væri að finna um veru Jóns lærða á Austurlandi.

Austur á Hérað hafði Jón flúið vegna galdraofsókna og dvalið þar það sem hann átti ólifað ásamt konu og afkomendum, fyrir utan ferðar til Kaupmannahafnar sem endaði svo fyrir íslenskum dómstól. þar sem hann freistaðist til að fá leiðréttingu mála sinna. En það tókst ekki, hann fékk þó grið áfram á Austurlandi. Í stuttu máli sagt þá var ekki ýkja mikið á þessari næstum 800 síðna bók að græða varðandi veru Jóns lærða á Austurlandi, umfram það sem segir í Fjölmóði hans, sem er nokkurskonar skorinorð ævisaga sem hann skildi eftir sig í bundnu máli.

252. Hitti þar mæta menn / og milda fyrir, / Bjarna sýslumann / og blíðan prófast, / síra Ólaf vorn, / sælan með guði; / umbuni guð þeim / allar velgerðir. (Úr Fjölmóði ævidrápu, Þegar Jón lærði kom á Héraðið) - 317. En að skilnaði / ályktuðu / Jens og junkur / að ég frí skyldi / í Múlasýslu / mína reisa / og hjá kerlingu / kúra síðan. (Úr Fjölmóði eftir að konungsbréf að lokinni Kaupmannahafnar ferð hafði verið tekið fyrir á alþingi).

Svo var það núna um jólin að ég heyrði í litlu systir sem býr í S-Frakklandi að upprifjaðist þessi athyglisverða grein Valtýs Guðmundssonar sagnfræðings í Eimreiðinni. En til tals kom á milli okkar systkinanna hvort nafni minn, Remi Paul Magnús sonur hennar, væri genginn í Franska herinn eins og til hafði staðið síðast þegar við heyrðumst. Það hafði dregist en hann hefði staðist inntökupróf.

Tafirnar höfðu aðallega stafað af nákvæmri bakgrunns rannsókn franska hersins á íslenskri móðurinni. Mér varð á orði að það hefði verið eins gott að franski herinn hefði ekki komist í Íslendingabók því þá hefði verið hægt að rekja nafna aftur til Egils Skallagrímssonar og hann hefði ekki reynst frökkum neitt sérstaklega. En mundu svo eftir greininni í Eimreiðinni þar sem getið var þessa Íslendings sem sagður var hafa verið réttsýnn maður og mannúðlegur. Greinin fylgir hér á eftir;

ÍSLENSKUR HERSHÖFÐINGI

Þann 2. janúar 1911 stóð í danska blaðinu „Politiken“ grein með fyrirsögninni: "HVER VAR HANN?", er blaðið kvað sér senda af alkunnum stjórnmálamanni (höf. kvað vera fyrv. hermálaráðherra Dana C. Krabbe) dönskum sunnan frá Miðjarðarhafströnd. Sú grein hljóðar svo:

"Sex stunda ferð í vestur frá Nízza er bærinn Hyéres. Hann stendur í fjallshlíð og eru krókóttar miðaldagötur upp eftir henni, en uppi á fjallinu rústir af kastalaborg. Við fjallsræturnar eru íbúðarhús í nútíðarstíl. Hyéres er álíka stór og bæirnir Helsingjaeyri og Hilleröd samanlagðir, og hefir víst aldrei stærri verið. En á miðöldunum voru ríkin smá og var þá Hyéres með umhverfi sínu sjálfstætt furstadæmi. 1254 var það sameinað greifadæminu Provence, sem þá var sjálfstætt, og er Provence 1481 sameinaðist konungsríki Frakka, rann Hyéres saman við Frakkland í byrjun 18. aldar átti Frakkakonungur í ófriði við hertogann af Savoyen, og tóku þá herflokkar hertogans Hyéres 1707. Í þeim herflokkum voru flestir liðsmanna Þjóðverjar, Savoyingar og Genúingar; en eftir því, sem Louis Bronard segist frá í bók sinni "Eitt horn af Provence", var foringi þeirra Íslendingur, og um hann er það tekið fram — gagnstætt því, er segir um liðsmenn hans —, að hann hafi verið "réttsýnn maður og mannúðlegur".

"Þessi frásögn um að Íslendingur hefði haft herstjórn í þjónustu hertogans af Savoyen, vakti eftirtekt mína, og þar sem honum var borin svo vel sagan, fór mér að þykja vænt um hann. Ég hafði aldrei fyrr heyrt hans getið. Og þar sem ég (og sjálfsagt fleiri af lesendum Politiken mundi hafa gaman af að fá eitthvað meira um hann að vita, þá‚ leyfi ég mér að beina þeirri spurningu til íslenskra sagnfræðinga: Hver var þessi íslendingur? Veit nokkur maður nokkuð um hann?"

Sé hér um sanna sögu að ræða, er ekki ólíklegt, að mörgum Íslendingum mundi — ekki síður en Dönum — þykja fróðlegt að fá að vita, hver þessi íslenski hershöfðingi hafi verið. Vér Íslendingar höfum ekki átt svo marga hershöfðingja nú á seinni öldum, að ekki væri vert að halda nöfnum þeirra til skila, sem getið hafa sér góðan orðstír. En hér er ekki svo hægt um vik, þar sem nafnsins er ekki getið, enda óvíst, að það gæfi næga leiðbeiningu, þó svo hefði verið. Því Íslendingar hafa svo oft tekið sér ný nöfn, eða önnur í útlöndum en heima fyrir, og gat það vel hafa átt sér stað hér. Hins vegar mun þess hvergi finnast getið í íslenskum ritum, að nokkur Íslendingur hafi gengið í herþjónustu í Savoyen, og er þá ekki annað fyrir hendi til úrlausnar spurningunni, en að beita sennilegum líkum og tilgátum, þó engin vissa geti með því fengist að svo stöddu.

Sá maður, sem böndin virðast helst berast að í þessu efni, er Guðmundur Guðmundsson, sonarsonur Jóns Guðmundssonar lærða, þess er Þormóður Torfason kallaði Plinius Islandicus og sem Guðbrandur Vigfússon segir um í formála sínum fyrir "Íslenskum þjóðsögum", að fáir hafi þá verið svo fjölfróðir og víðlesnir sem hann. Enda var hann göldróttur talinn og slapp með naumindum frá að verða brenndur á báli. Sonur Jóns lærða, en faðir Guðmundar, var séra Guðmundur Jónsson, sem fyrst var prestur á Hvalsnesi (vígður 1633), en síðan (1654—1683) á Hjaltastað, og dó 1685.

Guðmundur, sonur Guðmundar prests Jónssonar, var fæddur 1643 og var 15 vetra gamall (haustið 1658) sendur utan til náms í Frúarskóla í Kaupmannahöfn. Þá var ófriður milli Svía og Dana og var Guðmundur hertekinn af Svíum. En Danir hertóku aftur skip það, er Guðmundur var á með Svíum, og hefir það líklega verið skip það, er hinn hrausti Manarbúi Jakob Nielsen Dannefer tók af Svíum 2. okt. 1658 og varð frægur fyrir. Var þá Guðmundur hernuminn í annað sinn, og hafði sætt svo illri meðferð, að hann var "af sér kominn af sulti, klæðleysi og órækt". Hætti hann þá við lærdómsnám sitt og gekk á mála sem hermaður, og var 4 ár í herþjónustu, uns hann var leystur úr henni af dönskum herramanni (1662), "því hann var skarpvitur og ritari góður", segir Espólín í Árbókum sínum.

Var hann svo sveinn herramanns þessa í önnur 4 ár, uns hann (1666) gekk í þjónustu Soffíu Amalíu, drottningar Friðriks III., "og fékk náð hennar mikla". Var þá einveldi fyrir skömmu á komið í Danmörku, og gerðist drottning umsvifamikil og var að mörgu leyti meira ráðandi í ýmsum greinum en konungur sjálfur. Var hún skrautgjörn mjög og gefin fyrir skemmtanir, og hóf þá, sem henni geðjaðist að, til metorða og valda, en þeir, sem urðu fyrir ónáð hennar, fengu oft á hörðu að kenna. Það var því ekki lítils vert, að komast inn undir hjá henni.

Vér skulum nú láta Espólín segja sögu hans áfram, með eigin orðum:

"Guðmundur Guðmundarson prests, Jónssonar lærða, hafði nú (1673) verið 14 eða 15 vetur utan, og í veg miklum með Soffíu Amalíu drottningu; hann fékk þá leyfi að finna foreldra sína, og sendi drottningin Guðmundi presti föður hans hökul dýran. Guðmundur kom út, og að Hjaltastað til sunnudagsmessu, öllum óvart og ókenndur, og duldi þess alla, hver hann var; lést hafa skylduerindi til alþingis og Bessastaða, og vilja fara sem fljótast. Faðir hans vildi fá tíðindi, og bað hinn ókunna mann mjög að gjöra sér þann veg, að þiggja að sér máltíð eða annan greiða og spurði að Guðmundi syni sinum. Hann kvað hann lifa og vera gott af hans ráði að segja; og|slíkur væri hann nú orðinn, að prestur mundi eigi kenna hann, þó hann sæi.

Prestur lést víst hyggja, að hann mundi kenna hann, og spurði, hvern vöxt eða þroska hann hefði. Guðmundur mælti alt á dönsku, kvaðst eigi annað segja kunna sannara, en að hann væri mjög líkur sér að vexti og áliti. Ekki var Guðmundur prestur haldinn glettingarbarn, og er þess nokkuð getið fyrri, en þó varð hann eigi að vísari, og hélt Guðmundur honum uppi með þessu fram á aftan, og lést þá vilja brottu. En síðan sagði hann foreldrum sínum með fyrirgefningarbón, hver hann var; urðu þau þá mjög fegin, og þóttust hafa heimt hann úr helju. Var hann um vetur í landi, og fór utan síðan í sömu þjónustu".

Það hafði fyrr orðið um Guðmund Guðmundarson, er hann var með Soffíu Amalíu drottningu, að þá er meistari Jón Vigfússon vígðist til vísibiskups (1674), tók hann bréf fyrir allri Borgarfjarðarsýslu, og ætlaði út. Það mislíkaði drottningu og kvað hann fá annað betra hjá sér; og þorði hann eigi að neita boði hennar, og hafði gjörst fógeti hennar á Láglandi, því að þau smálöndin hafa drottningar í Danmörku til uppeldis sér í ekkjudómi. Gekk hann að eiga þernu eina þýska, þó ættaða vel, og var um hríð í allgóðum veg, þar til er bændur nokkrir kærðu hann um álögur nýjar. Kom það fyrir rétt í Kaupmannahöfn, og vann hann málið, en var þó kærður um hið sama skömmu síðar aftur; þá varð hann undir í málinu, og missti embættis, en þóttist þó eigi annað hafa gjört en skipun síns herra. Og nú er hér var komið, var drottning önduð (1685), og var það eitthvað í efnum, að hann hafði sig til Þéttmerskis; var sagt hönd hans hefði kennst á nokkrum bréfum hennar.

Hann bjó ár nærri Lukkustað, og átti húsið bróðir konu hans, ármaður konungs vistast þar; hann studdi þau Guðmund, því að hann var þá fátækur og hneigður til drykkju. Guðmundur var ritari góður og skáld, þýskur vel, og fór vel við stúdenta íslenska, meðan hann var í uppgangi sínum í Kaupmannahöfn. Ekki vildi hann heyra hallmælt Jóni lærða föðurföður sínum. Hann kvaðst vera að snúa á þýska sálma píslarsálmum Hallgríms prests Péturssonar, og stunda að fylgja orðum og efni, og væri þeir í afhaldi.

Vita menn eigi lengur af honum að segja, en þrjá vetur umfram það, er nú er komið frásögnum (til 1688). Þorleifur prestur, bróðir hans, hélt Hallormsstað í Múlaþingi; um hann er sagt að misst hafi hálft skegg sitt tilfinningarlaust eina nótt, og óx það aftur. En Guðmundur prestur, faðir þeirra, má ætla að dáinn hafi verið fyrir tveimur árum eða þremur, þá tíð er komið er nú áratali (dó 1685).

Það er eigi allfátt, sem mælir með því, að þessi Guðmundur Guðmundsson, sem hér hverfur svo skyndilega úr sögu annálaritaranna íslensku, hafi einmitt verið hershöfðingi sá, er getið er um í Savoyen 1707. Að minnsta kosti er ekki kunnugt um neinn Íslending frá þessu tímabili, sem fremur gæti komið til greina. Að hann hafði sig á brott úr Danmörku eftir andlát Soffíu Amalíu drottningar, er vel skiljanlegt; því þeir, sem verið höfðu gæðingar hennar, áttu þá ekki upp á pallborðið og urðu margir fyrir ofsóknum. Mun hann ekki hafa talið sér óhult þar, enda auðséð, að einhverjar sakir hafa verið á hann bornar, þó orð Espólíns um það séu mjög á huldu. Hann segir aðeins, að "eitthvað það hafi verið í efnum", að hann hafi haft sig til Þéttmerskis, og að sagt hafi verið, að hönd hans hefði kennst á nokkrum bréfum drottningar.

Bæði þetta og að tvívegis er tekið fram, að hann hafi verið "ritari góður", virðist benda á, að drottning hafi notað hann til að rita leyniskjöl sín, og hefir hann þá ef til vill verið grunaður um að hafa ritað erfðaskrá hennar, þá er svo mikið stapp varð út úr, og sem Kristján V. varð svo æfur yfir, að hann lét ónýta hana og brenna á báli. Hafi svo verið, er engin furða, þó Guðmundur hafi viljað forða sér. Að hann einmitt fór suður til Þéttmerskis, er líka skiljanlegt, þar sem kona hans var þýsk og hann átti þar mágafólk, sem gat skotið skjólshúsi yfir hann. En líklega hefir hann ekki heldur álitið sér óhætt þar til lengdar, eftir að erfðaskrá drottningar náðist heim frá Þýskalandi, þar sem hún hafði verið geymd hjá bræðrum hennar.

Er þá allsennilegt, að hann hafi haldið enn lengra suður á bóginn, og það orðið ofan á hjá honum, að taka til ungdómsiðju sinnar; herþjónustunnar. Hafi hann svo, ásamt mörgum Þjóðverjum, gengið í málalið hertogans af Savoyen og smámsaman stigið þar í tigninni, uns hann hafi verið gerður að foringja málaliðsins. Hin frábæra kunnátta hans í þýskri tungu og fjögra ára herþjónusta í málaliði Dana á æskuárunum hafa þá komið honum að góðu haldi. Og hæfileika virðist hann að hafa haft nóga til að hefja sig upp á við. Átti hann bæði kyn til þess, enda segir Espólín um hann sjálfan, að hann hafi verið „skarpvitur“; þá sýnir og hefðarferill hans í Danmörku, að hann hefir ekki verið neinn miðlungsmaður, og vel kunnað að koma ár sinni fyrir borð og vinna sér hylli manna.

Alt þetta virðist gjöra það sennilegt, að íslenski hershöfðinginn, sem tók Hyéres 1707, hafi einmitt getað verið Guðmundur Guðmundsson, það kemur og ágætlega heim við tímann. Hann var fæddur 1643, og hefði þá 1707 verið orðinn 64 ára að aldri. Og það er 19 árum eftir að hann hverfur frá Þéttmerski og ekkert spyrst til hans framar. Líkurnar fyrir því, að hér sé um sama mann að ræða, eru því svo miklar, að næst liggur að hafa það fyrir satt, ef ekki koma aðrar betri og sennilegri skýringar fram.

Og er ekki nógu gaman að hugsa til þess, að sonarsonur hans Jóns lærða, alþýðusnillingsins okkar þjóðfræga og höfundar „Krukkspár“, hafi eftir hina dönsku ævintýrabraut sína orðið hershöfðingi og getið sér góðan orðstír suður í Savoyen? - VG

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2326198

 


Bloggfærslur 1. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband