Er allt af fyllast af fábjánum með síma?

Það kemur fyrir á mínum vinnustað, þegar við vinnufélagarnir sitjum á andaktinni rétt fyrir kl 8 á morgnanna, að það er hringt. Þó svo að við störfum hjá fyrirtæki í byggingariðnaði þá snúast þessar símhringingar af og til um óskyld mál, jafnvel verið að falast eftir meiraprófsbílstjórum. Enda þeir orðnir vandfundinn fénaður vegna vesælla launa, endurmenntunarkostnaðar og þrúgandi sekta. Sumir virðast gruna þá um að hafa falið sig við að naglhreinsa og skafa spýtur. Stöku sinnum er verið að falast eftir múrarameistara enda þannig meistarar sjaldgæfir fuglar sem fara með veggjum.

Þegar Mannvirkjastofnun ríkisins var sett á laggirnar um árið svipti hún í reynd alla byggingameistara réttindunum nema ef þeir vildu halda ánægjunni við að ábyrgjast húsbyggingar. Þeir máttu svo sem vera fegnir réttindamissinum, enda hefði þurft að kosta til hundruð þúsunda gæðavottunarkerfi til þess eins að fá að árita ábyrgðaryfirlýsingar fyrir byggingastjóra. Þá taldi ég mig vera jafn hólpinn og um árið þegar bankarnir hættu að senda vini á vandamenn með víxilinn.

Ég hékk þó af einhverjum undarlegum ástæðum á skrá hjá Mannvirkjastofnun sem fullgildur meistari en var svo strikaður út vegna skorts á gæðakerfi og varð hvíldinni feginn. Þá voru bara aðrir tilbúnir til að kosta gæðavottunina, þannig að ég er áfram eltur heim á eldhúsgólf ef ekki næst í mig á morgunnandaktinni. Aftur taldi ég mig heppinn þegar ekki var tekið mark á ábyrgðaryfirlýsingu nema ég vottaði hana rafrænt með skilríkum svo byggingafulltrúinn þyrfti ekki að líta af símanum, enda gæti hann allt eins verið staddur með snjallsímanum sínum í fjarvinnsluferð á Old Trafford.

Rafræn skilríki hef ég ekki orðið mér út um frekar en gæðavottun og snjallsíma, því alveg sársaukalaust af minni hálfu þó ekkert mark sé tekið á undirskriftinni. Ekkert hefur samt losað mig við ábyrgðaryfirlýsinga eltingaleikinn og í framhaldinu símhringingar frá ungum lögfræðing sem heldur að ábyrgðaryfirlýsing múrarameistara nái jafnvel yfir val á ljótum flísum og telur það hortugheit að neita að mæta fyrir rétt út af svoleiðis smekkleysi. Áður fyrr var álitið að ábyrgðayfirlýsingar byggingameistara næðu einungis út yfir gröf og dauða. Þeir sem rýna í nýju reglugerðirnar sjá þó að þær geta allt eins náð í hina áttina líka.

Fyrir skömmu var ég beðinn um að skrifa upp á ábyrgðaryfirlýsingu vegna fjárhúsa sem höfðu fyrir 30 árum tekið upp á því hýsa gamla bíla og stóð loks til að fá tengd við hitaveitu. Ég skrifaði upp á fyrir samborgara mína enda angistin hjá þeim yfir því hvernig heita vatnið var heft með reglugerðinni einni meiri en hjá mér við símhringingar lögfræðinga. Allir sem komu að því að byggja þessi ábyrgðalausu fjárhús á sínum tíma voru komnir yfir móðuna miklu og þau byggð nokkrum árum áður en ég fæddist, en pappírinn verður að vera til upp í hillu reglugerðarinnar vegna.

Í haust var mér sagt frá því að kvöldlagi að keyrt hafði verið á sauðfé á þjóðvegi eitt, rollu með tvö lömb. Rollan hafði splundrast á miðjan veginn svo ekki varð framhjá komist, auk þess sem partar úr bílnum lágu tvist og bast en bílstjórinn hafði ákveðið að forða sér á leifunum af bílnum. Hálfum sólahring seinna áttum við hjónin ferð um þjóðveginn og þá lágu lömbin  enn dauð í kantinum, annað hálft inn á veginum en hitt hangandi í víravegriðinu. Mér datt augnablik í hug að draga hræin út af veginum en sá þá að gulur borði lögreglunnar var vafin um horn lambanna.

Þegar var farið að grennslast fyrir hverju sætti þá kom í ljós að það er ekki í verkahring lögreglu að draga dautt sauðfé af þjóðveginum nema ekki sé hægt að komast með einhverju  móti fram hjá, það er bóndinn sem á að sjá um rollurnar. Lögregla á að fletta markaskránni upp í símanum sínum og hringja í bóndann auk þess að tryggja vettvanginn með gulum borða svo engin gramsi í annarra eign og finna sökudólginn.

Hvort lögregluþjónar ríkisins taki að sér að draga hortuga gemlinga á við byggingameistara fyrir dómstóla ríkisins frekar en rolluhræ af þjóðveginum eða láti bara gula borðann nægja hlýtur að fara eftir eðli málsins og eitthvað um það að standa standa í reglugerðinni, annars þyrfti að fá úr því skorið fyrir dómi.

Þó sumum finnist draslaralegt að sjá hrafnager á rolluhræi þegar farið er um þjóðveginn, eða hálfbyggða bragga innan um puntstrá, þá þarf alls ekki að vera svo að ekki sé búið að leggja mikla vinnu í málið, bæði fé og fyrirhöfn. Það virðist samt vera svo að fleiri séu orðnir betur til þess bærir að möndla keisið með eftirliti, reglugerðalestri og skýrslugerð. Það sé einmitt þesskonar snjallsímavinna sem þjóðfélag þrífst á, ásamt himinháum gjöldum á þá fáu sem finnast í verklega framkvæmd. Er það nema von að okkur vinnufélagana gruni að til séu fleiri fábjánar með lausar skrúfur eða síma en við á andaktinni.

Það hefur samt ekki gerst enn á morgunnandaktinni að hringt sé til að biðja um bæjarstjóra svipað og gerðist á síðustu öld, þegar nýsameinað sveitafélag auglýst eftir sveitarstjóra og réði bílstjóra. Þegar einn skaðmenntaði umsækjandinn óskaði eftir rökstuðningi fyrir ráðningu þess er starfið hlaut t.d. prófgráðum úr æðri menntastofnunum, þá svaraði oddvitin galvaskur "hann er með meiraprófið góða mín".


Bloggfærslur 11. október 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband