Bundið mál í fjölritunarspritti

Það má seigja sem svo að margt af því sem kemst á blað ætti aldrei að koma fyrir almenningssjónir. Svo er margt sem geymist í bundnu máli sem hefur mikið upplýsingagildi þegar fram líða stundir. Þar má m.a. nefna leiftrandi veðurlýsingar 19. aldar sem birtast í ljóðum Kristjáns fjallaskálds, s.s. í Yfir kaldan eyðisand og Þorraþræll. Ekki eru síðra í þessu sambandi upplýsingagildi þeirra kvæða sem Snorri Sturluson er sagður hafa byggt á þegar hann lýsti heimsmynd þeirra heiðnu manna sem sagðir eru hafa fyrstir numið Ísland. Heimsmynd heiðninnar hefði varla varðveist nema vegna þessara kvæða.

Undanfarin ár hef ég annað slagið punktað hjá mér það sem vekur minningar um það sem var, og eru þau minnisblöð tvist og bast í tölvunni hjá mér og stundum rekst ég á þessi skrif óvænt. Þetta er s.s. ekkert sem hefur upplýsingagildi fyrir nokkurn mann og ætti varla að birtast á bloggi, er ekki merkilegra en hvert annað fyllerísraus. Það verður samt stundum spurning eins og með hvern annan kveðskap, hvoru megin við fylleríið var ort. Stundum virka svona minningabrot eins og gömul mislukkuð ljósmynd sem hefur aðeins gildi fyrir það eitt að inn á hana hefur villst gulur Braga kaffipakki.

Hér er fyrir neðan er einn punktur um svona gallaða mynd sem upplýsir reyndar minna en gulan Braga en lýsir þó veröld sem var og ljóðum sem hurfu í óminnishegrann.

28.01.2017 Fjölritunarspritt og þýftir þúfnakollar

Þann 20. Janúar s.l. var ég minntur á að 40 ár væru liðin frá því að við Alli vinur minn yfirgáfum Laugaskóla. Við vorum reyndar reknir með skít og skömm fyrir nokkurra daga fyllerí á fjölritunarspritti. Alli sendi mér eftirfarandi kveðju í skilboðum facebook í tilefni tímamótanna:

Sæll vertu minn gamli vin. Nú er að detta í 40 ára brottvísun okkar frá Laugaskóla. Í því tilefni datt mér í hug að við gáfum út all merka ljóðabók í afar fáum eintökum sem bar nafnið "Þýftir þúfnakollar" Átt þú til í eigu þinni eintak af henni? eina sem ég man úr þeirri bók er upphaf að ljóði eftir mig.

Ó vort líf Satan

Bjargað þú oss frá

heilagri kirkju

og brjálaðri atómmenningu

Því miður þá á ég ekkert eintak af þessu tímamótaverki og það sem verra er, ég man ekki stakt orð úr því. En ég sé á því sem Alli þó man að þetta hefur verið djúphugsuð ljóðlist. Það hefði verið gaman að muna ljóð eftir sig frá þessum tíma þó ekki væri nema brot úr ljóði eins og Alli. En mig minnir að nafngiftin á bókinni hafi verið mín.

Það var oft fyrsta áratuginn á eftir brottvísunina, sem Alli átti það til að hringja í mig að næturlagi og lesa upp út þessari bók. Síðast hringdi hann 1986 eða 1987 eftir að við Matthildur mín vorum farin að búa saman. Og svo ekki fyrr en 2003 þegar við bjuggum í Grafarvogi, en þá sagðist hann vera búinn að tína sínu eintaki.

Alli endaði þessa hugrenningu á facebook á þessum orðum „Ef ég man rétt þá þótti þetta frekar framúrstefnulegur kveðskapur, eitt síðasta verkefni fjölritunarstofu Lauga áður en sprittið fór að dofna“. Enda höfðum við í byrjun sprittdrykkjunnar passað upp á að blanda vatni í staðinn fyrir sprittið sem við tókum úr brúsunum.


Bloggfærslur 6. október 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband