Í þögn stendur verksmiðjan ein

IMG_4328

Það er fátt sem á eins vel við "þetta reddast" hugarfar þjóðarsálarinnar og verksmiðjurekstur. En dramatíkin hefur þó verið mest í kringum síldarbræðslur. Til eru dæmi þess að sjálfstæð hagkerfi með eigin gjaldmiðli hafi orðið til kjölfar bræðslu, s,s, Djúpavogspeningarnir sem notaðir voru á áhrifasvæði Kaupfélags Berufjarðar eftir að síldin hvarf árið 1968 og nýbyggð bræðsla stóð verkefnalaus í skuld. Bræðslan á Djúpavogi var síðan orðin úrelt þegar næsta uppsjávarævintýri gekk í garð með tilheyrandi bræðslubyggingum á 10 áratug síðustu aldar. En gamla bræðslan hafði dugað ágætlega sem gúanó fabrikka við að losa frystihúsið við fiskiúrgang í beinamjöl.

Aftur var hafist handa á Djúpavogi við að endur -bæta og byggja-  bræðsluna seint á 10. áratugnum sem endaði svo með enn meiri ósköpum en einungis þeim að taka upp sjálfstæðan gjaldmiðil. Upp úr því ævintýri tapaðist stærsti hluti aflaheimilda á staðnum, fiskiskipin hurfu á braut og mest allt forræði heimafyrir yfir sjávarútvegi fór forgörðum. Lokakaflinn í sorgarsögu bræðslunnar á Djúpavogi var svo þegar Guðrún Gísladóttir KE, þá eitt glæsilegasta skip íslenska flotans, sökk við Lofoten í Noregi.

Síðan hafa eggin hans Sigurðar listamanns í Himnaríki skreytt löndunarkæjan í Innri Gleðivík og Rúllandi snjóboltar verið helsti árlegi viðburðurinn í bræðslunni og hægt hefur verið að komast inn í einn hráefnistankinn til að öskra, auk þess sem húsakynnin hafa verið notuð til að flokka sorp. Það sorglega er að þessi örlög mátti sjá fyrir, því það að byggja upp bræðslu að áliðnu ævintýri hefur oftast endað með ósköpum. Í tilfelli Djúpavogs endaði kvótinn fyrir slikk hjá Vísi í Grindavík, eða eins einn kunningi minn orðaði það, þeir fengu 4 milljarða kvóta fyrir 1 milljarð og seldu um leið bræðsluna fyrir 1 milljarð og borguðu þar af leiðandi aldrei neitt. 

IMG_4333 

Það var ekki meiningin að nota þennan pistil í að básúna um bræðsluna á Djúpavogi og það hvernig mikilmennskubrjálæði og hjaðningavíg heimamanna ollu Djúpavogi stórtjóni undir aldamótin. Enda sú sorgarsaga of stór fyrir mitt hjarta og þennan pistil. Heldur ætlaði ég að segja frá afreki í Djúpuvík, sem mig hefur alltaf heillað sem steypukall, en ég gerði mér erindi til að skoða núna í sumar. Bræðslubyggingar byggingameistarans í Djúpuvík urðu reyndar þrjár risa bræðslur sem standa enn í Djúpuvík, á Hjalteyri og í Ingólfsfirði.

Það sem undraði mig mest þegar ég heyrði fyrst sagt frá byggingu þeirra var hvað byggingameistarinn var ungur að árum og hvernig hann fór að því að steypa upp þvílík mannvirki um há vetur. Því allir sem eitthvað hafa fengist við steypu vita hvað erfitt er að steypa í frosti. En kannski var einmitt ungur aldur byggingameistarans ástæðan fyrir því hversu vel tókst til að steypa í frosti, frjór ofurhugur hins unga manns með ögn af fífldirfsku.

Byggingameistarinn hét Helgi Eyjólfsson og var fæddur á Grímslæk í Ölfusi 1906. Helgi lærði húsasmíði og fékk meistararéttindi sem húsasmiður árið 1928. Næstu 20 árin stundaði hann sjálfstæðan rekstur og byggði mörg falleg hús í Reykjavík og víðar. Þar að auki byggði hann síldarverksmiðju Alliance í Djúpuvík í Reykjafirði á Ströndum árið 1935, verksmiðju Kveldúlfs á Hjalteyri 1937 og síldarverksmiðju í Ingólfsfirði 1942. Helgi hefur því verið innan við þrítugt þegar hann byggir verksmiðjuna í Djúpuvík.

Alliance reisti á sínum tíma fullkomnustu síldarbræðslu í Evrópu í Djúpuvík. Hlutafélagið Djúpavík hf var til þess stofnað 22. september 1934. Framkvæmdir stóðu yfir árin 1934­-35. Guðmundur Guðjónsson arkitekt teiknaði verksmiðjuna og sá um byggingu hennar með Helga. Fyrsta sumarið, sem verksmiðjan var tilbúin til að taka við síld til vinnslu, 1935 brást síldin algerlega. Næsta ár var svo mjög gott, en síðan gekk á ýmsu, þar til síldin hvarf alveg af Húnaflóa og var starfsemi hætt 1952.

IMG_4343

Það er fjallað um þessar bræðslubyggingar í bók Birgis Sigurðssonar rithöfundar "Svartur sjór af síld". Með ólíkindum er hvernig Helga tókst að reisa stærstu byggingar, sem reistar höfðu verið úr steinsteypu hér á landi við þær aðstæður sem ríktu á miðjum fjórða áratugnum og það í Djúpuvík. Í bók Birgis segir Helgi frá því þegar hann tók að sér að byggja bræðslu  á Hjalteyri við Eyjafjörð fyrir Kveldúlf hf eftir að afrek hans í Djúpuvík höfðu spurst.

-Að hausti til tveim árum eftir að ég byggði á Djúpuvík, komu Kveldúlfsmenn til mín, Richard Thors og bræður hans. - Viltu byggja fyrir okkur síldarstöð á Hjalteyri? Spurðu þeir. - Ég veit ekki, sagði ég. - Geturðu lokið henni á tveim árum? - Látið mig sjá plönin og teikningarnar, sagði ég - sannleikurinn er sá, segja þeir, að það veltur á að Kveldúlfur verður gerður upp. Bankinn féllst á að bíða ef við gætum komið stöðinni upp á tveim árum - Látið mig sjá plönin og teikningarnar svo skal ég svara ykkur - Ef þetta gengur ekki erum við búnir að vera segir Richard - Ég skal líta á þetta og segja ykkur hvort það er hægt, sagði ég. Svo skoðaði ég áætlanir þeirra og hugmyndir vandlega. Þetta átti að vera stór síldarbræðsla, minnst fyrir fjóra togara. Það gerði mér auðveldara fyrir að ég var búinn að byggja á Djúpuvík. Síðan boðaði ég þá á minn fund strax þarna um haustið og sagði við þá: - Hafiði ekki áhuga á að geta byrjað að bræða strax næsta sumar á venjulegum tíma? Þeir þögðu bara og störðu á mig og ég fann að þeir álitu sig vera að tala við snarbrjálaðan mann.- 

- Þú steypir nú ekki í frosti! - Það er mitt vandamál, en ekki ykkar, svaraði ég. Síðan fór hver til síns heima. Í mars byrjaði ég að steypa og notaði aðferð gegn frostunum sem aldrei hafði verið notuð í heiminum að vitað var. Ég fékk mér ketil og bjó til kerfi. Dældi svo sjó eftir kerfinu inn á ketilinn og hitaði hann upp í suðumark. Þaðan rann hann svo ó stóran tank og í steypuvélina. Svo steypti ég. Kallarnir í nágrenninu komu til að sjá vitlausa manninn sem steypti í frosti. En steypan varð glerhörð á þrem dögum. Svo kom Richard og sagði - Ja, hvur andskotinn! 

 IMG_4353

Bygging bræðslunnar á Hjalteyri var ævintýr, kraftaverk hraða og vinnuafkasta. Byrjað er að grafa fyrir verksmiðjunni í febrúar, reisa húsið í mars, farið að koma fyrir vélum í því í apríl og maí, og 20. júní er byrjað að bræða þar síld. Í íslenskri byggingarsögu er þetta óviðjafnanlegur byggingarhraði. Síldarverksmiðjan var samt ekki fullreist þegar hún tók til starfa, heldur höfðu þá verið reistir þeir hlutir hennar sem nauðsynlegastir voru svo hún gæti unnið verðmæti og starfað á meðan verið var að reisa aðra hluti hennar eftir því sem þeirra var þörf.

Bræðslubyggingar Helga Eyjólfssonar eru því afrek, þær voru byggðar á mettíma, við erfiðar aðstæður og  um miðjan vetur. Helgi notaði sína aðferð við að steypa í frosti, þó að flestir væru vantrúaðir á þá aðferð og eru jafnvel enn í dag. Allt gekk þó upp og Hjalteyrarverksmiðjan varð mikil lyftistöng fyrir þá Kveldúlfsmenn. Þessar stóru síldarverksmiðjur eru merkilegur kafli í atvinnusögu Íslendinga, þegar síldin kom við sögu og lýsa vel hvernig "þetta reddast" hugarfar landans á það til að hitta beint í mark. 

IMG_4360

 


Bloggfærslur 9. október 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband