Haugsnesbardagi var mannskæðasta orusta sem háð hefur verið á Íslandi

Varist þér og varist þér,

vindur er í lofti.

Blóði mun rigna á berar þjóðir.

Þá mun oddur og egg arfi skipta.

Það er öllum holt að lesa Sturlungu. Örlygsstaðabardagi var fjölmennusta orrustu sem háð hefur verið á Íslandi. Hann fór fram í Blönduhlíð í Skagafirði þann 21. ágúst 1238. Frá Örlygsstaðabardaga segir Sturla Þórðarson í Sturlungu, en hann tók sjálfur þátt í bardaganum og barðist í liði frænda sinna, Sturlunga. Þar áttust við Sturlungar annars vegar, undir forystu feðganna Sighvatar á Grund og Sturlu sonar hans, en hins vegar þeir Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi.

Sturlungar höfðu ætlað að gera aðför að systursyni Sighvats, Kolbeini unga Arnórssyni á Flugumýri, þar sem hann bjó, en gripu í tómt. Þeir héldu kyrru fyrir á bæjum í Blönduhlíð í nokkra daga en á meðan safnaði Kolbeinn liði um Skagafjörð og Húnaþing en Gissur Þorvaldsson kom með mikið lið af Suðurlandi. Liðsmunurinn var mikill, því þeir Gissur og Kolbeinn höfðu um 1700 manns, en þeir Sturlungar nálægt 1300.

Þeir Kolbeinn og Gissur komu austur yfir Héraðsvötn og tókst að koma Sturlungum að óvörum, sem hörfuðu undan og bjuggust til varnar á Örlygsstöðum í slæmu vígi sem var fjárrétt, enda mun orrustan ekki hafa staðið lengi því fljótt brast flótti í lið Sturlunga og þeim þar slátrað miskunnarlaust. Alls féllu 49 úr þeirra liði en sjö af mönnum Kolbeins og Gissurar.

Í bardaganum féllu þeir feðgar Sighvatur, Sturla og Markús Sighvatssynir. Kolbeinn og Þórður krókur synir Sighvats komust í kirkju en voru sviknir um grið og drepnir þegar þeir yfirgáfu kirkjuna. Tumi Sighvatsson komst einn bræðranna undan ásamt hópi manna yfir fjöllin til Eyjafjarðar. Sturla Þórðarson, sem sögu bardagans ritaði, komst einnig í kirkju og fékk grið eins og aðrir sem þar voru, að Sighvatssonum og fjórum öðrum undanskildum.

Einn sonur Sighvats hafði verið í Noregi við hirð konungs þegar uppgjörið á Örlygsstöðum fór fram. Sá var Þórður kallaður kakali, hann kom síðan til Íslands í hefndarhug með leyfi konungs því herða þurfti á upplausninni milli nátengdra íslenskra höfðingja þó svo að veldi Sturlunga væri að engu orðið. Þórður kakali var djarfur stríðsmaður sem fór ávalt í fylkingabrjósti síns liðs og bar vanalega hærri hlut í stríðinu þó hann ætti til að tapa orrustunni. Það bar brátt til tíðinda eftir að Þórður steig á land.

Haugsnesbardagi, 19. apríl árið 1246, var mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi. Þar börðust leifar veldis Sturlunga (aðallega Eyfirðingar) undir forystu Þórðar kakala Sighvatssonar og Ásbirningar (Skagfirðingar), sem Brandur Kolbeinsson stýrði en hann hafði tekið við veldi Ásbirninga af Kolbeini unga gengnum. Hann hafði 720 menn í sínu liði en Þórður kakali 600 og voru það því 1320 manns sem þarna börðust og féllu yfir 100 manns, 40 úr liði Þórðar og um 70 úr liði Brands.

Bardaginn var háður á Dalsáreyrum í Blönduhlíð, í landi sem nú tilheyrir jörðunum Djúpadal og Syðstu-Grund. Skagfirðingar höfðu gist á Víðimýri nóttina fyrir bardagann en komu austur yfir Héraðsvötn og tóku sér stöðu utan við Haugsnes, sem er nes sem skagar til norðurs út í Dalsáreyrar.

Lið Eyfirðinga hafði verið um nóttina á bæjum frammi í Blönduhlíð og bjuggust Skagfirðingar við að þeir kæmu ríðandi út með brekkunum en Eyfirðingar komu fyrir ofan Haugsnesið og komu Skagfirðingum þannig að óvörum. Þórður kakali hafði komið flugumanni í lið Skagfirðinga, sem flýði manna fyrstur og fékk marga til að leggja á flótta. Margir þeirra sem féllu voru drepnir á flótta, þar á meðal Brandur Kolbeinsson, foringi Ásbirninga.

Brandur var tekinn af lífi á grundinni fyrir ofan Syðstu-Grund og var þar síðan reistur róðukross og nefndist jörðin Syðsta-Grund eftir það Róðugrund í margar aldir. Sumarið 2009 var kross endurreistur á Róðugrund til minningar um bardagann og var hann vígður 15. ágúst 2009.

Gissur Þorvaldsson, höfðingi Haukdæla og valdamesti maður á Suðurlandi, var nú orðin einn helsti óvinur Sturlunga en ekki kom þó til átaka á milli þeirra Þórðar kakala, heldur varð það úr að þeir fóru báðir til Noregs og skutu máli sínu undir Hákon konung. Hann úrskurðaði Þórði í vil og sendi hann til Íslands til að reyna að ná landinu undir veldi Noregs, en kyrrsetti Gissur.

Sturlunga er sögð samtímasaga þ.e. skrifuð um leið og atburðir gerast svona nokkurskonar frétta fjölmiðill dagsins. Afkomendum Sturlunga er því holt að lesa söguna. Hún segir frá því hvernig landið komst undir erlent vald vegna græðgi íslenskra höfðingja. Þar réðu ættartengsl og fégræðgi mestu um að hið einstaka íslenska stjórnskipulag, þjóðveldið, féll og landið komst undir Evrópskt vald. Sagan á sér þá samsvörun í nútímanum að stjórnmálmenn hafa framselt löggjöf Íslenska lýðveldisins í síauknum mæli til erlendra valdastofnanna.


mbl.is Mesta blóðbað frá Örlygsstaðabardaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband