Hið dularfulla guðshús goðans

IMG_2350

Það þarf ekki að fara um langan veg til að ferðast langa leið. Í vikunni var skotist hálftíma út fyrir bæinn, að ég hélt til að skoða moldarkofa. Eftir þennan skottúr flugu upp gömul heilabrot sem ekki náðist að raðað saman á sínum tíma. Ástæða þessarar skreppu túrs var upphaflega að skoða nýlega byggða torfkirkju en ekki endilega eitthvað sem næði út yfir rúm og tíma.

Geirsstaðakirkja er endurbyggð torfkirkja frá Víkingaöld. Sumarið 1997 fór fram fornleifauppgröftur á vegum Minjasafns Austurlands undir stjórn Steinunnar Kristjánsdóttur. Sú rannsókn leiddi í ljós fornt bæjarstæði í landi Litla-Bakka í Hróarstungu. Rústirnar voru af lítilli torfkirkju, langhúsi og tveimur minni byggingum. Túngarður úr torfi umlukti byggingarnar.

Kirkjan á Geirsstöðum hefur verið af algengri gerð kirkna frá fyrstu öldum kristni á Íslandi. Líklega hefur kirkjan einungis verið ætluð heimilisfólki á bænum. Tilgáta er um að Geirastaðir gætu hafa verið bær Hróars Tungugoða, sonar Una Danska, landnámsmanns. Hróar var var sagður hafa búið að Hofi, sem var sagt vestan Lagarfljóts, austan Jökulsár og norðan Rangár, sem sagt þar sem heitir Hróarstunga.

Geirsstaðakirkja var endurbyggð 1999 – 2001, undir leiðsögn Gunnars Bjarnasonar húsasmíðameistara, Guðjóns Kristinssonar torfhleðslumanns og Minjasafns Austurlands. Það var gert með fjármagni sem kom úr sjóðum Evrópusambandsins, Vísindasjóði rannsóknaráðs Íslands, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Norður-Héraði. Kirkjan er í umsjón fólksins á Litla-Bakka og sér það um varðveislu hennar og viðhald. Kirkjan er opin almenningi gegn vægu gjaldi og framlögum í söfnunarbauk, en Þjóðminjasafn Íslands hefur ekki með þessar sögulegu minjar að gera.

Hróar Tungugoði er með dularfyllri goðum Íslands því hann virðist hafa verið uppi á tveim stöðum í einu, austur á Fljótsdalshéraði og suður við Kirkjubæjarklaustur. Hann er sagður sonur Una danska Garðarssonar og Þórunnar Leiðólfsdóttir. Til er tvær Hróarstungur sem við hann eru kenndar, önnur er austur á Fljótsdalshéraði á milli Lagarfljóts og Jöklu þar sem kirkjan á Geirsstöðum stendur. Hin Hróarstungan er á milli Hörgslands og Foss á Síðu, austur af Kirkjubæjarklaustri, á milli tveggja smálækja. Þar á Hróar Tungugoði að hafa verið drepinn, á slóðum þar sem gæsaskyttur fundu víkingasverð fyrir nokkrum árum. Hróars er m.a. getið í Njálu og Austfirðingasögum, á hann samkvæmt Njálu að hafa verið mágur Gunnars á Hlíðarenda.

Landnáma segir af Una danska sonar Garðars Svavarssonar, þess er fyrstur fann Ísland. Sagt er að Uni hafi farið til Íslands að ráði Haralds konungs hárfagra. "Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós og húsaði þar. Hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar. En er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast. Uni fór suður í Álftafjörð enn syðra, en náði þar eigi að staðfestast. Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi og tók hann við þeim." Talið er samkvæmt örnefnum að Skógahverfi hafi verið í Vestur-Skaftafellssýslu í grennd við Kirkjubæjarklaustur.

Saga Una danska er því ekki síður dularfull en saga Hróars sonar hans. Uni á að hafa numið land á Fljótsdalshéraði, eða allt frá Unaósi við Héraðsflóa til Unalækjar, sem er á Völlum skammt fyrir innan Egilsstaði. Reyndar er til annar Unalækur sem er mun nær Unaósi og vilja sumir meina að misskilnings gæti um landnám Una og því eigi að miða við þann læk en ekki þann sem er innan við Egilsstaði. Þá væri landnám Una nokkurn veginn þar sem kallað er Hjaltastaðaþinghá og skaraði ekki langt inn í landnám Brynjólfs gamla.

Eins og fram kemur í Landnámu þá virðist landnám Una hafa verið numið áður en hann kom; "er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast". Enda hefur Hjaltastaðaþingháin alltaf verið dularfull með sína Beinageit, Kóreksstaði og Jórvík. Sumir hafa fært fyrir því rök að hún hafi verið Keltneskari en flest landnám norrænna manna á Íslandi. Uni hraktist því suður á land, nánar tiltekið í Skógarhverfi sem talið er hafa verið á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu.

Þar komst Uni í kynni við Þórunni dóttur Leiðólfs og varð hún ólétt. Uni vildi ekkert með Þórunni hafa og forðaði sér, en Leiðólfur elti hann uppi og dró hann ásamt mönnum hans heim til Þórunnar. Uni lét sér ekki segjast og flúði aftur þá fór Leiðólfur aftur á eftir honum og köppum hans og slátraði þeim öllum þar sem heita Kálfagrafir. Þannig endaði landnámsmaðurinn Uni danski ferð sína til Íslands sem sögð var hafa verið farin að undirlagi Haraldar konungs hárfagra svo hann kæmist yfir Ísland.

Hvort Hróar sonur Una hefur átt eitthvað tilkall til landnáms föður síns austur á Héraði er ekki gott að finna út úr eftir allar þessar aldir, en samkvæmt sögum og örnefnum þá virðist hann hafa sest að í Hróarstungu á bæ sem hét Hof, en ekki er vitað hvar það Hof var og er nú giskað á að Geirsstaðakirkja sé Hof. Hróarstunga er að vísu fyrir norðan Lagarfljót en landnám Una danska fyrir sunnan, en vel má vera að Lagarfljót hafi á Landnámsöld ekki átt sinn farveg þar sem hann er í dag. Allavega var það landsvæðið sem tekur bæði yfir Hróarstungu og Hjaltastaðaþinghá, sem var í landnámi Una, áður kallað ein Útmannasveit.

Ég set hér inn myndir frá guðshúsi goðans.

IMG_2341

 

IMG_2349

 

IMG_2361

 

IMG_0345

 

IMG_2369

Víkingaskip sem hinn skoski steinhleðslumaður Donald Gunn gerði við fyrir framan hringlaga túngarðinn í kringum Geirsstaðakirkju


Bloggfærslur 18. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband