Eigi skal haltur ganga með fíflum

Það birtist hérna á síðunni fyrir tæpu ári síðan pistill um fífla og fardagakál. Í honum var gerð grein fyrir tilraun á eftirlætis frasa hagfræðinganna, "There ain´t no such thing as a free lunch", eða "Það er ekkert til sem heitir ókeypis hádegisverður". Nú er langþráð vorið komið með sitt sólskin, fífla og fardaga, því tímabært að halda tilraunastarfseminni áfram þar sem frá var horfið s.l. sumar.

Það má nefnilega segja að tilurð þessarar tilraunar hafi ekki verið einhlít. Fyrir það fyrsta þá hafði ég hugsað mér að kanna hvort sögur af því sem kallast illgresi í dag, hefði einhvertíma talist ætar matjurtir, s.s. njóli, hvönn og fíflar, og kom þá upp í hugann frasi hagfræðinganna. Hin ástæðan var hvort lækningarmáttur íslenskra jurta ætti sér stoð í veruleikanum, og koma þar til afleiðingar hjartabilunar sem ég hef mátt búa við undanfarin ár.

Fyrir fjórum árum bilaði hjartað á þann hátt að dæligeta þess út í líkamann skertist í 50% og við það verð ég búa. Hjartabilun fylgir vökvasöfnun vegna lélegrar blóðrásar, m.a.í formi bjúgs sem safnast sárlega um og ofan við ökkla. Við tilraunirnar í fyrra varð ég fljótlega var við að mataræði þeirra hafði vökvalosandi áhrif. Ástandið batnaði verulega meðan á tilrauninni stóð og entist sú heilsubót út sumarið. Það má því segja að ég hafi núna beðið vorsins með óvenju mikilli óþreyju og hafi ekki getað setið á mér að slíta upp fyrstu fíflana.

Ég varð var við það í fyrravor að fíflablöðin höfðu óvenju magnaða losandi virkni, þegar vökvasöfnun er annars vegar, nánast eins og sterasprauta inn á hjartadeild, nema að þau eru laus við aukaverkanir. Ég hitti vin minn vísindamanninn á förnum vegi í fyrra og fór að segja honum frá þessum stórmerkilegu uppgötvunum mínum. Hann var fljótur til svars og sagði;"já, veistu að þetta hef ég gert í mörg ár, en það er með þetta eins og svo margt annað að fólk trúir því ekki að þetta sé góður matur, því hann er ókeypis. Sama á við um lækningamátt fífla, fólk getur engan veginn trúað honum. Það var sjúklingur sem ætlaði að prófa, þegar ég benti honum á þetta, en vildi samt ekki gera það nema í samráði við lækninn sinn. Þá svaraði læknirinn honum "ætlar þú að vera áfram hjá mér eða fíflunum" og auðvitað valdi sjúklingurinn lækninn af því að þar fær hann að borga."

Í mínu tifelli er þó ekkert sérstakt val, því þó svo að ég borgi lækninum þá held ég mig hjá fíflunum án þess að spyrja kóng né prest. Nú hef ég þegar byrjað heilsubótar starfið eftir veturinn því fíflarnir eru farnir að spretta hver um annan þveran. Á vísindavef HÍ má m.a. lesa þetta um fífla; "Helstu innihaldsefni túnfífils eru fenólar, seskvíterpenar, tríterpenar, plöntusterólar, flavonóíðar, einnig inúlín og aðrar sykrur, fituefni og ýmis vítamín og steinefni. Talið var að blöðin, sem eru mjög næringarrík, hefðu þvagdrífandi virkni og innihéldu mikið af kalíum. Þau voru því mikið notuð við bjúg einkum ef hann orsakaðist af máttlitlu hjarta.“

„Eigi skal haltur ganga á meðan báðir fætur eru jafn langir“, svo mælti mín móðir við mig korn ungan drenginn. Þó móðir mín hafi verið ein af þeim sem guðirnir elska og þar af leiðandi á brott kölluð í blóma lífsins, þegar ég var rétt svo kominn af unglingsaldri, þá hefur þessi tilskipun bókstaflega búið innst í mínu hugskoti alla tíð síðan. Það má  jafnvel kalla orðleppa móður minnar femínískan heilaþvott síns tíma, og var því ekki inn í myndinni að haltra á eftir hjartabilun.

Þegar ég var í endurhæfingu þá gat ég ekki fylgt hópnum í gönguferðum, ekki vegna helti heldur máttleysis og mæði. Það var yfirleitt hjúkra sem rölti mér til samlætis og við spjölluðum. Þar kom til tals að mér byðist áfram að starfa hjá mínum vinnuveitenda eins og ég hefði geð til, „þú hefur aldeilis náð að gera þig ómissandi“ svaraði hún að bragði. Þá rann upp fyrir mér hversu mikil náð það er þegar einhver vill hafa vesaling í vinnu.

Það eru Pólverjar sem ég er hafður innanum hálfan daginn. Eitt sinn kom til tals að segja upp öllum helvítis Pólverjum. Þá sagði ég vinnuveitendum mínum að það jafngilti uppsögn á mér, því það myndi engin þola orðaleppana mína sem skildi íslensku, menn myndu einfaldlega segja kall fíflinu að grjót halda kjafti og ganga burt í miðri steypu. Já, ég á mörgum mikið að þakka að þurfa ekki að haltra einn um í reiðuleysi samkvæmt klukkunni, til að koma í veg fyrir það hefur maður gengið undir manns hönd.

Það var svo ekki alls fyrir löngu að ég fór að grafast fyrir um hvaðan speki móður minnar væri ættuð. Þá gúgglaði ég að frasinn er hafður eftir Gunnlaugi ormstungu Illugasyni, þegar hann gekk fyrir Eirík jarl Hákonarson. Eiríkur jarl spurði Gunnlaug „Hvað er á fæti þínum Íslendingur?“„Sullur er á herra,“ svaraði ormstunga. „Og gekkst þú þó ekki haltur?“ ormstunga sagði þá: „Eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir".  Þetta þúsund ára samtal er sennilegasta ástæða þess að ég fer nú út um þúfur plokkandi upp fífla.

Nú kunna einhverjir að hafa áhuga á að losna við fótasull en finnst kannski hálf hjákátlegt að fara út um þúfur til þess. Ef einhver er hræddur við að til sín sjáist eins og álfs út á túni við að plokka upp fífla, þá má alltaf taka selfí með flokkuðu heimilissorpi þegar heim er komið og deila á feisinu, er þá hæpið að vinirnir telji mann ruglaðri en forseta fí,,,,,- nú munaði minnstu að ég ruglaðist - ,,,,forseta lýðveldisins.

Þessi pistill átti reyndar í upphafi hvorki að snúast upp í sjálfsvorkunn né fíflagang, heldur vekja athygli á heilræði ormstungu og heilnæmi fífla.


Bloggfærslur 3. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband