Fótspor guðanna

IMGP2824

Til eru staðir sem hvorki verður lýst með orðum né ljósmyndum. Eina ráðið til að fá nasasjón af helgi þannig staðar er að heimsækja hann. Við Axarfjörð er þannig staður.

Í vikunni sem leið vaknaði ég kl. 4 að morgni við það að lóan sögn „hér sé dýrðin, dýrðin, dýrðin“. Við Matthildur mín höfðum okkur fljótlega á fætur, kipptum upp hælunum og laumuðumst út af tjaldstæðinu við Eyjuna.

Við ákváðum að aka 3,5 km leið frá Eyjunni inn að Botnstjörn og fá okkur morgunnmat í kyrrðinni. Eftir að hafa sett upp borð og stóla, -alein eins og lítil börn í gullabúi, umkringd hömrunum sem urðu til þegar Óðinn fór um heiminn ríðandi á Sleipni, -flaug fram af klettabrúninni álftahópur og söng okkur sinn heiðarsöng svo bergmálaði á milli hamraveggjanna.

IMG_3431

Myndun Ásbyrgis hefur verið mönnum ráðgáta eftir að farið var að efast um Alföður. Þorvaldur Thoroddsen, náttúrufræðingur, kom í Ásbyrgi sumrin 1884 og 1885. Hann taldi að gljúfur Jökulsár hefðu orðið til í jarðskjálftum og Ásbyrgi hafa myndast þegar landspilda sökk í kringum Eyjuna.

Um miðja 20. öld hóf Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, að rannsaka öskulög á svæðinu. Í ljós kom að allur jarðvegur eldri en 2.500 ára hefur skolast í burtu úr botni Ásbyrgis og árfarvegum sunnan þess. Furðu vakti að áin hefði náð að grafa bæði Ásbyrgi og hin tröllvöxnu árgljúfur á þeim 10 þúsund árum frá því hraunið rann.

Nú er talið að á tímabilinu frá því fyrir 5000 árum þar til fyrir 2000 árum hafi ríkt þær aðstæður við Vatnajökul að mikið vatn hafi safnast saman við rætur eldstöðva Bárðarbungu, Grímsvatna og Kverkfjalla. Þegar einhver þeirra gaus gátu orðið gífurleg jökulhlaup sem æddu með ógnarhraða frá jökli til hafs.

Sjálfur hallast ég helst að elstu tilgátunni um tilurð Ásbyrgis, þ.e.a.s. yfirreið Óðins á Sleipni og Ásbyrgi sé því hóffar Sleipnis. Enda tekur helgi staðarins öllum rökum fram. Aðrar tilgátur hafa þvílíka annmarka að við þá verður ekki unað.

Ef nýjustu tilgátur ættu við rök að styðjast kalla þær á sólahrings vakt í höfuðstöðvum almannavarna og öryggishjálma ásamt gulum björgunarvestum með blikkandi neyðarljósum fyrir almenning í Ásbyrgi. Mér sýnist landnámsmenn hafa komist að mun skynsamlegri niðurstöðu lausa við öfgar samtíðar trúarbragða.

Snemma á 20. öldinni keypti Einar Benediktsson land meðfram Jökulsá á Fjöllum ásamt Ásbyrgi. Hugsjón Einars var að virkja ána og sagðist hann ætla að nýta orkuna til að framleiða áburð á blóm og birki. Einar átti Ásbirgi í 15 ár og orti ódauðlegt ljóð að morgni í Ásbirgi, en áin rennur óbeisluð enn þann dag í dag.

Alfaðir rennir frá austurbrún

auga um hauður og græði.

Glitrar í hlíðinni geislarún,

glófaxið steypist um haga og tún.

Signa sig grundir við fjall og flæði,

faðmast í skrúðgrænu klæði.

Kannski var eins gott að Einar Benediktsson átti þessa morgunn andakt í Ásbyrgi, því annars væri ekki loku fyrir það skotið að hagvaxnir nútíma trúarbragðadýrkendur kolefnissporsins ákveddu að hafa helgi Ásbyrgis með í pakkanum við að lýsa upp Evrópu.

IMG_3650


Bloggfærslur 21. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband