Veginn á enda

Viðfjörður

Það eru ýmsar leiðir til að ferðast og aðferðir við skipulagningu ferðalaga. Hægt er að gera ferðaáætlun eftir dagatali, veðurspám eða bara stafrófinu. En það er alltaf svo að það er ferðalagið en ekki áfangastaðurinn sem skiptir mestu máli. Eins og ég hef áður minnst á hér á síðunni kemur fyrir að við hjónin setjumst upp í okkar gamla Cherokee og hlustum á Bubba syngja um það þegar hann hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann og er allt eins hægt nota þá ferðaáætlun.

Það má reyndar einna helst líka svo góðu plani við lesblinda prófessorinn sem ætlaði að ferðast yfir þver Bandaríkin í sumarfríin sínu en var ekki kominn lengra en í næsta bæ þegar fríið varð búið. Þetta gerðist vegna þess að þar var svo margt áhugavert að skoða. Prófessorinn sagði eftir sumarfríið að þeir sem kynnu að lesa færu margs á mis vegna þeirra leiðsagna sem þeir læsu.

Núna í vikunni má segja að planið hafi ekki verið neitt af af þessu öllu saman, heldur hafi vegurinn einfaldlega verið farin á enda. En í stafrófinu var það Vaffið sem var valið og eins og vanalega var sólin eina leiðsögutækið í gegnum Austfjarðaþokuna. Við höfðum reyndar hossast þennan slóða á hraðferð fyrir mörgum árum í þoku, sem liggur um landsvæði er fór í auðn fyrir áratugum síðan. 

IMG_3861

Það er ágætt að vita, þegar ferðast er í þoku, að vatn rennur niður í móti, þá er meiri von til að sjá sólina

Þessi vegslóði, sem liggur í Vöðlavík og Viðfjörð, var bílvegurinn á Norðfjörð frá 1940–1949 og endaði hann í Viðfirði en þaðan þurfti að fara með bát yfir á Norðfjörð. Eftir að vegur var lagður um Oddskarð var ljóst að ekki yrði gerður vegur frá Viðfirði yfir á Norðfjörð, enda illmögulegt. Þar með varð ljóst að byggðirnar sem voru norðan Reyðarfjarðar yrðu í litlu eða engu vegasambandi. Þessar byggðir voru í Vöðlavík, Sandvík, Viðfirði ásamt Barðsnesi og Hellisfirði. Svæðið taldi alls um 15 bæi.

Viðfjörður er einn af þrem fjörðum sem ganga inn úr Norðfjarðarflóanum, hinir eru Hellisfjörður og Norðfjörður. Í Viðfirði var búið til 1955. Hvað varð búsetu að aldurtila er til um meira en ein kenning. Þórbergur Þórðarson rithöfundur skrifaði um Viðfjarðarundrin sem áttu að hafa verið draugagangur. Þessi undraskrif meistara Þórbergs hafa þótt léleg sagnfræði í Norðfirði. En líklegast er þó að breyttir samgönguhættir hafi ráðið mestu um að búsetu lauk í Viðfirði.

IMG_2903

Reyndar hafði ég bæði sigld um Norðfjarðarflóann og flogið yfir svæðið, svo það var ekki mikið mál að rata. Frá vinstri; Sandvík,Barðsnes, Viðfjörður, Hellisfjörður og Norðfjörður 

Þegar við vorum núna á ferðinni var yngra fólkið okkar með í bílnum og tók eftir því allan tíman, eftir að farið var yfir Víkurheiðina yfir í Vöðlavík, að ekkert net og símasamband var við umheiminn.“ Og hvað ætlar þú svo að gera ef við festum okkur“ sagði þá Matthildur mín. Eins og það væri eitthvað nýtt að ferðir okkar lægju utangáttar út um þúfur úr alfaraleið. „Hlaupa yfir á Norðfjörð það er styst“ svaraði ég – „já, já, ég sæi þig nú hlaupa“ – „eða þá bara bíða eftir Barðsneshlaupinu sem er venjulega á Neistafluginu um verslunarmannahelgi og biðja fyrir skilaboð“.

Viðfjörðurinn skipar vissan sess í minni sjálfsmynd því frá blautu barnsbeini hefur mér verið það innrætt að ég sé af Viðfjarðarætt. Úr Viðfirði var langaamma mín Ingibjörg Bjarnadóttir á Vaði í Skriðdal, sautján barna móðir. Móðir hennar var Guðrún Jónsdóttir í Viðfirði sextán barna móðir. En við þau Bjarna og Guðrúnu er Viðfjarðarætt oftast kennd, þó svo að forfeður Bjarna hafi búið mann fram af manni í Viðfirði.

Viðfjörður

Sólin brást ekki með leiðsögnina í gegnum Austfjarðaþokuna niður í Viðfjörð

Þessar formæður mínar þóttu hörkukonur á sinni tíð, í forsvari fyrir sínum búum. Eða eins og sr Ágúst Sigurðsson sagði „Ingibjörg á Vaði var mikillar gerðar eins og mörg þeirra Bjarnabarna Sveinssonar og Guðrúnar Jónsdóttur í Viðfirði.“ Um Guðrúnu var sagt „Hún var jafn fær að ganga til sláttar sem raksturs. Hún var tóskaparkona mikil og vefjarkona með afbrigðum, enda þurfti hún á því að halda í Viðfirði meðan öll börnin voru heima og heimilisfólk vanalegast 15-17 manns og allur íverufatnaður og mikið af rúmfatnaði unnið heima.“ Heyrt hef ég að þessi ættmóðir mín hafi ekki talið það eftir sér að fara til fiskiróðra þegar þess þurfti.

Ofan við höfnina í Viðfirði er minningarskjöldur um hörmulegt sjóslys, þar sem fórust þrír synir Sveins Bjarnasonar sem bjó í Viðfirði, á eftir foreldrum sínum Bjarna og Guðrúnu, en frá því var greint með svohljóðandi frétt í blaðinu Víði 9. október 1936;

IMG_3850

„Sorglegt slys vildi til á Austfjörðum í síðustu viku. Á fimmtudagsmorgun 1. október fór trillubátur frá Viðfirði i fiskiróður. Voru á bátnum fjórir menn, þrír bræður, synir Sveins Bjarnasonar frá Viðfirði; Þórarinn (34 ára). Frímann (26 ára). Sófus (30 ára) og Halldór Eiríksson (56 ára) frá Viðfirði. Morguninn eftir að bátur þessi fór í róðurinn, fann togarinn Brimir hann skammt undan landi, fullan af sjó, og lík Frímanns í honum, liggjandi á grúfu yfir þóftu. Slys þetta er einkennilegt þar sem fullvíst er talið að báturinn hafi ekki af kjölnum farið, því ýmislegt, t.d. áttaviti, vélaverkfæri o.fl. var í bátnum, enda hafði veður verið gott, en þoka. Móðir bræðranna er á lífi. Þórarinn hafði verið giftur og átt fjögur börn, hinir ógiftir.“

Þó svo að mestum ljóma stafi frá kvenfólkinu í Viðfjarðarætt vegna hetjulegrar framgöngu í gegnum tíðina, þá er marga eftirtektarverða karlmenn einnig þar að finna og nægir að nefna að Viðfjörður United hefur átt sína leikmenn í knattspyrnulandsliði Íslands svo eftir hefur verið tekið víða um lönd.

IMG_3860

Við enda vegarins er íbúðarhúsið í Viðfirði, byggt 1932, og stórmyndarlegt enn í dag


Bloggfærslur 26. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband