Sérviskan lengi lifi

Hvað er það sem fær miðaldra mann til að blogga? Við þessari spurningu er varla til neitt einhlítt svar, - og þó. Sá sem t.d. skoðar moggabloggið reglulega mun fljótlega komast að því að þar er að miklu leiti við ritstjórnina sundurleitur hópur samansúrraðra sérvitringa sem væru greindir einangrunarsinnar sem aðhyllast afturhald og þjóðernispopúlisma ef mælistika hinar pólitísku rétthugsunar er notuð.

Hjá mörgum bloggurum eru það fréttir sem kveikja neistann og pistlarnir því oft tengd við fréttir á mbl, og þar viðraðar aðrar skoðanir en fram koma í fréttum. Því má segja að flest blogg eigi sér þann uppruna að fara gegn rétthugsun sérfræðingaveldis samfélagsins sem kallað er á teppi fjölmiðlanna til að láta almenning vita hvað hagkvæmt sé að halda. Blogg er því oftar en ekki til að opinbera sérvisku í stað sérfræðiþekkingar.

Síðuhöfundur hefur bloggað á moggablogginu í meira en 10 ár og má segja að fyrstu árin hafi bloggin verið að mestu fréttatengd. Fljótlega upp úr hinu „svokallaða hruni“ fóru fréttir og sérvaldir álitsgjafar að verða aftur svo yfirgengilega einróma í síendurtekinni sérfræðiþekkingu sinni að ég slökkti endanlega á sjónvarpi og flatskjárinn flaug svo fram af svölunum eins og freesbeediskur nokkrum árum seinna.

Ástæða þess að svartur skjárinn fékk pláss svo lengi í stofunni var sú að hún Matthildur mín sagði að við myndum líta út eins hverjir aðrir sérvitringar ef á heimilinu væri ekkert sjónvarp sýnilegt þegar gesti bæri að garði. Hún sjálf var fyrir löngu hætt að horfa á sjónvarpið á undan mér, en hefur sennilega alveg rétt fyrri sér hvað álit fólks á sérvisku varðar.

Eins og mátt hefur greina í bloggum undanfarið og myndaalbúmi, þá höfðum við hjónin verið að fikra okkur Íslenska hringinn undafarnar vikur af eintómri sérvisku, og fórum hann furðulegan með fermingarsvefnpoka og tjald. Það má segja að við höfum farið með veggjum, eða kannski réttara sagt þokubökkum og sólstöfum. Þrætt annes og afdali, en annað slagið höfum við samt kíkt við í alfaraleið. Slóðin lá norður annes og inn til dala, út Strandir og yfir Þröskulda, upp Borgarfjörð um Uxahryggi ,og svo með rykkjum og skrykkjum alla leiðina austur um Öræfi heim.

Í þessu ferðalagi var hvorki kveikt á útvarpi né komið við í Reykjavík og við erum bæði svo svakalega sérvitur að hafa ekki tileinkað okkur snjallsímatæknina. Í lok þessarar ferðar heimsóttum við svo alsæl og utangátta vinafólk í hjólhýsaþyrpingu við rætur óbyggðanna heima, og var þá skyndilega kippt niður á jörðina þar sem við sátum úti með vinafólki. Á þessu sólbjarta sumarkvöldi birtist út úr einu hjólhýsi eldri kona skelfingu lostinn og spurði hvort við værum ekki að fylgjast með fréttum.

Í sjónvarpinu væri verið að segja frá seinna fjöldamorði dagsins í vestri, yfirvofandi flóðum hjá frændum vorum í austri og hamfarahlýnun. Við sem höfðum haldið okkur eiga indælis ferð og hitt á notalegt veður fyrir fólk rétt fyrir sextugt til að þykjast ungt í annað sinn. Á ferðalaginu um landið urðum við dagþrota hvern einasta dag og litum oftar en einu sinni í augu hvors annars vitandi upp á hár að þetta er allt saman farið styttist í annan endann. það þarf engar fréttir eða facebook statusa því til staðfestu.

Undanfarin ár hefur Ísland átt hug minn og má segja að bloggin mín hafi verið til að æfa íslenskan stíl. Það hefur nefnilega verið að læðast að mér sú hugsun með aldrinum, að það sé ekki tilviljun hvar við fæðumst og hvað því fylgir, og rétt sé að nota það á meðan tími gefst. Kannski er það með þetta eins og fleira að það þurfti erlendar fréttir og túrista til að augun opnuðust.

Nú orðið nota ég bloggin mín meira sem bók daganna um það sem má lesa á milli línanna og til æfinga í íslensku. Enda hefur pirringur minn farið vaxandi eftir því sem ég heyri fleiri, sem deila kjörum á landinu bláa, tjá sig á lélega mengaðri ensku. Ég hef fjargviðrast útí það hér í blogg að þjóðmenning mörlandans sé kynnt á ensku sem fyrsta máli, en þar er samt ekki kynnunum um að kenna heldur kannski skorti á íslenskum eyrum.

Eins hef ég sagt frá gamla Akureyringnum sem bauð mér "Good morning" við ruslatunnurnar til þess að vera alveg öruggur með að gera sig ekki að viðundri. Jafnvel þó ég væri hrolleygur bláskjár í gatslitinni lopapeysu í morgunn kulinu. Ég svaraði með "góðan daginn" á því ástkæra og ylhýra, sem kannski hefði betur verið látið ógert því sú kveðjan virkaði eins og kjaftshögg á þann gamla.

Eitt sinn í þessum hring þegar dagur var að kveldi kominn spurði ég 66° bláklæddan, rauðbirkinn tjaldsvæðisvörð hvort hægt væri að fá að tjalda. Hann  hastaði „speak english please“. Þau stóðu þarna fjögur saman svo ég spurði brosandi, -til fullviss mig alveg, -hvort það væru fleiri fábjánar hér og fór svo inn um dyr sem á stóð reception. Sá rauðbirkni stormaði inn á eftir og sótti geðuga konu sem sagði "hvað gengur eiginlega á". Þegar  sérviskan hafði verið greind, spurði hún með íslenskri alúð „get ég gert eitthvað fyrir þig“. Ég svaraði  „tjaldstæði fyrir tvo takk í litlu kúlutjaldi niður við lækinn“. -“ Það er bara ekkert annað“ sagði hún með brosi.

Í þessari hlykkjóttu hringferð þá ætluðum við að gista á einu af frægu tjaldsvæðunum. Þar fengust engar upplýsingar í verslun nema á ensku þó svo að verðlagið væri tvöfalt. Þegar ég ætlaði að fá upplýsingar í viðeigandi reception stóð svo á að verið var að setja nýjan starfsmann inn í starfið og var hún æfð á ensku spurði þá sem undan mér voru "and you are icelanders", -"no we are danish" sagði fjölskyldufaðirinn. Ég bar mitt erindi upp á því ástkæra og ylhýra en fékk strax til baka „speak english please“.

Það hafði ég ekki hugsað mér, og snéri mér því að þeirri leiðbeinandi og fékk langdregið og ljúft „sorry speak english please“, þrátt fyrir að gestir væru 80-90% Íslendingar. Ég brosti mínu blíðasta og sagði „nei takk“ á minni langt um langdregnari sérvisku. Við fórum á annað tjaldstæði í nágrenninu. Það er rekið í tengslum við gróðurstöð og hafði auk þess veitingasal. Þar starfaði íslensk fjölskylda og voru þau ekki í vandræðum með móðurmálið tókst meir að segja að fá fullan sal af Ítölum til að hlæja á því ástkæra og ylhýra.

Ég hef stundum sagt Pólverjunum sem ég vinn með að þeir séu búnir að hirða flest skemmtilegu störfunum frá Íslendingum og þá glotta þeir íbyggnir. Enda hafa þeir pappíra úr lærðum skólum ráðstjórnarinnar upp á hvað sem er, og vita upp á hár hvers þeir fóru á mis við að rýna í reglugerðina. Í síðustu viku mætti ég loks aftur til vinnu og var þá dubbaður upp í nýjan eldrauðann vinnugalla frá hálsi að hælum. Ein af mínum skildum er að sjá um að þeir fái að éta ef lengra er farið og þurfti ég í verslun til að sækja vistir.

Fyrir framan mig við kassann var íslenskur maður með sín innkaup, sem skyndilega skaust og náði sér í brauð réttar vefju til viðbótar. Þegar hann sá heildarútkomu viðskipta sinna gapti hann eins og naut á nývirki yfir 2001 krónu og bað um kvittun með svip. Kornung afgreiðslustúlkan spurði hikandi hvort ekki væri allt í lagi og hann spurði starandi á móti hvað er þetta og benti borandi fingri á línu á kvittuninni.

Annar eldri starfsmaður verslunarinnar var komin fyrir aftan mig í röðina og unga stúlkan á kassanum spurði hana hvort hún vissi hvað þetta væri. Hún snéri sér að manninum og spurði harðmælt „did you buy fish“; - „no I did not buy fish“ svaraði hann með þjósti. Eftir það fóru öll samskipti þessari þriggja landa minna við kassann fram á lélegri ensku. Á endanum var „did you buy fish“ bakfært og maðurinn gekk ánægður út með fullt fang af góssi hámandi í sig „did you buy fish“.

Ég stóð eftir eins og ljómandi jólasveinn í nýja rauða vinnugallanum mínum og reyndi að ropa upp kennitölu fyrirtækisins á íslensku svo hægt væri að reikningsfæra viðskiptin og gafst ekki upp þó svo að það þyrfti þrjár tilraunir til, þegar ég kom út var ég spurður "hvar er húfan" á kýrskýrri íslensku en þóttist ekkert skilja. Já hún getur verið sérstök sérviskan.


Bloggfærslur 16. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband