Mögnuð manía

Sinn er siðurinn í hverju landi. Um Færeyinga er stundum sagt að hjá þeim sé alltaf nægur tími og ef þeir verði dagþrota þá komi bara meiri tími á morgunn. Annað virðist eiga við um landann þar virðist máltækið „er á meðan er“ gilda í einu og öllu þegar tími er annars vegar.

Þetta Íslenska viðhorf má greina við að lesa bókina um Halaveðrið mikla. Í þessu aftaka veðri fórust 79 manns á Íslandi þ.a. 74 til sjós. Í bókinni kemur fram að togarinn Leifur heppni, sem fórst með allir áhöfn, var að veiðum eftir að veðrið var skollið á og þótti það eðlilegt því að hann var að afla. Eins segir frá því að áhöfnin á togaranum Jóni forseta hafi gert tilraun til að halda áfram veiðum eftir að veðrið gekk niður. Skipið var þá mikið laskað eins og allur togaraflotinn sem hafði verið á Halanum, og kominn var -eða á leið í land óhaffær.

Þegar ég var í Noregi upplifði ég svo þriðju útgáfuna af tímanum, en þar er hann þræl skipulagður, öfugt við okkur afleggjarana í Færeyjum og á Íslandi. Oft var ég spurður af vinnufélögum hvað ég ætlaði að gera um helgina og voru þá sportgöngutúrar umræðuefnið. Ég var aldrei með neitt plan og sagði þeim að það færi alveg eftir skýjafari þann daginn hvort ég færi upp á Gangsástoppinn eða Hinntindinn og aldrei þýddi neitt fyrir þá að fá þennan óskipulega Íslending með sér nema sama dag og sást til sólar.

Þessi munur á frændþjóðunum kom einu sinni til tals við Færeyska kunningjakonu, sem búið hefur á Íslandi mest alla ævi. Taldi ég að skýringin á muni þjóðanna lægi í því að á landinu bláa væri ekki hægt að skipuleggja neitt vegna veðurs og náttúruhamfara. Þess vegna stæðu hendur fram úr ermum á Íslandi þegar aflaðist. Hún sagði þetta ekki vera góða skýringu hjá mér því að Færeyingar væru bæði aflaklær og byggju við válind veður en þetta hamslausa æði væri samt ekki inngróið í þeirra þjóðarsál, því þeir vissu að það aflaðist líka á morgunn.

Nú er svo komið hér á landi að fólk fer jafnvel hamförum í frístundum. Æðir á fjöll með skrefamælandi snjallúrið og símann jafnvel í lágskýjuðu. Það hefur varla farið framhjá neinum að veðurfarið hefur verið dyntótt undanfarið, eða eins og fjölmiðlarnir segja; fylgist með lægðinni í beinni. Eins hefur ítrekað verið leitað að fólki eða aðstoðað vegna ófærðar af hetjum í sjálfboðavinnu. Eitthvað sem flestir hefðu forðast látið um sig spyrjast nema að þeir væru að afla hér áður fyrr.

Þann 28. desember s.l. voru björgunarsveitir kallaðar út til að sækja fótbrotinn leiðsögumann á miðjum aldri upp á Breiðamerkurjökul. Það virðast vera farnar sporttúrar á þennan viðsjálfverða jökul af þeim sem ekki geta látið sér nægja að valhoppa á milli ísjakana á Jökulsárlóni í skammdegisskímunni. Konu var leitað í Esjunni núna í byrjun vikunnar af björgunarsveitum og þyrlu  landhelgisgæslunnar. Og svo var það núna um miðja vikuna sem ferðaþjónustu fyrirtæki leitaði aðstoðar björgunarsveita eftir að hafa lent í lífsháska með 39 ferðamenn við Langjökul, eins og landsfrægt er orðið. Aflamenn nútímans gera orðið út á sportferðamenn sem hafi minna en hundsvit á íslenskri ótíð og jafnvel ekki vit á að fylgjast með lægðinni í beinni.

Núna í vikunni hefur þeim sem „öfluðu mest“ því sem næst verið drekkt í fúkyrðum í öllum fjölmiðlum landsins. Stukku þar margir á vagninn, þar á meðal öryrki sem hafði fyrr í vikunni verið í fréttum fyrir að þiggja 20 milljóna króna bætur fyrir að þurfa ekki að mæta í vinnuna sem þjóðgarðsstjóri. Mátti helst skilja á frétt að kelling á sjötugsaldri hafi farið björgunarleiðangur upp undir Langjökul og bjargað 39 ferðamönnum ásamt öðrum hetjum í sjálfboðavinnu.

Verst þótti þeirri gömlu hvernig gráðugu aflamennirnir fóru með börnin, sem biðu þessarar lífsreynslu sennilega aldrei bætur. Kannski hefði hún átt að hugsa til blessaðra barannanna sem helferðarhyskið bar út af þúsundum heimila um árið með hennar stuðningi. Lágkúra lægðarinnar í beinni náði svo hámarki þegar dúkkulýsan í ferðamálaráðaneytinu lét draga sig út á tún í skítadreifaranum til að sparka í eina mjólkurkúna.

Þeim ræksnunum hefði verið nær að baða sig í sviðsljósinu með því að tilkynna að þær hefðu orðið einhuga um að 20 milljón króna örorkubætur vegna þjóðgarðsvörslunnar rynnu til björgunarsveitanna.


Bloggfærslur 9. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband