Lopapeysa og öryggisvesti.

 

Það er spurning hvort stjórnvöld fái ESB styrk til að innleiða staðalinn fyrir íslensku lopapeysuna.  Eða það nægi að fara í gult öryggisvesti utanyfir eins og spænskum gleðikonum hefur verið gert að gera við störf á götum úti.

Sá veruleiki sem okkur er ætlað að búa við er nú þegar að mestu innrættur samkvæmt fyrirframgefnum númeruðum stöðlum. Strax í barnæsku hefst innræting  þar sem foreldrar yfirfæra sinn veruleika yfir á börnin og í formi menntunar.  Það er búið að setja staðla og númer yfir flest þegar barn fæðist.  Tölur er stór hluti þessara stöðluðu reglna s.s. aldur, þyngd, einkannir, fatanúmer osfv. allt er vegið og metið samkvæmt númerum og tölum. 

Eftir að hafa starfað við að selja handprjónaðar lopapeysur til erlendra ferðamann hefur mér orðið það betur ljóst hve afgerandi þessi númeraða innræting er.  Handprjónuð lopapeysa er einstök.  Hún hefur yfirleitt ekki númer, litir, mynstur, vídd, og sídd osfv. fer eftir hugmyndum prjónakonunnar sem yfirleitt prjónar hana sér til ánægju og til að skapa eitthvað sérstakt.  Þó hún sé prjónuð í fyrirfram gefinni stærð og mynstri, hefur segja hversu fast hún er prjónuð.  Það má því segja að aðeins sé til eitt eintak af hverri handprjónaðri lopapeysu í heiminum.

Ferðamenn sem kaupa lopapeysur eiga oft mjög erfitt með að ákveða sig þegar lopapeysa er annars vegar.  Þó hún smellpassi, litir og mynstur sé það sem leitað var eftir.  En það vantar oftast númerið til að staðfesta að þessi sé sú rétta.  Algengar spurningar eru; Hvaða númer er hún?    passar þessi er hún eins og hún á að vera á mér?  Þó að maður segði hún á að vera L þá getur svarið verið, "þá gengur þessi ekki ég nota ekki nr. L.  Það getur verið betra að beina athyglinni að öðru en ónúmeraðri stærð þegar lopapeysur eru annars vegar.

Hefðin er að gefa verð upp í númerum annað virðist ekki ganga.  Ég heyrði af  samfélagmarkaði með notuð föt þar sem var allt var frítt.  Ef þú gast látið eitthvað af hendi rakna í staðinn þá var það vel þegið.  Á svona mörkuðum finnur fólk oft sitthvað sem það langar virkilega í.  En það að verðmiði skuli ekki vera til staðar og það sé kaupandanum í sjálfsvald sett hvað hann gefur fyrir hlutinn virðist oftar en ekki verða til þess að fólk verði óöruggt og finnst að eitthvað stórundarlegt sé á seyði.  Aftur á móti ef vörur á svona markaði eru verðlagðar með láum tölum á fólk það til að hamstra og kaupa það sem það hvorki langar í né vantar.

Innræting þessarar fyrirfram gefnu neyslutilveru hefst strax í bernsku.  Í leikskólum er ekki farið í göngutúr nema í neongulum öryggisvestum merktum stærstu fyrirtækum landsins.  Snemma í sumar mætti ég lögreglubíl sem fór með blikkandi ljósum fyrir stórum hóp leikskólabarna .  Háskólamenntuðu leikskólakennararnir höfðu skipulagt gönguferð.  Allir skyldu vera í gulum öryggisvestum í lögregluvernd.  Skammt þar frá voru unglingar í sumarvinnu, útí móum að tína rusl í gulum öryggisvestum.  Það sem kom upp í hugann var; eru þetta þær reglur sem ég hef tekið þátt í að móta? 

Öryggisvesta æðið kom hingað austur með stórfyrirtækinu Alcoa, mér datt fyrst i hug að þetta myndi einungis verða þjóðbúningur Reyðfirðinga.  Nú eru öryggisvestin að verða allsráðandi á vinnustöðum og jafnvel á götum úti.  Oft það eina sem er merkt S, M, L, eða XL sem fólk getur klætt sig í, annað verður að vera með tölusettum númerum.  Einstaklingurinn er orðin kennitala sem notar númeraða skó og tjáir sig í gegnum ip tölu. 


mbl.is Krafa um víðtæka aðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband