Bárujárnskóngurinn

IMG 0262

Þá fara mánuðirnir að verða tveir síðan ég fór að heiman á flughálum svellunum hingað norður á 69°N.  Fyrstu vikurnar hérna runnu í eitt við botnlausa flísalögn í sundlauginni á Evenskjer.  Bægslagangurinn var svo mikill að það var byrjað að renna í sundlaugina áður en við vorum búnir að flísaleggja hana, blessuð börnin á Evenskjer máttu fá sundlaugina sína á réttum tíma.  Frekar en að þurfa að flísaleggja úr gúmmíbátum unnum við 12 tímana dag eftir dag, viku eftir viku, helgi eftir helgi.  Þetta var óneitanlega farið að minna á íslensk ævintýr á uppgangstímum sem maður er að verða of gamall til að taka þátt í, hausinn leyfir það ekki, varla skrokkurinn, hvað þá andinn. 

Eftir tíu daga puð var ég búin að setja bensín á dísil bíl, bræða öll greiðslukortin á ofni þegar ég gerði tilraun til að þvo, þurrka og strauja buxurnar mínar samtímis auk þessa að flísaleggja hálfan heiminn í svefni.  Það er kannski  gáfulegra að sleppa svona ævintýrum þegar maður er kominn á sextugs aldurinn.  Samt get ég grobbað af því að þessi törn ruglaði mér yngri menn í ríminu, sem jafnvel telja sig kunna að strauja.  Einn vinnufélaginn lagði gangandi af stað heim eitt kvöldið eftir að við vorum komnir á lagerinn, með nestispokann á bakinu, skíðastafi í höndunum og svell undir fótunum.  Það er nefnilega útilokað að muna eftir meiru en tvennu þegar svona stendur á og reyndar fullmikið að ætlast til þess af karlamanni á venjulegum degi.  En þarna aðstoðaði ég semsagt félaga minn með því að kalla á eftir honum, „Nils skal du ikke hjem på din bil" þetta reyndist lítið mál fyrir mig sem þurfti ekki að muna eftir neinu, því ég bý við þann lúxus hér í Noregi, að vera kominn heim á lagernum.

Eftir því sem ég kynnist vinnufélögunum betur, þeim mun áhugaverðari eru þeir.  Norðmennirnir eru original og hafa alið sinn aldur hér um slóðir.  Allan sá elsti í hópnum var á fraktskipum á árum áður og er varla til staður í heiminum sem sem liggur að sjó sem  hann hefur ekki komið á, hinir tveir Rune og Nils hafa unnið hjá Murbygg sinn starfsaldur og þekkja því allt sem fyrirtækinu viðkemur út og inn.  Svo eru það aðfluttu vinnufélagarnir sem hafa verið hjá Murbygg í 2-7 ár.  Yasin er yngstur 23 ára, hann fór að heiman um tvítugt fótgangandi frá Afganistan, eftir að hafa gengið í gegnum 11 lönd í tveimur heimsálfum endaði göngutúrinn hérna í N-Noregi.  Juma sem er 33 ára kemur frá Darfur í Sudan, hann fór að heiman fyrir um 12 árum síðan, fyrst til Líbýu þar sem hann var í tvö ár áður en hann sigldi yfir til Ítalíu, ferðalagið endaði svo í Harstad.  Amin sem er frá Afganistan er búin að vera hér lengst af þeim þremur  og búin að koma sér vel fyrir í eigin húsi, hann verður bara dularfullur þegar ég spyr hvort hann hafi farið fótgangandi eða fljúgandi að heiman.  Hann á orðið litla fjölskyldu hérna,  konu frá Afganistan og tvö börn, en eins og þeir Yasin og Juma þá var hann einn á báti þegar hann kom.

Í kaffitímum, þegar nestisboxin eru tekin upp, eru oft áhugaverðar umræður.  Þeir báðir Juma og  Yasin láta sig dreyma um að eignast hús og konu eins og  Amin, sem telur ekki vera vit í því hjá þeim að hugsa um að kvænast innfæddum.  Það sé bara ávísun á uppvask og fleiri vandræði, Norsararnir viti nefnilega ekki hvað það sé mikilvægt að hafa verkaskiptinguna á hreinu.   Juma segir að það sé betra að eiga bara eina konu, það viti hann vegna þess að bræður hans eigi tvær konur.  Þegar hann heimsótti fjölskylduna, í fyrsta sinn síðan hann fór að heiman, núna í sumar sá hann að yngri bróðir hans leit orðið út sem gamalmenni.   Þetta taldi Juma að hann hefði upp úr því að eiga tvær konur, það getur því farið ver með menn en nokkurt uppvask.  Yasin er grunaður um að eiða stórfé í símtöl til kærustu í Afganistan, ef hann er spurður út í kostnaðinn við þessi símtöl hlær hann og setur fram tölfræði um óskyld málefni, t.d. að við séum að vinna fjórir saman frá fjórum þjóðlöndum og þremur heimsálfu eða hvort það sé kannski öfugt, þá snúast umræðurnar snarlega upp í kennslustund í landafræði.

IMG 0196

Eftir mánaðamótin jan-feb fór svo vinnuvikan að færast í eðlilegt horf með stuttum föstudögum, jobb mid i byen med breakfast på Grand.  Síðan þá hef ég haft nógan tíma til að lalla um fjörurnar og skipuleggja hvort ég á að hafa baunir eða hrísgrjón í kvöldmat sem ég verð bæði að elda og vaska upp eftir sjálfur.  Einn kosturinn við að vera svona langt að heiman er að lífið er einfalt enda sannað að það þarf kvenfólk til að flækja tilveruna.   Það er ekki bara speki  vinnufélagana sem staðfestir það, um það má lesa í bókinni hans Magnúsar Mills, Bárujárnskóngarnir.  En sú bók fjallar um karlmenn sem búa einir í bárujárnsskúrum úti í eyðimörkinni og hlusta á vindinn gnauða í bárujárnsplötunum dagana langa.   Þeir þurfa ekki einu sinni að hafa fyrir því að sópa sandinn frá útidyrunum á morgnanna, enda gjörsamlega tilgangslaust hann kemur bara aftur eða fýkur frá þegar það breytir um vindátt.  Það var ekki fyrr en kona flutti í einn bárujárnsskúrinn sem lífið fór að verða flókið.  Þá þurfti að sópa sandinn frá útidyrunum og finna stað fyrir spegilinn.   Síðan þegar þriðja atriðið bættist við, sem ég man ekki lengur hvað var, þá var þetta orðið jafn flókið og að strauja, því ekki um annað að ræða fyrir nafna minn Mills en forða sér að heiman, lengra út á auðnina í annan bárujárnskofa.

Þó svo himin og haf aðskilji okkur Matthildi mína, hún með sína ketti hinu megin við hafið og ég mínar mýs hérna megin við himininn, þá hefur tilvera okkur aldrei verið flókin, enda er þetta fimmta ævin okkar saman samkvæmt líflestri, þó svo að við höfum jafnvel bæði farið að heiman í einu áður þá hefur hún séð um það að strauja.  Það er t.d. ekki lengra síðan en 1988 sem við fórum að heiman saman til næsta bæjar, Hafnar í Hornafirði, þaðan sem hún flaug suður á fæðingardeild Landspítalans og ég norðu á Langanes til að múra.  Þá var ég búin að vera án launa um tíma þegar risa verkefni kom upp í hendurnar á mér, það að múra heila heilsugæslustöð á Þórshöfn. Því kom ekki annað til greina en að grípa tækifærið að fá að múra þegar það gafst, þó svo að það kostaði það að ég missti af tvöfaldri fæðingu. 

Mér fannst gáfulegt að vinna viku eftir að krílin fæddust til að vinna mér inn lengra frí, fljúga þá suður til að flytja nýja fólkið heim með Matthildi minni, heldur en að hanga þrjár vikur við að bíða, því vatn syði maður ekki í þrjár vikur nema þá samkvæmt læknisráði heima hjá sér.  Ég get svo Guð svarið það að ég man það eins og gerst hafi í gær þegar ég kom í hádegismat í Esso sjoppuna á Þórshöfn og ein afgreiðsludaman sagðist vera með skilaboð til mín frá Dagbjörtu systir; „allt hefði gengið eins og í sögu þetta væru stelpa og strákur, stelpan hefði komið á undan og öllum þrem heilsaðist vel".  Það hefur sjálfsagt dottið af mér andlitið fyrir framan afgreiðsludömuna, því eitt átti að vera á hreinu samkvæmt ómskoðun fyrr um veturinn, að þetta væru eineggja tvíburar og því annaðhvort tvær stelpur eða tveir strákar.  Það hefur örugglega verið vegna þess að það datt af mér andlitið að ég heyrði þær hvísla um það á Esso sjoppunni á Þórshöfn mörgum árum seinna þegar ég átti þar leið um „þetta er náunginn sem þurfti að segja frá því í hádegismatartímanum að konan hans hefði eignast tvíbura".

Hann var kaldur en sólskinsbjartur með hvítum öldufaldi í norðan blæstrinum á bláum sjónum marsdagurinn sem við Matthildur komum heim aftur saman í Sólhól á Djúpavogi með litlu krílin.  Ég var ekki heldur alltaf heima eftir að krílin komu í heiminn, enda held ég að það hafi orðið þeim til heilla.  Sagt er að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn en hvergi ef ég rekist á að það þurfi til þess sérvitran bárujárnskóng.  Litlu krílin kynntust því afa sínum í Sólhól vel sem hafði meira með þeirra uppeldi að gera en ég fyrstu árin. Þau snérust í kringum hann ásamt köttunum og tíkinni Tátu á grasbölunum í kringum Sólhól við að setja upp net og niður kartöflur, verkefni sem eru jafn nauðsynleg og lífið sjálft.  Kettirnir höfðu af augljósum ástæðum meiri áhuga á netunum en kartöflugarðinum, á meðan Siggi, Systa og Táta höfðu áhuga á öllu sem Jón tók sér fyrir hendur.

Börn eiga það til að sjá tilveruna í mun stærra samhengi en fullorðnir.  Eitt kvöld þegar fullur máni merlaði sjóinn á Papeyjarálunum fór ég út með krílin til að sýna þeim sjónarspilið.  Systa bað um að tunglið yrði sótt og notað sem ljós inni í Sólhól.  Eitthvað stóð á mér að láta þetta smáræði eftir blessuðu barninu, hún grét sig í svefn með ekkasogum það kvöldið.  Þá var erfiðara að vera pabbi en bárujárnskóngur.  Morguninn eftir þegar ég fór á fætur sá ég þau systkinin við kvistgluggann horfa út á Papeyjarálana; "það er dottið í sjóinn" sagði Systa ennþá með með tárin í augunum.  "Kannski fær afi það bara í netin sín á sjónum í dag og kemur með það heim í kvöld" sagði Siggi hughreystandi við systir sína sem efaðist ekki eitt augnablik um að það myndi afi gera ef hann fengi tunglið í netin og deginum var bjargað.  Blessuð börnin eiga oft ráð sem eru okkur eldri vanfundin og því spurning hver kennir hverjum. 

Einn sjómannadaginn á Djúpavogi var ákveðið að heiðra þrjá aldna sægarpa, þá Stebba heitinn Svala, Jón heitinn í Sólhól og Sigga Bessa í Dagsbrún, sem enn í dag sækir sjóinn kominn hátt á níræðis aldurinn.  Þessi fyrirhugaða heiðursathöfn lagðist þungt í Jón í Sólhól, hann sagðist ekki kæra sig um að honum væri gert hærra undir höfði en öðrum sjómönnum, hvað þá að það væri verið að segja af honum hálfgerðar grobbsögur með viðhöfn.  En þar sem það hafði þegar spurst út hverja ætti að heiðra var ekki aftur snúið hjá sjómanndagsnefnd Djúpavogs.  Þegar athöfnin fór fram, þar sem bæjarbúar voru saman komnir á einum mesta hátíðisdegi þorpsins, var enginn Jón til að taka á móti sinni viðurkenningu hvað þá til að hlusta á erindin sem voru flutt þessum sægörpum til heiðurs.  Eftir smá vandræðagang var Systu ýtt farm til að veita móttöku viðurkenningu afa síns.  Sennilega vegna þess að hún ber nafn Snjófríðar ömmu sinnar, fyrrum húsmóður í Sólhól.

Þegar við nálguðumst Sólhól eftir dagskrána á þessum sólskinsbjarta sjómannadegi er ég ekki frá því að við Matthildur höfum hugsað með dálitlum kvíða það sama.  Það hafði verið tekið fram fyrir hendurnar á hinum 73. ára sægarp í Sólhól, medalíu veitt viðtaka og skrautrituðu viðurkenningarskjali sem hann hafði lýst skýrt og skorinort yfir að hann kærði sig ekkert um að honum yrði veitt umfram aðra.  Það hafði ekki verið að okkar frumkvæði að Systu var í skyndingu falið móttökuhlutverkið.  Aftur þennan dag voru blessuðum börnunum falið að leysa vandræði. 

Jón var að setja niður kartöflur, en sjómannadagurinn var einn af fáu dögum ársins sem hann réri ekki til fiskjar ef gaf.  Í ráðaleysi okkar sögðum við Sigga og Systu að færa afa sínum herlegheitin út í kartöflugarð.  Þegar þau komu til afa síns sagði Systa "afi sjáðu hvað við komum með handa þér", Jón beygði sig niður til þeirra til að skoða það sem þau færðu, klappaði þeim svo á kollana, reisti sig upp og sagði "kom það þá samt", og aldrei orð um það meir.  Mér er ekki kunnugt um annað en sjómannadagurinn 1991 hafi verið sá eini sem sjómenn voru nafngreindir sérstaklega í heiðurskini á Djúpavogi, svo kannski var hlustað á Jón í Sólhól eftir allt saman. 

Það eru þessir dagar tilefnis sem eru erfiðastir fyrir bárujárnskóng að vera langt að heiman í víking. Hátíðisdagar, sem og dagar sorgar, afmælisdagar, dagar sem maður veit að maður er að missa af dýrmætum stundum með sínu fólki.  Jafnframt skýrir fjarveran það oft betur út fyrir manni í hverju mestu verðmætin eru fólgin.  Bestu afmælisgjafirnar mínar eru Stóra litla fuglabókin, skrifuð og myndskreytt af 7 ára börnum, sama árið og hið dýra ljósmynda ritverk Stóra fuglabókin kom út, ásamt útsaumuðum dúk sem á stendur pabbi múrari.  Á aðfangadagskvöld eru tekin fram glös, til að drekka Egils malt og appelsín, gkæsilega myndskreytt með sól, hjörtum, písmeki og dýrum merkurinnar, annað með áletrununum Mamma og Pabbi, hitt Magnús og Matta.  Það eru svona hlutir sem minna á hin sönnu verðmæti.  Hvernig er svo hægt að fá stærri gjafir?

Sem betur fer var ég oftast heima á afmæli barnanna og reyndi að haga því þannig, vegna þess að þetta er einn mesti hátíðisdagur ársins. Svo kom það tímabil eins og hjá flestum að nærveru pabba og mömmu var ekki óskað í afmælisveislunni.  Ég hef grun um að það hafi verið erfiðara fyrir Matthildi en mig að verða við þeirri ósk, ekki vegna þess að uppvaskið kom á hana þegar aftur heim var komið, heldur vegna þess að hún hefur alltaf verið ung í anda, á meðan ég þurfti í mesta lagi að sópa saman brotunum af húsbóndastólnum og þusast yfir tjóninu. 

En þá er komið að tilefni þessa pistils.  Í dag eru akkúrat 24 ár síðan afgreiðsludaman í Esso sjoppunni á Þórshöfn flutti mér ánægulegustu tíðindi lífs míns og þó svo litlu krílin séu nú flogin að heiman þá veit ég að þau eru í kjöti og karrý hjá Matthildi minni í dag og þar vildi ég helst vera, en verð þess í stað að senda gnauðið í bárujárnsplötunum yfir hafið og heim sem afmæliskveðju á youtube. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá Magnús, en skemmtilegt að lesa!   ég verð nú að segja að ég var líka agalega spennt þegar Systa og Siggi fæddust..og ekki síður mamma og pabbi! þau eru flottir krakkar, innilega til hamingju með þau Magnús og Matthildur...það er mikil lukka að fá  tvö í einum pakka :)

Jóhanna Másdóttir (IP-tala skráð) 4.3.2012 kl. 09:19

2 identicon

Frábært að lesa og góður penni ertu. Til hamingju með börnin Maggi minn og þið bæði hjónin með börnin ykkar.

Hafdís Erla Bogadóttir (IP-tala skráð) 4.3.2012 kl. 10:19

3 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Gaman að lesa þessa hugleiðingu.

Eins er fróðlegt að menn fara ennþá á vertíð eins og við ungir menn gerðum á Héraðinu, í stað þess að fara á atvinnuleysisbætur.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 4.3.2012 kl. 12:38

4 identicon

Þetta er yndisleg lesning, farðu nú að huga að útgáfu.. Til hamingju með gimsteinana þína.

Ásdís Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 4.3.2012 kl. 13:13

5 identicon

Til hamingju með daginn Magnús og þið öll :)

Eg hef aldrei séð tvíbura sem eru eins lifandi eftirmyndir foreldtanna.

Það er eins og hjónin hafi lent í tímavél afturábak.

Sólrún (IP-tala skráð) 4.3.2012 kl. 13:20

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk :)

Magnús Sigurðsson, 5.3.2012 kl. 19:19

7 identicon

Gaman alltaf að lesa bloggið þitt Magnús! Það sem getur runnið upp úr þér á netinu! Bíð spennt eftir meiru. Kv Hrönn

Hrönn Jónsdóttir (IP-tala skráð) 8.3.2012 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband