Sveppur og sjálfstætt fólk.

IMG 1811 

Sænautasel á Jökuldalsheiði

Ljúfir liðu dagarnir á landinu bláa núna í september heimsókninni. Mikið var mig búið að hlakka til og ekki yrði veðrið látið spilla fyrir andaktinni þó svo að blési hressilega með kafaldsbil til fjalla í nokkra daga. Svo tilbreytingasnautt getur lognið í Norsku fjörðunum verið til lengdar að maður saknar norðan nepjunnar. 

Það var strax í fokkernum á flugi austur sem fyrirheitið um frábæran tíma framundan leit morgunsins ljós. Þann bjarta laugardagsmorgunn, þegar skýhnoðrarnir að sunnan liðu hjá á flugi yfir Öskju, mátti sjá út Jökuldalsheiðina allt útundir bláma Vopnafjarðarins, Ánavatnið langt og mjótt tvískipt með veiðitanganum í miðju kóngablátt sem Sænautavatnið og nefndu það. Innan um steinana í öræfaauðninni voru rollur eins loðnir hnoðrar ásamt skjannahvítum álftunum, sem innan um stórgrýtið vörpuðu löngum svörtum skuggum á gular sandöldurnar litðar af morgunnsólinni. Akkúrat þarna á fluginu í fokkernum mundi ég eftir því hvað ég þyrfti að gera áður en vindar haustsins blésu rollurnar á kaf og ég fyki aftur yfir himin og haf.

Það gerðist nefnilega núna í sumar að við Súdanski höfðinginn Juma vorum sendir upp í Bláfjöll til að aðstoða gamlan Sama hann Karstein við að endurbyggja jarðhýsi sem hafði verið notað til að geima mat fyrr á tíð. Þetta var á stað sem heitir Vilgesvárre sem er úr alfaraleið, án rafmagns og allra nútíma þæginda. Eftir 4 km labb upp í Bláfjöll frá næsta vegslóða komum við í nokkhverskonar Múmíndal þar sem Samísk stórfjölskylda hafði búið í torfbæjum í 4 ættliði. Þetta voru forfeður Karsteins en nú hefur dalurinn verið gerður að Samísku safni. 

Karstein hafði ekki tíma til að stoppa lengi, skildi okkur eftir og fór niður í byggð með hreindýrabóndanum Nils sem hafði flutt Karstein og búnaðinn á fjórhjóli. Hann þurfti að komast niður til að skrifa tímaskýrslu vegna vinnu frá sumrinu áður þar sem aðstoðarmaður hans frá því þá væri hreint að gera hann brjálaðan vegna þess að Samasafnið sem heldur utan um ríkisstyrkinn sem fjármagnar endurbygginguna vildi ekki greiða honum launin frá fyrra sumri nema gegn tímaskýrslu. Forstöðukonan sem hefði með þetta að gera væri fyrir munað að átta sig á því að hann væri ekki 18 ára lengur, heldur 63 ára, og því af sem áður var þegar hann gat leikandi verið á tveimur stöðum í einu. En nú þyrfti hann auk þessara tveggja að fara til jarðarfarar og læknis daginn eftir. Tímaskin Sama virðist því vera heldur fjölbreyttara en á Jökuldalnum í denn þar sem sagt var til lítils væri að gefa úr í fermingagjöf, betra væri að gefa dagatal. 

Áður en Karstein fór til byggða kom það fram hjá hreindýrabóndanum Nils að það væri óvíst hvenær hann gæti skutlað honum aftur fótalausum upp í Bláfjöll, hann þyrfti nefnilega að fara í hreindýrasmölun á fjórhjólinu. Mér varð á að spyrja Nils hvað hann ætti mörg hreindýr en þá brosti hann bara og hvarflaði augunum á Karstein. Ég spurði hvort það væri eins með samíska hreindýrabændur og íslenska hrossabændur að þeir þættust aldrei vita hvað stofninn teldi. Karstein leit  djúpt í augun á mér um leið og hann sagði alvarlega; að þetta hefði ekkert að gera með íslenska hesta. Maður spyr einfaldlega ekki Samískan hreindýrabónda svona spurningar frekar en ég spyrði þig að því hvað mikið þú eigir inn á bankabókinni þinni, sagði hann. Eftir þetta steinhélt ég kjafti, enda ekki yfir miklu að gorta. En í kveðjuskini benti Karstein okkur Juma á hlaupandi rollu í hlaðvarpanum sem ekki væri góður fyrirboði.

Mig var búið að hlakka mikið til  þessa verkefnis ekki síst vegna þess að við áttum að gista í torfbæ á meðan á því stæði, sem var eitthvað sem gaman væri að upplifa. Þar að auki var ég talsvert spenntur að vita hvaða áhrif algert rafmagnsleysi hefði á sálina en það hafði ég heyrt að gæti verið þess virði að veita eftirtekt. Torfbærinn sem við gistum í var ekki stór kannski ca.  5.5 m X 3m sem skiptist í tvö rými annað þar sem komið var inn á moldargólf með steinhellum í gangveginum og svo inn af því stærra rými með timburgólfi sem hafði að geyma tvö rúmstæði sem stóðu meðfram vegg gafl í gafl, annað 1,70 m á lengd hitt 1,75, gamla viðareldavél, borð og tvo stóla, veggir og loft voru borðaklædd. Pottar og önnur eldhúsáhöld héngu upp um veggi, hvorki rennandi vatn né salernisaðstaða var í húsakinnunum. Okkur kom saman um að Juma fengi lengra rúmið því hann væri stærri þar sem hann slagar í 1,90 m.

Það er skemmst frá því að segja að rafmagnleysið hafði þau áhrif á sálina að það var eins og öll mörk á milli himins og jarðar hyrfu, svona eitthvað svipað og að vera undir stjörnubjörtum himni og ætla að telja stjörnurnar. Þar sem ég lá andvaka í rúminu hans Ola í Vilgesvarre, sem var húsbóndi einni öld fyrr í þessu húsi, liðu samtöl og myndir í gegnum hugann sem ég henti ekki nokkrar reiður á. Um miðnættið heyrði ég fótatak sem mér fannst nálgast millihurðina sem var fram í rýmið með moldargólfinu. Ekki opnaðist hurðin en fótartakið hélt áfram að heyrast og fyrir rest gat ég staðsett það í lausu lofti rétt fyrir ofan rúmgaflinn. Þá heyrðust skruðningar og hvít flyksa rann fram hjá glugganum í veggnum á móti en krafsaði sig svo upp í glugga tóftina aftur og ég horfðist í augun við rollu í gegnum stráin þar sem hún var á beit í gluggakistunni.

IMG 1003

Torfbærinn og jarðgeimslan í Vilgésvarre með rabarbaragarðinn á milli

Það var loks af fjórum nóttum liðnum í torfbænum að reiða komst á andvöku óráð rafmagnsleysisins. Eftir að við Juma skildum við Karstein eftir árangurlausar tilraunir við að endurbyggja hálfhrunið jarðhýsið með bíltjakki, járnkalli og kúbeini, þar sem hvorki var viðkomið samískum galdri né Afríkönsku vúúddúi hvað þá hugmyndaflugi minnislauss múrarameistara, að menn urðu þó sammála að lokum um að Afríkanar og Samar hugsuðu í hringi þó svo að ekki yrði það til að endurgera 150 ára jarðhýsi. Rabarbaragraut höfðum við í matinn á hverjum degi, Juma brosti út undir eyru eftir að hafa smakkað það góðgæti í fyrsta sinn og sagði "jæja mister Magnús héðan förum við allavega ekki fyrr en rabarbaraakurinn er búinn".  

Það gerðist reyndar fyrir tilviljun að við stoppuðum við lítið upplýsingaskilti til að hagræða hryggsekkjunum á heimleiðinni, að skyndilega fengu samtöl og myndir andvökunáttanna samhengi. Á þessu skilti stóð að John Johnsen og hans kona Kirsten Andersdatter hefðu tekið sig upp 1868 og flutt til fjalla í leit að jarðnæði. Þau, börn þeirra og barnabörn hefðu svo byggt sér torbæi í dalverpinu í Bláfjöllum sem þau nefndu Vilgesvarre. Þar hafði stórfjölskyldan búið allt til ársins 1958. Það var sem sagt akkúrat þarna sem Jökuldalsheiðin kom inn á radarinn.

Skömmu eftir að Fokkerinn var lentur á Egilsstöðum fór ég að taka eftir því að sveppur hafði tekið sér bólfestu í hugum fólks við að keyra upp hagvöxtinn, allavega meðal iðnaðarmann og ekki laust við að gamli fiðringurinn kæmi í fingurna þó svo að ekki sé enn farið að setja staðla um sveppafrítt múrverk. Votihvammur var með smiðum upp á þaklausum húsum að störfum við að fjarlæga óvættinn fyrir haustrigningarnar. Eins var búið rífa heilt hús við Laufásinn og byrjað á nýju 300 fermetra a la 2007. Þannig að húsin í gamla bænum líta út eins og gorkúlu þyrping við húsveggi sveppafríu hallarinnar. Eins mátti heyra í útvarpsauglýsingum að byggingavöruverslunum var einstaklega umhugað um heilsufar fólks og buðu upp á sveppapróf á tilboðsverði.

Mér varð hugsað til afa míns, nafna og vinar sem bjó síðasta æviskeiðið í þeim hluta bæjarins sem hefur hús sem nú þykja orðin óíbúðarhæf, algerlega grunlaus um það að hann byggi í eitursveppi. Þarna bjó hann sæll í sínu húsi og taldi sig hafa öðlast allsnægtir með skuldleysi við Guð, kaupfélagið og bankann leifandi sér þann luxus að kynda húsið yfir 20°C. Oft áttum við Magnús afi minn skemmtileg samtöl um fyrri tíð, þar á meðal húskost. Einu sinni spurði ég hann að því hvort það hefði ekki verið notalegt að búa í torfbæ. Ég held ég muni svarið orðrétt; "minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn". Hann sagði mér frá lekanum í haustrigningunum og myglunni sem fylgdi rakanum. Foreldrar hans börðust bæði við berkla með tilheyrandi fátækt en tókst samt að halda heimili sínu saman sem taldi fimm barna hóp. Afi vildi meina að húskinnin hefðu átt stærstan þátt í heilsubresti fyrri ára.

Vallaneshjálega ein af endurbyggðu baðstofunum hans Jóns Sigvaldasonar

Í 1. tlbl. 5.árg. Glettings 1995 gerði Guðrún Kristinsdóttir, hjá safnastofnun Austurlands, húsakosti á Héraði skil á fyrri hluta 20 aldar í greininni "Baðstofurnar hans Jóns Sigvaldasonar". Jón var faðir Magnúsar afa míns og hafði smíðar að ævistarfi. Í erindi Guðrúnar kemur fram að Jón hafi oft verið fengin til að færa gömlu torfbæina til nútímalegra horfs með sínu sérstaka lagi. En þetta gerði hann með því að byggja tvílyft timburhús inn í tóft eldri baðstofa með háan, járnklæddan timburvegg fram á hlaðið sem hafði útidyr og glugga, með járni á þaki sem tyrft var yfir, bakveggir og stafnar héldu sér úr torfi og grjóti. Það kemur fram í grein Guðrúnar að heimili Jóns, gamli torfbærinn í Tunghaga, hafi verið síðast baðstofan sem hann endurbyggði árið 1934. Sannast kannski þar hið fornkveðna að iðnaðarmaðurinn lætur endurbætur við eigið hús ævinlega sitja á hakanum, nema þá að lífsbaráttan hafi verið með þeim hætti hjá smiðum í þá daga að allt varð til að vinna við að afla heimilinu lífsviðurværis. En fram kemur í samantekt Guðrúnar ;"Jón vann fram á síðasta dag við fjósbyggingu á Höfða á Völlum, en veiktist af lungnabólgu er hann kom heim og dró hún hann til dauða 5. júlí 1936".

Skömmu eftir að Jón Sigvaldason endurbyggir baðstofuna í gamla torfbænum í Tunghaga flytur Magnús elsti sonur hans í Jaðars húsið í Vallanesi með rolluskjáturnar sínar til ungu ekkjunnar eftir sr Sigurð Þórðarson og æskuvinkonu sinnar, Bjargar ömmu. Jaðar var einn fyrsti herragarðurinn á Íslandi byggður af séra Magnúsi Blöndal sem var einn af umdeildari Vallanesprestum. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11. október 1970 bls. 32 má lesa grein um Jaðar þar sem vitnað er í skrif Þórhalls Bjarnasonar biskups yfir Íslandi eftir yfirreið hans um Austurland 1912; Þar er presturinn sr. Magnús Bl. Jónsson, búinn að byggja íbúðarhús, sem ólíklega á "nokkurn maka að hugvitsamlegu og meistaralegu fyrirkomulagi í smáu og stóru". - Segir biskup að sér hafi dottið í hug að hér væri í byggingu verulegur herragarður í líkingu við herragarða í þjóðmenningarlöndum "til gagns og sóma og fyrirmyndar lýð og landi".

Jaðar 

Á Jaðri var hátt til lofts og vítt til veggja, húsið steinsteypt, svo kalt á vetrum að ekki voru tök á að kynda öll þau salarkynni í stofuhita. Sjálfur fékk ég að kynnast hrollköldum herragarðinum í Jaðri þegar ég var barn í sveitini hjá ömmu og afa. Eins man ég eftir að hafa komið í eina af baðstofunum hans Jóns Sigvaldasonar bjartan sumarmorgunn og fundist hún notaleg en það var í Vallaneshjálegu. Það er ekki að undra að afi hafi talið sig búa við lúxus eftir að þau amma fluttu á Selásinn á Egilsstöðum þar sem hæglega var hægt að halda 20°C stofu hita án þess að eiga á hættu að stofna til skulda. Líklegast gildir annað um sveppinn sem nú ríður verðtryggðum röftum, varla verður honum útrýmt án skuldsetningar út yfir gröf og dauða ólíkt því sem gerðist með gömlu torfbæina.

Annars er þessi hagvaxtar sveppur einkennilegur þegar hugsað er til þess að skuldir fóru ekki saman við sjálfstætt fólk á Íslandi í denn. En það má kannski segja að Nóbelsskáldið Laxness hafi komið okkur íslendingum í skilning um að okkur væri ekki ofgott  það besta og að rakakær myglu sveppur í þakskegginu væru ekki eitt af því. En ég upplifði það andvökunæturnar í skuggsælum torbænum Vilgesvarre að rakinn er sínu hvimleiðari en rafmagnleysið og jafnvel fónandi fyrir skuldleysið.

Vegna þessara óráðs hugrenninga á slóðum Samana í sumar ákvað ég einn sólskinsmorguninn í septemberheimsókninni að halda á vit ævintýra, um leið og mér var litið inn Héraðið sem skartaði spegilsléttu Lagarfljóti allt innundir Snæfell. Kanna íslenskan torfbæ með því að fara á slóðir þess sjálfstæða fólks sem Halldór diktaði upp forðum. Leiðin skildi liggja í Sænautasel á Jökuldalsheiði, en landnámi þeirrar heiðar byggðar lýsir hennar helsti fræðimaður Halldór Stefánsson sem svo; "Byggð þessarar hálendu heiðarbyggðar, hinnar langhæstu á landinu, líkist þannig - nær að kalla- ævintýri." 

Í tímaritinu Glettingi 11. árg. 1.tbl. segir Hallveig Guðjónsdóttir Dratthalastöðum á úthéraði frá kynnum af sínum nágrönnum í Sænautaseli en hún er fædd í Heiðarseli á Jökuldalsheiði.

Sögufrægt er, þegar Halldór Laxness gisti eina skammdegisnótt í heiðarbýlinu Sænautaseli. Þá hafði staðið óvenju illa á hjá hjónunum í Seli og Guðmundur varla nógu birgur af heyjum þetta haust, og tók það ráð að fella kúna, til þess að vera öruggur með féð, en kýrin var orðin geld, gömul og kálflaus. Mér finnst Laxness fara ómaklega með þetta litla heimili, sem veitti þó allt það besta sem handbært var.

Það má kannski segja að Nóbelskáldið hafa kennt Íslendingum að steypa sér í skuldir og gera gis að sjálfstæðu fólki. Allavega notar nútíminn sjálfstæði Bjarts í Sumarhúsum oft til háðungar í umræðu manna á meðal. 

Eldhúsið í Sænautaseli

Við Matthildur mín brunuðum semsagt inn á Jökuldalsheiði á sólskinsbjörtum septemberdegi alla leið í Sænautasel. Þegar þangað var komið stóð á upplýsingaskilti að síðasti opnunardagur hefði verið daginn áður. Alltaf erum við jafn fyrirhyggjusöm, sagði Matthildur, förum allra okkar ferða án þess að leita upplýsinga, með engin plön og ef við erum á ferðinni á ókunnum slóðum þá höfum við ekki einu sinni landakort. Þetta skiptir engu máli, sagði ég hughreystandi, við hringgöngum pleisið og fáum okkur svo kaffi þegar við komum heim. Þar að auki hefur aldrei verið til vandræða að rata með sól í heiði. Þegar við komum heim að gamla bænum smeygði sér óðamála köttur út um dyragættina með þessar líka ekki litlu móttökurnar  og bauð okkur í bæinn, þannig að allavega færi ekki svo að við hefðum ekki komið inn í Íslenskt heiðarbýli. Þegar við komum út kom ókunnur maður heim að bæ og spurði hvort bærinn hefði staðið opinn, "kannski ekki beint en þessi höfðingi hér bauð okkur inn" svöruð við Matthildur einum róm og bentum á köttinn.

Þarna var kominn Dagur Jóhannesson frá Haga í Aðaldal, bróðir tveggja öðlinga sem ég kannaðist við, þeirra Völundar þúsundþjalasmiðs og Hrings heitins myndlistamanns. Dagur veitti okkur leiðsögn um bæinn því Sænautasel þekkir hann út og inn sagðist reyna að dvelja þar einhverja daga á hverju sumri. Hann sagðist hafa komið þarna við núna á sinni ferð vegna þess að hann hefði grun um að staðarhaldarinn Lilja í Merki ætti leið um, myndi þá hella upp á kaffi og steikja lummur. Eftir að hafa notið leiðsagnar Dags þar sem kötturinn fylgdi okkur við hvert fótmál fórum við að draga okkur til baka en þegar við vorum við gömlu fjárhúsin bættust tveir kettir við sem höfðu haldið sig í eldhúsinu þar. Þegar að við höfðum hvatt Dag fórum við yfir lækinn með kattastóðið í eftirdragi alveg að bílnum og greinilegt var að það ætlaði að komast með. Það var því ekki um annað að ræða en smala köttunum aftur heim í selið og troða þeim innum gluggann á lummueldhúsinu hennar Lilju og loka þá þar inni.

Þegar við vorum að fara í annað sinn renndu þær Lilja í Merki og Þóra Sólveig frá Borg farm í hlað, þannig að aftur var snúið í selið í kaffi og lummur og fjárhúsin skoðuð auk baðstofunnar í gamla bænum. Það var notalega værðarlegt að sitja með kaffibollan í gömlu torfhúsunum og hlusta á sunnanvindinn þjóta í grasinu á þakinu maulandi lummur. Stundum hefur belja verið höfð til sumardvalar í Sænautaseli og fyrir nokkrum árum var mjólkin úr henni notuð í lummurnar og út í kaffið. Þar til heilbrygðiseftirlit ríkisins komst að þeirri niðurstöðu að mjólkin úr kúnni samræmdist ekki reglugerðum ríkisins um gerilsneydda mjólk geymda við 4°C. Gaman hefði verið að fá útgáfu Nóbelsskáldsins á því sjálfstæða fólki heiðabýlisins sem hefði haldið gerilsneydda kú sem þar að auki fullnægði reglugerðum ríkisins. Kannski það hefði leigt skáldinu bollann og diskinn  en gefið honum kaffið og lummurnar.

Þær voru notalegar stundirnar sem við Matthildur áttum með góðu fólki í Sænautaseli núna í september. Tilfinningin önnur en í andvökuóráð rakans í Vilgevárre tveimur mánuðum áður. Það sem er athyglivert við samanburð á Vilgésvárre og Sænautasel  er m.a. það að bæði býlin eru byggð á svipuðum tíma. Sænautasel 1843 sem eitt af fyrstu heiðarbýlunum næst á eftir Háreksstöðum og var þar búið nær óslitið til 1943. Vilgésvarre er byggt 1868 og er búið þar til 1958, hátt í hundrað ár á báðum stöðum. Þannig virðist sama sjálfsbjargarviðleitni kvikna í hjörtum manna á svipuðum tíma og vera hrint í framkvæmd á tveimur ólíkum stöðum því fátt er líkt með Íslenskum öræfum og skógum Noregs. Saga heiðarbýlanna 16 á Jökuldalsheiði er stórmerkileg þessi byggð lagðist að mestu af í Öskjugosinu 1875 þegar fólkið þar flosnaði upp og margt af því fluttist til Ameríku.

Til að slá einhvern botn í þetta óráðshjal þá vil ég nefna það að það sótti ónota tilfinning að okkur Afríku höfðingjanum Juma í torfbænum í Vilgésvárre. Þessi tilfinning sem ásótti mig var svipuð tilfinningu fyrir 15 árum þegar við félagar í múrarastétt ferðuðumst um verndarsvæði Navaho indíána. Þannig var að að einn af okkur félögum vildi beygja af aðalveginum heim að skúraþyrpingu í eyðimörkinni þar sem fólk hafði búsetu en ég fékk á tilfinninguna að það væri betur látið ógert og lét félaga minn vita af því. Hann beygði samt og þegar við komum að fyrsta kofanum var enginn utandyra nema einn ca 5 ára gutti, skítugur, svarthærður og með snaran glampa í svörtum augunum. Hann hafði beðið okkar sallarólegur með hendur aftan við bak og steina í báðum sem hann lét dynja á gljáfægðum bílaleigubílnum þegar við renndum í hlað. Ég lét félaga minn vita með hasti að þarna ættum við ekki heima og allra síst í skemmtiferð við að skoða niðurlægt fólk. Það var 5 ára guttinn með grjótkastinu sem varð til að stökka okkur köppunum af víkingaættum á flótta í rykmekki á Pontiac Space Wagon. Hefðum kannski heldur látið tilfinninguna ráða sem ég fann um leið og beygjan var tekinn af aðalbrautinni. 

Það má kannski segja að oft má satt kyrrt liggja og því hafi jarðýtan verið mest notaða verkfærið við að viðhalda minningu íslenska torfbæjarins við aðalbraut nútímans. Samt datt okkur Juma og Karstein í hug að nota járnkallinn við endurbyggja minninguna í Vilgesvárre, án nokkurs árangurs. Hvort sem jarðýta eða járnkall eru til þeirra verka nitsamlegust þá er eitt víst að í óráðinu í sumar endurómuðu orð afa míns sterkt í hugskoti mínu; "minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn".  

Magnús Jónsson fyrir framan Selás 26

Í stórmerkilegri og nýútkominni Skriðdælu bls. 210 "Þuríðarstaðir í Dölum 1899; lýsir Hrólfur Kristbjörnsson (1884-1972) bóndi á Hallbjarnarstöðum í Skriðdal því þegar hann réð sig sem ársmann þá 13 ára gamall, að bænum Þuríðarstöðum sem stóð þar sem kallað er í Dölum upp með Eyvindaránni ofan við Egilsstaði, skömmu áður en komið er að Mjóafjarðarheiði. Þessi frásögn hafði áður birtst í Glettingi 8.árg. 1. tbl. 1998.

Sem dæmi um vinnuástundun set ég þetta; Ég var látin passa kvíaærnar um sumarið, og voru þær aldrei hýstar á nóttunni, og varð ég því að vera yfir þeim nætur og daga fyrst eftir fráfærurnar, og fór ég því aldrei úr fötunum fyrstu þrjár vikurnar eftir fráfærur, svaf úti nætur og daga, og aldrei nema smádúr í einu, og engar verjur hafði ég þó rigning væri, nema þykkan ullarslopp, sem varð ærið þungur þegar hann var orðinn gegnblautur. Ætli þetta þætti ekki slæm meðferð á unglingum nú á tímum. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að lýsa, heldur húsakynnin. 

Bærinn á Þuríðarstöðum stóð á brekkubrún dálítið hárri, og vatnið þurfti að sækja nokkuð langt út fyrir tún, í brunn sem stundum þornaði , og þurfti þá að sækja vatnið ofaní Eyvindará. 

Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju.

Það er ekki að undra að mannlýsingar á því fólki sem lifði ævina við slíkar aðstæður til að halda sínu sjálfstæði skuldlausu við Guð og menn hafi verið skorinortar.

Í Lesbók Morgunblaðsins 1.árg 1927 má m.a. finna stutta mannlýsingu á Steindóri Hinrikssyni í Dalhúsum sem stóðu dálítið neðar við Eyvindaránna en Þuríðarstaðir, nær Egilsstöðum. Mannlýsingin er örstutt úr viðtali sem Guðmundur Friðjónsson skáld á Sandi tók í Reykjarvíkurferð Steindórs á gamals aldri.

Þessi maður er lágur í lofti og hvatlegur, orðskár og djarfur í framgöngu, veðurbarinn, kvistur kynlegur.

Og undir lok viðtals;

Nú fyrst lít ég á hendurnar, er hann réttir fram þá hægri til kveðju. Þær eru iðjumerktar og hafa á sér orrustueinkenni, sigg og þá snerpu, sem lífsbaráttan lætur eftir sig til minja. Skeggið er grófgert, og líkt því sem garnsel þeim, sem hefur legið uppi á ís og kafað karpaðan sjó. En augun í karlinum leiftra og úr þeim hrjóta gneistar íslenskrar hörku. Og allir limir þessa öldurmennis leika á als oddi fjörs og fimleika.

Og þó hefur hann engar æfingar stundað, aðrar en þær sem honum hafa í skaut fallið á útigangi þeim sem íslensk náttúra hefir haft á boðstólum.

Þeim sem hafa komist svona langt í að stauta sig í gegnum þetta óráðshjal, læt ég eftir að hugleiða hvernig sú mannlýsing verður orðuð um þá af okkar kynslóð sem barist hafa í skuldafjötrum við sveppinn á milli þess sem þeir brugðu sér í ræktina. 

 

Ps. Hér má sjá myndir frá Sænautaseli og Vilgesvárre. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi Steindór átti heima à Miðhúsum,held èg? En annars góð skrif eins og vanalega.

olafìa Herborg (IP-tala skráð) 5.10.2013 kl. 22:40

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl og takk fyrir Olla ég held líka að það sé rétt hjá þér að Steindór hafi átt heima á Miðhúsum um tíma og jafnvel víðar. En oftast hafi hann verið kenndur við Dalhús.

Það eru til margar kostulegar sögur af Steindóri sem m.a. hafa varðveist í bókunum Austurland, bindi II að mig minnir. Hér fyrir neðan má hlusta á brot úr gömlu útvarpsviðtal þar sem sögur eru sagðar af Steindóri.

http://www.ismus.is/i/audio/id-1016483

Magnús Sigurðsson, 6.10.2013 kl. 06:38

3 identicon

Frábær lesning, takk fyrir. Það er þó ein hvimleið villa, það er talað um að byggð hafi aflagst í Kötlugosinu 1875 en á að sjálfsögðu að vera Öskjugosinu 1875.

Hjördís Hilmarsdóttir (IP-tala skráð) 7.10.2013 kl. 22:38

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir þetta Hjördís þessi villa verður leiðrétt án tafa. Svona getur lesblinda verið hvimleið var búin að marg lesa þetta yfir og lagfæra en sátst algerlega yfir þetta. Takk, takk.

Magnús Sigurðsson, 8.10.2013 kl. 04:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband