Þorri og dagatal

5034eb82ab9de

Í dag er bóndadagur fyrsti dagur Þorra sem er fjórði vetrarmánuðurinn og sá fyrsti af útmánuðum samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Þorri hefst á föstudegi á bilinu 19.–25. janúar og lýkur þorraþræl sem er laugardagurinn áður en góa tekur við á sunnudegi. Um bóndadag hefur m.a. verið sagt að áður fyrr hafi sú hefð verið meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður til að bjóða þorrann velkomin í bæinn eins og um tignann gest væri að ræða. Meir að segja hefur sú saga komist á kreik að bóndinn eigi að fara út fyrir bæ að morgni fyrsta dags þorra, klæða sig í aðra buxnaskálmina og hoppa á öðrum fæti í kringum húsið, um bóndadag má því kannski segja að hann sé öðrum dögum fremur dagur karlmennsku.

Tilgáta er um að þorri dragi nafn sitt af því að þverra; minnka, skerðast. Orðið þekkist einnig í færeysku sem torri og í nýnorsku sem torre. Eldri heimildir gefa til kynna uppruna þorrans. Fornaldarsögur norðurlanda segja frá manni sem hét Fornjótur, hann átti son sem hét Kári. Sonur Kára var Snær konungur, börn Snæs voru Þorri, Fönn, Drífa og Mjöll. Þorri átti svo þrjú börn, tvo syni þeir voru Nór og Gór og dótturina Gói.

Þó svo að flestir hér á landi viti af þorranum er mér það til efa að það sé svo hjá nágrannaþjóðunum. Það kom fyrir að ég átti samræður við norska vinnufélaga mína um gamla tímatalið, þeir könnuðust ekki við það og töldu jafnvel að það væri fleipur að kenna það við norðurlönd. Svo merkilegt sem það nú var þá könnuðust vinnufélagr mínir sem voru innflytjendur í Noregi frekar við svipað tímatal.

Í kringum Valentínusardag kom eitt sinn til umræðu á milli okkar félagana hvort heimalöndin héldu upp á þann dag. Ég sagði frá konudeginum sem væru á mánaðarmótum þorra og góu sem hliðstæðum. Þá kom fram hjá Yasin sem er frá Afganistan að þar voru áramót á sama tíma og Þorri og góa mættust á Íslandi. Á sumardaginn fyrsta datt mér svo í hug að spyrja Yasin að því hvort þá væru mánaðarmót í Afganistan, hann gluggaði í símanum sínum og sagði „ja det gjør“.

Vinnufélagi frá Súdan sagði okkur að í hans landi væri þekkt, auk hins hefðbundna almanaks, gamalt tímatal sem væri svipað og það Afganska enda íbúar beggja landa að mestu múslimar. Sá hefur mörg nöfn, en það nafn sem hann notar er Juma, dregið af fæðingardegi hans sem er föstudagurinn, eða El Juma á arabísku. Í heimahéraði hans í Darfur er það til siðs að eitt af nöfnunum sem hverjum er gefið sé dregið af vikudegi fæðingar því sá dagur hafi merkingu í lífi viðkomandi.

Það er sama hvar í heiminum er þá hafa flest samfélög rambað á það að hafa vikudagana sjö talsins. Kanski er það svo enn merkilegra að þeir eiga sér svipaðan uppruna. Eins er það merkilegt að fáar þjóðir hafa gengið lengra í að afmá goðsögur vikudagana og íslendingar með því að breyta nöfnum þeirra til veraldlegri merkingar, þó enn sé haldið í daga aftan úr grárri fornesku á við bóndadaginn.

Hér á landi var nöfnum vikudagana breytt aðallega fyrir tilverknað Jóns Ögmundssonar biskups. Á 12. öld hlutu flestir vikudagarnir þau nöfn sem notuð eru í dag. Áður voru þeir með svipuðum nöfnum og í nágrannalöndunum eða; Sunnudagur, Mánadagur, Týsdagur, Óðinsdagur, Þórsdagur, Freyjudagur, Lokadagur. Meir að segja var reynt að breyta hér á landi sunnudegi í drottinsdag og mánadegi í annadag.

Á norðurlönunum eru nöfn dagana Søndag, Mandag, Tirsdag, Onsdag, Torsdag, Fredag og Lørdag, enn þann dag í dag kenndir við nöfn hinna fornu goða nema Sunnudagur og Mánudagur sem kenndir eru við himintungl. Í ensku eru dagarnir kenndir við sömu himintungl, sömu goð, í sömu röð, nema lokadagurinn Saturday sem kenndur er við stjörnuna Satúrnus eða rómverska goðið Saturn. Miðvikudagur sem er Wedensday á ensku var áður skrifað Wodensday sem Óðinsdagur.

Uppruni vikudagana um víða veröld er talinn eiga meira sammerkt en að vera sjö talsins og goðsöguleg nöfn, því goðin eru talin hafa haft sína skírskotun til himintunglana. Það segir sig sjálft að sunnudagur er sólardagur og mánudagur er mánadagur. Það er kannski ekki skrýtið að menn hafi komist að sömu niðurstöðu um víða veröld hvað dagana varðar, með sama himinhvolf til að styðjast við, kennt þriðjudaginn við mars, miðvikudaginn við merkúr, fimmtudaginn við jupiter, föstudaginn við venus og laugardaginn við saturnus.

7 days with symbols 2 web

Einkenni dagana gætu hafa verið eitthvað á þennan veg í gegnum tíðina:

Sunnudagur til sigurs, er fyrsti dagur vikunar / Sól, gull = Sunnudagur; uppljómun „hin skínandi“ gyðja uppljómunar, ákvarðanir, leiðandi, afl. Sólin hefur verið tilbeðin um allan heim og goð henni tengd. Ra var t.d. sólguð í fornegypskri goðafræði sem réð yfir himni og jörð. Ra var guð hádegissólarinnar, um tíma höfuðguð trúarbragða egypta.

Mánudagur til mæðu, er annar dagur vikunar og fyrsti vinnudagur / Máni, silfur = Mánadagur; hugur, tilfinningar, hjartnæmi, samhygð. Máninn hefur ekki verið talinn álitlegur til tilbeiðslu í gegnum tíðina. Orðið „Luna“ er máninn á grísku og rót enska orðsins „lunatic“ sem gæti útlagst hugsjúkur, á íslensku tunglsjúkur. „Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn"(Matth 17:15)

Þriðjudagur til þrautar, er eins og nafnið gefur til kynna þriðji dagur vikunar / Mars, járn = Týsdagur; hamingja, velferð, réttlæti, lög, tærleik,hreysti (hin guðlegu alheimslög)lögmál náttúru. Týr er guð hernaðar, en einnig goð himins og þings. Týr er sonur Óðins. Hann var hugprúðastur og djarfastur allra ása. Stríðsmenn ristu galdrastaf hans á skefti sverða sinna. Meira um Tý ...

Miðvikudagur til moldar, hefur það í nafninu að bera upp á miðja viku / Merkúr, kvikasilfur = Óðinsdagur; vitund skilningur rökhugsun. Óðinn er æðstur goða í norrænni goðafræði, guð visku, herkænsku, stríðs, galdra, sigurs og skáldskapar. Óðinn birtist mönnum sem gamall eineygður förumaður í skikkju og með barðabreiðan hatt og gengur þá undir mörgum nöfnum, jafnvel má ætla að eitt þeirra hafi verið Bhúdda. Meira um Óðinn ...

Fimmtudagur til frama, er fimmti dagur vikunar / Júpíter, tin = Þórsdagur; kraftur, þekking, viska. Þór er þrumuguð í norrænni goðafræði. Hann er sterkastur allra ása og er mest dýrkaður að fornu og nýju. Himnarnir skulfu er hann reið yfir himinhvolfið og klettar og fjöll brustu við þrumur og eldingar sem fylgdu honum, hamar hans Mjölnir er tákn þrumu og eldinga. Meira um Þór ...

Föstudagur til fjár, er dagur sem skal nota til föstu samkvæmt kaþólskum sið / Venus, kopar = Freyjudagur; ást, sköpun, laðar að fólk. Freyja er gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Freyja var valdamikil gyðja og mikið dýrkuð af konum en einnig af konungum og hetjum. Hún jók frjósemd lands og sjávar, veitti hjálp í hjónabandi og við fæðingar. Verandi ástargyðja er hún sögð hafa átt marga ástmenn bæði goð og konunga sem hún studdi svo í valdatíð þeirra. Meira um Freyju ...

Laugardagur til lukku, er til hreingerninga og var um tíma nefndur þvottadagur / Saturnus, blý = Lokadagur; efnishyggja, völd, veraldarhygga. Loki er brögðóttastur allra goða, ekki hafa fundist merki þess að Loki hafi nokkurstaðar verið tilbeðinn eða dýrkaður opinberlega sem goð, enda tákn efnishyggjunnar og undirferlisins í heiminum. Hnötturinn Saturnus er stundum kallaður „hringa drottinn“ tákngervingur bragða, valds og græðgi, er nafnið Satan líklega af honum dregið. Meira um Loka ...

Þó svo vikudagarnir íslensku hafi tínt sínum goðsögulega uppruna og aðeins tveir þeirra eigi enn sína stjarnfræðilegu merkingu, þá heldur bóndadagurinn lífi á íslenska dagatalinu þrátt fyrir veraldarhyggju nútímans. Umborinn enn í dag, jafnvel með blómum til að hafa einhverja meiningu, líkt og konudagurinn hafði sem fyrsti dagur góu, sem þó á orðið í verulegri vök að verjast fyrir deginum hans Valentínusar.

Heimildir:

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=58509

http://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/6828/24gudin-dagar-planetur-mannsheili.pdf?sequence=1

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=48074

http://www.factsbehindfaith.com/Satan-astrology.html

http://infinity-codes.net/raah/_archive(infinity-codes)/earth-codes/7-day-week.html

www.wikipedia.org


mbl.is Syngja um íslenskan heimilismat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband