Streiti

Þau eru mörg annesin á Austfjörðunum sem vert er að skoða þó svo stundum umlyki þau dulúðleg þoka. Hérna á síðunni hefur tveimur annesjum verið gerð fátækleg skil í máli og myndum en það eru Hafnarnes við Fáskrúðsfjörð og Kambanes við Stöðvarfjörð. Í vetur lét ég í fyrsta skipti verða af því að stoppa við Streiti en það er strönd annessins kölluð sem skiptir Breiðdalsvík og Berufirði. Þarna hafði ég farið framhjá ótal sinnum í gegnum tíðina án þess að stoppa. Í mars s.l. var farin sérferð til að virða fyrir sér fjallið Naphorn sem gnæfir yfir Streitisbænum en uppi í því höfðust útigangsdrengir við í Móðuharðindunum, og leiddi sú nöturlega vist til manndráps, hungurmorða og að lokum síðustu opinberu aftökunnar á Austurlandi.

IMG_8181

Eyðibýlið Streiti, fjallið Naphorn

Jörðin Streiti telst landfræðilega vera á Berufjarðarströnd en tilheyrir Breiðdalshreppi. Þar, örlítið austar, er ysti skaginn á milli Breiðdalsvíkur og Berufjarðar sem nefnist Streitishvarf. Í sumar fór ég svo aftur á Streiti, en þá til að skoða það sem ég hafði tekið eftir í vetur, að niður við ströndina má greina leifar af mannabyggð. Ég hafði í millitíðinni kynnt mér málið í bókunum Breiðdælu, Búkollu (Sveitir og jarðir í Múlaþingi) og Þjóðsögunum.

þjóðsagan segir frá býlinu Vafrastöðum og það var það bæjarstæði sem ég vonaðist eftir að finna í sumar, því ég gat vel gert mér grein fyrir hvar aðrir bæir á Streiti hefðu staðið. Það er skemmst frá því að segja að eftir að hafa vafrað um ströndina góða morgunnstund komst ég ekki á þann stað sem mér þótti líklegast að Vafrastaðir hefðu staðið, vegna rafmagnsgirðinga og nautgripa.  

IMG_8112

Skrúðskambur sem er austast á Streitishvarfi og Breiðdalseyjar í baksýn

Það var margt að skoða í þessari fjögurra stunda gönguför. Svokallað tröllahlað er sunnan á Streitishvarfi sem nefnist Skrúðskambur. Sunnan við hvarfið tekur svo Berufjarðarströndin við með landnámsjörðinni Streiti, sem nefnt var Stræti í þremur Landnámuhandritum. Í Landnámu segir; „Skjöldólfur hét maður, er nam Stræti allt fyrir utan Gnúp og inn öðrum megin til Óss og til Skjöldólfsness hjá Fagradalsá í Breiðdali. Hans son var Háleygur, er þar bjó síðan; frá honum er Háleygjaætt komin.“ Það er því ekki vitað hvaðan þessi Skjöldólfur kom eða hver þessi Háleygaætt er, en í Breiðdælu má finna vangaveltur um hvort Háleygar nafnið hafi haft tengingu til Hálogalands í Noregi.

Einnig má finna vangaveltur í bók Árna Óla, Landnámið fyrir landnám, þar sem því er velt upp að þeir landnámsmenn austanlands sem ekki er nákvæmlega getið hvaðan komu hafi í reynd verið af keltneskum uppruna, en gefin norræn nöfn í landnámu til að fela upprunann. Þetta má vel ímynda sér þegar staðið er á ströndinni Streiti og við blasir eyja með keltneskri nafngift í suðri, Papey.

IMG_8123

Vitinn á Streitishvarfi

Þó svo að Streiti hafi þótt vænleg búskaparjörð við landnám þá er hún nú í eyði. Vitað er að fram eftir öldum voru mörg býli í Streitislandi, þ.e.a.s. á Berufjarðarströndinni frá Streitishvarfi að Núpi. Þar var austast Hvarf eða Streitishvarf sem fór í eyði 1850. Streitisstekkur var austan og neðan við Streiti, sem fór í eyði 1883 eftir að bærinn brann þann 7. Desember. Þar brunni inni þau hjónin Sigurður Torfason og Sigríður Stefánsdóttir eftir að hafa bjargað út börnum sínum sem heima voru, en áttu ekki afturkvæmt frá því að reyna að bjarga kúnni úr brennandi bænum. Reistur hefur verið minnisvarði um atburð þennan við Þjóðveginn rétt fyrir ofan bæjarstæðið, enn má vel greina hvar bærinn stóð.

IMG_8135

Streitisstekkur, sjá má móta fyrir bæjarrústunum á miðri mynd til vinstri

Vafrastaðir var svo býli sem stóð sunnan við Streiti, á milli Streitis og Núps, sem sumar sagnir segja að hafi staðið svo nálægt fjallinu að þeir hafi horfið undir skriðu. Þeirra er fyrst getið 1367 og síðast eftir heimild frá því 1760. Vafrastaðir hefur verið þjóðsagnakenndur bær löngu eftir að þeirra var síðast getið, sögu þeim tengdum má bæði finna í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar(I bindi bls 288) og Jóns Árnasonar (III bindi bls 435). Einhverstaðar má samt finna þá þjóðsögu heimfærða á Núp en það er ekki líklegt að sögusviðið sé þar, vegna þess að flæðiskerin sem sagan greinir frá eru það langt frá bænum á Núpi að þau eru ekki í sjónlínu.

IMG_8170

Hugsanlega eru skerin sem fjærst eru þar sem Vafrastaðir hafa staðið

Þjóðsagan frá Vafrastöðum segir frá eineygu Mórukollu. Bóndinn hafði þann sið að fá fóstru sína hruma af elli en fjölvísa til að segja sér hvaða fé væri feigt að hausti og slátraði svo því fé sem hún valdi. Þegar kerlingin var því sem næst blind orðin leiddi hann hana að réttarveggnum eitt haustið. Þar stendur hún þegjandi um stund en bendir svo á eineyga mórukollótta kind, rytjulega, og segir allt fé þitt er feigt sonur sæll nema Mórukolla.

Þetta haust tók Vafrastaðabóndinn ekkert mark á fóstru sinni og lógaði því fé sem honum sjálfum sýndist. Veturinn varð snjóþungur og stormasamur með tilheyrandi hagaleysi. Seint á aðfangadag brá til betra veðurs og skipar þá bóndinn smalanum að beita fénu í þara á rifi sem stóð uppi á fjöru. Á meðan sat hann inn í bæ og tálgaði í sig hangikjöt af rifi úr sauðasíðu.

Smalinn kom á gluggann heima á bæ og segir; Þykkt er nú á rifi bóndi“. „Hvað kemur þér það við“ svarar bóndinn og heldur áfram að sneiða af rifjunum. Þá segir smalinn „þynnast fer nú á rifinu bóndi“. Bóndinn svarar ekki en heldur áfram að gæða sér á á hangikjötinu þar til allt er búið. Þá segir smalinn "allt er nú af rifinu". Þá heyrir bóndinn fyrst í briminu og áttar sig á því að smalinn á við féð sem var í fjörubeitinni á rifinu. Þegar hann kom út var allt fé hans komið í sjóinn og aðeins rak eina kind að landi úr briminu, en sú var eineyga rytjulega Mórukolla.

Bóndinn varð svo reiður yfir missi sínum að hann henti henni umsvifalaust í brimgarðinn, en aftur skreið eineyga Mórukolla á land. Eftir að hafa hent henni þrívegis í sjóinn og hana áfalt rekið í land, gafst hann upp. En um vorið var Mórukolla tvílembd af gimbrum og allar þær gimbrar sem út af henni komu urðu tvílembdar þannig að út af eineygu Mórukollu varð fljótleg mikill fjárstofn. Bóndanum á að hafa verið svo mikið um þetta að hann flutti frá Vafrastöðum og hafa þeir verið í eyði alla tíð síðan.

þær eru til margar þjóðsögurnar frá þessu annesi. Ein sagan seigir frá bóndanum í Skrúðskambi sem á að hafa verið bróðir Skrúðsbóndans sem bjó í Skrúði. Þeir bræður voru hálftröll sem mátti heyra kallast á þegar kyrrt var á morgnana. Eins hef ég heyrt að þriðji bróðirinn hafi búið á Hellisbjarginu í Papey og hafi tekið þátt í samræðum bræðra sinna. Sjónlína er á milli þessara staða en mikið hafa þeir bræður verið raddmiklir ef þeir hafa heyrt hvorir í öðrum.

Einnig eru til sögur frá Tyrkjaráninu árið 1627, þar sem segir frá hetjudáðum bóndans á Streiti. Tyrkjaránssaga segir frá því þegar Streitisbóndinn forðaði fólki sínu undan Tyrkjum frá Streiti yfir í Breiðdal, en þá höfðu ræningjarnir þegar hneppt fólkið á Ósi í bönd og sett yfir það gæslumenn sem flýðu til fjalls þegar Streitisfólkið bar að garði.

Þjóðsagnaritaranum Sigfúsi Sigfússyni finnst hins vegar Tyrkjaránssaga segja undarlega frá, því miðað við hvernig landið liggur sé mun líklegra að Tyrkir hafi farið Berufjarðaströndina á leið sinni í Breiðdal og þá farið fyrir Streiti á leið sinni í Ós. Þetta hefur Sigfús að segja um Tyrkjaránssögu "er því einkennilegt er það að ýmsar sagnir hafa geymst eða myndast utan við söguna sem eru einskonar viðbætur við hana og uppfylling. Þær sagnir lýsa varnartilraunum manna er sagan segir frá en sleppir þó þeim atriðum.

Eitt af þeim atriðum sem Tyrkjaránssaga sleppir er munnmælasagan um bóndann á Streiti sem sagður er hafa verið á leið með timbur úr Breiðdal yfir í Streiti þegar hann mætti 18 Tyrkjunum rétt norðan við Skrúðskamb á leið frá Streiti austur að Ósi í Breiðdal. Þar á þröngum stíg grandað hann þeim 18 talsins. Um þann atburð vitna m.a. örnefnin Tyrkjaurð, Timburklettur og Tyrkjahamar.

Munnmælin segja ýmist að Streitisbóndinn hafi náð á slá Tyrkina með planka fram af klettinum ofan í urðina eða slegið þá í rot með ístaði. Í Tyrkjaránssögu sjálfri er sagt frá timburflutningamanni sem var á leið úr Breiðdal upp í Hérað en þegar hann varð Tyrkjann var aftan við sig var hann svo nískur á timbrið að frekar en að forða sjálfum sér timburlaus þá lét hann Tyrkina ná sér.

Hvort sem Streiti hefur upphaflega heitið Stræti eins og Landnáma gefur til kynna og þá verið landkosta jörð í alfaraleið, þá breytir það því ekki að hún hefur verið í eyði í áratugi. Miðað við þann málskilning sem lagður er í nafnið Streiti nú á dögum þá er það dregið af því að streitast eða strita og gæti því verið hið rétta nafn miðað við þjóðsögurnar. Enda var ekki laust við að hendingin úr texta Bubba, Vonir og þrár, fylgdu mér á þessu eyðistrandar rölti.

Þar sem skriðan féll skúrar stóðu

minningar um hendur sem veggina hlóðu.

Myndir af fólki sem lifði hér um stund

með kindur og kött, beljur og hund. 

IMG_8128

Minnisvarði um hjónin sem brunnu inni við að bjarka kúnni á Streitisstekk


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband