Jón hrak

IMG_1259

Það má segja að sagan af Jóni hrak verði undarlegri með hverri jarðarförinni. Ég hafði lengi hugsað mér að kanna sannleiksgildi hennar og fara að leiði þessarar dularfulli þjóðsagna persónu. En hann á að vera grafinn í gamla kirkjugarðinum á Skriðuklaustri og því stutt að fara.

Í dag fórum við hjónin svo á glæsilegt kaffihlaðborð í klausturkaffi í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri þar sem hægt er að éta á sig tertusvima á vöffluverði. Eftir kræsingarnar fórum við á efri hæðina og fengum leiðsögn um vistarverur Gunnars Gunnarssona, rithöfundarins sem sumir segja að hafi ekki verið verður Nóbelsins vegna óljósra tengsla við nasismann. En Gunnar er eini íslendingurinn sem vitað er til að hafi átt fund með Hitler og lengi gekk sú saga að glæsihús hans á Skriðuklaustri hafi verið teiknað af sama arkitekt og teiknaði Arnarhreiðrið fyrir Hitler.

Við vorum ein á ferð með leiðsögumanninum og fljótlega barst talið að uppgreftrinum á klaustrinu sem fór fram á fyrstu árum þessarar aldar. Klaustrið mun hafa verið nokkurskonar sjúkrahús og fólk komið víða að til að leita sér lækninga við hinum ýmsu meinum ef marka má þau bein sem upp komu úr kirkjugarðinum. Fljótlega bryddaði ég upp á áhugamáli mínu um það hvernig best væri að finna leiði Jóns hrak og vísaði leiðsögumaðurinn okkur á leiðið á mynd af uppgreftrinum á klaustrinu.

IMG_1261

 

Þjóðsögur Jóns Árnasonar hafa þetta að segja um Jón hrak:

Maður hét Jón og var kallaður Jón flak. Hann var undarlegur og lítt þokkaður af sveitungum sínum. Þótti hann smáglettinn og ei unnt að hefna sín á honum. Þegar Jón dó gjörðu líkmennirnir það af hrekk við hann að þeir létu gröfina snúa í norður og suður. Jón var grafinn að kórbaki í Múlakirkjugarði. En á hverri nóttu á eftir sótti hann að líkmönnum og kvað vísu þessa:

Köld er mold við kórbak,

kúrir þar undir Jón flak.

Ýtar snúa austur og vestur

allir nema Jón flak,

allir nema Jón flak.“

Var hann þá grafinn upp aftur og lagður í austur og vestur eins og aðrir. – Aðrir segja að vísan hafi heyrzt upp úr gröfinni í kirkjugarðinum.

Mjög hefur farið mörgum sögnum um Jón er séra Skúli Gíslason segir að hafi verið kallaður Jón hrak, því hann hafi verið varmenni mikið og grunur hafi legið á því að hann hafi loksins fargað sér sjálfur, hafi hann því verið grafinn án yfirsöngs að kórbaki og látinn snúa norður og suður. Nóttina eftir dreymdi sóknarprestinn er ekki var viðstaddur greftrun hans að Jón kæmi til sín og kvæði:

Kalt er við kórbak,

hvílir þar Jón hrak;

allir snúa austur og vestur

ýtar nema Jón hrak.

Kalt er við kórbak.

Daginn eftir lét prestur grafa hann upp og snúa honum rétt. Sótti Jón þá ekki framar að honum.

Fyrir vestan er sú sögn um nafna minn að hann hafi átt vonda konu er hafi látið grafa mann sinn svo sem fyrr er getið til þess að gjöra honum enn skömm í gröfinni. Þá er það og enn ein sögn um Jón að lík hans hafi verið látið svo í gröfina af því vonzkuveður hafi gjört er hann var moldu ausinn, en ekki af illvilja þeirra er að stóðu og hafi því líkmennirnir flýtt sér að koma honum einhvern veginn niður.

IMG_1253

Aðeins einn legsteinn er sýnilegur í kirkjugarðinum og hafði leiðsögumaðurinn upplýst okkur um það, að þegar uppgröfturinn á klaustrinu og garðinum fór fram 2002-2012 þá hafi sérstaklega verið athugað hvort Jón væri á sínum stað undir steininum. En á honum stendur daufum stöfum JÓN HRAK. Svo einkennilega hefði viljað til að undir þeim steini fundust engin bein og ekki var hægt að ætla að önnur bein sem upp komu í þessum mikla uppgreftri tilheyrðu Jóni.

Það er því búið að grafa Jón hrak tvisvar upp samkvæmt heimildum og í annað sinn kom í ljós að hann var ekki við kórbak. Leiðsögumaðurinn hafði heyrt eina munnmælasögu sem segði að vetrarhörkur hefði verið og frost í jörðu þegar átt hafi að jarðsetja Jón og því hefðu menn sennilega losað sig við líkið á auðveldari máta. En hvar og í hvaða skipti vissi engin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Magnús

Það var Hákon Bjarnason (1907-1989) fyrrum skógræktarstjóri sem lét gera þennan legstein um svipað leyti og hann lét setja legstein á leiði Bergþórs úr Bláfelli rétt norðan við kirjugarð Haukadalskirkju.  Man ekki hvaða ár þetta var. Líklega um miðja síðustu öld.


Væntanlega hefur þessum legsteinum einfaldlega verið komið fyrir á þægilegum stöðum.

http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1306563/

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/509608/

Ágúst H Bjarnason, 15.5.2017 kl. 08:38

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þennan áhugaverða fróðleik Ágúst.

Hákon hefur allavega valið legsteininum réttan stað, þó svo að Jón finnist ekki undir honum, því hann er við kórbak samkvæmt uppgreftrinum 2002-12. Hann hefur haft eitthvað nef fyrir því hvar kirkjuna var að finna þar sem voru grænar grundir þegar hann kom steininum fyrir. 

Ég sé að mbl greinin gerir ráð fyrir að þetta hafi verið Maríu kirkja vegna maríustyttu sem kom í leitirnar í Englandi eftir að hún hafði upphaflega fundist í fjósveggnum á Skriðu.

Þegar uppgröfturinn fór fram fannst stytta af heilagri Barböru, sem var fyrr á öldum sögð verndardýrlingur gegn jarðhræringum s.s. skriðuföllum ofl, vel við hæfi á Skriðuklaustri, og nú í nánd við mestu neðanjarðarmannvirki landsins.

Magnús Sigurðsson, 15.5.2017 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband