Himnaríki eða helvíti sjálfstæðs fólks

Allt fram á nítjándu öld þótti íslendíngum fjöllin ljót. Ekki var látið við sitja að Búlandstindur væri „furðu ljótur“, heldur þótti Mývatsveitin með fjallahríng sínum og vatni viðurstyggilegt pláss. Varla eru eftir hafandi núna þær samlíkíngar sem þjóðleg bílífa okkar, þjóðsögur Jóns Árnasonar, velja því. Rómantíkin þýska gaf okkur fjöllin og gerði þau okkur kær og kendi Jónas Hallgrímssyni bæði að rannsaka þau sem fræðimaður og unna þeim í ljóði; og eftir hann kom Steingrímur og kvað Ég elska yður þér Íslands fjöll; og hefur sá skáldaskóli auðsýnt þeim tignun fullkomna fram á þennan dag. Á okkar öld hefur það þótt hæfa kaupstaðarfólki, sem var eitthvað að manni, að eignast vángamyndir af eftirlætisfjöllum sínum að hengja upp yfir sóffanum og hafa slíkir eftirlætis gripir verið nefndir sóffastykki að dönskum sið. Fólkið horfði svo lengi á þessi landslög uppá veggjum hjá sér að marga fór að lánga þángað. Svona mynd veitti áhorfana í rauninni sömu lífsreynnslu og horfa út um glugga uppí sveit.

Þennan texta má finna í bókinni "Reginfjöll að haustnóttum" eftir Kjartan Júlíusson frá Skáldastöðum efri, og er í formála bókarinnar, sem Nóbelskáldið skrifaði. Það má segja að eins hafi farið fyrir mér framan af ævi og fyrri alda íslendingum, að hafa ekki þótt mikið til fegurðar fjallana koma frekar en annarra faratálma. 

Á seinni árum hefur komist í tísku að kalla stóran hluta heiða, fjalla og óbyggða Austurlands, víðernin norðan Vatnajökuls. Hluti þessara víðerna er svæði sem oft er kallað Jökuldalsheiðin og er jafnvel talið að Nóbelskáldið hafi sótt þangað efniviðinn í sína þekktustu bók Sjálfstætt fólk. Þar hafi Bjartur í Sumarhúsum háð sína sjálfstæðisbaráttu.

Það má segja að það hafi ekki verið fyrr en í fyrrasumar að ég fór að gefa Jökuldalsheiðinni gaum þó svo að hún hafi allt mitt líf verið í næsta nágrenni og ég hafi farið hana þvera oftar en tölu verður á komið, þó svo að ég hafi ekki fyrr en fyrir nokkrum árum áttað mig á helgi hennar. En eftir að hún fangaði athygli mína má segja að hún hafi haft hana óskipta eins og Hjaltastaðaþingháin hefur fengið að finna fyrir síðustu árin.

IMG_3865

Sænautasel stendur við suðurenda Sænautavatns

Í síðustu viku keyrði ég, ásamt Matthildi minni og Helga frænda mínum sem var í Íslandsheimsókn frá Ástralíu, heiðina þvera og endilanga. Sú leið lá frá Kárahnjúkum út á miðheiðina við Sænautavatn fyrsta daginn, þar sem drukkið var kaffi og kakó ásamt lummum í rafmagnslausu torfbænum í Sænautaseli.

Næsta dag var farið í Vopnafjörð og upp á heiðina í Möðrudal og gamla þjóðveginn þaðan yfir hana þvera austur með viðkomu á Grjótgarðahálsi í Skessugarðinum. Um þetta stórmerkilega náttúrufyrirbrigði má fræðast á Vísindavefnum. Einnig er þjóðsaga í safni Sigfúsar Sigfússonar, sem ekki er síður sennileg, sem greinir frá því að þarna sé um fornan landamerkjagarð að ræða sem tvær skessusystur gerðu í illindum sín á milli.

IMG_4022

Á Grjótgarðahálsi, norðan við Skessugarðinn

Núna á sunnudaginn hófum við svo þriðja heiðar daginn í morgunnkaffi og lummum í Sænautaseli. Þennan dag þræddum við slóðana meðfram vötnunum suður heiðina í sólskini og 24°C hita. Fórum svo vestur yfir í Möðrudal fyrir sunnan Þríhyrningafjallgarðinn og þaðan út á gamla þjóðveg eitt norður í Möðrudal, ævintýralega hrjóstruga leið.

Í þessum sunnudagsbíltúr heimsóttum við þau heiðarbýli sem við vegslóðana voru. En alls urðu heiðarbýlin 16 sem byggðust af sjálfstæðu fólki um og miðja 19. öldina. Um þessa heiðarbyggð í meira en 500 m hæð má lesa í I bindi Austurland safn austfirskra fræða. Þar segir Halldór Stefánsson þetta um tilurð þessarar heiðarbyggðar. Bygging þessarar hálendu heiðarbyggðar, hinnar langhæstu á landinu, líkist þannig - nær að kalla- ævintýri. Á þessum sunnudegi náðum við að heimsækja 5 býlanna.

Halldór Laxness gerði kröpp kjör þessara heiðarbúa heimsfræg í bókinni Sjálfstætt fólk. Það er erfitt að ímynda sér annað á góðviðrisdögum sumarsins en að heiðarlífið hafi verið himnaríki á jörð. Allt við höndina, mokveiði silungs í bláum vötnunum, gæsavarp í mýrunum, hreindýr, túnræktun óþörf því laufengi og mýrar eru grasmikil og búsmalinn á beit heima við bæ. Þó svo veturinn væri harður þá komið sumarið yfirleitt eins og hendi væri veifað.

IMG_4014

Í Skessugarðinum

En það gat líka verið hart að búa á heiðinni af fleiri orsökum en Nóbelsskáldið tilgreindi. Í byrjun árs 1875 hófst eldgos í Dyngjufjöllum. Á páskadag hófust gríðarlegar sprengingar í Öskju, sem sendu vikurmökk út yfir Mið-Austurland. Vilborg Kjerúlf, sem þá var átta ára gömul stúlka á Kleif í Fljótsdal, lýsir morgni þessa páskadags svo í Tímanum 1961.

Mamma vaknaði um morguninn áður en fólk fór að klæða sig, og sá eldglæringarnar, sem komu hvað eftir annað. Það var hlýtt og gott veður og féð látið vera úti um morgunninn, en það tolldi ekki við og rásaði fram og aftur. Það fann á sér gosið. Klukkan 10 kom það. Það voru nú meiri ósköpin þegar það dundi yfir. Myrkrið varð alveg biksvart, og maður sá ekki handa sinna skil. Það var alveg voðalegt þegar þrumurnar riðu yfir og hávaðin óskaplegur. Það glumdi svo mikið í hamrabeltinu fyrir ofan bæinn. Svo lýstu eldingarnar upp bæinn þegar dynkirnir riðu yfir. Það var eins og snjóbyljir kæmu yfir þegar askan dundi á húsinu. Já það voru nú meiri ósköpin.

Kleif í Fljótsdal er í rúmlega 70 km fjarlægð frá Öskju. Um það hvernig umhorfs var eftir að sprengingunum lauk, segir Vilborg þetta; askan lá yfir öllu, og ég man að ég sópaði henni saman með höndunum og lék mér að henni, og hún var glóðvolg í höndunum á mér. Mér fannst þetta vera hnoss og hafði gaman að leika mér að henni. Hún var svona í ökkla í dældunum. Það var svo einkennilegt, að þykkasti mökkurinn fór aðallega út Jökuldalinn, og lenti meira þar en hjá okkur.

IMG_3968

Tóftir Heiðarsels við suðurenda Ánavatns

Öskulagið var víða 20 cm á Jökuldalnum og heiðinni, enda lagðist byggð því sem næst af um tíma í heiðinni, og bar ekki sitt barr eftir Öskjugosið. Mikið af heiðafólkinu flutti til Ameríku og síðasti bærinn Heiðarsel fór í eyði 1946. Það var undir lok  byggðarinnar sem Halldór Laxness fór um heiðina.

Í tímaritinu Glettingi 11. árg. 1.tbl. segir Hallveig Guðjónsdóttir Dratthalastöðum á úthéraði m.a. frá kynnum af sínum nágrönnunum í Sænautaseli en hún er fædd í Heiðarseli; Sögufrægt er, þegar Halldór Laxness gisti eina skammdegisnótt í heiðarbýlinu Sænautaseli. Þá hafði staðið óvenju illa á hjá hjónunum í Seli og Guðmundur varla nógu birgur af heyjum þetta haust, og tók það ráð að fella kúna, til þess að vera öruggur með féð, en kýrin var orðin geld, gömul og kálflaus. Mér finnst Laxness fara ómaklega með þetta litla heimili, sem veitti þó allt það besta sem handbært var.

En nú er svo komið fyrir mér eins Höllu hans Eyvindar, að mig dregur þrá. En þau Eyvindur og Halla dvöldu lengi vel á öræfunum suður af heiðinni og austur af Öskju, og um þessa þrá hafði Nóbelsskáldið þetta að segja í formála bókarinnar Reginfjöll að haustnóttum

Reynslan er sambærileg við það sem þeim manni verður, sem svo leingi hefur skoðað mynd af Parísarborg að hann stenst ekki leingur mátið og fer þángað. Þegar hann kemur heim til sín aftur veit hann ekki fyr til en Parísarborg er orðin miðpúnktur í lífi hans. Hugur hans heldur áfram að snúast í tilhlökkun til endurfunda við þessa borg með undrum sínum og uppákomum, stórum og smáum furðum, og smáhlutum síst lítifjörlegri en þeir stóru; ekkert í heiminum jafnast á við að hafa fundið þessa borg. Hversu marga landa höfum við ekki þekt sem hafa nákvæmlega af þessari reynslu að segja um París, og margir skrifað um það í bókum hvernig þeir lifðu í stöðugri heimþrá þángað, jafnvel eftir að þeir eru komnir að fótum fram. Sá sem skilur þetta skilur sæludali þjóðsögunnar; og hann skilur líka útilegukonuna Höllu sem sat farlama á leiði í kirkjugarðinum á Stað í Grunnavík, og tautaði: "fagurt er á fjöllum núna".

IMG_3974

Lautarferð á laufengi í heiðanna ró

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband