Algjör steypa

IMG_5841

"Það er merkilegt hvað þessi kalla andskoti getur flutt sömu gröfuskófluna fram til baka, hann er búin að vera að flytja hana frá því ég man eftir mér", sagði vinnufélagi minn einn góðviðris morguninn núna í vikunni. Sá með skófluna hafði heyrt og kom kjagandi til okkar og sagði; "það er alveg sama hvað maður á góða gröfu hún gerir ekkert nema hafa skóflu".

Það er orðið svolítið síðan ég hef sett steypu hérna inn á síðuna, en það er ekki vegna þess að það sé ekki verið steypa. Ég var farin að halda fyrir nokkrum árum að ungir menn á Íslandi ættu ekki eftir að steypa og sú virðulega athöfn færi algerlega í hendurnar á pólverjum og öðrum aðfluttum víkingum eftir að við gömlu steypukallarnir brennum út.

Gamli Breiðdælingurinn sem bjástraði við gröfuskófluna sagði eftir að hann hafði útskýrt þetta með gröfuna og skófluna -"Þurfið þið ekkert að vinna strákar mínir og ert þú ennþá að þvælast í kringum steypu, geturðu kannski eitthvað sagt þessum fuglum til?" -"Nei þeir gera þetta bara einhvernvegin, sama hvað ég segi", svaraði ég. -"Og verður þá engin óður lengur, eins og í almennilegri steypu? -"Nei það er orðin afturför í öllu".

Líkt og maðurinn með skófluna þá man ég ekki eftir öðru en steypa hafi verið mitt líf og yndi. Þó svo mikið hafi verið haft fyrir því að koma vitinu fyrir mig á unglingsárunum til að forða mér úr steypunni þá hefur hún verið mín kjölfesta í meira en fjörutíu ár. Mér var sagt að ég hefði ekki skrokk í erfisvinnu, meir að segja látið að því liggja að ég kastaði gáfum á glæ. Eftir að hafa látið tala mig inn á bóknámsbraut síðustu árgangana í gagnfræðaskóla varð það blessað brennivínið sem bjargaði mér frá bóknáminu.

Núna öllum þessum árum og áföllum seinna varð mér á að hugsa hefði ég betur hlustað þarna um árið? Og svarið er; nei því ef ég þyrfti að snúa til baka þá myndi ég engu breyta heldur bara njóta hvers dags aðeins betur og æsa mig örlítið minna. Því eftir muna standa verkin sýnileg, þó svo vissulega hefði getað verið varið í að eiga snyrtilegt bókhald upp í hillu eða hafa framkvæmt faglegt eftirlit með öðrum, þá jafnast ekkert á við varanleg minnismerki.

Það er gott að eiga félaga sem leyfa manni að steypa af og til sér til samlætis, þeir þurfa allavega ekki í ræktina ungu mennirnir til að halda sér formi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband