Vertu góður við geimveruna

Lifirðu því eftirsóknarverða jarðlífi sem þú komst til að lifa? Ertu góður við geimveruna í sjálfum þér? þetta eru ekki einfaldar spurningar. En ekkert svar er mikilvægara en það sem þú gefur sjálfum þér, það hefur að gera með kjarna þíns sanna sjálfs, sálina. Og þegar spurningunum er svarað er rétt að hafa í huga að við lifum lífinu af eigin tilfinningu, ekki með annarra rökum. Eins klæðumst við efni, en erum ekki úr efni.

Vertu því góður við geimveruna og hlustaða á raddirnar í höfðinu svo framarlega sem þær eru þínar. Manneskjan hefur hvorteð er alltaf verið barn stjarnanna. Siðmenningin kortlagði meir að segja stjörnuhimininn lögnu áður en hún kortlagði jörðina undir fótum okkar, nú á tímum felum við samt stjörnuhimininn með raflýsingu sem lýsir rétt svo niður á tærnar en gerir okkur blind á umhverfið sjálft, allt undir formerkjum vísindalegra framfara og rökhyggju. Við viðurkennum varla sálina lengur, vegna þess að hún er hvorki raflýst né vísindalega áþreifanleg líkt og efnislegur líkaminn. En vitundin um okkur sjálf kemur frá sálinni og við vitum að hún býr ekki í líkamanum, því innst inni greinum við að líkaminn býr í vitund sálarinnar og er farartæki hennar í þessu jarðlífi.

Forfeður okkar voru meðvitaðir um að þeir bjuggu í alheimi þar sem líkaminn var til fyrir óáþreifanlega innri vídd. Þar sem línan var var ekki eins skýr á milli sálar og utanaðkomandi veruleika, vegna þess að báðir veruleikarnir þarfnast hvors annars. Sálin var þá stærri hluti hins mikla veruleika og er það reyndar enn. Nú á tímum erum við samt rænd undra ævintýrum ímyndunaraflsins, sakleysisins sem við upplifðum í gegnum visku hjartans með óskeikulu innsæi barnsins. Allt er þetta meira og minna afvegaleitt af efnishyggju og dýrkun á upplýsingar sem okkur eru innrættar frá blautu barnsbeini.

Gervi þörf eftir efnislegri velmegun hefur slitið á tengsl við náttúruna, jafnframt skynjunina á óupplýstan veruleikan sem er umhverfis. Við getum varla sameinast náttúrunni frekar en andlegum verum ævintýraheimsins. Höfum jafnvel snúið bakinu við guðlegum tengingum lífsins, séðum og óséðum , og með því höfum við jafnframt misst samband við okkar sanna sjálf. Við erum aðeins skugginn af sjálfum okkur og upplifum aðeins lítinn hluta þess veruleika sem okkar stendur til boða.

Heimurinn sem við höfum búið okkur líkist æ meir dvalastað djöfulsins. Milljónum saklausra lífa er slátrað á hverjum degi til þess eins að nýta líkama þeirra á veisluborð allsnægtanna og er nú svo komið að aðeins bestu bitarnir rata á diskinn, hitt fer í ruslatunnuna. Villt dýr eru jafnframt drepin einungis sportsins vegna, til dægrastyttingar. Þar kaupa þeir efna meiri leyfi af stofnunum ríkisins til að drepa hreindýr og hika jafnvel ekki við að hirða aðeins lundir og læri. Ef mikilmennum markaðarins, þar sem tíminn er peningar, er síðan bent á að hafa með sér sóðaskapinn heim er svarið „hélstu að ég væri komin út á land til að bera súpukjöt á milli fjarða“.

Sportveiðimenn sem minna hafa á milli handanna stunda magnveiðar á gæsabringum til að selja í fínu veitingahúsin jafnvel með von um að þannig megi fjármagna hreindýraveiðileyfi, eða ferð til Afríku þar sem hægt er að fá að drepa flóðhest í útrýmingarhættu með sjálfum sér á selfí fyrir rétt verð. Dýr eru pínd og kvalin til dauðs í nafni svokallaðra vísinda, í besta falli fyrir græðandi fegrunar krem fyrir aflóga mannfólkið. Allt er þetta gert af fólki sem býr yfir manngæsku og markaðsmenntun. Til að bæta gráu ofan á svart hefur í gegnum tíðina milljónir saklauss fólks verið handtekið, ofsótt og myrt til að ásælast náttúruauðlindir jarðar í nafni tækni og framfara.

Fréttir eru farnar að berast af börnum allt niður í fimm ára aldur, sem eru gefin hugarfarsbreytandi þunglyndislyf eftir vísindalegar greiningar. Foreldrarnir jafnvel orðnir það vel skólaðir að þau seigja frá þeirri „blessun að barnið mitt fékk greiningu því nú veit ég loksins hvað gekk að því“. Þó það sé búið að lyfjavæða sjúkdómsgreiningar vísindanna í bak og fyrir, þá breytir það ekki því að nú er jafnvel rítalín kynslóðin farin að hverfa úr þessum heimi vegna hjartastopps á besta aldri. Þrátt fyrir allar framfarir vísindanna þá er mannskepnan fyrir löngu orðin óheilbrigðasta dýrategund jarðar.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur verið sótt óumbeðið til saka af lögfróðu fólki vegna ótímabærra dauðsfalla á sjúkrahúsum, því einhver verður að bera ábyrgð þó ekki væri nema hagvaxtarins vegna. Og hvað þegar þeir lögfróðu fá sínu framgengt, breytist þá ekki hlutverk sjúkrahúsa til samræmis við það að flestir enda ævina þar? Er þetta gert í nafni manngæsku og réttlætis, efastu kannski ennþá um að jarðlífið sé umsetið djöfullegum öflum?

Hinn djúpa viska veit að hvert og eitt okkar er komið til að öðlast sérstaka reynslu í þessum heimi. Þessu fær ekkert breytt, þó svo að allt sé gert til að innræta okkur öllum sama markaðs veruleikann frá vöggu til grafar. Ástæða þess að galdur geimverunnar er ekki upplýstur á okkar tímum er sú að hann brýtur í bága við áþreifanleika markaðsafla sem bera fyrir sig nútíma vísindum á sama hátt og trúarbrögðum fyrri alda. En galdur andans mun vera til staðar löngu eftir að markaðurinn og nútíma vísindi hafa tortímt sjálfum sér. Annað getur aldrei orðið, því að galdur andans er tjáning hinna eilífu umbreytinga. Trúin og skáldskapurinn verður alltaf mikilvægari en staðreyndir vísindanna.

Sem manneskjur skynjum við heiminn með hjartanu á mismunandi hátt vegna okkar mismunandi tilgangs. Til dæmis þá eru álfar og geimverur gerðar úr tungumáli en ekki vísindalegu sannreynanlegu efni, rétt eins og mankynssagan. Við trúum mankynssögunni í röðum af lögnu dauðum blöðum, þó svo að hún sé gerð úr sama tungumáli og álfasögur. Við ferðumst um rúm og tíma með hugsun og máli en ef ferðalagið er ekki samkvæmt innrættu normi neyslunnar er stutt í greiningar og pillur. Okkur er tamið að trúa ekki að geimverur séu til, hvað þá álfar, okkur er jafnframt innrætt að treysta ekki á eigin dómgreind varðandi púkana í okkar eigin lífi. Ef þú hugsar og skilgreinir aðstæður það rökfræðilega að þú hættir að trúa innsæi þínu, þá er greindin farin að vinna gegn þér, því getur verið varasamt að hugsa og skilgreina of mikið þannig hættirðu að nota innsæið við að skilja sjálfan þig.

Erfiðustu flækjur hverrar manneskju snúast um skynsemi rökhugsunarinnar, á meðan viska hjartans segir einfaldlega svona er þetta. Hugsuðurinn veit hvernig allt á að vera þó svo að ekkert hjá honum gangi þegar hann ætlar að framkvæma. Gerandinn framkvæmir og fær allt til að ganga upp með síendurtekinni æfingu þó svo að hann hafi ekki hugsað út í hvers vegna. Rökstudd innræting lífsins færir okkur svo oftast þetta tvennt umsnúið í einum pakka, á þann hátt að ekkert virðist virka og við höfum ekki hugmynd um hvers vegna. Hættu að hlusta á þá sem reyna að segja þér að þú gangir með ranghugmyndir og þeir viti betur hvað þér er fyrir bestu, það er ekki svo, ranghugmyndir eru ekki til ef þær koma frá hjartanu og mundu að rökhugsunin verður aðeins þarfur þjónn ef hún þjónar hjartanu.

Þó þér finnist það vera geggjun að fara á móti hámenntaðri rökfræði nútímans þá má hafa í huga að það er engin mælikvarði á heilbrygði neins að vera viðurkenndur í sjúkum heimi. Jafnvel þó röddin í höfðinu hvísli með akademíuni "það á ekki að vera nein rödd í höfðinu" þá kemur engin til með bjarga þér frá þínu eigin lífi. Flestir vakana upp frá innrættum álögum lífsins skömmu áður en ævinni lýkur, hafðu það í huga, og að síðasta dansinn í þessu jarðlífi stígur þú einn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband