Oft má satt kyrrt liggja, en stundum þarf að tala íslensku

Það er sagt að sá sem tekur til sín annarra peninga ófrjálsri hendi sé þjófur. En annað gegnir um þann sem auðgast á annarra kostnað með reikningskúnstum. Allt snýst þetta um að fara eftir bókhaldsreglunum enda eru peningar ekkert annað en digital talnaverk í bókhaldsformi. Svo er stundum sagt að sá sem kaupir það sem honum vantar ekki ræni sjálfan sig. En hvað á sá að gera sem á meira af peningum en hann þarf? -gefa eftir til þeirra sem þurfa? - ræna sjálfan sig með því að kaupa það sem hann ekki vantar? - eða kannski safna meira talnaverki í bókhaldið? Sumir hafa jafnvel verið staðnir að því að koma sínu bókhaldi í skattaparadís.

Það væri svo sem ekki vanþörf á að skrifa pistil um veruleikafirringu efstu laga samfélagsins en ég nenni því ekki, þrátt fyrir að ofurlaun forstjóra, bónus greiðslna til bankamanna byggða á annarra neyð, sjálftöku stjórnmálamanna í skjóli laga sem þeir setja sjálfir. Á öllum sviðum virðast þetta fólk ekki skilja, að það geti ekki tryggt sjálfum sér margra tuga prósenta launahækkun sem eykur muninn í samfélaginu milli þeirra sem nóg hafa og hinna minna hafa þegar prósentunum hefur verið umbreitt í peninga (því fólk lifir ekki á prósentunum einum saman). Jafnhliða sagt þeim sem að grundvellinum standa, að ef þeir fari fram á sömu prósentutölu í launahækkun (takið eftir ekki einu sinni sömu krónutölu) að þá fari allt á hvolf.

Í staðinn fyrir að eyða orku og orðum á þá brjóstumkennanlegu vesalinga, sem sópa til sín margfalt meiru en þeir þurfa, ætla ég að segja sögu af æskufélaga. Þessi æskufélagi minn er um margt merkilegur maður. Það er ekki nóg með að hann hafi hætt í skóla við fyrsta tækifæri, einnig heldur hann því blákalt fram að að hann hafi losnað við að verða fjárglæframaður vegna þess að hann var færður upp um bekk eftir að hafa með einhverju móti komist undan því að hefja nám á tilsettu ári skólaskyldu í barnaskóla. En þeir sem voru í bekknum sem hann var færður úr lærðu mengi og í þeim árgangi segir hann að megi finna flesta helstu ógæfumenn landsins. Þessi félagi minn hefur, þrátt fyrir menntunarleysi og alþýðleg störf, orðið sér út um flest það sem hugur fjárplógsmanna í upphafi girnist, s.s. einbýlishús, einkaflugvél og góða bíla.

Þessi félagi hefur alltaf verið hreinskiptinn jafnt í orði sem á borði og eftirsóttur þrátt fyrir að stundum megi ætla að sviðið gæti undan hreinskilninni. Um daginn hringdi hann í mig og bað mig að koma hið snarasta þangað sem hann var að vinna og sagði að þar þyrfti að bjarga málum föflulaust. Það þurfti að gera ramp upp í útidyr fyrir þá sem notast við göngugrind á hjólum, ekki væri boðlegt að láta þá naga þröskuldinn hjá opinberu þjónustufyrirtæki. Það hafði vafist fyrir þeim sem áttu að taka ákvörðunina hvernig rampurinn skildi úr garði gerður vegna öryggisreglna, en nú þurfti skjót handtök því herlegheitin ætti að taka í notkun daginn eftir. Engin hafði verið tilbúinn til að taka ákvörðun um að gera ramp sem ekki hlyti stífustu öryggisreglum, en aðgengi samkvæmt reglugerðinni var ekki viðkomið nema skipta bæði um dyr og umhverfi hússins, sem krafðist meiri tíma og undirbúnings en í boði var.

Hann hafði á orði þegar ég kom, að það væri alltaf um sömu helvítis ákvörðunarfælnina að ræða ef ekki væri allt á sama sentímetranum eftir bókinni, þó svo að ákvörðunin sem þyrfti að taka blasti við öllum. Það hefði aldrei vafist fyrir honum að taka ákvörðun, þó svo að hann fengi ekkert borgað fyrir það, og auðvitað útbjó ég rampinn því það var augljóst að fólk sem á erfitt um gang þarf að komast á pósthús þó svo að hátt sé upp í dyr með sjálfvirkum  opnunarbúnaði, sem er ætlaður fleirum en handlama viðskiptavinum og losar þannig starfsfólk undan því að hlaupa til dyra og opna fyrir þeim sem eru með fullt fangið af bögglum.

Þegar breytingarnar á þessu húsnæði hófust þurfti að fjarlæga gólfefni, sem var einstaklega fast og seinlegt að fjarlæga. Helstu annmarkar við að fjarlæga efnið var mikill hávaði sem myndi vara dögum saman. Mönnum datt fljótlega í hug að fljótlegast væri að nota beltagröfu með sérútbúinni stálsköfu á skóflunni til að skrapa það upp. Morguninn sem aðgerðin hófst var ég staddur á bensínstöð í nágeninu þegar upphófust skerandi óhljóð. Seinna um daginn hitti ég mann sem hafði verið sofandi í nærliggjandi íbúðarhverfi sem sagðist hafa hrokkið upp og haldið að hann væri staddur í Jurassic Park.

Eftir að hafa dælt bensíni á bílinn gerði ég mér ferð til að kanna hversu vel gengi að ná gólfefninu af, ekki hafði ég mig inn í hávaðann, heldur stóð út á stétt og horfði inn um gluggann. Þá kom til mín forstöðumaður Vinnueftirlitsins en það er einmitt með starfstöð á hæðinni fyrir ofan. Hann spurði mig ábúðarfullur á milli risaeðlu öskranna hvað langan tíma þetta tæki. Mér varð fátt um svör en muldraði eitthvað í einu öskrinu sem hann heyrði ekki. Í því koma til okkar félagi minn ásamt einum eigenda fyrirtækisins sem við vinnum hjá, og ég notaði tækifærið til að laumast í burtu.

Stuttu seinna hitt ég þann sem var með félaga mínu og spurði hvernig þetta hefði farið. Hann sagði að forstöðumaður eftirlitsins hefði fljótlega snautað í burtu. Félagi minn hefði sagt honum það að ef þau gætu ekki unnið vegna hávaða á hæðinni fyrir ofan skildu þau bara koma sér heim, það væri hvorteð er engin að bíða eftir því sem þau væru að gera.


mbl.is Katrín svarar athugasemdum ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband