Hús byggð úr eldfjallaösku

Byggingarefni

Að leita ekki langt yfir skammt, hollur er heimafenginn baggi og vera sjálfum sér nógur, eru forn máltæki. Með alþjóðahyggjunni þykir svona forneskja í besta falli að vera heimóttaleg fáviska ef ekki hrein heimska. Svo langt hefur alþjóðavæðingin náð með sýnar aðfluttu lausnir að það er orðið of flókið, og mörgu fólki um megn að koma þaki yfir höfuðið, þó svo að það standi í byggingarefninu. Efni sem um tíma var flutt úr landi til húsbygginga í öðrum löndum. Nú á tímum byggja ótrúlega margir alþjóðahyggnir bisnissmenn afkomu sína á því að leitað sé langt yfir skammt, þó svo að þeir hafi ekki snefil af því að byggja hús, þá eru þeir séðir. En ekki hefði dugað það eitt að kallast séður til að koma í veg fyrir að fólk kæmi sér upp þaki yfir höfuðið án aðstoðar séníanna, ef ekki kæmi til regluverkið.

Við vinnufélagarnir ræddum húsnæðisvanda ungs fólks á kaffistofunni núna í vikunni enda fór mikið fyrir þeim vanda á Húsnæðisþingi íbúðalánasjóðs í byrjun viku. Eins varð myglan til umræðu sem er flutt, keypt og borinn inn í nýbyggingarnar með ærnu tilkostnaði að forskrift verkfræðinnar og undir ströngu regluverki þess opinbera. Af hverju geta menn ekki gert þetta eins og áður, spurði ég; hlaðið og múrhúðað veggi, þá var ekki mygla vandamálið. Nei þetta er ekki hægt lengur sagði einn félaginn. Láttu þér ekki detta svona vitleysa í hug, sagði annar. Hvers vegna ætti þetta ekki að vera hægt, sagði ég sármóðgaður múrarinn. Þá svaraði sá sem allt veit manna best; skilurðu það ekki maður það eru allir komnir í háskóla og fæst engin til að vinna svona vinnu lengur.

Það var þannig í gegnum tíðina, áður en menn urðu séðir, hámenntaðir og reglusamir, að fólk reisti sín hús úr því byggingarefni sem var nærtækast. Á Íslandi voru hús byggð úr torfi og grjóti í þúsund ár. Timbur var vandfengið byggingarefni í skóglausu landi og því einungis notað þar sem þurfti í burðarvirki húsa. Er leið á aldirnar fluttu erlendir kaupahéðnar inn tilsniðin timburhús, oft frá Noregi. Þegar sementið kom til sögunnar var farið að steypa hús og var til nóg af innlendu byggingarefni í steypuna, þannig að almúgamaðurinn kom sér upp húsi með eigin höndum án þess að notast við torf. Nú á 21. öldinni er svo komið að stærsti kostnaðurinn við húsbyggingu er óhóflegt regluverk, auk lóðar, teikninga, og allslags byggingagjalda, þessir þættir koma í veg fyrir að fólk geti byggt yfir sig sjálft. 

cement-solid-block-250x250Eitt byggingarefni var mikið notað við húsagerð þar til fyrir nokkrum áratugum síðan að það hvarf því sem næst af sjónarsviðinu og í staðin komu annaðhvort eftirlíkingar, en þó að mestu mygluvaldurinn mikli, innflutt pappa gibbs. Þar sem áður var múrhúð á einangrunarplasti og steyptir steinar úr eldfjallavikri og sementi,aðallega notaðir í milliveggi. Lítið var um að þessir steinar væru notaðir við að byggja heilu húsin, útveggirnir voru oftast úr steinsteypu. Vikursteinar voru ekki vel séðir í út- og burðarveggi, þóttu ekki öruggir með tilliti til jarðskjálfta. En eru meira notaðir erlendis þar sem hefð er fyrir því að hlaða hús.Útveggjasteinninn kallaðist holsteinn og var 40X20X20 sm á Íslandi. Í Noregi eru útveggjasteinarnir stærri, 50X250X20 cm er algengt. 

Þó svo þessi byggingarmáti hafi aldrei náð verulegri útbreiðslu á Íslandi vegna hættu á jarðhræringum þá vill svo einkennilega til að hlutfallslega hefur mest hefur verið hlaðið af svona húsum í Mývatnssveit, einu af meiri jarðskjálfta svæðum landsins, og það án vandkvæða. Fyrsta húsið sem ég man eftir mér í var úr vikursteini frá Mývatni. Foreldrar mínir hlóðu það hús á Egilsstöðum árið 1963. Reyndar aðeins um 40 m2 og varð það síðar að bílskúr við mun stærra steinsteypt hús. Þannig byrjuðu þau á að snara upp ódýru þaki yfir höfuðið á fjölskyldunni. 

Thuborg hleðsla

Sjálfur varð ég svo frá mér numinn af byggingaraðferð foreldra minna að hún er það fyrsta sem ég man, enda ekki nema þriggja ára þegar þau hlóðu skúrinn. Árið eftir var hann múrhúðaður að utan og gekk ég þá á eftir múraranum fram í myrkur til að nema kúnstina. Það þarf því ekki að koma á óvart að þegar ég ungur maðurinn byggði okkur Matthildi hús á Djúpavogi, rúmum 20 árum seinna, að það væri úr Mývatnsvikri. Ekki hef ég tölu á því, frekar en steinunum í húsið, hvað oft ég var spurður; "og hvað ætlarðu svo að gera þegar kemur jarðskjálfti?"

Flatarsel

Sami Mývatnssteina leikurinn var svo endurtekin á Egilsstöðum 20 árum eftir ævintýrið á Djúpavogi,  þegar við vinnufélagarnir byggðum þrjú tveggja hæða Mývatnssteinahús. Þessi aðferð var fljótleg, þannig að húsin ruku upp stein fyrir stein, en vakti þegar þá var komið aðallega athygli fyrir að koma aftan úr grárri forneskju, og svo auðvitað gamalla húsbyggenda sem komu til að rifja upp sín bestu ár.

IMG_1303

Í Noregi var íslenski vikurinn lengi í hávegum hafður sem byggingarefni og höfðu þar verið starfræktar heilu verksmiðjurnar sem steyptu steina úr eldfjallavikri. Á árunum eftir hrun varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að komast í að hlaða fleiri hundruð fermetra af vikurveggjum og pússa ásamt fjölþjóðlegum flokk múrara sem áttu það allir sameiginlegt að vera aðfluttir flóttamenn, rétt eins og eldfjallavikurinn sem þá var orðin alþjóðlega stöðluð eftirlíking í Noregi. Það má kannski segja sem svo að þar hafi alþjóðavæðingin náð tæknilegri fullkomnun.

IMG_0149

Enn má sjá byggingar við Vogsfjörðin í Troms sem tilheyrðu steinasteypu til húsbygginga úr íslenskum eldfjallavikri fyrir N-Noreg. Engir steinar eru steyptir lengur í N-Noregi heldur er þar nú einungis birgðageymsla fyrir Leca steina sem koma sunnar úr Evrópu, verksmiðjan var keypt upp til þess eins að leggja hana niður. Leca er alþjóðlegt skrásett vörumerki sem býr til vikur úr leir með því að hita hann upp í 1.200 C°. Það má því seigja að markaðurinn hafi kæft íslensku eldfjöllin með því að skrásetja vörumerki og búa til staðla sem má stilla regluverkið eftir, það hefði verið erfiðara að staðla eldfjöllin og fá þau skráð sem vörumerki.

Tuborg í byggingu

Tuborg Djúpavogi byggt úr Mývatns vikursteini. Það þarf ekki mikið til að byrja á því að hlaða hús eftir að sökkull og gólfplata hafa verið steypt. Nokkrar spýtur til að setja upp eftir hallamáli á húshornin og strengja spotta á milli til að hlaða eftir í beinni línu, steina, sand, sement, vatn og litla steypuhrærivél. Glugga er hægt að steypa í jafnóðum eða setja í eftirá.

 

Tuborg I

Tuborg Djúpavogi 150 m2, útveggi svona húss tekur um vikutíma að hlaða fyrir tvær manneskjur. Viku tekur að múrhúða veggi að utan, mest vinna er í gluggum og þaki. Múrhúðin á þessu húsi er með hraunáferð. Mölin í hraunið var fengin úr næstu fjöru.

 

Flatarsel í byggingu

 Flatasel Egilsstöðum, byggt úr Mývatns vikursteini. Það tekur meiri tíma pr.m2 að hlaða tveggja hæða hús, en á einni hæð. Þar kemur hæðin til, sem útheimtir vinnupalla og aukið burðavirki. Í hverri hæð eru 12 raðir steina og er raunhæft að tveir menn hlaði 4 raðir á dag. Gólfplata á milli hæða var steypt og þak með kraftsperrum.

 

Flatarsel 4

Flatasel Egilsstöðum 190 m2, einangrað og múrhúðað að utan með ljósri kvarssteiningu. Einangrunin er úr plasti og límd með múrblöndu á veggi, 3-4 daga verk fyrir 2 múrara. Utanhússmúrverk og steiningin tekur u.þ.b. 2 vikur fyrir 4 múrara.

 

IMG_2738

Í N-Noregi kom fyrir að við hlóðum hús í janúarmánuði. Þá var notað heitt vatn og frostlögur í múrblönduna sem notuð var til að líma saman steinaraðirnar.

IMG_6736

Hábær 40 m2, fyrsta hús foreldra minna er enn á sínum stað sem bílskúrin að Bjarkarhlíð 5 á Egilsstöðum. Núna 55 árum eftir að húsið var byggt er múrhúðunin með sýnilegum múrskemmdum.

 

IMG_0070

 

Básar

Að endingu má segja frá því að ég kom út í Grímsey í sumar og gisti þar á Gistiheimilinu Básum, ágætu tveggja hæða húsi. Við samferðafólkið tókum eftir því að hátt var til lofts og vítt til veggja á neðri hæðinni, en þó svo að jafn vítt væri til veggja á þeirri efri þá var frekar lágt til lofts. Múrviðgerðir og málningarvinna stóðu yfir utanhúss og komu þær til tals við eigandann. Þá kom í ljós að afi hans hafði hlaðið þetta stóra hús úr Mývatnssteini árið 1960, flutt nákvæmlega þá steina sem til þurfti úr landi.

Húsbyggingin var það skemmtileg, og afinn það mikill ákafamaður að hann hlóð einni röð of mikið í neðri hæðina. Í stað þess að tefja verkið með því að brjóta ofauknu röðina niður eftir að hún uppgötvaðist, þá steypti hann gólfplötuna fyrir aðra hæðina og hélt áfram að hlaða úr þeim steinum sem eftir voru og lét það duga. Þar var komin skýringin á mismuninum á lofthæðinni milli hæða.

Ef einhver hefur í hyggju að hlaða sér upp húsi er rétt að hafa það í huga að stoppa á réttri röð þó svo að ákafinn sé mikill. Það er víst enn verið að grínast með húsbyggingagleði gamla mannsins út í Grímsey. Auk þess gæti verið að regluverkið sé orðið örlítið smámunasamara í dag þegar kemur að úttekt þess opinbera. Í Grímsey skipti þetta engu máli enda hefur húsið á Básum þjónað eigendum sínum hátt í 60 ár.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Sæll Magnús

Las þessa áhugaverðu grein þína.

Datt í hug að þú hefðir áhuga á að lesa þessa BA ritgerð mína um notkun vikurs í byggingum.   https://skemman.is/handle/1946/11680

Með kveðju

Jón Valur

Jón Valur Jónsson (IP-tala skráð) 3.11.2018 kl. 23:45

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk Jón Valur, fyrir þessa ábendingu. Ég sé strax á úrdrættinum að þarna er um mjög áhugaverða ritgerð er að ræða og á ég örugglega eftir að kynna mér hana til hlítar.

Þú segir í byrjun úrdráttar; "Ef eitt atriði hefur öðru fremur mótað sérstöðu íslenskrar byggingarlistar þá er það skortur á hentugum innlendum byggingarefnum til varanlegrar húsagerðar." Það má segja að þarna hittir þú naglann á höfuðið. En einnig má spyrja, hvaða byggingarefni henta íslenskri veðráttu.

Timburhúsin sem tóku við af torfbæjunum fengu þá íslensku lausn að verða klædd með bárujárni sem lengdi endingartíma þeirra. Meðferð bárujárns varð síðan að sér íslenskri byggingalist líkt og torfbæirnir. Ég hygg að landsmönnum hafi tekist best upp í húsagerð þegar þeir nota innlend hráefni, og hugvit þegar kemur að innfluttum efnum.

Veðrátta og náttúrufar landsins hefur þá sérstöðu að allt eyðist á mun skemmri tíma en víðast hvar í heiminum.

Magnús Sigurðsson, 4.11.2018 kl. 07:37

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Sæll Magnús. Góð grein og það er undarlegt hvað menn settu sig upp á móti múrsteinum en sem vesturbæingur þá fylgdist maður með framleiðslunni hjá Jóni Loftsyni en hann náði í vikurinn SA við Snæfellsjökul þar sem enn sjást stokkar sem hann notaði til að fleyta vikrinum niður undir þjóðveginn.

Afi konu minnar var einn af þessum gömlu sem hjuggu steina til í eskihlíðinni á veturna og byggði svo yfir sumartímann. Landspítalin er eitt af verkum eftir hann. 

Síðar þegar fjölskyldan stækkaði þá byggði hann 4ja íbúða íbúðarhús í Selásnum 2 hæðir með hálf sokknum kjallara. Húsið leit alveg eins út og Bessastaða stofan. 

Þegar ég var komin í gír með að byggja þak yfir höfuðið þá var komin svo mikill áróður á móti múrsteinshúsi að maður náði ekki að sanna að það yrði hentug aðferð svo hefðbundna var ofaná.

Eins og þú segir þá er þetta aðferð sem sparar mikinn kostnað vegna byggingatimburs þótt einhveð fari í þak en þessi aðferð leifir fólki að byggja á sínum hraða.

Það má alveg endurskoða þessa aðferð sértaklega einshæða hús þar sem landrými er fyrir hendi.

Greinin kom mér til að hugsa. Þarf að skoða ritgerð JV. 

 Kv v  

Valdimar Samúelsson, 4.11.2018 kl. 10:30

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

PS. Já þessi hleðslu hús voru allstaðar á vegi mans s.s. Afríku, Asíu mið Ameríku og há Perú mönnum en þeir sólþurrkuðu moldarsteina með grasi í sem mér þótti tilkomumikið.Þurftu ekki byggingarleyfi. Bara byggja.  Hér er nóg að heyi til að blanda í steypublöndu.

Valdimar Samúelsson, 4.11.2018 kl. 10:36

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Jón Valur, ég verð enn og aftur að þakka þér fyrir þessa góðu samantekt um vikur gosefnaiðnað. Þar kennir ýmissa grasa og margs sem mér var ekki kunnugt um.

Varðandi Mývatnssteininn þá var hann og er (að því sem ég best veit) enn þann dag í dag framleiddur af Léttsteypunni hf í Mývatnssveit. Sú steinasteypa var fyrrum staðsett skammt frá þeim stað sem hinn vinsæli ferðamannastaður Jarðböðin við Mývatn eru nú, og má sjá verksmiðjuhúsið frá þjóðvegi eitt.

Þegar við félagarnir byggðum vikursteina húsin 3 á Egilsstöðum árin 2006-7 þá fengum við steinana frá Léttsteypunni hf, en steinasteypan hafði þá verið flutt að Vogum niður við vatnið. Þessi hús gátum við boðið á um 10-15% hagstæðara verði en steinsteypt einingahús sem framleidd eru á Egilsstöðum

Eins og þú kemur inn á í samantekt þinni þá er talsvert til af vikursteinshúsum þó svo að margir telji þau ekki hafa enst vel. Þau hús sem veðurkápan á annað borð heppnaðist standa flest enn þann dag í dag án þess að fólk geri sér grein fyrir úr hverju þau eru byggð.

Magnús Sigurðsson, 4.11.2018 kl. 11:00

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Valdimar, gaman frétta af þessum fróðleik frá þér. Þú kemur inn á hversu sterkur áróður var rekinn gegn hlöðnum vikursteinahúsum og kannast ég vel við þær aðvaranir. Ef bernskuminningar mínar fara með rétt mál, þá var eitt hús sem var hlaðið úr vikursteini, skömmu eftir að foreldrar mínir hlóðu skúrinn á Egilsstöðum, rifið. Það var gert þegar húsið var á byggingastigi á þeim forsemdum að ekki væri um forsvaranlegt byggingarefni að ræða. En sagan sagði að þeir sem ættu hagsmuna að gæta í steypu hefðu haft öll ítök í byggingarnefnd hreppsins.

Það er ekki alveg nýtt að iðnaðurinn telji sig þurfa að hafa vit fyrir fólki þegar aurar eru annars vegar.

Þú kemur einnig inn á kostina sem hlaðið hús hefur fyrir húsbyggandann og ekki er síður athyglisvert hvað mörg hús þú nefnir til sögunnar. Því hefur nefnilega aldrei verið haldið á lofti hvað þessi hús eru mörg án teljandi vandræða. Sjálfur bjó ég í Reykjavík upp úr aldamótum og vann mikið niður í miðbæ. Eitt af þeim húsum sem ég vann við utanhússviðgerðir á var húsið Gimli í Lækjarbrekkunni, þetta með kastala útlitinu. Það hús er hlaðið 1905 og var mér sagt að það væri með fyrstu steinsteyptu járnbentu gólfplötunni á Íslandi, milli hæða. Í járnbendinguna voru m.a. notaðir járnbrautateinar úr járnbrautinni sem var notuð við að flytja grjót úr Öskjuhlíðinni í hafnagarða Reykjavíkurhafnar.

Á Egilsstöðum er fjöldi hlaðinna íbúðarhús. Í elsta hluta bæjarins eru þetta R-steins hús sem húsbyggendur steyptu jafnvel sjálfir á dauðum tíma að vetrinum. Eins eru til sögur af svaðilförum inn að Öskju við að sækja vikur og þá hvað bakleiðin gat verið þungfær ef það rigndi í vikur farminn. Þessi R-steins hús hafa reynst vel og er mér ekki kunnugt um nema eitt sem hefur verið rifið.

Magnús Sigurðsson, 4.11.2018 kl. 11:31

7 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka Magnús  Já þar sem ég minntist á Afa konu minnar en hann hét Filippus Guðmundsson Múrari en hann byggði mörg Stein höggin hlaðin hús. Eitt sem hann hlóð á þórsgötu cirk 40 upp á 3 hæðir kjallari og ris. Svona hús voru byggð á einu sumri og kláruð strax innréttuð og allt tilbúið til innflutnings. Þarna flytja þeir efnið umleið. Ég held að eitt barnabarnabarna hans sé að skrifa sögu hans en það verður gaman að sjá það en gamli sagði að þeir hefðu klárað allt á ári þ.e. höggva steininn, flytja og hlaða og strax við fyrstu hæð unnu menn við að innrétta og svo koll af kolli. Þetta eru sögur sem þarf að rifja upp. 

Já félagi minn byggði eitt en ég vissi það ekki fyrr en um viki síðan en hann sagði að allir hefðu haft þetta til foráttu en hann sagðist hafa hlaðið það sjálfur ein hæð. Það stendur enn og óskemmt.Þetta var æi kring um 1977.  

Valdimar Samúelsson, 5.11.2018 kl. 09:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband